8 minute read

Vil sjá fleiri konur í ábyrgðarstöðum í sjávarútvegi

Gerður Sigríður, Eiríkur, Stefán Þorvaldur og Gunnar Tómasarbörn. Myndin er tekin á 100 ára afmæli Tómasar Þorvaldssonar 2019.

„Vil sjá fleiri konur í ábyrgðarstöðum í sjávarútvegi”

Gerður Sigríður Tómasdóttir einn af eigendum fjölskyldufyrirtækisins Þorbjörns hf í Grindavík þekkir vel sjávarútveginn en hún hefur lifað og starfað innan hans alla tíð.

„ É g fór að vinna 11 ára gömul í saltfiski sem þótti sjálfsagt í þá daga. Ég fæddist inn í þetta og einhvern veginn hefur verið erfitt að slíta sig frá þessu,“ segir Gerður. Hún elst upp á þeim tímum þegar karlar voru nánast einvaldir í sjávarútveginum. Gerður var farin að vinna í bókhaldi fyrirtækisins þegar elsta barnið var einungis 5 mánaða gamalt, þá nýorðin 21 árs en pabba hennar þótti tími til komin fyrir hana að fara að vinna. „Ekkert var gefið eftir á þessum tíma, amma mannsins míns passaði barnið en mér leist nú ekkert á þann ráðahag í fyrstu. Ég gat bara ekki ímyndað mér að gamla konan gæti þetta en svo reyndist hún okkur svo vel eftir allt saman og myndaðist alveg einstakt samband á milli barnanna okkar og hennar.“ Hún nefnir annað dæmi um það hversu mikla áherslu pabbi þeirra lagði á að krakkarnir legðu sitt af mörkum í vinnslunni. „Þegar ég var í Lýðháskóla í Noregi þá langaði mig heim um páskana, það var nú í lagi sagði pabbi en þá skyldi ég fara beint í aðgerð þegar heim kæmi og ég var varla lent þegar ég var mætt niður í verkun.“

„Ég fór að vinna 11 ára gömul í saltfiski sem þótti sjálfsagt í þá daga. Ég fæddist inn í þetta og einhvern veginn hefur verið erfitt að slíta sig frá þessu.“

„Ég byrjaði að vinna í fyrirtækinu árið 1972 þá á tólfta ári og vann til fjögur á daginn, svona var þetta bara hér áður fyrr. Það er skrítið að hugsa til þess núna að hafa verið svona ung. Við fermingu gerði ég smá uppsteyt og vildi fara að vinna í frystihúsi austur í hverfi eins og það var kallað með vinkonum mínum. Pabba fannst það nú bara frábært, Ég vann þar tvö sumur. Ég er alveg að ná því að hafa unnið í fyrirtækinu í 39 ár, byrjaði í bókhaldinu 1. mars 1982. Stundum langaði mig að gera eitthvað annað en einhvern veginn þá togaði fyrirtækið alltaf í mann.”

„Ég og maðurinn minn höfum þekkst alveg frá því við vorum lítil börn. Við vorum saman í bekk allan grunnskólann, alltaf í sama vinahóp, en byrjuðum ekki sem par fyrr en á nítjánda ári og því búin að vera saman í 41 ár.“

Fór til Englands í miðju þorskastríði

Gerður var mikil ævintýrastelpa á yngri árum og vildi prófa ýmsa hluti. Eftir grunnskólann árið 1976 fór hún sumarlangt til Englands en þá stóð þorskastríðið sem hæst. „Pabba fannst mikilvægt að við hleyptum heimdraganum eins og það var orðað og þess vegna alveg sáttur með ævintýraþrána í mér. Þótti mörgum það algjört glapræði af foreldrum mínum að senda unga stelpuna eina til Englands á þessum óöruggu tímum. Fólk upplifði þetta svo sterkt hér heima en ég vildi fara, svo þegar ég var komin út fann ég ekkert fyrir þessu. Ég var í stúlknaskóla í bænum Margate í Kent, langt frá fiskveiðibæjum Bretlands. Enginn var að hugsa um þetta í kringum mig og vissu ekkert af neinu þorskastríði,” segir Gerður og hlær.

Gerður Sigríður Tómasdóttir ásamt manninum sínum Jóni Emil Halldórssyni í Selva.

„Það getur verið vandasamt verk þegar fjölskylda rekur saman fyrirtæki. Við tökumst auðvitað á, annað væri nú óeðlilegt en okkur semur mjög vel og þekkjumst mjög vel sem er mikill kostur.“

Gerður gekk í Verslunarskólann og kláraði verslunarprófið sem tók tvö ár en þá vildi hún fara að skoða heiminn. „Mikil útþrá var í mér á þessum tíma. Mig langaði að fara í lýðháskóla eins og margar vinkonur mínar voru að gera. Það varð úr að ég færi í Lýðháskóla í Drammen í Noregi í eitt ár eftir útskrift, mjög svo þroskandi og gefandi. Ég var ekki tilbúin til að sleppa Noregi alveg og árið eftir fór ég til Óslóar og vann í banka en var heldur styttra þar en ég ætlaði því þá var ég byrjuð með manninum mínum Jóni Emil.“

Vandasamt verk að reka fjölskyldufyrirtæki

Faðir Gerðar Sigríðar, Tómas Þorvaldsson útgerðarmaður stofnaði fyrirtækið Þorbjörn hf árið 1953 ásamt þremur öðrum. Árið 1975 kaupir hann alla út úr fyrirtækinu og rekur það einn ásamt bræðum Gerðar, hún kemur svo inn svo seinna. „Það var mikil og stór ákvörðun að kaupa hina út en pabbi var skipulagður og með mikilli vinnu og elju gekk þetta vel. Við erum fjögur systkinin, ég er yngst og eina stelpan. Þrjú okkar rekum fyrirtækið saman í dag. Samanlagt eigum við 10 syni, það getur verið

Gerður Sigríður Tómasdóttir á góðri stundu með vinkonum sínum þeim Helgu Kristjánsdóttur, Petrínu Baldursdótturog Hrönn Jónsdóttur.

Tómas Þorvaldsson GK 10. Ljósmyndari: Birt með leyfi Jóns Steinars Sæmundssonar

vandasamt verk þegar fjölskylda rekur saman fyrirtæki. Við tökumst auðvitað á, annað væri nú óeðlilegt en okkur semur mjög vel og þekkjumst mjög vel sem er mikill kostur. Við höfum alltaf gert mikið saman t.d. var farið í útilegur um helgar þegar börnin voru lítil þó að allir hafi verið að vinna saman alla vikuna. Við viljum hafa fyrirtækið innan fjölskyldunnar og vonum að það gangi upp í framtíðinni, svo þetta getur alveg verið flókið,” segir Gerður.

Happasælt nafn

Nafnið Hrafn Sveinbjarnarson GK 255 hefur lengi fylgt fyrirtækinu. Sigurður Magnússon einn þeirra sem stofnaði fyrirtækið með föður Gerðar hafði keypt skip sem bar þetta nafn. Fyrrum skipstjóri skipsins hét Bjarni Ólafsson og hafði hann það til siðs að fara til kirkju á sunnudögum á Skagann og fór hann á léttabáti í land. Eitt sinn þegar hann var að fara til baka gerði ofsaveður og léttabátnum hvolfdi og hann ferst. Þegar svo Sigurður kaupir skipið fylgdi ósk frá ekkju Bjarna skipstjóra að þeir skiptu ekki um nafn á bátnum. Þeir verða við beiðni hennar og farnaðist skipinu vel allan þann tíma sem það var gert út. Svo hefur verið hefð í fyrirtækinu að alltaf skuli eitt skip bera þetta nafn. Upphaflega skipið var skírt í höfuðið á Hrafni Sveinbjarnarsyni lækni á Hrafnseyri. Skipafloti fyrirtækisins er aðeins að taka breytingum. Línuskipunum hefur fækkað úr fjórum í tvö, svo á fyrirtækið þrjá frystitogara en er að leggja einum og nýlega festi það kaup á ísfisktogara. Með þessu breytum er aðeins breyting á munstrinu í fyrirtækinu. „Við erum með verkun en stöndum í hagræðingum og erum að sameina allt í eitt hús, salfisksverkunina, frystinguna og ferska fiskinn, meðan á því stendur landar ísfisktogarinn á markað en línubátarnir eru ekki enn farnir af stað. Við lögðum þeim og lokuðum verkununum í Covid. Það styttist í að allt fari í fyrra horf. Frystitogararnir hafa haldið sínu striki. Fyrirtækið hefur svo nýlega stofnað sölufyrirtæki á Spáni þangað sem allur saltfiskurinn þeirra fer. Einn úr fjölskyldunni er fluttur þangað og sér um það,“segir Gerður.

Gengur á fjöll og prjónar

Gerður segist fá mikið út úr því að ganga og þá helst á fjöll. Einnig fer hún á skíði með fjölskyldunni og hefur gaman af handavinnu. „Ég og maðurinn minn höfum þekkst alveg frá því við vorum lítil börn. Við vorum saman í bekk allan grunnskólann, alltaf í sama vinahóp, en byrjuðum ekki sem par fyrr en á nítjánda ári og því búin að vera saman í 41 ár. Við förum töluvert á skíði saman og vorum t.d. í Selva á Ítalíu núna þegar covid skall á í fyrra skiptið, öll fjölskyldan saman en engin okkar smitaðist sem betur fer.

„Það er oft ákveðin mýkt sem fylgir sjónarhorni kvenna sem gott er að blanda saman við þau karlægu. Kynslóðirnar sem koma á eftir mér eru allt öðruvísi og gaman að sjá hvað konum er að fjölga í ábyrgðarstöðum í greininni.”

Ég hef gengið mikið á fjöll með vinkonum mínum og farið í göngur í Alpana og til Spánar. Árið 2007 fórum við Jón Emil í fyrstu alvöru gönguna okkar í Ölpunum alveg hrikalega gaman, óðum snjó í 3400 metra hæð og gistum í fjallaskálum. Við gengum frá Sviss til Ítalíu og aftur til baka. Monte Rosa hringinn. Svo tókum ég og vinkona mín þátt í verkefninu 52 fjöll hjá FÍ árið 2012 sem var mjög gaman. Ég hef einnig gaman af handavinnu og er núna að prjóna á yngsta barnabarnið,” segir Gerður og sýnir blaðamanni handprjónaðan fíngerðan prjónakjól sem hún var að enda við að klára.

Vil sjá fleiri konur í ábyrgðarstöðum í sjávarútvegi.

Að sögn Gerðar var henni ekkert hlíft eða gerðar minni kröfur til hennar vegna þess að hún var stelpa en að sjálfsögðu var tíðarandinn annar en hann er núna. Hún segir frá því að móðir hennar hafi séð um öll þrif á verbúðunum tvisvar í viku og stundum hafi hún hjálpað henni. Karlmenn voru við stjórnvölinn í sjávarútveginum á þessum tíma. „Á L.Í.Ú fundum var Guðrún Lárusdóttir í Stálskipum eina konan innan um alla karlana, ég byrja að sitja aðalfundina 1999 þá var þetta svona, en upp úr því fóru fleiri konur að sitja aðalfundina. Bræður mínir reka fyrirtækið, en ég hef lengi unnið í því bæði sem gjaldkeri og bókari og tek að sjálfsögðu margar ákvarðanir með þeim. Það er því miður engin stelpa í barnahópi okkar systkina sem eigum Þorbjörn í dag,en næsta kynslóð, sú fjórða, kemur sterk inn með kvenskörunga. Núna eru tvær konur starfandi sem verkstjórar hjá okkur en að sjálfsögðu hefur karlaveldið loðað við sjávarútveginn í gegnum tíðina hjá okkur eins og annars staðar en núna er það að breytast finnst mér,” segir Gerður. Að hennar mati er heilbrigðara samfélag þar sem bæði sjónarmið kynjanna fá að njóta sín og á það við sjávarútveginn eins og annars staðar í þjóðfélaginu. „Það er oft ákveðin mýkt sem fylgir sjónarhorni kvenna sem gott er að blanda saman við þau karlægu. Kynslóðirnar sem koma á eftir mér eru allt öðruvísi og gaman að sjá hvað konum er að fjölga í ábyrgðarstöðum í greininni.”