11 minute read

Frábær byrjun á íslenska golfsumrinu

GOLF Á ÍSLANDI // 1. TBL. 2020

Nýr golfhringur

Eftir inniveru og félagslega einangrun vikum saman flykktust kylfingar út á golfvelli landsins hinn 11. apríl og léku golf undir reglum sem þeir voru engan veginn vanir og þurfa vonandi aldrei aftur að eltast við. Hinn 4. maí var unnt að leika golf við nokkuð eðlilegar aðstæður og nú hefur loksins öllum takmörkunum á golfleik verið aflétt. Við erum kylfingum afar þakklát fyrir viðtökurnar, biðlundina og virðinguna sem þeir sýndu í erfiðum og undarlegum aðstæðum undanfarnar vikur.

Þrátt fyrir takmarkanir á golfleik fór golftímabilið af stað með látum. Þátttakan var framar vonum og slegist hefur verið um rástímana. Með þessu áframhaldi stefnir allt í besta golfsumar í manna minnum. Vegna ferðatakmarkana til útlanda er gott að vita til þess að íslenskum kylfingum stendur til boða að leika yfir 60 golfvelli á Íslandi, hringinn í kringum landið. Golfhringurinn mun því vonandi öðlast nýja merkingu í sumar.

Í langri sögu golfíþróttarinnar hafa breytingar gerst hægt og má segja að golfíþróttin sé frekar íhaldssöm. Í ár tökumst við hins vegar á við tvær stórar breytingar og aðrar minniháttar. Annars vegar nýtt forgjafarkerfi og hins vegar nýtt hugbúnaðarkerfi. Breytingar af þessu tagi kalla á þolinmæði allra sem að þeim koma.

Nýja forgjafarkerfið, World Handicap System, tók gildi í upphafi árs með sameiningu allra sex forgjafarkerfa heimsins. Að baki breytingunni liggur ómæld vinna allra stærstu og áhrifamestu aðila íþróttarinnar og hefur sameiningin krafist útsjónarsemi og umfangsmikilla rannsókna allra þeirra sem komu að verkinu. Ég vil færa öllum þeim sem komu að uppsetningu hins nýja forgjafarkerfis hér á landi bestu þakkir fyrir óeigingjarnt starf og hvet um leið forgjafarnefndir golfklúbbanna til að standa vaktina á meðan íslenskir kylfingar aðlagast nýjum forgjafarreglum. Ég er sannfærður um að hið nýja forgjafarkerfi muni koma til með að færa íþróttina okkar á nýtt og hærra plan og gera hana aðgengilegri fyrir komandi kynslóðir. Það er ósk mín að með tilkomu reglnanna muni íþróttin haldi áfram að færa okkur gleði í leik og heiðarlegri keppni, hvar sem er í veröldinni.

Eftir tveggja áratuga þróun eigin hugbúnaðar ákvað golfhreyfingin að láta staðar numið. Þótt hugbúnaðurinn, sem í daglegu tali hefur verið kallaður golf.is, hafi þjónað hreyfingunni vel þá var það mat okkar að golfsambandið gæti hvorki elt þær tækninýjungar, sem ólíkir þjónustuaðilar munu bjóða upp á, né heldur kröfurnar sem notendurnir munu setja. Um allan heim eru þúsundir hugbúnaðaraðila í stöðugri þróun á nýju viðmóti og tæknimöguleikum sem GSÍ mun aldrei geta fylgt eftir í sínu kerfi. Golfsamband Íslands er ekki hugbúnaðarfyrirtæki og óhjákvæmilegt var að sambandið myndi lenda undir í þeirri þróun sem fram undan er með eigið hugbúnaðarkerfi.

Að loknu fjögurra ára rannsóknarog kynningarferli tók golfhreyfingin þá sameiginlegu ákvörðun, á sérstöku aukagolfþingi hinn 11. maí 2019, að semja við danska fyrirtækið Golfbox um kaup á tölvukerfi fyrir golfhreyfinguna næstu árin. Við höfum því lagt okkar sérsmíðaða kerfi á hilluna og tekið upp staðlaðan og alþjóðlegan hugbúnað sem mun án efa reynast okkur vel í framtíðinni.

Við vissum það þegar ákvörðunin var tekin að innleiðingunni myndu fylgja margvíslegar áskoranir, enda flókið mál að skipta um hugbúnaðarkerfi sem tæplega 20 þúsund manns nota nánast daglega yfir sumartímann. Kerfið var „sett í loftið“ í mars og vonuðumst við til þess að kylfingar og klúbbar gætu nýtt tímann fram að sumri til að læra á kerfið. Því miður setti COVID-faraldurinn verulegt strik í reikninginn og því reyndist erfiðara að koma kynningar- og kennsluefni á framfæri við kylfinga. Nú er sumarið hins vegar skollið á og okkur hefur verið hent út í djúpu laugina. Með réttum sundtökum verður ekkert mál að komast að landi.

Það er gaman að segja frá því að innleiðing kerfisins hefur tekist afar vel og hefur kerfið virkað sem skyldi, með örfáum undantekningum. Allir þurfa þó tíma til þess að læra á kerfið, bæði starfsfólk golfklúbbanna og kylfingarnir sjálfir. Við biðjum kylfinga því um sýna biðlund á meðan við fínstillum kerfið og þökkum fyrir þolinmæðina meðan á þessu stendur.

Tímaritið Golf á Íslandi hefur nú komið út í um þrjátíu ár en að þessu sinni kemur það út með nýju sniði – rafrænu sniði. Þetta er í fyrsta skiptið sem tímaritið er eingöngu gefið út á rafrænu formi en golfsambandið hefur lengi unnið að því að færa útgáfu sína í auknum mæli yfir á rafræna miðla. Þessi útgáfa er liður í þeirri þróun og við vonum að lesendur tímaritsins taki nýbreytninni vel.

Að lokum er rétt að nefna að kylfingar munu verða varir við breytingar á útliti golf.is á næstu dögum. Heimasíða golfsambandsins er einn vinsælasti vefur landsins hluta úr ári en síðan fær yfir tvær milljónir heimsókna á ári. Virknin á hinum nýja vef mun haldast óbreytt en breytingin er hluti af uppfærslu og innleiðingu vegna Golfbox.

Ég vona innilega að þið kunnið að meta þær breytingar sem nýtt golfsumar ber í skauti sér og ég óska ykkur gleðilegs sumar með mikilli forgjafarlækkun og óteljandi gleðistundum á golfvellinum.

Með sumarkveðju, Haukur Örn Birgisson, forseti Golfsambands Íslands.

Hvaða efni er í tankinum?

Fara vallarstarfsmennirnir á þínum velli út með stóran úðara og úða flatir, teiga og kannski brautir?

Hefur þú velt því fyrir þér hvað er í tankinum, heldur þú kannski að þetta sé eitthvað slæmt fyrir þig?

Mestar líkur eru á því að efnið sem verið er að úða sé áburður. Hér á landi er notkun á plöntuvarnarefnum, sem almenningur kallar gjarnan eiturefni, í mjög litlu mæli miðað við nágrannalöndin okkar. Starfsemi sem tengist golfvöllum hér á Íslandi notar um það bil 1% af öllum virkum varnarefnum á íslandi, Íslendingar nota síðan um það bil fjórum sinnum minna af varnarefnum en sú Norðurlandaþjóð sem notar næstminnst. Á undan förnum árum höfum við í golfvallageiranum fjárfest í úðurum sem einfalda alla áburðargjöf og er þá hægt að stjórna áburðarmagninu betur.

En af hverju er efnið stundum grænt og af hverju eruð þið að setja froðu á flötuna?

Blátt litarefni er sett í tankinn til að sjá hvaða svæði starfsmaðurinn er búinn að úða. Stundum er notuð froða til að merkja svæðið sem búið er að speyja yfir. Froðan þjónar sama tilgangi og liturinn og erí raun aðeins ódýrari lausn en gefur ekki alveg jafn nákvæma útkomu.

Hólmar Freyr Christiansson Vallarstjóri/Head Greenkeeper | Golfklúbbur Reykjavíkur

Konur á Íslandi spila oftar golf en karlar

Konur sem eru félagar í golfklúbbi á Íslandi spila oftar golf en karlar sem eru einnig félagsmenn í golfklúbbi. Þetta er ein af fjölmörgum áhugaverðum niðurstöðum úr þjónustukönnun Gallup sem birt var á golfþingi GSÍ í nóvember sl. Markmið rannsóknarinnar var að skoða viðhorf kylfinga til ýmissa þátta er varða golfiðkun og þróun þar á. Nær helmingur kvenna (49%) spilar þrisvar í viku eða oftar, sambærilegt hlutfall meðal karla er 41%. Á móti kemur að karlar eru mun líklegri en konur til að spila 18 holu hring. Konur fara þá frekar 9 holur. Um var að ræða netkönnun sem gerð var á tímabilinu 26. september – 13. nóvember 2019. Úrtakið var unnið úr félagaskrá, alls 5.746.

Frumkvöðlar kveiktu nýjan neista í Grundarfirði

Kvennastarfið í Grundarfirði byrjar sannarlega vel - hér er hópurinn sem mætti á fyrsta kynningarkvöldið.

Kvennastarfið hjá Golfklúbbnum Vestari í Grundarfirði byrjar sannarlega vel á árinu 2020. Um miðjan maí fór fram vel heppnað kynningarkvöld fyrir konur á Bárarvelli í Grundarfirði - en völlurinn þykir vera einn af áhugaverðustu 9 holu golfvöllum landsins.

Anna María Reynisdóttir og golfvinkonur hennar úr Vestari höfðu frumkvæði að því að fá fleiri konur inn í starfið. Og byrjunin lofar svo sannarlega góðu. „Það kom til mín maður sem bað um aðstoð við að koma konunni sinni með sér í þessa skemmtilegu íþrótt. Þessi ágæti maður er mikill kylfingur og hann langaði að áhugamálið hans yrði sameiginlegt áhugamál hjá þeim hjónum. Ég sagði að sjálfsögðu já og sagði honum að það væri ekkert mál að bjóða henni með mér út á Bárarvöll. Þegar ég hafði sagt já fór ég að hugsa málið aðeins betur og komst að þeirri niðurstöðu að líklega væru fleiri konur sem hefðu áhuga á að byrja í þessari stórskemmtilegu íþrótt,“ segir Anna María þegar hún er innt eftir því hvernig þetta verkefni fór af stað. „Ég ákvað að fara aðeins lengra með þetta og auglýsti „kynningarkvöld“ fyrir konur á æfingasvæðinu okkar. Markmiðið var að kynna aðeins fyrir þeim golfið og spila síðan saman fjórar holur - fyrir þær sem vildu. Ég hef stundað blak í mörg ár hér í Grundarfirði og það hefur sýnt sig að konur vilja hafa fleiri en færri með sér í áhugamálið. Og ég fann að ég vildi yfirfæra þessa blakstemningu í golfið. Það var því ekki eftir neinu að bíða.“

Anna María segir að þegar kynningarkvöldið hafi verið auglýst þá hafi hún strax fundið fyrir miklum áhuga. „Ég hafði samband við tvær golfvinkonur og bað þær um að vera með mér í þessu ef aðsóknin færi fram úr væntingum. Það var ekki að spyrja að því að grundfirskar konur tóku þessu tilboði fagnandi. Það mættu ellefu konur sem var langt umfram væntingar mínar. Veðrið var frábært og allar aðstæður eins og best verður á kosið.“ „Þetta kynningarkvöld var mjög einfalt. Við byrjuðum að slá aðeins á æfingasvæðinu í um 30 mínútur. Síðan fórum út á okkar frábæra golfvöll. Skiptum okkur upp í þrjá ráshópa. Það var vanur kylfingur í hverjum ráshópi og við spiluðum síðan fjórar holur. Ég get ekki annað sagt en að þær sem komu hafi farið ánægðar og sáttar heim. Þær ætla að koma aftur. Ég stefni á að hafa svona kvennakvöld einu sinni í viku fram í júní. Markmiðið er að stækka kvennahópinn hjá okkur - og byrjunin lofar góðu,“ segir Anna María við golf.is

Framkvæmdir hafnar við golfvöllinn í Rifi

Félagar í Golfklúbbnum Jökli hófust handa við gerð nýs níu holu golfvallar í Rifi í síðustu viku. Byrjað var á að móta flatir og sá í þær. Jón Bjarki Jónatansson formaður golfklúbbsins segir í samtali við Skessuhorn, héraðsfréttablaðið á Vesturlandi, að framkvæmdir fari vel af stað.

„Við erum búnir að móta þrjár flatir og verðum í því í sumar að móta flatir og sá í þær og leggja niður vökvunarkerfi vallarins. Það verður svona stóra verkefni sumarsins,“ segir Jón Bjarki í samtali við Skessuhorn. „Vökvunarkerfið er það flottasta sem til er á markaðnum, sjálfvirkt kerfi sem er stýrt í gegnum tölvu. Það verður ekki mörg ár að borga sig upp í vinnusparnaði og mikið öryggi að hafa vökvunarkerfi til að geta alltaf gripið inn í og vökvað flatir og teiga ef þarf,“ segir hann. „Síðan skemmir ekki að efnið sem fyrir er á staðnum er afar hentugt til verksins af náttúrunnar hendi. Þetta er blanda af sandi og mold sem ég held að margir vildu eiga jafn greiðan aðgang að og við þegar verið er að byggja golfvelli. Þannig að þetta lítur allt saman vel út og við hjá klúbbnum erum full tilhlökkunar fyrir þessu verkefni,“ segir Jón Bjarki.

Klár fyrir stórafmælið

Þegar búið er að sá í flatirnar er einangrunardúkur lagður yfir þær og landið fær að gróa þar undir og grasið að vaxa. „Það gerist nokkuð fljótt ef hitinn verður góður og við fáum gott veður í sumar, þá virkar þetta í rauninni bara eins og gróðurhús,“ segir Jón Bjarki. „Næsta sumar verður farið í að útbúa brautir og teiga. Þar er vinnulagið eins og við gerð flatanna, grasið sem fyrir er fjarlægt og síðan sáð í og vökvað,“ segir hann. Að svo búnu þarf tíminn að fá að vinna sitt verk. Jón Bjarki vonast til að geta tekið völlinn í notkun innan fárra ára. „Klúbburinn á 50 ára afmæli 2023 og markmiðið er að geta spilað á nýja vellinum eigi síðar en á afmælisárinu. Vonandi getum við tekið hann í notkun fyrr en það fer eftir tíðarfari og fleiru,“ segir Jón Bjarki. „Þetta ferli er búið að taka langan tíma og mjög jákvætt að það sé komið í gang,“ bætir hann við.

Jökullinn í baksýn

Nýi golfvöllurinn í Rifi er svokallaður „linksvöllur“ sem er elsta gerð golfvalla í heiminum. Af þeirri gerð voru fyrstu golfvellirnir í Skotlandi í árdaga íþróttarinnar. Hafa slíkir vellir stundum verið nefndir strandvellir á íslensku, byggðir í sendnu landi við sjávarsíðuna, með hörðum brautum og hröðum flötum.

Strandvöllurinn í Rifi er í fallegu umhverfi á Breiðinni með Snæfellsjökul í baksýn. Hönnuður vallarins er Edwin Roald sem hefur hannað marga golfvelli hér á landi. „Hann er búinn að vera með okkur frá degi eitt og hefur verið okkur innan handar með hvaðeina. Við fengum hann til okkar áður en nokkuð var ákveðið til að athuga hvort þetta væri yfirleitt mögulegt. Honum leist strax vel á þennan stað. Jökullinn verður í baksýn og þetta verður mjög fallegt,“ segir Jón Bjarki að endingu.

Rögnvaldur Ólafsson, Hjörtur Ragnarsson og Jón Bjarki Jónatansson á svæðinu sem nú er verið að breyta í golfvöll.

Ljósm. Skessuhorn/Alfons Finnsson.