4 minute read

Mímir

Next Article
Bilað skiptiborð

Bilað skiptiborð

Sigurlaug Lilja Jónasdóttir

Mímir er jötunn sem býr við rætur asks Yggdrasils. Mímir er sagður vitrastur allra jötna, tengdur við speki og spádómsgáfu og kenningar eru um að nafnið merki „hinn spaki“ eða „sá sem man“. Mímir er sagður eiga brunninn Mímisbrunn er spekt og mannvit er í fólgið. Sá brunnur liggur samkvæmt Snorra-Eddu undir þeirri rót asks Yggdrasils er til hrímþursa horfir, þar sem áður var Ginnungagap. Mímir og Mímisbrunnur hafa sterk tengsl við ask Yggdrasils á sama hátt og skapanornirnar þrjár við Urðarbrunn og Níðhöggur við brunninn Hvergelmi en öll eru þau og brunnarnir þrír við rætur trésins. Mímir er við rót asksins sem liggur í Jötunheimum en þótt hann sé jötunn þá virðist hann ekki beint vera óvinur ásanna og í sumum sögnum virðist þeim hafa verið vel til vina.

Advertisement

Mímir er í Snorra-Eddu sagður „fullur af vísindum“ því hann drekkur úr brunninum af horninu Gjallarhorni. Óðin þyrsti alltaf í meiri þekkingu og er sagður hafa heimsótt Mími og beðið um að fá að drekka úr Mímisbrunni til að öðlast visku en Mímir á að hafa neitað honum. Það var ekki fyrr en Óðinn lagði auga sitt að veði sem Mímir samþykkti að leyfa Óðni að drekka úr brunninum. Eftir það var Óðinn eineygður og augað er sagt liggja á botni brunnarins. Í 28. vísu Völuspár segir: Ein sat hún úti þá er inn aldni kom, yggjungur ása, og í augu leit: „Hvers fregnið mig? Hví freistið mín?“ Allt veit eg, Óðinn, Hvar þú auga falt, í inum mæra Mímisbrunni. Drekkur mjöð Mímir morgin hverjan af veði Valföðurs. Vituð ér enn — eða hvað?

Í vísunni er völvan að segja Óðni að hún viti að hann hafi gefið upp auga sitt til að fá að drekka úr brunninum og mörgum finnst hún gefa til kynna að henni þyki sopinn hafa verið dýr.

Þarna má kannski deila um hversu hlýtt var á milli Óðins og Mímis en í 4. kafla Ynglinga sögu, sem hægt er að finna í Heimskringlu Snorra Sturlusonar, er eiginlega talað um Mími eins og hann sé einn af ásunum eða í það minnsta samherji þeirra. Þar er Mímir kallaður „hinn vitrasti maður“. Frásögnin segir frá vanastríðinu þegar æsir og vanir börðust en lögðu að lokum á milli sín sáttastefnu og sömdu um frið. Þeir seldu þá gísla á milli. Vanir sendu Njörð og börn hans,

Kristín María - kristinmaria.com

Frey og Freyju, yfir til ása en æsir sendu Hæni og Mími yfir til vana. Æsir sögðu Hæni vel til höfðingja fallinn og þegar í Vanaheim var komið var hann gerður að höfðingja. Mímir kenndi honum öll ráð en þegar Hænir var fjarri Mími og vandamál voru lögð fyrir Hæni þá svaraði hann alltaf: „Ráði aðrir.“ Þá grunaði vani æsi um græsku og að þeir hefðu verið sviknir í mannakaupum. Það leit út fyrir að Hænir væri ekki eins mikið höfðingjaefni og gefið hafði verið til kynna og því tóku þeir Mími, hálshjuggu hann og sendu höfuðið ásum.

Óðinn tók þá höfuðið og smurði með jurtum, kvað galdra yfir og magnaði höfuðið upp þannig að það lifnaði við og sagði honum marga leyndardóma. Eftir það ráðfærði Óðinn sig gjarnan mikið við höfuð Mímis þegar mikið lá við og eitt viðurnefni Óðins er „Míms vinur“. Til að mynda notar Egill Skallagrímsson „Míms vinr“ þegar hann talar um Óðin í sínu þekktasta ljóði, Sonatorreki. Við ragnarök er Óðinn sagður ríða til Mímisbrunns og ráðgast við Mími áður en hann og aðrir æsir hervæða sig og sækja fram í sinn síðasta bardaga. Í 53. vísu Völuspár segir:

Hátt blæs Heimdallur, horn er á lofti, mælir Óðinn við Míms höfuð. Skelfur Yggdrasils askur standandi, ymur ið aldna tré, en jötunn losnar.

Kristín María — kristinmaria.com

Nafnið Mímir má víða sjá í ýmsum kenningum. Í Skáldskaparmálum eru talin upp bæði „hregg-Mímir“ og „vet-Mímir“ sem kenningar eða heiti á himninum. Í íslenskri orðsifjabók stendur: „hreggmímir k. † nafn á neðsta himni (í þulum). Af hregg og Mímir jötunheiti, sbr. Hoddmímir og vettmímir. Sjá hodd og vetminnir.“ Staðurinn Hoddmímisholt kemur fram í Vafþrúðnismálum en Vafþrúðnir kvað í 45. erindi:

„Líf og Lífþrasir, en þau leynast munu í holti Hoddmímis. Morgindöggvar þau sér að mat hafa, þaðan af aldir alast.“

Vafþrúðnir er þarna að lýsa eftirmálum ragnaraka en Óðinn spyr í vísunni á undan hvaða menn muni lifa af hinn mikla fimbulvetur. Samkvæmt Gylfaginningu virðast Líf og Lífþrasir lifa af Surtarloga, sem brennir heiminn í ragnarökum, með því að fela sig í Hoddmímisholti. Hodd þýðir fjársjóður, gull eða geymslustaður helgra minja og holt þýddi í fornu máli skógur. Flestir draga þá ályktun að Hoddmímisholt sé í raun heiti á aski Yggdrasils. Í Fjölvinnsmálum er Mímameiðr einnig notað sem heiti yfir ask Yggdrasils. Mímir virðist því vera mikið tengdur við lífsins tré enda sagður búa undir einni rót trésins, við Mímisbrunn.

Mímir hefur verið vel þekkt tákn visku og fræða og sögurnar um bæði Mímisbrunn og Mími sjálfan það vel þekktar að skáld hafa notað Mími í ýmsar kenningar, til dæmis á Óðni, aski Yggdrasils og himninum. Mímisbrunnur er enn í dag þekktur fyrir að vera viskubrunnur og flestallir Íslendingar hafa heyrt um Mími og tengja hann við visku og þekkingu.

Heimildir

Egils saga Skallagrímssonar. Ritstjóri: Sigurður Nordal. Íslenzk fornrit II. Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag, 1933. Íslensk orðsifjabók. Ritstjóri: Ásgeir Blöndal Magnússon. Reykjavík: JPV, 1989. Ólafur Briem. Norræn goðafræði. Reykjavík: Iðunn, 1940. Snorri Sturluson. Gylfaginning. Í: Snorra-Edda. Heimir Pálsson bjó til prentunar. Reykjavík: Mál og menning, 1984: 15–78. Snorri Sturluson. Skáldskaparmál. Í: Snorra-Edda. Heimir Pálsson bjó til prentunar. Reykjavík: Mál og menning, 1984: 79–204. Snorri Sturluson. Ynglinga saga. Í: Heimskringla I. Ritstjóri: Bjarni Aðalbjarnarson. Íslenzk fornrit XXVI. Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag, 1941: 9–83. Vafþrúðnismál. Í Eddukvæðum. Gísli Sigurðsson bjó til prentunar. Reykjavík: Íslensku bókaklúbbarnir, 2001: 57–70.

This article is from: