2 minute read

Stóra óréttlætið

Kári Gautason sérfræðingur hjá Bændasamtökum Íslands, 4. sæti á lista Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi

Íslendingar náðu yfirráðum yfir fiskveiðiauðlindinni fyrir nærri fimmtíu árum. Í Þorskastríðunum voru ein meginrök Íslendinga mikil ofveiði og að ef ekki yrði breyting á myndi þorskstofninn hrynja. En um leið og Bretarnir hurfu úr íslenskri lögsögu þá hundsuðu Íslendingar niðurstöður rannsókna sem bentu til ofveiði. Í kjölfarið veiddum við þangað til að lífríki sjávar stóð á barmi hruns. Þá var kvótakerfinu komið á og síðan þá höfum við rifist um ágæti þess.

Advertisement

Kvótakerfið hefur að sumu leyti náð markmiðum sínum, í meginatriðum ofveiðum við ekki fiskistofna og kerfið hefur hvatt til mikillar hagræðingar þannig að verðmætasköpun er mun meiri en var. En þessu kerfi hefur einnig fylgt það óréttlæti að kvótinn hefur hlaðist á færri hendur en áður var. Tíu fyrirtæki eiga helming allra fiskveiðiheimilda. Þó eru mun fleiri sem stunda útgerð og greiða veiðigjöld, en það eru um þúsund aðilar. Flóran í sjávarútvegi er því frá strandveiðibátum upp í stórfyrirtæki sem kaupa upp fyrirtæki í öðrum löndum. Mesta óréttlætið er það að tiltölulega fámennur hópur á í raun nýtingarréttinn á fiskinum í kringum landið. Hann fer með nýtingarréttinn sem varanlega eign sína en greiðir fyrir það afkomutengt veiðigjald. Gjaldið hækkar þegar vel gengur og lækkar þegar verr árar.

Réttlátari sjávarútvegur

Sumir stjórnmálaflokkar vilja bjóða upp aflaheimildirnar. Ég tel að það muni ekki ráðast gegn rót vandans, því óréttlæti að fáir eigi veiðiheimildirnar. Þeir sem eiga þær fyrir munu kaupa þær upp þar sem þeir eru í yfirburðastöðu gagnvart öðrum. Því þarf að leita annarra leiða til að leiðrétta þetta óréttlæti. Vinstrihreyfingin - grænt framboð hefur talað fyrir því í lengri tíma að stækka félagslega hluta kvótakerfisins. Það var VG sem kom á fót strandveiðunum sem hafa glætt smábátahafnir landsins lífi á nýjan leik og gert smábátasjómönnum það kleift að stunda veiðar án þess að þurfa að kaupa kvóta dýrum dómum. Það er leið fyrir menn að byrja smátt og vinna sig upp. Einnig var það VG sem hafði frumkvæðið að tilkomu byggðafestukvóta til byggða sem standa höllum fæti.

Þar sem að það er óeðlilegt að fámennur hópur eigi nýtingarréttinn á fiskveiðiauðlindinni til eilífðar er eðlilegasta fyrirkomulagið nýtingarleyfi til afmarkaðs tíma gegn eðlilegu gjaldi. Útfæra mætti slíkt með því að útgerðum yrði boðið upp á það að færa núverandi heimildir yfir í tímabundnar heimildir eða sæta árlegri fyrningu. Með því yrði stóra óréttlætið leiðrétt. Enda eiga fáar fjölskyldur auðmanna ekki að eiga nýtingarréttinn að þessari sameiginlegu auðlind til eilífðarnóns.

Aukinn félagslegur rekstur

Eins og áður sagði er íslenskur sjávarútvegur fjölbreyttur. Inn á milli eru útgerðir sem reknar eru á félagslegum grunni. Það eru útgerðir sem eru í eigu samfélaga að öllu leiti eða hluta til. Þessum útgerðum hefur vegnað vel þrátt fyrir að kennisetningar hægrimanna segi að kapítalistar séu bestir til þess að reka fyrirtæki. Ég tel að það ættu að vera reglur sem skylda stærstu sjávarútvegsfyrirtækin til að vera að hluta til í félagslegri eigu. Það fylgir því mikil ábyrgð að hafa rétt til að veiða mörg prósent af heildarafla. Starfsfólk og heimamenn þar sem þau eru starfrækt eiga að njóta ávaxtanna af rekstrinum en arðurinn á ekki allur að renna til eigenda framleiðslutækjanna. Þannig væri arður af rekstri fjárfestur innan samfélagsins en ekki braskað með hann á fjarlægjum eyjum eða í ótengdum rekstri. Slíkt fyrirkomulag myndi jafna stöðuna talsvert og auka jafnræði milli íbúa í sjávarplássi og útgerðarfjölskyldunnar. En í dag ákvarða sumar útgerðarfjölskyldur það hvort plássið lifir eða deyr með ákvörðunum sínum um ráðstöfun veiðiheimilda. Með auknum félagslegum rekstri fellst vísir að sjálfstæði sjávarbyggða.

This article is from: