3 minute read

Vilhelm Már Þorsteinsson

forstjóri Eimskips

Árið 2021 hefur verið eftirminnilegt á margan hátt og eitt af því sem stendur upp úr er þróun á alþjóðaflutningamörkuðum á árinu. Þegar verið var að meta stöðuna á vormánuðum 2020 og veiran var farin að láta á sér kræla töldu margir að eftirspurn eftir vörum og þjónustu í heiminum myndi minnka. Flutningafélög um allan heim brugðust við og drógu úr afkastagetu, bæði hvað varðar skipakost og tæki og seinkuðu pöntunum á gámum o.s.frv. Reyndin varð hins vegar sú, eins og við þekkjum, að eftirspurnin eftir margvíslegri þjónustu og upplifunum tengdum ferðaþjónustu og menningu dróst verulega saman. Eftirspurn eftir vörum dróst hins vegar ekki saman, nema í mjög skamman tíma, og í raun sáum við fljótlega vöxt í vöruflutningum vegna breytts neyslumynsturs á heimsvísu. Veiran hafði sú áhrif að það hægðist á öllu alþjóðlega kerfinu, hringferða tími skipa og gáma milli heimsálfa lengdist, framboð af skipum og gámum var ekki nægjanlegt miðað við vöxt í eftirspurn og hæga gangi í alþjóðlegum flutningum sem leiddi til þess að flutningsverð á alþjóðamörkuðum hækkaði mikið. Þrátt fyrir krefjandi markaðsaðstæður hefur okkur hjá Eimskip gengið vel að aðlaga siglingakerfið okkar, tryggja gáma og skip til að viðhalda öflugu útflutningsneti fyrir íslenskan sjávarútveg. Þarna búum við líka vel að eiga mjög góð samskipti við alþjóðleg skipafélög varðandi gáma og pláss í skipum sem gegna mikilvægu hlutverki í að koma vörum okkar viðskiptavina á fjarlægja markaði.

Þegar einar dyr lokast opnast aðrar og það sáum við þegar framboð af flugi dróst saman vegna veirunnar. Þá sáu fyrirtæki leik á borði að gera frekari tilraunir með flutning á laxi sjóleiðina frá Íslandi til Bandaríkjanna og Kanada. Mikil þróun hefur verið í kælitækni og vakning í því hversu vel þessar afurðir þola sjóflutninginn og um leið að mæta sívaxandi kröfum viðskiptavina um umhverfisvænni flutninga. Við höfum síðan séð enn frekari vöxt á þessu ári í flutningi á ferskum afurðum yfir hafið til Norður Ameríku bæði frá Íslandi sem og Færeyjum og búumst við að sá vöxtur haldi áfram á næstu árum. Við finnum fyrir auknum kröfum viðskiptavina okkar að vita kolefnisspor sitt tengt flutningum með okkur og við höfum svarað því kalli og getum boðið viðskiptavinum upp á að fá slíkt yfirlit sent.

Óvissa í tengslum við Brexit vofði yfir stóran hluta af ári og útflutningur til Bretlands dróst saman allt þar til bresk stjórnvöld ákváðu að draga til baka kröfur um heilbrigðisvottorð nú í haust. Þarfir viðskiptavina breyttust og við þurftum að bregðast fljótt við til að aðlaga siglingakerfið okkar þegar kom að því að flytja ferskar sjávarafurðir inná meginlandið í stað þess að fara í gegnum Bretland. Þar skipti hröð ákvörðunartaka og aðlögunarhæfni miklu máli.

Við tökum hlutverk okkar sem leiðandi flutningafyrirtæki alvarlega enda er samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs samtvinnuð öflugu siglingakerfi út úr landinu. Órofin virðiskeðja skiptir sköpum og þar má ekkert bresta ef hámarka á verðmætin í þeirri miklu alþjóðlegu samkeppni sem íslenski sjávarútvegurinn er í. Það hefur krafist mikillar þrautseigju og útsjónarsemi starfsfólks en hjá okkur starfar einvalalið með mikla reynslu af íslenskum sjávarútvegi sem hefur reynst mjög dýrmætt í aðstæðum sem þessum.

Framundan er ein stærsta loðnuvertíð síðustu áratuga. Mikil undirbúningsvinna hefur verið lögð í að kortleggja komandi vertíð, gera sviðsmyndir, og teikna upp hvernig við getum flutt mikið magn af fiskimjöli og frystum afurðum inná markaði eins og Austur Evrópu og Austurlönd fjær. Þetta höfum við unnið í þéttu samstarfið við sjávarútvegsfyrirtæki landsins og nýtt okkar öfluga skrifstofunet bæði hér á landi sem og erlendis. Við erum vel í stakk búin að takast á við komandi tíma með íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum og hlökkum til að sjá vonandi stóra vertíð raungerast.

Ég óska ykkur öllum, á landi og sjó, gleðilegra jóla og velfarnaðar á komandi ári með þökk fyrir það gamla.