7 minute read

Af námi mínu í sjávarútvegsfræði við Háskólann á Akureyri og hvert það leiddi mig

sjávarútvegsfræðingur

Ég hóf nám í sjávarútvegsfræði við Háskólann á Akureyri haustið 1990 og útskrifaðist fjórum árum seinna eða um vorið 1994. Námið hefur breyst og þróast heilmikið síðan ég var í háskólanum enda væri allt annað óeðlilegt. Á þessum tíma höfðu menn ekkert val eins og í dag nema þá þegar hægt var að velja lokaverkefnið á lokaönninni. Námið var líka fjögur ár í stað þriggja ára nú og til að fá inngöngu inn í deildina varð maður að hafa eins árs starfsreynslu tengda sjávarútvegi. Ég er Reykvíkingur og hafði aldrei starfað neitt tengt sjávarútvegi. Ég man að ég hringdi í Jón Þórðarson, sem var fyrsti forstöðumaður deildarinnar og raunar einskonar guðfaðir, til að reyna að fá undanþágu frá þessari reglu. Ég vissi að aðsóknin var frekar dræm og var að vonast eftir að komast beint inn án þess að hafa starfsreynsluna. Hann var grjótharður og sagði að það væri ekki hægt. Ég labbaði þá niður í Granda og fékk vinnu í frystihúsinu (gömlu Bæjarútgerðinni) við að flaka karfa. Ég var þar í hálft ár og svo hálft ár hjá Rannsóknarstofnun Fiskiðnaðarins (RF) og komst svo inn um haustið 1990.

Kjalarnám

Námið var byggt upp þannig að fyrsta önnin samanstóð af grunngreinum í stærðfræði og efnafræði. Síðan var byggt ofan á þetta matvælafræði, viðskiptafræði, tæknigreinar eins og vinnslutækni og skipatækni, félagsfræði og stjórnun, og svo sjávarlíffræði og hagfræði. Þeir sem voru á móti náminu sögðu að þetta væri „kjalarnám“, þ.e. að við lærðum að þekkja kjölinn á bókunum en

Þverfagleg nálgun þótti ekki heppileg

Á þessum tíma mátti heyra ákveðnar gagnrýnisraddir sem sögðu að þessi þverfaglega nálgun væri ekki í heppileg á fyrsta stigi háskólanáms. Þessi gagnrýni kom aðallega að sunnan og mest frá vélaverkfræðideild Háskóla Íslands. Fram að þeim tíma hafði sú deild lagt sig fram við að bjóða ákveðna kúrsa eins og vinnslutækni til að reyna að uppfylla þarfir sjávarútvegsins á einhvern hátt. Tíminn hefur sannað að þessir aðilar höfðu rangt fyrir sér. Sjávarútvegur er svo margslunginn og kemur inn á svo mörg svið að það hefur sýnt sig að menntaðir sjávarútvegsfræðingur hafa verið eftirsóttir og góðir starfskraftar og verið vel undirbúnir að takast á við mismunandi verkefni á öllum stigum atvinnulífsins, hvort sem þau tengjast sjávarútveginum eða ekki.

Aðalkarlarnir í skólanum

Þegar ég flutti norður til Akureyrar haustið 1990 hafði ég búið í Fossvoginum alla mína ævi, fyrir utan einhver sumur sem ég var í sveit. Ég fór í sjávarútvegsfræði og en kærasta mín í hjúkrunarfræði. Við útskrifuðumst síðan saman vorið 1994. Minningar mínar frá þessum tíma eru bara góðar. Það var gott að búa á Akureyri. Nemendur voru nánari en maður átti að venjast, t.d. frá menntaskólaárunum. Þá var maður bara í kringum sömu strákana sem voru úr hverfinu. Fyrir norðan var maður alltaf að kynnast nýju áhugaverðu og stundum skemmtilegu fólki. Við í sjávarútvegsdeildinni upplifðum okkur náttúrulega sem „aðalkarlana“ í skólanum, sem var auðvitað bara svona „raungreinarembingur“.

Mættu með sleggjur

Sjávarútvegsdeildin var niðri á Glerárgötu í húsnæði með Rannsóknarstofnun Fiskiðnaðarins og Hafrannsóknarstofnun. Við gengum um húsið eins og við ættum það og höfðum efstu

hæðina fyrir okkur til að læra. Þegar fór að nálgast lok námsins og háskólinn var alltaf að stækka og nemendum að fjölga þá fór aðeins þrengja að þeim sem byrjuðu fyrst og höfðu verið hálfsjálfala þarna. Það átti t.d. að fara rukka okkur fyrir kaffið – þá urðum við alveg brjálaðir – fannst það algjör svívirða. En í þessu samhengi má ekki gleyma því að fyrsti árgangurinn sem byrjaði um áramótin 1989/1990 mætti með sleggjur niður á Glerárgötu með Jóni Þórðarsyni til að flýta fyrir og hjálpa til við að koma Glerárgötunni í stand svo deildin gæti flutt inn. Ég sé ekki alveg fyrir mér að það gerist í dag, þannig að tímarnir eru breyttir en ég er sannfærður um að námið er enn gott.

Betra að vera 1 af 20 en 1 af 4.000

Ég las um sjávarútvegsfræðina í Morgunblaðinu þegar ég var enn í menntaskóla og þá vaknaði strax áhugi minn. Það voru tvær ástæður. Í fyrsta lagi var íslenskt efnahagslíf svo samofið sjávarútveginum og ég sá ekki fram á að það myndi breytast um ókomna framtíð. Ég taldi því nánast öruggt að það yrðu alltaf atvinnufyrirtæki hvernig svo sem áraði. Sjávarútvegurinn var ekkert að fara og hann myndi alltaf vera ein af grunnstoðum atvinnulífsins á Íslandi. Í öðru lagi voru á þessum tíma þúsundir viðskipta- og hagfræðinga útskrifaðir á Íslandi. Ég leit á það sem svo á þeim tíma að allt nám væri í raun vettvangur þar sem fólki væri kennt að skilgreina og setja fram lausnir á misflóknum verkefnum undir ákveðnu álagi. Mínar hugmyndir á þeim tíma voru því að eftir að hafa útskrifast væri aðalmálið að að fá tækifæri og að nota það. Ég mat það sem svo að það væru miklu meiri líkur að fá tækifæri ef maður væri 1 af 20 sjávarútvegsfræðingum heldur en 1 af 4.000 viðskipta- eða hagfræðingum.

Síbreytileg og margslungin atvinnugrein

Ég held að ég hafi legið rétt með bæði atriðin. Það sem ég vissi ekki þá var hversu gott námið varð og hversu vel það myndi reynast. Einnig gerði ég mér enga grein fyrir hversu margbreytilegur og á sama tíma skemmtilegur sjávarútvegur er. Þetta er síbreytileg og margslungin hátækniatvinnugrein sem er líka í stöðugri þróun. Þar af leiðandi hefði maður ekki getað verið heppnari með starfsvettvang og til að undirbúa mig fyrir hann hefði ég ekki getað verið heppnari með val á námi. Ég held að ég geti fullyrt að ég hefði aldrei fengið þau tækifæri sem ég fékk ef ég hefði ekki útskrifast sem sjávarútvegsfræðingur frá HA og námið reyndist það gott að ég var tilbúinn til að takast á við og leysa þau verkefni og áskoranir sem urðu á vegi mínum. Ég á því náminu mikið að þakka hvað það varðar. Það opnaði dyr í upphafi sem urðu til þess að ég og fjölskylda mín höfum verið á ótrúlegu ferðalagi. Við fengum fyrst að kynnast því að búa á Akureyri, síðan í þrjú ár í Skotlandi og loks 21 ár í Þýskalandi. „Kjalarnámið“, eins og verkfræðingarnir uppnefndu námið á upphafsárum þess, hefur því reynst vel.

Stóra myndin

Ef við förum segjum 40 ár aftur í tímann þá var framleiðslustjórnun í sjávarútveginum sirka svona: Skipin fóru til veiða, komu síðan að landi og, þegar vel veiddist, kannski öll full á sama tíma. Þetta átti sér stað alls staðar hringinn í kringum landið. Svo var landað og byrjað að vinna í fimm punda pakkningar í frystihúsinu. Þegar gæðum fisksins hrakaði var skipt yfir í salt. Síðan var hengt upp á hjalla fyrir skreið og að lokum var restin sett í gúano (bræðslu). Þá urðu kannski einhverjar ytri aðstæður til þess að það varð greiðslufall eða markaðir lokuðust sem leiddi til þess að sjávarútvegsfyrirtækin voru í vandræðum. Þá var farið í sértækar aðgerðir þar sem fyrirtækin fengu hjálp frá ríkinu. Ég held að einn slíkur pakki hafi fengið heitið „Vestfjarðaaðstoð“. Stundum var gengið á krónunni líka fellt með tilheyrandi kjaraskerðingum. Í dag er reynt að hámarka verðmæti aflans og nýta hvern fisk 100% á mismunandi vegu – allt frá hefðbundnum ferskum flökum til ýmissa aukaafurða sem falla til og var hent áður fyrr. Þessi þróun hefur átt sér stað á síðustu árum og verður sífellt örari og örari. Í raun er þetta orðin hátækniiðnaður þar sem alltaf er verið að leita að mögulegri bestun við að hámarka verðmætin. Eftir því sem fyrirtæki í íslenskum sjávarútvegi hafa orðið efnahagslega sterkari hefur þróunin verið örari og við hlið sjávarútvegsins hafa orðið til fyrirtæki eins og Marel, Skaginn, Valka, Vélfag og fleiri. Við heyrum ekki lengur minnst á sértækar aðgerðir til að aðstoða sjávarútvegsfyrirtækin. Þessi þróun hefst meðal annars með innleiðingu á aflamarkskerfinu, sem kemur með stöðu- en jafnframt sveigjanleika inn í greinina, en það er undirstaða þess að geta náð árangri. Einnig byrjum við að mennta fólk sérstaklega til að vera hæft til að vinna í þessari flóknu og fjölbreyttu atvinnugrein. Og þar kemur Háskólinn á Akureyri sterkur inn með auðlindadeildina. Ég held að það sé ekki erfitt að rökstyðja og benda á með dæmum að nám í sjávarútvegsfræði við HA hefur skilað mörgum vel menntuðum einstaklingum sem hafa verið virkir þátttakendur í þessari þróun á síðustu 30 árum.

Alþjóðleg grein

Það er eitt enn sem er áhugavert við sjávarútveginn, þ.e. að hann er alþjóðlegur. Maður getur því verið í starfi þar sem maður er í miklum samskiptum við erlenda aðila. Almennt hef ég ekki heyrt neitt annað en að sjávarútvegsfræðingar frá HA hafi staðið sig vel í slíkum verkefnum. Einhverjir hafa líka starfað erlendis. Ég var til að mynda framkvæmdastjóri Evrópuútgerðar Samherja í nærri 25 ár og hef því varið stærstum hluta starfsævi minnar erlendis. Ég er sannfærður um að námið undirbjó mig mjög vel fyrir þann starfsvettvang. Eftir námið hefur maður miklu breiðari skilning og á þar af leiðandi auðveldara með að hafa yfirsýn yfir heildarmyndina í mismunandi aðstæðum.