4 minute read

Stöndum öll saman

Helga Margrét Jóhannesdóttir hjúkrunarfræðingur og meistaranemi í heilbrigðisvísindum, 6. sæti á lista Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi

Fólk sem glímir við fíknivanda hefur verið jaðarsett í samfélaginu okkar. Glæpavæðing fíkniefnaneyslu stuðlar að því að litið er á þennan hóp sem afbrotamenn fremur en einstaklinga sem eiga við sjúkdóm að etja. Viðhorf er ríkjandi um að fíkniefnaneytendur geti hætt neyslu ef viljinn er nógu mikill og mikil áhersla er lögð á að hægt sé að fyrirbyggja fíkniefnaneyslu að mestu í samfélaginu okkar með boðum og bönnum. Þessar rökvillur valda fordómum í garð þeirra sem stríða við vandann og stuðla að því að þau njóta minni virðingar en aðrir í samfélaginu. Eins virðist gleymast að fíknisjúkdómar fara ekki í manngreinarálit og ómögulegt er að segja hver er næstur og hvort hann stendur lesanda nærri.

Advertisement

Við sem störfum í heilbrigðisgeiranum verðum vitni að því að einstaklingar sem eiga við fíknivanda að stríða verða fyrir fordómum og er sýnd vanvirðing þegar þau leita heilbrigðisþjónustu; upp að því marki að ástæða komu er afgreidd sem sjálfskaparvíti og að þau fá sökum þess ekki þá þjónustu sem þau þarfnast og eiga rétt á. Sjaldan er tekið tillit til að þessi hópur er útsettari fyrir því að verða fyrir ofbeldi; líkamlegu, andlegu og kynferðislegu. Sýnt hefur verið fram á að þau sem hafa orðið fyrir einhverskonar áfalli eiga oft fleiri komur á heilbrigðisstofnun eða aðrir án þess þó að minnast endilega á áfallið. Í stað þess að mæta auknum skilningi og fá áfallamiðaða nálgun er oft búið að ákveða fyrirfram að þangað sé manneskjan mætt til þess eins að „betla lyf“, eins og það er gjarnan orðað.

Þetta þarf að líta alvarlegum augum og breyta. Slík framkoma er brot á mannréttindum því öll eiga að hafa sama rétt til heilbrigðisþjónustu óháð stétt og stöðu. Þetta stuðlar jafnframt að því að fólk í þessari stöðu fer að veigra sér við að leita heilbrigðisþjónustu þegar það þarf á henni að halda. Það getur orðið til þess að heilbrigðisvandinn verði mun umfangsmeiri og jafnvel ómeðhöndlanlegur þegar þjónustu er loks leitað. Í verstu tilfellum lifa einstaklingar ekki veikindi sín eða ofbeldi af.

Hvað þarf að gera?

Fyrst og fremst þarf viðhorf til þeirra sem eiga við fíknivanda að stríða að breytast. Skref í rétta átt væri að afglæpavæða neysluskammta svo hætt verði að líta á neytendur sem afbrotamenn. Afglæpavæðing neysluskammta gæti einnig leitt til þess að auðveldara reyndist að nálgast þennan hóp og veita þá þjónustu sem þau þarfnast áður en það er of seint.

Viðhafa þarf skaðaminnkandi nálgun í auknum mæli og viðurkenna að þau sem glíma við vímuefnavanda eru ekki alltaf tilbúin til að hætta neyslu á gefnum tíma. Fyrir því geta verið margar ástæður. Skaðaminnkandi nálgun miðar að því að mæta einstaklingum þar sem þeir eru staddir, virða sjálfsákvörðunarrétt þeirra og sýna fólki virðingu, skilning og samhygð. Þessi hugmyndafræði miðar að því að draga úr þeirri áhættu og skaða sem getur hlotist af fíkniefnaneyslu í stað þess að reyna að fyrirbyggja hana. Markmiðið er að bæta lífsgæði og heilsu fólks og hjálpa

því að taka lítil skref í rétta átt sé vilji og geta fyrir hendi. Einn liður í að innleiða skaðaminnkandi nálgun væri að opna neyslurými víða um land þar sem þau sem eiga við fíknivanda að stríða geti notað fíkniefni í hreinu og öruggu umhverfi undir eftirliti fagaðila.

Þrátt fyrir að þróun hafi verið í rétta átt undanfarin ár m.a. með frumvarpi Svandísar Svavarsdóttur um neyslurými og lögleiðingu neysluskammta er enn mjög langt í land. Við í Vinstrihreyfingunni - grænu framboði viljum keyra þessi mál áfram af fullum krafti á komandi kjörtímabili þar til öryggi þessa hóps hefur verið tryggt eins og auðið er um land allt.

Stöndum saman

Þau sem hafa legið andvaka og velt vöngum yfir því hvort barnið sitt, systkini eða foreldri sé lífs eða liðið, sé öruggt og hafi skjól vita hversu áríðandi er að grípa til aðgerða. Hins vegar gæti öðrum reynst auðvelt að fjarlægja sig vandanum, sitjandi í hlýju herbergi, í mjúkum sófa að lesa þessa grein í 150.000 króna síma með alla fjölskylduna í kringum sig í öruggu skjóli. Það breytir ekki þeirri staðreynd að það er fólk í samfélaginu okkar sem fær ekki þá heilbrigðisþjónustu sem það á rétt á, hópur fólks sem er komið fram við sem glæpamenn sökum veikinda þess, hópur fólks sem hefur engra annarra kosta völ en að leita til einstaklinga sem beita þau ofbeldi til að geta stundað neyslu sína, hópur fólks sem hefur ekki öruggan stað til að sofa á nóttunni. Þetta má ekki líðast lengur í íslensku velferðarríki. Við verðum að hætta að snúa baki við þessum harða, sára raunveruleika og standa saman og berjast fyrir réttlátu samfélagi.

Unglingurinn Bjarni

Hver var uppáhalds hljómsveitin? Talking Heads, Eurythmics og Þursaflokkurinn.

Hvert var þitt frægðarskot? Sophia Lauren! .... !

Varstu vandræðagemsi? Nei, alls ekki! Ég var mjög prúður og alltof ábyrgðarfullur!

Hvernig eyddir þú sumrunum? Útí náttúrunni, var alltaf eitthvað að baxa og kanna, það voru ekki margir leikfélagar í Bjarnarhöfn en margt að skoða og upplifa.

Hvert var helsta áhugamálið þitt? Að vera úti í náttúrunni að njóta hennar með mínu besta fólki.

This article is from: