3 minute read

Menntun er lykilinn að framtíðinni

Helga Kristín Kolbeins

skólameistari Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum

Menntun er lykilinn að framtíðinni

Allt frá stofnun Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum árið 1979 hefur skólinn útskrifað nemendur af ólíkum brautum með margvísleg réttindi; vélstjóra, skipstjórnarmenn, iðnaðarmenn, sjúkraliða og stúdenta. Margt hefur breyst á þessum rúmlega 40 árum sem skólinn hefur starfað og jafnframt verða samfélagsbreytingar sífellt hraðari. Við vitum að skóli framtíðarinnar rétt eins og atvinnulífið verður með öðru móti en við þekkjum í dag. En megin markmið Framhaldsskólans mun ekki breytast, að veita nemendum menntun sem samtímis er sniðin að þörfum nemenda og atvinnulífs, auðgar líf einstaklinganna, eflir samfélagið og starfsemi og nám mótist af persónulegum tengslum ásamt virðingu fyrir samfélagi og umhverfi. Menntun í sjávarútvegi hefur aðallega mótast af hugmyndinni um skipstjórnar- og vélstjórnarmenntun ásamt því að fólk þarf að vera til taks sem kann að vinna aflann og koma honum í verð. Við þurfum enn á öllum þessum einstaklingum á að halda, en hvað þeir þurfa að hafa til brunns að bera hefur breyst og á eftir að breytast mun meira og hafa skólarnir þegar tekið mið af því. Mikil tæknivæðing hefur átt sér stað við veiðar og vinnslu. Skipin hafa breyst og mun meiri kröfur eru um betri umgengi við náttúrunna. Einstaklingar sem eru að hefja nám í dag þurfa að læra að afla sér víðtækrar þekkingar á mörgum sviðum, hæfni til að leysa flókin og skapandi verkefni og þurfa að vera gagnrýnir í hugsun. Við gerum þá kröfu til náms, sem nemendur Framhaldsskólans leggja stund á, að það skili þeim færni, leikni og fagþekkingu. Að námið endist lengi og það sé ætíð hægt að bæta við sig meira námi sama hvaða námsleið er valin í byrjun. Þannig fái einstaklingurinn enn meiri færni. Áhersla er á að sú þekking sem nemandi öðlast í námi yfirfærist á framtíðaraðstæður og sé hagnýt, þannig að einstaklingurinn hafi skilning á hvernig og við hvaða aðstæður hann geti nýtt sér þekkingu sína nú og til framtíðar. Með markvissri kennslu, miklum en raunsæjum kröfum og öguðum vinnubrögðum leitast skólinn við að efla gagnrýna hugsun og frumkvæði ásamt ábyrgðarkennd, umburðarlyndi og víðsýni. Skólinn eflir sjálfstraust nemendanna með því að gera þeim ljóst sambandið milli árangurs og erfiðis. Í náminu læra nemendur að bera ábyrgð á eigin námi, vinna sjálfstætt jafnt og í hópi með öðrum. Með fræðslu, kröfum og leiðsögn vill skólinn efla þekkingarleit nemenda og gera þá virka og áhugasama um áframhaldandi menntun. Með þjálfun menningar- og upplýsingalæsis leggur skólinn grunn að öflugri sköpun innan margvíslegra fræðigreina, um leið og heilbrigð dómgreind, víðsýni og verðmætamat nemenda er efld. Viðbótarnám til stúdentsprófs er námsleið sem sífellt fleiri velja, en þá bætir nemandinn við sig námi að loknu viðurkenndu starfsréttindanámi og fær stúdentspróf. Þó að starfsréttindanám veiti aðgengi að háskólum þá er ráðlegt að bæta aðeins við sig með hliðsjón að inntökuskilyrðum háskólanna og eru þá fleiri leiðir opnar fyrir nemendurna til að bæta við námi og þróa sig í takt við umhverfið. Það felast mikil tækifæri í að stunda nám í dag og við vitum sífellt meira með rannsóknum um hvernig nám á sér stað hjá einstaklingum. Það er því lögð áhersla á fjölbreyttari leiðir til náms og fleiri skilningarvit eru virkjuð. Nám er sveigjanlegra og nemendur hafa meira svigrúm til að skipuleggja tímann sinn út frá eigin þörfum. Skólinn leggur áherslu á að búa nemendur undir framtíðina með virkri þátttöku í þjóðfélaginu og þannig að efla ábyrgðarkennd þeirra gagnvart samferðafólki sínu og samfélagi. Við óskum landsmönnum öllum gleðilegra jóla og fengsæls nýs árs bæði til sjávar og uppbyggilegu námi til framtíðar.