10 minute read

Að fæða heiminn til framtíðar

Undirbúningur fyrir sjóferð við Filippseyjar

Samstarfsverkefni Matís, Utanríkisráðuneytisins og Alþjóðabankans

Gunnar Þórðarson, svæðisstjóri Matís á Ísafirði er höfundur greinarinnar

Matís tók þátt í tveimur samstarfsverkefnum á vegum Alþjóðabankans og Utanríkisráðuneytisins þar sem markmiðið var að veita ráðgjöf og aðgang að sérfræðiþekkingu Íslendinga á matvælaöryggi, fiskveiðistjórnun og eldi í sjó. Annars vegar var farið til Filippseyja og var hlutverk fulltrúa Matís í þeirri ferð að styðja við tillögur Alþjóðabankans um uppbyggingu á eldi í sjó, með sérstaka áherslu á ræktun á þangi. Hins vegar var farið til Indónesíu með það að markmiði að aðstoða þarlend yfirvöld við sjálfbæra fiskveiðistjórnun og tillögur varðandi fiskeldi ásamt því að auka verðmætasköpun og útflutning á eldisafurðum frá Indónesíu.

Ræktun á þangi á Filippseyjum

Filippseyjar eru þriðju mestu ræktendur á þangi í heiminum, næstir á eftir Kína og Indónesíu, og rækta um 1,5 milljónir tonna á ári. Megin hluti þessarar ræktunar er notað sem hráefni í carageenens framleiðslu, sem fer síðan í útflutning og meðal annars notað til framleiðslu á matvælum. Ræktun á þangi er mikilvæg fyrir efnahag landsins og afkomu fólks, en um ein milljón manna hafa lifibrauð af atvinnugreininni. Ræktunin er þó frumstæð og bændur búa við mikla fátækt og óvissu. Hver fjölskylda ræktar þara á svæði sem er um hálfur til einn hektari, og fer ræktunin aðalega fram á grunnsævi til að bændur geti athafnað sig án þess að nota báta. Það eru margskonar ógnir sem bændur búa við, stormar geta lagt ræktunina í rúst og breytingar á hitastigi sjávar eða seltustigi geta valdið sjúkdómum sem eyðileggja uppskeruna. Bændur hafa ekkert borð fyrir báru, og þó að þeir geti náð 4-6 uppskerum á ári, þarf ekki marga bresti til að þeir hafi ekki efni á að kaupa nýjan búnað eða græðlinga og þá er ræktunin sjálfstopp og fjölskyldan án lífsviðurværis.

Að bjarga heiminum

Í skýrslu sem Alþjóðabankinn gaf út fyrir skömmu er dregin upp mynd af því sem mögulega væri hægt að gera til að auka ræktun á þangi í hitabeltinu, svolítið eins í fullkomnum heimi. Þar kemur fram að fram til ársins 2050 þarf að auka heimsframleiðslu á próteini um 50 – 70% til að fullnægja fæðuþörf jarðarbúa. Það verður varla gert

með hefðbundnum landbúnaði sem er í dag ein helsta uppspretta gróðurhúsaloftegunda og neikvæðra umhverfisáhrifa og hreinlega ekkert pláss til ræktunar. Mikil tækifæri liggja hins vegar í ræktun í sjó sem jafnframt hefði jákvæð áhrif á lífríki jarðar. Ef ræktun á þara ykist um 14% á ári gæti framleiðslan á þurrvigt orðið 500 milljón tonn árið 2050. Ef tekið er til greina þær miklu framfarir sem hafa orðið á búnaði til ræktunar, þekkingu og tæknilegum lausnum sem liggja fyrir, ætti það að vera mögulegt. Með hefðbundum ræktunaraðferðum ræktar hver bóndi um 20 tonn af hálfþurrkuðum þara (cottonii) en með nútíma tækni og breyttu skiplagi gæti hann framleitt 100 til 120 tonn á ári.

Nýta kaupfélagsformið

Ein hugmyndin til að auka framleiðsluna er að stofna kaupfélög um ræktunina, með um 100 bændum, og til hliðar við það væri tryggður rekstur um ræktun og framleiðslu á græðlingum. Fjármagn væri útvegað til að nútímavæða ræktunina þar sem hún væri færð á meira dýpi og búnaðurinn væri strengdur niður, ekki ósvipað og við þekkjum með laxeldiskvíar hér á landi. Mikilvægt er að finna aðila sem fólkið treystir til að vera í forystu kaupfélagsins, sem greiðir síðan bændum lágmarkslaun allan ræktunartímann, og síðan aukalega fyrir hráefni þegar því er skilað inn. Einnig mun safnast upp höfuðstóll í kaupfélaginu sem bændur eiga og hægt er að nota við fjárfestingar eða greiða árlega út arð, eða takast á við óvæntan mótbyr við ræktun. Kaupfélagið fjárfestir í vöruskemmu og getur því stýrt framboði miðað við eftirspurn, en hægt er að geyma forþurrkaðan þara í allt að þrjú ár. Kaupfélagið selur framleiðsluna beint til verksmiðjunnar og losnar þannig við tvo til þrjá milliliði (kaupmenn) sem starfa í virðiskeðjunni í dag.

Nýjar aðferðir við ræktun

Með því að færa ræktunina á meira dýpi losna bændur við sveiflu í hita og seltustigi sem veldur sjúkdómum og er ein mesta ógnunin í dag. Við fjöruborðið getur selta og hiti breyst mikið við rigningar, sem geta stundum dunið á vikum saman í hitabeltinu. Þannig gætu þessar hugmyndir breytt miklu fyrir íbúa svæða þar sem ræktunin fer fram, sem eru mjög fátækir og lifa fyrir hvern dag fyrir sig í algeru öryggisleysi. Með 500 milljón tonna framleiðslu myndu skapast 50 milljón bein störf við ræktun í hitabeltinu, sem gætu með óbeinum störfum orðið um 100 milljón og skilað 500 milljörðum dollara í verðmætum. En það hangir fleira á spýtunni og þá komum við að umhverfisþætti þess að rækta 500 milljón tonn af þara á ári!

Að fæða heiminn

Slík framleiðsla myndi auka matarframboð heimsins um 10%. Úr þurrkuðum þara má vinna á bilinu 10-30% af próteini, og þannig myndi 500 milljón tonn skila í kringum 150 milljónum tonna af þörungapróteini og 15 milljón tonnum af þörungalýsi. Þörungalýsi getur innihaldið omega 3 fitusýrur og líkist því fiskalýsi. Ef tekið er tillit til mismunandi próteininnihaldi í þörungamjöli og t.d. soyjamjöli gæti framleiðsla á því fyrrnefnda jafnast á við 20% af framleiðslu þess síðarnefnda og framboð af þörungalýsi yrði sjöfalt miðað við framboð af fiskilýsi í heiminum í dag. Ef hægt væri að framleiða fiskifóður úr afurðum þara, sem síðan yrði notað til fiskeldis, sem er umhverfisvænasta próteinframleiðsla sem þekkist, væri búið að leysa hluta af umhverfisvanda heimsins. En þar með er ekki öll sagan sögð!

Gríðarleg umhverfisáhrif

Þari lifir á kolsýru og köfnunarefni. Í dag eru notuð um 150 milljón tonn af áburði (köfnunarefni) en aðeins helmingurinn af því nýtist jurtum, en um 15 – 30% skilar sér í sjóinn. Þetta hefur skapað um 250.000 km2 af dauðasvæðum í heimshöfunum. Þangrækt gæti tekið í sig um 10 milljón tonn af köfnunarefni árlega, eða um 30% af því sem við látum frá okkur í sjóinn. Önnur mengun sem veldur miklum áhyggjum í sjónum er kolsýra (CO2), sem skolast með rigningu úr menguðu andrúmsloftinu og endar í sjónum. Hækkandi sýrustig sjávar er meðal stærstu áskorunum sem maðurinn stendur frammi fyrir, sem þegar er farið að hafa neikvæð áhrif á lífríki hafsins. Með ræktun á 500 milljón tonnum myndi þari taka í sig um 135 milljón tonn af kolsýru, um 3,2% af árlegri mengun sem sjórinn tekur við á ári.

Er þetta hægt?

Allt hljómar þetta eins og ævintýri og sumir myndu segja að væri of gott til að vera satt! Enn er ekki búið að þróa hagkvæmar afurðir úr

Yfirlitsmynd yfir þararæktun í Asíu

þara til að nota sem fóður. En til þess að virkja hugvit og frumkraft þarf að sýna fram á framboð í framtíðinni. Trúi menn ekki á framboðið verður ekki til sá hvati sem til þarf að þróa verðmætar afurðir úr þessu grænmeti hafsins. Þannig verður vænt framboð og eftirspurn að fara saman hönd í hönd. Matís hefur þegar komið að tugum rannsókna á nýtingu þörunga og mikill áhugi er meðal erlendra rannsóknaraðila á málinu. Efna- og plastframleiðendur hafa sýnt því áhuga að nota hluta af þangi til framleiðslu sinnar. En hvað þarf til að koma svona hugmyndum á rekspöl? Tæknilega verða engar óyfirstíganlegar hindranir, sem hugvit og frumkvæði geta ekki leyst. Allt mun þetta snúast um mannlega þáttinn, að koma á breytingum og endurskapa núverandi menningu. Breyta hugafari og virkja bændur til að vinna undir skipulagi, bæta þekkingu og mannauð.

Fiskeldi í Indónesíu

Indónesía er næst stærst í heiminum (á eftir Kína) þegar kemur að eldi í sjó og vatni, og er áætlun þarlendra að framleiðsla fyrir 2020 verði rúmlega 18 milljón tonn. Mestu munar þar um framleiðslu á þangi, um

11 milljón tonn, og rækju sem er 1,2 milljónir tonna. Ræktun á þangi er rúmlega 99% af eldi/ræktun í sjó og því álitið að tækifæri í fiskeldi séu mikil. Sjóeldi er ein umhverfisvænasta prótein framleiðsla sem þekkist, með umtalsvert minna sótspor en landbúnaður. Hefðbundinn landbúnaður losar rúmlega fjórðung af allri losun gróðurhúsaloftegunda í heiminum, fyrir utan önnur neikvæð áhrif á lífríki jarðarinnar. Eldi í ferskvatni hefur einnig haft neikvæð umhverfisáhrif sem valdið hafa miklu tjóni á jarðvegi og gróðurlendum, og aukið hættu á flóðum ásamt öðrum spjöllum á lífríkinu.

Próteinframleiðsla framtíðar

Vandamál sjóeldis í Indónesíu er hversu vanþróað það er og mikið um sóun á t.d. fóðri, sem er um 60 – 70 % af kostnaði við fiskeldi. Með nútíma eldisaðferðum, eins og þekkjast á kaldari svæðum, mætti lyfta Grettistaki með því að nota hátækni og þekkingu til að framleiða holla fæðu fyrir fjölmennasta svæði veraldar. Í dag er lax alinn á norðlægum slóðum og fluttur ferskur með flugi til borga í Asíu, með ærnum fjárhagslegum og umhverfislegum kostnaði. Það liggja því mikil tækifæri í að setja upp eldi til að sinna þessum markaði, en í kringum

Þararæktandi í Indónesíu

Indónesíu eru mörg fjölmennustu ríki heimsins, enda býr þar nærri helmingur jarðarbúa. Áætlað er að auka þurfi matvælaframleiðslu um 70 milljón tonn til ársins 2050, þegar íbúar jarðar verða rúmar níu milljarðar talsins.

Umhverfisvæn prótein framleiðsla

Í dag kemur um helmingur af öllu fiskmeti úr eldi, enda takmörk fyrir því hvað hægt er að veiða af villtum fiski. Fiskeldi er einnig með sérlega lágt kolefnisspor og því leynast umtalsverð tækifæri eldinu til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Líkja má fiskeldi við að matvæli séu framleidd í þrívídd, þar sem notað er flatarmál sjávar og svo dýpt, en hefðbundinn landbúnaður þarf því mun meira rými. Fiskur er alinn upp í „þyngdarleysi“ sem dregur mjög mikið úr eigin orkunotkun, og fóður nýtist því mun betur til að framleiða nauðsynleg prótein. Fiskur er einnig almennt talinn heilnæmari fæða en flestar aðrar dýraafurðir, auðugur af omega 3 fitusýrum, D vítamíni og B12 vítamínum. Flest ríki jarðar hafa á stefnu sinni að auka neyslu á fiskipróteinum meðal þjóða sinna.

Fæðuöryggi í Asíu

Gunnar Þórðarson, svæðisstjóri Matís á Vestfjörðum, tók þátt í þessu verkefni í Jakarta, ásamt starfsmönnum Alþjóðabankans. Haldnir voru fundir með starfsmönnum ráðuneyta til að undirbúa verkefnið og leggja línurnar til að auka fiskeldi og matvælaframleiðslu þjóðarinnar. Ljóst er að Matís hefur margt fram að færa til að bæta úr og koma öflugu fiskeldi í sjó á rekspöl í Indónesíu. Með þekkingu sem byggð hefur verið upp við laxeldi væri hægt að koma miklu til leiðar við framleiðslu á eldisfiski, sem myndi koma Indónesíu, Asíu og reyndar flestum þjóðum heims til góða. Lykilatriði liggja í strandsvæðaskipulagi sem er grundvöllur fyrir árangursríkt fiskeldi í sjó. Finna þarf réttu svæðin sem uppfylla skilyrði fyrir iðnvæddu eldi með tilliti til; mannauðs, samgangna og umhverfisþátta. Yfirvöld í Indónesíu áætla að um 26 milljónir hektara henti til sjóeldis þar í landi, enda er strandlengja þess um 90 þúsund mílna löng. Annað sem skiptir miklu máli er fóður sem er áskorun fyrir stórfellt fiskeldi. Huga þarf að innlendri framleiðslu til að auka verðmætasköpun í landinu og lækka kolefnisspor með notkun á innlendum próteinum og lágmarka flutning á aðföngum. Einnig þarf að aðstoða heimamenn með heilbrigði og dýravelferð, en það fer algerlega saman við árangursríkt fiskeldi sem getur skilað verðmætum. Efla þarf rannsóknaraðstöðu í kringum fiskeldi og ekki síður við framleiðslu á afurðum til að auka öryggi neytenda. Einnig þarf að aðstoða heimamenn við val á tegundum til eldis og þróa erfðafræðilega þætti til að bæta framleiðni. Koma þarf upp erfðabönkum til að minka líkur á einræktun við þróun eldisstofna. Síðast en ekki síst þarf að efla mannauðinn til að takast á við skipulag og framkvæmd hátækni eldis, ef árangur á að nást.

Íslensk þekking flutt út

Á öllum þessum sviðum hafa Íslendingar náð góðum árangri og hafa burði til að aðstoða aðrar þjóðir til að bæta lífsgæði sín og nágranna sinna. Þó þessi þekking sé ekki öll innan veggja Matís getur fyrirtækið nálgast hana í gegnum sitt tengslanet og samstarfsaðila. Svona verkefni koma öllum til góða og eru dæmi um þekkingu sem Íslendingar gætu lagt áherslu á að flytja út. Þessi verkefni Matís eru hluti af samstarfsverkefni utanríkisráðuneytisins og Alþjóðabankans um að veita bankanum aðgang að sérfræðiþekkingu á Íslandi.