1 minute read

Starfsþjálfun á sjó – nýr vinkill fyrir nemendur í Skipstjórn og Vélstjórn

Fram undan eru margþættar áskoranir fyrir sjávarútveg og skipafélög. Áskoranirnar sem fagfólk í greininni standa frammi fyrir eru margþættar og flóknar, orkuskipti, hnattvæðing, þvermenningarleg tengsl og hraðar tæknibreytingar svo eitthvað sé nefnt.

Menntun skipstjóra og vélstjóra er síst minni áskorun og mikilvæg svo fagfólk framtíðarinnar sé undirbúið að mæta þessum verkefnum. En hvaða leið á að fara, hvaða kennsluaðferðum á að beita og hvar eiga áherslunnar að liggja ? Þetta eru skemmtilegar og flóknar áskoranir sem við í fagskólunum tökumst á við með hagsmunaaðilum til að tryggja nemendum okkar gæði í menntun. En það þarf meira til, það þarf einnig að brúa bilið milli menntunar og þjálfunar til þess að skapa framtíðarsérfræðinga og samþætta faglega færni með haldbærri menntun.

Fram til dagsins í dag hefur þessi þjálfun fengist með svokölluðum sjótíma, það eru skráðir tímar á sjó í ýmsum störfum jafnvel ótengdum náminu, í nágrannalöndum okkar hefur þessi þjálfun hins vegar færst í að vera hluti af náminu og nemandinn því sem nemi á skipinu í því starfi sem hann er að læra. Nám í skóla er góður grunnur en ef þú vilt læra að sigla verður þú á einhverjum tímapunkti að fara um borð í skip og fá hagnýta reynslu.

Alþjóðadagur

Starfsþjálfunarleiðin er samstarf Tækniskólans, SFS og SVÞ. Námssamningur er gerður á milli nemandans, Tækniskólans og þeirrar útgerðar/skipafélags sem nemandi siglir með. Fyrirkomulagið er samkvæmt reglugerð IMO og STCW samþykktinni og styttir námstímann í samanburði við fyrra fyrirkomulag en tryggir hins vegar nemandanum að hann fái gæða þjálfun á þessum tíma sem fyrra fyrirkomulag gerði ekki.

Kerfið byggir á því að leiðbeina og kenna nemendunum undirstöðuatriði greinanna á skipulagðan hátt af reynslumiklum fagmönnum um borð í skipunum. Við kennsluna er notuð ferlibók til að tryggja að nemandinn komi að þeim atriðum sem hann þarf að þjálfa og læra. Leiðbeinendur um borð í skipunum sækja námskeið hjá Tækniskólanum til þess að undirbúa sig fyrir þetta mikilvæga hlutverk, að leiðbeina og þjálfa fagfólk framtíðarinnar.

Það er enginn vafi að starfsþjálfun sem hluti af námi eykur gæði og yfirfærslu frá bóknámi í verknám og þeir starfsnáms möguleikar sem hún veitir muni auka vinsældir námsins.

Ég hvet nemendur Skipstjórnar- og Véltækniskólans ásamt skipaútgerðum landsins til að kynna sér starfsþjálfunarleiðina, hún er frábært tækifæri fyrir alla aðila sem býður upp á aukin gæði og styttingu siglingatíma og skilar nemandann fyrr og betur undirbúnum á atvinnumarkaðinn.