3 minute read

Ávarp forseta Stúdentaráðs

Það fylgir því mikið álag að vera í háskóla. Flest erum við alltaf eitthvað að flýta okkur, mæta einhvert, klára eitthvað, skila einhverju og svo tekur bara við næsta törn, næsta verkefni. Stanslaus lærdómur og lestur, hópverkefni, ritgerðaskrif og lokapróf. Ofan á þetta bætist svo vinna, en Íslendingar eiga Evrópumetið í stúdentum sem vinna meðfram námi svo er það auðvitað allt hitt sem fylgir því að vera manneskja - að sinna fjölskyldu og vinum, áhugamálum, félagsstörfum og hreyfingu. Þetta daglega amstur verður stundum svo mikið að ,,núvitundin” gengur fulllangt - það gefst ekki tími til þess að hugsa út í það hvað tekur svo við, hvað framtíðin beri eiginlega í skauti sér.

Í starfi mínu sem forseti Stúdentaráðs hef ég hugsað mikið um framtíðina, enda er hagsmunabarátta stúdenta dagsins í dag ekki aðeins fyrir þau sem eru í skóla núna heldur einnig fyrir stúdenta framtíðarinnar. Í þessu blaði er umfjöllunarefnið einmitt framtíðin. Minn draumur er sá að í náinni framtíð verði dagur í lífi hins almenna stúdents ekki eins annasamur og lýsingin hér að ofan. Að stúdentar fái tíma og frið til þess að vera fyrst og fremst í námi, enda er það full vinna. Að stúdentar geti hvílt sig á kvöldin og um helgar, hitt fjölskyldu og vini, sinnt áhugamálum og hreyfingu. Þetta er alls ekkert óraunhæfur draumur,

Advertisement

slíkt kerfi er til staðar á hinum Norðurlöndunum, en til þess að hann geti orðið að veruleika verða stjórnvöld að girða sig í brók - og akkúrat núna er tækifærið!

Við stöndum nefnilega á tímamótum í stórum málaflokkum sem varða stöðu stúdenta til framtíðar, framtíð háskólamenntunar og þar með framtíð samfélagsins alls. Núna stendur yfir endurskoðun á lögum um Menntasjóð námsmanna í ráðuneytinu og höfum við í Stúdentaráði í samstarfi við Landssamtök íslenskra stúdenta haldið á lofti háværum kröfum um bættan lánasjóð. Staðreyndin er nefnilega sú að þrátt fyrir að nýtt kerfi hafi verið sett á laggirnar árið 2020, búa stúdentar á Íslandi enn í grundvallaratriðum við ófullnægjandi stuðningskerfi. Hvatakerfið sem búa átti til með Menntasjóði námsmanna gengur ekki upp, það er ekki hægt að lifa af framfærslunni einni saman og þess vegna þurfa stúdentar að vinna með námi, sem leiðir svo til þess að lánið skerðist og fólk lendir í vítahring vinnu og námslána. Vextir á lánunum eru alltof háir og breyta þarf niðurfellingunum á höfuðstóli við lok náms þannig að styrkurinn nýtist örugglega þeim sem mest þurfa á honum að halda.

Svona mætti lengi telja áfram, og er því gríðarlega mikilvægt að þessi endurskoðun verði nýtt í að gera breytingar þannig að stúdentar framtíðarinnar hafi það betra en stúdentar dagsins í dag. Erfitt efnahagsástand gerir þessa baráttu stúdenta snúnari en á sama tíma enn mikilvægari. Það er hætta á því að stúdentar verði eftir á tímum sem þessum og þess vegna er öflug hagsmunabarátta stúdenta með jafnrétti til náms að leiðarljósi gríðarlega mikilvæg. Ég hlakka til að fylgjast með nýju fólki taka við keflinu í Stúdentaráði og halda þessari mikilvægu baráttu áfram - fyrir stúdenta dagsins í dag sem og framtíðarstúdenta.

—Rebekka Karlsdóttir (hún/hennar) Forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands 2022 – 2023