1 minute read

Mikilvægi Mannréttindastofnunar

Daníel E. Arnarson framkvæmdastjóri Samtakanna ’78, 3. sæti á lista Vinstri grænna í Reykjavíkurkjördæmi Suður

Við Vinstri græn höfum frá stofnun látið okkur mannréttindi varða. Ekki aðeins að berjast fyrir mannréttindum minnihlutahópa, heldur höfum við einnig lagt ríka áherslu að koma mannréttindum og jafnréttismálum fyrir innan hins opinbera kerfis; búa þeim stað, hefja vinnu við stefnumótun og sinna alþjóðlegum skuldbindingum.

Advertisement

Mannréttindi eru fyrir mörgum flókið hugtak. Hvað eru mannréttindi? Hægt væri að spyrja þrjár mismunandi manneskjur og svörin yrðu ólík. Í grunninn er mannréttindum þó gjarnan skipt í þrjá flokka; Siðferðislegur skilningur, pólitískur skilningur og lagalegur skilningur. Eins og Mannréttindaskrifstofa Íslands segir þá eru mannréttindi: “réttindi sem okkur eru nauðsynleg til að lifa sem manneskjur.”

Siðferðislegur skilningur mannréttinda snýr að því að allar manneskjur hafa réttindi óháð staðbundnum kringumstæðum eins og samfélagsgerð eða efnahag. Af þessum sökum má ætla að mannréttindi og jöfnuður séu systurhugtök. Því mætti ætla að mannréttindum sé náð í jöfnum samfélögum og að í jöfnum samfélögum sé auðveldara að ná fram mannréttindum.

Til að tryggja mannréttindi okkar allra þá þarf að huga að ólíkum hópum sem byggja samfélagið. Til dæmis eru sérstök lög sem vernda ákveðna hópa, veita þeim réttindi og viðurkenningu ásamt því að skýrt bann er við því að beita þann hóp ofbeldi eða oflæti. Þetta eru t.d. lög um réttindi fatlaðs fólks og réttindi hinsegin fólks svo dæmi séu nefnd.

Þrátt fyrir lagasetningu þarf að gæta að þessum hópum því að lagasetningar koma ekki í veg fyrir misrétti að fullu. Á Íslandi hefur Mannréttindaskrifstofa Íslands, sem eru félagasamtök, verið einna ötulust í að þrýsta á stjórnvöld að framfylgja lögum, alþjóðaskuldbindingum og fræða um mannréttindi og veita ráðgjöf. Þessi mikilvæga þjónusta á þó mun betur heima undir ríkinu sjálfu með sérstakri og sjálfstæðri Mannréttindastofnun. þar væri hægt að tryggja henni nægilega fjármagn, ásamt því að vigt stofnunarinnar í alþjóðasamhengi væri mun meiri en hjá félagasamtökum.

Þessi stofnun gæti því tryggt að löggjafarvaldið sé á tánum og í stakk búið að beita sér frekar fyrir lagasetningu til að tryggja mannréttindi ólíkra hópa. Einnig myndi þessi sama stofnun vinna náið með framkvæmdarvaldinu og dómsvaldinu. Stofnunin myndi því hafa mikið vægi í allri lagasetningu og framfylgd þeirra.

Það er samfélögum í hag að tryggja öllum íbúum fullnægjandi réttindi. Með stofnun Mannréttindastofnunar munum við stíga stór skref í átt að betra samfélagi og í átt að tryggari mannréttindum fyrir okkur öll.

This article is from: