
1 minute read
Kvenleiki og mýkt í tónlist
from 3. tbl 2022
Kvenleiki og mýkt mikilvæg í tónlistinni
Tónlistarkonan Fanney Kristjánsdóttir var á dögunum að gefa út sína aðra sólóplötu sem ber nafnið „Bleed’n Blend”.
Fanney sem syngur og semur undir listamannsnafninu Kjass segir að tilgangur plötunnar sé að gefa fólki kraft og von til að halda áfram með lífið eftir erfiðleika, áföll og ofbeldi. „Kjass er að gera gott fyrir aðra. Tónlist er svo huggandi. Markmiðið mitt er að skapa tónlist sem er eins og eins og stórt faðmlag sem kemur þegar við þurfum mest á því að halda. Það er alveg sama hvað við erum að fara í gegnum erfiða hluti, það er alltaf einhver sem skilur okkur og getur stutt okkur í gegnum það”.
Fyrsta plata Kjass „Rætur” hlaut tilnefningu til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem plata í opnum flokki árið 2018 nú kveður við nýjan litríkan tón í tónlistinni sem tekur snarpa beygju í átt að poppi og rokki. Fanney hefur mjúkan og skemmtilegan tón í röddinni sinni en aðspurð segist hún alltaf hafa hrifist af Emilíönu Torrini og Norah Jones og þau áhrif megi heyra á nýju plötunni, svo læðist Pearl Jam líka bakdyramegin inn í tónlistina á skemmtilegan hátt.
Skiptir máli að konur tjái sig á sinn hátt
Fanney lærði djasssöng í FÍH og útskrifaðist úr kennaradeild Tónlistarskóla FÍH árið 2016. Hún segir að námið hafi verið mikill stuðningur. „Ég gerði mér grein fyrir því í náminu að ég gæti gert þetta allt saman sjálf. Þar fékk ég tæki og tól til að gera mín eigin lög og það var mjög valdeflandi. Það skiptir mig máli að konur tjái sig á sinn hátt. Það er svo mikill munur á því að vera með sitt eigið verkefni sem kona í staðinn fyrir að ganga inn í eitthvað karllægt form. Ég er ótrúlega þakklát fyrir hvað ég hef getað gefið mér góðan tíma og unnið þetta verkefni algjörlega á mínum forsendum. Að skapa tónlist alveg út frá sér, sínum reynsluheimi og kvenleikanum í víðustu merkingu þess orðs er virkilega dýrmætt”.
