6 minute read

Meira en veiðar og vinnsla

Sjávarútvegurinn þarf fjölbreytta þjónustu á fleiri sviðum en veiðum og vinnslu. Þórdís Úlfarsdóttir stýrir rótgrónu útibúi Íslandsbanka í Vestmannaeyjum sem hefur sinnt útgerðinni í yfir 100 ár.

Þórdís Úlfarsdóttir, útibússtjóri Íslandsbanka í Vestmannaeyjum.

Síðustu sex ár hefur Þórdís Úlfarsdóttir starfað sem útibússtjóri Íslandsbanka í Vestmanneyjum en bankinn er stærsti þjónustuaðili sjávarútvegsins á svæðinu þegar kemur að fjármálum. Hún hafði áður starfað í bankageiranum í yfir 30 ár meðal annars sem útibússtjóri Kaupþings í Mosfellsbæ og á Selfossi ásamt því að stýra eignaumsýslufélagi Arion banka í nokkur ár.

Þórdís er Reykvíkingur í húð og hár en eiginmaðurinn Guðni Ingvar Guðnason er Eyjamaður, sem starfar hjá Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum. „Ég sá starfið sem útibússtjóri sem kjörið tækifæri til að nýta mína starfsreynslu og setjast að í Eyjum,“ segir Þórdís. „Ég kem inn í rótgróið umhverfi en útibúið varð 100 ára í fyrra. Hér var fyrir úrvalsfólk með mikla reynslu sem tók vel á móti mér. Það var því ánægjulegt fyrir mig að geta komið á æskuslóðir eiginmannsins og tekið að mér þetta spennandi starf.“

Sterkt samfélag

Þórdís er fyrsta konan sem gegnir stöðu útibússtjóra Íslandsbanka í Vestmanneyjum. Hún hefur ekki fundið neitt nema velvilja og góða samvinnu við alla í bænum. Góð tengsl skipta miklu máli. Henni þótti sérlega vænt um það að gömlu fastagestirnir, margir hverjir gamlir sjómenn og útgerðarmenn, héldu áfram að koma við í útibúinu til þess fá sér kaffi og spjalla. „Hann Beddi heitinn á Glófaxa - Bergvin Oddsson, skipstjóri og útgerðarmaður - heimsótti mig oft og við áttum alltaf gott spjall,“ segir hún. „Ég hafði auðvitað smá forskot í því að vera tengd inn í samfélagið áður en ég byrjaði þannig að þeir vissu nú hvert mitt fólk hér var. Kosturinn er að hér eru boðleiðirnar stuttar og samskiptin persónuleg og gefandi.“

„Hann Beddi heitinn á Glófaxa – Bergvin Oddsson, skipstjóri og útgerðarmaður – heimsótti mig oft og við áttum alltaf gott spjall.“

Fjölskyldan á góðri stund 2019 (börn, tengdabörn og barnabörn) á myndina vantar sjötta barnabarnið sem er nýfætt.

Persónuleg þjónusta í nærumhverfinu

„Sjávarútvegurinn og Íslandsbanki sem arftaki Útvegsbankans hafa haft mjög sterk tengsl í gegnum tíðina og öll stærstu sjávarútvegsfyrirtækin í Eyjum eru í viðskiptum við okkur,“ segir Þórdís. „Við erum að þjónusta þau á alla lund og það skiptir máli að vera með þessa þjónustu í nærumhverfinu þó að margt sé breytt í dag og stærstu ákvarðanirnar séu teknar annarstaðar. En þó að útibúin séu ekki lengur þessar stofnanir sem þau voru í bæjarfélögunum þá skiptir persónuleg nálgun heima í héraði enn miklu.“

Aflakló með Árdísunum

Þórdís hefur sjálf gaman að því að veiða þó að hún stundi ekki stórútgerð frá Vestmannaeyjum. Hún lætur sér nægja veiðiklúbbinn Árdísi sem í eru yfir sextíu konur. Klúbburinn heitir fullu nafni Útgerðarfélagið Árdís og heldur úti öflugu félagsstarfi. „Ég byrjaði í veiðiklúbbnum árið 2004 og hef farið í skemmtilegar veiðiferðir með þeim,“ segir hún. „Þar á ég margar veiðisystur en ég komst því miður ekkert með þeim í sumar en það er alltaf eitthvað spennandi að gerast sem ég get látið mig hlakka til.“

„Ég byrjaði í veiðiklúbbnum Árdís árið 2004 og hef farið í skemmtilegar veiðiferðir með þeim.“

Breytt bankastarfsemi

Sjálfvirknivæðingin í bankageirinn hefur breytt ásýnd bankaþjónustunnar og hlutverki útibúanna. Viðskiptavinir Þórdísar hafa nýtt sér tæknina í eigin þágu í aukni mæli eftir að aðstæður í samfélaginu breyttust vegna Covid faraldursins. Stafræn þjónusta jókst, netsamskipti urðu sjálfsagðari og netfundir algengari. „Sem betur fer var þessi stafræna vegferð hafin og fólk orðið vant því að geta sinnt þessum hefðbundum bankaerindum í gegnum netið og á sínum eigin forsendum,“ segir Þórdís. „Þetta er orðið svolítið einfaldara í dag en þegar að sjómenn þurftu að vera í sambandi í gegnum radío eins og í denn. Allir hafa auðveldari aðgang að sínum banka í dag í gegnum netið. Sjómenn geta framkvæmt sín bankaviðskipti úti á sjó og þannig afgreitt flest sín mál sjálfir.“ Hún sér þessa þróun halda áfram og að ráðgjöf mun koma meira inn fyrir flóknari verkefni á meðan að einstaklingar haldi áfram að afgreiða sig sjálfir í einföldustu málum. Hún sér þó persónulega þjónustu ekki

Á siglingu við Vestmannaeyjar

„Sem betur fer var þessi stafræna vegferð hafin og fólk orðið vant því að geta sinnt þessum hefðbundum bankaerindum í gegnum netið og á sínum eigin forsendum.“

hverfa heldur breytast í það að fólk hafi aðgang að sértækri ráðgjöf í stærri málum eins og lánamálum eða fasteignamálum svo dæmi séu

tekin.

„Sjávarútvegurinn er meira en bara veiðar og vinnsla. Það er gríðarlega stórt svið tækni og þjónustu sem tengist sjávarútveginum. Það eru tækifæri fyrir konur á öllum þessum sviðum.“

Úr veiðiferð með Árdísum í Vatnsdalsá.

Uppbygging í Eyjum

Í kjölfar rafrænnar afgreiðslu hafa margir bankar lokað útibúum sínum víðsvegar um landið en staðan er önnur í Eyjum. Landsbankinn er með útibú á staðnum, Íslandbanki er með góða markaðsstöðu og mun bráðlega flytja í nýtt húsnæði við höfnina. Útibúið verður staðsett á svokölluðum Ísfélagsreit að Strandvegi 26 en þar standa yfir framkvæmdir á nýju íbúða- og þjónustuhúsnæði sem reist er á grunni eldri bygginga sem tilheyrðu Ísfélagi Vestmanneyja. „Við erum spennt að flytja okkur um set og taka þátt í þeirri uppbyggingu sem á sér stað á svæðinu,“ segir Þórdís. „Okkar markmið er að veita framúrskarandi bankaþjónustu og við hlökkum til að taka á móti viðskiptavinum í nýju húsnæðinu sem verður sérsniðið að okkar starfsemi.“

Sóknarfæri fyrir konur í sjávarútvegi

Sjávarútvegurinn er mikilvægasta atvinnugreinin í Vestmannaeyjum og Þórdís hefur mikinn áhuga á því að styrkja konur í greininni. „Sjávarútvegurinn er meira en bara veiðar og vinnsla. Það er gríðarlega stórt svið tækni og þjónustu sem tengist sjávarútveginum,“ segir Þórdís. „Það eru tækifæri fyrir konur á öllum þessum sviðum eins og í fjármögnun, fjármálaumsýsla, hugbúnaði, inn- og útflutningi, og markaðs- og sölustarfsemi svo ekki sé talað um tækni og nýsköpun í allri virðiskeðjunni.“

Hún telur mikilvægt að þétta tengslanet kvenna í greininni þannig að þær geti nýtt hæfileika sína og menntun sem best. „Ég gekk í félag kvenna í sjávarútvegi KIS og var í stjórn þar í tvö ár,“ útskýrir Þórdís. „Þetta er kraftmikill félagskapur sem styrkir konur í þessum geira. Svona félagskapur gerir okkur kleift að miðla reynslu okkar á milli og styðja hvor aðra.“ Íslandsbanki er bakhjarl félagsins og er það hluti af samfélagslegri ábyrgð bankans að styðja við jafnréttismál í ólíkum atvinnugreinum og í leiðinni stuðla að jákvæðri samfélagsþróun.

Á mótorhjóli um Evrópu

Fyrir utan að veiða hefur Þórdís unun af því að ferðast, bæði innanlands og utan, og hefur t.d. ferðast um Evrópu á mótorhjóli með manni sínum. „Við höfum farið á hjólinu um Evrópu og er það sérstaklega skemmtilegur ferðamáti, þar sem maður sér landið og upplifir það allt öðru vísi en í hefðbundnari ferðum,“ segir Þórdís. „Ég er samt ekki enn komin með mótorhjólapróf, læt mér nægja að sitja aftan á og horfa á landslagið þjóta hjá. Þetta er hressandi tilbreyting frá daglega lífinu og gefur okkur tækifæri til að upplifa nýja hluti saman.“

Úr hringiðu fjármála í kyrrðina á Sri Lanka

Þórdís reynir að sinna sjálfri sér vel og hefur farið í endurnærandi jógaferðir til Sri Lanka sem er allt önnur upplifun en að þeysast um á mótorhjóli um þjóðvegi Evrópu. „Það var mjög áhugavert að koma til Sri Lanka,“ segir Þórdís. „Guðrún Jóhanna veiðifélagi minn úr Árdísunum hafði verið að fara þangað og einn daginn gekk hún að mér og sagði bara; „Tóta þú ert að fara að koma með mér þangað.‘ Þetta var alveg óvænt. Ég sló til og sé ekki eftir því. Við fórum saman sjö konur á heilsusetur við Rekawa Beach fyrra árið og svo vorum við fjórtán árið eftir. Þarna áttum við dásamlega daga í slökun, Ayurveda meðferðum, jóga og heilsusamlegu umhverfi.“

Það er ljóst að Þórdís er kraftmikil kona sem stýrir sterku bankaútibúi sem sinnir útgerðinni í Vestmannaeyjum af einurð. Sem félagsvera og fyrirmynd nær hún að blanda saman ólíkum þáttum í lífi sínu þannig að það er jafnvægi milli vinnu, áhugamála og sjálfsræktar.