3 minute read

Einstök tækifæri í sjávarútvegsfræði og líftækni

Við Auðlindadeild Háskólans á Akureyri er lögð rík áhersla á nám og rannsóknir í tengslum við sjálfbæra og arðbæra nýtingu náttúruauðlinda. Með þetta að leiðarljósi er boðið upp á hagnýtt viðskipta- og raunvísindatengt nám í líftækni, sjávarútvegsfræði og auðlindafræði. Háskólinn á Akureyri er eini háskólinn á landinu sem býður upp á nám til BS-prófs í sjávarútvegsfræði og líftækni. Hér verður púlsinn tekinn á stúdentum sem stunda þetta einstaka nám við HA.

Mikil nánd ríkir í sjávarútvegsfræðinni Guðdís Benný Eiríksdóttir er Eskfirðingur, fædd árið 2000. Fyrstu kynni hennar af sjávarútveginum voru árið 2020 þegar hún hóf störf í laxeldi auk þess sem hún stundaði nám í fiskeldisfræði við Háskólann á Hólum. Guðdís lauk diplómu frá Hólum árið 2021 og hélt þá í Háskólann á Akureyri þar sem hún stundar nú nám í sjávarútvegsfræði. „Námið er fjölbreytt og krefjandi en það skemmtilegasta við námið eru samnemendur mínir og kennararnir. Mikil nánd ríkir í þessu námi, sem gerir það svo gott og einstakt,“ segir Guðdís sem var að ljúka sínu öðru ári.

Samhliða náminu starfar Guðdís um helgar í ILVU á Akureyri. „Ég ákvað að vinna ekkert með fyrsta árinu mínu en finna mér svo helgarvinnu með á öðru ári. Þannig er komin smá fjölbreytni í það sem ég geri samhliða náminu ásamt því að fara á crossfit-æfingar og skreppa austur í heimsókn til fjölskyldunnar og fara á hestbak,“ segir Guðdís.

Guðdís segist gjarnan vera spurð að því hvernig sé að vera kona í karllægu umhverfi: „Ég hef ekkert nema gott um það að segja. Kannski spilar það inn í hversu mikið sjálfstraust ég er með og að ég vinn bæði vel ein og í hóp, sama með hvaða kyni það er. Svo tel ég einnig að þessi heimur sé að breytast mikið og hratt,“ útskýrir Guðdís.

Með betri ákvörðunum sem ég hef tekið Það er ekkert ákveðið draumastarf sem Guðdís stefnir á að námi loknu. „Ég er að skoða þá valmöguleika sem eru í boði á meðan náminu stendur. Í því felst að fara í vísindaferðir þar sem ýmiss konar fyrirtæki eru skoðuð ásamt því að taka þátt í viðburðum líkt og Sjávarútvegsráðstefnunni. Þá fór stúdentahópurinn minn í ferð til Tromsø í Noregi þar sem við heimsóttum háskólann á svæðinu og skoðuðum fjölbreytt fyrirtæki. Það að hefja nám í sjávarútvegsfræði er með betri ákvörðunum sem ég hef tekið,“ segir Guðdís að lokum.

Líftæknin gríðarlega fjölbreytt og spennandi

Fanney Gunnarsdóttir er uppalin í Fljótum í Skagafirði þar sem foreldrar hennar voru bændur. Árið 2015 útskrifaðist hún frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti, af snyrtifræðibraut. Síðan þá hefur Fanney starfað sem snyrtifræðingur og hefur hún einnig sinnt því samhliða náminu. „Í snyrtifræðinni lærir maður mikið um húðvörur, innihaldsefni, virkni og framleiðslu þeirra en þetta kveikti allt áhuga minn á að kafa dýpra og skoða hvað hægt er að gera með íslenskar auðlindir. Það varð til þess að ég sló til og sótti um í líftækni við Háskólann á Akureyri,“ útskýrir Fanney, sem var að ljúka sínu öðru námsári.

Aðspurð hvað standi upp úr í líftækninni segir Fanney: „Það sem er svo skemmtilegt og kom mér kannski mest á óvart er hvað líftæknin er gríðarlega fjölbreytt og spennandi. Þá eru möguleikarnir á að fylgja áhugasviði hvers og eins mjög miklir og það skiptir sköpum.“

Þú þarft að brenna fyrir lausnum Háskólinn á Akureyri er, sem áður segir, eini háskólinn á landinu sem býður upp á nám til BS- prófs í líftækni. En fyrir hverja er líftækni? „Ég myndi segja líftæknin sé nám sem hentar breiðum hópi fólks sem á það sameiginlegt að vera lausnamiðað og brenna fyrir lausnum jafnt í umhverfis- og heilbrigðismálum,“ útskýrir Fanney.

Um draumastarfið segir Fanney: „Í dag heillast ég mikið af heilbrigðislíftækni, erfðafræði mannsins og þeim tækifærum sem eru fólgin í notkun líftækninnar til lækninga og ég sé fyrir mér að starfa eitthvað á þeim vettvangi í framtíðinni. Draumurinn er að fá að starfa og vaxa með öflugu líftæknifyrirtæki hérna fyrir norðan í framtíðinni.“

Öflugur hópur stúdenta

Fanney er forseti Stafnbúa, félags stúdenta við Auðlindadeild Háskólans á Akureyri, og situr í stúdentaráði Stúdentafélags Háskólans á Akureyri (SHA). Stafnbúi leggur mikið upp úr því að efla félagslíf stúdenta við Auðlindadeild og tengja þá við atvinnulífið. „Stúdentar í líftækni og sjávarútvegsfræði eru öflugur og þéttur hópur og það er alltaf nóg um að vera hjá okkur. Við leggjum okkur fram við að efla tengslanet stúdenta og erum því með fjölbreytta viðburði yfir skólaárið. Þá leggjum við einnig ríka áherslu á tengsl við atvinnulífið og förum í fjölbreyttar og spennandi vísindaferðir, sem hafa í gegnum tíðina opnað dyr margra inn í atvinnulífið að námi loknu. Þá er félagslífið í HA heilt yfir einstakt og SHA, ásamt aðildarfélögum þess, stendur fyrir fjölbreyttum og einstökum viðburðum allt skólaárið, sem gerir það að verkum að þú kynnist stúdentum í ólíkum námsleiðum,“ segir Fanney að lokum.

Stúdentar í Auðlindadeild kynna námið á Opnum dögum í HA. Ljósmynd/Aðsend