3 minute read

Hvammsvirkjun

Pálína Axelsdóttir sérkennslustjóri á leikskóla með MA í félagssálfræði , 9. sæti á lista Vinstri grænna í Suðurkjördæmi

Ég er alin upp í fallegri sveit þar sem er fögur fjallasýn, blómlegt landbúnaðarsamfélag og oft gott veður. Þar er gott að vera. En skuggi hefur hangið yfir samfélaginu heima í hálfa öld. Stór hluti heimamanna hafa í fimmtíu ár barist fyrir landið sitt. Upp úr 1970 fóru hugmyndir um Norðlingaölduveitu að heyrast. Heimamönnum leist ekki á blikuna, stóðu upp og hófu baráttu sem átti eftir að erfast milli kynslóða. Sú barátta varð löng og erfið en að lokum var sigur unninn þegar friðlandið í Þjórsárverum var stækkað haustið 2017. Áður en að sú barátta vannst, hófst sú næsta. Í kringum aldamótin fór að bera á virkjana-hugmyndum í neðri hluta Þjórsár. Þessar virkjanir eru fyrirhugaðar í byggð. Hvammsvirkjun áður kölluð Núpsvirkjun er í miðri sveit.

Advertisement

Rökin gegn Hvammsvirkjun eru ótal mörg, en til að stikla á stóru má fyrst nefna þau áhrif sem fyrirhugað lón hefur á landið sem verður undir því og kringum það. Það eru óafturkræf áhrif þar sem gróið land og áreyrar fara undir jökulvatn. Vistkerfið við ána og í ánni munu skaðast. Gróið land er auðlind sem við vinnum hart að því að endurheimta og vernda, en á sama tíma eru áform um að sökkva því og eyða. Þá er ekki talið það land sem færi undir haugasvæði, vegi og skurði. Landið fyrir neðan stíflu verður stundum undir vatni og stundum ekki sem mun leiða af sér fok og frekari jarðvegseyðingu. Einu sinni sagði háttsettur starfsmaður Landsvirkjunar mér að fyrirtækið ætlaði að græða þetta land upp. Það er ekki víst að það sé raunhæfur kostur að græða upp land sem er stundum á kafi og stundum ekki.

Það er ýmislegt við undirbúning Hvammsvirkjunar sem er ábótavant. Í fyrsta lagi er stærstur hluti umhverfismatsins frá árinu 2004. Það gæti fengið bílpróf í ár ef það væri manneskja. Forsendur hafa breyst á þessum árum, bæði hugsunarháttur og gildismat þjóðarinnar. Auk þess er upprunalega umhverfismatið mjög ábótavant, til dæmis var lífríki á eyjunum í Þjórsá ekkert rannsakað. Árið 2015 voru nokkrir þættir viðbótar metnir og komst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu að áhrif Hvammsvirkjunar á ferðamennsku yrði líklega neikvæð og að Hvammsvirkjun myndi hafa neikvæð áhrif á ásýnd lands.

Samfélagsleg áhrif virkjana í neðri hluta Þjórsár hafa aldrei verið metin. Ef hafa á sjálfbæra þróun að leiðarljósi, verður að rannsaka áhrif á samfélagið, enda eru þau ein af stoðum sjálfbærrar þróunar. Sem íbúi í þeirri sveit sem Hvammsvirkjun snertir mest þá veit ég að hún hefur nú þegar haft mjög neikvæð áhrif á nærsamfélagið. Landsvirkjun stærir sig af því að eitt af grundvallarmarkmiðum samfélagslegrar ábyrgðar þeirra sé að stuðla að sjálfbærri þróun í íslensku samfélagi. En á sama tíma hefur fyrirtækið haft óbætanleg áhrif á samfélag manna í þessari litlu sveit á Suðurlandi síðustu 50 ár. Það hefur veruleg áhrif á andlega heilsu og líðan að hafa þessar hugmyndir hangandi yfir sér. Fólkið sem hefur barist gegn virkjununum í Þjórsá árum saman gerir það því þetta skiptir það raunverulegu máli. Okkur þykir vænt um sveitina og það gengur gegn gildismati okkar að skemma lífríki og landslag hennar.

Við framleiðum mikið rafmagn á Íslandi. Í dag er meira rafmagn á raforkukerfinu en er nýtt. Forstjóri Orkuveitunnar Bjarni Bjarnason hefur oft bent á það að við þurfum ekki að virkja meira þó við rafvæðum 100 þúsund bíla. Samt hefur rafbílavæðingin verið notuð af forstjóra Landsvirkjunar til að réttlæta Hvammsvirkjun. Fram kemur í fjórða áfanga rammaáætlunar að með því að stækka virkjanir við Vatnsfell, í Hrauneyjum og Sigöldu sé hægt að sækja 210 MW. Þessar virkjanir eru í orkunýtingarflokki rammaáætlunar. Það eru rúmlega tvær Hvammsvirkjanir.

Í félagssálfræði er til hugtakið sokkinn kostnaður. Sokkinn kostnaður er hugsannavilla sem við gerumst oft sek um við ákvarðanatöku. Mannfólkið hefur tilhneigingu til þess að meta ákvarðanir út frá t.d. tíma og fjármunum sem hafa farið í eitthvað en auðvitað á að taka ákvarðanir út frá þeim afleiðingum sem þær koma til með að hafa í framtíðinni. Oft hefur því verið fleygt fram að Hvammsvirkjun hafi verið lengi í undirbúningi og því væri sóun á tíma og peningum ef hún yrði ekki að veruleika. Þessi röksemdafærsla er gott dæmi um sokkinn kostnað. Auðvitað á fyrst og fremst að meta Hvammsvirkjun út frá því hvaða afleiðingar hún hefur á náttúru og samfélag ef af henni verður.

45

This article is from: