1 minute read

Meiri kolmunni en undanfarin ár

Skipin koma hvert af öðru til löndunar, en mokveiði hefur verið á kolmunnamiðunum í færeysku lögsögunni. Þá er Börkur NK á leið til Seyðisfjarðar með 3.200 tonn að sögn Hjörvars Hjálmarssonar skipstjóra á Berki „Veiðiferðin gekk vel. Aflinn fékkst í sex holum og var það stærsta 650 tonn.

Það var ekki lengi dregið eða allt niður í fimm tíma. Í sannleika sagt var mokveiði eins og oft hefur verið að undanförnu. Það er ekki hægt að kvarta þegar skipin eru að fá yfir 1.000 tonn á sólarhring.

Staðreyndin er sú að það er miklu meiri kolmunni á ferðinni en verið hefur undanfarin ár. Að þessu sinni vorum við að veiða í Ræsinu vestan við Færeyjar og við fylltum áður en fiskurinn gekk inn í lokað hólf. Þegar fiskurinn gekk inn í hólfið færðu skipin sig austur fyrir eyjarnar en það voru aflafréttir þaðan. Nú er farið að síga á seinni hluta vertíðarinnar en það verður spennandi að fylgjast með hvort kolmunninn gengur ekki í verulegum mæli inn í íslenska lögsögu. Ef á að veiða hann í íslenskri lögsögu þarf einhver kvóti að vera eftir en fiskurinn verður feitari og betri þegar hann veiðist þar. Menn hljóta að vera afar ánægðir með kolmunnaveiðina að undanförnu, skipin hafa fiskað vel og veður hefur verið afar gott. Það er ekki undan mörgu að kvarta,“ segir Hjörvar. (birt: 11. maí 2023 af vef Síldarvinnslunar)