1 minute read

Stuðningshópar og þjónusta SKB

Nokkrir hópar eru starfandi á vegum SKB, bæði jafningjahópar og hópar undir faglegri leiðsögn. Góð hefð er komin á starfsemi þeirra flestra og eru þeir grunnurinn í félagsstarfinu og þeirri tengingu sem myndast á milli fólks, sem á þessa reynslu sameiginlega, að vera með eða hafa verið með krabbamein, eiga eða hafa átt barn eða systkini með krabbamein.

Unglingahópur SKB hittist reglulega, ýmist í félagsaðstöðu SKB í Hlíðasmára eða úti í bæ, eftir því hvað er á dagskrá hverju sinni. Hópurinn fer t.d. í bíó eða keilu, hittist í Hlíðasmára og pantar eða útbýr pizzur, fær til sín gesti í gott spjall, fer í skíðaferðir, skoðunarferðir og óvissuferðir, svo eitthvað sé nefnt. Þeir sem hittast í unglingahópnum eru fyrst og fremst krakkar sem hafa greinst með krabbamein og eru á aldrinum 13-18 ára. Systkini þeirra á sama aldri hafa líka verið velkomin að taka þátt í starfi hópsins. Hópurinn er með Facebook-síðu: USK – Unglingahópur SKB.

Advertisement

Pabbahópur hittist að kvöldi fyrsta þriðjudag hvers mánaðar í Hlíðasmára undir faglegri umsjón Björns Harðarsonar, félagsmanns í SKB og sálfræðings. Pabbahópur sem hóf starfsemi fyrir tæpum áratug varð skammlífur en vegna mikillar eftirspurnar meðal feðra með nýgreind börn á síðustu misserum var ákveðið að gera aðra tilraun og nú er komin góð reynsla á hópinn.

Allir pabbar í félaginu eru velkomnir í hópinn en þeir sem eru með nýgreind börn eru sérstaklega hvattir til að nýta sér þann jafningjastuðning og faglegu leiðsögn sem þar er að fá. Björn heldur utan um hópinn á Facebook-síðunni Pabbahópur SKB.

Mömmuhópur SKB hefur starfað um árabil og þar hafa mömmur barna sem eru í eða eru búin í krabbameinsmeðferð hist og deilt reynslu sinni og haft stuðning hver af annarri. Hópurinn hittist fyrsta miðvikudagskvöld í mánuði í Hlíðasmára, fær sér eitthvert góðgæti og spjallar um allt á milli himins og jarðar, bæði það sem tengist meðferð og fylgikvillum, og það sem gerir það ekki. Oft er mikið hlegið og lengi setið. Umsjón með hittingunum í Hlíðasmára hafa Louisa Sif Mönster, Guðrún Guðmundsdóttir og Katrín Eyjólfsdóttir. Haldið er utan um hópinn á Facebook-síðunni Mömmuhópur SKB.

Mömmur nýgreindra barna í SKB hittast líka einu sinni í mánuði. Louisa Sif Mönster iðjuþjálfi og félagsmaður leiðir umræðurnar í hópnum. Þar geta mömmur rætt líðan sína í trúnaði við hver við aðra, undir leiðsögn. Haldið er utan um hópinn á Facebook-síðunni Nýjar mömmur í SKB.

Angi er hópur foreldra innan SKB sem misst hafa börn sín úr krabbameini. Hópurinn hittist í aðdraganda hverrar aðventu og gerir skreytingar á leiði barna sinna. Undanfarin ár hefur hópurinn átt athvarf á vinnustöðum sr. Öddu Steinu Björnsdóttur félagsmanns, fyrst í Hjallakirkju og síðan Neskirkju.