Veidislod 4. tbl. 2012

Page 1

VEIÐISLÓÐ tímarit um sportveiði og tengt efni

4/2012




Vision, endalaus gleði

Hrygnan ehf. | Síðumúla 37 | Sími: 581-2121 | www.hrygnan.is


frá ritstjórn

Komiði sælir lesendur. Hér gefur að líta tíunda tölublað Veiðislóðar, það fjórða á þessu ári, en í fyrra urðu þau alls sex talsins. Segja má að það sé komin ákveðin festa í þessa útgáfu, við rákum okkur á margvísleg hurðarhorn lengi vel, en nú kemur okkur fátt á óvart lengur. Óhætt að segja að við munum í framtíðinni kanna betur þá möguleika svona útgáfu sem við höfum ekki gefið gaum fyrr. En svona er þetta, þróun og reynsla, þetta skilar sér smátt og smátt. Vonandi eruð þið lesendur ánægðir með framtakið. Við höfum alla vega haft af því mikla ánægju og gaman að geta teygt sig út fyrir hinn fremur fastmótaða ramma sem vefurinn okkar www.votnogveidi.is býður upp á. Flest tölublöðin okkar til þessa hafa verið um eða yfir 100 blaðsíður að lengd, fáein farið þar aðeins undir, en ef við gefum okkur að meðalengd Veiðislóðar sé 100 blaðsíður þá erum við komnir með þessu tíunda tölublaði 1.000 blaðsíður af fríu afþreyingarefni fyrir ykkur lesendur/veiðimenn. Með ósk um að restin af stangaveiðivertíðinni verði ykkur til gæfu og gleði og að skotveiðihaustið verði spennandi og skemmtilegt. Guðmundur Guðjónsson, ritstjóri Heimir Óskarsson, útlit og umbrot Jón Eyfjörð Friðriksson, greinaskrif.

efnið 8

Stiklað á stóru Rennt yfir það helsta sem gengið hefur á síðustu vikurnar í máli og myndum

12 Gjöf Jöklu Sigríður Þorgeirsdóttir hefur upplifað að berjast hatrammlega gegn virkjun Kárahnjúka til að bjarga Jöklu og standa síðan á bökkum breyttrar Jöklu og veiða lax á flugu. 20 Veiðistaðurinn Við fjöllum um nýtt svæði í flórunni, ósasvæði Laxár á Ásum. 28 Fjölskylduveiði Frostastaðavatn hefur það allt, stórkostlegt umhverfi og gnægð fiskjar. 34 Flugubarirnir Við fórum aftur í heim­ sóknir, og núna með haustið í huga.

46 Fluguboxið: Crossfield Við skoðum eina gamla og klassíska, Crosfield og rifjum upp sterk tengsl hennar við Ísland. 50 Fluguboxið: Andarunginn Sú saga barst að norðan að veiðimaður varð vitni að urriða grípa andarunga. Hér er frásögnin, auk þess sem við fengum hinn frábæra hnýtara Viðar Egilsson til að hnýta fyrir okkur Andar­ ungafluguna. 54 Skotveiði

endur

Við ræðum andaskytterí við Kjartan Lorange sem segir það vanmetnustu skot­ veiðina á Íslandi. 60 Eitt og annað: Vöðluskór Við erum í fróðleikshorni Lárusar í Skóstofunni aftur og skoðum hvort að völu­ skórnir séu ónýtir eða við bjargandi.

62 Eitt og annað: Meðferð afla Fátt er ömurlegra en að koma heim úr veiði með úldinn eða spilltan afla. Hér má lesa sig um hvernig komast megi hjá því. 64 Veiðisagan, Svæðamörkin Í Veiðisögunni rifjum við upp eina gamla og góða sem fjallar um svæðamörk í laxveiði. 66 Ljósmyndun: Nils Folmer Við erum stórheppnir með galleríið að þessu sinni, því Nils Folmer Jörgensen er einn sá besti í bransanum. 92 Lífríkið: Laxveiðisumarið Laxveiðin hefur hikstað rækilega í sumar. Byrjaði vel en fjaraði furðu hratt út og það vantar smálax. Hvað segir Guðni Guðbergsson við því?

96 Einu sinni var, Hreindýr Við rifjum upp gamlar sögur af ótrúlegum hreindýra­ skyttum, m.a. er mergjuð veiðisaga úr Henglinum. 98 Villibráðareldhúsið: Úlfar Finnbjörnsson Villti kokkurinn Úlfar er með magnað villibráðarhlað­ borð í haust og leggur hér til uppskrift sem þar verður að finna. 100 Veiðihundar Hjörleifur Steinarsson segir sögur af tíkinni sinni sem félagarnir kalla Löndunar­ þjónustuna. 102 Græjur og fleira Alls konar nýjungar og skemmtilegheit sem er að finna í helstu veiðibúðunum. Forsíðuljósmynd: Nils Folmer Jörgensen




stiklað á stóru

Veðurguðirnir voru sparari á regndropa en nokkru sinni fyrr! Síðan að Veiðislóð kom síðast út fremur snemma í júlí hefur margt breyst. Laxavertíðin byrjaði með miklum ágætum, lax var genginn snemma líkt og 2010, talsvert var að ganga af stórlaxi og það bólaði á fyrstu smálöxunum snemma sem löngum hefur talist vera til merkis um stórar smálaxagöngur. En sú varð heldur betur ekki raunin. Þvert á móti brugðust smálaxagöngur og veiðin hjaðnaði smátt og smátt og ekki bætti úr skák að veðurguðirnir voru sparari á regndropa en nokkru sinni fyrr og vel flestar laxveiðiár landsins fóru neðar en niður í grjót.

8

VEIÐISLÓÐ • tímarit um sportveiði og tengt efni • 4. tbl. 2012


Óskar Páll Sveinsson með glæsilega hrygnu úr Laxá í Dölum.

9


stiklað á stóru Það rættist síðan loksins úr vatnsskortinum þegar draga fór nær miðjum ágúst, víða flóðrigndi um tíma og vatnsbúskapurinn batnaði. Við það hresstist veiðin líka að sjálfsögðu, en bara ekki á neinum svakalegum skala, enda var eftir sem áður miklu minna af laxi í ánum. Það stefnir því í verulega lakara sumar 2012 en verið hafa allra síðustu ár. Það var úr háum söðli að detta því sum þessara allra síðustu sumra voru metsumur, eða sumur með veiði vel umfram meðalveiðitölur. Guðni Guðbergsson fiskifræðingur spáir því þó í viðtali í þessu tölublaði að veiðin gæti farið nærri meðalveiði frá árinu 1978, ef að heldur sem horfir. Haustveiðin er framundan og það er komið vatn í árnar, þannig að við spyrjum að leikslokum og geymum okkur orð eins og „hrun“.

30 punda-plús hængur Árna Baldurssonar úr Skipahyl í Selá. Mynd Árni Baldursson

Snævar Örn Georgsson. með fallegan lax ofan Steinboga í Jöklu.

Á sama tíma bárust víða góðar fréttir af silungaslóðum. Litlaá í Kelduhverfi, urriðasvæðin í Laxá , Reykjadalsá og fleiri voru afar góð. Veiðivötn sprungu út eftir erfiða byrjun, frábær bleikjuveiði var bæði í Þingvallavatni og Úlfljótsvatni, vötn á Skagaheiði gáfu vel, en einhverra hluta vegna datt botninn úr veiðiskap á Arnarvatnsheiðinni eftir líflega byrjun. Sjóbleikjuveiði var víða ágæt og fyrstu merki um sjóbirtingsgöngur voru lofandi. Það hefur líka borið á mjög stórum fiskum, ekki síst í Litluá og Laxá. M.a. veiddist um 16 punda urriði í Litluá, nánar tiltekið í Skjálftavatni, allra tíma stærsti stangaveiddi urriði Veiðivatna kom á land og tveir áætlaðir 30 punda laxar veiddust, annar í Selá og hinn í Laxá í Aðaldal. 110 til 111 cm tröll þar á ferðinni. En við leyfum að vanda myndunum að tala sínu máli.....

Jökull Snæbjarnarson með stórlax úr Haffjarðará.

Hinrik Bergsson með flottan lax úr Straumfjarðará.


Jóhann Rafnsson með glæsilegan stórlax úr Víðidalnum, 102 cm bolti á Green Brahan.

Gústaf Gústafsson með flottan urriða sem hann tók á þurrflugu í Austurá á Arnarvatnsheiði.

Sigurður Árni Sigurðsson ásamt syninum Jóhannesi Kára með 80 cm urriðatröll úr Skjálftavatni. Mynd: Guðrún Hálfdánardóttir.

Skoskur veiðimaður með gríðarvæna bleikju úr Skjálftavatni. Mynd Stjáni Ben.

Lars Svendsen með lax sem var mældur 111 cm úr Laxá í Aðaldal.

Haukur Böðvarsson með metfisk Veiðivatna, 16,4 pund, 83 cm langur og 50 cm í ummál, dreginn úr Grænavatni.

Stefán Haukur Erlingsson og Einar Johnson með stóran urriðahöfðingja úr Þingvallavatni.

Bubbi Morthens með 16 pundara af Nesveið­unum í Laxá í Aðaldal.

Jón Eyfjörð Friðriksson með 83 cm hrygnu úr Barnafellsbreiðu í Skjálfandafljóti. Mynd gg.



Sigríður Þorgeirsdóttir

Gjöf Jöklu Lengi vel, og kannski enn, hefur Jökla sem laxveiðiá verið umdeild. Þarna rann áður Jökulsá á Dal með miklum látum og klofnaði þjóðin í tvær fylkingur um það hvort að hætta ætti við Kárahnjúkavirkjun sem myndi leiða af sér að Jökla myndi hverfa í sinni gömlu mynd. Það varð ofan á að virkja og Jökla er önnur í dag en hún var fyrrum. En það er til fólk sem sér tækifæri alls staðar og þar í hópi er Þröstur Elliðason sem tók Jöklusvæðið á leigu með það að markmiði að byggja það upp sem laxveiðisvæði með sama hætti og hann hefur gert við Breiðdalsá og Ytri Rangá áður. Í hinni nýju Jöklu hefur verið vaxandi laxveiði og mál manna að svæðið sé með fallegri veiðisvæðum sem fyrirfinnast. Við báðum Sigríði Þorgeirsdóttur að skrifa um upplifun sína af Jöklu, en hún hefur þá stöðu að hafa bæði barist hatrammlega gegn virkjun árinnar og síðan staðið í þeim sporum að kasta í hana flugu nokkrum árum síðar. Sigríður Þorgeirsdóttir er prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands. Hún hefur m.a. skrifað um heimspeki náttúrunnar og umhverfissiðfræði og sinnt náttúruvernd. Sigríður ólst upp í nábýli við fiskveiðar og er barnabarn Tryggva Ófeigssonar, eins helsta útgerðarmanns Íslands á sínum tíma og leigutaka Vatnsdalsár um árabil, og er gift lax- og silungsveiðimanni. Sigríður hóf þó ekki að veiða sjálf að ráði fyrr en fyrir nokkrum árum. Sigríður skrifar:

Ljósmyndir: Jóhanna Hinriksdóttir.

13


Bjarni Höskuldsson

Ævintýri við Steinbogann í Jöklu, með Sigríði er Magnús Diðrik Baldursson eigin­ maður hennar.

Þetta var mín önnur ferð til að veiða í alvöru laxveiðiá. Ferðin orkaði tvímælis í mínum huga vegna þess að henni var heitið á vatnasvæði Jöklu. Mér finnst ég nefnilega standa í persónulegu sambandi við Jöklu. Á tímum baráttunnar gegn stóriðjuvæðingu og virkjanaframkvæmdum á Austurlandi gekk ég upp að jökulrótum og niður með Jöklu og kynntist ánni og umhverfi hennar. Ég reyndi með ýmsu móti að leggja mitt af mörkum til að bjarga þessu beljandi Jökulfljóti og leyfa því að vera áfram óhemja. Ég gat ekki hugsað mér að

14

VEIÐISLÓÐ • tímarit um sportveiði og tengt efni • 4. tbl. 2012

„gefa“ Alcoa Rauðuflúðir, Töfrafoss og alla hina fossana. Ég vissi svo sem að afstaða íbúa Jökuldals til Jöklu var ekki einhlít enda hefur sambýlið við hana oft verið átakamikið. Hin ótamda Jökla var „ægifögur“ því hún vakti í senn ugg og aðdáun. Nokkrum árum eftir ósigur í baráttunni var ég aftur komin austur á land þar sem Jökla leið nú allt í einu beisluð og orðin fagurblá laxveiðiá. Hrikafegurð æðandi jökulfljóts hafði vikið fyrir þessari ljúfu á sem leið um tröllvaxin gljúfrin sem Jökla hafð brotið sér leið um.


Ég var lent í mótsögn vegna þess að ég var í senn tvístígandi að vera þarna og full eftirvæntingar að fá að veiða í ánni. Mér fannst eins og það biði mín eitthvað sérstakt. Ég hafði stundað silungsog urriðaveiðar um nokkurra ára skeið og var farið að langa mikið til að veiða lax. Við hófum veiðina í Fossá sem er ein hliðaránna neðarlega í dalnum. Ég byrjaði á að kasta og það þurfti ekki nema tvö köst þar til lax tók í hyl neðan við lítinn foss. Þetta var næstum einum of auðvelt þó svo að það hafi tekið á að halda og landa laxinum. Ég var full

þakklætis og gleði jafnframt því að vera í uppnámi yfir að taka líf laxins. Þetta er aldrei einhlít tilfinning, alla vega ekki enn sem komið er. Ég réttlæti veiðar siðferðilega fyrir mér á þann hátt að vegna þess að ég borði fisk geti ég líka veitt hann. Annað væri tvískinnungur. Það er fátt sem ég hef meiri unun af en að standa við veiðiá en um leið verð ég að setja mig í ákveðnar stellingar hugarfarslega. Mér finnst ég þurfa að fara á vit einhvers veruleika vatns og fiska sem er mér óútreiknanlegur. Áður en ég hef veiðarnar á ég í innra sam-

15


tali við þennan veruleika, stilli mig inn á hann og opna mig fyrir því óræða. Ég reyni allt hvað ég get að lesa ána og aðstæður rétt og beita þeim klókindum sem eru á mínu færi. Jafnframt veit ég að mín lógík nær ekki nema ákveðið langt vegna þess að við skiljum ekki til hlítar hvað fær lax til að bíta á agnið. Stefán Jónsson setti fram þá tilgátu í sjálfsævisögu sinni sem veiðimanns að laxinn bregði á leik við veiðimanninn (sjá Lífsgleði á tréfæti með byssu og stöng sem kom út 1989). Aðrir segja að

16

VEIÐISLÓÐ • tímarit um sportveiði og tengt efni • 4. tbl. 2012

laxar hegði sér frekar eins og vélmenni og bíti á agnið á einhvern skilyrtan hátt jafnvel þótt það þjóni ekki sjálfsviðhaldi þeirra. Fyrri tilgágan er skemmtilegri en sú síðari er líkast til raunsærri. Hver svo sem skýringin kann að vera er reynslan af því að veiða lax dularfull og gjöf náttúrunnar hverju sinni. Eftir að ég hafði landað laxinum lagði fylgdarmaður okkar sem þekkir vel til árinnar til að ég myndi leggja til nafn á veiðistaðinn en það vantar enn


Allt að gerast við Maríusteina í Fossá.

nafn á nokkra staði þarna. Hann sagði mér að veiðifélagi hans hefði nýlega verið þarna á ferð og hefði hann nefnt ónefnda veiðistaðinn þar sem hann fékk lax í höfuðið á sjálfum sér. Mér fannst sjálfri það ekki koma til greina. Þetta var Maríulaxinn minn og þess vegna fannst mér helst koma til greina að kalla staðinn „Maríusteina“ og vísa jafnframt í steinhnullungana tvo sem standa við bakkann og eru kennileiti. Það liggja líka hugmyndasögulegar ástæður að baki nafngiftinni. María er nafn sem

er tilvísun í mar, í sjóinn og vatnið. Sjórinn er eilíf hringrás flóðs og fjöru og vatnið streymir áfram endalaust. Vatnið er uppspretta lífsins sjálfs, þar eigum við upphaf okkar, við, laxinn og allt sem lifir. Svo mér fannst ég hafa góðar ástæður fyrir nafngiftinni. Við opnuðum kampavínsflösku sem ég hafði fengið í afmælisgjöf, skáluðum fyrir veiðinni, veiðifélögunum, vinskapnum og nafni veiðistaðarins þar sem við sátum í ilmandi lynginu við Maríusteina.

17


Skálað í kampavíni fyrir Jöklu og fleiru.

Næst var haldið í Steinbogann sem hlýtur að vera einhver magnaðasti veiðistaður landsins. Það er ekki hættulaust að veiða á þessum stað. Fyrir það fyrsta var aðkoman erfið en það þurfti að klöngrast yfir horngrýti og sprungur, príla niður brattan, sleipan stiga, og fara með gúmmíbát yfir vatnið í gljúfrinu til að komast yfir á hinn bakkann. Það er haft þarna í gljúfrinu þar sem Jökla rennur neðanjarðar, undir steinboga. Það syngur og hvín í ánni undir berginu og vatnið sýður og hvissast upp úr opnum kötlum í boganum. Brjálaða, flotta, kyngimagnaða Jökla. Sæl! Þú ert þarna ennþá í öllu þínu veldi! Tilbúin að losna úr böndum, hvenær sem er. Neðan við Steinbogann var vatnið í gljúfrinu spegilslétt og tært þennan dag fyrir utan að það freyðir í ánni á stöku stað við bakkann eins og væri

18

VEIÐISLÓÐ • tímarit um sportveiði og tengt efni • 4. tbl. 2012

hún kampavínsflaska sem væri verið að opna og hella úr. Það er óhægt um vik að athafna sig þarna. Blautar klappirnar eru hálar eftir að hafa verið slípaðar af ruðningi Jöklu gegnum árþúsundin. Við blasir hyldýpi og hinum megin í gljúfrinu glittir í bunka af löxum. Þeir eru stórir, grábláir og liggja tinandikyrrir og átekta í bláu djúpinu. Það þarf tvíhendu og kastlengri veiðimann en mig til að ná flugu yfir til þessara dulu fisktöffara. Ég ákvað þess vegna að kasta ofan í freyðandi vatnið nær bakkanum og strax í fyrsta kasti tók lítill lax sem var ekki mikið mál að landa. Þvílík gleði að fá annan lax strax aftur. Bara eins og bleikt rósabúnt hafi fallið mér í fang. Ég dæsti og lagði hönd á hjartað um leið og Jóhanna tók af mér mynd að virða fyrir mér laxinn þar sem hann lá þarna glitrandi eins og demantur mitt í grágrýti gljúfursins.


ÓDÝRA VEIÐIBÚÐIN SAVAGE GEAR SÍLIKONBEITAN ER AÐ GERA ALLT VITLAUST Í URRIÐAVEIÐINNI

· ÓDÝRAR FLUGUR · ÓDÝRIR SPÚNAR · ÓDÝRAR VÖÐLUR · ÓDÝRIR JAKKAR · ÓDÝR HJÓL · ÓDÝRAR STANGIR · ÓDÝRA VEIÐIBÚÐIN BEITAN Í VEIÐIFERÐINA

ORMAR OG MAKRÍLL

SAVAGE GEAR 4PLAY SÍLIN ERU ÓTRÚLEGA EÐLILEG Í VATNI OG VEIÐA VEL

KRÓKHÁLSI 4 - 110 REYKJAVÍK - SÍMI 517 8050 Í leiðinni úr bænum MÁN. TIL FÖS.- 9 TIL 18 /// LAU. - 10 TIL 16

19


Hólmakvísl mætir Norður Atlantshafinu. Myndir gg.

20

VEIÐISLÓÐ • tímarit um sportveiði og tengt efni • 4. tbl. 2012


veiðistaðurinn Ósasvæði Laxár á Ásum

Spennandi og fjölbreytt

falla­skiptaveiði Veiðistaðurinn í þessu tíunda tölublaði Veiðislóðar frá upphafi og fjórða blaði þessa árs, er ósasvæði Laxár á Ásum. Þetta er að hluta til fyrrverandi netaveiðisvæði bænda sem eiga þarna land að Laxá og Húnavatni að austan. Stangaveiði var þar ekki fyrr en nú í sumar og er talað um tilraunaveiðar með þann möguleika opinn að selja í þetta ef reynslan af tilraunaveiðiskapnum telst vera góð.

21


veiðistaðurinn Ósasvæði Laxár á Ásum

Það eru Salmon tails, leigutakar Laxár á Ásum sem staðið hafa fyrir tilraunaveiðum á svæðinu í samstarfi landeigendur, en veiðisvæðinu er þannig lýst á kynningarblaði Salmon tails: -Um er ræða rétt tæplega 3 km gönguleið laxfiska, sjóbleikju, lax, urriða/sjóbirtings. Annars vegar er um að ræða veiði í Húnavatni og hins vegar í Hólmakvísl, á sem rennur úr Húnavatni og út í sjó. Efsti hluti veiðisvæðisins, Húnavatn, afmarkast af litlum hólma við austurbakka vatnsins rétt um 200 metrum neðan við ós Laxár á Ásum þar sem hún rennur í Húnavatn. Á efri hluta veiðisvæðisins í Húnavatni er möguleiki að veiða, bæði frá suðurbakka(grasbakki) og vesturbakka (sandeyrar). Á þessu svæði var sjósilungur áður fyrr veiddur í net, neðan við hólmann, þaðan niður með bakkanum og niður fyrir Torfalæk sem rennur í Húnavatn, en líklegt er að mesta veiðin sé í kring um Torfalæk. Á miðhlutanum er samfellt veiðisvæði sjósilungs meðfram austurbakka Hjaltabakkahólma. Neðsti hluti svæðisins, austurbakki Hólmakvíslar, er samfellt veiðisvæði, en þar er jafn framt mesta laxavonin á ósasvæðinu. Á fjöru rennur Laxá á Ásum niður að Hjaltabakkahólma , en á háflóði er þetta svæði vatn.“ Svo mörg voru þau orð, en tilraunaveiði sem reynd hefur verið í sumar hefur nær eingöngu farið fram í Hólmakvísl, þ.e.a.s. á neðsta hluta veiðisvæðisins. Veitt var á tvær stangir og gisting höfð í gamla veiðihúsinu fyrir Laxá á Ásum, sem er ágætis kofi rétt ofan við þjóðveg eitt, skammt vestan við Blönduós. VoV leit þarna við laust upp úr miðjum júlí. Í Veiðibók mátti sjá að all nokkrir höfðu verið þarna á undan við vísinda-

22

VEIÐISLÓÐ • tímarit um sportveiði og tengt efni • 4. tbl. 2012

veiðiskapinn og mörgum gengið afar vel. Þarna höfðu greinilega verið fjörug bleikjuskot og sjóbirtingar voru einnig í aflanum. Mátti sjá birtinga í bók upp í allt að 10 pund. Bleikjur voru einnig vænar í bland, góður slangur af 3 til 5 punda innan um smærri fiskinn. Aðeins einn lax var í bókinni, 83 cm fiskur veiddur snemma sumars. Athygli vakti þó að allur aflinn var skráður í Hólmakvísl og á því líklega eftir að kanna nánar efri hluta svæðisins, þess hluta sem telst til Húnavatns. Leiðbeiningar Arnars Jóns Agnarssonar hjá Salmon tails voru, að grafast fyrir um tímasetningu háflæðis, hefja síðan veiðar efst í Hólmakvísl um tveimur klukkustundum eftir háflóð og veiða vítt og breytt um kvíslina á útfallinu. Sumir, sagði Arnar, hefðu veitt allra best á háfjöru. Þá átti helst að þverkasta þyngdum Nobblerum og strippa þá hratt. Þá var leyfilegt að veiða um nótt, eftir því sem staða sjávarfalla buðu upp á, að því tilskyldu að tólf stunda reglan var eftir sem áður í fullu gildi. Slíkur sveigjanleiki er gulls ígildi á veiðistað, ekki hvað síst þar sem gætir flóðs og fjöru. Í ljós kom hjá okkur, að svæðið var erfitt á aðfallinu og nánast ónýtt er kom að háflóði. Allt farið á kaf og þari og þang á floti um allt, leitandi að flugum til festa sig á. Á fjörunni rennur Laxá sum sé niður með nefndum Hjaltabakkahólma og þar sem vegslóðin endar, eru menn mættir á einhvers konar odda þar sem horft er upp að hólmanum og Húnavatni ef glápt er til suðurs, en niður með endilangri Hólmakvísl ef glápt er til norðurs. Á fjörunni er líka afskaplega veiðilegur veiðistaður þar sem kvíslarnar koma saman neðan við hólmann. Strengurinn



niður austurbakkann kemur býsna nærri landi áður en hann þvælist aftur frá bakkanum og út þar sem hann mætir hinni kvíslinni sem manni sýnist að hljóti að vera meira Vatnsdalsáin. Myndast straumröst þar sem strengirnir koma saman og nær sú röst töluvert niður með sameinaðri kvíslinni. Þarna efst á horninu settu VoV-arar í all nokkra fiska, bæði sjóbleikjur, sjóbirtinga og meira að segja einn lax, ca 4 punda hæng, en silungarnir voru á bilinu frá ca 1,5 pund og upp í ríflega 3 pund. Þarna var gaman að vera, sérstaklega á nóttunni, en tökurnar komu þarna í bylgjum. Líkt og fiskur kæmi þarna, stoppaði um tíma, en færi síðan aftur, annað hvort upp í Vatnsdalsá eða aftur til sjávar. Frá umræddu horni er hægt að veiða Hólmakvíslina alveg niður í ós og er alls staðar möguleiki að setja í fisk. Sjá

24

VEIÐISLÓÐ • tímarit um sportveiði og tengt efni • 4. tbl. 2012

má sjóbirtinga stökkva hér og þar á ferð sinni upp og settum við í fiska alveg niður undir sjó, en allra neðst er gríðarlega veiðileg breiða á háfjöru. Hvítur Nobbler með grænu í skottinu ásamt Breiðdals Bleikju Bana hans Súdda í Breiðdal reyndust okkur drjúgar flugur, en í veiðibók máti sjá að menn voru að reyna ýmislegt og margt að virka, Nobblerar í fleiri litum, Bleik og blá og jafnvel púpur, sem virka sjálfsagt best þegar menn hafa fundið dálitla bleikjutorfu til að einbeita sér að. Reynslan af því að veiða Hólmakvíslina var skemmtileg og frábær tilhugsun að eiga eftir að skoða aðra hluta svæðisins, en austurbakki Hjaltastaðahólma er um 800 metrar og suðurbakki Húnavatns um einn kílómeter. Á þeim slóðum voru netin forðum og því klárt mál að þar er einnig hægt að hitta á göngusilunginn.



Horft niður veiðisvæðið í dulúðugri næturbirtunni.

Mjög líklegt verður að teljast að Salmon tails bjóði upp á veiðileyfi þarna að ári þó að ekki höfum við það staðfest enn. Alla vega var gott í þeim hljóðið um gang mála. Veiðin byrjaði snemma í mai, byrjaði alls ekki vel, en strax og kom fram í júní breyttist allt til hins betra og júní og allur júli gáfu fín skot. Rétt er að benda á, að nauðsynlegt er að vera á fjórhjóladrifnum bíl á svæðinu. Þarna er sums staðar gljúpur sandur og eindrifa bílar myndu auk þess eiga í miklum erfiðleikum að komast upp bratta brekku sem aka þarf upp þegar ekið er af svæðinu. Rétt er einnig að benda mönnum á að ganga varlega um þarna því iðandi líf er á staðnum,

26

VEIÐISLÓÐ • tímarit um sportveiði og tengt efni • 4. tbl. 2012

fjölbreytt fuglalíf og var mikið ungviði þarna í miklu návígi, m.a. mófuglar ýmiss konar, rjúpur, æðarfuglar og kríur. Við munum greina nánar frá veiðum okkar í Hólmakvísl í Stangaveiðiárbókinni á komandi vetri. Þetta er svæði sem okkur langar að fara aftur á og kanna nánar.


V

illibráðardagar MEÐ VILLTA VILLIBRÁÐARMEISTARANUM 5. - 6. OKTÓBER Úlfar Finnbjörnsson, matreiðslumeistari, verður á Grand Hótel Reykjavík dagana 5. - 6. október 2012. Sértilboð til veiðimanna 8.800 kr. á mann. Almennt verð 9.800 kr. á mann.

www.expo.is

Pantanir í síma 514-8000 og á veitingar@grand.is

Grand Hótel R e y kj av í k, Sigtún 3 8 , 1 0 5 R e y kj av í k / Sím i: 5 1 4 8 0 0 0 / w w w. g rand. is


fjölskylduveiði Frostastaðavatn

Stórar bleikjur og smáar og

28

VEIÐISLÓÐ • tímarit um sportveiði og tengt efni • 4. tbl. 2012


Myndir: Einar Falur Ingólfsson.

nóg af þeim

Mörg eru vötnin sem henta fjölskyldum einstaklega vel til veiða. Eitt af þeim sem fylla báða flokka að vera gjöfult með afbrigðum og hafa að auki með ólíkindum fallegt umhverfi, er Frostastaðavatn á Landmannaafrétti. Það er eitt svokallaðra „Framvatna“ þar sem átt er við eitt vatna í vatnaklasa sunnan Tungnár, en hinu megin ár eru hin frægu Veiðivötn á sama afrétti.


Það er ekki óalgengt að þeir sem koma akandi eftir Landmannaleið og líta yfir Frostastaðavatn í fyrsta sinn, missi málið augnablik, slík er margbreytileg fegurðin sem mætir augum þeirra. Litadýrð fjallahringsins, þar sem líparítið er ógleymanlegt, og vogskorið vatnið undan storknuðum hraunfossinum fá hugann til að leita að hliðstæðu, en hliðstæðan er eiginlega ekki til. Framvötnin eru all nokkur, af öðrum mætti nefna Ljótapoll (sem er alls ekki ljótur!), Herbjarnarfellsvatn, Lifrarfjallavatn og fleiri. Kaupi menn veiðileyfi í eitt þeirra, þá má fara í þau öll. Fyrir þá sem stoppa einhvern tíma er sjálfsagt að skoða sig um víða í þessari veiði­ paradís, en það er ekki að ástæðulausu að Frostastaðavatnið er aðalvatnið og í sérstöku uppáhaldi hjá mörgum vatnaveiðimönnum. Það er fullt af fiski. Fregnir herma að smáfiski fjölgi þar hin seinni misseri og veiðifélag vatnsins æski þess af veiðimönnum að smáfiski sé ekki hlíft því grysjunar sé þörf. En smáfólkinu meðal veiðimanna er yfir-

30

VEIÐISLÓÐ • tímarit um sportveiði og tengt efni • 4. tbl. 2012

leitt nokk sama þótt að fiskurinn sem bítur á sé smár. Oft er hægt að moka fiski í vatninu og ýmsir hafa sagt okkur að veiða megi nánast hvar sem komið er að vatninu. Margir fara aldrei lengra en nokkur hænufet frá bílastæðinu. En nenni menn að taka á sig smá labb, þá bíða ævintýrin mögulega handan við hornið. Sé farið „inn í hraunið“ eins og menn kalla það, og segir sig sjálft hvað átt er við séu menn á staðnum, þá er komið í völundarhús hólma, ála og víkna. Í þessum víkum sumum hverjum virðast koma lindir undan hrauninu og þangað hefur augljóslega stór hluti stórfisks vatnsins safnast. Þarna dorma stóru bleikjurnar. Á Veiðivatnavefnum hans Arnar Óskarssonar, www.veidivotn.is er sér kafli um Framvötnin. Þar segir að veiðst hafi allt að 18 punda bleikjur í Frostastaðavatni. Bleikja af slíkri stærð er að vísu ljónsjaldgæf, en stórar eru þær í víkunum og bollunum. Einar Falur Ingólfsson ljósmyndari og blaðamaður fór í vatnið í sumar og tók þá myndirnar sem hér fylgja. Hann sagði okkur að


þetta hefði verið hressilegur fjölskyldutúr sem byrjaði í Reykjavík snemma morguns og endaði þar einnig, síðla kvölds. Fyrst raðaði fjölskyldan sér á ströndina skammt frá bílastæðinu og mörgum bleikjum í smærri kantinum var landað á hefðbundnar púpur. Síðan fór Einar inn í hraunið og sagði farir sínar ekki sléttar, þarna hefðu verið flekkir af boltafiski og þarna setti hann í nokkrar slíkar. Sagði hann það hafa verið með ólíkindum tilþrifamikið að kasta púpu á torfurnar, horfa á agnið sökkva hægt og rólega niður, sjá síðan stóra bleikju koma silalega á móti púpunni og taka hana í kjaftinn aðeins fáa metra í burtu og horfa á alla atburðarásinu í gegn um spegilsléttan vatnsflötinn. Svona setti hann í og landaði nokkrum boltafiskum og þetta hafa margir leikið á undan honum. Eftir stendur stórfengleg skemmtun við að egna fyrir þær stóru og botnlaus gleði barnanna að skófla inn smærri fiskinum. Bara ekki gleyma mýflugnanetunum!

Ein duglegasti silungsveiðibloggari landsins heitir Kristján Friðriksson, við fundum lýsingu á blogginu hans á veiðitúr í Frosta fyrr í sumar og vonum að hann misvirði það ekki við okkur að birta smá kafla úr blogginu: Á laugardagsmorgun fórum við síðan í Frostastaðavatnið sem er nokkuð góð ávísun á veiði, mig var farið að þyrsta í að taka fisk. Við ákváðum að prófa fyrir okkur undan og austan við bílastæðið að norðan, gætum alltaf fært okkur annað síðar. En, við eyddum öllum deginum á þessum slóðum og tókum samtals 27 bleikjur í stærð frá undirmáli og upp í pundið. Ríflega helmingur þess sem kom á land var nýtanlegur til átu, öðru hefði verið sleppt undir eðlilegum kringumstæðum en minnug tilmæla Veiðifélagsins var allur afli hirtur. Ég tók minn hluta, 7 bleikjur á Higa‘s SOS, flestar við skerin undan hrauninu og svo eina mjög góða á Bleik og blá

31


undan bílastæðinu síðdegis. Frúin tók sín 19 stk. á Peacock með orange skotti, alla utan eina framundan bílastæðinu. Og þá var nú tímanum sem við höfðum gert ráð fyrir að eyða við Framvötnin lokið því veðurspáin lofaði okkur 8 m/ sek. með rigningu á sunnudeginum. En, þar sem ekkert bólaði á þessu veðri um kvöldið framlengdum við dvölinni og renndum aftur inn að Frostastaðavatni á sunnudagsmorguninn í stað þess að halda heim á leið. Nú varð hraunið að suðaustan fyrir valinu. Við gengum inn með ströndinni og urðum vör við frekar litla fiska á leiðinni en þegar við komum að fyrstu víkinni í hrauninu dró veiðigyðjan svolítið stórkostlegt upp úr hattinum. Stórar og pattaralegar bleikjur í tugatali höfðu komið sér þarna fyrir í bunkum, leitandi í ferska vatnið sem seytlaði undan hrauninu. Að vísu höfum við séð svona bunka af bleikjum áður, en aldrei af þessari stærð og í þessu magni. Ég lét vaða á þvöguna með þungum Kopar Mola til að koma henni örugglega niður í dýpið og viti menn, þessi líka fallega bleikja tók með miklum látum. Við klöngruðumst áfram inn í hraunið að næstu vík og þar var sama sagan.

32

VEIÐISLÓÐ • tímarit um sportveiði og tengt efni • 4. tbl. 2012

Feitar og fallegar bleikjur í bunkum innarlega í víkinni. Þar sem þetta var öllu aðgengilegri veiðistaður komum við okkur fyrir og byrjuðum að tína þessar fallegu bleikjur upp, hverja á fætur annarri. Svo rólegar voru þær þarna í heitu og björtu veðrinu að fátt fékk þeim haggað og við þurftum að hafa okkur við að fanga athygli þeirra með flugum sem sukku vel og æstu þær til töku. Flestar tóku Higa‘s SOS, Mýflugu og Blóðorm úr rauðum vír, samtals 11 stk., konan átta, ég þrjár. Þó við fegin hefðum viljað eyða lengri tíma við vatnið var okkur ekki til setunnar boðið, heimferð fyrir höndum og vinnudagur að morgni. Sjá annars silungsveiðibloggið hans Kristjáns á kristjfr.wordpress.com Veiðileyfi fengust lengi í Framvötnin að Skarði í Landssveit en svo er eigi lengur. Veiðileyfi má nálgast hjá landog skálavörðum í Landmannahelli og í Landmannalaugum. Félagar í Ármönnum mega veiða endurgjaldslaust gegn framvísun félagsskírteina sinna, enda hafa þeir gert samkomulag við landeigendur.


ONE ONE ER NÝJA FLAGGSKIPIÐ FRÁ SAGE. MEÐ SAGE ONE FÆR NÁKVÆMNI NÝ VIÐMIÐ. ÞRIGGJA ÁRA ÞRÓUNARVINNA. NÝJA KONNETIC TÆKNIN. HANDGERÐ STÖNG FRÁ GRUNNI. VIÐ LEYFUM OKKUR AÐ FULLYRÐA AÐ SAGE ONE ER MERKASTA NÝJUNG Í FLUGUSTÖNGUM FRÁ ÞVÍ GRAFÍT KOM TIL SÖGUNNAR. SAGE ONE ER HIN FULLKOMNA FLUGUSTÖNG. KONNETIC™ TÆKNIN

BEST FRESHWATER ROD

- International Dealer Show í New Orleans 2011

BEST SALTWATER ROD

KONNETIC™ tæknin / Sage ONE

- International Dealer Show í New Orleans 2011

Hefðbundin flugustöng

BEST FLY ROD

- Efftex 2011

BEST ALL ROUND ROD

- Fly Fisherman Gear Guide 2012

BEST NEW FLY ROD

- Feild & Stream feb. 2012

Þessi nýja tækni er afsprengi margra ára þróunarvinnu. Með nýrri aðferð og efnum er nú unnt að pressa meira af bindiefni eða lími úr koltrefjamottunum en áður hefur verið unnt. Við þetta er hægt að gera stangarefnið (grafítmotturnar) enn léttari en áður án þess það tapi styrk. Grafíttrefjarnar liggja þéttar saman og bjögun verður því minni í stangarefninu. Konnetic tæknin gerir því nýju Sage One stöngina léttari og grennri en aðrar stangir um leið og hún auðveldar veiðimanni auð auka nákvæmni í köstum.

Hefðbundin flugustöng

KONNETIC™ tæknin / Sage ONE

Ný viðmið í nákvæmni

Hér sést hvernig grafíttrefjarnar liggja þéttar saman. Orka stangarinnar flyst því jafnt frá handfangi fram í topplykkju. Sage ONE er ekki bara kraftmeiri heldur er hún einnig nákvæmari með Konnetic tækninni og talsvert léttari.

Hefðbundin flugustöng

KONNETIC™ tæknin / Sage ONE

Fyrstu Sage ONE stangirnar sem komu til Evrópu fóru í flugustangarekka Veiðihornsins Síðumúla 14. ágúst 2011.

SÍÐUMÚLI 8 - 108 REYKJAVÍK SÍMI 568 8410 - VEIDIHORNID@VEIDIHORNID.IS



fluguboxið á barnum

Erfitt að slíta sig frá barnum ....þ.e.a.s.

flugubarnum

Í síðasta tölublaði fórum við á nokkra af helstu flugubörum borgarinnar og skoðuðum hvað í boði var fyrir silunga og hina snemmgengu laxa. Við fengum okkur svo rækilega í tána á því pöbbarölti, að nú þegar hallar sumri fórum við aftur á barina til að athuga hvað sniðugt væri að bjóða síðsumars- og haustlaxinum, í ljósi þess að loksins er komið boðlegt vatn í margar laxveiðiár. Og ekki var úr vegi, fyrst við vorum að þessu, að minna á að sjóbirtingsvertíðin er nú rétt handan við hornið. Svo nærri raunar, að fyrstu fiskarnir eru gengnir í Vestur Skaftafellssýslu og birtingar í laxveiðiánum á Vesturlandi eru löngu mættir á vettvang. Þannig að, lesendur góðir, gerið svo vel að slást í hópinn á flugubarina.

35


fluguboxið á barnum

Thunder and lightning

Snældu afbrigði

Ossa Monkey fly Creme Bruleh Kopar Snælda

Veiðiflugur Langholtsvegi Hilmar Hansson og Tommi Za voru barþjónar okkar hjá Veiðiflugum á Langholtsveginum. Fyrst kom Tommi með sérstæða flugu sem hann sagði að héti Junction Shrimp og vera eina af uppáhaldsflugum Hilmars. Þetta væri góð haustfluga og hönnuð af einhverjum enskum leiðsögumanni við ána Tay. Thunder and Lighting var einnig dregin fram og gaman að sjá enn og aftur gamla góða, en TaL er lítið notuð nú til dags. Síðan sótti Tommi Munroe Killer, enda er hún ein skæðasta haustfluga fyrir lax sem fyrirfinnst, sérstaklega á þríkrækju með long tail. „Það er sama með Cascade, en hún hefur verið heldur skemur við lýði í ánum hérna,” sagði Tommi.

36

VEIÐISLÓÐ • tímarit um sportveiði og tengt efni • 4. tbl. 2012

Nú kemur Hilmar skælbrosandi með skrýtna græna flugu sem hann segir að heiti Pompier, flugu sem hann segir ótrúlega öfluga í kanadískum ám og nú skuli reyna á hana hér á landi. „Ef hún er góð þar, hvers vegna þá ekki hér heima,“ segir Hilmar. Þá tínir Hilmar til túpur í haustlaxinn og sú fyrsta sem hann skellir á borðið er „Ossa Monkey fly“og hann segir nafnið vera í höfuðið á eigikonunni og meðeigandanum Oddnýju Magnadóttur. „Oddný mín var oft kölluð Ossa, sem er líka nafn á kvenkyns haferni, en ég gæti aldrei selt flugu sem héti Oddný Elín, þannig að við lékum okkur með nafnið á flugunni þó að það væri að upplagi í höfuðið á


Junction Shrimp

Zonker Dentist

Cascade Pompier

Munroe Killer

Zonker Black Ghost

TZ Dýrbítur

Oddnýju,“ segir Hilmar og ekki er nafngift næstu túpu af síðri toga. Flugan sú heitir Creme Bruleh. Hinn sænski Marcus Bohlin veiddi á þessa flugu í Hafralónsá og þegar hann var spurður á hvað hann veiddi fiska sína sagði hann að flugan væri ekki komin með nafn. Í þeim töluðu orðum var Freyr Frostason kokkur að bera fram Creme Bruleh og þar með var nafnið komið.

Tommi kemur nú með sjóbirtingsframlög Veiðiflugna í þetta barstúss okkar. Það eru Zonkerafbrigði af Black Ghost og Dentist og undarlega útlítandi hvítur Dýrbítur sem hann útskýrir nánar: „Þetta er að upplagi bara venjulegur Dýrbítur, en ég bætti að gamni við hann rauðum gúmmílöppum og hann hefur reynst fantavel þannig. Einn sem fór í Varmána eftir rigningargusu fyrir svona 3-4 vikum veiddi tvo mjög væna birtinga, 69 og 70 cm og fleiri smærri, en eina flugan sem hreyfði fisk var þessi. Hún hefur líka reynst mjög vel í bleikju og urriða.“

37


fluguboxið á barnum

María

DSOM

Svört Snælda Wild boar HKA Sunray

Veiðihornið Síðumúla Ljósmyndir: Heimir Óskarsson.

38

Ólafur Vigfússon tók á móti okkur í eigin persónu, yfirbarþjónn í Veiðihorninu í Síðumúla, ennþá með glampa í augunum, enda nýkominn ásamt Maríu Önnu úr Laxá í Leirársveit þar sem þau lönduðu átta löxum og nokkrum fanta vænum birtingum. Ólafur valdi haustlaxaflugur í anda þess að hann reiknaði með því að gott vatn yrði í ánum úr því sem komið er og vonandi verður hann sannspár með það. Hann tíndi fyrst til þrjár túpur, allar þungar, þetta voru túpurnar DSOM, svört Snælda/Wild boar og María, sem er túpa sem Kristján Guðjónsson fyrrverandi formaður SVFR hannaði og er skýrð í höfuðið á betri helmingi Ólafs, sem síðan veiddi afskaplega vel á fluguna.

VEIÐISLÓÐ • tímarit um sportveiði og tengt efni • 4. tbl. 2012

„DSOM stendur fyrir Dark Side of the Moon og var hönnuð í tilefni af komu Roger Waters hingað til lands fyrir nokkrum árum. Það kom hingað fólk og leitaði eftir veiðibúnaði til leigu og ég vissi ekki strax að þann búnað átti Waters að nota í Norðurá. Þegar ég vissi það, langaði mig að heiðra hann með flugu því ég hef verið aðdáandi Pink Floyd frá því að ég var trítill. Þá varð til þessi túpa sem ég hannaði en Jói hnýtti og menn geta sagt: Hvað er nýtt við þetta? Er þetta ekki bara enn ein Snældan? Jújú, kannski það, en það er pæling í þessu samt, gula keilan er sólin, fanirnar eru geislar hennar og skottið táknar skuggann. Þessi líka


Flæðarmús túpa

Super tinsel

Black Ghost

djúpa pæling leiddi af sér virkilega góða haustveiðitúpu. Það hefur líka komið einstaklega vel út að nota Wild boar í fálmara á Snældunni og hvað Maríu varðar, þá er það einfaldlega uppáhaldið mitt í þennan veiðiskap og fyrst þið eruð að leita líka eftir sjóbirtingsflugum þá er María sú fluga sem ég hef veitt flesta mína birtinga í Tungufljóti hin seinni ár, vor og haust. M.a. einn sem var örugglega um 25 pund, en því miður slapp hann eftir harða rimmu,“ segir Óli. Hann tínir líka til það sem hann kallar HKA Sunray, sem er Sunray afbrigði eftir Henrik Kassow Andersen sem leið-

sagði mikið um tíma í Rangánum með Henrik Mortensen. „Henrik bjó þessa flugu til og hún er mögnuð. Seinna hefur hún verið kölluð öðrum nöfnum eins og Bismo og Scandic Sunray, en ég veit ekki hvaðan þau nöfn hafa komið.“ Að endingu kemur Ólafur með nokkuð hefðbundið í birtinginn, Black Ghost túpu, Flæðarmús og síðan Super Tinsel sem hann segir magnaða urriðaflugu sem hljóti að vera flott í birtinginn líka. „Þetta er finnsk fluga og maður hefur heyrt úr ýmsum áttum að hún sé jafnvel bönnuð sums staðar í Finnlandi vegna þess að hún veiði svo svakalega.“

39


fluguboxið á barnum

Gúmmílappa-línan

Green butt

Black and blue Silver Wilkinson Green Highlander

Green Brahan

Veiðivon Mörkinni Haukur og Eygló eru barþjónar Veiðivonar í Mörkinni og hafa staðið vaktina þar um árabil. Þau byrja á sjóbirtingsflugunum og draga strax fram nýjungar á barnum hjá þeim, annars vegar veiðilega Zonker-línu frá Turrell, fjórar straumflugur, hver einlit í aðalatriðum, og síðan litlar straumflugur með keilu á hausnum og hvítar gúmmílappir. Þeim svipar til Nobblera, en keilan á hausnum skilur þær að frá augunum á Nobblerunum. „Þetta eru veiðileg kvikindi sem hafa allt til brunns að bera að veiða sjóbirting. Þetta eru nýjar flugur hjá okkur, en við finnum að menn eru strax að sækja í þær og þær virka vissulega spennandi,“ segir Haukur. Þau benda

40

VEIÐISLÓÐ • tímarit um sportveiði og tengt efni • 4. tbl. 2012

líka á svarta Flæðarmús sem þau segja að vel megi minna á, því margir virðist halda að aðeins sú rauða sé valkostur. „Sú svarta er líka mögnuð fluga,“ segja þau hjón og tala af reynslu. Eygló er á höttunum með tvær flugur sem verða að teljast verulega óhefðbundnar. Hún vill endilega hafa þær með, ekki hvað síst vegna þess að önnur þeirra heitir því skemmtilega nafni Secret Weapon. Það er lúmskt fluga svo ekki sé meira sagt, með aukataum aftur frá bug og litla þríkrækju aftan við einkrækjuna, svona gerð til þess að fiskar komist ekki upp með að narta bara aftast í fluguna og ergja veiðimenn stöðugt með því að festa sig ekki. Hina fluguna geta les-


Sunk lure

Svört Flæðarmús Secret weapon

Nýja Zonker línan

endur skoðað á myndinni, en hún hefur líklega litla eða enga veiðireynslu hér á landi, Sunk Lure heitir hún. Og að laxaflugunum sem Veiðivon mælir með í haustið. Haukur sleppir alveg túpunum, segir veiðimenn að sínu mati vera of fljóta að „detta í túpur“. „Það getur auðvitað þurft að nota túpur, en á fallegum góðum dögum í mátulegu vatni þá er kannski engin sérstök þörf að vera að berjast með túpum. Góð long tail fluga dugar, auk þess sem það er þægilegra að kasta þeim og þær eiga það ekki til að skemma stangir eins og túpur geta gert ef að þær lemjast utan í þær. Þurfi menn að sökkva flugunni,

þá eru sökktaumarnir til reiðu,“ segir Haukur og tínir til mögnuðu þrenninguna Black and Blue, Green Brahan og Green but. Ég er sérstaklega hrifinn af Green Brahan með þessa gulu og grænu samsetningu, minnir mig alltaf á Devonana sem maður notaði í gamla daga, þessir gulu og grænu voru alltaf að gefa manni afla,“ segir Haukur, sem að lokum mælir með Silver Wilkinson og Green Highlander í smáum númerum....“ef að aðstæður eru viðkvæmar, þá eru smærri flugurnar líklegri og ekki sakar að þær séu úr röðum þessara gömlu góðu klassísku,“ eru lokaorð barþjónsins í Mörkinni.

41


fluguboxið á barnum

Snælda

Cascade

Sunray shadow Viagra

Vesturröst Laugavegi Jón Ingi í Vesturröst á erfitt með að halda aftur af sér í fluguumfjöllun. Hann tínir til eitt og annað og eins og síðast, miklu meira en möguleiki er að birta. En kíkjum á ráð hans: „Ég myndi alltaf hafa Grey Ghost í boxinu, frábær og vanmetin fluga það og þessi hér,“ segir hann og strýkur yfir svarta og gyllta straumflugu, „er ýmist kölluð Orvis Nobbler eða afbrigði af svörtum Tóbí.“ Orgínal svarti Tóbí er tíu sentimetra fluga sem er kennd við Engilbert Jensen og er, eins og nafnið gefur til kynna, stæling á spúninum knáa. Tóbíin hjá Jóni Inga er mun nettari fluga, en hann segir hana gefa birting og jafnvel lax. Þá er hann hrifinn af lítilli

42

VEIÐISLÓÐ • tímarit um sportveiði og tengt efni • 4. tbl. 2012

Flæðarmús með tungsten haus sem hann segir hafa verið sérstaklega skæða og gefið stórar sjóbleikjur, auk þess sem hún er löngu orðin klassísk sjóbirtingsfluga hér á landi. Áður en Jón Ingi snýr sér að laxaflugunum kemur hann með afskaplega veiðilega straumflugu sem hann segir að heiti Gulur Hróður og sé „eftir Bjarnfinn“ sem hann getur þó ekki gefið fullt nafn á og við þekkjum sjálfir engin deili á. En guli Hróðurinn er veiðileg og Jón Ingi fullyrðir að hún hafi reynst skæð í urriða og birtingi og ekki sé vafi að hún geti lika gefið lax, sem þær geta reyndar allar gert, sjóbirtingsflugurnar.


Grey ghost

Flæðarmús

Gulur Hróður

Svartur Tóbí

Black Ghost með bleikum haus

Þegar talið berst að laxaflugum ætlar Jón Ingi að fara frekar hefðbundnar leiðir og velur fyrir okkur bæði Snældu og Cascade. „Það sem margir vita kannski ekki, er að Snældan er svakalega vanmetin sjóbirtingsfluga. Hún er frábær í birtinginn og á það við um allar litasamsetningar hennar.“ Loks velur Jón Ingi túpuna Viagra, líkt og hann gerði líka í fyrri heimsóknina á barinnhjá honum. Hann segir fluguna magnaða, hún sé hönnun Ásgeirs Ebenesar, en hann eignar sér sjálfur heiðurinn af nafninu. Sagan er þessi: „Við vorum að veiða í Affallinu og það var mikið af laxi en engin taka. Ásgeir hafði látið okkur hafa þessa flugu og

bað okkur um að skýra hana ef eitthvað kæmi á hana. Ég var nýbúinn að setja hana á hjá mér þegar ég missti einhvers konar brandara útúr mér, ég sagði strákar, við náum honum upp ef við notum Viagra, átti þá við laxinn. Stuttu seinna setti ég í lax á þessa túpu og þeir urðu fleiri. Þar með var nafnið komið, Viagra.“.

43


fluguboxið á barnum

Black Labrador

Colburn special

Godfrey

Hrygnan Síðumúla Kristín í Hrygnunni hefur áður sagt okkur að stefnan í Hrygnunni sé að veiðimenn fái einfaldlega það sem þeir þurfa á flugubarnum sínum og því sé ekki kannski mikið um nýjungar eða skringilegheit. Við nánari skoðun er þó margt forvitnilegt á barnum hjá Stínu. Hún er með flugur frá nokkrum miklum veiðikörlum, Trausta hjá Iceflies, Ásgeiri Ebenezer og Pétri Maack, sem sérhæfir sig í Þingvallapúpum, enda segir Kristín að margir Þingvallaveiðimenn séu tíðir gestir á barnum hjá sér.

44

VEIÐISLÓÐ • tímarit um sportveiði og tengt efni • 4. tbl. 2012

En um laxaflugur fyrir haustið sagði Kristín: „Þegar ég opna boxið, þá leita fingurnir í Frances, en ef þú biður mig um að loka augunum fyrir henni og velja eitthvað annað, þá myndi ég hiklaust taka eitthvað smátt miðað við hvernig þetta sumar hefur útlagst.“ Síðan tínir hún til fallega litla Black Labrador sem er vel þekkt og gjöful fluga, en er samt sem áður ein af mörgum slíkum sem að vikið hafa að mestu fyrir tískuflugunum á borð við Frances, Snældu og endalausum Sunray afbrigðum, að ógleymdum hitstúpum í öllum stærðum og gerðum.


Strandveiðifluga sem gæti gefið birting

Super tinsel

Flæðarmúsar afbrigði Kötturinn gulur

Kötturinn svartur

Það er gaman að sjá Black Labrador handleikna á nýjan leik því hún hefur margan laxinn lagt að velli. Meira að segja stóra fiska, Sigurður Örn Einarsson veiddi t.d. 28 punda lax í Víðidalsá um árið með þessari flugu. Kristín tínir einnig til aðra sem henni líst vel á og segir hana heita Godfrey, „en ekki spyrja mig um nánari deili á henni. Ég veit ekkert um hana annað en að mér finnst hún ferlega veiðileg og ég veit að menn hafa veitt á hana. Og það er líka ljóst að grænar og gulur flugur eru að aukast að vinsældum,“ bætir Kristín við og sækir hina mögnuðu Colburn Special.

Sjóbirtingsúrvalið er einnig fjölbreytt hjá Kristínu og litadýrðin mikil eins og hæfir birtingnum. En hún er ekkert að flækja valið og segir Köttinn vera málið, svarta einkrækju eftir Ásgeir Ebenezer og síðan gulleitt afbrigði á tvíkrækju, vígalegt kvikindi með afbrigðum og þung gleraugu á hausnum. Og að endingu teflir Kristín einnig fram, líkt og Óli í Veiðihorninu, hinni bönnuðu finnsku flugu Super Tinsel.... greinilegt að barþjónarnir hafa mikla trú á þeirri flugu.

45


fluguboxið Crosfield

Laxaflugan Crosfield á rætur að rekja til Reykjavíkur Við höfum verið að leika okkur að því að rifja upp gamlar klassískar flugur í síðustu tölublöðum og velta fyrir okkur hversu skemmtilegt væri að þær fengju nýja lífdaga og viðurkenningu fyrir veiðni sína. Laxaflugan Crosfield er í þessum flokki, er frekar lítið notuð hin seinni ár. Það kemst fátt að fyrir Frances af öllum stærðum og gerðum, eða Sunrey eða Snældu. Flugan sú arna á þó sína aðdáendur og virkar ekki verr en margar aðrar í smærri númerum við þau skilyrði sem henta smærri flugum yfirleitt. En flugan á sér skemmtilega sögu.

Við Neðri Kistu í Elliðaánum. Mynd Einar Falur.


Í sumum erlendum flugnabiblíum er Crosfield talin íslensk fluga. Það er nú kannski heldur mikið sagt, en svo sannarlega var hún hnýtt fyrst á Íslandi, en af Englendingi, Shetney Crosfield, sem veiddi um árabil í Elliðaánum. Við rákumst á kafla í bókinni Elliðaárnar – Paradís Reykjavíkur eftir Guðmund Daníelsson sem út var gefin af Bókaútgáfu Guðjóns Ó.Guðjónssonar árið 1968. Þar er birtur kafli úr viðtali sem Víglundur Möller átti við Pétur Gunnlaugsson sem hafði veitt með Englendingum í lok 19.aldar og fram á þá tuttugustu. Þar kemur m.a. forsaga þessarar veiðnu flugu sem gaman væri að fengi nýtt líf í boxum veiðimanna hér á landi. Í það minnsta ætlar sá er þetta skrifar að koma sér upp nokkrum og reyna á Næstu vertíð. En kíkjum á viðtalsbrotið: – Líklega var Shetney Crosfield mér minnistæðastur. Hann var tvímælalaust langsnjallasti veiðimaðurinn af þeim, sem ég var með. Sá var nú ólatur að skipta um flugu. Hann sagðist hafa meiri ánægju af einum laxi á flugu en tíu á maðk, enda snerti hann aldrei annað agn. Ég lærði mikið af því að horfa á hann veiða. –Bróðir hans, Ernest Crosfield, sem var eldri en hann og bóndi í Skotlandi, var hér með honum

eitt sumar. Hann var líka ágætur veiðimaður og kunnur um allar Bretlandseyjar. Hans er víða getið, m.a. í bókinni Greased Line Fishing for Salmon. Hann setti met í laxveiði á einum degi, á svæðinu frá efri húsunum og niður að Skáfossum. Hann veiddi þar 40 laxa, alla á flugu. Það hefur enginn leikið eftir honum. Bróðir hans var á efri hlutanum þennan dag og fékk 28 laxa. Samtals 68 laxar á tvær stangir á einum degi. Ég var þrjú sumur með Shetney Crosfield. Hann hafði gaman af því að leiðbeina öðrum og kenndi mér að kasta flugu og ég tók vel eftir hvernig hann bar sig að öllu, eins og ég sagði áður. Hann var vel búinn fleiri íþróttum en stangaveiði.” Við sleppum nú kafla úr frásögninni sem kemur ekki beint stangaveiði eða flugunni góðu við, forum aftur inn í frásögnina þegar talið berst aftur að veiðiskap: – Crosfield var drengur góður. Og ég minnist hans með miklum hlýhug. Þegar hann kvaddi mig, spurði hann mig hvort ég myndi eftir, að nokkurn tíma hefði fokið í sig við mig. Ég sagðist ekki minnast þess. “Jú, einu sinni,” sagði hann, “þegar þú misstir ífæruna.”

47


fluguboxið Crosfield

Þannig var að ég var að fara yfir hengibrúna, sem var fyrir ofan Borgarstjóraholuna. Ég bar í báðum höndum og hafði ífæruna í ól yfir öxlina. Crosfield hefur víst séð hvað verða vildi, því hannkallaði höstuglega til mín, -“Peter, mind the gaff!”(Pétur, misstu ekki ífæruna!) Ég átti ekki hægt um vik, með báðar hendur fastar, og svo fór, að ífæran kræktist í handriðið og datt í ána. Hann var þungur á brúnina, þegar ég kom yfir, en ég hljóp strax heim í hús, náði í aðra ífæru og krækti hina uppúr ánni. Þar með var þetta gleymt. Crosfield kembdi ekki hærurnar, dó rúmlega fertugur. Payne skrifaði föður mínum um lát hans, og mátti lesa milli línanna, að hann hefði dáið úr tóbakseitrun eða lungnakrabba. Hann var einhver mesti reykingarmaður sem ég hef kynnst. Mátti heita að hann tæki aldrei útúr sér vindling, nema til þess að kveikja í þeim næsta. Stundum skipti hann um og tók pípuna.

Allir veiðimenn kannast við laxaflugu sem heitir Crosfield. Hún varð þannig til, að Crosfield fann eitt sinn gráa leggfjöður af stokkandarstegg, skoðaði hana lengi og sagði svo: “Líklega er þetta gott í fluguvængi.” Hann hnýtti allar sínar Flugur sjálfur og átti fulla járnkommóðu. Hann bjó til þrjár gerðir af Crosfield: 1. Silfurskrokkur, gylltur haus og blátt skegg, grár vængur og gult stél. Hann kallaði hana Yellow Head. 2. Dekkri vængur, en eins að öðru leyti. 3. Búkurinn vafinn girni, en að öðru leyti eins og sú fyrsta. Fyrsta flugan reyndist best og hefur mikið verið notuð, bæði hér á Íslandi og í Bretlandi. Stærsti laxinn sem Englendingarnir fengu var 18 pund. Ernest Crosfield veiddi hann, og auðvitað á flugu. Viðureignin tók 1,5 klst. Laxinn var á þessum árum jafnstærri en nú, eða 4 til 7 pund. Öðru hvoru fengust fiskar upp í 12 pund og stöku sinnum 13 til 15 pund, en algerar undantekningar, ef þeir fengust stærri.” Svo mörg voru þau orð Péturs Gunnlaugssonar og víst er, að tímaritið Veiðimaðurinn og bækur Guðmundar Daníelssonar eru í hópi allra bestu heimildir sem finnast hér á landi um sögu stangaveiði á Íslandi. Auk bókarinnar um Elliðaárnar ritaði Guðmundur bækurnar Dunar á eyrum – Ölfusá og Sogið, og Vötn og veiðimenn, sem fjallaði um Hvítá og uppárnar Stóru Laxá og Brúará.



fluguboxið Viðar Egilsson

Andarunginn Það er alkunna að urriðar éta bæði andarunga og mýs fái þeir til þess tækifæri. Margoft hafa ræflar af þessum litlu dýrum fundist í mögum þeirra eða fast í koki þeirra. Fræg að endemum er gömul saga frá Langavatni á Mýrum um ríflega 20 punda urriða sem var með sjö hálf fullorðna toppandarunga í maga sínum og koki. En þrátt fyrir að þetta sé vel þekkt, vekur það ævinlega athygli þegar veiðimenn verða vitni að þessu. Það kom fyrir þau hjón Kristján Kristjánsson og Kristínu Kjartansdóttur er þau voru að urriðaveiðum á einu af urriðasvæðunum í Laxá í Aðaldal fyrr í sumar. Í framhaldi af því að heyra og lesa frásögn þeirra, báðum við einn af snjöllustu fluguhnýturum landisns, Viðar Egilsson, að hnýta fyrir okkur andarunga. Hér á eftir má sjá afraksturinn afr því jafnframt því að lesa um dapurleg örlög lítils stokkandarunga. Við byrjum á því að gefa Kristjáni orðið: „Við vorum sem sagt, ég og konan mín, Kristín Kjartansdóttir stödd á silungasvæðinu neðan virkjunar í Aðaldalnum. Við gengum upp með ánni og ég benti konunni á nokkrar endur sem að syntu undan bakkanum með ungaflokk á eftir sér og við stoppuðum aðeins til að virða þetta fyrir okkur. Þar sem að við stóðum sá ég að fiskur var að vaka rétt við bakkann og sá að þetta var ekki einn af þessum “tittum” sem að voru gjarnan alveg í flæðarmálinu, heldur var þetta alvöru fiskur sem að glefsaði letilega í það sem að rann til hans með straumnum. Við ákváðum að skoða þetta betur og ég gekk nær bakkanum og í því buslaði andarungi undan bakkanum, nokkuð stálpaður ungi og bara einn fyrir utan kolluna sem að flaug upp. Við fylgdumst aðeins

50

VEIÐISLÓÐ • tímarit um sportveiði og tengt efni • 4. tbl. 2012

með honum djöflast frá bakkanum, sem að hann gerði með nokkrum látum og buslugangi og ég var einmitt að hugsa um hversu dæmigert þetta væri, maður sæi fisk vaka og hann væri fældur burt af buslandi öndum, lómum eða álftum. Nema hvað, við sjáum þennan fisk vaka aftur á sama stað og unginn æddi áfram talsvert fyrir ofan hann, þar sem að hann síðan hvarf niður með látum. Þá sagði konan mér að hún hefði séð annan fisk vaka fyrir ofan hinn og ég sagði að það gæti passað en ég væri nokkuð viss um að þetta hefði bara verið unginn að stinga sér. Svo leið og beið og aldrei kom unginn upp og ég loksins áttaði mig á því að þetta var rétt hjá okkur báðum, þarna var fiskur að vaka og þarna fór unginn niður. Hann var bara dreginn niður,



fluguboxið Viðar Egilsson

enda áttaði ég mig á því eftir smá pælingar að enginn ungi kafar með þessum látum. Eftir að við vorum búin að átta okkur á þessu ákváðum við að kasta flugu upp í þessa fiska og reyna að ná sönnunargagninu, þó svo að dökkmálaður tennisbolti hefði sennilega hentað betur en fluga, miðað við það sem við höfðum séð. Ég færði mig aðeins ofar og við köstuðum svolitla stund. Þegar ég gekk svo niður bakkann kom ég að unganum þar sem að hann hafði náð að staulast upp á litla þúfu undan bakkanum. Það fór ekki á milli mála að þetta var sami ungi, þar sem að hann var í dauðakippnum, af sömu stærð og augljóslega særður. Við fórum með ungann heim í “kamp” og skoðuðum hann vel og það var augljóst að það var rifið í hann allavega tvisvar. Hann var hamflettur lítillega á öðru lærinu en mun meira skaddaður hinum megin, þar var lærið hamflett og kviðurinn opinn og garnir lágu út. Þetta finnst mér benda til þess að þarna hafi verið fiskur á ferð sem að tók of stórt upp í sig en samt fiskur á að giska 1-2 kg, miðað við þá fiska sem að við síðan veiddum á þessum slóðum. Og miðað við þá ágiskun og þá staðreynd að þarna var nokkuð stálpaður ungi á ferð, eins og sést á myndunum, þá veit maður það að urriðinn er grimmur og ræðst bara á það sem að honum sýnist þegar honum sýnist, hann hefði allavega aldrei náð að éta þennan fugl í einum bita. Ég hef heyrt sögur af ungum, músum og öðrum kvikindum sem að fundist hafa í maga urriða en aldrei orðið vitni að neinu svona fyrr, samt sem áður veit eg að urriðinn er til alls líklegur og hef mér sjálfum það til sönnunar að ég lenti í því fyrir rúmum tuttugu árum síðan þegar ég var að veiða á Múlatorfu að

52

VEIÐISLÓÐ • tímarit um sportveiði og tengt efni • 4. tbl. 2012

ANDARUNGINN – Höf: Viðar Egilsson, www.galleriflugur.is Öngull: Partridge CS15 2/0 Carrie Stevens 10Xlong Tvinni: Danville´s Flymaster plus, 140/210 denier coffee

Lím: Zap A GAP

Stél: Nat.grizzly marabou hringvafið

Undirbúkur 1: flat blý sett undir legginn (má sleppa)

Undirbúkur 2: 20 mm grátt „foamsílender“ skipt í þrennt

Foam 1: Tekið út fyrir öngulbaug, ljósgrátt marabou undir og ljóst yfir Foam 2: 1 stk af ljósbrúnum maraboufjöðrum á hvorri hlið, brúnt marabou á bakið Foam 3: ljósgrátt marabou undir, yfir 2 stk af ljósum maraboufjöðrum á hvorri hlið, brúnt marabou á bakið Undirbúkur 3: Natural Deer hár spunnið fram að haus og klippt „kóniskt“.

Brjóst: Ostric Natural grátt.

Háls: brúnt marabou og endað á haushnút við öngulauga. Í restina er höfuðið tekið aftur og límt vel með ZAP A GAP Haus: 20mm sver grár foamcylender 8mm breiður, augu 7mm gull með svörtu auga, annars frjálst. Nef: 8mm orange cylender og 2mm svart foam límt yfir og skorið til svo það nái yfir hálfan hausinn Í hausfestingu notaði ég þunnt stíft plast

urriði tók svartan Toby á flugi. Ég var að kasta Toby (þegar það mátti í den) í átt að litlum hólma, og í eitt skiptið, þegar spúnninn var kominn hálfa leið yfir flötinn, stökk upp í hann urriði og gleypti niður í maga.



Fyrirsát með gerviendur. Myndir eru úr safni Kjartans Lorange.


skotveiði Kjartan Lorange

Andaskytterí

Vanmetnasta skotveiðin hér á landi

Andaskytterí er vanmetnasta skotveiðin segir Kjartan Lorange, sem er með veiðidellu á háu stigi. Hann er mest í skotveiðinni, en er jafnframt alæta á stangaveiðina og síðast sást hann í Bryggjuhverfinu veiðandi makríl á flugu. Og skemmti sér konunglega. En nú þegar flestar skyttur eru að huga að hreindýrum og gæs, langaði okkur að tala um andaskytterí við Kjartan, en veiðitíminn hefst 1. september og stendur allar götur til 15. mars. „Já, einn stærsti kosturinn við andaveiðar er einmitt þessi langi veiðitími. Fyrir þá sem stunda andaveiðar má segja að veiðitíminn standi nánast allt árið, en þann 15.mars er ekki langt í 1.apríl og þá geta menn farið að munda stangirnar ef þeir eru í þeim hugleiðingum. Annað með andaveiðarnar er hin mikla fjölbreytni. Menn mega veiða hérna gæsir og rjúpu, en tegundafjöldinn í andaveiðunum gefur þessu mikið gildi, svo og að andaveiðar má stunda með ýmsum hætti. Fjölbreytnin er skemmtileg og svo eru þetta krefjandi veiðar oft og tíðum þegar menn eru í baráttu við náttúruöflin um hávetur,“ segir Kjartan þegar við hefjum spjallið um endurnar.

Hvar stunda menn andaveiðar? „Ég segi ekki að hægt sé að skjóta endur með allri ströndinni, en þó er það ansi víða, nema þar sem er sandströnd. Þar sem eru víkur og vogar, þar eru yfirleitt endur og þá er ég að tala um vetrarmánuðina, eftir að ferskvatnið er frosið. En fram að því þá eru endurnar á pollum, kílum, skurðum og lækjum, menn þekkja þetta og reyna að staðsetja veiðiskapinn í samræmi við það“ Hvernig stundar þú andaveiðar? „Ég er með fyrirsát kvölds og morgna, ekkert ósvipað því sem menn gera á gæsaveiðum. Ég verð að geta þess strax, að andaveiðar eru því sem næst ómögulegar nema að menn

55


skotveiði Kjartan Lorange

annað hvort eigi góðan hund eða í það minnsta hafa aðgang að slíkum. Það gengur ekki að menn séu að skjóta ofan í varginn. Þá er þetta algjört græjusport, menn þurfa flautur, gerviendur, felubyrgi og bara allan pakkann. Þetta er þó engan vegin erfiðari veiðiskapur heldur en gengur og gerist, t.d. í samanburði við rjúpa- og gæsaveiðar. Þó koma augnablik og það verða alltaf auðmýkjandi augnablik, jafnt fyrir góðar skyttur og lakari þegar urtandarhópur kemur t.d. skyndilega á hundrað kílómetra hraða nánast beint í andlitið á þér.“ Eru einhverjir hundar betri í þetta en aðrir? „Hiklaust er góður Labrador dýrið í þetta. Þeir eru með veiðina í blóðinu og genunum. En það þarf samt að leggja mikla vinnu í þá því hundurinn á að gera það sem þú vilt hann geri, ekki öfugt, en á sama tíma á hann að njóta þess sem hann er að gera. Þetta kostar vinnu, en hún er bara hluti af ánægjunni og styttir stundir fram að veiðitímanum. Hvað með veiðiþol stofna, þola andategundir þessa skotveiði, hvað þá ef hún myndi aukast? „Fyrir það fyrsta þá tel ég að opinberar tölur um stofnstærðir andategunda séu alveg út úr kú. Þær byggja á talningum sem fara aðeins fram á völdum stöðum. Hver er kominn til að segja hvað getur verið af öndum í einhverjum eyðifirði fyrir vestan og hvað eru margir slíkir firðir þar sem aldrei er talið. Ég tel að þessar opinberu tölur um stofnstærðir séu allt, allt of lágar. Það er síðan staðreynd, að endurnar gefa oft bestu vísbendingarnar um hvað er að gerast í lífríkinu. Sé t.d. kominn minkur á svæðið, þá hverfur öndin fyrst. Hún er

56

VEIÐISLÓÐ • tímarit um sportveiði og tengt efni • 4. tbl. 2012

auðveld bráð, ekki síst ungarnir. Þess vegna er það að margar af ástríðufyllstu andaskyttunum eru ekki aðeins á andaveiðum, heldur eru lagðar út minkagildrur og varphólf sem gerir öndum kleift, noti þær þau, til að verjast bæði mink og flugvargi alveg þangað til að ungar klekjast. Ég tel að það þurfi að verja meira fé til gagngerra rannsókna á stofnstærðunum í staðinn fyrir að slumpa svona. Það þarf t.d. að finna betur út með ferðir þessara fugla. Ég og félagi minn höfum skotið rauðhöfða sem hafa verið merktir í Hollandi, Danmörku og Póllandi og stokkandarkolla ein sem ég skaut undir Eyjafjöllum haustið 2009 hafði verið merkt í Wisconsin í Bandaríkjunum. Þá tel ég það ekki vera tilviljun að þegar vetur eru harðir í Evrópu virðist andfugli skyndilega fjölga hér á landi. Ég tel að þessir fuglar telji það ekki eftir sér að fljúga fram og tilbaka eftir því hvað hentar þeim. Þetta eru sundfuglar, ef þeir hreppa erfið skilyrði, þá bara setjast þeir á hafið og hvíla sig og bíða færis..“ Þú nefndir flugvarg, hvaða fuglar eru öndunum skæðastir? „Sílamáfur og svartbakur þar sem hann er, eru alltaf skæðir og þar sem rauðhöfðar og urtendur eru mikið um varptíma í mýrlendisflóum þá geta kjóar verið mjög harðsæknir.Á jörðu niðri er það auðvitað minkurinn og rebbi lætur til sín taka ef hann kemst í færi.“ Nú ætlar einhver á andaskytterí og hefur ekki stundað slíkt áður, hvað ber að hafa í huga? „Það þarf að fá leyfi hjá tilheyrandi landeigendum. Bændur taka manni yfir höfuð vel, en einhverra hluta vegna er það frekar algengt að menn gefi ekki


57


skotveiði Kjartan Lorange

andaveiðileyfi. Það kann að vera vegna þess að það er lítil hefð fyrir þeim, ég veit ekki, en bóndi sem leyfir þér ekki að skjóta endurnar er samt oft tilbúinn að hleypa þér í gæsirnar eða upp í fjallið hans til að skjóta rjúpu. Þá verða menn að vita hvað þeir mega skjóta og hvað ekki, því þótt veiðitíminn sé rúmur, þá eru ýmsar tegundir friðaðar. Friðaðar eru t.d. straumönd og húsönd, grafönd og gulönd. Ég þarf tæpast að nefna æðarfugl. Einnig eru vel þekktir og tíðir vetrargestir eins og hvinönd og ljóshöfði friðaðir fuglar. Stokkönd má skjóta, einnig rauðhöfða, urtönd og hávellu. Toppöndina má skjóta og sumir gera það og segjast finnast hún góð að éta. Ég deili því ekki með þeim. Stokkönd og rauðhöfði eru 90 prósent af mínum afla, urtönd 10 prósent.“ Þú hefur veitt blendinga ekki satt? „Ég skaut einu sinni blending af grafönd og stokkönd. Það var undarlegur fugl svo ekki sé meira sagt. Löngu stélfjaðrirnar sem prýða graföndina voru örstuttar og upprúllaðar, speglarnir voru brúnir, græna slikjan á hausnum var til staðar, en hvítu línurnar við augun líka, goggurinn bláleitur og lappirnar í stíl við grafönd. Það benti mér fuglaáhugamaður á, að ég hefði með þessu skotið friðaðan fugl því graföndin er bæði sjaldgæf og friðuð, en ég spurði á móti hvernig hægt væri að segja það, landslögin gerðu ekki ráð fyrir svona fyrirbærum og svo væri fugl af þessu tagi algerlega gagnslaus tegundinni, því svona fuglar eru ófrjóir. Það var eitthvað talað um að kæra, en ég hef ekki heyrt frá lögreglunni ennþá.“

58

VEIÐISLÓÐ • tímarit um sportveiði og tengt efni • 4. tbl. 2012

Samtalið við Kjartan var lengra, miklu lengra og fór út um víða völlu eins og títt er þegar veiðidellan er umræðuefnið. Hann nefndi þó eitt svona um það bil í lokin sem hefði breyst mikið síðustu árin og það viðkemur korn- og byggrækt bænda. „Hér áður fyrr var frekar sjaldgæft að endur væru meðafli gæsaveiðimanna þegar legið var í skurðum hjá nýslegnum túnum. Allt þetta breyttist með korn- og byggökrunum sem endurnar sækja mjög í á nóttunni. Núna veiðist oft og iðulega talsvert af önd með gæsunum. Annars eru endur varar um sig og eru aðeins værukærar ef að þær finnast á stöðum þar sem þær hafa fengi frið fyrir veiði. Endur eru vitibornar skepnur sem enginn ætti að vanmeta, enda bera allar andaskyttur mikla virðingu fyrir þeim og gera allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja afkomu þeirra.“ En ef að Kjartan ætti að súmmera upp andaveiðiskap í fáum orðum, hvað myndi hann þá segja? „Frábær matur, sérstaklega haustskotinn rauðhöfði, fín útivera, fínn félagsskapur, lengri veiðitími og oft á tíðum slagur við móður náttúru, kaldar tær og vond veður. Stundum veiðist lítið, stundum ekki.“


Nú er haustið framundan og á svfr.is er að finna ýmsa spennandi kosti í haustveiðina. Við eigum laus leyfi í Tungufljótið, Varmá, Sogið og fleiri svæði sem geyma bæði staðbundinn silung sem sjóbirting. Þá eru einnig laus veiðileyfi í laxveiði eins og í Elliðaánum, Langá, Dunká, Leirvogsá og víðar. Veiðisumarið er ekki búið!

ÆVINTÝRIN GERAST Á HAUSTIN!

Kynntu þér málið á www.svfr.is – stærsta veiðileyfasöluvef landsins.


eitt og annað vöðlur og vöðluskór

Ekki viss um að til séu skósmiðir... Hér er enn og aftur leitað í smiðju Lárusar Gunnsteinssonar með meðferð og umgengni með vöðlur og vöðluskó. Í síðasta blaði var tekið fyrir hvenær menn geta kysst vöðlurnar sínar bless og hvenær það tekur því að reyna enn einu sinni að bæta þær til lengri lífdaga. Hér erum við með sams konar samantekt frá Lárusi þar sem vöðluskórnir eru skoðaðir frá sömu hlið.

Umfjöllunin að þessu sinni snýr að þeim tveimur myndum sem hér fylgja, en þær eru af vöðluskóm sem hafa verið í talsverðri notkun síðustu þrjú sumur og eru augljóslega farnir að láta á sjá. Saumar eru slitnir og trosnaðir, filtið að losna við tærnar og rifur komnar í sólann. En eru þessir skór búnir að syngja sitt síðasta, eða er hægt að gera við þá? Lárus tekur nú við: „Ef að við dokum fyrst við á myndinni sem sýnir vöðluskóinn frá hliðinni þá er þetta mitt kalda mat: Þegar skór hafa slitnað á kantinn eins og sést á myndinni er hægt að sauma þá aftur, en huga þarf að því að tæma sand sem hefur komið á milli. Verða þeir þá eins og áður. Einnig er hægt að laga þá að innan, en þeir hafa örugglega slitnað að innan. Ef þarf að bæta þá, er það einnig hægt.

60

VEIÐISLÓÐ • tímarit um sportveiði og tengt efni • 4. tbl. 2012

Ef að við síðan rýnum í hina myndina sem sýnir illa útlítandi skó fremst við tærnar, þá er augljóst að eigandi skóna er ekki alveg viss um að það séu til skósmiðir. En þeir eru of langt gengnir og farið að slitna á tánni ofan sóla og meina ég þá að ef hann hefði komið fyrr, þá hefði viðgerðarkostaður verið minni. En það er alveg hægt að laga þetta. Setja bót og sauma, bæta svo á sólann og skipta um filt. Kostnaður við svona viðgerð gæti verið á bilinu 9-12.000 með nýju fílti. Gott er að huga að aðferðinni til að fyrirbyggja þetta slit sem er: Þvo skóna með vatni á vaktaskiptum í veiðitúrnum og skola þá svo þegar heim er komið. Þetta gerir mikið.“ Lárus Gunnsteinsson Skóstofan efh. www.skostofan.com


61


eitt og annað meðferð afla

Vanvirðing að koma heim með aflann skemmdan Veiðimenn eru ekki alltaf í vel útbúnum veiðihúsum með kæliskápum eða frystikistum. Menn verða að gæta þess vel að vera þannig útbúnir að þeir koma þeim afla sem þeir ætla sér til neyslu til síns heima í boðlegu, eða sem bestu ástandi. Fátt er ömurlegra í veiði, en að afli skemmist, eða í það minnsta spillist. Laxfiskar eru afar viðkvæmir fyrir því, sé ekki brugðist rétt við. T.d. að láta óslægðan fisk liggja í sólinni. Eða setja hann í dökkan eða svartan plastpoka. Að blóðga ekki fisk... Hér ætlum við að fara yfir helstu þættina. Væntanlega á þetta helst við þegar menn eru á silungsveiðum og eru meira en daginn á veiðislóð. En þó að túrinn sé stuttur, skiptir þetta ferli miklu máli. Silungar, urriðar og bleikjur, eru oftast nær með mismikið æti innanborðs og þegar lífið sloknar í búki fisksins byrja meltingarsýrurnar strax að éta sig í gegnum magaveggina. Bleikja er viðkvæmari en urriði, er einhvern vegin mýkri, en urriðanum þarf líka að sinna. Einhverjir eru kannski viðkvæmir fyrir því, en til að byrja með er mjög gott að blóðga fiskinn. Hafi menn áhyggjur af því að hálsrista eyðileggi myndatökur, þá má einfaldlega fara með hnífinn inn í tálknin og skera þar þvert yfir án þess að opna ofan í kok. Bara að blóðga hægir mjög á rotnunarferlinu. Við skulum gera ráð fyrir því að við skálann, tjaldið eða í bílnum sé hvítur frauðplastkassi með

62

VEIÐISLÓÐ • tímarit um sportveiði og tengt efni • 4. tbl. 2012

ís. Eða í það minnsta kaldur lækur til að leggja í plastpoka. Að blóðga strax og kæla sem fyrst skiptir gríðarlegu máli. Og ekki gleyma, að því meira af blóði sem tekst að tappa af fiskinum, því betra. Það er ágætis ráð að koma blæðandi fiskinum fyrir í köldu vatni, því kælingin heldur æðunum opnum lengur. Nokkru eftir andlátið, hefst það sem nefnist dauðastirnun. Hvenær hún hefst og hversu lengi hún stendur fer algerlega eftir því hvaða kælingu er haldið að fiskinum. Því minni kæling, því fyrr byrjar stirðnunin og því fyrr lýkur henni, sem er óhagstætt. Fyrir mörgum árum var okkur kennt ráð sem stendur fullkomlega fyrir sínu. Þá áttum við langt og gott spjall við Sigvalda H.Pétursson, útgerðartækni, sem stofnaði merkt fyrirtæki, Stjörnustein, sem framleiddi m.a. frauðplastkassa undir fisk. Sigvaldi var mikill talsmaður þess að menn kæmu ekki með úldinn silung heim úr veiðiferðum. Hann sagði okkur þetta: Hann gaf okkur upp þrjú dæmi sem áttu að dekka flestar þær aðstæður sem veiðimenn gætu verið að lenda í.


1. Ef að hitinn í fiskinum, blóðguðum, væri 35 gráður, þá byrjaði stirðnunin eftir 3 til 10 mínútur og stæði aðeins yfir í 30-40 mínútur. Slík meðhöndlun kæmi fiski aldrei ætum heim. 2. Öðru máli gegndi ef að fiskur kæmist fljótt í kælingu og næðist niður í 5 gráður. Við þær aðstæður hefst stirðnun ekki fyrr en eftir 16 klukkustundir og varir í 2-3 daga. 3. Enn betra væri að koma fiski í kælingu á borð við -1 gráðu. Þá byrjar stirðnun ekki fyrr en eftir 35 klukkustundir og varir í 3-4 daga. Enn eitt geta menn gert og við höfum aldrei heyrt neinn halda því fram að það spilli fiskinum sem hráefni til neyslu. Og það er að strá grófu salti innan í fiskinn að slægingu lokinni. Saltið er síðan einfaldlega skolað í burtu. Af þessu má ráða, að hafi menn ekki aðgang að frystikistu eða frystihólfi, þá er allra best að hafa frauðplastkassa fyllta að einhverju leyti með ís. Í verra falli að menn viti þá af því að þeir hafi aðgang að lindarlækjum, en þá verður líka að ganga vel frá fiskunum, því dæmi eru um að minkur rífi upp og tæti plast utan af silungi. Þekkjum við eina slíka upp-

ákomu af Arnarvatnsheiði þar sem tveir veiðimenn geymdu afla í plastpokum í köldum læk í Álftakróki. Annar notaði glærar laxaslöngur, hinn venjulega svarta ruslapoka. Minkurinn tætti upp glæru pokanna, enda sá hann mæta vel innihald þeirra. All margir silungar hurfu þá björtu sumarnótt og slitrur af fleirum voru á víð og dreif um allt! Það er alltaf spurning hvað menn vilja ganga langt. Okkur er vel í fersku minni það sem Kolbeinn heitinn Grímsson, sá miklu meistari, sagði við okkur eitt sinn: „Ég læt ekki duga að slægja. Ég flaka líka og fæ að launum koss frá konunni þegar ég kem heim“. Það er þá að einhverju að keppa fyrir einhverja, eða hvað? Ef við drögum þetta saman svona í lokin: 1. Blóðga og láta liggja í köldu í nokkrar mínútur til að tappa vel af. 2. Koma í kælingu sem allra fyrst. Best í frost, en næst best í ískælingu. Þriðja best í lindarlæk. 3. Salta í sárin, flaka jafnvel ef menn eru stefndir. Þetta getur munað því hvort fiskur byrjar að úldna eftir 30-40 mínútur eða 3-4 daga, eða lengur.

63


veiðisagan Spurning um hvar svæðið endar

og nýtt tekur við.... Hér er komin veiðisaga sem við skráðum á vefinn okkar þegar við opnuðum hann í fyrsta skipti 1.apríl árið 2005, eða fyrir meira en sjö árum. Mikið líður tíminn hratt. Það er nánast í okkar huga eins og þetta hefði gerst í gær. Ef til vill munaa einhverjir lesendur eftir þessu pári, en sagan er með þeim betri að okkar mati og er klassík í sjálfu sér.... Einhverju sinni fyrir nokkrum árum kom Bandaríkjamaður til veiða í Norðurá. Leiðsögumaður hans átti í vandræðum með bíl sinn fyrir sunnan og gerði þau boð upp í veiðihús að veiðimanni yrði sagt frá vandræðunum og bað hann kokkinn að lána þeim bandaríska bíl sinn og Dóra vörð(sem þá var en er dáinn fyrir nokkrum árum) að gefa einhverjar leiðbeiningar. Veiði skyldi hefjast klukkan fjögur, en sjálfur reiknaði leiðsögumaðurinn með því að vera kominn upp í Norðurárdal um sexleytið. Nú leið og beið, kokkurinn tók á móti Kananum og Dóri pataði eitthvað í átt að Holtuvörðuheiði. Þarna upp frá væru fallegir staðir. “Hvað á ég að fara langt?”, spurði Kaninn, en því var vandsvarað af manni sem kunni varla að segja já og nei á ensku. Hann pataði bara eitthvað meira. Stúlka úr eldhúsinu kallaði út um

64

VEIÐISLÓÐ • tímarit um sportveiði og tengt efni • 4. tbl. 2012

gluggann, “it’s very far,” patinu til áréttingar. Er Kaninn þar með úr sögunni í bili og enginn veit nema hann hvaða hugsanir fóru um hausinn á honum, en leiðsögumanninum dvaldist fyrir sunnan og klukkan var langt gengin í níu er hann kom loks upp eftir. Hann byrjaði á því að aka fram allan dal, alveg upp í Krók, í leit að skjólstæðingnum. En hann var hvergi sjáanlegur. “Þá hlýtur hann að vera kominn niður í hús, klukkan er orðin svo margt,” hugsaði kappinn þá og brenndi niður í veiðihús. En þar var enginn, allir úti að veiða og kokkurinn nýbyrjaður að athafna sig í eldhúsinu. Hann sagði frá viðskiptum veiðimannsins og Dóra og leist ekkert á blikuna, enda átti hann bílinn sem sá bandaríski ók. Nú var klukkan langt gengin í tíu og ákvað leiðsögumaðurinn því að bíða átekta, það hefði ekkert upp úr sér héðan af að hitta Banda-


ríkjamanninn niður við á. Hann velti nú fyrir sér hvað hann ætti að segja við manninn og hvað hann gæti gert til að bæta honum upp heila vakt án fylgdar. Klukkan sló tíu og upp úr því fóru veiðimenn að tínast í hús. Þeir komu hver af öðrum, flestir fisklausir, en ekkert bólaði á þeim bandaríska. Loks var klukkan orðin hálf ellefu og allir komnir í hús nema gesturinn að vestan. Þá voru menn almennt farnir að ókyrrast, því enginn í hópi veiðimanna kannaðist við að hafa rekist á umræddan mann eða séð til bifreiðar kokksins. Var nú skotið á fundi og buðu bæði veiðimenn og leiðsögumenn sig fram í leitarflokk og fór næsti hálftími í að skipuleggja leitarsvæði. “Gáið vel í alla skurði,” var ein aðal fyrirskipunin. Því næst þustu menn til jeppa sinna og voru að fara að ræsa þá þegar heyrðist til bifreiðar sem ók í rólegheitum heim til húss.

Jújú, hér var þá kappinn kominn og hann steig skælbrosandi út úr bílnum. Vissi auðvitað ekkert um írafárið í veiðihúsinu eða yfirvofandi leit að sér. “Hi,” gall í manninum og hann opnaði skottið og dró upp úr því þennan líka fallega stórbolta, spegilgljáandi og að minnsta kosti 14-15 punda. Það misstu allir andlitið. Flestir voru sem fyrr segir fisklausir og þeir sem höfðu slitið upp fisk voru með 3-4 punda dálítið legna titti. “Where did you catch it” spurðu menn óðamála og másandi, en sá bandaríski gat litlu svarað, enda með öllu ókunnugur þarna efra, “yeah ok,” sagði hann svo, “it was a great looking pool, close to a bridge, and there was this house close to the bank. It had a sign that read Pósdur and simi”. Það var einmitt það. Hann veiddi laxinn sem sagt í Hrútafjarðará.

65


Lax-, silungs- og skotveiði Hrútafjarðará, Breiðdalsá, Jökla, Minnivallalækur og Fögruhlíðará

www.strengir.is


Veiðikortið 37 vötn Eitt kort 6.000 kr. www.veidikortid.is

00000 FLEIRI VÖTN ÓBREYTT VERÐ


ljósmyndun

Nils Folmer Jørgensen

Ég dáist að snjöllum ljósmyndurum sem geta tekið fullkomnar myndir án þess að fikta við þær Nils Folmer Jörgensen er höfundur ljós­ myndagallerísins að þessu sinni. Lesendur www.votnogveidi.is þekkja orðið vinnubrögð hans mæta vel, en þau eru mögnuð, auk þess sem hann er sjálfur magnaður flugu­ veiðimaður og síðustu árin hafa fáir veitt fleiri stórlaxa í íslenskum ám en Nils. Nils er Dani eins og nafnið gefur til kynna, en hann fluttist til Íslands árið 2008. Hann var þó byrjaður að veiða og leiðsegja veiði­ mönnum þegar árið 2004. Hann segist þó lítið vera við leiðsögn nú orðið, helst á vorin og haustin til að geta veitt sjálfur yfir sumar­ mánuðina. „Ég er afar hrifinn af íslenskri náttúru, þess vegna er ég fluttur hingað og mig líkar einnig afar vel hvernig veiðiskapur­ inn á Íslandi er kaflaskiptur, þurrfluguveiði í urriða snemma sumars, síðan laxveiði og loks sjóbirtingur á haustinn,“ segir Nils. Og um sjálfan sig segir Nils: „Ég lærði hönnun í Kaupmannahöfn og rek eigið 68

VEIÐISLÓÐ • tímarit um sportveiði og tengt efni • 4. tbl. 2012

hönnunarfyrirtæki. Framan af nýttist þó nám mitt í stangaveiðiheiminum og ég sá um alla hönnun á stöngum, hjólum vöðlum og vestum fyrir Scierra á árunum 2001 til 2008. Ég sá jafnframt um allt markaðs­ starf og ljósmyndum fyrir fyrirtækið. Eftir að þeim tíma lauk, lofaði ég sjálfum mér að starfa aðeins með einu af fáum fyrirtækjum í þessum geira sem sjá sjálf um hönnun og framleiðslu sína og leggja áherslu á hágæði. Þar af leiðandi endaði ég hjá Simms, sem er leiðandi fyrirtæki í stangaveiðiheiminum. Hönnun og framleiðlsa gore-tex vaðla er undir sama þaki og það eru aðeins stanga­ veiðimenn sem starfa við framleiðsluna. Ég hef unnið við of mörg Kína-verkefni þar sem framleiðendurnir hafa ekki hugmynd um hvað þeir eru að gera og lífið er einfaldlega allt of stutt til að standa í því til lengdar. Auk þess eru Simms vöðlur og jakkar nú til staðar í mörgum Kínverskum verksmiðjum til fyrir­ myndar um hvað gera skal.


Auk þessa skrifa ég og myndskreyti greinar um veiði fyrir ýmis veiðitímarit og framleið­ endur í Evrópu. Má nefna Scierra, Lax-á, Cin­ tamani, Mt.Esja, Veiðihornið og marga fleiri.“ Um græjurnar segir Nils Folmer: „Þegar ég er að veiða er ég ævinlega með Canon Po­ wershot með flip screen í vasanum. Þessar litlu vélar skila ótrúlegum gæðum, en ekk­ ert jafnast þó á við alvöru SLR vél. Flestar af þeim myndum sem ég tek og eru birtar, eru teknar með SLR og þá eru það ritstjórarnir sem velja myndirnar. En þegar mig langar til að ná virkilega góðum myndum gríp ég í Canon EOS 40D sem ég nota með fjórum mismunandi linsum. Sú allra besta þeirra er án efa Canon EF 24-105 f/4L IS USM með polaríseruðum filter. Síðasta mánuðinn hef ég verið að fikra mig áfram með Canon D20, vatnshelda vél sem er miklu betri heldur en D10 sem skilaði ekki einni einustu boðlegri mynd ofan vatns­

borðs, en var allt í lagi neðan þess. Ég dáist að snjöllum ljósmyndurum sem geta tekið fullkomnar myndir án þess að fikta við þær eftir á með breytiforritum. Mig langar til að læra meira í þá veru. Mér líkar ekki ýmsar myndir sem ég hef séð þar sem ljósmynd­ arar hafa „sjoppað“ myndirnar fram úr hófi þannig að maður veltir fyrir sér hvort menn vita hvað þeir eru að gera. Hér á Íslandi hef ég séð myndir af löxum sem voru fjólubláir eða bleikir. Einnig myndir þar sem himininn er alveg svartur og dramatískur þó svo að speglunin í vatninu sé allt önnur og gefi allt aðra mynd. Að endingu vil ég segja: Lítil og ódýr vél er allt sem þarf til að fanga augnablikið og varðveita hinar frábæru minningar af bökk­ um vatnanna.“

69


ljósmyndun

Fallegur urriði veiddur í litlum læk á þurrflugu.

70

VEIÐISLÓÐ • tímarit um sportveiði og tengt efni • 4. tbl. 2012


71


ljósmyndun

Nils Folmer Jørgensen

Eftir nánast endalausa baráttu ga

Það er bæði skemmtilegt og notalegt að fara með makanum í veiði og njóta saman hinna frábæru stunda við veiðarnar.

72

VEIÐISLÓÐ • tímarit um sportveiði og tengt efni • 4. tbl. 2012


afst þessi 19 punda Þingvallaurriði loksins upp.

73


ljósmyndun

Áhorfendurnir.

74

VEIÐISLÓÐ • tímarit um sportveiði og tengt efni • 4. tbl. 2012


75


ljósmyndun

Nils Folmer Jørgensen

Á skot- og stangaveiðum við Sandá með Viðari vin

Forljótt kvikindi og fleiri á leiðinni.

76

VEIÐISLÓÐ • tímarit um sportveiði og tengt efni • 4. tbl. 2012


ni mĂ­num.

77


ljósmyndun

Hafralónsá, ein af eftirlætisám mínum.

78

VEIÐISLÓÐ • tímarit um sportveiði og tengt efni • 4. tbl. 2012


79


ljósmyndun

Nils Folmer Jørgensen

Bleikja í æti.

80

VEIÐISLÓÐ • tímarit um sportveiði og tengt efni • 4. tbl. 2012


Litadýrð bleikjunnar.

81


ljósmyndun

Við Fnjóská líður mér stundum eins og ég sé að veiðum í Noregi.

82

VEIÐISLÓÐ • tímarit um sportveiði og tengt efni • 4. tbl. 2012


83


ljósmyndun

Nils Folmer Jørgensen

Stór hængur í klakið.

84

VEIÐISLÓÐ • tímarit um sportveiði og tengt efni • 4. tbl. 2012


Frelsið á næsta leiti.

Augnablikið áður en hitsið er gripið.

85


ljósmyndun

Maður sér laxinn vel í Vesturá í Miðfirði.

86

VEIÐISLÓÐ • tímarit um sportveiði og tengt efni • 4. tbl. 2012


87


ljósmyndun

Nils Folmer Jørgensen

Byrjað snemma.

88

VEIÐISLÓÐ • tímarit um sportveiði og tengt efni • 4. tbl. 2012


Magnaรฐ umhverfi viรฐ Eystri Rangรก.

89


ljósmyndun

Nils Folmer Jørgensen

Lax í göngu í Vesturá.

90

VEIÐISLÓÐ • tímarit um sportveiði og tengt efni • 4. tbl. 2012



Í undirdjúpum Norðurár. Mynd Heimir Óskarsson.


lífríkið

Guðni Guðbergsson

Stefnir í

meðalsumar

í laxveiðinni?

Það hefur ekki farið fram hjá áhugamönnum um stangaveiði að eftir nokkuð góða byrjun á laxveiðitímanum snemma sumars hefur botninn dottið eftirminnilega úr öllu saman. Flestar ár landsins eru annað hvort verulega slakar eða bara rétt tæplega miðlungi góðar. Örfáar eru góðar, en heilt yfir litið stefnir í mun slakari laxavertíð en við höfum horft upp á síðustu sumrin. Mikillar svartsýni hefur gætt í máli margra og talað er um hrun. Ekki má þó gleyma að viðmiðin sem menn nota þegar „hrun“-orðið ber á góma eru metveiðisumrin sem á undan eru gengin. Við hliðina á þeim þá hljóma margar tölur illa. En það verður að skoða alla hluti í sínu rétta samhengi og þegar lýsingarorðin eru stór er oft betra að draga djúpt andann og spyrja að leikslokum. Guðni Guðbergsson hjá Veiðimálastofnun er sá íslenski sérfræðingur sem hvað djarfastur hefur verið að spá um upp- og niðursveiflur í íslenskum laxastofnum. Hann spáði t.d. niðursveiflu fyrir yfirstandandi sumar þó svo að ráða hafi mátt af orðum hans á sínum tíma að niðursveiflan yrði fremur í hægari kantinu, ekki kannski svona kröpp beygja eins og margir upplifa ástandið nú.

93


lífríkið

Guðni Guðbergsson En í tilefni af þessu lögðum við nokkrar spurningar fyrir Guðna og að okkar mati þá er margt fróðlegt í tilsvörum hans. Han sló þo eftirfarandi varnagla á orð sín: „Hér er tilraun til að svara þessum spurningum en eins og þú veist er ekki auðvelt að gefa fullnægjandi svör í stuttu máli og á miðju veiðitímabili.“ Þú varst í sjálfu sér búinn að spá áframhaldandi niðursveiflu, en varst samt bjartsýnni en tilefni er til akkúrat núna á miðju sumri, kemur þessi mikla dýfa þér á óvart? „Það voru ýmis teikn sem bentu til þess að heldur myndi draga úr laxgengd í okkar ár. Þar var horft til þess að það eru sveiflur í laxastofnum. Það var mjög mikil veiði 2007-2010 en farið að draga úr 2011 og líkur til að það myndi halda áfram. Seiðaárgangarnir sem gengu út 2011 mældust víða frekar slakir og því ekki von á viðlíka göngum og undanfarin ár. Þegar miðað er við 25. júlí sýnist mér að þegar veiðitölur í ánum sem listaðar eru hjá angling.is eru bornar saman við sama dag 2011 að veiðitölur séu þær að meðaltali um 22-24% lægri 2011. Það er reyndar breytilegt milli áa. Ef þessi munur helst mun stangveiðin verða nærri meðalveiði áranna 19742011. Ef það gengur eftir er kannski ekki nein ástæða til að tala um slæmt ástand en hafa þarf í huga að laxgöngur síðustu ár hafa skilað met stangveiði og margir miða við. Hafa verður þann fyrirvara á að enn er mikið eftir af veiðitímanum.“ Hver telur þú að örsökin á þessu sé? Er makríll að dauðhreinsa ætislóð gönguseiða, kom kalt vor 2011 við sögu? Eitthvað fleira? „Hér þarf að vinna út frá gögnum en ekki getgátum. Skoða þarf talningar í ám með teljurum, veiðihlutfall, stærðar-

94

VEIÐISLÓÐ • tímarit um sportveiði og tengt efni • 4. tbl. 2012

og aldurssamsetningu veiðinnar, hvaða seiðaárgangar standa undir göngunni og hver vöxtur hafi verið sem lesa má úr hreistri. Vissulega hafa orðið breytingar við tilkomu makríls í miklu magni hér við land en hann hefur verið hér einnig síðustu 2-3 ár. Laxaseiðin sem gengu út í vor eru nú (eftir rúma 2 mánuði í sjó) svipuð að stærð og makríllinn sem verið er að veiða nú. Laxinn er væntanlega á öðrum beitarsvæðum en makríllin á þessum tíma. Einnig er allur laxastofninn úr íslenskum ám lítill í samanburði við stofnstærðir sjávarfiska, makríll þar með talinn og því ekki auðvelt að sjá tengsl þótt makríllinn hafi ekki fjarvistarsönnun. Hér er væntanlega um flóknari hluti að ræða sem vert er að skoða betur líkt og sjávardvöl laxins í heild sinni.“ Við þykjumst vita að þú viljir spyrja að leikslokum, en hvernig sýnist þér í fljótu bragði að framhaldið gæti orðið 2012? „Samkvæmt fyrri reynslu er algengt að um helmingur veiddra laxa hafi verið kominn í veiðibækur á þessum tíma(skrifað í byrjun ágúst). Þótt talsvert sé eftir af veiðitíma eru líkur til að hlutfallsleg stærðargráða eigi ekki eftir að breytast mikið. Samkvæmt reynslu síðustu ára, sem hafa verið þurrkasumur, hefur síðsumarið verið hlutfallslega nokkuð drjúgt hvað veiði varðar. Það að auknum fjölda laxa er sleppt fjölgar þeim fiskum sem eru í ánum síðsumars og hluti þeirra er veiddur oftar en einu sinni.“ Er ekki hugsanlega einhver hætta á ferðum með næstu sumur þegar hvert annálað þurrkasumarið rekur annað? „Samkvæmt seiðamælingum er ekki að sjá að þurrkar séu að hafa neikvæð áhrif


á afkomu seiða og seiðaframleiðslu í ám. Reyndar er seiðaþéttleiki yfirleitt hár í ánum nú eftir að göngur og hrygning hefur verið með meira móti undanfarin ár. Þegar göngur minnka er ástæða til að hafa áhyggjur af því sem eftir er í ánum til hrygningar. Yfirleitt fylgist að að þegar eins árs laxinn er smár er hann einnig fáliðaður. Smáar hrygnur þýða færri hrogn í hverri hrygnu. Vegna þess að lífsferillin tekur 4-7 ár er langur tími frá hrygningu þar til afkomendurnir skila sér aftur til hrygningar og í veiðistofn. En það gerir einnig að verkum að dempun getur orðið vegna þess að fleiri en einn árgangur er í uppeldi og hrygningarstofni á hverjum tíma. Þurrkar hafa aldrei varað svo lengi að ekki hafi einhvern tíman rignt og síðustu haust hafa verið með talsverðri úrkomu og auknu vatnsrennsli. Heilt yfir eru veiðitölur að endurspegla fiskgöngur, líka í þurrkasumrum, þótt hlutfallslega sé meira veitt úr stofnum þegar gangan er lítil en þegar hún er stór.“ Kollegi þinn á VMSt, Þórólfur Antonsson, sagði í viðtali á RUV að tengsl væru fundin á sveiflum íslenskra laxastofna annars vegar og stofna í Rússlandi/Barentshafi hins vegar..... og að a.m.k. eitt lélegt ár myndi koma áður en að það færi að batna aftur. Er ekki frekar snemmt að spá um það? „Þessi tengsl hafa verið til staðar og haldist um langt skeið (það birtist grein um þetta 1996). Þau tengjast umhverfissveiflum og breytilegum skilyrðum sem færast til með hafstraumum. Hlýr og selturíkur sjór (Golfstraumurinn) streymir norður með Noregsströndum, inn í Brentshaf og þaðan suður eftir til Íslands. Púlsar með hagstæðum skilyrðum koma með þessum sjávar-

mössum sem vara í nokkur ár og svo aftur óhagstæðari púlsar í nokkur ár í röð. Laxastofnar í Noregi og Rússlandi nema breytingar tengdum þessum skilyrðum 2-3 árum á undan okkar laxastofnum. Það þýðir ekki endilega að ástand sé alvarlegt þótt það geti haft áhrif á veiðiþol stofna og hvað megi veiða úr stofnunum áður en það getur farið að hafa áhrif á nýliðun. Seiðaárgangar í mörgum ám hér á landi, sem koma til með að ganga út á næstu árum eru víðast hvar stórir sem mun líklega vega á móti lakari skilyrðum að einhverju leyti. Það er ekki nokkur mannlegur máttur sem getur haft áhrif á ástand sjávar. Við getum hinsvegar stjórnað því hve mikið er veitt og víða hefur verið dregið úr sókn með kvótum og sleppingum laxa til að auka þann fjölda sem eftir er til hrygningar í ánum til hrygningar að afloknum veiðitíma. Það er afar mikilvægt að stjórna nýtingu laxastofna þannig að hámarksframleiðslugeta ánna á gönguseiðum viðhaldist. Eins og er höfum við einungis eina á til að meta endurheimtur/afföll laxa í sjó en mikilvægt væri að hafa þar betri upplýsingar.“

95


einu sinni var Hreindýr

Orrustan við „dyrnar“ að Árið 1960 gaf Bókaútgáfa Menningarsjóðs út bókina Hreindýr á Íslandi 1771 – 1960 eftir Ólaf Þorvaldsson. Í einu tölublaða Veiðislóðar í fyrra birtum við kafla úr bókinni þar voru skráðar mergjaðar veiðisögur af fyrri tíma veiðikempum. Þar sem hreindýratíminn fer nú í hönd ætlum við að höggva í sama knérunn og birta dálítið meira af þessum lýsingum sem eru bæði mergjaðar og með fágætt sögugildi. Við komum við sögu þar sem Ólafur er að rekja afrek nokkurra gamalla veiðigarpa. Og þar segir: -Þá nefni ég hér þriðja manninn á umræddu árabili, sem mikið fékkst við hreindýraveiðar á suðurslóðum, en það var Sæmundur Eiríksson frá Vindheimum í Ölfusi. Þótt ekki færi út í frá jafn mikið orð af Sæmundi sem þeim tveim áðurnefndu mönnum til hreindýraveiða, þá mun óhætt að telja hann ganga langsamlega næstan þeim í því efni. Svo sagði mér Ólafur, sonur Sæmundar, sem nú er nýlátinn á nýræðisaldri, að oft hafi þeir verið saman við hreindýraveiðar um Ölfusafrétt, faðir hans og Eyjólfur á Grímslæk, og verið þá að vanda fengsælir. Í æsku heyrði ég oft á það minnst, að þessir menn lægju í hreindýrunum, og mátti skilja svo, að litlu myndi skipta, hvort friðuð væru eða ófriðuð. All ævintýra­­legar munu margar af þessum veiðiferðum hafa verið. Ég hef hér að framan getið að nokkru þeirra þriggja manna, sem á síðari helmingi nítjándu aldar munu flest hreindýr hafa skotið á Suðurlandi. Allir voru menn þessir Ölfusingar, þótt einn þeirra, Guðmundur á Ísólfsskála, byggi

96

VEIÐISLÓÐ • tímarit um sportveiði og tengt efni • maí 2011

síðar í annarri sýslu. Áður en ég skil að fullu við Ölfusinga, vil ég minnast lítillega eins manns enn, sem bjó í nokkur ár á Reykjum í Ölfusi, en það var Guðmundur Jakobsson, síðast bóndi í Lambhúsum á Álftanesi. Guðmundur mun hafa verið ein mesta hreindýraskytta á fyrri helmingi síðustu aldar (þar síðustu, innsk Vsl). Fleygust af öllum hans veiðiferðum mun sú vera, þegar hann háði einvígi við hóp dýra í einstigi því, sem liggur inn til Marardals í Hengli. Saga þessi varð síðar að nokkurs konar þjóðsögu og var þá ekki ávallt sögð á einn veg, einkum bar oftast nokkuð á milli um dýrafjölda þann, sem Guðmundur lagði þá að velli. Sonarsonur hans, Guðmundur Helgason, síðast sparisjóðshaldari í Hafnarfirði (d.4/5 1929) sagði mér sögu þessa og hafði eftir föður sínum. Sagði hann, að dýrin, sem hann felldi í dyrum Marardals, hefðu verið níu, og taldi, að 2 eða 3 hefðu sloppið út að síðustu. Erfiðast sagði hann að hann hefði átt með að verjast útrás dýranna, á meðan hann hlóð byssu sína hverju sinni, þar eð byssan var framhlaðin, svo sem allar byssur þá gerðust, og tók því nokkra stund að hlaða. Að viðureign lokinn sagði Guðmundur, að afi hans hefði borið tvö dýr,


Marardal

annað í bak, hitt í fyrir, alla leið heim að Lambhúsum. Um þetta atriði bar gömlum Hafnfirðingum saman þegar um ræddu, fyrir og um aldamót. Hvað sem um þetta er, þá er það víst, að Guðmundur Jakobsson var heljarmenni að burðum og kom engum að óvörum, sem til hans þekktu, þar eð hann var sonarsonur Snorra prests hins sterka á Húsafelli.“

Meira í næsta tölublaði Veiðislóðar seinna í haust!

97


villibráðareldhúsið

Úr bókinni „Stóra bókin um villibráð “

Villti kokkurinn með

villbráðarhlaðborð Villibráðaeldhúsið okkar er að þessu sinni helgað komandi vertíð villibráðarhlaðborða sem einkenna mjög haustið. Við höfum þegar heyrt af einu sem haldið verður á vegum Reykjavík Hotels, en þar er það enginn annar en veiðikokkurinn Úlfar Finnbjörnsson sem stendur vaktina og stýrir hlaðborðinu. Aðalheilur E. Ásmundsdóttir markaðsstjóri hjá Reykjavík Hotels segir mikinn viðbúnað vera vegna þessa hlaðborðs sem haldið verður daganna 5. og 6. október og stefnt sé að því að annað eins hafi varla sést hér á landi undir formerkjum villabráðarhlaðborðs. Skemmst er að minnast að Úlfar sendi frá sér Stóru bókina um villibráð sem bókaútgáfan Salka gaf út fyrir síðustu jól og er þegar búin að vinna til alþjóðlegra verðlauna. Bókin er alfræðirit fyrir allt áhugafólk um nýtingu villibráðar, full af fróðleik og ómótstæðilegum sælkerauppskriftum. Sjálfur er Úlfar ástríðufullur veiðimaður sem hefur brennandi áhuga á að nýta bráðina sem best. Úlfar hefur stundum verið nefndur villti kokkurinn, enda fer hann víða og stundar fjölbreytta veiðimennsku auk þess að vera matreiðslumeistari á heimsmælikvarða. Hann er þó sannkölluð fyrirmynd annarra veiðimanna og umgengst náttúruna af sannri virðingu. Glæsilegar ljósmyndir eftir Karl Petersson prýða bókina, bæði af réttunum ásamt skýringarmyndum af helstu verkunaraðferðum. Teikningar eru eftir Jón Baldur Hlíðberg. Dominique Plédel Jónsson skrifar kafla um vín með villibráð. Myndin sem hér fylgir er því úr smiðju Karls Peterssons og birt með leyfi útgefanda.

98

VEIÐISLÓÐ • tímarit um sportveiði og tengt efni • 4. tbl. 2012

Söltuð gæsalæri með dijon-sinnepi fyrir 4

Hráefni • 8 gæsalæri • 2 dl gróft salt • ½ dl nítrítsalt, má sleppa • 1 dl sykur

Aðferð Hyljið gæsalæri með salti og sykri og geymið við stofuhita í 3 klukkustundir. Skolið þá saltið af lærunum og setjið þau í pott með köldu vatni þannig að rétt fljóti yfir þau. Sjóðið við vægan hita í 2-3 klukkustundir eða þar til lærin eru orðin mjúk undir tönn. Berið lærin fram með dijon-sinnepi, blönduðu, soðnu grænmeti og kartöflum.

Fljótlegur og skemmtilegur réttur sem auðvelt er að matreiða. Í stað dijon-sinneps má til dæmis hafa uppstúf.



veiðihundar Kölluð Löndunarþjónustan r undaSteinarsson veiðih Hjörleifur

Öryggi hunda í bílum

Eins og fram hefur komið í all nokkrum af þeim veiðihundapistlum sem við höfum birt, ígildi. Ekki aðeins að þeir vinni erfiða vinnu fyrir skyttur, finni fugla, lifandi, dauða og lem verið svo frábær félagsskapur að leit er að öðru eins. Og svo geta þeir verið skemmtilega Inngangur Við heyrðum á dögunum skemmtilegar sögur af henni Kolu, sem er Labradortík í eigu Hjörleifs Steinarssonar. Um Kolu sagði Hjörleifur fyrst þetta: „Ja hvar skal byrja, frábær hundur með stórkostlegan karakter og komin undan frábærum foreldrum. Báðir foreldrarnir eru veiðihundar, hreinræktaðir, en ekki með ættbók, pabbi Kolu, Tígull í eigu Bóbó byssusmiðs og gæsadrápara á Selfossi er besti sækir sem ég hef séð punktur. Kola hefur fengið veiðiuppeldi, fór á hlýðninámskeið og veiðinámskeið hjá Alberti Steingrímssyni í Hundalífi og þar fékk kella flotta einkunn, frábær kennari Albert og sá maður sem ég myndi tala við í sambandi við þjálfun veiðihunda.“

ég að prófa að senda hundinn með fisk til hennar. Skemmst er frá því að segja að það verkefni leysti hún vel af hendi, synti yfir með þó nokkuð af silungi og stóð sig með prýði. Hún hefur fengið nafnið löndunarþjónustan hjá vinahópnum og veiðifélögunum enda alltaf tilbúin að hjálpa þér að landa fiski. Ég fór með hana á gæs þá um haustið, frekar ung en stóð sig vonum framar. Fann særða fugla og var pollróleg í skothríðinni. Hún átti þó í erfiðleikum með grágæsina þá vegna þess að hún var ekki búin að taka út allan vöðvaþroska og vöxt, en það vefst lítið fyrir henni í dag. Hef farið með hana nokkrum sinnum í rjúpu og hún kom mér ótrúlega á óvart. Hún bendir nefnilega, tekur stand og rófan lóðrétt upp. Ég var ekki að skilja þetta fyrst þegar ég fór með hana en það var alveg sama hvað ég reyndi, hún hreyfði sig ekki. Það var ekki fyrr en ég tók upp stóra kíkinn að ég sá 5 rjúpur undir bjargi í snjóskafli svona 50 metra frá mér. Náði fjórum og get þakkað hundinum það, hefði pottþétt labbað fram hjá þeim sjálfur.

Veiðihundar

Kola fór snemma með í stangveiðina, við hjónin erum bæði mikið í stangveiði og Kola fékk eldskírnina við Þingvallavatn. Eftirminnilegasta atvikið frá “barnæsku” hennar er þegar við fórum í vötnin sunnan Tungnaár snemma sumars 2009, við vorum við veiðar í Frostastaðavatni og vorum komin inn í hraunið í botninum. Kola sem þá var rétt rúmlega árs gömul hafði verið með mér út í hólmunum og var ég að kroppa ágætlega en hafði gleymt fiskipokanum í bílnum. Katrín konan mín var í landi hinum megin og ákvað

100 VEIÐISLÓÐ • tímarit um sportveiði og tengt efni • 4. tbl. 2012

Hún er mikill fuglahundur og hefur ótrúlegan áhuga á andfuglum og gæsum. Ég á eina frábæra sögu af því. Við vorum nokkrir félagarnir að veiða í Húseyjakvísl haustið 2010. Í einu


í vinahópnum

, þá er góður veiðihundur gulls mstraða, heldur geta þeir jafn framt a sérvitrir og uppátækjasamir.

hléinu þá finn ég ekki hundinn, var að grilla í strákana og var út á palli og hélt að hundurinn væri að sniglast einhvers staðar í kringum húsið. Við fórum svo að leita að henni og endaði með því að einn félaginn sá hana niður við á, að reyna að læðast að andahóp, fannst greinilega vanta einhverjar endur í aflann. Ég hef verið töluvert að “gæda” síðustu tvö sumur, 2010 og 2011, og þá hefur tíkin verið með mér, alltaf verið hvers manns hugljúfi og ég fæ enn tölvupósta frá kúnnum og þeir biðja alltaf um kveðju til Kolu. Afskaplega geðgóður og skemmtilegur hundur.“

Tíkin Kola að sækja önd.

Bendir VERSLUN MEÐ HUNDAVÖRUR  511-4444 www.bendir.is

101


græjur ofl.

Framtíðin í veiðivestum? – Mountain River hálsfesti Hlýnandi veðurfar hin síðari ár hefur haft áhrif á klæðnað stangaveiðimanna svo ekki sé meira sagt. Þunnir jakkar og skyrtur hafa leyst þykkar peysur og þunga jakka af hólmi. Síðustu 2 árin hafa vestin jafnvel hopað fyrir enn einni nýjunginni, hálsfestinni. Hægt er að koma öllum helstu smáverkfærum og taumaefni fyrir á haganlegan hátt í Mounta­ in River hálsfestinni. Klippurnar, töngin, önglabrýnið, gleraugna­ klúturinn, og taumaefnið ásamt fleiru smálegu sem nauðsynlegt

er að hafa við höndina. Jafnvel er hægt að fá lítil flugubox sem festa má í hálsfestina. Mountain River hálsfestarnar eru hið mesta þarfaþing á góðviðrisdögum hvort heldur fyrir silungs- eða laxveiðimenn. Mountain River hálsfestar fást í Veiðihorninu Síðumúla 8, Sportbúðinni Krókhálsi 4 og Veiðibúðinni við Lækinn í Hafnarfirði en einnig í Veiðimanninum, veiðibúð allra landsmanna á netinu www.veidimadurinn.is

Sage Response og Sage Approach - Veiðihornið

Sage Response

Sage Approach

Nú nýverið kynnti flugustanga­ framleiðandinn Sage tvær nýjar stangafjölskyldur fyrir 2013. Þetta eru Sage Approach og Sage Response. Nýju stangirnar munu leysa af hólmi tvær eldri gerðir, Sage Vantage og Sage Flight en báðar hafa notið mikilla vinsælda hin síðari ár.

Sage Approach og Sage Res­ ponse munu verða á svipuðu verði og eldri stangirnar. Ef talað er á einföldu mannamáli má segja að það séu fleiri hestöfl í nýju stöngunum en þeim eldri. Þ.e. nýju stangirnar eru mun kraftmeiri án þess að vera stífari auk þess sem sumar þeirra eru

102 VEIÐISLÓÐ • tímarit um sportveiði og tengt efni • 4. tbl. 2012

nokkuð léttari en eldri stangir. Sage Approach og Sage Res­ ponse eru nú þegar komnar í sölu á Íslandi.


græjur ofl.

Stærð haglaskota – Veiði 2012 Margir skotmenn, ekki síst nýlið­ ar, ruglast á númerum hagla­ skota enda ekki skrítið þar sem sum skot eru merkt samkvæmt ameríska kerfinu en önnur eftir enska kerfinu. Því er e.t.v. réttast að tala um millimetramál þegar haglaskot eru valin. Hér má sjá mismun á merkingu nokkurra vinsælla stærða hagla­ skota en þau sem hér er rætt um eru Rio skotin frá Spáni. Spænsku skotin eru merkt skv. ameríska kerfinu.

Á gæs eru gjarnan notuð 42 gr. 2 ¾“ skot í haglastærðum 3,25 mm til 3,75 mm. Á lengri og erfiðari færum fara menn gjarn­ an í 3“ skot og upp í 4,5 mm. Þetta er ekki algilt heldur er hér talað um algengustu stærðir. Á rjúpu eru 36 gramma skotin vinsælli því þau eru gjarnan hraðari en margir velja þó einnig 42 gramma skotin hér en minni haglastærðir eða jafnvel undir 3 mm högl.

Haglastærðir

3.25 mm jafngildir US 4 / Ensk 3

3.75 mm jafngildir US 2 / Ensk 1

4.50 mm jafngildir US BB / Ensk BBB

Vinsældir Rio haglaskotanna hafa aukist mikið síðustu árin enda góð skot á afar hagstæðu verði. 36 gr. rjúpnaskot kosta aðeins 1.595 krónur pakkinn, 42 gr. gæsaskot aðeins 1.895 krónur og 50 gr. 3“ magnum skot 2.395. Allir pakkar með 25 skotum.

Þá býðst 15% afsláttur af 36 gr. Rio rjúpnaskotum þegar þau eru keypt með gæsaskotunum. Rio haglaskotin fást í Veiðihorn­ inu Síðumúla 8, Sportbúðinni Krókhálsi 4 og Veiðibúðinni við Lækinn í Hafnarfirði. Úr fróðleikshorni Veiðihornsins

Nýjar frá Beretta – Veiðihornið Beretta er stofnað árið 1526 og því næstum 500 ára fjölskyldu­ fyrirtæki. Það vekur alltaf mikla athygli þegar ný skotvopn koma á markaðinn frá þessu aldna og virta fyrirtæki en tvær nýjar hálf­ sjálfvirkar byssur birtast í Íslands­ markaði nú í haust. Sú fyrri sem við nefnum er Beretta A300 Outlander, en hér bætir Beretta einni byssu við í ódýrari verðflokk en þar fyrir má finna Beretta ES100 byss­ una sem hefur verið feykivinsæl undanfarin ár. Ólíkt Beretta ES100 sem er bakslagsskift er nýja Beretta A300 Outlander byssan gasskipt. Beretta A300 Outlander byssan er öll smíðuð í verksmiðju Beretta á Ítalíu. Byssunni fylgir ein þreng­ ing, hörð Beretta plast taska og plötur til að breyta afstöðu skeftis. Það er óhætt að segja að verðið á þessari nýju byssu er gott en Beretta A300 Outlander kostar aðeins 164.000 kr.

Seinni byssan sem sagt er frá hér er Beretta A400 Xtreme. Þessi byssa er byggð á A400 Xplor byssunni sem kom á markað fyrir tveim árum. Xtreme byssan kom fyrst á Ameríkumarkað í fyrra en er nú loks fáanleg á Evrópumarkaði. Byssan er búin fjölmörgum nýjungum svo sem nýrri skiptingu, nýrri bakslag­ svörn og fullkomnasta sjálf­ hreinsibúnaði sem fyrirfinnst í nokkurri hálfsjálfvirkri hagla­ byssu. Beretta A400 Xtreme fylgja 3 þrengingar, hörð Beretta plast taska, plötur til að breyta afstöðu skeftis og ólarfestingar. Beretta A400 Xtreme er fáanleg í tveim útgáfum. Annars vegar með svörtum plastskeftum og hins vegar í MAX4 felumynstri. Sú svarta kostar 309.000 kr. en 329.000 kr. í felumynstrinu. Úrval af Beretta haglabyssum er í Veiðihorninu Síðumúla 8 og Sportbúðinni Krókhálsi 4.

Beretta A300 Outlander

Beretta A400 Xtreme

103


græjur ofl.

Furðufluguboxið – Veiðivon

Það er ekki bara hefðbundinn flugubar í Veiðivon í Mörkinni, þar er einnig að finna það sem Haukur barþjónn kallar Furðu­ fluguboxið. Þetta er stórt og mikið flugubox úr viði og það er stappað af flugum. Það eru í sjálfu sér ekki furðuflugur í boxinu, heldur bara óvenju­ legur kokteill flugna sem margar hverjar sjást ekki ýkja oft nú orðið og alls ekki á flugubörunum.

„Þetta eru flugur úr mörgum áttum og flestar koma þær úr gömlum fluguboxum sem við höfum annað hvort fengið gefins, átt sjálf í skúmaskotum eða einhverjir nánir okkur. Þá eru einnig flugur úr fluguboxum úr dánarbúum. Auðvitað er þarna að finna þekktar og mikið not­ aðar flugur, en einnig flugur sem voru kannski þekktar fyrr á árum. Þetta eru notaðar og ónot­

104 VEIÐISLÓÐ • tímarit um sportveiði og tengt efni • 4. tbl. 2012

aðar flugu, sem þýðir að margar flugurnar eiga sér einhverja sögu, og það ægir öllu saman í boxinu. Margir hafa heillast af því að gramsa í því og það er allt til sölu. Það er vinsælt og við erum stöðugt að fylla á það upp á nýtt,“ segir Haukur í Veiðivon. Myndirnar sýna sýnishorn sem urðu á vegi Vsl/VoV á dögunum.


græjur ofl.

Tveir nýjir vöðlujakkar frá Guideline – Veiðiflugur Í sumar komu tveir nýir vöðlujakkar frá Guideline. Þeir heita Kispiox og Experience.

Kispiox jakkinn er sérstaklega stílhreinn og flottur jakki á frábæru verði, án þess að fórna þægindum. Kispiox jakkinn er einn af okkar allra vinsælustu jökkum til margra ára. Snið jakkans og hönnun hefur notið mikilla vinsælda og hefur því

haldist óbreytt á milli ára. Þess í stað höfum við breytt lit jakkans eftir tískustraumum á milli ára. Jakkinn er 100% vatnsheldur, 2 laga og er meðhöndlaður með Teflon4 vatnsvörn. Jakkinn er fóðraður að innan og er með fimm rúmgóðum vösum.

Nýji Experience jakkinn okkar er mjög góður kostur á hag­ stæðu verði. Hann er 3 laga og með vatnsheldni 10.000mm og öndun upp á 5000 gr/m2. Jakkinn er vel hannaður og með mörgum hentugum eiginleikum sem auka enn á ánægjuna við að klæðast honum. Á jakkanum eru

rúmgóðir vasar, faldir klippu­ gormar og stillanleg hetta með stillanlegu stífu skyggni. Hægt er að þétta ermarnar að úlnliðnum með frönskum rennilás. Faldir gormar fyrir klippur og tangir og D hringir sjá til þess að þú ert með alla nauðsynlega aukahluti á vísum stað.

Ertu búinn að skrá þig í áskrift? www.veidislod.is 105


græjur ofl.

Fyrir skyttur sem vilja hitta betur! – Vesturröst Þeir sem eru farnir að huga að skotveiðinni í haust og vilja hámarka hittnina með leirdúfu­ skotfimi ættu að prófa nýtt mið á haglabyssur sem sem auðeldar mönnum að hitta ef bráðin er inni í hringnum. Aftara sporöskjulaga miðið hefur verið hannað þannig að þegar vængir andar eða gæsa nema lárétt við pílurnar í miðinu þá er færið 30-35 metrar sem er kjörfæri með haglabyssu. Meginmarkmið þessara miða,

eða sigta, er að passa upp á að byssan sé sett rétt upp og að notandinn hitti. Vesturröst hefur boðið upp á nokkrar gerðir af þessum miðum og þau passa á flestar gerðir af haglabyssum. Það er mjög auðvelt að smella þeim á og smella þeim af. Það er mjög sniðugt að taka t.d. einn hring í leirdúfunni án hringsins og svo annan með hringnum og sjá muninn. Árangurinn gæti komið þér á óvart.

PR Veiðiskórnir – Vesturröst Vesturröst býður upp á þessa vönduðu skó til skotveiða og má segja að þeir henti við óvenju margar aðstæður. PR falla vel að fæti og hafa góða öndun, tvöfalda sauma auk þess sem Thinsulate fóður tryggir hita og

þægindi. Þá gefur grófur sóli gott grip og ekki spillir að þeir eru 100% vatnsheldir. Það er fátt betra í skotveiði en að vera vel skóaður og því vel þess virði að kíkja á þessa skó.

Tilboð á Solway Magnum – Vesturröst Vestrröst býður upp á tilboð á Solway Magnum 50 gr hleðsla 3″, haglastærð Enskt BB 4,1 mm 13,6 mm, no 3, 3,3mm. Hraði

1400 fet á sekúndu. 25stykki í pakka, tilboð á kassa með 8 pökkum á kr. 17,600,-

106 VEIÐISLÓÐ • tímarit um sportveiði og tengt efni • 4. tbl. 2012


græjur ofl.

Tvær magnaðar tvíhendur – Hrygnan fyrir línur 10 til 11. Hugmynda­ fræðin á bak við þessar stangir er að köstin og veiðin eigi að vera sem átakaminnst og að stangir þurfi ekki að vera stífar til að ráða við öll skilyrði. Þetta eru milli­ hraðar og mjúkar stangir þar sem öll stöngin vinnur í kastinu. Stöngin virkar fyrir við mjög mjúk og klár í allt, jafnvel þegar veitt er með stórum og þungum flugum sem sliga margar stangir.

Hrygnan í Síðumúla státar nú af tveimur nýjum tegundum tvíhenda frá Vision og eru þær jafn óíkar og þær eru góðar samkvæmt erlendum dómurum. Sú fyrri heitir GT four DH Catapult og í lýsingu á henni segir að hún sé bæði kröftug og hröð. Ekkert veður, engin fluga eða lína sé þessari stöng um megn að ráða við. „Þú getur valið þér breiðustu ána á vestur­ strönd Noregs og þegar þú ferð að kasta með þessari stöng, þá er eins og fljótið breytist í lítinn læk. Hún fékk einkunina „best in test“ í stangarskoðun í tímaritinu Trout and Salmon. Fyrir í þessari stangarlínu voru stangir smíð­ aðar fyrir línur 9 til 11, en nýja

stöngin er nettari, gerð fyrir línu 7 og er 11,6 feta switch stöng ætluð smærri ám og strandveiði.

Sú seinni heitir Cult DH og eru tvær nýjar stangir í þeirri línu, 15,2 fet fyrir línu 10 og 17,8 fet

Tveir fyrir einn flugnavæs – Hrygnan Hrygnan býður nú upp á einn flottasta fluguhnýtingarvæs sem fram hefur komið og er hann kominn úr þróunarsmiðju Vision. Þetta er sannkallaður tveir fyrir einn væs sem uppfyllir allar kröfur sem hnýtarar kunna að gera, enda hannaður af atvinnu­ mönnum í greininni. Upphaflega var verið að hanna túpuvæs, en fljótlega fór hönnunin inn á þá braut að búa til tveir fyrir einn

týpu. Hönnunin gerir ráð fyrir rými fyrir hendurnar og hug­ myndafræðin segir: Minna er meira, sem útleggst í þessu tilviki þannig að allur óþarfi er fjar­ lægður af væsnum og einfald­ leikanum leyft að njóta sín. Þá er væsinn smíðaður úr ryðfríu stáli og skilaboðin þar eru auðvitað verið sé að tjalda til ævinnar allrar.

107


græjur ofl.

Ný Exceed flugustöng frá Klaus Frimor – Veiðiflugur Hér birtum við aðsenda grein frá Veiðiflugum á Langholtsvegi, grein sem átti að birtast í síðasta tölublaði Veiðislóðar, en gerði ekki fyrir mistök á ritstjorn.

Exceed tvíhenda

Exceed switch

Klaus Frimor hefur undanfarna tvo vetur verið að hanna nýja stöng fyrir Guideline. Nú er stöngin komin og viðtökurnar hafa verið ótrúlegar, ekki síst hafa tvíhendurnar fengið glimrandi dóma hjá öllum helstu kösturum Evrópu. Robert Gillespie er eitt af stóru nöfnunum í tvíhenduköstum á Írlandi og hann segir þetta um nýju Guideline Exceed 13,7” tvíhenduna: “A seriously good rod indeed, very special. Probably the best shooting head outfit I have ever cast - ever” Þetta útleggst einhvern vegin svona: “Sannarlega frábær stöng, mjög sérstök. Líklega sú allra besta sem ég hef nokkru sinni reynt með skotlínukerfi.

Sage einhenda

Það sem er líka skemmtilegt við þessar stangir er að tvíhendurnar kosta frá 64.900 kr. til 68.900 kr. og einhendurnar frá 43.900 kr. til 48.900 kr. Léttari útgáfurnar af einhendunni eru gerðar eftir innblæstri frá vinnslunni í okkar vinsælu Fario stöngum, mjúk en kraftmikil vinnsla sem býður upp á ótrú­ legan kraft og djúpa vinnslu sem hafa þennan eftirsótta “slingshot effect” í kastinu. Exceed switch stangirnar koma fyrir þrjár mismunandi línuþyngdir og eru frábær kostur í Switch stöngum. Vinnslan í Exceed switch stöngunum er í grunninn byggð á LPXe stöng­ unum sem eru orðnar söluhæstu Switch stangirnar undanfarin tvö ár. Og aftur getum við komið á óvart með frábæru verði því Exceed Switch stangirnar kosta 52.900 kr.

108 VEIÐISLÓÐ • tímarit um sportveiði og tengt efni • 4. tbl. 2012

Exceed, lína 7-8

Fjórar Exceed tvíhendur sækja innblástur sinn í hinar geysi­ vinsælu LeCie stangir. 12’ og 12’9 eru kærkomin nýjung í viðbót við lengdirnar á þeim stöngum sem í boði eru frá Guideline og henta mjög vel í mörgum ám í Evrópu og á Íslandi. Þessar tví­ hendur hafa mjög svipaða hraða og kraftmikla vinnslu og “stóru bræðurnir”, LPXe og LeCie, og

eru besti kosturinn fyrir þá sem vilja spara aðeins við sig en fá það allra besta sem völ er á fyrir peninginn. Við erum með allar þessar stangir upp settar í búð­ inni hjá okkur að Langholtsvegi 111 og bjóðum veiðimönnum og konum að koma og prófa þessar frábæru stangir næstu daga.


Norðlingafljót Borgarfirði Laxveiði í einni fallegustu á landsins! Fyrirkomulag: 2ja daga „holl“ hádegi til hádegis Leyfilegt agn: Fluga og maðkur Gisting: 2ja manna herbergi með uppábúnum rúmum Tímabil: 18. júlí til 30. september

www.nordlingafljot.com Jóhannes B. Sigmarsson S: 771 6353, icehunt@simnet.is


VEIÐISLÓÐ tímarit um sportveiði og tengt efni

Útgefandi: GHJ útgáfa ehf. Ritstjórn: Guðmundur Guðjónsson, ritstjóri Heimir Óskarsson, útlit og umbrot Jón Eyfjörð Friðriksson, greinaskrif Netfang: veidislod@veidislod.is


Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.