2 minute read

Ávarp ritstýru

Kæru stúdentar,

Annað skólaár er á enda og sumarið er formlega gengið í garð (til alþjóðanema: sumar er hugarástand á þessu skeri). Í vetur hvöttum við nemendur skólans til þess að senda inn efni, þar sem Stúdentablaðið er málgagn okkar allra og hefur verið vettvangur fyrir raddir stúdenta í næstum 100 ár. Viðbrögðin létu ekki á sér standa, og ég vil þakka öllum þeim sem sendu inn efni kærlega fyrir framlög sín. Þetta fjórða og síðasta tölublað hefur yfirskriftina Framtíð, sem stúdentar túlkuðu á fjölbreyttan og víðtækan hátt - hér er að finna skapandi örsögur í anda vísindaskáldskapar, hárbeittar greinar sem snerta á samfélagslegum áskorunum og alls kyns hugvekjur um nálæga og fjarlæga framtíð.

Advertisement

Við lifum á umbrotatímum sem einkennast af mikilli óvissu og áskorunum sem kunna stundum að virðast óyfirstíganlegar. Loftslagsbreytingar, félagslegur ójöfnuður og stjórnmálalegt umrót eru áberandi vandamál sem steðja að okkur, og á tímum ótakmarkaðra upplýsinga er einum of auðvelt að innbyrða óhóflegt magn af neikvæðum fréttum og hrapa ofan í hverja kanínuholuna á fætur annarri. Gleymum ekki að leggja frá okkur helvítis símann og staldra við það sem er jákvætt, fallegt og raunverulegt í kringum okkur.

Við höfum séð heilu samfélögin koma saman þegar þörfin knýr á dyr, og fólk vinna þrotlaust að því að breyta umhverfi sínu til hins betra. Nýsköpun í vísindum er vonarstjarnan sem getur leitt okkur áfram að bjartari dögum, og allt í kringum okkur blasir við listræn tjáning á mannlegri upplifun í allri sinni flóknu dýrð.

Stígum inn í framtíðina með bjartsýnina að vopni. Það er mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir, og enn mikilvægara að trúa því að okkar þátttaka skipti máli á vegferðinni í átt að betri heimi.

Mínar allra bestu þakkir fá Alexander Jean fyrir að blása lífi í Stúdentablaðið með ótrúlega fallegri hönnun, Regn Sólmundur Evu fyrir ógleymanlegar dúkristur á forsíðum blaðsins í ár og Amber Lim fyrir íðilfagrar myndskreytingar. Að lokum vil ég þakka öllum þeim sem komu að gerð blaðsins í ár fyrir einstaklega vel unnið starf, og fyrir að nýta tjáningarmátt ykkar og listsköpun til að veita öðrum innblástur.

Bjarta framtíð.