
8 minute read
1 2 MIKLAR KRÖFUR OG VÆNTINGAR TIL MENNTASTOFNANA
from sjalfbaerni
by ferdalag
1.2. MIKLAR KRÖFUR OG VÆNTINGAR TIL MENNTASTOFNANA
Það hefur verið sannreynt með rannsóknum í umhverfisfélagsfræði að aukin umhverfisvitund er mjög mikilvægur grunnur en leiðir samt bara lítillega til umhverfisvænni lifnaðarhátta. En þeir sem lifa á umhverfisvænni hátt leggja oft meiri áherslu á önnur gildi en veraldleg gæði og efnishyggju. Þessar niðurstöður gefa okkur ýmis skilaboð m.a. um ákveðin markmið með menntun framtíðarkynslóða, um menntun sem lykilþátt til að stuðla að sjálfbærri þróun. Kennsluaðferðir eiga að vera í sífelldri þróun og menntun í dag verður að vera í takt við tímann og svara nútímaáskorunum sem einkenna kennarastarfið á hverjum tíma. Hér á eftir er vikið stuttlega að nokkrum mikilvægum þáttum í þessu tilliti.
Advertisement
Þverfagleiki
Ástandið í heiminum gerir ýmsar kröfur um breytingar í menntun. Til þess að skilja sjálfbæra þróun, heimsmarkmiðin og loftslagsmálin verðum við að hugsa þverfaglega og heildstætt. Það þarf að skoða og skilja allt í samhengi. Þetta getur verið flókin staða fyrir kynslóð sem ólst upp við það að búta niður efni eftir fögum þannig að við höfum stundum misst fókusinn á það að eitt hefur áhrif á annað og hvernig málin eru samtvinnuð. Og núna eigum við að kenna nýrri kynslóð að sjá allt samhengið sem við erum næstum því búin að týna. Heimsmarkmiðin sýna okkur hvernig allt er samofið og gefa leiðarljósið sem við þurfum á að halda.
Efling á hæfni: Áherslan í menntun hjá okkar kynslóð var á það að afla þekkingar. Menntun í dag á auk þekkingaröflunar að auka hæfni nemenda á hinum ýmsu sviðum og gerir þar með kröfur um aðrar og fjölbreyttari kennsluaðferðir.
Nýstárlegar kennsluaðferðir: Til þess að efla hæfni nemenda og fara út fyrir þann ramma að leggja aðallega áherslu á þekkingaröflun þarf að nota aðrar kennsluaðferðir en þær að kennarinn segi frá og útskýri ýmis mál. Aðferðirnar þurfa m.a. að vera þátttökuhvetjandi, uppbyggjandi, lausnamiðaðar og nýstárlegar.
Hlutverk kennara: Kennarinn á ekki lengur að vera aðalmiðill að þekkingaröflun heldur á hann frekar að vera leiðtogi eða verkstjóri í þekkingarleit nemenda. Ekki lengur bílstjóri, heldur hvetjandi ferðafélagi. Kennarinn á heldur ekki að gera þær kröfur til sín að vera sérfræðingur á öllum sviðum sjálfbærrar þróunar og loftslagsmála en með því að beita leitarnámi og þátttökunálgun (nánar í kafla 2.6.1) leiðir hann nemendur í að skilja málin, beita gagnrýninni hugsun, koma auga á rót vandamála og finna lausnir. Þessi afstaða ætti að minnka hugsanlegar áhyggjur kennara um að geta ekki svarað öllum spurningum um þessi flóknu og þverfaglegu mál. (Nánar í kafla 2.6. og 3.4.4).
Ádeila á ráðandi kynslóð: Það er þversagnakennt að kynslóðin sem er hluti af núverandi kerfi og lífstíl, kerfi og lífstíl sem á drjúgan þátt í rót vandans, eigi að kenna nýrri kynslóð að gera betur og haga sér öðruvísi. Þar með verðum við að viðurkenna að við séum þátttakendur í samfélagsgerð sem er ekki sjálfbær, við verðum að taka okkur á og reyna að verða betri fyrirmyndir. Við megum ekki setja alla von okkar á næstu kynslóðir, heldur berum við ábyrgð. Að kenna nýrri kynslóð getur þar með líka verið mikilvægt tækifæri til að bæta eigið líf með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.
Stjórnmálaleg ádeila: Staða loftslagsmála er skýr meðal vísindafólks og ætti því ekki að vera deilumál. Þó jafnframt sé vitað í grófum dráttum hvað þarf að gera, eru leiðir þangað hins vegar umdeildar og pólitískar. Því miður er skilningur margra á lífheiminum, sjálfbærri þróun og samhengi málefna lítill og þá er sérstaklega orðið sjálfbærni oft misskilið og misnotað. Áskorun kennara er hér m.a. að kenna þessi málefni á þann hátt að nemendur hugsi sjálfstætt og gagnrýnið og komi auga á lausnir án þess að kennarinn taki pólítíska afstöðu sjálfur. Nýjar kennsluaðferðir í gegnum menntun til sjálfbærni og umbreytandi nám eru lykillinn að því.
“Loftslagskvíði er tilfinning sem felur í sér kvíða, áhyggjur eða óvissu vegna loftslagsbreytinga.” Heimild og sjá nánar: https:// landvernd is/umhverfisfrettafolkloftslagskvidi/
Loftslagskvíði: Staða loftslagsmála, hnignun vistkerfa og líffræðilegrar fjölbreytni eru ógnvekjandi. Margir nemendur og kennarar finna í auknum mæli fyrir loftslagskvíða. Þessi kvíði getur valdið því að fólk vill helst setja hausinn í sandinn. Hvernig geta kennarar hvatt sjálfa sig, hver annan og ekki síst nemendur þegar kemur að þessu yfirþyrmandi málefni? Hvernig er hægt að minnka loftslagskvíða? Kennsluaðferðir menntunar til sjálfbærni eiga að efla getu til aðgerða (nánari skilgreining í kafla 2.2). Með því að vera virkur þátttakandi í ýmsum aðgerðum og breytingum er hægt að minnka þennan kvíða, hvetja hvert annað og öðlast aðgerðavilja. Valdefling er mikilvæg þ.e. að finna að hvert og eitt okkar getur haft áhrif og það er hægt að móta framtíðina og umbreyta þeim veruleika sem okkur er gefinn. Kenna þarf staðfasta bjartsýni sem þýðir m.a. að við búum okkur til framtíðarsýn, trúum því að hún geti raungerst, setjum okkur markmið og vinnum skipulega og staðfastlega að því að ná henni, sýnum gott fordæmi og stuðlum að samstöðu og samtakamætti. Á þennan hátt getur menntun til sjálfbærni stuðlað að því að minnka loftslagskvíðann hjá bæði nemendum og kennurum.
Nánar er fjallað um þessar kröfur og væntingar til menntastofnana í kafla 2 um menntun til sjálfbærni.
1.3. Tilmæli úr alþjóðlegum samningum til menntastofnanna
Áskoranir samtímans eru hnattrænar og þær þarf að meðhöndla sem slíkar. Alþjóðasamfélagið reynir að taka á þessum málum sérstaklega í gegnum Sameinuðu þjóðirnar og með margskonar samningum og stefnum. Hvort sem er í stefnum og samningum um sjálfbæra þróun, Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, aðgerðaáætlun í loftslagsmálum eða menntun til sjálfbærni þá er menntun alls staðar skilgreind sem eitt af grundvallaratriðum í átt að árangri og er útfærð víða á skýran og hagnýtan hátt. Þessar skilgreiningar miðla ekki einungis mikilvægri þekkingu til kennara heldur líka mikilvægum skilaboðum og hvatningu um að framfylgja þessum skýru tilmælum alþjóðasamfélagsins og styðja við bakið á kennurum. Nánari umfjöllun um tilmæli úr alþjóðlegum samningum verður í næstu köflum handbókarinnar. Geta til aðgerða er hæfni til að nota á virkan hátt þekkinguna um sjálfbæra þróun og að bera kennsl á vandamál sem koma vegna ósjálfbærar þróunar til að stuðla að sjálfbærri þróun innan samfélaga.
Samantekt
Í þessum kafla er fjallað um mikilvægi og eiginleika kennarastarfsins í ljósi núverandi áskorana mannkyns varðandi loftslagsvá, tap á líffræðilegri fjölbreytni og sjálfbærrar þróunar. Menntun til sjálfbærni hefur verið þróuð bæði á alþjóðlegum og innlendum vettvangi sem svar við þessum áskorunum. Ljóst er að samfélög verða að fara í róttækar breytingar á skömmum tíma og samhliða þarf að mennta nýja kynslóð á þann hátt að hún verði í stakk búin til að finna nýjar leiðir, nýtt kerfi, nýja hugsun, nýjar stefnur og lausnir. Einnig þarf að auka hnattræna vitund.
Kröfur til menntastofnana eru miklar. Það þarf að mennta nemendur í þverfaglegri og heildstæðri hugsun og efla ekki einungis þekkingu heldur einnig ýmsa hæfni þeirra. Kennarar eiga að vera leiðtogar eða verkstjórar í þekkingarleit nemenda og nota fjölbreyttar og nýstárlegar kennsluaðferðir.
Að kenna um loftslagsmálin og sjálfbæra þróun er um leið gagnrýni á lifnaðarhætti núverandi kynslóða, gagnrýni á okkur sjálf, þannig að allir verða að horfa í eigin barm og reyna sitt besta til að vera góðar fyrirmyndir. Þó að staða loftslagsmála sé skýr vísindalega og vitað hvað þarf að gera eru leiðirnar þangað umdeildar. En með því að leiðbeina nemendum við að hugsa sjálfstætt og gagnrýnið og koma auga á lausnir þarf kennarinn ekki að taka pólítíska afstöðu sjálfur. Ekki síst er það bæði áskorun og tækifæri fyrir kennara að mennta nemendur sína á þann hátt að hugsanlegur loftslagskvíði muni minnka en efla í staðinn vilja og getu til aðgerða.
Ýmis tilmæli um menntun til sjálfbærni til menntastofnana koma frá alþjóðasamfélaginu, sérstaklega í gegnum Sameinuðu þjóðirnar og með margskonar samningum og stefnum.
Spurningar til umhugsunar og sem kveikja
1. Hvað hefur verið gert í þínum skóla til þess að undirbúa kennara undir þessar áskoranir í kennslu?
2. Hefur skólinn stefnu í umhverfis- og/eða loftslagsmálum og vinnur hann markvisst eftir stefnunni?
3. Tekur skólinn þinn þátt í Grænfánaverkefninu/Skólar á grænni grein?
4. Telur þú þig hafa næga þekkingu á loftslagsmálum, tapi á líffræðilegri fjölbreytni og sjálfbærri þróun til þess að kenna nemendum?
5. Hefur þú beitt eða kynnt þér menntun til sjálfbærni?
6. Hverjar eru helstu hindranir og hvatar fyrir kennara í þínum skóla til að stunda menntun til sjálfbærni?
7. Er loftslagskvíði algengur meðal nemenda í þínum skóla og hvernig er birtingarmynd hans?
8. Finnur þú sjálf/ur/t fyrir loftslagskvíða?
9. Ert þú búin/n/ð að breyta um lífsstíl í átt að sjálfbærri þróun?
1.4. Heimildir og ítarefni
Gifford, R. (2011). The Dragons of Inaction: Psychological Barriers That Limit Climate Change Mitigation and Adoption. University of Victoria, American Psychologist, 2011, Vol. 66, No. 4, 290-302.
Grunenberg, H. (2011). Umweltsoziologie. (Lehrbuch). Rostock, Zentrum für Qualitätssicherung in Studium und Weiterbildung der Universität Rostock, 2011, 120.
Langner, T. (2011) Bildung für nachhaltige Entwicklung. Rostock, Zentrum für Qualitätssicherung in Studium und Weiterbildung der Universität Rostock, 2011, 210.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið (útg.). (2011 og 2013). Aðalnámskrá grunnskóla Almennur hluti 2011, Greinasvið 2013. Reykjavík, Ísland, Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2013a, 234.
United Nations Educational, Scientific and Cultural Organisation (UNESCO) (útg.). (2014). Roadmap zur Umsetzung des Weltaktionsprogramms „Bildung für nachhaltige Entwicklung “ Bonn/Þýskaland, Deutsche UNESCO-Kommission e.V., 2014, 39. ISBN: 978-3-940785-69-5.
Wilson, C. (á.d). Tackling the big issues in sustainable education – A handbook for teachers on climate change and biodiversity. Landvernd. Óútgefin og ókláruð.
Vefefni
Hafdís Hanna Ægisdóttir. (2020, október). Umhverfispistill í Samfélaginu á Rás 1. https://www ruv is/frett/2020/10/26/stadfost-bjartsyni-fyrirumhverfid
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. (á.d.). Heimsmarkmiðin https:// www heimsmarkmidin is/forsida/heimsmarkmidin/
Kolbrún Þ. Pálsdóttir. (2018, október) Margslungið og skapandi hlutverk kennarans. Vísir. https://www visir is/g/20181327414d
Landvernd (útg.). (á.d.) Hvað er loftslagskvíði? – Allt sem þú þarft að vita og góð ráð. Landvernd. https://landvernd is/umhverfisfrettafolkloftslagskvidi/
Loftslagsráð (útg.). (á.d.) Hugtök og skilgreiningar https://www loftslagsrad is/frodleikur/hugtok/
Rannveig Magnúsdóttir. (2022). Náttúra til framtíðar – Námsefni fyrir unglingastig grunnskóla og framhaldsskóla um vistheimt og náttúruvernd. Menntamálastofnun. https://vefir mms is/flettibaekur/namsefni/nattura_ til_framtidar/
Stjórnarráð Íslands og Umhverfis- og auðlindaráðuneytið(útg.). (2020, júní) Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum Aðgerðir íslenskra stjórnvalda til að stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda til 2030 https://www stjornarradid is/library/02-Rit--skyrslur-og-skrar/Adgerdaaetlun%20i%20 loftslagsmalum%20onnur%20utgafa pdf
Sveinn Atli Gunnarsson. (á.d). Hvað eru loftslagsbreytingar? Loftslag.is. https://www loftslag is/?page_id=164
UNESCO (útg.). (2020). Education for sustainable development – a roadmap. UNESCO. https://unesdoc unesco org/ark:/48223/ pf0000374802 locale=en
UNESCO (útg.). (2014). Global citizenship education – preparing learners for the challenges of the 21st century. UNESCO https://www eccnetwork net/ sites/default/files/media/file/Global%20citizenship%20education_%20 preparing%20learners%20for%20the%20challenges%20of%20the%20 21st%20century%20-%20UNESCO%20Digital%20Library pdf
UNESCO (útg.). (2014). Global citizenship education - Politische Bildung für die Weltgesellschaft. UNESCO. https://www unesco at/fileadmin/ Redaktion/Publikationen/Publikations-Dokumente/2014_GCED_ Politische_Bildung_fuer_die_Weltgesellschaft pdf