4 minute read

Kynbundið ofbeldi og þjóðsögur

Dagrún Ósk Jónsdóttir doktorsnemi í þjóðfræði, 9. sæti á lista Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi

Kynbundið ofbeldi er rótgróið vandamál í íslensku samfélagi eins og við vorum rækilega minnt á í maí síðastliðnum þegar önnur bylgja #metoo hófst á Íslandi og átakanlegum frásögnum þolenda kynferðisofbeldis og áreitis, mest megnis kvenna, rigndi inn á samfélagsmiðla. Núna í ágúst hefur svo umræða um kynferðisofbeldi og þöggun innan KSÍ verið hávær. Það er ekki laust við vonbrigði yfir því að við séum ekki komin lengra og ekki meira hafi breyst síðan fyrri bylgjan reið yfir árið 2017. Það er ljóst að viðhorfin sem þarf að uppræta eru gömul og rótgróin í samfélaginu.

Advertisement

Í íslenskum þjóðsögum má finna nokkur dæmi um kynbundið og kynferðisofbeldi. Þjóðsögur eru auðvitað ekki sagnfræðilegar heimildir, en í þeim má finna vísbendingar um heimsmynd og gildi samfélagsins sem þær tilheyrðu, rétt eins og í afþreyingarefni dagsins í dag. Þær hafa líka mótandi áhrif á samfélagið og hvað er álitið eðlilegt og hvað ekki.

Þjóðsögunum sem finnast í íslenskum þjóðsagnasöfnum var að stórum hluta safnað á seinni hluta 19. aldar og fyrri hluta 20. aldar og innbyggður í þær er ákveðinn kynjahalli þar sem þeim var langflestum safnað og gefnar út af körlum.

Í mörgum sögnum er augljóst að konur hafa yfirleitt ekkert vald til þess að segja nei við karlmenn. Þegar þær gera það, hefnist þeim fyrir. Þær eru neyddar í hjónaband, drepnar eða þeim nauðgað.

Dæmi um þetta eru draugasögur sem einnig má finna í nokkrum tilbrigðum í þjóðsagnasöfnunum og hér er set ég TRIGGER WARNING á þessa grein.

Í sögninni Draugssonur verður prestur er vinnumaður einn ástfanginn af vinnukonu á sama bæ og segir í sögunni að hann: ”vildi fá hana en hún vildi hann ekki. Þá leitaði hann upp á annan máta við hana að fá að sofa hjá henni, en hún neitaði því þverlega. Þá lofaði hann að hann skyldi komast yfir hana dauður fyrst hann fengi það ekki lifandi”

Það fer svo þannig að vinnumaðurinn veikist og deyr. Hann stendur við hótanir sínar og eina nóttina kemur hann til baka sem draugur og nauðgar vinnukonunni meðan hún sefur. Bóndi rekst svo á drauginn þegar hann er á leið aftur í gröfina eftir að hafa „náð fram vilja sínum“. Bóndinn spyr drauginn hvort heimsókn hans muni hafa einhverjar afleiðingar og draugurinn svarar að konan verði ófrísk og barnið verði illgjarnt og hættulegt. Það er ljóst að ofbeldið eitt og sér er ekki vandamál, heldur barnið.

Þegar þessar sagnir eru skoðaðar er ljóst að þær fjalla ekki um ofbeldi, það er í raun aukaatriði. Tilfinningar kvennanna eru nánast ósýnilegar, en í þeim endurspeglast hugsanlega ákveðið öryggisleysi. Ofbeldið í sögnunum fer fram á heimili kvennanna, meðan þær sofa. Þær eru aldrei öruggar. Þrátt fyrir það gera þessar sagnir lítið úr ofbeldinu, nauðgun var bara eitthvað sem gerðist.

Það sem er áhugavert í samhengi við metoo umræðuna núna, er að í þjóðsögunum er yfirleitt ekki fjallað um „venjulega menn“ sem nauðga konum eða beita þær kynferðisofbeldi. Gerendurnir eru yfirleitt yfirnáttúrulegir. Einhverjir sem koma að utan, en ekki menn sem búa á bænum eða í samfélaginu.

Auðvitað fjalla þjóðsögurnar oft um yfirnáttúruleg efni, en eins og þjóðfræðingar hafa bent á eru yfirnáttúruleg fyrirbæri í sögnum oft notuð til að ræða um átök og áföll til að gera þau auðveldari að glíma við. Að tala um yfirnáttúrulega menn sem nauðgara er leið til að tala um raunveruleg áhyggjuefni án þess að þurfa að nefna ofbeldismanninn. Eins og við vitum er það ekki auðvelt.

Það er líka mikilvægt að nefna að flestar sagnir af kynbundnu ofbeldi segja frá bænda- og prestadætrum sem beittar eru ofbeldi, en ekki vinnukonum, þó það sé nokkuð ljóst að konur af lægri stéttum hafi upplifað ofbeldi. Sögur sem segja frá brotum gegn konum af hærri stéttum hafa hugsanlega frekar þótt í frásögur færandi.

Eins og sagn- og kynjafræðingar hafa bent á er þessi gerð ofbeldis ein af meginstoðum kynjakerfisins og leikur stóran þátt í undirokun kvenna. Það að skoða gamalt efni, eins og þjóðsögurnar, út frá nýjum hugmyndum getur varpað einhverju ljósi á hversu ótrúlega rótgrónar hugmyndir og viðhorf, til að mynda um hlutverk og stöðu kynjanna og ofbeldi, eru í raun.

Það er ljóst að það verður að eiga sér stað bráðnauðsynleg hugarfars breyting. Konur eiga bæði fullan rétt á að segja nei og segja frá. Við verðum að hlusta á þolendur ofbeldis og trúa þeim. Við verðum að gera miklu betur.

Unglingurinn Mummi

Hvað varstu kallaður? Mummi.

Hvað er stærsta prakkarastrik sem þú framkvæmdir? Það var nú saklaust, að koma með mýs inn til ömmu Dóru, sem eftir á að hyggja hefði alveg getað farið með hjartað í gömlu konunni, en við lifðum það bæði af

Hver var uppáhalds hljómsveitin? Duran Duran sem krakki.

Hvernig týpa varstu? Lestrartýpan, las ættfræðibækur tíu ára, og allt annað sem ég komst í.

Hvert var þitt frægðarskot? Madonna.

Varstu vandræðagemsi? Nei.

Hvernig eyddir þú sumrunum? Í sveitinni að hjálpa við búskapinn.

Hvert var helsta áhugamálið þitt? Frjálsar íþróttir og að lesa bækur.

Varstu farin að gefa pólitík gaum? Já, heldur betur. Ég studdi Kvennalistann. Og í skólanum tók ég m.a. þátt í að fá ákvörðunum um að loka heimavistinni á Varmalandi frestað þannig að við gætum klárað þar sem byrjuðum.

This article is from: