3 minute read

ÁVARP FRAMKVÆMDASTJÓRA

Við tókum stórt skref árið 2020 þegar við hófum innleiðingu á nýrri stefnu sem var sniðin að nútímasamfélagi með loforði okkar að leiðarljósi í allri ákvarðanatöku um að: „Það sem skiptir þig máli, skiptir okkur máli.“ Við vitum að velgengni til framtíðar mun ráðast af trausti og ímynd og markmið okkar hjá ELKO er að standa okkur gagnvart viðskiptavinum, starfsfólki, samstarfsaðilum og samfélaginu í heild.

Sem fyrirtæki berum við töluverða ábyrgð gagnvart viðskiptavinum okkar löngu eftir kaup þeirra á vörum og endurspeglast það einna helst í þeim tugþúsundum verkbeiðna á ári hverju sem eru tilkomnar vegna tækja sem þurfa skoðun, viðgerð eða ráðgjöf um notkun. Því er ekki að ástæðulausu að árið 2022 bar innra starf ELKO yfirskriftina „ár eftirkaupaþjónustu“. Í þeim málaflokki var stærsta verkefnið innleiðing á nýju þjónustupantanakerfi sem kemur til með að bæta þjónustu, draga úr sóun hjá fyrirtækinu og lengja líftíma tækja á markaðnum með öflugum viðgerðarferlum.

ELKO lagði á árinu mikla áherslu á mannauðinn og var verkefnið „Besti vinnustaðurinn“ tekið þriðja árið í röð. Niðurstöðurnar létu ekki á sér standa enda jókst ánægja starfsfólks úr 4,18 í 4,31 milli ára og fengum við viðurkenningu sem Fyrirtæki ársins hjá VR, í fyrsta skipti sem við tókum þátt. Því til viðbótar fengum við viðurkenningu „Jafnvægisvogar FKA“ fyrir jöfn kynjahlutföll stjórnenda sem og viðurkenningu frá CreditInfo fyrir „Framúrskarandi fyrirtæki“. Á árinu lögðum við mikla áherslu á þjálfun og fræðslu starfsfólks og sannaði nýtt stöðugildi þjálfunarstjóra sig með því að búa til öflugri ráðgjafa fyrir viðskiptavini ELKO. Þá var fræðslustarfið ekki eingöngu inn á við, heldur sneri það einnig að viðskiptavinum og almenningi. Á árinu var meðal annars haldin foreldrafræðsla um rafíþróttir og heilbrigða nálgun í notkun tölvuleikja.

Styrktarsjóður ELKO var tvöfaldaður á árinu og voru styrkt ótal skemmtileg verkefni, en umfangsmesta verkefnið var þegar ELKO gaf heimilistæki í hátt í 60 íbúðir sem standsettar voru fyrir flóttafólk frá Úkraínu.

Fjölmörg skref hafa verið stigin til að gera viðskiptavinum kleift að nýta stafræna tækni við kaup á raftækjum til að draga úr bílaumferð. Þar má helst nefna myndsímtal ELKO þar sem viðskiptavinir geta fengið persónulega þjónustu í rauntíma heima hjá sér í gegnum netið þar sem söluráðgjafi aðstoðar viðskiptavin, ber vörurnar rafrænt saman og setur þær í körfu fyrir viðskiptavin á elko.is. Dreifing hefur einnig þróast gríðarlega og dreifir ELKO í yfir 60 póstbox með póstinum, á yfir 70 afhendingarstaði í gegnum Dropp og keyrir beint heim að dyrum sé þess óskað. Öflugt dreifingarnet gerir ELKO kleift að minnka umferðarálag og nýta hagkvæmni stærðarinnar í útkeyrslum.

Dregið var úr prentun ELKO-blaðsins sem hefur verið stoð markaðsmála í gegnum árin og stefnum við að því að draga enn meira úr prentun árið 2023. Pappírslaus lánaviðskipti voru innleidd hjá fyrirtækinu á árinu og er reksturinn nú að mestu pappírslaus. Síðasta vígið verður unnið á þessu ári þegar við útrýmum afhendingarseðlum. Á árinu var svo gerð tilraun í Skeifunni með notkun auglýsingaskjáa í stað prentaðs efnis og gekk hún framar öllum vonum. Við stefnum því að því að innleiða skjái í allar ELKO-verslanir fljótlega.

Ráðist var í ítarlega naflaskoðun til að skoða hvernig ELKO gæti lagt sitt af mörkum í umhverfismálum til framtíðar. Í kjölfarið settum við fyrirtækinu ný langtímamarkmið sem skráð eru í nýrri umhverfisstefnu sem er kynnt til leiks í þessari skýrslu.

Áhersla er lögð á hringrásarhagkerfið þar sem við tökum þátt í og styðjum við verkefni til að lágmarka áhrif raftækjaúrgangs á Íslandi. Gerður var samstarfssamningur við Laufið og ráðist í að skoða hvaða grænu skref og lauf ELKO hafði þegar uppfyllt sem og að gera áætlun um hvaða skref yrðu sett í forgang. Úr þeirri vinnu urðu til ný skammtímamarkmið sem við settum okkur fyrir árið 2023.

Mikill árangur náðist með því að koma notuðum tækjum aftur í hringrásarhagkerfið en ELKO keypti yfir 4.000 tæki á árinu á móti 2.100 tækjum árið á undan. Þá fjölguðum við einnig flokkum tækja sem við tökum á móti. Við stóðum okkur betur í að flokka úrgang frá rekstri fyrirtækisins og drógum úr hlutfalli óflokkaðs úrgangs frá starfseminni.

Við í ELKO erum gríðarlega þakklát fyrir viðskiptavini okkar sem halda okkur á tánum og hvetja okkur til að bjóða betri þjónustu og sýna aukna samfélagslega ábyrgð. Eins erum við ótrúlega stolt af starfsfólki okkar sem hefur staðið sig eins og hetjur í krefjandi umhverfi með framúrskarandi þjónustu sinni.

Við ætlum að gera betur í samfélagsmálum enda snerta þau allt okkar umhverfi, inn á við sem og út á við. Sem traustir ráðgjafar í raftækjum ætlum við að hjálpa öllum að njóta ótrúlegrar tækni og gera líf viðskiptavina okkar betra, þægilegra og skemmtilegra.

This article is from: