Eystrahorn
www.eystrahorn.is www.eystrahorn.is
Fimmtudagur 22. október 2015
36. tbl. 33. árgangur
„Að hlusta á nið aldanna“ - málþing í Þórbergssetri
Haustþing Þórbergsseturs verður haldið 25. október kl. 11:00 og verður að þessu sinni helgað sögu, náttúrufræði og fornleifafræðirannsóknum í Skaftafellssýslu. Fornleifafræðingarnir Vala Garðarsdóttir, Bjarni F. Einarsson og Steinunn Kristjánsdóttir verða með erindi er tengjast rannsóknum þeirra hér í sýslu, og Helgi Björnsson jöklafræðingur fjallar um Breiðamerkurjökul og jöklafræði. Bjarni F. Einarsson mun kynna nýútkomna bók sem hann er að gefa út, þar sem fjallað er um rannsóknir hans á fornleifum m.a. merkilegar rannsóknir á völvuleiðum sem eru mörg þekkt hér í sýslu. Vala Garðarsdóttir hefur
unnið að rannsóknarverkefni sem hún kallar Útræði í Hornafirði frá öndverðu og Steinunn Kristjánsdóttir fjallar um rannsóknir sínar tengdar uppgreftri á Skriðuklaustri og sögnum um ferðir vermanna og fiskveiðar Austfirðinga frá hinni fornu Hálsahöfn og dvöl þeirra í Borgarhöfn á öldum áður. Í lok málþings verður farið í heimsókn í Kambtún og skyggnst um á slóðum vermanna. Gluggað verður í þjóðsögur og gamlar sagnir á milli erinda fræðimannanna m.a. lesið upp úr þjóðsögum Torfhildar Hólm og Suðursveitarbókum Þórbergs. Dagskrá málþingsins er að finna í blaðinu.
Sjávarþorpið Höfn Þann 5. október sl. var bæjarráði afhent skýrsla um verkefnið Sjávarþorpið Höfn, en það er afrakstur vinnu áhugahóps um að draga fram helstu sérkenni Hafnar og nota þau sérstaklega til að efla bæinn sem áfangastað ferðamanna og búsetukost. Hugmyndin að verkefninu kviknaði hjá grasrótinni meðal ferðaþjónustuaðila á Höfn vorið 2013 og var síðar boðið upp á opnar vinnustofur þar sem allir áhugasamir voru hvattir til að mæta og taka þátt í að móta framtíðarsýnina bæði fyrir Höfn sem áfangastað og búsetukost. Fjölmargir þátttakendur tóku þátt í verkefninu þar sem var leitast við að sameinast um sérstöðuna auk þess sem lögð var áhersla á að sátt ríkti um hana á meðal ferðaþjónustuaðila og íbúa. Sameiginleg framtíðarsýn hópsins var að Höfn yrði „Eftirsóttur heilsárs áfangastaður og búsetukostur- sjávarþorp með fjölbreyttu atvinnulífi“ og megin niðurstaða stefnumótunarvinnunnar var að skilgreina Höfn sem heildstæða vöru þar sem helsta sérstaðan er talin vera humarinn, hafnarsvæðið, fólkið og nálægð byggðar við jökul. Umsjón með verkefninu var í höndum SASS og Ríkis Vatnajökuls og afhentu þær Fanney Björg Sveinsdóttir verkefnastjóri SASS og Árdís Erna Halldórsdóttir, fyrrum framkvæmdastjóri Ríkis Vatnajökuls,
Ljósmynd: Þorvarður Árnason
bæjarráði skýrsluna með þeim óskum að þær tillögur sem þar koma fram verði hafðar að leiðarljósi í þeim skipulags-, markaðs- og kynningarmálum er snúa að þéttbýlinu Höfn. Hægt er að nálgast skýrsluna á heimasíðu
sveitarfélagsins og stendur aðilum til boða að nota þær verkefnahugmyndir sem koma fram í henni. Árdís Erna Halldórsdóttir og Fanney Björg Sveinsdóttir
Samfélagsvefurinn www.hornafjordur.is