Page 1

ÍSÍ

Fréttir

September 2015


Ávarp forseta Smáþjóðaleikarnir á Íslandi Íslensku íþróttafólki gafst frábært tækifæri til að keppa á alþjóðlegu móti hér á landi þegar Smáþjóðaleikarnir fóru fram 1.-6. júní sl. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands var framkvæmdaraðili leikanna. Alls náðu íslenskir íþróttamenn í 115 verðlaun á leikunum af 381. Af þeim voru 38 gullverðlaun, 46 silfur og 31 brons. Með frammistöðunni komst Ísland á ný í fyrsta sæti á verðlaunatöflu leikanna frá upphafi og trónir Ísland efst á lista, sama hvaða verðlauna horft er til. Að þessu hafði verið stefnt um nokkurt skeið og var sérstaklega ánægjulegt að ná þessum árangri hér á heimavelli. Smáþjóðaleikarnir tókust einnig frábærlega þegar litið er til annarra þátta en íþróttalegs árangurs. Það sem átti hvað stærstan þátt í góðu gengi var Laugardalurinn en aðstaða til mótahalds í Dalnum er frábært og gefur einstaka möguleika á að halda utan um leika sem þessa. Keppendur og þjálfarar gátu farið fótgangandi frá hóteli að keppnisstað í flestum tilfellum og litlar vegalengdir á milli keppnisstaða urðu til þess að þátttakendur fóru meira á milli keppnisstaða til að hvetja sitt fólk í öðrum íþróttagreinum en ella. Stemningin var ólýsanleg í Laugardalnum þá viku sem leikarnir stóðu yfir. Matur var framreiddur í Skautahöllinni og voru allir sammála um að sú tilhögun hafi tekist sérlega vel. Meira að segja voru veðurguðirnir með okkur í liði og var veður með besta móti flestalla dagana þó hitastigið hefði mátt vera aðeins hærra. Umgjörð leikanna var einnig til mikillar fyrirmyndar og var það mál manna að halda mætti að hér væri um mun stærri íþróttaviðburð að ræða. Uppsetning og auglýsingar á keppnissvæðum, klæðnaður sjálfboðaliða, klæðnaður þeirra sem stóðu að verðlaunaafhendingum, Ólympíueldurinn, skipulag á keppnisstöðum og allt annað viðmót sem mætti þeim sem á leikana komu, var af gæðum sem við erum mjög stolt af og skapaði heildaryfirbragð sem allar þátttökuþjóðirnar báru mikið lof á. Eiga þeir sem báru hitann og þungan af undirbúningi og framkvæmd leikanna miklar þakkir skyldar fyrir sitt frábæra starf.

Það var hins vegar ekki auðvelt að þurfa að keyra áfram lokaundirbúning stærsta einstaka viðburðar sem ÍSÍ hefur staðið fyrir, í algerri óvissu um hvort af honum yrði. Leikunum stóð ógn af yfirvofandi verkföllum í lok undirbúningstímans og var raunverulega möguleiki á að hætta þyrfti við leikana. Slík ákvörðun hefði haft gríðarlegar fjárhagslegar afleiðingar fyrir ÍSÍ og íþróttahreyfinguna. ÍSÍ stendur í mikilli þakkarskuld við forystu Verslunarmannafélags Reykjavíkur, aðildarfélaga Landssambands ísl. Verzlunarmanna, Flóabandalagsins og Samtaka atvinnulífsins fyrir að fresta verkfalli og hliðra til þannig að jafnvel þó til verkfalls kæmi gætu leikarnir farið fram. Hefðu þessir aðilar vinnumarkaðarins ekki sýnt íþróttahreyfingunni þennan skilning tæpri viku fyrir leika, tel ég mestar líkur á því að ekki hefði orðið af Smáþjóðaleikunum þar sem þátttökuþjóðirnar hefðu ekki verið tilbúnar að fara með um 1000 manns í óvissuferð til Íslands. ÍSÍ gæti ekki staðið fyrir leikum sem þessum án stuðnings og velvilja opinberra aðila og styrktaraðila. Ríki, Reykjavíkurborg, ÍBR, sérsambönd ÍSÍ og samstarfsaðilar komu myndarlega að leikunum með fjölbreyttum stuðningi og fyrir það erum við afar þakklát. Sjálfboðaliðar, sem voru um 1200 í allt, stóðu sig með eindæmum vel og var stórkostlegt að fylgjast með vinnuframlagi þeirra í undirbúningi og framkvæmd leikanna. Almenningur mætti vel á þá viðburði sem voru í boði og góð stemning skapaðist á áhorfendapöllunum. Smáþjóðaleikarnir 2015 skilja eftir margt gagnlegt, ekki síst mikla reynslu sem varð til við undirbúning og framkvæmd leikanna. Einnig vissu um að sérsambönd okkar eru vel í stakk búin að halda alþjóðleg mót. Þeir gáfu íþróttafólkinu okkar tækifæri til alþjóðlegrar keppni á heimavelli og komu landi og þjóð á framfæri við þá fjölmörgu þátttakendur og gesti er sóttu leikana. Síðast en ekki síst skildu leikarnir eftir sig góðar minningar um skemmtilega og lærdómsríka viku og frábæra íþróttaviðburði.


Uppskerutími Eftir viðburðarríkt sumar þar sem Smáþjóðaleikarnir stóðu upp úr í starfi Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, byrjar haustið af miklum krafti og hefur nú þegar fært okkur frækileg íþróttaafrek. Sum hver svo stór að þau munu seint gleymast. Í fyrsta skipti munum við eiga karlalandslið í úrslitakeppni Evrópumótsins í knattspyrnu sem fram fer í Frakklandi næsta sumar. Hingað til hefur kvennalandsliðið haldið uppi heiðri Íslands á þeim vettvangi en nú munum við einnig geta státað okkur af karlalandsliði á EM. Þetta íþróttaafrek hefur vakið athygli langt út fyrir landsteinana enda hefur svo fámenn þjóð aldrei fyrr komið liði sínu á slíkt stórmót í knattspyrnu. Karlalandsliðið í körfuknattleik tók í fyrsta sinn þátt í lokakeppni Evrópumótsins í körfuknattleik í Berlín og stóð sig með miklum sóma. Liðið sýndi feikilega baráttu í erfiðum riðli og náði að velgja andstæðingum sínum verulega undir uggum. Karlalandsliðið í handknattleik keppti í úrslitakeppni HM í Qatar í janúar sl. og mun taka þátt í úrslitakeppni EM í janúar á næsta ári og hafa Íslendingar þá tekið þátt í úrslitakeppni EM í þremur hópíþróttagreinum á nokkrum mánuðum. Ekki lítið afrek hjá lítilli þjóð! Þegar litið er til baka á þessi afrek þá gleymist heldur ekki þáttur áhorfenda sem hreinlega slógu í gegn á öllum leikjum. Stuðningsmenn körfuknattleiksliðsins á EM í Berlín vöktu gríðarlega athygli fyrir mikla gleði og þrautseigju í stúkunni og líklega mun enginn gleyma stemningunni á Laugardalsvellinum eftir jafnteflisleik Íslands og Kazakstan þegar ljóst varð að Ísland hefði náð takmarki sínu um þátttöku á EM. Samstaðan og stuðningurinn var beinlínis áþreifanlegur. Í einstaklingsíþróttum höfum við einnig verið að gera það gott en á síðustu mánuðum höfum við, meðal annars, eignast Evrópumeistara í kraftlyftingum og heimsmeistara unglinga í kraftlyftingum og skemmst er einnig að minnast frábærs árangurs sundlandsliðs okkar sem sló í gegn á HM í sundi með sannkölluðu metaregni. Glæsilegur árangur náðist einnig á HM íslenska hestsins í ágúst.

Ofangreind íþróttaafrek hafa vakið athygli heimsins á Íslandi og einnig vakið upp margar spurningar um hverju megi þakka þennan góða árangur. Rýnt hefur verið í aðstöðumál og þjálfaramenntun ásamt þjóðareinkennum í leit að skýringum. Við sem störfum í íþróttahreyfingunni teljum að margir þættir spili inn í og að ekkert einhlítt svar sé til. Aðstaða til íþróttaiðkunar er almennt mjög góð á landsvísu og ástundun t.d. í knattspyrnu er nú orðin möguleg allt árið í flestum landshlutum þó oft þurfi að aka umtalsverða vegalengd á æfingar. Þjálfaramenntun hérlendis er góð og áhersla ÍSÍ og sérsambanda á mikilvægi þjálfaramenntunar á öllum stigum þjálfunar fyrir alla aldurshópa, er án efa að skila sér í þessum góða árangri. Á Íslandi er einnig mikil áhersla lögð á þátttöku barna og unglinga í íþróttum og frístundastarfi enda liggja fyrir afgerandi niðurstöður rannsókna um að slík þátttaka viðhaldi heilbrigði líkama og sálar. Mér er efst í huga þakklæti til allra sem taka virkan þátt í uppbyggingu íþróttastarfs á Íslandi með einum eða öðrum hætti og þeirra sem gera að lífsstarfi sínu að hugsa um æsku og ungmenni landsins með uppbyggilegum hætti. Íþróttaafrekum fylgir byr í seglin, ekki bara hjá íþróttahreyfingunni heldur einnig allri þjóðinni sem hrífst með og fyllist stolti og bjartsýni gagnvart framtíðinni. Það er trú mín að árangur síðustu mánaða sé engin tilviljun heldur forsmekkur að enn frekari afrekum. Ég hlakka til að fylgjast með á hliðarlínunni og styðja okkar fólk. Það gerir öll þjóðin.

Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ


Smáþjóðaleikar

Iceland 2015 16. Smáþjóðaleikarnir fóru fram í Reykjavík 1.- 6. júní sl. Þátttakendur komu frá Andorra, Kýpur, Liechtenstein, Lúxemborg, Möltu, Mónakó, San Marínó og Svartfjallalandi ásamt Íslandi. Keppt var í ellefu íþróttagreinum á leikunum í ár, en það voru áhaldafimleikar, blak, borðtennis, frjálsíþróttir, golf, júdó, körfuknattleikur, skotíþróttir,

Íslenskt íþróttafólk var áberandi á leikunum, en Ísland tefldi fram 170 keppendum. Íslendingar unnu til 115 verðlauna, þar af voru 38 gull, 46 silfur og 31 brons. Íslendingar voru efstir á verðlaunatöflunni eftir leikana. Lúxemborg kom næst með 80 verðlaun, þar af 34 gull, 22 silfur og 24 brons. Kýpur endaði í þriðja sæti með 52 verðlaun. Íslendingar voru sigursælir á

sund, strandblak og tennis. Fimleikar og golf voru valgreinar á leikunum og var þetta í fyrsta skipti sem keppt var í golfi á Smáþjóðaleikum.

heimavelli og settu mörg Íslandsmet og mótsmet. Einnig náðist A-lágmark inn á Ólympíuleikana í sundi.

Laugardalurinn í hjarta Reykjavíkur var aðalvettvangur leikanna þar sem allar ofantaldar greinar nema tennis, golf og skotíþróttir fóru fram í mannvirkjum í dalnum. Keppni í þeim íþróttagreinum fór fram í Kópavogi, Grafarvogi og í Álfsnesi. Segja má að með öllum þeim glæsilegu mannvirkjum sem eru til staðar í Laugardalnum hafi leikarnir á Íslandi haft ákveðna sérstöðu þar sem hvergi meðal þátttökuþjóðanna er mögulegt að keppa í eins mörgum greinum á eins litlu svæði.

Smáþjóðaleikarnir 2015 voru samstarfsverkefni ÍSÍ, sérsambanda ÍSÍ, menntaog menningarmálaráðuneytis, Reykjavíkurborgar og Íþróttabandalags Reykjavíkur. Gullsamstarfsaðilar Smáþjóðaleikanna 2015 voru tíu talsins; Advania, Askja, Bílaleiga Akureyrar Europcar, Bláa Lónið, Eimskip, Icelandair Group, Íslandsbanki, Vífilfell, Vodafone og ZO•ON. Stuðningur þessarra aðila skipti sköpum fyrir framkvæmd leikanna, sem heppnuðust með eindæmum vel.

Um 2.500 manns komu að leikunum með einum eða öðrum hætti, þar af tæplega 800 keppendur. Um 35.000 áhorfendur mættu þessa fimm daga sem keppni fór fram.

Fleiri myndir má sjá á vefsíðu Smáþjóðaleikanna.


Evrópuleikar

Bakú 2015 Fyrstu álfuleikar Evrópu voru haldnir í Bakú í Azerbaijan 12.-28. júní sl. Í heildina tóku um 6.000 keppendur og 3.000 aðstoðarmenn þátt og keppt var í íþróttagreinum tuttugu alþjóðlegra sérsambanda. Alls var keppt í 31 íþróttagrein og þar af tuttugu og fimm ólympískum greinum. Í tólf greinum gátu keppendur tryggt sér keppnisrétt á Ólympíuleikunum í Ríó 2016, en alls eru keppnisgreinar leikanna 253. Ísland átti fulltrúa í níu íþróttagreinum, eða samtals nítján íþróttamenn. Keppnisgreinar Íslendinganna voru badminton, bogfimi, fimleikar, júdó, karate,

skotíþróttir, skylmingar, sund og taekwondo. Í heildina voru 35 í íslenska hópnum með fararstjórn, þjálfurum og öðru aðstoðarfólki, auk þess sem að forseti ÍSÍ, Lárus L. Blöndal, og framkvæmdastjóri ÍSÍ, Líney Rut Halldórsdóttir, voru viðstödd leikana. Fánaberi íslenska hópsins við setningarhátíðina var Thelma Rut Hermannsdóttir fimleikakona. Bestum árangri íslenskra keppenda náði Ásgeir Sigurgeirsson með fríbyssu af 50 metra færi. Ásgeir skaut sig inn í úrslit þar sem hann tryggði sér 5. sæti í keppninni. Hvergi var til sparað í umgjörð leikanna. Skipulag var til fyrirmyndar og mannvirkin sem keppt var í glæsileg.


Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar

Tbilisi 2015

Sumarólympíuhátíð Evrópuæskunnar (EYOF) fór fram í Tbilisi í Georgíu 26. júlí – 1. ágúst s.l. Ólympíuhátíðin fer fram annað hvert ár og var nú haldin í þrettánda sinn. Alls eru níu keppnisgreinar á hátíðinni og átti Ísland þar fimmtán íþróttamenn í fjórum íþróttagreinum; frjálsíþróttum, sundi, fimleikum og tennis. Að þessu sinni hélt hópurinn út nokkrum dögum fyrr til æfinga í Bosön í Svíþjóð og þar var lokahönd lögð á undirbúning. Í Bosön voru finnskir þátttakendur við æfingar á sama tíma,

en íslenski hópurinn ferðaðist síðan áfram til Tbilisi með finnskum og sænskum þátttakendum. Íslenska hópnum gekk ágætlega í keppni og stóðu keppendur þétt við bakið á hverjum öðrum. Aðstæður í Tbilisi voru hinar bestu en mikill hiti var meðan á leikunum stóð. Fánaberi íslenska hópsins á setningarathöfninni var Nanna Guðmundsdóttir keppandi í fimleikum. Við lokaathöfn leikanna var Þórdís Eva Steinsdóttir frjálsíþróttakona fánaberi. Næsta Sumarólympíuhátíð fer fram í Gyöd í Ungverjalandi sumarið 2017.


Ólympíuleikar

Ríó 2016 Ólympíuleikarnir 2016 fara fram í Ríó de Janeiro í Brasilíu dagana 5. - 21. ágúst. Rúmlega 10.500 keppendur munu etja kappi í 28 íþróttagreinum. Þann 5. ágúst sl. var eitt ár þar til Ólympíuleikarnir verða settir og var forseti Alþjóðaólympíunefndarinnar, Thomas Bach, af því tilefni á ströndinni í Ríó ásamt brasilískum ólympíuförum og öðru brasilísku íþróttafólki. Viðburðurinn vakti athygli og er augljóst að tilhlökkun íþróttafólks að taka þátt í leikunum er mikil. Síðar í ágúst fór fram undirbúningsfundur aðalfararstjóra vegna Ólympíuleikanna í Ríó. Hefð er fyrir því að ári fyrir Ólympíuleika sé haldinn fundur með fulltrúum allra þjóða þar sem mannvirki eru skoðuð og farið yfir þá fjölmörgu þætti sem snúa að leikunum, s.s. skráningarmál, þátttökurétt,

ferðatilhögun, gistimöguleika, öryggismál, miðasölu, dagskrá og margt fleira. Fulltrúar ÍSÍ á fundinum voru þau Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ, og Andri Stefánsson, sviðsstjóri Afreks- og Ólympíusviðs ÍSÍ. Ólympíuþorpið í Ríó verður hið glæsilegasta og er að stórum hluta tilbúið. Keppnismannvirki eru mörg hver klár, en þó er töluverð vinna eftir á aðal Ólympíusvæðinu. Ólíkt því sem hefur tíðkast á mörgum Ólympíuleikum verður keppnisvöllur frjálsíþrótta, svokallaður Ólympíuleikvangur, ekki á sjálfu Ólympíusvæðinu. Setningar- og lokahátíð fara ekki fram á Ólympíuleikvanginum heldur á hinum glæsilega Maracana knattspyrnuleikvangi, en mynd af Andra og Líneyju á leikvanginum má sjá hér fyrir neðan.


Íslendingar á Ólympíuleikum

1908-2016

Fjórir íslenskir íþróttamenn hafa náð lágmarki á Ólympíuleikana í Ríó 2016. Eygló Ósk Gústafsdóttir, sundkona, varð fyrst íslenskra íþróttamanna til að ná A-lágmarki en það gerði hún í 200m baksundi á opna danska meistaramótinu í mars sl. Þá setti hún einnig Norðurlandamet. Eygló náði síðan A-lágmarki í 100m baksundi á HM í Rússlandi í ágúst sl. Ásdís Hjálmsdóttir, spjótkastari, var næst til að tryggja sig inn á leikana. Það gerði hún með kasti upp á 62,14m. á móti í Ríga í Lettlandi í maí sl. Lágmarkið í spjótkasti kvenna er 62m. Hrafnhildur Lúthersdóttir, sundkona, náði tveimur A-lágmörkum á leikana á Smáþjóðaleikunum í júní sl., í 200m fjórsundi og 200m bringusundi. Auk þess hefur hún einnig náð A-lágmarki í 100m bringusundi en það gerði hún á HM í Rússlandi í ágúst sl. Hún hefur einnig náð B-lágmarki í 400m fjórsundi. Anton Sveinn Mckee, sundmaður, náði A-lágmarki á leikana í ágúst sl. þegar að hann setti Íslandsmet í 100m bringusundi á HM í Rússlandi. Þar náði hann einnig A-lágmarki í 200m bringusundi. Íslendingar tóku fyrst þátt á Ólympíuleikunum í London 1908 og síðan í Stokkhólmi 1912. Árið 1920 tók einn Íslendingur þátt en keppti fyrir Danmörku þar sem hann stundaði nám.

Ísland tók ekki þátt í Ólympíuleikum 1924, 1928 og 1932 vegna slæms efnahagsástands. Síðan 1936 hafa Íslendingar tekið þátt í öllum leikum nema á vetrarleikunum í Sapparo í Japan 1972. Fjórum sinnum hafa Íslendingar staðið á verðlaunapalli á Ólympíuleikum. Fyrstur Íslendinga til að vinna til verðlauna á Ólympíuleikum var Vilhjálmur Einarsson silfurverðlaunahafi í þrístökki í Melbourne árið 1956. Á leikunum í Los Angeles árið 1984 vann Bjarni Friðriksson bronsverðlaun í -95kg. flokki í júdó. Fyrsta og eina íslenska konan til að vinna til verðlauna á Ólympíuleikum er Vala Flosadóttir. Vala hlaut bronsverðlaun í stangarstökki á Ólympíuleikunum í Sydney 2000. Ísland hlaut síðan silfurverðlaun í handknattleik karla á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008. Gaman verður að fylgjast með íslensku íþróttafólki á Ólympíuleikunum í Ríó og vonandi munu Íslendingar eiga íþróttamann á verðlaunapalli.


Íþróttavika Evrópu 2015

#BeActive Evrópusambandið hefur hrundið af stað nýju verkefni sem kallast Íþróttavika Evrópu. Markmiðið með vikunni er að kynna íþróttir og hreyfingu um alla Evrópu og sporna við auknu hreyfingarleysi meðal almennings. Slagorð vikunnar er "BeActive" eða „Vertu virkur“ og með því er verið að hvetja alla Evrópubúa til að hreyfa sig án tillits til aldurs, bakgrunns eða líkamlegs forms. Þessi vika á að stuðla að því að einstaklingar, stjórnvöld, íþróttahreyfingin, almenningur og fleiri standi saman í því að auka þátttöku almennings í íþróttum og hreyfingu. Fyrsta Íþróttavika Evrópu var haldin 7.–13. september 2015 og var sett í Brussel. Myllumerkið #BeActive er slagorð Íþróttaviku Evrópu. Slagorðinu er ætlað að opna augu almennings fyrir mikilvægi hreyfingar, að breiða út boðskapinn og fá alla Evrópubúa til að hreyfa sig. ÍSÍ hvetur fólk til að nota myllumerkið í tengslum við vikuna ár hvert. Leiðarljós vikunnar eru þrjú: að upplýsa, þ.e. að vekja athygli á jákvæðum áhrifum heilbrigðs lífsstíls, að hvetja, þ.e. að sýna fólki hvernig hægt er að hreyfa sig og tileinka sér heilbrigðan lífsstíl og að aðstoða, þ.e. að skapa tækifæri fyrir fólk til að hreyfa sig og vera virkt í hröðu umhverfi nútímans.

Hvetja Upplýsa

Aðstoða

Íþróttavika Evrópu er skipulögð í kringum fjóra aðal daga þar sem hver og einn er tileinkaður: Menntun, vinnustöðum, útiveru og líkamsræktarstöðvum. Þessir staðir bjóða upp á aðstæður þar sem fólk á öllum aldri, með ólíkan bakgrunn og í mis góðu líkamlegu formi getur stundað íþróttir og hreyfingu, þannig að virkni verði hluti af þeirra lífi. Allan septembermánuð fóru hinir ýmsu viðburðir í tengslum við vikuna fram um alla Evrópu. Íþróttaog Ólympíusamband Íslands hlaut styrk frá Evrópusambandinu í gegnum Erasmus+ styrkjakerfi þeirra til verkefna sem tengdust vikunni. Þau verkefni ÍSÍ sem tengjast Íþróttaviku Evrópu að þessu sinni eru Göngum í skólann 2015, Hjólum í skólann 2015 og Norræna skólahlaupið. Öll þessi verkefni miða að því að fá börn og ungmenni til að hreyfa sig, ásamt því að hvetja til aukinnar meðvitundar um mikilvægi hreyfingar í daglegu lífi. Verkefnin hafa lengi verið á forræði ÍSÍ en með því að tengja þau Íþróttaviku Evrópu skapast svigrúm til að bæta verkefnin enn frekar, bæði í kynningu og framkvæmd. Nánari upplýsingar um Íþróttaviku Evrópu er að finna á heimasíðu Evrópusambandsins ec.europa.eu/sport/week


Norræna skólahlaupið

Norræna skólahlaupið var sett í blíðskaparveðri í Sunnulækjarskóla á Selfossi þann 4. september. Norræna skólahlaupið er árlegt verkefni sem grunnskólum á Norðurlöndunum býðst að taka þátt í. Hlaupið var fyrst haldið árið 1984.

áfram í hlaupinu hljóp Blossi sjálfur dágóðan spöl. Fulltrúar frá Mjólkursamsölunni voru á svæðinu og gáfu krökkunum ískalda mjólk í lok hlaupsins. Hlaupið var mjög vel skipulagt af skólans hálfu og tóku um 600 grunnskólanemendur þátt.

Birgir Edwald, skólastjóri Sunnulækjarskóla, tók á móti Líneyju Rut Halldórsdóttur, framkvæmdastjóra ÍSÍ og starfsfólki ÍSÍ við skólann. Líney Rut sagði nokkur orð um Norræna skólahlaupið og ræsti síðan hlaupið. Krakkarnir voru greinilega spenntir fyrir viðburðinum og mikil stemmning ríkti við rásmarkið.

Markmiðið með Norræna skólahlaupinu er að hvetja nemendur til að hreyfa sig reglulega og stuðla þannig að betri heilsu og vellíðan. Árlega taka 10.000-12.000 grunnskólanemendur frá um 40 skólum á Íslandi þátt í hlaupinu og hlaupa til samans 30 hringi í kringum landið, en hægt er að velja um þrjár vegalengdir 2,5, 5 og 10 kílómetra. Í ár tengist hlaupið Íþróttaviku Evrópu, verkefni sem Evrópusambandið hefur nýlega hrundið af stað.

Blossi, lukkudýr Smáþjóðaleikanna, var á staðnum og vakti mikla kátínu. Auk þess að hvetja krakkana

Göngum í skólann 2015 Göngum í skólann hófst þann 9. september og stendur til 7. október. Markmið verkefnisins eru að hvetja börn til að tileinka sér virkan ferðamáta í og úr skóla og auka færni þeirra til að ferðast á öruggan hátt í umferðinni. Ein einfaldasta leiðin til að auka hreyfingu í daglegu lífi er að velja virkan ferðamáta, svo sem göngu, hjólreiðar, hlaup, línuskauta og hjólabretti. Ávinningurinn er ekki aðeins bundinn við andlega og líkamlega vellíðan heldur er þetta einnig umhverfisvæn og hagkvæm leið til að komast á milli staða. Á síðasta ári tóku milljónir barna frá yfir 40 löndum víðs vegar um heiminn þátt í Göngum í skólann með einum eða öðrum hætti. Hefur þátttakan hér á landi vaxið jafnt og þétt í gegnum árin. Vefsíða Göngum í skólann er www.gongumiskolann.is

Hjólum í skólann 2015 Hjólum í skólann – framhaldsskólakeppni fór fram í þriðja sinn dagana 9.-22. september. Markmiðið er að vekja athygli á virkum ferðamáta sem heilsusamlegum, umhverfisvænum og hagkvæmum samgöngumáta. Vefsíðan verkefnisins er www.hjolumiskolann.is


Hjólað í vinnuna 2015

Frá árinu 2003 hefur Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands staðið að því að efla hreyfingu og starfsanda á vinnustöðum með heilsu- og hvatningarverkefninu „Hjólað í vinnuna“. Megin markmið verkefnisins er að vekja athygli á virkum ferðamáta sem heilsusamlegum, umhverfisvænum og hagkvæmum samgöngumáta. Þátttakendur eru hvattir til þess að hjóla, ganga, hlaupa eða nýta almenningssamgöngur til og frá vinnu í maí ár hvert. Starfsfólk vinnustaða hér á landi hafa tekið vel við sér því þátttakan hefur margfaldast síðan að verkefnið fór af stað. Í ár voru alls 470 vinnustaðir sem skráðu 1089 lið til leiks með 6824 liðsmenn. 417 lið skráðu sig til leiks í kílómetrakeppnina. Alls voru hjólaðir 463.582 km eða 346,21 hringir í kringum landið. Við það spöruðust tæp 78.000 tonn af útblæstri CO2, og rúmlega 43.000 lítrar af eldsneyti sem gera sparnað upp á tæpar 10 milljónir króna. Brenndar voru um 29,5 milljónir kaloría sé þessi vegalengd gengin en 16,7 milljónir kaloría sé

þessi vegalengd hjóluð, sé miðað við 80 kg mann sem ekur á fólksbíl. Ferðamáti var í 86,7% á hjóli, 7,9% gangandi, 4,2% strætó/gengið og 0,6% hlaup. Verðlaunaafhending Hjólað í vinnuna fór fram 28. maí í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Veitt voru verðlaun fyrir hlutfall daga, heildarfjölda kílómetra og hlutfall kílómetra. Verðlaunahafa má sjá á vefsíðu Hjólað í vinnuna www.hjoladivinnuna.is ÍSÍ þakkar fyrir þátttökuna í ár og vonar að þátttakendur hafi haft gaman af og haldi áfram að hjóla.

Nýr bæklingur um íþróttir barna og unglinga Út er kominn nýr bæklingur um íþróttir barna og unglinga og ber hann heitið Íþróttir – barnsins vegna. Á Íþróttaþingi í apríl 2015 var endurskoðuð stefna um íþróttir barna og unglinga samþykkt og hefur innihald stefnunnar tekið nokkrum breytingum. Mikil áhersla er lögð á að íþróttir eigi að vera fyrir alla, þær þurfi að vera skemmtilegar og leikurinn skipi stóran sess. Bæklinginn má finna á vefsíðu ÍSÍ og í prentaðri útgáfu á skrifstofu ÍSÍ.

Barna- og unglingastefnunni til stuðnings hafa Íþróttaboðorðin 10 verið mörkuð, en þau eru: 1. Íþróttir fyrir öll börn 2. Íþróttir byggi upp öfluga einstaklinga 3. Virðum skoðanir barna og unglinga 4. Fjölbreytt íþróttastarf 5. Þjálfun hæfi aldri og þroska 6. Íþróttakeppni með tilliti til aldurs og þroska 7. Íþróttaaðstaða við hæfi 8. Fagmenntaðir þjálfarar 9. Stuðningur foreldra skiptir máli 10. Virðum störf dómara og starfsmanna


Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ 2015 Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ fór fram í 26. sinn þann 13. júní. Markmið Kvennahlaupsins hefur frá upphafi verið að vekja áhuga kvenna á reglulegri hreyfingu. Hver kona tekur þátt á sínum forsendum og lögð er áhersla á að allar konur komi í mark á sínum hraða og með bros á vör. Góð þátttaka var í hlaupinu en gera má ráð fyrir að um 14.000 konur hafi tekið þátt á yfir 80 stöðum út um allt land og á um 16 stöðum í 10 löndum. Í kringum 4.000 konur hlupu í Garðabænum, 1.600 í Mosfellsbæ, 300 á Akureyri og um 500 konur hlupu í Reykjanesbæ. Að vanda var boðið upp á mismunandi vegalengdir eða allt frá 2 km upp í 10 km. Mikil og góð stemning var hjá þátttakendum þar sem ömmur, mömmur, dætur og vinkonur hreyfðu sig og skemmtu sér saman. Það skemmtilega við Kvennahlaupið er að þar koma saman konur á öllum aldri og algengt er að margir ættliðir, vinkonur eða systur fari saman í hlaupið.

Að þessu sinni var Sigurlaug Gísladóttir elsti þátttakandinn en hún tók þátt í hlaupinu í Garðabæ. Sigurlaug er fædd árið 1921 og er því 94 ára gömul. Sigurlaug fékk grip sem ÍSÍ og Stjarnan gáfu til minningar um Lovísu Einarsdóttir, íþróttakennara og upphafskonu Kvennahlaupsins. Öldrunarheimili víðsvegar um land buðu sínu heimilisfólki að taka þátt í Kvennahlaupinu. Mikil gleði er meðal heimilisfólks með þetta framtak og mikið var lagt í að virkja alla til þátttöku. Karlmennirnir hafa þá gjarnan tekið á móti konunum og veitt þeim verðlaunapeninga. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands þakkar konum fyrir þátttökuna í ár sem og síðustu 25 ár. Hér má sjá vefsíðu Sjóvá Kvennahlaups ÍSÍ.


Fjarnám í þjálfaramenntun Sumarfjarnámi 1. og 2. stigs í þjálfaramenntun ÍSÍ lauk í ágúst sl. Um er að ræða almennan hluta námsins sem gildir jafnt fyrir allar íþróttagreinar. Um 40 nemendur sem búsettir eru víða um land tóku þátt í sumarfjarnáminu að þessu sinni. Nemendur komu frá fjölmörgum íþróttagreinum og voru á öllum aldri. Haustfjarnám 1. og 2. stigs hófst 28. september sl. Inntökuskilyrði á 1. stig er grunnskólapróf og til þátttöku á 2. stigi þurfa nemendur að hafa lokið 1. stigi almenns hluta og auk þess

að hafa þjálfað í 6 mánuði. Einnig þurfa nemendur að hafa gilt skyndihjálparnámskeið. Allar nánari upplýsingar um þjálfaramenntun ÍSÍ gefur Viðar Sigurjónsson á vidar@isi.is og/ eða í síma 460-1467. Einnig má fræðast um verkefnið á vefsíðu ÍSÍ.

Fyrirmyndarfélag ÍSÍ Fjölmörg fyrirmyndarfélög ÍSÍ eru að endurnýja viðurkenningar sínar sem fyrirmyndarfélög þessi misserin. Auk þess eru mörg félög að vinna að því að fá nýútskrift. Allar upplýsingar um verkefnið gefur Viðar Sigurjónsson, skrifstofustjóri ÍSÍ á Akureyri á vidar@isi.is og/eða í síma 460-1467. Einnig má fræðast um verkefnið á vefsíðu ÍSÍ.

Fyrirmyndarhérað ÍSÍ 72. Íþróttaþing ÍSÍ sem haldið var sl. vor samþykkti tillögu þess efnis að íþróttahéruð ÍSÍ geti nú sótt um viðurkenningu fyrir gæðastarf til ÍSÍ. Þar með er opið fyrir umsóknir íþróttahéraða þessa efnis. Hér er byggt á sömu hugmyndafræði og í verkefninu um fyrirmyndarfélög ÍSÍ. ÍSÍ býður upp á kynningar

á þessu verkefni í íþróttahéruðunum ef þess er óskað. Nú þegar eru þó nokkur íþróttahéruð komin af stað í þessari vinnu. Allar upplýsingar um verkefnið gefur Viðar Sigurjónsson skrifstofustjóri ÍSÍ á Akureyri á vidar@isi.is og/eða í síma 460-1467.

Vetrarólympíuleikar ungmenna Vetrarólympíuleikar ungmenna fara fram í Lillehammer í Noregi 12. – 21. febrúar 2016. Alls munu um 1.100 ungmenni á aldrinum 15-18 ára frá 70 löndum etja kappi. Vetrarleikarnir eru nú haldnir í annað sinn, en fyrstu leikarnir fóru fram í Innsbruck árið 2012. Líkt og í Innsbruck eigum við þess kost að senda keppendur í skíðagöngu og alpagreinar. Á Ólympíuleikum ungmenna er mikil áhersla lögð á félagslega viðburði utan keppni og töluverð dagskrá er í boði.

Á leikunum býðst Íslandi að senda ungan sendiherra með hópnum. Viðkomandi mun vera tengiliður milli mótshaldara og fararstjórnar þegar kemur að félagslegum viðburðum og stýrir og leiðbeinir okkar þátttakendum í þeirri dagskrá. Frændur okkar Norðmenn búa vel að þeim mannvirkjum sem notuð voru þegar Vetrarólympíuleikar voru haldnir þar árið 1994 og má eflaust búast við frábærum leikum.


Lyfjaeftirlit ÍSÍ Lyfjaeftirlits ÍSÍ sér um framkvæmd lyfjaeftirlits meðal íþróttafólks á Íslandi. Lyfjaeftirlitsnefndin starfar samkvæmt reglum Alþjóða lyfjaeftirlitsstofnunarinnar, WADA. Hlutverk WADA er að efla og samræma lyfjaeftirlit í heiminum sem og að fylgjast með framkvæmd lyfjaeftirlits og baráttunni gegn lyfjamisnotkun í allri sinni mynd, um allan heim.

fæðubótarefni og fleira. Fyrirlesturinn var hluti af dagskrá æfingabúða LSÍ sem stóðu yfir eina helgi.

Lyfjaeftirlit ÍSÍ hélt í ágúst sl. fyrirlestur fyrir landsliðshóp og unglingahóp Lyftingasambands Íslands í húsakynnum Sporthússins í Reykjanesbæ. Birgir Sverrisson, starfmaður lyfjaeftirlitsins, fór þar yfir helstu þætti lyfjaeftirlits á Íslandi, alþjóðlegs samstarfs, undanþágur fyrir notkun lyfja ásamt því að ræða við íþróttafólkið um

Þann 1. janúar 2015 tóku gildi ný Lög ÍSÍ um lyfjamál. Lögin eru í samræmi við uppfærðar Alþjóða lyfjareglur sem tóku gildi á sama tíma. Breytingarnar voru staðfestar á 72. Íþróttaþingi ÍSÍ. Lögin má sjá á vefsíðu ÍSÍ. Vefsíða WADA er wada-ama.org, en þar má nálgast mikinn fróðleik um lyfjaeftirlit.

Alþjóðaleikar Special Olympics 2015 Alþjóðaleikar Special Olympics fóru fram í Los Angeles í Bandaríkjunum dagana 25. júlí – 3. ágúst sl. Leikarnir fara fram fjórða hvert ár. Keppendur á Alþjóðleikum Special Olympics eru íþróttaiðkendur með þroskahamlanir. Á Special Olympics leikum er þátttakan aðalatriðið, allir keppa við jafningja og allir eiga sömu möguleika á verðlaunum. Hugmyndafræðin byggir á gildi umburðarlyndis og jafnræðis þar sem áhersla er á að virkja þátttöku, ánægju, einstaklingsmiðaða færni og ekki síst vináttu. Árið 2003 fóru leikarnir í fyrsta skipti fram utan Bandaríkjanna en þá fóru þeir fram í Írlandi, árið 2007 í Kína og árið 2011 í Aþenu í Grikklandi. Alþjóðasamtök Special Olympics hafa náð gífurlegri útbreiðslu og nú eru um fjórar milljónir iðkenda um heim allan. Á leikunum í Los Angeles 2015 tóku 7000 keppendur þátt frá 177 þjóðum, 3.500 starfsmenn íþróttagreina auk 30.000 sjálfboðaliða, aðstandenda, gesta, fjölmiðlafulltrúa og áhorfenda. Keppt var í 25 íþróttagreinum og tóku Íslendingar þátt í níu þeirra. Íslensku þátttakendurnir stóðu sig allir með

sóma á leikunum en allur undirbúningur íslensku keppendanna var á herðum Íþróttasambands fatlaðra, sem er æðsti aðili íþrótta fyrir fatlaða á Íslandi. Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ var heiðursgestur við setningu leikanna ásamt Eygló Harðardóttur félagsog húsnæðismálaráðherra og Helgu Steinunni Guðmundsdóttur varaforseta ÍSÍ. Helga Steinunn var einnig fulltrúi Samherja á leikunum, en Samherji er aðalstyrktaraðili Special Olympics á Íslandi ásamt Íslandsbanka.


Málþing um geðheilsu íþróttafólks Þann 9. september héldu ÍSÍ, KSÍ og HR málþing um andlega líðan íþróttamanna. Húsfyllir var á málþinginu og greinilegt að umræða um þetta málefni er þörf og þá möguleg úrræði. Hafrún Kristjánsdóttir sálfræðingur og sviðsstjóri Íþróttafræðasviðs HR tók fyrst til máls en hún fjallaði um geðrænan vanda og algengi hans hjá íþróttamönnum. Hafrún kynnti einnig niðurstöður rannsóknar Margrétar Láru Viðarsdóttur íþróttafræðings sem unnin var við Íþróttafræðasvið HR. Samkvæmt niðurstöðum úr rannsóknum Margrétar Láru er kvíði meiri hjá íslenskum atvinnumönnum í boltagreinum en hjá almenningi á sama aldri. Sagði Hafrún að hugsanlegar skýringar á því væru að margir streituvaldandi þættir væru í umhverfi íþróttamannsins og nefndi m.a. væntingar um frammistöðu og pressu frá félagi, fjölmiðlum og styrktaraðilum. Íþróttakonur eru mun líklegri til að þjást af andlegum kvillum en karlar. Hafrún nefndi einnig að þekking og úrræði við andlegum kvillum væru lítil innan íþróttahreyfingarinnar á meðan að úrræði við líkamlegum kvillum væru mjög þekkt. Næstur á mælendaskrá var Sævar Ólafsson íþróttafræðingur með erindið sitt ,,Íþróttaiðkun í mótvindi og svartnætti“. Í erindinu kynnti hann

niðurstöður úr lokaverkefni sínu við Íþróttasvið HR og sagði frá glímu sinni við þunglyndi samhliða knattspyrnuiðkun. Í verkefninu tók hann viðtöl við þrjá íþróttamenn og tvo stjórnarmenn í íþróttafélagi en íþróttamennirnir höfðu allir glímt við þunglyndi og kvíða. Að lokum sagði Ingólfur Sigurðsson knattspyrnumaður frá glímu sinni við geðræna erfiðleika en eftir að hann steig fram með sinn vanda þá hafa margir knattspyrnumenn sagt frá sinni glímu. Góðar umræður sköpuðust að erindunum loknum. Málþingið var tekið upp og verður aðgengilegt á vefsíðu ÍSÍ, www.isi.is

Líney Rut sæmd riddarakrossi Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri ÍSÍ var þann 17. júní sl. sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu af forseta Íslands, herra Ólafi Ragnari Grímssyni, á Bessastöðum. Líney Rut hlaut riddarakrossinn fyrir störf sín í þágu íþróttahreyfingarinnar en hún hefur verið brautryðjandi í störfum sínum fyrir hreyfinguna um langt árabil og hlotið fyrir þau störf viðurkenningar hér á landi sem og alþjóðlega.


Ólympíudagar í Laugardalnum Í ár var haldið upp á Alþjóðlega Ólympíudaginn samhliða Smáþjóðaleikunum. Ólympíudagurinn er haldinn ár hvert í tilefni af stofnun Alþjóðaólympíunefndarinnar 23. júní árið 1894. Ólympíudagurinn er ætlaður öllum óháð íþróttalegri getu. Meginþemu í tengslum við daginn eru þrjú: Hreyfa, læra og uppgötva.

átti að hvetja keppendur í sundi. Myndaðist skemmtileg stemning í lauginni fyrir vikið.

Rúmlega 1800 grunnskólabörn á aldrinum 6 til 16 ára komu í Laugardalinn í vikunni sem leikarnir stóðu yfir og stóð þeim til boða að horfa á keppni í sundi, borðtennis og skotíþróttum ásamt því að prófa sig áfram í frjálsíþróttum, knattspyrnu, keilu, glímu og skylmingum. Einnig var boðið upp á fræðslu um Smáþjóðaleika og Ólympíudaginn. Þátttakendur voru frá skólum í Reykjavík, Kópavogi, Garðabæ og af Reykjanesinu. Skólar sendu þátttakendur frá allt að einum bekki upp í allan skólann.

Börnin voru dugleg að taka myndir af sér við eldstæði leikanna og með Blossa lukkudýri. Ánægjulegt var að sjá að allir gátu fundið eitthvað við sitt hæfi í dalnum. Fjölbreytni íþróttastöðvanna vakti ánægju þátttakenda og höfðu kennarar á orði hvað krakkarnir hefðu notið þess að fá kynningu og kennslu í íþróttagreinum sem þau þekktu lítið til. Kennarar voru duglegir að leggja sitt að mörkum og tóku sumir virkan þátt í stöðvunum.

Þátttakendur frá þeim skólum sem eru staðsettir í nágrenni Laugardalsins gátu nýtt sér að vera aðeins lengur í Laugardalnum og fyrir vikið gátu þeir séð fyrstu leikina í strandblakinu.

Mjög vinsælt var að byrja daginn í sundlauginni og fylgjast með undanrásum í sundi. Þar fór sundlandslið Íslands fremst í flokki og kenndi krökkunum hvernig

Þetta verkefni var framlag ÍSÍ til Ólympíudagsins og fengu allir þátttakendur viðurkenningarskjal fyrir þátttökuna.

Þess má einnig geta að nokkrir grunnskólar ákváðu að halda sína eigin Smáþjóðaleika í skólanum. Þar á meðal var grunnskólinn á Hvolsvelli sem bauð Blossa í heimsókn við loka daginn.


Íþróttaþing ÍSÍ Íþróttaþing ÍSÍ er æðsti vettvangur íslenskrar íþróttahreyfingar. 72. Íþróttaþing ÍSÍ var haldið í Gullhömrum í Reykjavík 17. og 18. apríl sl. Til þingsins voru mættir vel á annað hundrað þingfulltrúar af öllu landinu. Setningarathöfn þingsins var með hefðbundnum hætti þar sem forseti ÍSÍ, Lárus L. Blöndal, flutti setningarávarp og minntist þar sérstaklega látinna félaga. Þingforseti var Ragnheiður Ríkharðsdóttir og 2. þingforseti var Steinn Halldórsson. Stýrðu þau þinginu af mikilli röggsemi. Mennta- og menningarmálaráðherra Illugi Gunnarsson, formaður UMFÍ, Helga Guðrún Guðjónsdóttir og Vilhjálmur Einarsson heiðursfélagi ÍSÍ fluttu ávörp. Fyrir þinginu lá tillaga um kosningu fjögurra nýrra Heiðursfélaga ÍSÍ, en sú heiðursnafnbót er æðsta viðurkenning innan vébanda ÍSÍ. Nýir Heiðursfélagar ÍSÍ eru Benedikt Geirsson fyrrverandi formaður Skíðasambands Íslands, Jens Kristmannsson íþróttaleiðtogi frá Ísafirði, Margrét Bjarnadóttir fyrrverandi formaður Fimleikasambands Íslands og Reynir Ragnarsson fyrrverandi formaður ÍBR. Öll hafa þau starfað í íþróttahreyfingunni frá unga aldri og sinnt forystustörfum á ýmsum vettvangi innan hreyfingarinnar um áratuga skeið. Framlag þeirra til íþrótta í landinu verður seint metið til fulls. Í samræmi við lög ÍSÍ voru fulltrúar íþróttamanna kosnir á þingið en það voru þau Sara Högnadóttir badmintonkona, Sigurður Már Atlason dansíþróttamaður, Tryggvi Þór Einarsson skíðamaður og Þórdís Ylfa Viðarsdóttir skylmingakona. Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ, kynnti skýrslu framkvæmdastjórnar og Gunnar Bragason,

Heiðurshöll ÍSÍ Á 72. Íþróttaþingi ÍSÍ, var útnefnt í Heiðurshöll ÍSÍ í tíunda og ellefta sinn. Gunnar A. Huseby frjálsíþróttamaður og Torfi Bryngeirsson frjálsíþróttamaður voru útnefndir í Heiðurshöllina. Gunnar og Torfi voru báðir framúrskarandi íþróttamenn. Gunnar eignaðist ekki afkomendur en Jökull Jörgensen, barnabarn hálfsystur Gunnars veitti viðurkenningunni viðtöku ásamt fleiri ættingjum Gunnars. Ættingjar Torfa veittu viðurkenningunni viðtöku en fyrir hópnum fór sonur hans, Guðmundur Torfason.

gjaldkeri ÍSÍ, kynnti endurskoðaða reikninga. Reikningar sambandsins voru samþykktir án umræðu. Fyrir þinginu lágu 31 tillaga um ýmis mál er varða málefni íþróttahreyfingarinnar. Þingforseti kynnti þær tillögur sem lágu fyrir þinginu en nefndarstörf fóru fram í fundarsölum í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal um kvöldið. Á laugardeginum var þingstörfum framhaldið og þá fóru einnig fram kosningar til forseta og framkvæmdastjórnar ÍSÍ. Breytingar voru gerðar á lögum ÍSÍ og Lögum ÍSÍ um lyfjamál. Samþykktar tillögur og staðfest lög ÍSÍ er að finna á heimasíðu ÍSÍ. Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ var einn í framboði í kjöri til forseta ÍSÍ og var einróma endurkjörinn til næstu tveggja ára með dynjandi lófaklappi. Í framkvæmdastjórn voru eftirtaldir kjörnir: Garðar Svansson, Guðmundur Ágúst Ingvarsson, Gunnar Bragason, Gunnlaugur A. Júlíusson, Hafsteinn Pálsson, Helga Steinunn Guðmundsdóttir, Ingi Þór Ágústsson, Ingibjörg Bergrós Jóhannesdóttir, Sigríður Jónsdóttir og Örn Andrésson. Í varastjórn voru kjörin: Jón Finnbogason, Lilja Sigurðardóttir og Þórey Edda Elísdóttir. Friðrik Einarsson og Jón Gestur Viggósson gáfu ekki kost á sér til endurkjörs. Þeir voru báðir heiðraðir í lok þings með Gullmerki ÍSÍ fyrir störf sín í þágu íþróttahreyfingarinnar. Þá var einnig útnefnt í Heiðurshöll ÍSÍ. Heiðurshöll ÍSÍ var stofnuð þann 28. janúar 2012 í tilefni af 100 ára afmæli ÍSÍ. Sjá má Heiðurshöll ÍSÍ á vefsíðu ÍSÍ.


Samfélagsmiðlar ÍSÍ Heimasíða: www.isi.is Fésbók: Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands – ÍSÍ Instagram: isiiceland Twitter: isiiceland Youtube: NOC Iceland ÍSÍ Vimeo: ÍSÍ #isiiceland

Ólympíufjölskylda ÍSÍ

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands Íþróttamiðstöðinni í Laugardal Engjavegi 6 104 Reykjavík Sími: 514 4000 Netfang: isi@isi.is

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) varð til við sameiningu Íþróttasambands Íslands og Ólympíunefndar Íslands árið 1997. ÍSÍ er landssamband héraðssambanda/íþróttabandalaga og sérsambanda og er einu heildarsamtök íþróttahreyfingarinnar á Íslandi. ÍSÍ er æðsti aðili frjálsrar íþróttastarfsemi í landinu samkvæmd íþróttalögum. Félagsaðilar í íþróttahreyfingunni eru rúmlega 240 þúsund og fjöldi virkra iðkenda er um 86 þúsund.

ÍSÍ Fréttir 1. tbl. 2015 Ábyrgðarmaður: Lárus L. Blöndal Ritstjóri: Ragna Ingólfsdóttir Myndir: Úr safni ÍSÍ

ÍSÍ-Fréttir 2015  
ÍSÍ-Fréttir 2015  
Advertisement