1 minute read

Fimm ný björgunarskip

Á landsþingi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, sem haldið var á Akureyri 12-13 maí, tilkynnti Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra að ríkisstjórnin hafi samþykkt að koma að fjármögnun fimm nýrra björgunarskipa, og skrifaði í kjölfarið undir samning þess efnis við Otta Rafn Sigmarsson, formann Slysavarnafélagsins Landsbjargar, undir dynjandi lófataki landsþingsfulltrúa.

Í samtali við Sjávarafl segir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, að þegar hafi verið samið um smíði þriggja nýrra skipa „ tvö þeirra hafa þegar verið afhent, annað fór til Vestmannaeyja og hitt til Siglufjarðar. Von er á því þriðja í haust, en það mun eiga heimahöfn í Reykjavík. „Þessi samningur er mikilvægt skref í því risastóra verkefni að endurnýja öll þrettán björgunarskip félagsins, en samningurinn tryggir fjármögnun ríkisins á um helming af smíðaverði næstu fimm skipa.“ Nýju björgunarskipin tvö sem komin eru í notkun, hafa þegar sannað notagildi sitt í styttu viðbragði, enda ganghraði talsvert meiri en þeirra skipa sem fyrir eru, og flest eru komin vel á fertugsaldurinn. „Þetta er langstærsta einstaka fjárfestingaverkefni Slysavarnafélagsins Landsbjargar, en þó þessi samningur sé í höfn, vantar enn talsvert upp á að sjái til lands með fjármögnun allra skipanna. Við höfum verið að leita til fjölda aðila, meðal annars útgerða, um aðkomu að verkefninu, og vonumst að sjálfsögðu eftir því að útgerðin sjái sér hag í því að styrkja þetta verkefni, öllum sjófarendum til heilla.“