7 minute read

Gríðarleg breyting á Húsatóftavelli í Grindavík eftir hamfarir í febrúar

Helgi Dan Steinsson, framkvæmdastjóri Golfklúbbs Grindavíkur.

Hér má sjá hvernig staðan var á 15. braut vallarins eftir hamfaraveðrið. Mynd/GG.

Veðrið sem gekk hérna yfir aðfaranótt 14. febrúar var engu líkt. Þeir sem hafa búið hér í marga áratugi hafa aldrei upplifað slíkt áður ...

„Það er nánast búið að hreinsa allt það sem kom upp á land í hamfaraveðrinu sem gekk hér yfir aðfaranótt 14. febrúar. Húsatóftavöllur kemur því vel undan þessu öllu saman þótt útlitið hafi ekki verið gott um tíma,“ segir Helgi Dan Steinsson framkvæmdastjóri Golfklúbbs Grindavíkur við golf.is.

Helgi Dan tók við starfinu 1. febrúar á þessu ári og hann hefur svo sannarlega þurft að taka til hendinni ásamt klúbbfélögum í GG við að hreinsa upp gríðarlegt magn af grjóti og öðru lauslegu sem flæddi inn á völlinn í febrúar. „Ég giska á að þetta hafi verið um 50 tonn sem við höfum fjarlægt og sópað upp frá þessum tíma. Við höfum fengið ómetanlega aðstoð frá sjálfboðaliðum GG og að sjálfsögðu Grindavíkurbæ – sem stendur þétt við bakið á klúbbnum í þessu verkefni,“ segir Helgi í heimsókn tímaritsins golf.is í upphafi golftímabilsins í lok apríl sl.

„Hamfaraveður í febrúar“

„Veðrið sem gekk hérna yfir aðfaranótt 14. febrúar var engu líkt. Þeir sem hafa búið hér í marga áratugi hafa aldrei upplifað slíkt áður. Sem dæmi um aflið sem gekk hér yfir má nefna að steinhús hér vestast á vellinum sem hafði staðið allt frá árinu 1920 fór á hliðina og eyðilagðist. Sem betur fer voru skemmdir á vellinum ekki miklar. Nýja flötin á 15. braut fékk aðeins að kenna á því þegar stórir steinar fóru inn á flötina. Við náum að laga hana á einfaldan hátt og hún verður klár þegar allt verður komið á fullt hérna.“

Töluverðar breytingar hafa verið gerðar á Húsatóftavelli og tvær nýjar golfbrautir hafa verið teknar í notkun ásamt nýjum flötum á 17. og 10. braut. „Það tekur tíma fyrir þessi nýju svæði að gróa almennilega en þetta þokast allt í rétta átt. Ég er ánægður með viðhorfið hjá okkar gestum og klúbbfélögum varðandi þessar breytingar. Þetta tekur allt tíma að komast í toppstand.“

Helgi segir að þær breytingar sem fylgja nýjum flötum á 17. og 10. braut geri völlinn áhugaverðari og meira krefjandi.

„Sérstaklega á 17. braut, en nýja flötin gjörbreytir henni í alla staði. Það eru tjarnir fyrir framan og til hliðar við flötina, og miðað við ríkjandi vindátt hér á svæðinu er oftast slegið upp í vindinn í innáhögginu. Kylfingar eru því oft að slá 120–150 metra högg inn á flötina – og það er ansi krefjandi að lenda boltanum á réttum stað af því færi. Einnig verður 10. flötin skemmtileg áskorun. Svæðið í kringum flötina er krefjandi og breytingin gerir mikið fyrir þessa holu.“

Bætt aðstaða lykilatriði

Aðstaðan fyrir kylfinga er góð í Grindavík en að mati Helga þarf klúbburinn að fá aðstöðu fyrir vélaflota GG sem gæti einnig nýst sem æfingaaðstaða yfir vetrartímann.

Hress og fjölmennur hópur nýliða á námskeiði í Grindavík í maí s.l.

„Það vantar meira pláss fyrir vélarnar hjá okkur. Við komum þeim fyrir með lagni í þessu litla rými hér í kjallara klúbbhússins. En þegar allt er komið inn í hús er ekkert hægt að athafna sig á því svæði. Við fengum gám að láni í vor til þess að keyra vélar sem voru klárar fyrir sumarið í tímabundna geymslu. Þá losnaði aðeins um rými í vélageymslunni til þess að vinna við vélarnar.“

Mikil fjölgun félagsmanna

„Við settum okkur það markmið að fá 40 nýliða á ári í klúbbinn næstu þrjú árin. Það hefur gengið mjög vel og nú þegar eru um 50 nýliðar komnir. Það voru 150 félagar í GG og þeir eru því komnir yfir 200. Markmiðið á næstu þremur árum er að vera með 250 klúbbfélaga. Mér finnst vera góð stemning fyrir golfi í Grindavík, mikil vakning hjá bæjarbúum og það er okkar verkefni að koma til móts við þetta fólk.“

Helgi Dan hefur stundað golfíþróttina frá því hann var barn á Akranesi. Hann á langan feril að baki sem afrekskylfingur og hefur m.a. leikið fyrir Íslands hönd í landsliði. Helgi er menntaður sem húsasmiður og

PGA golfkennari. Hann hafði ekki leitt hugann að því að taka að sér slíkt starf en tilviljanir réðu því að hann tók að sér starfið hjá GG. „Ég var svo sem ekkert að hugsa um þetta starf.

Ég var í góðri vinnu og golf var bara áhugamálið mitt. Þegar Golfklúbbur Grindavíkur hafði samband og spurði hvort ég hefði áhuga á að taka þetta verkefni að mér fór ég aðeins að hugsa um þetta. Ég komst að þeirri niðurstöðu að það væri spennandi að blanda saman vinnu og áhugamáli. Starfið er fjölbreytt, ég er í daglegum rekstri sem framkvæmdastjóri, ég er úti á velli að slá og gera alls konar þegar þess þarf og ég er einnig í golfkennslu fyrir kylfinga á öllum aldri.

Hér má sjá hvernig sjórinn gekk yfir 17. brautina eftir hamfaraveðrið í febrúar s.l. Neðri myndin var tekin í lok apríl frá sama stað.

Mér finnst þetta stórskemmtilegt og spennandi verkefni. Það hafa aðrir klúbbar farið þessa leið að sameina mörg verkefni á einn starfsmann. Hlynur Geir Hjartarson á Selfossi hefur gert þetta í mörg ár með góðum árangri.“ „Fyrstu vikurnar í nýja starfinu voru eftirminnilegar. Í febrúar gekk hér yfir risajarðskjálftahrina – ég var hér í klúbbhúsinu þegar stór skjálfti gekk yfir. Ég hélt að vörubíll hefði keyrt á húsið, svo mikill var krafturinn í skjálftanum. Nokkrum dögum síðar gekk þetta hamfaraveður yfir og svo kom COVID-19 faraldurinn í kjölfarið. Ég beið bara eftir því að það kæmi eldgos upp úr miðjum vellinum,“ segir Helgi í léttum tón.

Sterkur og samheldinn hópur

Golfmenningin í Grindavík er góð að mati Helga. „Hér er sterkur og samheldinn hópur. Karlar hafa verið í miklum meirihluta en kvennastarfið er að eflast hjá okkur. Markmiðið er að gera enn betur á því sviði og fá fleiri konur í klúbbinn. Það sem hefur verið helsta vandamálið hér að undanförnu er að kenna okkar fólki að bóka sig með góðum fyrirvara í rástíma. Það er mikil aðsókn að vellinum og margir hér eru vanir því að mæta bara á svæðið og fara út á völl. Það er ekki hægt eins og aðsóknin hefur verið að undanförnu. Að mínu mati er það kraftaverk að hér sé 18 holu golfvöllur í þessum gæðaflokki. Félagsmenn hafa unnið þrekvirki að koma upp þessum velli og þeirri aðstöðu sem er hér til staðar. Þar hafa Grindavíkurbær, Bláa lónið og mörg önnur fyrirtæki stutt vel við bakið á klúbbnum. Hins vegar bráðvantar aðstöðu fyrir vélar og fyrir golfkennslu hér á svæðinu. Ég er handviss um að við getum tvöfaldað stærð klúbbsins með góðri inniaðstöðu hér á svæðinu. Það væri frábært að fá 500–600 fermetra hús sem gæti nýst sem vélageymsla og einnig sem svæði fyrir æfingar og kennslu yfir vetrartímann. Klúbburinn er vissulega með aðstöðu við knattspyrnuhúsið – og það er í sjálfu sér fín aðstaða. En ef við horfum til lengri tíma þá þarf að hugsa þetta enn stærra og byggja hús sem myndi gjörbreyta aðstöðunni fyrir GG. Í vor var hafist handa við að gera göng fyrir kylfinga undir veginn sem liggur þvert í gegnum Húsatóftavöll. Framkvæmdin er

mikið öryggismál fyrir kylfinga á vellinum að sögn Helga. „Það er mjög oft mikil umferð á þessum vegi sem er þjóðvegur. Kylfingar hafa þurft að ganga yfir veginn í tvígang á 18 holu hring. Það verður mikil bót að fá undirgöngin og öryggi kylfinga verður mun meira fyrir vikið.“

Sjálfboðaliðar GG eru ómetanlegir

Atli Kolbeinn Atlason.

Atli Kolbeinn Atlason.

Helgi Dan segir að öflugur hópur sjálfboðaliða hjá GG sé gríðarlegur styrkur fyrir innra starf klúbbsins. „Ég er afar þakklátur fyrir öfluga sjálfboðaliða klúbbsins. Það eru margir sem hafa lagt hönd á plóginn í gegnum árin. Í vor hef ég fengið mikla aðstoð frá Atla Kolbeini Atlasyni. Hann er bifvélavirki og matreiðslumaður. Það var smá stopp hjá honum í vinnunni sem matreiðslumaður vegna COVID-19 og hann tók sig til og mætti bara í vélageymsluna hjá okkur til að græja vélarnar fyrir sumarið. Hann var hérna daglega í margar vikur að græja þetta og kenna mér betur á hvernig þetta virkar allt saman. Algjör snillingur þessi gaur,“ segir Helgi.

Ellert Magnússon.

Ellert Magnússon.

Ellert Magnússon hefur einnig dregið vagninn úti á vellinum í alls konar verkefnum. „Elli hefur einnig komið hingað á hverjum einasta degi í vor. Hann hefur tekið að sér „sérstök“ verkefni, svo sem að halda göngustígunum við og sitthvað fleira. Hann var oft mættur á undan mér hingað á morgnana. Það sem gerðist líka í kjölfarið var að það fóru fleiri að gera eins og Elli okkar. Áður við vissum af voru komnir tveir til viðbótar í alls konar verkefni úti á velli og síðan bættust tveir við. Þetta smitaði út frá sér og sjálfboðaliðarnir okkar eru ómetanlegir,“ segir Helgi Dan Steinsson.