3 minute read

Sjómenn eru máttarstólpi í velgengni sjávarútvegs

að er áhugavert fyrir okkur í sjávarútveginum að velta því fyrir okkur hver ímynd atvinnugreinarinnar er meðal almennings og hvernig hún passar við raunveruleikann. Við höfum vissulega vanist því að þurfa að standa fyrir máli okkar og útskýra hvernig við teljum farsælast að nálgast málin í þessari merkilegu starfsemi. Það hefur ekki alltaf skilað sér á áfangastað en við höldum áfram að reyna.

Það voru því vonbrigði þegar niðurstaða í skoðanakönnun, í tengslum við vinnu matvælaráðuneytis um framtíðarstefnu í sjávarútvegi, sýndi að til er fólk sem telur að íslenskur sjávarútvegur sé gamaldags, staðnaður og mengandi. Þetta er ekki stór hópur, en það kemur okkar á óvart að til sé fólk sem skuli sjá þessa grein með þessum hætti.

Það sem einhver gæti óttast er að kannanir sem þessar verði til þess að breytingar verði gerðar á kerfi sem hefur sannað sig og þjóðir heims líta til sem fyrirmyndarkerfis. Kerfi sem hefur tryggt íslenskri þjóð betri árangur í sjávarútvegi en nokkurri annarri þjóð hefur tekist og gert það að verkum að litið er til íslensks sjávarútvegs með aðdáun og virðingu. Kannski þurfum við ekkert að óttast, en við höfum lært það á langri leið að þegar kemur að pólitískum afskiptum er ekki á vísan á róa.

Auðlindin okkar er verkefni sem sett var á laggirnar af hálfu matvælaráðherra til að vinna að „sátt“ um sjávarútveg. Það er út af fyrir sig gott og blessað. En við vitum líka að þeir eru til sem verða aldrei sáttir við að neitt. Þeirra ósk virðist einna helst vera sú að fara aftur í gömul og úrelt kerfi eða flækja það kerfi sem við búum við á þann hátt að það verður óvinnandi vegur að hreyfa sig innan þess. Það viljum við skiljanlega ekki. Ástæðan er einföld. Við höfum náð árangri og þeim árangri viljum við halda.

Sjávarútvegur er ekki einföld grein. Aðstæður hér á norðurslóðum eru erfiðar. Þrátt fyrir það hefur okkur tekist í sameiningu að búa til grein sem er máttarstólpi íslensks samfélags. Það er einkenni sjávarútvegsins að geta lagað sig að breyttum aðstæðum. Mæta skerðingum á afla, óblíðum náttúruöflum, erlendri samkeppni, óstöðugunum mörkuðum og stundum ósanngjarnri umræðu. Það er hins vegar ef til vill áhyggjumál að sum af þeim vandamálum sem við þurfum að eiga við eru heimatilbúin. Það er sífellt sótt að íslenskum sjávarútvegi með kröfum sem aðrar þjóðir eiga ekki að venjast.

Við megum ekki gleyma því að við höfum náð meiri árangri í þessari grein heldur en nokkur annar. Þegar horft er til þeirra þjóða sem við viljum bera okkur saman við erum við á allt öðrum stað. Okkur hefur tekist að halda uppi öflugri atvinnugrein, með mikilli atvinnuþátttöku og hæstu launum sem þekkjast í þessari grein. Við megum heldur ekki gleyma því að þetta gerum við án styrkja frá hinu opinbera, eins og tíðkast víða í þeim löndum sem keppum við á erlendum mörkuðum. Árangur okkar er ekki síst merkilegur í ljósi smæðar okkar. Hafi einhver verið í vafa þá hefði sá hinn sami séð það greinilega á sjávarútvegssýningunni í Barcelona á dögunum. Þar hefði allur íslenski geirinn getað komið sér fyrir inni í básum nokkurra stærstu fyrirtækja heims.

En íslenskur sjávarútvegur er ekkert venjulegur. Staðreyndin er sú að fáar ef nokkrar greinar, hafa tekið tæknina jafn duglega í sína þágu og náð að nýta hana jafn vel til að bæta framleiðslu sína, gera hana hagkvæmari og betri og á sama tíma tekist að draga verulega úr áhrifum sínum á umhverfi.

Sjómenn hafa þarna heldur betur lagt hönd á plóg. Sem dæmi má nefna að Íslendingar hafa tekið afgerandi forystu í endurvinnslu veiðarfæra. Stefnt er að því að 80% veiðarfæra, sem unnt er að endurvinna, fari til endurvinnslu á meðan þjóðir Evrópusambandsins eru varla byrjaðar. Þetta átak eigum við ekki síst sjómönnum að þakka, sem hafa gætt þess að netin haldi þeim eiginleikum að þau séu fýsileg til endurvinnslu og sjá um að ganga frá þeim á réttan hátt.

Það sama á við um kolefnislosun flotans. Með ýmsum leiðum hefur dregið verulega úr losun. Skipin nýta orku betur, landtengingum fjölgar og horft er til orkunýtingar í öllum hlutum veiða og vinnslu. Líklega hefur engin grein náð jafn góðum árangri í þeim málum og sjávarútvegur.

Allt er þetta gert til að gera íslenskan sjávarútveg betri, nútímalegri og hreinni. Það hefur tekist svo eftir hefur verið tekið. Í erlendum fagtímaritum er talað um Ísland af virðingu þegar kemur að sjávarútvegi og íslenskt hráefni þykir almennt með því besta í heimi.

Sjómenn geta verið stoltir af því hvernig þeim hefur gengið að takast á við erfiðar aðstæður og ná því besta út úr atvinnugrein sem bæði er erfið og krefjandi. Þó að gjörbylting hafi orðið á aðstæðum til sjós myndi enginn kalla þetta auðvelt starf. Ekki frekar en sá hluti starfsins sem krefst fjarveru frá ástvinum sínum í lengri tíma. Án íslenskra sjómanna værum við ekki á þeim stað sem við erum í dag.

Sjómenn! Til hamingju með daginn!