mansal

Page 1

Mansal

Mansal er að verða stærsti glæpaiðnaðurinn í heiminum þar sem fólk er flutt á milli landa til þrælkunar. Iðnaðurinn sækir fast á hæla fíkniefnasmygls en mansal er talið mun hættuminna og gróðavænlegra. Flestar konur sem seldar eru mansali lenda í kynlífsþrælkun þar sem þær eru neyddar til að stunda vændi. Hinn vestræni heimur rankaði við sér þegar myndin Lilja 4ever var sýnd en Lilja varð tákn þeirra kvenna sem seldar eru mansali um heim allan. Örlög Lilju höfðu áhrif á alla sem horfðu á mynd Lukasar Moodyson en þar segir frá stelpu frá fyrrum austantjaldsríki sem er sannfærð um að hennar bíði betra líf í Svíþjóð. Þar er hún hins vegar hneppt í þrældóm, lokuð inni, svelt og seld fjölda karlmanna þangað til hún gefst einfaldlega upp og fremur sjálfsmorð. Aðferðin sem beitt var til að fá Lilju til Svíþjóðar er ekkert einsdæmi, en sömu aðferðum er beitt hvort sem er til að fá konur og stúlkur til að stunda vændi eða selja þær mansali. Barnardos, samtök fyrir börn í Bretlandi, hafa greint algengt ferli sem þrælasalar nota til að gera konur ofurseldar sér. Í fyrstu er athygli konu vakin með því að sýna henni áhuga, verða trúnarðarvinur hennar og kærasti. Fljótlega fer „kærastinn“ að gera meiri og meiri kröfur um stjórnun, einangrar konuna frá fjölskyldu og vinum og krefst þess jafnvel að hún skipti um nafn. Þá tekur kærastinn öll völd, ákveður hvert konan fer, hverja hún á í samskiptum við, heimtar skilyrðislausa ást og notar hótanir eða annað ofbeldi. Að lokum er maðurinn kominn með hið “viljuga fórnarlamb” í hendur þar sem konan samþykkir að sofa hjá vinum kærastans og afla tekna með því að stunda vændi. Hugsanlega er konan svo flutt milli landa til að stunda vændi og seld áfram til annarra dólga. Þetta ferli er í raun það sama og margar konur sem beittar eru ofbeldi inni á heimlum sínum upplifa. Það er fjarlægt mannlegu eðli að skilgreina sig sem fórnarlamb og konur seldar masali gera það ekki frekar en konur sem beittar eru heimilisofbeldi. Ef fólk viðurkennir að það hafi ekki frjálst val eða stjórn á eigin lífi er í því fólgin svo mikil skömm og niðurlæging að fæstir vilja setja sig í þá stöðu og fóðra sannleikann því sem frjálst val. Það má hins vegar spyrja sig hvaða manneskja ákveði það af fúsum og frjálsum vilja að selja sig jafnvel, 20 karlmönnum á dag, og fá í besta falli helming teknanna. Lilja 4ever er dæmi um það sem verst gerist og vissulega eru til slíkar aðstæður en yfirleitt er raunin önnur. Margar konur vita það fullvel að þær eru að flytjast á


milli landa til að stunda vændi. Þær sjá það jafnvel sem einu leiðina út úr óþolandi aðstæðum heima fyrir. Margar halda uppi fjölskyldum sínum með því að selja aðgang að líkama sínu í einhverju formi, í gegnum strippdans eða með vændi. Einhverjar giftast mönnum frá vestulöndum í leit að betra lífi en eru svo gerðar út í vændi af mönnunum. Það eru sem sagt ekki til einfaldar skilgreiningar á mansali og oft eru mörkin á milli mansals, vændis og heimilisofbeldis mjög óljós. Konur sem seldar eru mansali eru oft ólöglegir innflytjendur, með fölsuð vegabréf eða eru á annan hátt brotlegar gegn lögum þess lands sem þær eru í. Slík staða gerir það að verkum að konur sækja ekki rétt sinn og yfirvöld sýna stöðu þeirra lítinn skilning. Öll skilyrði mansals eru fyrir hendi hér á landi. Hér blómstrar klámiðnaðurinn og ekki er amast við því þó æpandi sannanir um vændi séu alls staðar. Málin njóta ekki forgangs eins og ítrekaðar tilraunir til að kæra klám og vændismiðlun í fjölmiðlum hafa sannað. Jafnrétti kynjanna er því miður fjarlægur draumur þar sem valdastaða karla er allt önnur en kvenna og markaðssetning sem segir að konur njóti þess að vera viðföng karla er allt um lykjandi. Kröfum um að ábyrgðin á vændi verði sett á neytendurna er því miður ekki sinnt þannig að lagaumhverfið er hagstætt manseljendum. Ísland er ríkt land og draumastaður margra til betra lífs. Það væri því barnaskapur að halda að mansal viðgangist ekki hér á landi en á meðan kastljósinu er ekki beint í þá átt getum við látið eins og vandinn sé ekki til staðar. Okkar bíða stór verkefni á þessu sviði en það fyrsta sem við þurfum að gera er að spyrja hvort við viljum viðhalda skilyrðum í samfélaginu sem næra mansal. Kynferðislegt ofbeldi getur verið einn einstakur atburður eða viðvarandi ástand sem varir í mánuði eða ár. Til eru dæmi um kynferðislega misnotkun á börnum sem eru hluti af einhvers konar „helgiathöfnum“ og fela í sér nauðgun, líkamsárásir eða limlestingar á barninu. Vitanlega bregðast ekki öll börn eins við kynferðislegri misnotkun – og ekki eru öll tilvik kynferðislegrar misnotkunar nákvæmlega eins. Það breytir því ekki að kynferðisleg misnotkun á börnum hefur skelfilegar afleiðingar og öll kynferðisleg misnotkun á börnum er refsiverður glæpur samkvæmt lögum. Gerendur beita börnin ekki ofbeldi fyrr en þeir hafa fyrst náð foreldrum og fullorðnum á sitt band og þeir eru orðnir hafnir yfir ásakanir. Þessi aðferð er gerð af ráðnum hug af hundruða kynferðisafbrotamanna sem þeir segja sjálfir frá( Carla van Dam). Með því að verða meðvitaður um hætti og hegðun þeirra geta fullorðnir nú áttað sig á því að það er á þeirra ábyrgð að vernda barnið en ekki barninu að segja frá. Það er á ábyrgð okkar fullorðinna að vernda börn frá aðstæðum þar sem hætturnar gætu leynst.


Mikilvægt er að hafa í huga að þolendur mansals geta verið hver sem er – sem sagt af öllum kynjum, aldri, kynþætti, þjóðerni, með hvaða ríkisfang sem er eða borið hvaða aðra einkennandi þætti Grein 227a í hegningarlögum fjallar um mansal:

Hverjum þeim sem gerist sekur um eftirfarandi verknað í þeim tilgangi að notfæra sér mann kynferðislega eða til nauðungarvinnu eða til að nema á brott líffæri hans skal refsa fyrir mansal með allt að 8 ára fangelsi: 1. Að útvega, flytja, hýsa eða taka við einhverjum sem beittur er eða hefur verið beittur ólögmætri nauðung, frelsissviptingu eða hótun eða ólögmætum blekkingum með því að vekja, styrkja eða hagnýta sér villu viðkomandi um aðstæður eða annarri ótilhlýðilegri aðferð. 2. Að útvega, flytja, hýsa eða taka við einstaklingi yngri en 18 ára eða láta af hendi greiðslu eða annan ávinning til að afla samþykkis frá þeim sem hefur umsjón með barni. Sömu refsingu skal sá sæta sem tekur við greiðslu eða öðrum ávinningi. Til útskýringa er hægt að sjá skýringarmynd hér. Mansal er lagalega margslungið fyrirbæri og mansalsmál falla meðal annars undir lög sem snúa að vinnustöðum, vinnuaðbúnaði, barnavernd, útlendinga, sakamál, lög um ættleiðingar og svo mætti áfram telja. STERK mælir með lokaritgerð Jónu Aðalheiðar Pálmadóttur frá lagadeild HÍ frá árinu 2009. Hún nefndist Mansal barna og alþjóðlegar skuldbindingar Íslands vegna þess og má nálgast hér. Forvarnir hér á Íslandi eru forvarnir gegn kynbundnu ofbeldi. Tilgangur þess er að efla bæjar-og sveitarfélög í markvissum forvörnum gegn kynferðislegu ofbeldi á börnum. Að þjálfa 5% fullorðna í hverju bæjar-og sveitarfélagi til að fyrirbyggja, greina og bregðast við kynferðisofbeldi af hugrekki og ábyrgð.Stígamót er staður, sem tekur á móti þolendum kynferðislegs ofbeldis og þar starfa þjálfaðir meðferðarfulltrúar sem reyna að draga úr áhrifum slíkra áfalla. Barnahús tekur til meðferðar börn sem eru fórnarlömb ofbeldis af öllu tagi. Fleiri meðferðarstaðir eru til hérlendis einnig.


Staðreyndir um mansal
 Mansal er nútíma þrælahald og áhrifa þessa gætir um allan heim. Það er mjög erfitt að staðfesta tölur sem tengjast mansali og engar nákvæmar tölur eru til yfir fjölda fórnarlamba. Líklega er mansal töluvert útbreiddara en tölur gefa til kynna. 

Á heimsvísu er áætlað að um 27 milljónir manna séu í dag ofurseldar nútíma þrælahaldi

Um 80% fórnarlamba mansals eru konur. 70% fórnarlambanna eru seld í ánuð í tengslum við kynlífsiðnaðinn

Sem dæmi má nefnda að stjórnvöld í Uzbekistan áætlað að um 1000 þarlendar konur séu fluttar ólöglega frá heimalandi sínu á hverju ári. Síðasta áratuginn hafa 5 eða 6 konur frá Uzbekistan sem seldar hafa verið mansali verið myrtar á hverju ári í Sameinuðu furstadæmunum. Margar aðrar hafa verið fangelsaðar vegna brota á lögum um vegabréfsáritanir

Í sumum hlutum Afríku og á Mekong-svæðinu eru börn stór hluti þeirra sem seldir eru mansali.

Mansal hefur áhrif á næstum hvert land í heiminum. Flest fórnarlömbin koma frá Asíu og fyrrum Sovétríkjunum en þaðan er haldið að stærstur hluti þeirra sem seld eru í kynlífsánauð komi. Fórnarlömb eru send til Asíu, Mið-Austurlanda, Vestur Evrópu og Norður Ameríku.

Í mörgum löndum eru konur stærstur hluti þeirra sem höndla með fólk. Sem dæmi má nefna að í Lettlandi eru konur 53% þeirra sem sakfelld eru fyrir mansal.

Í könnun í 9 löndum þar sem úrtakið var 800 konur sem unnu í kynlífsiðnaðinum þá vildu 89% hætta, 75% höfðu verið heimilislausar um lengri eða skemmri tíma. 68% sýndu einkenni áfallastreikuröskunar.

Áætlað er að mansal í Austur Evrópur gefi af sér milli 5 og 22 miljarða Bandaríkjadala í árlegar tekjur

Mansal er kyndir undir stórum hluta skipulagðrar glæpastarfsemi í Austur Evrópu.

Það er nátengt peningaþvætti, eiturlyfjaútflutningi og skjalafalsi.

Vændi, löglegt eða ólöglegt, er stór iðngrein á heimsmælikvarða.


Á Filippseyjum er vændi ein af meginuppsrettum þjóðarteknanna. Dæmi um það er að 300.000 kynlífsferðamenn frá Japan heimsækja Filippseyjar á hverju ári

Í Hollandi veltir kynlífsiðnaðurinn milljarði dollara árlega í gegnum starf 2000 vændishúsa og 30.000 vændiskonur. 68-80% þeirra kvenna koma frá öðrum löndum en Hollandi.


Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.