2 minute read

Mamma, vilja svona margir stríð?“

Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir varabæjarfulltrúi á Akureyri og stundar nám í stjórnun og forystu 5. Sæti á lista Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi

Fyrir 12 árum í friðargöngu á Þorláksmessu spurði systursonur minn mömmu sína: „Mamma, vilja svona margir stríð?“. Sex ára gamalt barnið hafði áhyggjur af því hversu fá væru mætt að ganga í þágu friðar á Þorláksmessu. Þetta var löngu fyrir tíma samkomutakmarkana og því ekki við þær að sakast.

Advertisement

Mikilvægi samstöðu

Það er ótrúlegt hvað samstöðufundir gera. Druslugangan og Hinsegin dagar bera vott um það hvernig sýnileg samstaða hefur knúið fram breytingar á samfélagi okkar, viðhorfi og lögum. Mörg höfum við orðið fyrir kynferðisofbeldi, verið smánuð á einhvern hátt vegna kyns, kynhneigðar eða kynvitundar, eða þekkjum einhver sem hafa lent í slíku. Fæst okkar hafa hins vegar upplifað stríð og þess vegna kannski eðlilegt að viðburðir á borð við þá sem ég nefndi séu fjölmennari en friðargöngur. Á sama tíma er brýnt að við gleymum ekki þeim hörmungum sem stríð leiða af sér og að við sýnum samstöðu með fórnarlömbum stríðsátaka.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum

Samningur Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum tók gildi í byrjun þessa árs. Þá höfðu 50 ríki heims fullgilt hann en ekkert bólaði á aðild Íslands. Samkvæmt könnun er þó þorri landsmanna hlynntur því að Ísland gerist aðili að samningnum þvert á vilja Atlantshafsbandalagsins.

Kjarnorkuvopn hafa þvílíkan eyðileggingarmátt bæði til skamms tíma og frambúðar á manneskjur, loftslag, umhverfi og dýraríki. Við þurfum tryggingu gegn notkun slíkra helsprengja.

Ástandið í Afganistan

Í yfirlýsingu sem Ung vinstri græn sendu frá sér á dögunum segir um ástandið sem ríkir nú í Afganistan: „Það er freistandi að líta undan þegar svo þungar hörmungar dynja á þjóð langt í burtu og manni finnst maður ekkert geta gert til að bæta ástandið. En að líta undan er ekki eitthvað sem Íslendingar geta leyft sér. Vera Íslands í NATO gerir okkur óneitanlega samábyrg fyrir þeirri stöðu sem upp er komin. Íslendingar eru ein þeirra NATO þjóða sem tóku þátt í innrásinni í landið. Það gerir veran í NATO.“ Vera Íslands í Atlantshafsbandalaginu gerir okkur samábyrg og mun gera áfram. Ísland þarf að styðja við Afgani, við verðum að koma í veg fyrir að fólk á flótta verði sent aftur í hörmulegar aðstæður.

Samstaða gegn stríði

Sýnum samstöðu gegn stríði. Sýnum samstöðu gegn kjarnorkuvopnum. Þó svo að við þekkjum ekki afleiðingar stríðsreksturs eða helsprengja á eigin skinni, þá vitum við hversu hræðilegar afleiðingarnar eru. Tökum á móti fólki sem flýr stríðsástand. Fjölmennum í næstu friðargöngu á Þorláksmessu, kertafleytingu eða hvers konar samstöðufund í þágu friðar. Stöndum utan hernaðarbandalaga. Síðast en ekki síst skulum við koma í veg fyrir að fleiri börn haldi að Íslendingar séu hlynntir stríði.

This article is from: