2 minute read

Fátækir námsmenn

Arnar Evgení Doktorsnemi í heilbrigðisverkfræði, 7. sæti á lista Vinstri grænna í Reykjavíkurkjördæmi norður

Ungmenni eru oft og tíðum spennt að flytja út frá foreldrum og upplifa það frelsi sem fylgir því að standa á eigin fótum. Flest gera sér þó ekki grein fyrir því hvað það getur í raun verið erfitt, sérstaklega fyrir námsmenn. Ef einstaklingur er heppinn getur leigukostnaður verið um 100.000 krónur með hita, rafmagni og neti. Svo þarf að gera ráð fyrir öðrum útgjöldum og að námsmenn þurfa að næra sig eins og aðrir. Því er algengara að útgjöld séu mun hærri en svo.

Advertisement

Námslán frá LÍN eru ekki nægilega há til að framfleyta námsmönnum nema í undantekningar tilfellum; þá þegar heppnin hefur verið með námsmönnum á húsnæðismarkaði. Flestir þurfa á auka tekjum að halda og ráða sig því í vinnu samhliða skóla til að koma sér í gegnum önnina. Þeir sem hafa verið í þeirri stöðu geta staðfest að álagið sem því fylgir getur valdið mikilli streitu. Háskólanám er meira en fullt starf og stór hluti frítíma er gjarnan nýttur í verkefnavinnu og annan lærdóm. Þá er þungur baggi þegar nýta á þann litla frítíma sem eftir er í vinnu.

Þannig geta þau ár sem maður er fátækur námsmaður einkennst af mikilli streitu, litlum peningum og of litlum frítíma. Þessir áhrifaþættir geta verið þess valdandi að nemandi brotnar undan álagi og jafnvel fellur í áfanga. Það getur valdið því að stór hluti námslána glatast þar sem námslán eru einingabundin, sem eykur síðan enn meir á streitu. Þessi vítahringur tekur á andlega og leiðir oft til mikils vonleysis. Ef námsmenn gætu einbeitt sér að náminu eingöngu eru meiri líkur á að þeir næðu að ljúka námi sínu en ella með þeim samfélagslega ávinningi sem því fylgir.

En hver er þá lausnin við þessu vandamáli?

Til að leita lausna má líta til Danmerkur. Þar er litið á námsmenn sem fjárfestingu. Danskir námsmenn fá tæpar 100.000 krónur á mánuði í styrk frá ríkinu fyrir að vera í námi og geta jafnframt fengið námslán ofan á það, sirka 60.000 mánaðarlega. Þessi upphæð er oftast nóg til að dekka leigu og önnur útgjöld. Þar með eru danskir námsmenn undir mun minna andlegu álagi en námsmenn hérlendis og geta einbeitt sér að náminu að fullu. Þeir hafa meiri tíma til að læra þar sem þeir þurfa ekki að vinna samhliða námi sem hefur augljósa kostið í för með sér.

Mörgum þætti kannski full mikil bjartsýni að ætla að hægt sé að koma svipuðu fyrirkomulagi á hérlendis en undirritaður sér lausnir fremur en hindranir í þeim efnum. Óneitanlega myndi breytingin hafa mikinn kostnað í för með sér. Þá er mikilvægt að við lítum á námsmenn sem fjárfestingu sem mun skila miklum verðmætum í samfélagið okkar þegar fram líða stundir.

This article is from: