2 minute read

Það skiptir máli hver stjórna

Björgum nútíðinni frá frekari loftslagshamförum

Sigurður Loftur Thorlacius umhverfisverkfræðingur , 11. sæti á lista Vinstri grænna í Suðvesturkjördæmi

Advertisement

Samkvæmt fréttum undanfarið hafa gróðureldar geisað víða um heim, í Bandaríkjunum, Kanada, Grikklandi, Tyrklandi, Ítalíu, Portúgal, Alsír, Finnlandi og Síberíu. Hamfaraflóð æddu yfir í Þýskalandi, Belgíu og víðar. Fellibyljir ganga æ oftar og með meira afli yfir Bandaríkin og Mið-Ameríku. Loftslagsbreytingar eru allt í kringum okkur. Það ætti öllum að vera ljóst að loftslagsvá vofir þegar yfir og ógnar ekki einungis kynslóðum framtíðar heldur líka okkur í dag. Eða eins og Inger Andersen, framkvæmdastjóri Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna, komst að orði í kynningu nýrrar skýrslu IPCC: „Þið [IPCC] hafið í meira en þrjá áratugi varað okkur við hættum hnattrænnar hlýnunar. Heimurinn hlustaði en heyrði ekki. Heimurinn hlustaði en brást ekki nógu sterkt við og þess vegna eru loftslagsbreytingar vandamál, hér og nú. Enginn er öruggur og ástandið versnar æ hraðar.“

Í skýrslu IPCC er nú orðið ljóst að hnattræn hlýnun mun ná 1,5°C eftir um það bil áratug. Aðeins í róttækustu sviðsmyndinni yrði yfirskotið ekki mikið og við myndum ná aftur undir 1,5°C fyrir aldarlok. Til að ná því þyrfti allur heimurinn snarlega að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 50% fyrir 2035, ná kolefnishlutleysi rétt eftir 2050 og síðan ná upp bindingu fyrir lok aldarinnar sem nemur 1/3 af heimslosuninni í dag. Sannkallaður handbremsuviðsnúningur!

Hvorki aðgerðaleysi né mildar aðgerðir eru í boði. Við þurfum að grípa til eins metnaðarfullra, róttækra og afdráttarlausra aðgerða og frekast er unnt og snúa þessari óheillaþróun við. Það skuldum við okkur sjálfum, börnum okkar og komandi kynslóðum.

Við þurfum að fasa jarðefnaeldsneyti algjörlega út úr öllu hagkerfi okkar, svo sem með árlegri hækkun kolefnisgjalds eða hömlum á innflutning þess. Við þurfum að banna nýskráningu allra tækja sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti innan ákveðins tímaramma, þ.m.t. skipa. Við þurfum að nota allt í verkfærakistunni, boð, bönn, vendi og hvata. Við þurfum á sama tíma að tryggja réttlát umskipti þannig að aðgerðirnar bitni ekki á efnaminna fólki eða mismuni fólki eftir búsetu. Við þurfum að stöðva geigvænlega losun frá framræstum votlendum og auka bindingu á risastórum skala. Við þurfum að krefjast upplýsinga um kolefnisspor allra vara, innlendra sem innfluttra, til að koma í veg fyrir útvistun losunar. Við þurfum að gera viðbragðsáætlanir vegna loftslagsváar og lýsa yfir neyðarástandi þegar það á við. Við þurfum að leggja mun meira fjármagn í aðgerðir gegn loftslagsvánni, því hver króna mun skila sér margfalt til baka í minni kostnaði vegna afleiðinga loftslagsbreytinga. Þessar aðgerðir og margar fleiri lagði ég til að væru teknar inn í stefnu UVG í loftslagsmálum á landsfundi 4. september 2021.

Gerum allt sem í okkar valdi stendur til að bjarga bæði nútíðinni og framtíðinni frá frekari loftslagshamförum. Við megum engan tíma missa.

This article is from: