4 minute read

Loðna, Covid, kerfið og framtíðin

Heiðrún Lind Marteinsdóttir

framkvæmdastjóri SFS

Loðna, Covid, kerfið og framtíðin

Loðnan. Það er fyrsta orðið sem kemur í hugann, þegar færður skal til bókar annáll íslensks sjávarútvegs fyrir árið 2021. Ekki eingöngu vegna þess að hennar hefur verið beðið með nokkurri óþreyju, heldur er hún undirstaða í fæðukeðju annarra nytjafiska við Ísland, eins og til dæmis þorsks. Það má því vænta þess að viðkoma þeirra tegunda verði með ágætum og vonandi ganga vonir manna eftir um góða loðnuvertíð. En kvótinn sem kemur í hlut Íslands er á sjöunda hundrað þúsund tonn. Magnið segir þó fjarri því alla söguna. Takmarkað framboð leiðir til hærra verðs, mikið framboð af afurðum mun vafalítið lækka verðið. En hvernig sem fer er mikils um vert að loðnan skuli nú finnast í viðlíka magni og raunin varð.

Þorskurinn þrautseigur

Tíðindi af þorski í ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um hámarsksafla voru síður ánægjuleg. Um 13% samdrátt var að ræða á milli fiskveiðiára, en lögð voru til 223.000 tonn fiskveiðiárið 21/22 eða 34.000 tonnum minna

en fiskveiðiárið 20/21. Samdrátturinn bættist ofan á 6% samdrátt á milli fiskveiðiáranna 19/20 og 20/21. Til að setja þennan samdrátt í samhengi, er þetta jafnvirði veiða í 1-2 mánuði. Í hönd hefur því farið erfitt tímabil hvað þorskveiðar varðar og það þarf að stíga ölduna. Ekki má gleyma því að þorskstofninn er eftir sem áður sterkur, við sýnum ábyrgð með því að taka á vandanum og atvinnugreinin stendur nokkuð sterk fjárhagslega. Flestum verður vonandi ljóst hversu mikils virði það er að eiga öflug

fyrirtæki þegar viðlíka öldudalir mæta okkur.

Í gegnum kófið

Árið verður þó í hugum flestra minnisstætt vegna COVID-19 og því verður vart hjá því komist að ræða hvernig íslenskur sjávarútvegur komst í gegnum þá raun alla. Íslenskum sjávarútvegi tókst að komast í gegnum kófið í fyrra, þrátt fyrir ýmsa hnökra. Á þessu ári tókst að halda í horfinu og útlitið batnaði svo með hverjum mánuði sem leið. Á Sjávarútvegsdeginum sem haldin var í október kom berlega í ljós hverju íslenskur sjávarútvegur áorkaði í fyrra. Heildartekjur hans voru örlítið hærri en árið 2019, framlegð nánast sú sama, en hagnaðurinn mun minni. Þetta leiðir hugann að því; hvað veldur því að sjávarútvegur kemst svona vel frá erfiðum hindrunum, eins og þeim sem urðu á vegi hans?

Kerfið virkar

Sennilega er augljósasta svarið; fólk vill fisk í matinn! Það svar er þó ekki alveg fullnægjandi, því þótt fólk vilji gjarnan fisk á sinn disk, þá þarf fiskurinn að vera í boði, þegar fólk langar í hann. Þá kemur að því sem miklu skiptir, en það er sveigjanleiki þess kerfis sem Íslendingar hafa komið sér upp. Sem sagt, fiskveiðistjórnunarkerfið. Innan þess er hægt að stilla af framboð í samræmi við eftirspurn. Þá er hægt að haga veiðum í samræmi við það. Þegar dró úr spurn eftir fiski í upphafi COVID fór meira af fiski í frost og salt. Það breyttist eftir því sem flutningar komust í eðlilegra ástand. Íslenska kerfið er þannig vaxið að þar er virðiskeðjan oft óslitin. Það þýðir að sami aðili veiðir fiskinn, verkar hann, sér um flutning og kemur honum til kaupanda. Það er þessi hluti kerfisins sem var ómetanlegur á erfiðum tímum. Án þessa sveigjanleika hefðu líklega mikil verðmæti farið fyrir ofan garð og neðan, með tilheyrandi tapi.

Samkeppnishæfni; gæði ekki magn

úr sjó er dregið. Og það á að sjálfsögðu við á öllum sviðum þar sem samkeppni ríkir. Samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs byggist ekki á magni heldur gæðum. Þá er það staðreynd að laun á Íslandi eru með þeim hæstu í sjávarútvegi í heiminum. Það er að sjálfsögðu jákvætt, þannig á það að vera. Sumar samkeppnisþjóðir okkar senda mikið af óunnum fiski til vinnslu í öðrum löndum og flytja svo afurðirnar á markað. Til dæmis er mikið af fiski sent frá Noregi til Kína og svo aftur til baka á markað í Evrópu. Því verður ekki til vinna við vinnslu fisksins í Noregi og kolefnissporið af þessum flutningum er stórt. Hér á landi hafa fyrirtæki reynt að hafa virðiskeðjuna alla á sinni hendi, eins og áður var nefnt. Því er langmest af fiskinum unnin hér á landi og síðan sendur beint á markað. Til þess að standast samkeppni við ódýrt vinnuafl, víða um heim, þarf sífellt að fjárfesta í nýjustu tækni. Störfin í fiskvinnslu hafa sum hver breyst í hátæknistörf, þótt vissulega sé þar eftir mikil handavinna. Með því að hafa órofna virðiskeðju og öfluga fjárfestingu hafa íslensk sjávarútvegsfyrirtæki haldið sínu á kröfuhörðum alþjóðlegum markaði. Hafa ber í huga að um 98% af íslensku sjávarfangi er seld úr landi. Því er til mikils að vinna að tryggja stöðu fyrirtækjanna, frekar en að setja fyrirsjáanleika þeirra reglulega í uppnám.

Umræða óskast

Það leiðir hugann að stefnumörkun í sjávarútvegi. Hvað vilja Íslendingar með sinn sjávarútveg, hvaða verðmæti ætlar þessi þjóð að gera úr sjávarauðlindinni til næstu ára og áratuga? Hvernig á að tryggja verðmætasköpun, framþróun og framlag til hagvaxtar – framlag til hagsældar? Stjórnvöld hafa einfaldlega skilað auðu í gegnum árin – og það er ekki við einn stjórnmálaflokk eða eina ríkisstjórn umfram aðra að sakast. Þarna er verk að vinna. Það væri óskandi að á nýju ári verðir tekin innihaldsrík umræða um þetta, svo fyrirtækin geti horft til framtíðar; í öllu falli ögn lengra en fram að næstu kosningum.