Börn með krabbamein - 2. tbl. 2015

Page 1

2. tbl. 22. árg. 2015 STYRKTARFÉLAG KRABBAMEINSSJÚKRA BARNA

„Mamma, þú átt að treysta góða lífinu!“ Viðtal við foreldra sem búa á Akureyri en þurfa að sækja læknisþjónustu til Reykjavíkur vegna hvítblæðismeðferðar sonar síns.

Bls. 4 - 9


Fyrsta hjálp fyrir þurrar varir

Decubal lips & dry spots balm: Nærandi og mýkjandi smyrsli með býflugnavaxi sem hjálpar til við enduruppbyggingu þurra vara, tættra naglabanda og þurra olnboga.

Decubal er heil húðvörulína fyrir andlit og líkama. Í 40 ár höfum við þróað mildar og nærandi vörur fyrir þurra og viðkvæma húð, í nánu samstarfi við húðsjúkdómalækna. Decubal er algjörlega laust við ilmefni, litarefni og parabena og er eingöngu selt í apótekum.

Án parabena, ilm- og litarefna.


Í blaðinu er viðtal við foreldra sem búa á Akureyri en þurfa að sækja læknisþjónustu til Reykjavíkur vegna hvítblæðismeðferðar sonar síns. Þau eru afar þakklát fyrir góða og faglega þjónustu heilbrigðisstarfsfólks en finnst að þótt margt sé vel gert þá þurfi kerfið að koma mun betur til móts við þá sem búa ekki í nálægð við spítalann. Dregið hefur úr innlögnum Þegar reglur um þátttöku hins opinbera í ferða- og gistikostnaði fjölskyldna af landsbyggðinni voru settar voru gönguog dagdeildir ekki notaðar í sama mæli og nú. Sjúklingar voru innskrifaðir á legudeildir meðan á meðferð stóð. Í dag eru innlagnir hins vegar aðeins brot af komum á spítalann – blóð- og flögugjafir og blóðstatusprufur fara fram nánast alfarið á göngu- og dagdeild án innlagnar og lyfjagjafir að mestu – en kerfið miðar enn allt við innlagnir og sumt er ekkert niðurgreitt nema barn sé í innlögn. Leiga sjúkraíbúðar er einungis niðurgreidd þá daga sem barn er skráð í innlögn, ekki þegar það dvelst með foreldrum sínum í íbúðinni. Allt miðast við innlögn Einungis einn fylgdarmaður fær ferðastyrk með barninu þótt það sé bæði mjög ungt og í þungri meðferð og systkini fá

t.d. engan ferðastyrk. Foreldri á rétt á ferðastyrk til að heimsækja barnið sitt einu sinni í viku en getur ekki nýtt þann rétt nema að litlu leyti til að fylgja barni sínu í meðferðir þar sem stór hluti lyfjagjafa fer fram á dagdeild. Allt miðast við innlögn. Ef báðir foreldrar kjósa að fylgja barni í erfiðar lyfjameðferðir sem taka oft frá morgni til eftirmiðdags þá verður annað þeirra að ferðast á eigin kostnað.   Enginn matur er fyrir aðstandendur á spítala, nema á eigin kostnað, óháð aldri barns og þeirri staðreynd að oft á tíðum er ekki hægt að víkja frá og ættingjar ekki alltaf til taks. Sjúkratryggingar niðurgreiða leigubíla til og frá spítala en þarfir barnsins ná yfir fleiri staði en spítala, sjúkraíbúð og flugvöll. Ógerlegt er að vera án bíls mánuðum saman þegar barn er mikið ónæmisbælt og getur ekki notað almenningssamgöngur. Bílaleigubílar eru ekki niðurgreiddir þótt barnið megi ekki nota almenningssamgöngur og leigubílar eru ekki alltaf góður kostur vegna sýkingahættu. Erfitt að ferðast einn Reglurnar eru úreltar og valda fólki af landsbyggðinni, sem ekki á aðra kosti en að fljúga og leigja húsnæði í Reykjavík, gríðarlegum kostnaði. Barn í þungri meðferð getur ekki og þolir oft ekki

4 „Mamma, þú átt að treysta góða lífinu!“ 10 Hulda, Matthías Orri og Victor 14 Hvað er jáeindaskönnun? 16 Sumarhátíð í Smáratúni 17 Reykjavíkurmaraþon 18 Lífsperlur og Kótelettan 19 Um SKB 20 Jólastund SKB 21Leikum okkur með Lúlla ÚTGEFANDI: Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna, Hlíðasmára 14, 201 Kópavogi, sími: 588 7555, netfang: skb@skb.is, heimasíða: www.skb.is, ISSN 1670-245X. RITSTJÓRI OG ÁBYRGÐARMAÐUR: Gréta Ingþórsdóttir. STJÓRN SKB: Rósa Guðbjartsdóttir, formaður, Árni Þór Jóhannesson, Benedikt Einar Gunnarsson, Dagný Guðmundsdóttir, Einar Þór Jónsson, Hrafnhildur Stefánsdóttir, Kristjana Erlen Jóhannsdóttir, Signý Gunnarsdóttir og Særós Tómasdóttir. MYNDIR: Skapti Hallgrímsson, úr safni SKB. FORSÍÐUMYND: gudrunhronn.is. UMBROT: Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna. PRENTUN: Ísafoldarprentsmiðja – umhverfisvottuð prentsmiðja.

að sitja í marga tíma í bíl. Þá er flug eini kosturinn og kemur í veg fyrir að foreldrar og systkini sameini ferðir.   Að lokum er vert að nefna eitt atriði sem getur skipt verulegu máli en það er hversu erfitt er að standa einn uppi með barnið sitt í þungri lyfjameðferð og taka á móti öllum upplýsingum frá læknum um barnið og hafa ekki nánasta aðstanda með. Úrbóta er þörf Augljóst er að hér þarf að gera betur og hefur þegar verið biðlað til stjórnvalda um að bæta úr. Nógu erfitt er að þurfa að fylgja barni sínu eftir fárveiku í erfiðar meðferðir. Fólk ætti ekki að þurfa að ferðast eitt eða sitja fundi með læknum án stuðnings maka eða einhvers náins eða koma að lokuðum dyrum þegar það vill sameina fjölskyldur sínar um stund. Mikið álag er á starfsmönnum Sjúkratrygginga og Tryggingastofnunar og skilningur þeirra á stöðu fólks er mikill en þar sem annars staðar er unnið út frá lagaheimildum sem augljóst er að þarf að endurskoða.

Gréta Ingþórsdóttir, framkvæmdastjóri SKB.

Börn með krabbamein - 3


Viðtal: Gréta Ingþórsdóttir Myndir: Skapti Hallgrímsson, gudrunhronn.is og úr einkasafni

Akureyringurinn Ólafur Ingi Kjartansson greindist með hvítblæði ALL í febrúar á síðasta ári, þá fjögurra og hálfs árs gamall, um fjórum mánuðum eftir að fyrstu einkenna varð vart. Foreldrar hans eru Kjartan Guðmundsson rafvirki og Guðrún Elfa Skírnisdóttir, myndlistarkennari og grafískur hönnuður. Hann á systurnar Ingunni Emblu, sem hóf nám í Háskóla Íslands í haust, og Sigrúnu, nemanda í 10. bekk. Gunnella, eins og hún er alltaf kölluð, og Kjartan hættu bæði að vinna og þurftu í marga mánuði, þegar þyngsti hluti meðferðarinnar gekk yfir, að halda tvö heimili vegna sjúkrahúsvistar Ólafs Inga í Reykjavík. Við greininguna stóðu húsnæðisskipti og ferming fyrir dyrum og gekk hvort tveggja eftir með góðra manna hjálp – að Gunnellu og Kjartani meira og minna fjarstöddum. En það hefur ýmislegt gerst á leiðinni og ekki allt auðvelt. Blaðamaður hitti þau á heimili þeirra á Akureyri og fékk að heyra söguna. Sjö lungnabólgur á einu ári Ólafur Ingi, sem fæddist 2009, var mjög oft lasinn fyrstu árin, fékk t.d. sjö sinnum lungnabólgu eitt árið með tilheyrandi penisillíninntöku. Tæplega þriggja ára gamall datt hann út í rauðum hellum og allir liðir bólgnuðu og roðnuðu. Hann var lagður inn til rannsóknar, fékk sýklalyf og stera en var aldrei almennilega greindur. Járnskortur var þó talinn hrjá hann, hann fékk járn og D-vítamín í kjölfarið og náði sér nokkuð vel, var þokkalega hraustur í um eitt og hálft ár eða fram yfir mitt ár 2013. 4 - Börn með krabbamein

„Svo er þetta í lok september. Ég tek eftir rauðri kúlu á höfðinu á honum,“ segir Gunnella. „Hann var á leið í fjögurra og hálfs árs skoðun stuttu síðar og við létum þá líta á kúluna. Hjúkrunarfræðingurinn taldi þetta meinlaust, enda leit kúlan út eins og eitthvað sem hefði getað komið eftir fall en hún sagði okkur samt að fylgjast með henni og láta líta betur á hana ef hún breyttist.“   Kúlan hvarf hins vegar ekki heldur stækkaði. Þau létu heimilislækni líta á hana og sá bað annan reynslumeiri lækni að skoða hana líka. Þeir töldu báðir að þarna væri eitthvað meinlaust á ferðinni en vildu samt til öryggis senda Ólaf Inga í ómun. „Röntgenlæknirinn gat ekki útskýrt kúluna, þegar við spurðum hann álits, taldi hugsanlegt að hún væri áverki eftir fall og okkur er vísað áfram á skurðlækni. Þegar okkur fór að lengja eftir tíma hjá honum kom í ljós að beiðnin hafði einhvern veginn týnst í kerfinu, þ.a. sá læknistími fékkst ekki fyrr en 2. janúar. Þá var kúlan orðin svo stór að hún sást vel í gegnum húfu, starfsmenn leikskólans voru farnir að spyrja út í það hvort ekki ætti að gera eitthvað í málinu og ákveðið var að Ólafur Ingi fengi ekki jólaklippingu til að láta hárið fela kúluna. Allt var í ferli en við komumst lítið áfram. Okkur taldist til að einir sjö læknar væru búnir að sjá þessa kúlu með einum eða öðrum hætti og vorum við búin að heyra ýmsar getgátur um tilurð hennar: að þetta væri bólginn hársekkur, kölkun eða afleiðingar af gömlum áverka, ekkert sem benti til alvarlegs kvilla.“

Langaði mest að hætta við húsakaup Um þetta leyti seldu Kjartan og Gunnella íbúðina sína og skrifuðu undir kaupsamning á húsinu sem þau búa í núna. „Hann var alltaf lasinn þarna í desember, fékk slæma flensu og var rétt að stíga upp úr henni þegar hann varð lasinn aftur. Það var löng bið eftir tíma hjá barnalækni og við vorum reglulega með hann á bráðamóttöku heilsugæslunnar upp á spítala. Þegar við hittum skurðlækninn loksins 2. janúar var Ólafur Ingi kominn með risabólu á fingurinn sem reyndist vera hlaupabóla og af henni varð hann fárveikur, með mikinn hita og vanlíðan. Skurðlæknirinn mældi kúluna og vildi að lýtalæknir skoðaði hana eftir tvo mánuði til að fá ráðleggingar um hvernig best væri að taka hana af, þar sem hún var orðin það stór,“ segir Kjartan.   „Hann var mjög lengi að ná sér upp úr hlaupabólunni og var virkilega lasinn. Ég var vön að draga hann á sleða í leikskólann sem honum þótti alltaf mjög gaman,“ segir Gunnella. „Fyrsta morguninn eftir hlaupabóluveikindin fór ég af stað með hann á sleðanum en þá stökk hann af og hljóp heim. Daginn eftir keyrði ég hann en hann vildi ekki fara út úr bílnum. Hann var ólíkur sjálfum sér þó að hann ætti að vera búinn að ná sér af öllu.“   Kúlan hélt áfram að stækka og í hvert skipti sem þau töluðu við lækni út af flensu, hlaupabólu eða öðru þá spurðu þau út í hana. Þau voru samt aldrei send áfram á barnadeildina, þau voru alltaf að hitta nýja og nýja lækna og enginn einn hélt utan um


málið. Eitt af því sem þau spurðu ítrekað um var hvers vegna barnið svitnaði svo mjög. Það rann af honum þó að hann væri í hvíld uppi í sófa og þau þurftu iðulega að skipta um rúmföt og náttföt áður en þau fóru að sofa, eftir að hann hafði sofið í nokkra klukkutíma. Hann fékk líka punktablæðingar í andlitið ef hann grét og það voru þau einnig búin að nefna ítrekað. Þau voru farin að hafa af þessu miklar áhyggjur og langaði mest að bakka út úr húsnæðisskiptum þar til skýring fengist á þessu öllu. „Verð ég núna allur í kúlum?“ „Fólk var farið að hafa orð á því við okkur hvað hann væri fölur en við vorum búin að gera allt sem við kunnum, láta marga lækna skoða hann og ýta á eftir málinu eins og við gátum. Allir sem við hittum á þessu tímabili töldu þetta meinlaust. Í lok janúar er föndurdagur í leikskólanum. Ég sit hjá honum og er að fylgjast með honum vinna. Þá sýnist mér hann vera orðinn bólginn á hálsinum. Ég hugsaði með mér að núna væri ég orðin hugsjúk með þessa kúlu, það gæti ekki verið og ég þurfti að halda aftur af mér að strjúka honum um hálsinn. Svo finn ég um kvöldið að hálsinn er bólginn og mjög aumur, hann er búinn að vera með niðurgang, lystarlaus, það rennur af honum svitinn og við ákveðum að fara með hann á bráðamóttöku heilsugæslunnar uppi á sjúkrahúsi. Á leiðinni spurði þetta kríli hvort hann yrði núna allur í kúlum. Hann skildi auðvitað ekkert í þessu heldur, fannst þetta allt vont og leiðinlegt,“ segir Gunnella.   Á spítalanum hittu þau lækni sem þau spurðu hvort þessi einkenni tengdust ekki: kúla á höfðinu, kúla á hálsinum, svitabað, lystarleysi, niðurgangur og lasleiki? Læknirinn sagði það ekki endilega þurfa að vera en ákvað að senda Ólaf Inga í blóðprufur eftir helgina. Út úr þeim kom að þær væru „veirulegar“ en þó ekkert afgerandi slæmar, þ.a. ekkert var ákveðið með framhaldið og honum ekki vísað áfram í frekari skoðun eða rannsókn.   Þarna leist þeim einfaldlega ekki á blikuna, það hlaut eitthvað að vera í gangi, þannig að sama dag ákveða þau að hringja í neyðarsíma hjá lýtalækninum sem átti að skoða Ólaf Inga í mars og lýsa áhyggjum sínum. Hann bauð þeim að hitta sig viku seinna en þau sögðust ekki geta beðið svo lengi, þ.a. hann féllst á að fá þau til sín samdægurs. Hann horfði á Ólaf Inga í smástund og sagði svo augljóst að eitthvað mikið væri að. Hann hringdi upp á sjúkrahús og fékk að senda þau þangað inn á bráðamóttökuna í frekari skoðun. Þar tók barnalæknir við Ólafi Inga og tók söguna hans saman. Hann fékk sýklalyf vegna bólgu í eitli á hálsi og fór aftur í blóðrannsókn

og átti síðan tíma í endurkomu eftir þrjá daga. Þetta var 10. febrúar. Nóttina eftir var hann kominn með mikla bakverki og var þá sneiðmyndaður á höfði og lungum. Næstu 10 daga voru þau inn og út af barnadeildinni á Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAK). Einn daginn vaknaði Ólafur Ingi draghaltur, var sendur heim en fór strax aftur á sjúkrahúsið vegna verkja. 15. febrúar skáru tveir læknar, skurðlæknir og lýtalæknir, í kúluna, greindu vef en töldu hann góðkynja. Sýnið var sent í greiningu og lífið á bið á meðan, eins og þau segja. Næstu daga fór líðan Ólafs Inga versnandi, hann hrundi í blóðflögum og var líka kominn með bólgna kúlu á rist. Erfitt að bíða eftir að komast suður „Við vorum farin að þrá góðar fréttir en annað kom á daginn. 19. febrúar er okkur sagt með hálftíma fyrirvara að koma upp á sjúkrahús, það sé slæmt að koma út úr rannsókninni og við eigum síðar sama dag að fara suður með Ólaf Inga í meðferð. Það var allt ófært vegna veðurs og til að nota tímann var hann sneiðmyndaður en við fengum ekkert að vita strax. Þegar okkur var svo sagt að það væri krabbamein í kúlunni ætluðum við bara að keyra af stað suður en vorum stoppuð af. Sneiðmyndin leiddi í ljós að ekki væru meinvörp, sem voru í sjálfu sér góðar fréttir, annars vissum við ekki neitt. Við komumst svo suður seint kvöldið eftir, 20. febrúar, með sjúkraflugi í leiðindaveðri,“ segir Gunnella.   Þeim fannst biðin eftir fluginu afar erfið og leið eins og hver dagur gæti verið sá síðasti fyrir Ólaf Inga. Þau vissu ekkert hvað þau yrðu lengi fyrir sunnan, áttu eftir að segja dætrunum vondu fréttirnar og upplifðu gríðarlegt áfall eftir að hafa nokkrum dögum áður talið sig vera með barn með kúlu – en meinlausa kúlu. „Ég henti bara einhverju ofan í tösku, vissi ekkert

fyrir hve langan tíma, en pakkaði sem betur fer sænginni hans og kodda og þremur böngsum. Það bjargaði honum alveg þegar við vorum loks komin á Barnspítalann seint um kvöldið. Þegar hann fékk sængina sína og bangsana þá fann hann fyrir smá öryggi að heiman. Á þessum tímapunkti vorum við mjög brothætt, bara algerlega stjörf og dofin eftir allt sem var búið að ganga á, vitandi ekki hvað næstu dagar bæru í skauti sér. Við komum inn á barnadeildina eftir miðnættið og var sagt að við yrðum í einangrun næstu daga, viku og enginn mætti sinna barninu án hlífðarsloppa eða við að fara fram á gang án sloppa og hann mátti auðvitað ekki fara fram úr einangruninni. Við gátum ekki alveg séð fram á hvernig maður gæti lokað 4 ára barn inni í herbergi allan sólarhringinn. En þetta kemst í vana og gengur upp með með góðu fólki deildarinnar og ekki síst þeim stórkostlegu konum á leikstofunni sem komu eins og ferskir vindar. Vigfús sjúkrahúsprestur hjálpaði okkur einnig mikið á þessum tíma. Ég þakka svo mikið fyrir að við gátum staðið saman og stutt hvert annað á þessum tímapunkti. Margir eru einir að takast á við slík áföll,“ segir Gunnella.   Stelpurnar urðu eftir á Akureyri í algerri óvissu, Ingunn Embla 18 ára og Sigrún 13 ára. „Það var ótrúlega erfitt fyrir þær. Við höfðum alltaf farið allt saman og Ólafur Ingi var litli gullmolinn þeirra og þær höfðu auðvitað miklar áhyggjur,“ segir Kjartan. ALL á 4. stigi Á fyrsta degi á Barnaspítala Hringsins (BSH) var Ólafur Ingi skoðaður, blóðprufur teknar og hann sendur í beinaskanna. Þar komu í ljós blettir á rist, legg og baki. Einnig voru tekin mergsýni til að meta stöðu sjúkdómsins. Rannsóknir sýndu að hann hafði verið með eitilfrumukrabbamein, sem átti

Ólafur Ingi umvafinn böngsunum sínum í háskammtameðferð veturinn 2014. Börn með krabbamein - 5


upptök sín í kúlunni, og það þróast út í hvítblæði ALL á 4. stigi. Hann átti langa og stranga meðferð fyrir höndum sem hefði orðið bæði styttri og einfaldari ef hann hefði greinst strax. „En það sem mestu skipti var að okkur var tjáð að möguleikar hans á bata væru 95%, það var okkur efst í huga. Læknar upplýstu okkur um meðferðina á nærgætinn hátt og allt fagfólk á spítalanum hjálpaði okkur að takast á við áfallið,“ segir Gunnella.   Í mars fór Ólafur Ingi í fyrstu háskammtameðferðina. En fjögurra til fimm daga innlögn endaði í 16 dögum í einangrun því það sem enginn vissi var að niðurgangur og hitavella reyndist vera matareitrun (kamfýlóbakter), nýrun virkuðu sökum þess ekki sem skyldi, Ólafur Ingi safnaði miklum bjúg og náði ekki að skila lyfinu út eins og hann átti að gera. Hann var með öðrum orðum rosalega veikur. Gunnella rifjar upp að þegar hann hafi verið spurður hvernig honum liði hafi hann nánast alltaf sagt að sér liði vel, þótt öll merki hafi sýnt annað. En samt sagði hann þarna, þegar honum fannst mamman eitthvað óhress með stöðuna: „Mamma, þú átt að treysta góða lífinu!“   Stelpurnar voru í sínum skólum á Akureyri og Kjartan og Gunnella héldu að þau fengju ferðastyrk til að fá þær til sín til Reykjavíkur en það var ekki svo. Hver ferð fyrir þær kostaði a.m.k. 40 þúsund en hoppmiði fyrir barn kostar um 20 þúsund krónur fram og til baka. Kjartan og Gunnella fengu húsið í Beykilundi afhent áður en Ólafur Ingi var sendur suður og þau áttu að afhenda sína íbúð rúmum mánuði síðar eða 1. apríl. Kjartan fór norður til að reyna að undirbúa flutninga með stelpunum en á endanum voru það vinir, vandamenn og vinnufélagar sem kláruðu málið. Gunnella og Ólafur Ingi fóru ekkert norður í tæpa þrjá mánuði. Fjölskyldan hafði aðsetur í íbúð á Rauðarárstíg í rúman mánuð eða út mars en eftir það í íbúð SKB í Mánatúni, sem Gunnella segir að hafi algjörlega bjargað þeim.

þrifu íbúðina og gerðu tilbúna fyrir afhendingu. Við gerðum ekkert,“ segir Gunnella. „Við stukkum bara út úr lífi okkar í febrúar með eitthvað í töskum og skildum hluta fjölskyldunnar eftir. Við Ólafur Ingi fórum að heiman í febrúar og komum aldrei aftur á gamla heimilið okkar. Það var mikil áskorun að púsla öllu saman og keyra heimili úr fjarlægð sem var verið að pakka saman. Heimili þurfa skipulag og það fer allt úr skorðum við slíkt. Stelpurnar stóðu sig samt ótrúlega vel. Það þurfti að kaupa í matinn, elda, þrífa, skutla á æfingar, aðstoða við heimalærdóm og margt fleira sem heimili þurfa. Þær borðuðu stundum hjá vinum og ættingjum en redduðu sér líka ótrúlega mikið sjálfar. Okkur fannst við vera með Ólaf Inga í ferli fyrir sunnan en þannig séð, allt í lausu lofti fyrir norðan, þótt allir hafi verið boðnir og búnir að aðstoða okkur í einu og öllu. Stelpurnar voru sem betur fer vel staddar í námi, heilsteyptar, ábyrgar og ekki í neinu rugli, í einu orði sagt frábærar,“ segja Kjartan og Gunnella.

„Fyrsta fríið norður var daginn fyrir skírdag. Það var ótrúlega stórt skref að fara úr örygginu fyrir sunnan þar sem spítalinn er í seilingarfjarlægð. Við komum í nýja húsið, allt fullt af kössum sem við höfðum ekki pakkað ofan í sjálf. Ingunn var aðeins búin að taka upp úr kössum og setja í eldhússkápa en á því sama andartaki og við komum inn í húsið þá leið okkur samt svo vel. Við settumst inn í stofu, kveiktum á kertum og vorum bara glöð með að vera loksins öll saman. Sigrún var búin að vera talsvert með okkur fyrir sunnan, fór í skólann á Hringnum, var í góðu sambandi við skólann fyrir norðan og stundaði líka mikið sjálfsnám sem gekk ótrúlega vel. Ingunn var í 3. bekk í Menntaskólanum á Akureyri og þurfti hún að vera mest ein í húsinu og sjá um sig og við erum afar stolt af henni fyrir það.“ Hjördís Sunna, systir Gunnellu, sem býr í Svíþjóð og er mjög tengd þeim, kom heim og var hjá stelpunum í viku til að hugsa um þær og hjálpa til. „Það var mjög notalegt að vita af henni hjá þeim. “

Vorum bara glöð að vera loksins öll saman „Við vorum búin að biðja fjölskylduna að flytja stóru hlutina fyrir okkur, við ætluðum að koma norður um páskana og reyna að pakka og flytja rest. Svo komumst við ekkert, vorum föst fyrir sunnan, þ.a. það endaði með því að við vorum ekki á staðnum þegar lífi okkar var pakkað niður. Það var ótrúlega sérstakt og upplifun þeirra sem fluttu fyrir okkur blendin, að þeirra sögn. Fjölskyldurnar og vinnufélagar sáu um flutninga á milli húsa og vinnufélagar mínir 6 - Börn með krabbamein

Ólafur Ingi gat nánast enga hitt í einangruninni og var viss um að þetta fiðrildi væri vinur hans, hver veit!


Systurnar Ingunn Embla og Sigrún hlupu í Reykjavíkurmaraþoninu í nafni bróður síns.

Þurftu að fresta fermingu Sigrún átti að fermast þarna um vorið og þau voru búin að festa sér veislusal með löngum fyrirvara. Því þurfti að breyta og nýr dagur var valinn með tilliti til þess hvað hentaði í meðferðinni. Ólafur Ingi átti upphaflega að fá lyfjabrunn en fyrir misskilning var settur í hann lyfjaleggur sem eyðilagðist og var ekki hægt að skipta út fyrir nýjan þar sem nýr leggur var ekki til á landinu. Leggurinn hafði alltaf verið til vandræða, það var eins og hann lægi eitthvað leiðinlega í æðinni því Ólafur Ingi fann alltaf mikið til þegar var sprautað í hann. Á endanum var tekin ákvörðun um að setja upp brunn, Ólafur Ingi fór í háskammtameðferð og allt var eins og það átti að vera.   „Við förum norður til að ferma Sigrúnu og allt lítur vel út en eftir tvo daga heima fær Ólafur Ingi hita, verður aumur upp í öxl og með roða í húðinni. Við hringdum suður en þar sem lyfjabrunnar eru nánast undantekningarlaust til friðs þá var mat fagfólks það að þetta ætti að vera í lagi. Við vorum alltaf í mjög góðu sambandi suður þegar við vorum í fríum og gátum hringt að nóttu sem degi til að fá ráðleggingar. En Ólafi Inga versnaði bara og þá var ákveðið að við færum suður. Þar fékk hann strax sýklalyf í æð og ákveðið var að taka brunninn morguninn eftir. Þegar við vöknuðum þann dag var svæðið sprungið, bolurinn hans löðrandi í blóði og greftri. Við vorum skíthrædd um hann, enda var þetta hrikaleg sýking. Þarna var komið drep í sárið og það þurfti að skera stórt svæði í kringum það. Stór hola var í brjóstinu og tók það þrjá mánuði að gróa upp með óteljandi sáraskiptum. Hann mun bera þess merki alla tíð.   Starfsfólk deildarinnar reyndist okkur ómetanlegur stuðningur á þessum tíma og í þessu stóra ferli upplifðum við öryggi, skilning og mikla fagmennsku. Það er einfaldlega stórkostlegt fólk sem þarna vinnur. Það að vera með veikt barn í einangrun, lokað inn á herbergi svo dögum og vikum skiptir, er aldrei auðvelt og þá skiptir máli hvernig fólk annast mann til að lífga upp á tilveruna,“ segja þau.   Kjartan og Gunnella voru dugleg að taka myndir af Ólafi Inga og kom það sér oft vel að geta sýnt læknum mun á útliti frá degi til dags. Gróa passaði á meðan Kjartan skrapp norður Ólafur Ingi var skorinn á þriðjudegi og fermingin átti að vera á laugardegi. Hann var í einangrun með engan legg og engan brunn en þurfti að fara í svæfingu annan hvern dag um tíma til að skipta á sárinu og hreinsa það. Sárið var svo stórt og

djúpt að það var ekki hægt að hreinsa það nema í svæfingu. „Við mæðgur fórum norður á miðvikudeginum, fermingin var í Glerárkirkju og veislan í athvarfi fjölskyldunnar á Skarði í Dalsmynni. Kvenfélagið í sveitinni tók að sér að halda veisluna ásamt fjölskyldum okkar. Dásamlegir vinir sáu um fermingartertuna og aðrir vinir sáu um að fara með Sigrúnu og dóttur sína á tónleika til Svíþjóðar en það var fermingargjöfin þeirra beggja sem búið var að ganga frá nokkru áður er Ólafur Ingi veikist. Þetta var svo ómetanlegur stuðningur að við getum ekki komið orðum að því. Á þessum tíma fór öll orka í veikindi Ólafs Inga, þótt við pössuðum mikið upp á að halda utan um alla í fjölskyldunni og gleyma því ekki að Sigrún varð að eiga sinn dag þrátt fyrir allt. Kjartan var hjá Ólafi Inga fram eftir degi á laugardegi, þ.a. hann komst ekki í kirkjuna.   Gróa Gunnarsdóttir á leikstofu BSH ákvað upp á sitt eindæmi að þó hún væri í fríi, skyldi hún koma á laugardeginum og passa Ólaf Inga á meðan Kjartan færi norður. Hann tók flug, var tvo tíma í veislunni og flaug svo suður aftur. Ólafur Ingi og Gróa eru mikilir mátar og hann var mjög sáttur við fyrirkomulagið, ásamt því að starfsfólk barnadeildarinnar hugsaði vel um hann. Það, að við gætum hugsað okkur að Kjartan færi frá Ólafi Inga þennan dagpart, sýnir hve mikið öryggi hann og ekki síst við fundum á Barnaspítalanum. Fermingin tókst dásamlega vel og dagurinn var sólríkur, fallegur og eftirminnilegur,“ segir Gunnella. Þær Sigrún fóru suður daginn eftir og í næsta fríi fyrir norðan var síðan haldin mini-fermingarveisla þar sem Ólafur Ingi fékk að vera með. Það kostar að vera utan af landi Hinar tíðu ferðir á milli Akureyrar og Reykjavíkur hafa bæði verið afar kostn-

aðarsamar og erfiðar. Framan af gátu Gunnella og Kjartan ekki ferðast saman þar sem þeim var sagt að aðeins annað foreldrið mætti ferðast með barninu og ef hitt foreldrið færi líka þá mætti það ekki ferðast sama dag. Kjartan var því yfirleitt að koma degi á undan eða eftir Gunnellu og Ólafi Inga. Úr þessu var þó greitt, sem betur fer, þegar á leið. Öll þátttaka hins opinbera í ferða- og gistikostnaði miðast við innlagnir á sjúkrahús en þar hefur verið tekin sú stefna að draga úr innlögnum og láta stærstan hluta meðferðar fara fram á göngu- og dagdeildum.   Fyrir fólk utan af landi hefur þetta miklar afleiðingar. Stundum hafa Kjartan og Gunnella mátt fara með Ólaf Inga af spítalanum en þó ekki út af höfuðborgarsvæðinu. Þá dvelja þau án niðurgreiðslu, þar sem hann er ekki skráður í innlögn. Það að ferðast einn með veikt og mikið ónæmisbælt barn er líka mjög erfitt. Gunnella segir að ef þau Kjartan hafi farið bæði þá hafi annað þeirra getað stokkið inn á flugvöll, tékkað inn og hitt setið í bílnum með Ólafi Inga á meðan. Þau hafi svo farið með hann inn og beint út í vél þegar tíminn var kominn. Þegar hún ferðaðist ein með hann hafi hún reynt að hafa engan farangur til að þurfa ekki að dvelja lengur í flugstöðinni en hún nauðsynlega þurfti og einnig vegna þess að stundum var hann svo slappur að hann gat ekki labbað sjálfur. Einu sinni hafi hún komið inn með hann á handleggnum mjög lasinn og þá beið fjöldi manns í röð. Hún hafi ákveðið að fara fram fyrir röðina og biðja um að vera innrituð á undan öðrum. Við því var orðið, sem betur fer. Ólafur Ingi sat svo alltaf með grímu í fluginu sjálfu til að reyna að verjast sýkingum.   Sumarið 2014 var þungur tími í meðferðinni, eins og búið var að upplýsa okkur um. Við vorum alltaf að vonast til að komast í Hetjulund, hvíldarheimili SKB, og Börn með krabbamein - 7


Aukaverkanir af lyfjagjöf eru m.a. þær að hann er orkulaus og oft verkjaður í kroppnum og getur því ekki alltaf tekið fullan þátt í öllu með bekknum sínum og mætir stundum seinna eða fær að fara fyrr. Gunnella er ekki enn farin að vinna og hún er alltaf til taks gagnvart skólanum ef á þarf að halda, t.d. ef bekkurinn fer í gönguferð eða gerir eitthvað sem er of erfitt fyrir Ólaf Inga. Þá hleypur hún undir bagga og keyrir eða brúar bil eftir þörfum. Hefði verið einfaldara að búa í Reykjavík

Ólafur Ingi og Gunnella á Barnaspítala Hringsins. tókst það ekki fyrr en í ágúst. „Um haustið gátum við farið að vera meira fyrir norðan. Kjartan fór að vinna aftur en Ólafur Ingi fór um veturinn vikulega suður á dag- og göngudeild í blóðprufur og lyfjagjafir og blóð- og flögugjafir eftir því sem líkaminn þurfti. Ásamt því þurfti hann reglulega í innlögn eins og fylgir slíkum meðferðum. Á vormánuðum 2015 byrjaði hann á viðhaldsmeðferðinni sinni og klárar hana haustið 2016.“ Með sýkingu í vöðva og beini Rétt áður en Ingunn Embla, stóra systir Ólafs Inga, útskrifaðist með stúdentspróf frá MA, fékk Ólafur Ingi að leika sér á trampólíni í fyrsta skipti eftir að meðferðin hófst. Hann hafði verið mjög duglegur að hreyfa sig og oftar en ekki var hugurinn öflugri en kroppurinn, að sögn þeirra foreldranna. „Eftir trampólínhoppið varð hann draghaltur og eftir ómun og skoðun á Akureyri var niðurstaðan sú að það hefði blætt inn á vöðva. En úr því hann lagaðist ekki, varð enn haltari og óheyrilega verkjaður þá drifum við okkur suður þar sem hann var segulómaður. Í ljós kom að hann var með sýkingu í beini og mjúkvef og ákveðið var að setja hann á heljarinnar sýklalyfjaskammt í mánuð. Ég var stoppuð af í apótekinu því að þar héldu menn að það hefðu orðið einhver mistök,“ segir Gunnella, „þetta lítið barn gæti ekki verið að fá svona risa-lyfjaskammt í heilan mánuð! En skammturinn var réttur og núna, um þremur mánuðum seinna er hann varla enn búinn að jafna sig í maganum. Það getur eitt og annað komið upp í stórum meðferðum og álagið á líkamann er mikið.“   Ólafur Ingi er kominn í grunnskóla og hefur gengið nokkuð vel. Hann er með góða kennara sem passa vel upp á hann. 8 - Börn með krabbamein

Veikindi Ólafs Inga og allt sem þeim hefur fylgt hefur tekið verulega í fjárhagslega hjá Kjartani og Gunnellu. Bæði hættu að vinna, Gunnella hætti þegar Ólafur Ingi veiktist og Kjartan var frá vinnu frá greiningu og fram á haust eða í um 7-8 mánuði. Þau segjast hafa haft miklar áhyggjur, fyrst og fremst af heilsu Ólafs Inga og hvernig honum myndi reiða af, en einnig af fjárhagnum, húsnæðisskiptum og nýjum skuldbindingum. Það hafi í raun bjargað þeim að þau voru með allt sitt ágætlega á þurru áður en þau lentu í þessari stöðu, þau eigi dásamlega gott fólk að, auk þess sem SKB o.fl. hafi styrkt þau. Og þótt þau viti að safnað hafi verið í sjóði hjá SKB til að styrkja fólk í þeirri stöðu sem þau voru komin í, þá hafi þeim samt ekki þótt auðvelt að sækja um aðstoð og eiga það sameiginlegt með fleirum. „Við erum bara venjulegt fólk með venjulegar tekjur. Við lifum ekkert hátt en við sveltum ekki heldur og erum ekki gjaldþrota. En í svona löngu ferli tæmir maður auðvitað allt,“ segir Gunnella.   Þau segja að óneitanlega hefði verið einfaldara og auðveldara að vera búsett í Reykjavík en ekki í ferðatösku í á annað ár. Íbúð SKB í Mánatúni hafi samt algerlega bjargað þeim og þeim hafi þótt ómetanlegt að eiga þar athvarf og fastan samastað alveg fram í mars 2015. Hver flugferð til Reykjavíkur kosti um 110 þús. fyrir þau þrjú. Fargjald barns og annars foreldris er greitt af sjúkratryggingum en hitt foreldri ferðast á eigin vegum, þ.e. ef barnið er á göngudeild. „Umönnunarbætur eru þær sömu fyrir fólk, óháð búsetu, var okkur tjáð. Okkur finnst það einkennilegt þar sem þær fjölskyldur sem búa fjarri spítalanum verða óhjákvæmilega fyrir mun meiri útgjöldum en þeir sem nær eru. Á þessum tuttugu mánuðum er fjölskyldan búin að bóka tæplega 180 flugsæti milli Akureyrar og Reykjavíkur ásamt því að keyra ótal ferðir á milli,“ segir Kjartan.   Ýmiss annar kostnaður lendir á fólki sem það reiknar kannski ekki með. Það kostar helling að og reka tvö heimili, vera ekki með heimasíma, vera nr. 10 í röðinni hjá stofnunum, sem nauðsynlegt er að fá

upplýsingar hjá þegar maður er í þessu ferli, og bíða í gemsanum. Það kostar líka að kaupa mat á spítalanum eða nágrenni hans eins og fólk þarf að gera, hvort sem það er með barn í innlögn eða á göngudeild heilu og hálfu dagana. Það kostar bara svo miklu meira að fara ekki sína vikulegu innkaupaferð í matvörubúðina heldur grípa alltaf eitthvað sem er í göngufæri. Allt heimilisskipulag raskast í slíku ferli.   „Bílaleigubílar eru því miður ekkert niðurgreiddir,“ segir Kjartan. „Við skildum bílinn okkar eftir á Akureyri til að Ingunn gæti skutlað Sigrúnu það sem þurfti þegar hún var ekki með okkur í Reykjavík og til að hún gæti farið og keypt í matinn. Það bjargaði okkur að bróðir Gunnellu lánaði okkur bíl í tvo mánuði.“ Vinnuveitendur Kjartans, Ljósgjafinn og Höldur bílaleiga, hafa einnig stutt þau dyggilega svo að þau þurfa ekki að fara allt í leigubílum þegar Ólafur Ingi fer suður í skoðun eða annað. Eigum svo stórkostlegt fólk í heilbrigðisgeiranum „Það að þurfa að ganga í gegnum slíka lífsreynslu með barni sínu er erfiðara en orð fá lýst. Við erum ekki komin á leiðarenda en það mjakast. Ólafur Ingi er svo dásamlega glaðvær og heilsteyptur piltur. Aldrei er langt í brosið og hann er vinamargur og hamingjusamur pjakkur. Nú getum við verið mest heima á Akureyri og njótum vikulega góðrar og notalegrar þjónustu á Barnadeild SAK en förum mánaðarlega suður í blóðprufur og Ólafur Ingi fer í skoðun hjá sínum læknum. Hann er orðinn sáttur við að fara í blóðprufur á Barnadeildinni hér á Akureyri en í byrjun var hann ekki til í skipta út henni Sigrúnu Þóroddsdóttur en hún er þvílíkur reynslubolti að erfitt er að feta í hennar spor eða margra annara hjúkrunarfræðinga á Barnaspítala Hringsins.


Við eigum svo stórkostlegt fólk í heilbrigðisgeiranum sem vinnur baki brotnu. Hann Ólafur Ingi okkar hefur oft veikst í þessari meðferð, líkt og önnur börn í hans stöðu, þar sem það er fylgifiskur þess að vera í þungri krabbameinsmeðferð, og við erum viss um að þeir sem eru að sinna þessum litlu, veiku skjólstæðingum fara ansi oft með vinnuna heim. Við metum svo mikils alla þá sem hafa komið að okkar málum á allan mögulega máta, því við höfum orðið að stóla á svo marga síðustu tæplega tvö árin og munum þurfa að gera áfram.   Sigrún Þóroddsdóttir hefur verið okkur ómetanleg stoð. Því fylgir oft óöryggi að vera fjarri Hringnum og hún er búin að svara ófáum símtölum frá okkur á öllum tímum sólahrings. Sibba og Gróa á leikstofu Hringsins hafa verið ómetanlegar þar sem leikstofan er vin fyrir börnin og foreldra. Þær hafa þann dásamlega eiginleika að láta öllum líða vel og finnast þeir mikilvægir og ávallt velkomnir. Ásamt grunnskólanum á spítalanum, þar sem Ólafur Ingi hefur eytt ófáum stundum.   Allt sem við erum að ganga í gegnum er flókið og langt ferli sem við hlökkum til að klára. Það greinast örfá börn á ári á Íslandi með hvítblæði og við gerum kröfu á lækna að þeir viti og greini en lífið er flókið og stundum er greiningaferlið öðruvísi en maður vill, það hafa margir upplifað. Það er mikilvægt að vera sáttur við lífið og tilveruna og nota orku fjölskyldunnar vel.   Læknarnir í krabbameinsteymi Barnaspítala Hringsins, Sólveig Hafsteinsdóttir, Halldóra Þórarinsdóttir og Ólafur Gísli Jónsson, eru miklir gullmolar sem sinna sínum skjólstæðingum, hvert á sinn persónulega hátt. Öll gefa þau mikið af sér og taka sér tíma til að spjalla, þótt við vitum vel að öll eru þau störfum hlaðin. Ólafur Gísli kallar Ólaf Inga t.d. alltaf nafna þegar þeir hittast og það finnst honum svo flott. Slík nálgun við barn gefur samskiptunum meiri dýpt þar sem þetta er langt og strangt ferli og falleg orð hlýja um hjartarætur.   Þegar fjölskyldur eru settar í þessa stöðu þá upplifa þær glöggt hvað tengslanet er mikilvægt. Við erum mjög rík, eigum mjög stórar fjölskyldur, kæra vini og svo góða vinnufélaga. Á þeim tíma þegar við vorum að ganga í gegnum þyngsta hluta meðferðarinnar og urðum að treysta á aðra þá stigu margir fram og sýndu að þeir hafa hjartað á réttum stað. Ótrúlegasta fólk hefur stutt okkur í gegnum ferlið á ólíkan hátt og slík lífsreynsla vekur mann til umhugsunar og maður sér hvernig hjartað slær í samferðamönnunum,“ segja Kjartan og Gunnella.

Ólafur Ingi hress og kátur haustið 2015.

Mikilvægt að fjölskyldur fái að vera saman „Eitt það mikilvægasta í meðferðinni er sá stuðningur sem við höfum getað veitt hvert öðru. Við vorum öll mjög brotin í byrjun og stuðningur fjölskyldu, vina og starfsfólks deildarinnar skipti miklu máli,“ segir Gunnella.   „Fyrir allar fjölskyldur er mikilvægt að vera saman þegar lífshættuleg veikindi koma upp. Það að systkini sjúklings fái ekki ferðastyrk kemur oft á tíðum í veg fyrir samveru. Barn sem er í lyfjameðferð þarf á öllum sínum að halda til að ná bata. Þau eru oft rifin úr umhverfi sínu nánast fyrirvaralaust og byrja í sterkum lyfjagjöfum sem hafa þungar aukaverkanir. Þá er mikilvægt að hafa einhvern skemmtilegan hjá sér sem manni þykir óendanlega vænt um. Ekki eiga allir kost á því að færa börn um skóla, og flytja alla tímabundið milli landshluta. Lífið er ekki alltaf svo einfalt. Þegar við vorum sem mest inni á Hringnum, t.d. í desember í fyrra þegar Ólafur Ingi fór fyrst í innlögn vegna lyfjameðferðar í byrjun mánaðarins og síðan veiktist hann eftir vikudvöl fyrir norðan og varð að vera í einangrun í 10 daga fyrir jól og komst heim á Þorláksmessu, þá mættumst við foreldrarnir á ganginum til að hafa vaktaskipti. Annað varð að sinna heimilinu fyrir norðan, jólin voru að koma og hitt var fyrir sunnan hjá Ólafi Inga. Á þessum tíma horfðum við á fjölskyldur saman á deildinni, allir að reyna að gera það besta úr aðstæðum og njóta aðventunnar saman. Ólafur Ingi saknaði þess mikið að vera ekki

heima fyrir jólin og systur hans að hitta hann ekki á einum dásamlegasta tíma ársins. Mikil lukka að jólasveinarnir vita að sumir eru á spítala um jólin og gefa líka í skóinn þar.   Það er svo dýrmætt að vera saman og mikil synd að fjölskyldum sé ekki hjálpað að sameina foreldra og börn á erfiðum stundum og að fólk þurfi að reiða sig á styrki frá góðgerðarfélögum eða velvildarmönnum til að borga himinháan ferðakostnað milli landshluta. Á þessum tíma í meðferðinni fundum við einnig svo glögglega hve dásamlega fjölskyldu við áttum fyrir sunnan sem færði okkur mat á spítalann, verslaði inn fyrir okkur og stytti okkur stundir. Ásamt því lagði starfsfólk BSH sig að öllu leyti fram til að láta okkur líða vel.   Við horfum björtum augum fram á veginn og klárum okkar ferli í ágúst 2016. Við erum búin með stóran hluta en okkur fannst óyfirstíganlegt í byrjun þegar fyrir dyrum stóð tveggja og hálfs árs meðferð með lyfjagjöfum í æð, háskammtameðferðum, svæfingum, lyfjatöku í töfluformi, blóðog flögugjöfum og öllu öðru sem þessu fylgir. Það að láta fjögurra ára barn gleypa pillur í stórum stíl er áskorun.   Ólafur Ingi fór þar að auki í einar 23 svæfingar á þessu rúma ári, bæði vegna háskammtalyfjagjafa í mænugöng og vegna sárahreinsunar sýkta brunnsins. Við njótum líðandi stundar og vinnum að því að púsla öllu og öllum saman og reynum að láta ekki þá staðreynd að barnið okkar fékk krabbamein vofa of mikið yfir okkur frá degi til dags. Við lifum í öryggi að mörgu leyti og eigum dásamlegt fólk sem kemur okkur á leiðarenda.“ Börn með krabbamein - 9


Þrjú ungmenni,

sem hafa lifað af krabbameinsmeðferð, féllust á að svara nokkrum spurningum um meðferð og líf eftir hana. Svörin eru áhugaverð og skemmtileg og lýsa einstakri afstöðu til lífs og tilveru.

10 - Börn með krabbamein


Nafn: Hulda Hjálmarsdóttir Aldur: 28 ára Aldur við greiningu: 15 ára að byrja í 10. bekk grunnskóla Tegund krabbameins: Hvítblæði AML

Hvernig var meðferðin? Sex mánaða háskammtalyfjameðferð sem stóð frá september 2002 til apríl 2003.

litla. Þau hafa öll skilið eftir eitthvað mjög dýrmætt í hjarta mínu sem ég hef haft sem veganesti út í lífið.

Eitthvað eftirminnilegt úr meðferðinni? Eftirminnilegast er að þennan vetur stóðu yfir flutningar á nýja barnaspítalann. Því var ákveðið að sameina lyflækningadeild barna og skurðlæknadeild á einn stofugang tímabundið, þannig að það voru mikil þrengsli. Þetta átti bara að standa stutt og allan veturinn vorum við alveg að fara að flytja. Vegna flutninganna og sökum plássleysis var skólastofunni komið fyrir í gamalli ræstigeymslu sem var svona 5-10 fermetrar. Þótt oft hafi verið þröngt á þingi þá stóð upp úr hversu yndislegt starfsfólk var að vinna á deildinni sem gerði þetta allt svo heimilislegt og notalegt, þannig mér leið aldrei illa þegar ég þurfti að liggja inni. Þegar barnaspítalinn fluttist síðan yfir í nýja húsnæðið vorið 2003 man ég að mér fannst það vera svo yfirþyrmandi stórt miðað við það sem ég átti að venjast á gömlu deildinni. Þar fannst mér betra vera, þar var allt svo heimilislegt og ég þekkti alla. Einnig eru mér mjög minnisstæðir þeir krakkar sem ég kynntist á spítalanum og höfðu svo djúpstæð áhrif á mig. Victor vinur minn, sem stytti mér stundirnar meðan ég lá inni á deildinni, Lóa vinkona, sem gat fundið jákvæðar hliðar á leiðinlegustu hlutum, Erna María og Dagmar

Hvaða áhrif hefur það haft að hafa verið með krabbamein? Það að ég greindist með krabbamein breytti sýn minni á lífið og tilveruna þar sem ég upplifði að lífið væri endanlegt og mögulega myndi mitt líf enda. Þar af leiðandi fór ég að meta lífið fyrir alla þá litlu hluti sem við tökum stundum sem sjálfsagða. Ég óskaði mér einskis heitar en að öðlast heilsu að nýju. Eftir að ég kláraði meðferðina og þrekið og heilsan fóru að koma til baka upplifði ég bara svo ótrúlega mikið þakklæti. Þakklæti fyrir að öðlast heilsu, þakklæti fyrir að fá að taka þátt í lífinu að nýju og þakklæti fyrir að fá tækifæri til að dvelja lengur á þessari jörð með fjölskyldu minni og vinum. Ég hef þurft að glíma einhverjar síðbúnar afleiðingar eftir meðferðina eins og námsörðuleika og oft mikinn kvíða tengdan námi og starfi. Það er samt svo smávægilegt miðað við allt það sem hefði getað orðið að ég kvarta ekki og tek bara því sem koma skal.   Hvað ertu að gera núna og hvert stefnirðu? Síðastliðið vor útskrifaðist ég með BS-gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands og er í dag

nýtekin við sem deildarstjóri á búsetukjarna fyrir geðfatlaða hjá Reykjavíkurborg. Einnig hef ég frá 19 ára aldri séð um unglingastarfið hjá Styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna, sem hefur verið mjög gefandi og krefjandi verkefni. Meðfram skóla og vinnu hef ég að auki undanfarin fjögur ár starfað í stjórn Krafts – stuðningsfélags fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur og tók við sem formaður félagsins síðastliðið vor. Hvert ég stefni er enn óljóst en ég mun láta hjartað ráða för og njóta ferðarinnar.   Einhver góð ráð til þeirra sem glíma við krabbamein í dag? Það sem mér fannst hjálpa mér við að komast í gegnum veikindin var að horfa alltaf á ljósu punktana. Þótt dagurinn væri ömurlegur þá reyndi ég alltaf að þilja upp fyrir sjálfri mér hvað ég gæti verið þakklát fyrir og það hjálpaði mér að draga athygli mína að því sem gerði mig glaða. Einnig ráðlegg ég þeim sem þurfa að liggja mikið inn á deild að hafa skemmtilegt sjónvarpsefni við hendina sem fær mann til að hlæja. Það stytti mér mikið stundirnar að geta hlegið með Friends og gleymt mér aðeins.   Að lokum: Ekki horfa of mikið í tölfræðina. Þú veist aldrei nema þú sért undantekningin frá reglunni. Hvert tilvik er sérstakt! Börn með krabbamein - 11


Nafn: Matthías Orri Ísaksson Aldur: 23 ára Aldur við greiningu: Ég var á sextánda ári Tegund krabbameins: Beinkrabbamein í hné

Hvernig var meðferðin? Ég byrjaði á að fara í lyfjameðferð með það fyrir augum að reyna að minnka æxlið. Ég var í þrjá mánuði í stífri lyfjagjöf með tilheyrandi hárlosi, ógleði og vanlíðan. Í október fór ég til Lundar í Svíþjóð þar sem ég átti að fara í aðgerð, annað hvort átti að setja gervilið eða taka fótinn fyrir neðan hné. Aðgerðin gekk vel og ég hélt fætinum. Teknir voru 17 sentimetrar af lærlegg og ofan af sköflungi og settur gervihnjáliður í staðinn. Ég var útskrifaður 6 dögum eftir aðgerðina og fór beint út á flugvöll og heim. Þar tók við sjúkraþjálfun og eftirmeðferð. Í ljós kom að ekki hafði tekist að minnka æxlið nægilega mikið og því varð ég að fara í ennþá lengri lyfjameðferð eða 9 mánuði til viðbótar. Eftir fimm mánuði fékk ég alvarlega sýkingu í fótinn eftir eina lyfjagjöfina. Ég var strax lagður inn og við skoðun á hjarta kom í ljós að það lyfjagjöfin hafði gert það að verkum að það hafði stækkað og lyfjagjöfinni var samstundis hætt. Ég fékk miklar kvalir í fótinn og var gefið pensillín í æð ásamt verkjastillandi. Þannig var ég í næstum 3 mánuði á spítala. Að lokum náðu læknarnir tökum á sýkingunni og ég var útskrifaður. Við tók bataferli, síðan eru liðin 8 ár og ég telst læknaður. 12 - Börn með krabbamein

Eitthvað eftirminnilegt úr meðferðinni? Ég og fjölskylda mín tókumst á við lyfjameðferðina og litum á þetta sem verkefni sem þyrfti að klára og ná heilsu á ný. Ég naut góðs af frábærum hjúkrunarfræðingum og læknum á Barnaspítala Hringsins sem veittu mér alla þá aðstoð sem ég þurfti á að halda. Mér fannst erfitt að geta ekki sótt skólann með félögum mínum en ég hefði átt að byrja í Menntaskólanum við Sund haustið 2007. Ég reyndi eins og ég gat að stunda skólann en það reyndist mér ómögulegt. Það var skrítið að vera kippt svona út úr lífinu og verða sjúklingur. En ég er heppinn að eiga góða vini sem studdu við bakið á mér og heimsóttu mig næstum því daglega á spítalann, það er ómetanlegt. Fjölskyldan fagnaði hverjum áfanga í lyfjagjöfinni, við fórum í sumarbústað, elduðum mat sem ég gat hugsað mér að borða, fórum í bíó eða bara spiluðum saman. Við reyndum að gleyma krabbameininu og lifa eins eðlilegu lífi og hægt var.   Hvaða áhrif hefur það haft að hafa verið með krabbamein? Í upphafi var ég ringlaður en ég man hvað ég var hræddur þegar læknirinn sagði mér og foreldrum mínum að ég væri með krabbamein. Foreldrar mínir stóðu þétt við bakið á mér og sögðu að við myndum takast

saman á við þetta verkefni og læknarnir yrðu með okkur í liði. Þau tóku frá mér hræðsluna og mér fannst ég alveg geta tekist á við sjúkdóminn og sigrast á honum. Að sjálfsögðu komu erfiðir tímar, því er ekki að neita. Ég var mikill fótboltastrákur og varð að hætta því en ég reyni að gera allt sem mig langar til í dag.   Hvað ertu að gera núna og hvert stefnirðu? Í dag er ég orðinn pabbi, á litla stelpu, Ronju Sif, sem er að verða tveggja ára, með kærustunni minni Rut Ingvarsdóttur. Fjölskyldan er mitt mikilvægasta verkefni í dag. Ég vinn á frístundaheimili sem er mjög skemmtilegt en ég stefni ég á að klára menntaskóla og fara í háskólanám.   Einhver góð ráð til þeirra sem glíma við krabbamein í dag? Það er erfitt að gefa góð ráð þegar svona sjúkdómur er annars vegar en ég held að maður verði að líta á vegferðina sem verkefni. Fagna góðum fréttum og hverjum áfanga með því að gera eitthvað skemmtilegt og reyna að gleyma krabbameininu. Vera jákvæður.


Nafn: Victor Pálmarsson Aldur: 28 ára Aldur við greiningu: 15 ára Tegund krabbameins: Bráðahvítblæði

Hvernig var meðferðin? Tveggja ára lyfjameðferð þar sem voru reglulegar keyrslur af lyfjagjöf og svo viku pásur inná milli þar sem blóðgildin þurftu að ná sér til þess að hægt væri að hefja næstu lyfjagjöf.   Eitthvað eftirminnilegt úr meðferðinni? Það væri best að skipta því í tvo þætti, neikvæða upplifun og jákvæða upplifun. Byrja á neikvæðri upplifun. Neikvæð: Tveir hlutir sem ég gleymi aldrei þegar kemur að lyfjameðferðinni. Eitt skipti var þegar ég fékk bráðaofnæmisviðbrögð við ákveðnum krabbameinslyfjum og það lokaðist fyrir alla öndun hjá mér. Ég þurfti adrenalín í æð til þess að ná öndun aftur. Ekki var ákveðið að hætta lyfjagjöfinni strax heldur var reynt aftur stuttu síðar með sömu niðurstöðu. Köfnunartilfiningin var yfirgnæfandi og eftir

sat ákveðin hræðsla þegar nýjar lyfjagjafir voru hafnar eftir þetta. Önnur reynslan var þegar ég lenti í því að öll slímhúð líkamans þornaði upp eftir lyfjagjöf. Í kjölfarið fylgdu 2-3 vikur af miklum sársauka og óþægindum, sem enduðu með morfíndreypi í æð, sem ég man þó lítið eftir. Jákvæð: Það sem er mjög eftirminnilegt er hvað hjúkrunarfræðingarnir og læknar spítalans voru faglegir, jákvæðir og hvetjandi. Sigrún hjúkrunarfræðingur var alltaf til staðar og ég veit ekki hvar ég hefði verið án hennar! Einnig kynntist ég frábæru fólki og eignaðist eilífðarvini. Önnur jákvæð reynsla var þegar Ólafur heitinn Rafnsson, formaður Körfuknattleikssambands Íslands, bauð mér ásamt föður mínum á stjörnuhelgi NBA sem var í viku. Þetta var mér mikils virði þar sem ég var að æfa með landsliðinu

þegar ég greindist og við vorum á leiðinni til Frakklands að spila. Körfuboltinn var líf mitt. Krabbameinslæknar mínir sáu til þess að lyfjagjöfinni væri hliðrað örlítið, til þess að ég ætti sem mestan möguleika á að komast. Þetta er lífsreynsla sem ég mun aldrei gleyma og er þeim afar þakklátur.   Hvaða áhrif hefur það haft að hafa verið með krabbamein? Þau áhrif sem ég get nefnt umhugsunarlaust er hvað ég kann að meta góða heilsu. Lífið er dýrmætt og það skiptir miklu máli að hugsa sem best um líkama og sál. Einnig hef ég fundið fyrir því að líkaminn er ekki alveg jafn góður að jafna sig eftir erfiðar líkamlegar æfingar. Þessu átti ég mjög erfitt með að kyngja, enda mikill íþrótta- og keppnismaður en lífið er svo miklu meira en bara það. Mitt mottó er að finna þessa fullkomnu línu á milli vinnu og afslöppunar. Ef annar þátturinn er of mikill þá skapast vanlíðan. Hugleiðsla, hollur matur, hreyfing og að umkringja sig góðu fólki er eitthvað sem ég gerði eftir að hafa unnið úr þeirri reynslu að hafa greinst með krabbamein. Ég lærði að meta lífið á nýjan máta eftir þessa reynslu.   Hvað ertu að gera núna og hvert stefnirðu? Núna er ég einn af eigendum og yfir markaðsmálum hjá fyrirtæki sem heitir Nýr valkostur og rekur upplýsingaveituna 1819 og 1819.is í beinni samkeppni við ja.is / 1818. Við náðum okkar fyrsta starfsári núna í október. Það er búið að vera gífurlega krefjandi og skemmtilegt verkefni. Ég stefni á að vinna að því að koma því á ennþá hærra flug næstu þrjú árin að minnsta kosti. Þegar kemur að íþróttunum þá er ég að sprikla í körfubolta 2 daga vikunnar. Við vorum að stofna utandeildarlið og þar sækist ég eftir að fá smá útrás fyrir keppnisköttinn í mér. Að lokum þá á ég frábæra kærustu og saman eigum við 3 yndislega ketti og er það eitt af mínum markmiðum að eiga spennandi og skemmtilegt líf með þeim.   Einhver góð ráð til þeirra sem glíma við krabbamein í dag? Númer 1, 2 og 3 er að hafa hugarfarið í lagi, setja niður fótinn í þrjóskunni og segja: „Ég sætti mig ekki við það að vera veikur, ég samþykki það ekki, ég er heilbrigður og get allt það sem aðrir geta!“ Það kemur þér langt í baráttunni. Ég veit að það getur reynst erfitt og maður þarf oft og mörgum sinnum á aðstoð að halda frá sínum nánustu eða fagaðilum en þetta er gífurlega mikilvægt. Depurð og þunglyndi vinna með krabbameinsfrumunum á meðan gleði, bjartsýni og baráttuvilji hjálpa líkamanum þínum að verða heilbrigður á ný. Börn með krabbamein - 13


Hvað er jáeindaskönnun? í æð og ef um er að ræða FDG þarf að bíða í klukkustund áður en skannað er. Sjálf skönnunin tekur hálfa til eina klukkustund og þarf viðkomandi að liggja nánast alveg kyrr meðan á henni stendur til að fá sem skarpastar myndir, svipað og í segulómun. Nokkur geislun fylgir rannsókninni, svipuð og við venjulega sneiðmyndarannsókn, en hún stendur stutt þar sem þeir ísótópar sem eru notaðir hafa stuttan helmingunartíma og eru horfnir úr líkamanum eftir fáeinar klukkustundir. Venjulega þolist rannsóknin vel, ólíklegt að fólk fái ofnæmisviðbrögð af þeim efnum sem eru notuð og ekki á að vera um sérstök eftirköst að ræða. Þeir sem þjást af innilokunarkennd gætu átt erfitt með að fara í svona rannsókn svipað og segulómrannsóknir.

Gefur upplýsingar um hvort meðferð skilar árangri Ólafur Gísli Jónsson

læknir í krabbameinsteymi Barnaspítala Hringsins

Gefur þrívíða mynd Jáeindaskanni er myndgreiningartæki sem gefur þrívíða mynd af líkamanum eða hluta hans eins og fæst við segulómrannsókn (MRI) eða tölvusneiðmyndatöku (CT). Það sem jáeindaskönnun hefur framyfir hinar aðferðirnar er að hægt er að fá stafrænar upplýsingar, t.d. hvort um lifandi vef sé að ræða eða ekki eða hve mikil efnaskipti séu þar. Til að fá fram svona mynd er gefið í æð geislavirkt efni sem hefur tvenns konar eiginleika, gefur frá sér jáeindir og getur tekið þátt í líffræðilegum ferlum eða efnaskiptum í líkamanum. Efni með þessa eiginleika eru ekki til í náttúrunni, heldur þarf að búa þau til með flóknum aðferðum. Það efni sem mest hefur verið notað við jáeindaskönnun í læknisfræði er fluorodeoxyglucose (FDG). Þetta efni er byggingarlega náskylt þrúgusykri (glúkósa) og tekur þátt í efnaskiptum á sama hátt. Við þessa sykursameind er síðan tengt geislavirkt flúor (flúor-18) sem gefur frá sér jáeindir. Jáeindir eru litlar efnisagnir í atómum, svipaðar og rafeindir nema þær eru jákvætt hlaðnar. Jáeindir, sem efni gefa frá sér, ferðast í vefjum stutta vegalengd (1 mm) og tengjast síðan rafeindum. Við 14 - Börn með krabbamein

það myndast geislun sem tækið nemur og tölva reiknar út staðsetningu geislunarinnar, þ.e. nákvæmlega hvaðan hún er upprunnin. Á þennan hátt fæst þvívíddarmynd af viðkomandi svæði út frá uppruna geislunarinnar og þar sem er meiri geislun hefur meira af sykurefninu FDG verið tekið upp og farið inn í efnaskipti á þeim stað.

Geislavirkt efni gefið í æð Jáeindaskönnun gefur ekki nákvæma anatómíska mynd af útliti þess líkamshluta eða líffæris sem verið er að rannsaka. Þess vegna er jafnframt gerð tölvusneiðmyndarannsókn eða segulómun en þær rannsóknir sýna útlit vefja og blóðflæði mun betur. Á mörgum stöðum eru til tæki sem gera báðar rannsóknirnar samtímis (PET-CT eða PET-MRI). Þessi tæki eru svipuð útlits og venjuleg sneiðmynda- eða segulómtæki. Mælt er með að sjúklingar séu fastandi í 4-6 klst. fyrir rannsóknina en mega drekka vatn. Nauðsynlegt er að láta vita um lyf sem sjúklingur tekur, sérstaklega sykursjúkir sem nota insúlín, þar sem það er hormón sem stýrir upptöku sykurs í frumur og getur því haft áhrif á niðurstöðurnar. Geislavirka efnið er gefið

Helsti kostur jáeindaskönnunar í krabbameinslækningum er að gera rannsóknir við greiningu betri eða næmari, t. d. þegar verið er að leita að meinvörpum. Einnig er hægt að fylgjast betur með og fá fyrr upplýsingar um hvort ákveðin meðferð er að skila tilætluðum árangri, þar sem breytingar á starfsemi og efnaskiptum æxla koma mun fyrr í ljós en breytingar á stærð þeirra, sem eru þær upplýsingar sem fást með því að gera eingöngu CT eða MRI. Hingað til hefur jáeindaskönnun verið notuð einna mest í meðferð eitilfrumukrabbameina en í vaxandi mæli til að fylgjast með ýmsum öðrum tegundum fastra æxla. Í sumum tilvikum þegar um föst æxli er að ræða geta sést breytingar eða fyrirferðir á CT eða MRI sem óvíst er hvort séu lífvænlegar. Með jáeindaskanna er þá hægt að fá upplýsingar um þetta og þannig í mörgum tilvikum spara sjúklingi skurðaðgerðir, sýnatökur eða viðbótarmeðferð. Jáeindaskönnun er hins vegar venjulega ekki hjálpleg á sama hátt í hvítblæði, eins og gildir reyndar líka um CT og MRI, þar sem þá er yfirleitt ekki um æxlismyndun að ræða.

Hröð þróun í framleiðslu nýrra burðarefna Jáeindaskönnun hefur verið notuð í vaxandi mæli við rannsóknir á sjúkdómum í heila og annars staðar í miðtaugakerfi. Hún er t.d. talin


Jáeindaskönnun (positron emission tomography, PET) hefur verið talsvert í umræðunni undanfarið, m.a. vegna þess að Íslensk erfðagreining ákvað á dögunum að gefa Landspítalanum tæki til slíkra rannsókna. Í þessu greinarkorni er ætlunin að lýsa því stuttlega hvers konar rannsóknir er um að ræða og í hvaða tilvikum þær geta komið að gagni í læknisfræði.

geta gefið mikilvægar upplýsingar í Alzheimerssjúkdómi og einnig í flogaveiki og sjúkdómum þar sem annars konar truflun er á starfsemi heilans. Einnig við rannsóknir á hjarta og hvort blóðflæði til hjartavöðvans sé í lagi. Mögulegt er að nota önnur efni en FDG í þessum tilvikum og fer það m.a. eftir því hvaða upplýsingum er verið að leita eftir. Verið er að þróa mörg ný burðarefni fyrir jáeindaísótópa sem munu auka notagildi jáeindaskönnunar og gera mögulegar margs konar starfrænar rannsóknir á fleiri líffærum og vefjum. Eins og á mörgum fleiri sviðum læknisfræði hefur þróunin verið mjög hröð á undanförnum árum.

Sérstakt hús væntanlega reist undir sk. cyclotron Lengi vel var talið erfitt að setja upp jáeindaskanna hér á landi þar sem efnið sem notað er í rannsókninni þarf að búa til jafnóðum og endist mjög stutt. Helmingunartími geislavirks flúors í FDG er innan við 2 klst. Einn möguleiki var þó að kaupa efnið frá nágrannalöndunum, t.d. Skotlandi, og flytja það hingað með hraðsendingu. Þessi staða hefur hins vegar

breyst á allra síðustu árum, bæði vegna tækniframfara við framleiðslu efnanna og einnig vegna þess að í sumum tilvikum er mögulegt er að nota efni við rannsóknina sem eru stöðugri eða með lengri helmingunartíma. Þegar jáeindaskanni verður tekinn í notkun hér á landi mun vera ætlunin að reisa hús undir svokallaðan cyclotron, sem er tæki sem býr til efnið sem gefur frá sér jáeindir, t.d. flúor-18 þegar FDG er notað. Áætlað er að hús fyrir cyclotron og aðra þætti í framleiðslu FDG og mögulega annarra efna rísi á lóð Landspítalans við Hringbraut. Ef þörfin fyrir jáeindaskönnun hér á landi verður það mikil að röntgendeildir utan spítalans, t.d. Röntgen Domus eða Orkuhúsið, ákveða að kaupa jáeindaskanna, gætu þær keypt efni fyrir sínar rannsóknir þaðan.

Rannsóknum gæti fjölgað úr 200 í 2.000

þessu ári, en margfalt fleiri rannsóknir þyrfti að vera hægt að gera. Talið er að miðað við núverandi forsendur sé þörf á að gera nálægt tvö þúsund rannóknir á ári hér á landi. Þar að auki er ljóst að notagildi jáeindaskönnunar á eftir að aukast og þeim tilvikum að fjölga verulega þar sem rannsóknin getur komið að gagni í meðferð ýmissa sjúkdóma. Hagræðið af því að fá tæki til þessara rannsókna hingað til lands er því augljóst og höfðingleg gjöf Íslenskrar erfðagreiningar þakkarverð.

Helsti kostur jáeindaskönnunar í krabbameinslækningum er að gera rannsóknir við greiningu betri eða næmari.

Hingað til hefur jáeindaskönnun í nærri 90% tilfella verið vegna meðferðar krabbameinssjúklinga. Undanfarið hafa sífellt fleiri sjúklingar farið til Kaupmannahafnar í þessa rannsókn, stefnir í nærri 200 á

Börn með krabbamein - 15


Allir syngja saman á laugardagskvöldinu með Ingó veðurguði.

Sumarhátíð SKB var að vanda haldin síðustu helgina í júlí í Smáratúni í Fljótshlíð. Rétt tæplega 100 félagsmenn mættu, þar af nokkrar nýjar fjölskyldur, veðrið lék við gesti og dagskráin var hefðbundin.   Á föstudagskvöld voru snæddir hamborgarar og meðlæti í boði Matborðsins og á laugardag flutti hópurinn sig inn í Múlakot og þáði útsýnisflug í boði félaga í AOPA, Félagi íslenskra einkaflugmanna. Fluginu lauk með nammiregni sem fyrir suma gesti er sennilega hápunktur hátíðarinnar. Þar var líka boðið upp á kleinur og harðfisk frá velgjörðamönnum félagsins á Hvammstanga, kaffi og meðlæti.

Ingó stillir sér upp með tryggum aðdáendum.

Trampólínið var mjög vinsælt hjá yngstu krökkunum.

Dagur Þór, Stefán og Aron hressir á sumarhátíðinni.

Grillvagninn stóð svo sannarlega fyrir sínu með frábærum mat.

Grillvagninn mætti með veislumat á laugardagskvöld, sem félagsmenn og flugmenn gerðu góð skil, og Ingó veðurguð kom og tók lagið fyrir og með áheyr-endum. Ingó kann svo sannarlega sitt fag og svo mikið er víst að aðdáendum hans fækk-aði ekki þetta kvöld. Að söngstund lokinni naut fólk þess að sitja við varðeldinn og spjalla.   Á sunnudagsmorgun fengu yngstu gestirnir að fara á hestbak og svo var pakkað saman og byrjað að tala um næstu hátíð. 16 - Börn með krabbamein


SKB þakkar hlaupurum kærlega fyrir það sem þeir lögðu á sig og öllum þeim sem hétu á þessa sömu hlaupara. Þeim sem stóðu á hliðarlínunni og hvöttu hlauparana til dáða er líka þakkað en sá hópur mætti að ósekju vera stærri. Með fleira fólki er hægt að vera með enn meiri stemmningu og enn meiri læti.

Myndir: Arnaldur Halldórsson R e y k j av í k u r m a r a þ o n e r m e ð mikilvægustu fjáröflunarleiðum SKB og var hlaupið í ár engin undantekning. Eitt boðhlaupslið og 190 hlauparar skráðu sig á hlaupastyrkur.is og báðu um að áheit á sig rynnu til SKB. Tíu hlauparar söfnuðu meira en 100 þús. krónum hver og alls söfnuðust um 5,6 milljónir króna fyrir félagið. Mestu söfnuðu Olga Færseth og Pálína Guðrún Bragadóttir, Olga 736.000 kr. og Pálína 683.500 krónum. Þær eiga Kolfinnu Rán, tveggja ára, sem er í krabbameinsmeðferð. Eva Björg Guðlaugsdóttir safnaði 245.000 krónum en hún er systir Gunnars Steins Guðlaugssonar sem er í meðferð og Ingunn Embla Kjartansdóttir safnaði 201.500 kr. en bróðir hennar, Ólafur Ingi, er í meðferð. SKB var með borð á skráningarhátíð hlaupsins í Laugardalshöll tvo daga fyrir hlaup og afhenti þar hlaupurum miða með merki félagsins. Í ár lögðu skipuleggjendur hlaupsins enn meiri áherslu en áður á hvatningarstöðvar við

hlaupaleiðina og var SKB með eina slíka á Eiðsgranda þriðja árið í röð. Þar stóð hópur öflugra félagsmanna og fagnaði og hvatti hlauparana þegar þeir fóru framhjá. Skipuleggjendum er þakkað fyrir hversu

vel er að öllu staðið og Íslandsbanka fyrir að búa til styrktarfar veginn hlaupastyrkur.is en án hans væri afrakstur fyrir góðgerðafélög eins og SKB vafalaust mun rýrari.

Reykjavíkurmaraþon er svo sannarlega jákvæður viðburður þar sem fjölmargir fá tækifæri til að láta gott af sér leiða og rækta heilsuna í leiðinni.

Félagsmenn stóðu við Eiðsgranda og hvöttu hlauparana þegar þeir fóru framhjá. Börn með krabbamein - 17


Lífsperlur skiluðu tæpum 10 milljónum Páll V. Sigurðsson tengist Styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna í gegnum dótturson sinn, sem greindist með krabbamein og gekk í gegnum meðferð fyrir allnokkrum árum. Síðla árs 2012 setti Páll sig í samband við félagið og bauð því ágóða af sölu söngbókar sem hann hafði tekið saman og kallaði Lífsperlur. Að verkefninu stóð, auk Páls, prentsmiðjan Leturprent. Bókin var boðin almenningi til kaups í símasölu og stóð salan yfir fram á árið 2014. Þegar upp var staðið hafði ágóðinn af sölu bókarinnar skilað félaginu tæpum 10 milljónum króna en það er með stærri fjáröflunarverkefnum sem efnt hefur verið til styrktar félaginu.

SKB þakkar Páli og Leturprenti kærlega fyrir góðan stuðning.

Á myndinni eru Páll (t.v.) og Burkni Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri Leturprents, með eintök af Lífsperlum.

Hálf milljón safnaðist í kótelettusölu   Golfklúbburinn Tuddi safnaði alls 506.000 kr. á fyrstu styrktarsölu á grilluðum Kótelettum til styrktar Styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna

18 - Börn með krabbamein

en styrktarsalan fór fram á Kótelettunni BBQ Grill Festival á Selfossi í júní. Tuddarnir gáfu SKB 1.500 kótelettur ásamt því að standa vaktina á grillinu á hátíðinni.     Gestir Kótelettunnar létu sitt ekki eftir liggja og voru duglegir í að styrkja átakið og ná sér í kótelettur.

Á meðfylgjandi mynd er Einar Björnsson fulltrúi Kótelettunnar (t.h.), Hjörtur Freyr Vigfússon, fulltrúi Golfklúbbssins Tudda, að afhenda Grétu Ingþórsdóttur framkvæmdastjóra SKB, söfnunarféð sem nam 506.000 kr.


Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna var stofnað 1991 til að styðja við bakið á krabbameinsveikum börnum og fjölskyldum þeirra, bæði fjárhagslega og félagslega, og til að berjast fyrir réttindum þeirra gagnvart hinu opinbera. Á þeim vettvangi hefur náðst mikill árangur en enn er mikil þörf fyrir ýmiss konar

10-12 greiningar á ári

Árlega greinast 10-12 börn á Íslandi á aldrinum 0-18 ára með krabbamein. Hvítblæði og heilaæxli eru algengust. Meðferð við krabbameinum í börnum er yfirleitt mjög hörð en þau eru meðhöndluð með skurðaðgerðum, lyfjameðferðum og geislum. Börnin verða veik og máttfarin meðan á meðferð stendur og eru oft lengi að ná upp fyrri styrk. Þau eru gjarnan algjörlega ónæmisbæld þegar þau eru í meðferðarlotum og geta umgangspestir, sem eru flestu fólki meinlausar, reynst stórhættulegar. Þá er gott að eiga athvarf utan skarkalans en SKB á og rekur tvö hvíldarheimili á Suðurlandi þar sem fjölskyldur barna í meðferð geta komist í skjól þegar á þarf að halda. Húsin eru leigð félagsmönnum þegar fjölskyldur barna í meðferð dvelja ekki í þeim.

stuðning. Það er áfall fyrir alla fjölskylduna þegar einn greinist með krabbamein og hún er allt í einu komin í stöðu sem enginn vill nokkurn tíma þurfa að vera í. Yfirleitt hættir a.m.k. annað foreldrið að vinna um tíma til að sinna veika barninu og verður fjárhagslegt áfall því í flestum tilvikum tilfinnanlegt.

Mömmuhópur, unglingahópur og Angi

SKB stendur fyrir ýmsu félagsstarfi fyrir félagsmenn sína. Krabbameinsveiku börnin á aldrinum 13-18 ára hittast reglulega í félagsaðstöðu SKB eða utan hennar, hafa stuðning hvert af öðru og gera eitthvað skemmtilegt saman. Mæður krabbameinsveiku barnanna hittast mánaðarlega og spjalla. Þó að börnin séu ekki öll með sömu mein þá finnst þeim gott að hittast og bera saman bækur sínar. Foreldrar barnanna sem tapa baráttunni fyrir krabbameini hittast óreglulega og spjalla. Það er sár reynsla sem enginn skilur nema sá sem hefur reynt. Sá hópur hittist alltaf í byrjun aðventu og útbýr skreytingar á leiði barna sinna.

Þjónusta og fasteignir

SKB á tvær íbúðir í Reykjavík fyrir fjölskyldur barna af landsbyggðinni sem þurfa að dvelja í Reykjavík vegna læknismeðferðar barna sinna. Landspítalinn sér um rekstur um úthlutun þeirra íbúða. Ef fjölskyldur krabbameinsveikra barna þurfa ekki á þeim að halda er þeim ráðstafað til annarra landsbyggðarfjölskyldna sem eiga börn á Barnaspítalanum.   SKB greiðir ýmsa þjónustu fyrir skjólstæðinga sína, einkum sálfræðiþjónustu en einnig líkamsrækt og sjúkraþjálfun.   Sem betur fer lifa alltaf fleiri og fleiri það af að greinast með krabbamein og er svo komið að hlutföllin eru um það bil 80% sem lifa og 20% sem deyja.   Fyrir um aldarfjórðungi voru þessi hlutföll akkúrat öfug. En meðferð við krabbameini getur haft ýmsar aukaverkanir og síðbúnar afleiðingar í för með sér, líkamlegar, andlegar og félagslegar og börnin sem læknast geta þurft ýmsa aðstoð í mörg ár eftir að meðferð lýkur.

Félagsstarf, skrifstofa fjáröflun

Félagið stendur fyrir sumarhátíð síðustu helgina í júlí ár hvert. Hún hefur verið haldin í Smáratúni í Fljótshlíð nokkur síðustu ár. Áhugaflugmenn hafa boðið félagsmönnum útsýnisflug yfir Fljótshlíðina við frábærar viðtökur á hverju ári. Árshátíð er haldin einu sinni á ári og 20. desember ár hvert er haldin jólastund og þar minnast félagsmenn Sigurbjargar Sighvatsdóttur en hún gaf félaginu allar eigur sínar árið 1994. Sú gjöf lagði góðan grunn að starfi félagsins og möguleikum þess til að standa vel við bakið á félagsmönnum sínum. Stjórn SKB kemur saman einu sinni í mánuði og tekur þær ákvarðanir sem þarf að taka. Þess á milli er stjórn félagsins í höndum framkvæmdastjóra og þriggja manna framkvæmdastjórnar, sem í sitja formaður, gjaldkeri og framkvæmdastjóri félagsins. Skrifstofa félagsins er í Hlíðasmára 14. Hún er opin alla daga kl. 9-16. Starfsmenn eru tveir. Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna nýtur mikils velvilja og málstaðurinn mikils stuðnings víða í samfélaginu og sem betur fer eru margir sem vilja rétta því hjálparhönd. Þörfin er þó afar brýn og alltaf meiri en félagið myndi vilja geta sinnt. Helstu leiðir félagsins til fjáröflunar hafa verið útgáfa félagsblaðs tvisvar á ári og sala styrktarlína í þau, sala minningarkorta og tækifæriskorta og ýmissa söluvara.

Listmeðferð

Sú nýbreytni hefur verið tekin upp hjá SKB að bjóða börnum í félaginu einkatíma í listmeðferð á skrifstofu félagsins. Nánari upplýsingar gefur Harpa Halldórsdóttir listmeðferðarfræðingur í síma 588 7555.

Samstarf

SKB er eitt aðildarfélaga Umhyggju, félagi til stuðnings langveikum börnum, og á aðild að Almannaheillum, samtökum þriðja geirans. Auk þess er SKB aðili að alþjóðlegum samtökum félaga foreldra barna með krabbamein, CCI (Childhood Cancer International).

Börn með krabbamein - 19


Lionsklúbburinn Ýr býður félagsmönnum SKB til jólastundar í desember eins og undanfarin ár. Jólastundin verður LAUGARDAGINN 19. DESEMBER kl. 14 í AUÐBREKKU 25. Félagsmenn eru vinsamlegast beðnir að skrá þátttöku og láta vita um fjölda á netfangið skb@skb.is Dagskráin verður hefðbundin, fyrir utan hið glæsilega kaffihlaðborð Lionskvenna verður jólasaga, dansað verður í kringum jólatréð og jólasveinar með góðgæti handa börnunum.

20 - Börn með krabbamein


Þessir brandarar eru í miklu uppáhaldi hjá Lúlla núna. Einu sinni voru 2 appelsínur að labba yfir brú. Þá rúllaði ein útí og skrækti: Hjálp! Hjálp! Þá sagði hin: Bíddu ég þarf að skera mig í báta! Einu sinni voru 3 Hafnfirðingar í útilegu. Allt í einu kom stór björn. Tveir Hafnfirðinganna klifruðu uppí tré en sá þriðji fór að hlaupa í kringum það og björnin elti hann. Svo kölluðu hinir tveir á hann: Passaðu þig hann er að ná þér, þá sagði Hafnfirðingurinn: Nei, ég er þremur hringjum á undan! Af hverju fljúga galdranornir um á kústum? Því ryksugur eru svo háværar! Hvað sagði draugurinn við hinn drauginn? Trúirðu á fólk? Bóndi við annan bónda: Hversu margar kindur áttu? Ég veit það ekki. Í hvert sinn sem ég reyni að telja þær sofna ég!

Hvaða 2 skósveinar eru eins? Lúlli fór í bíó um daginn að sjá Skósveinana. Honum fannst myndin rosalega skemmtileg. Tveir skósveinar eru alveg eins. getur þú séð hvaða skósveinar það eru?

Kennarinn var að útskýra fyrir bekknum að sum börn fæddust fyrir tímann. Pétur rétti upp hönd og sagði: Ég var aldeilis heppinn því ég fæddist einmitt á afmælisdaginn minn!

JÓLAsmákökur 500 g hveiti 500 g púðursykur 225 g lint smjör 2 egg 3 tsk. lyftiduft 1 tsk. matarsódi 1 tsk. negull 2 tsk. kanill 2 tsk. engifer

Hitið ofninn í 180°C. Leggið bökunarpappír á bökunarplötur. Allt hrært saman. Hnoðið deigið og útbúið svo lengjur. Skerið í bita og búið til kúlur. Setjið kúlurnar á bökunarplöturnar og fletjið út með fingrunum. Bakið í um 20 mínútur. Börn með krabbamein - 21


Við þökkum stuðninginn Reykjavík 101 hótel ehf., Hverfisgötu 8-10. 101 Reykjavík fasteignasala ehf.,Tjarnargötu 4. 12 tónar ehf., Skólavörðustíg 15. AB varahlutir ehf., Funahöfða 9. Aðalvík ehf., Ármúla 15. Almenna bílaverkstæðið ehf., Skeifunni 5. Apparat ehf., Pósthólf 8127. Árbæjarapótek ehf., Hraunbæ 115. Arkís arkitektar ehf., Kleppsvegi 152. Árni Reynisson ehf., Skipholti 50d. Aros ehf., Sundaborg 5. Ásbjörn Ólafsson ehf., Köllunarklettsvegi 6. Athygli ehf., Suðurlandsbraut 30. Atlantik ehf., Suðurlandsbraut 4a. Augland ehf., Laugavegi 118. B.B. bílaréttingar ehf.,Viðarhöfða 6. B.M.Vallá ehf., Bíldshöfða 7. Barnaverndarstofa, Borgartúni 21. Básfell ehf., Jakaseli 23. Bati - sjúkraþjálfun ehf., Kringlunni 7. BBA Legal ehf., Katrínartúni 2. Bendir ehf., Jöklafold 12. Betra líf - Borgarhóll ehf., Kringlunni 8-12. Betri bílar ehf., Skeifunni 5c. BF-útgáfa ehf., Fákafeni 11. Bifreiðaverkstæði Grafarvogs ehf., Gylfaflöt 24-30. Bílahöllin-Bílaryðvörn hf., Bíldshöfða 5. Bílamálun Halldórs Þ. Nikuláss. sf., Funahöfða 3. Bílamálun Sigursveins Sigurðssonar, Hyrjarhöfða 4. Bílasmiðurinn hf., Bíldshöfða 16. Bílastjarnan ehf., Bæjarflöt 10. Bílaumboðið Askja ehf., Krókhálsi 11. Bílavarahlutir ehf.,Viðarási 25. Bílhagi, Eirhöfða 11. Bjargarverk ehf., Álfabakka 12. Blaðamannafélag Íslands, Síðumúla 23, 3. hæð. Bókhaldsstofa Haraldar slf., Síðumúla 29. Bólstursmiðjan slf., Síðumúla 33. Bólsturverk sf., Kleppsmýrarvegi 8. Borgarbílastöðin ehf., Skúlatúni 2. Brim hf., Bræðraborgarstíg 16. Búseti húsnæðissamvinnufélag, Síðumúla 10. Danfoss hf., Skútuvogi 6. Danica sjávarafurðir ehf., Suðurgötu 10. Decor ehf., Laugavegi 95. DGJ málningarþjónusta ehf., Krummahólum 2. Effect ehf., Bergstaðastræti 10a. Efling stéttarfélag, Sætúni 1. Efnamóttakan hf., Gufunesi. Eignamiðlunin ehf., Grensásvegi 11. Eignaumsjón hf., Suðurlandsbraut 30. Elísa Guðrún ehf., Klapparstíg 25-27. Ennemm ehf., Grensásvegi 11. Evrópulög ehf., Laugavegi 77, 4. hæð. Farfuglar ses., Borgartúni 6. Fasteignasalan Fasteign.is ehf., Suðurlandsbraut 18. Fasteignasalan Garður ehf., Skipholti 5. Fastus ehf., Síðumúla 16. Faxaflóahafnir sf.,Tryggvagata 17. Félag bókagerðarmanna, Stórhöfða 31. Félag íslenskra hljómlistarmanna, 22 - Börn með krabbamein

Rauðagerði 27. Félag skipstjórnarmanna, Grensásvegi 13. Fiskbúð Hólmgeirs ehf., Þönglabakka 6. Fiskmarkaðurinn ehf., Aðalstræti 12. Fjárhald ehf., Pósthólf 32. Fjármálaeftirlitið, Katrínartúni 2. Flutningaþjónusta Arnars ehf., Þingási 46. Forum lögmenn ehf., Aðalstræti 6, 5. hæð. Fótbolti ehf., Beykihlíð 8. Framtak-Blossi ehf., Dvergshöfða 27. Frost Film ehf., Baugatanga 5a. FS flutningar ehf., Giljalandi 9. Fuglar ehf., Katrínartúni 2. Gamla fiskifélagið ehf.,Vesturgötu 2a. Garðmenn ehf., Skipasundi 83. Garðs apótek ehf., Sogavegi 108. Gastec ehf., Bíldshöfða 14. Gísli Hjartarson, Neshömrum 7. Gjögur hf., Kringlunni 7. Gjörvi ehf., Grandagarði 18. Glóey ehf., Ármúla 19. Glófaxi ehf., Ármúla 42. Gluggasmiðjan ehf.,Viðarhöfða 3. Gnýr sf., Stallaseli 3. Guðmundur Arason ehf., Skútuvogi 4. Guðmundur Jónasson ehf., Borgartúni 34. Gull- og silfursmiðjan ehf., Álfabakka 14b. Gullsmíðaverslun Hjálmars Torfasonar, Laugavegi 71. Gúmmísteypa Þ. Lárusson ehf., Gylfaflöt 3. Hagbót ehf., Pósthólf 8728. Hálsafell ehf., Skeifunni 19. Hálsafell ehf., Skeifunni 19. Hamborgarabúlla Tómasar, Geirsgötu 1. Hár ehf., Kringlunni 7. Hársnyrtistofan Höfuðlausnir sf., Hverafold 1-3. HBTB ehf., Bíldshöfða 18. Heildverslunin Glit ehf., Krókhálsi 5. Helgi Björnsson, Blönduhlíð 2. Herrafataverslun Birgis ehf., Fákafeni 11. Hjá Guðjón Ó ehf., Þverholti 13. Höfðakaffi ehf.,Vagnhöfða 11. Hollt og gott ehf., Fosshálsi 1. Hópferðarþjónusta Reykjavík ehf., Brúnastöðum 3. Hreinsitækni ehf., Stórhöfða 37. Hringás ehf., Pósthólf 4044. Húsalagnir ehf., Gylfaflöt 20. Hvíta húsið ehf., Pósthólf 5194. Icelandic Fish & Chips ehf.,Tryggvagötu 11. Icelandic Group hf., Borgartúni 27. IceMed á Íslandi ehf., Ægissíðu 80. Innrammarinn ehf., Rauðarárstíg 33. Intellecta ehf., Síðumúla 5. Internet á Íslandi hf., Katrínartúni 2. Isavia ohf., Reykjavíkurflugvelli. Íslensk endurskoðun ehf., Bogahlíð 4. Ísmar ehf., Síðumúla 28. Jón Pétursson ehf., Bjarkargötu 4. K.F.O. ehf., Sundagörðum 2. K.H.G. þjónustan ehf., Eirhöfða 14. Kirkjugarðar Reykjavíkur,Vesturhlíð 8. Kj. Kjartansson ehf., Skipholti 35. Kjaran ehf., Pósthólf 8660. Kjöthöllin ehf., Skipholti 70.

Kjötsmiðjan ehf., Fossháls 27. Kleifarás dreifing ehf., Ármúla 22. Knattspyrnufélagið Fram, Safamýri 26. Kom ehf., kynning og markaður, Katrínartúni 2. Kraftur hf.,Vagnhöfða 1. Kristján G. Gíslason ehf., Pósthólf 905. Kurt og pí ehf., Skólavörðustíg 2. Kvika banki hf., Borgartúni 25. Kvika ehf., Bjargarstíg 15. Læknasetrið ehf., Þönglabakka 6. Landslagnir ehf., Lautarvegi 30. Landsnet hf., Gylfaflöt 9. Landssamband lögreglumanna, Grettisgötu 89. Leikskólinn Vinaminni ehf., Asparfelli 10. Listasafnið Hótel Holt ehf., Bergstaðastræti 37. Litla bílasalan ehf., Eirhöfða 11. Loftleiðir-Icelandic ehf., Reykjavíkurflugvelli. Loftstokkahreinsun.is, Garðhúsum 6. LOG lögmannsstofa sf., Kringlan 7. Lyfjaver ehf., Suðurlandsbraut 22. Lögmenn Höfðabakka ehf., Höfðabakka 9. Löndun ehf., Kjalarvogi 21. M.G.-félag Íslands, Leiðhömrum 23. Magnús og Steingrímur ehf., Bíldshöfða 14. Marella ehf., Austurstræti 22. Marport ehf., Fossaleyni 16. Martec ehf., Blönduhlíð 2. Matborðið ehf., Bíldshöfða 18. Matthías ehf.,Vesturfold 40. Melabúðin ehf., Hagamel 39. Merking ehf.,Viðarhöfða 4. Merlo seafood ehf., Krókhálsi 4. MS Ármann skipamiðlun ehf.,Tryggvagötu 17. Nasdaq verðbréfamiðstöð hf., Laugavegi 182. Netbókhald.is ehf., Kringlunni 4-12, 8. hæð. Nói-Siríus hf., Hesthálsi 2-4. Nýherji hf., Borgartúni 37. Nýi ökuskólinn ehf., Klettagörðum 11. Nýi tónlistarskólinn, Grensásvegi 3, 3. hæð. Opin kerfi hf., Höfðabakka 9. Orka ehf., Stórhöfða 37. Orkuvirki ehf.,Tunguhálsi 3. Ólafur Þorsteinsson ehf.,Vatnagörðum 4. Ósal ehf.,Tangarhöfða 4. P&S Vatnsvirkjar ehf., Álfheimum 50. Parlogis ehf., Krókhálsi 14. Pasta ehf., Súðavogi 6. Pegasus ehf., Sóltúni 24. Pixel ehf., Ármúla 1. Prentlausnir ehf., Ármúla 15. Prentvörur ehf., Skútuvogi 11. Proteus ehf., Ármúla 24, 3. hæð. Rafco ehf., Skeifunni 3. Rafha ehf., Suðurlandsbraut 16. Rafiðnaðarskólinn ehf., Stórhöfða 27. Rafmagn ehf., Síðumúla 33. Rafsvið sf.,Viðarhöfða 6. Raftíðni ehf., Grandagarði 16. Rafver ehf., Pósthólf 8433. Rangá sf., Skipasundi 56. Rannsóknarþjónustan Sýni ehf., Lynghálsi 3. Reiknistofa bankanna hf., Katrínartúni 2. Reki ehf., Höfðabakki 9. Renniverkstæði Jóns Þorgr. ehf., Súðarvogi 18. Reykjavíkurborg, Borgartúni 12-14. RJ verkfræðingar ehf., Stangarhyl 1a.


Rými - Ofnasmiðjan ehf., Brautarholti 26. S.B.S. innréttingar, trésmiðja, Hyrjarhöfða 3. Sálarrannsóknarfélag Reykjavíkur, Síðumúla 31. Samsýn ehf., Háaleitisbraut 58-60. Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja, SSF, Nethyl 2e. Sanform ehf., Lynghálsi 11. Sérefni ehf., Síðumúla 22. SFR Stéttarfélag í almannaþjónustu, Grettisgötu 89. SÍBS, Síðumúla 6. Sigurjón Arnlaugsson ehf., Skólavörðustíg 14. Sigurjónsson & Thor ehf., Lágmúla 7, 3. hæð. Sínus ehf., Grandagarði 1a. Sjúkraþjálfun Styrkur ehf., Höfðabakka 9. Skipulag og stjórnun ehf., Deildarási 21. Skógarbær, hjúkrunarheimili, Árskógum 2. Skýrslur og skil, Lágmúla 5. Sláturfélag Suðurlands svf., Pósthólf 10093. Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, Skógarhlíð 14. Smith & Norland hf., Nóatúni 4. Smur- og viðgerðarþjónustan ehf., Hyrjarhöfða 8. Sólarfilma ehf.,Tunguháls 8. SP tannréttingar ehf., Álfabakka 14. Sportbarinn, Álfheimar 74. Stál og stansar ehf.,Vagnhöfða 7. Stálbyggingar ehf., Hvammsgerði 5. Stjörnuegg hf.,Vallá. Stoð pallaleiga ehf.,Tunguhálsi 17. Stólpi-gámar ehf., Klettagörðum 5. Suzuki-bílar hf., Skeifunni 17. Svínahraun ehf., Heiðarseli 7. T.ark Arkitektar ehf., Brautarholti 6. Tækniskólinn ehf., Skólavörðuholti. Tæknivélar ehf.,Tunguhálsi 5. Tannálfur sf., Þingholtsstræti 11. Tannbein ehf., Faxafeni 5. Tannlæknast. Sigurðar Rósarssonar, Síðumúla 15. Tannlæknastofa Friðgerðar Samúelsdóttur ehf., Laugavegi 163. Tannlækningar ehf., Skipholti 33. Tannréttingar sf., Snorrabraut 29. Tannsmiðafélag Íslands, Borgartúni 35. Tannþing ehf., Þingholtsstræti 11. Tannval ehf., Grensásvegi 13. THG arkitektar ehf., Faxafeni 9. ÞÓB vélaleiga ehf., Logafold 147. Þór hf., Krókhálsi 16. Þorsteinn Bergmann ehf., Skólavörðustíg 36. Tölvar ehf., Síðumúli 1. Tónmenntaskóli Reykjavíkur, Pósthólf 5171. Tónskóli Sigursveins D. Kristinssonar, Engjateigi 1. Trésmiðja Magnúsar F. Jónssonar, Súðarvogi 54. Tryggingamiðstöðin hf., Síðumúla 24. Úti og inni sf., Þingholtsstræti 27. VA arkitektar ehf., Borgartúni 6. Vagnar og þjónusta ehf.,Tunguhálsi 10. Varahlutaverslunin Kistufell ehf., Brautarholti 16. Veiðiþjónustan Strengir, Smárarima 30. Veiðivon, Mörkinni 6. Vélar og verkfæri ehf., Skútuvogi 1c. Vélaverkstæðið Kistufell ehf.,Tangarhöfða 13. Vélaviðgerðir ehf., Fiskislóð 81. Vélsmiðjan Harka hf., Hamarshöfða 7. Verkfræðistofan Skipatækni ehf., Lágmúla 5. Verksýn ehf., Síðumúla 1.

Verzlunarskóli Íslands ses., Ofanleiti 1. Víkurós ehf., Bæjarflöt 6. Vinnumálastofnun, Kringlunni 1. Vörubílastöðin Þróttur hf., Sævarhöfða 12. VSÓ Ráðgjöf ehf., Borgartúni 20. Yrki arkitektar ehf., Hverfisgata 76. Örninn - Hjól ehf., Faxafeni 8. Össur Iceland ehf., Grjóthálsi 5. Seltjarnarnes Nesskip hf., Austurströnd 1. Vökvatæki ehf., Pósthólf 200, 172, Seltjarnarnesi. Þráinn Ingólfsson, Bollagörðum 43. Vogar Blátt ehf., Kirkjugerði 15. Hársnyrtistofa Hrannar,Vogagerði 14. Kvenfélagið Fjóla, Leirdal 12. Nesbúegg ehf.,Vatnsleysuströnd. Kópavogur Veitingaþjónusta Lárusar Lofts, Nýbýlavegi 32, ALARK arkitektar ehf., Dalvegi 18. Áliðjan ehf., Bakkabraut 16. Allianz Ísland hf., Digranesvegi 1. Arkus ehf., Núpalind 1. Atlantic Tank Storage hf., Hlíðasmára 4. Bakkabros ehf., Hamraborg 5. Betra bros ehf., Hlíðasmára 14. Bifreiðaverkstæðið Toppur ehf., Skemmuvegi 34. Bílaklæðningar hf., Kársnesbraut 100. Bílamálunin Varmi ehf., Auðbrekku 14. Bílasprautun og réttingar Auðuns ehf., Nýbýlavegi 10. Bliki bílamálun / réttingar ehf., Smiðjuvegi 38e. Bókun sf., Hamraborg 1. Borgargarðar ehf.,Vesturvör 24. Conís ehf., Hlíðasmára 11. Debenhams á Íslandi ehf., Smáralind. Dressmann á Íslandi ehf., Smáralind. Dýrabær ehf., Miðsölum 2. Eignarhaldsfél Brunabótafél Ísl., Hlíðasmára 8. Einkabílar ehf., Smiðjuvegi 46e. Fagtækni ehf., Akralind 6, 1. hæð. Farice ehf., Smáratorgi 3. Hagbær ehf., Akurhvarfi 14. Hárný ehf., Nýbýlavegi 28. Húseik ehf., Bröttutungu 4. Iðnaðarlausnir ehf., Skemmuvegi 6. Inmarsat Solutions ehf., Hlíðasmára 10. Íslandsspil sf., Smiðjuvegi 11a. JSÓ ehf., Smiðjuvegi 4b. K.S. málun ehf., Fellahvarfi 5. Kjöthúsið ehf., Smiðjuvegi 24d. Klukkan, verslun, Hamraborg 10. Knattspyrnudeild Breiðabliks, Dalsmára 5. Kvenfélag Kópavogs, Hamraborg 10. Libra ehf., Bæjarlind 2, 3. hæð. Litlaprent ehf., Skemmuvegi 4. Loft og raftæki ehf., Hjallabrekku 1. Löggiltir endurskoðendur ehf., Hlíðasmári 4. Lögmannsstofa SS ehf., Hamraborg 10. MHG verslun ehf., Akralind 4. Nobex ehf., Hlíðasmára 6. Óskar og Einar ehf., Fjallalind 70.

Oxus ehf., Akralind 6. Pólar ehf., Fjallakór 4. Rafholt ehf., Smiðjuvegi 8. Rafís ehf.,Vesturvör 36. S.S. gólf ehf., Borgarholtsbraut 59. Sérmerkt ehf., Smiðjuvegi 11 gul gata. Sérverk ehf., Askalind 5. Stífluþjónustan ehf., Nýbýlavegi 54. Tannhjól ehf., Bæjarlind 12. Tengi ehf., Smiðjuvegi 76. Úlfar Haraldsson, Dalbrekku 16. Vatn ehf., Skólagerði 40. Vatnsvirkinn hf., Smiðjuvegi 11. VEB verkfræðistofa ehf., Dalvegi 18. Veitingaþjónusta Lárusar Lofts, Nýbýlavegi 32. Verifone á Íslandi ehf., Hlíðasmára 12. www.verifone.is Vetrarsól ehf., Askalind 4. Vídd ehf., Bæjarlind 4. Öreind sf., Auðbrekku 3. Garðabær A.H. pípulagnir ehf., Suðurhrauni 12c. Apótek Garðabæjar ehf., Litlatúni 3. Drífa ehf., Suðurhrauni 12c. Garðabær, Garðatorgi 7. Geislatækni ehf., Laser-þjónustan, Suðurhrauni 12c. Grænjaxl, tannlæknaþjónsta ehf., Garðatorgi 7. Hjallastefnan ehf., Lyngási 11. Loftorka Reykjavík. ehf., Miðhrauni 10. Marás ehf., Miðhrauni 13. Metatron ehf., Stekkjarflöt 23. Samhentir kassagerð hf., Suðurhrauni 4. Sámur sápugerð ehf., Lyngási 11. Sjáland ehf.,Vesturbrú 7. Sjóklæðagerðin hf., Miðhrauni 11. Smárinn, bókhald og ráðgjöf ehf., Skeiðakri 8. VAL-ÁS ehf., Suðurhrauni 2b. Würth á Íslandi ehf.,Vesturhrauni 5. Hafnarfjörður Aðalpartasalan ehf., Drangahrauni 10. Aðalskoðun hf., Pósthólf 393. Bæjarbakarí ehf., Bæjarhrauni 2. Bergþór Ingibergsson, Breiðvangi 4. Bílaverkstæði Birgis ehf., Eyrartröð 8. Blikksmíði ehf., Melabraut 28. Dalakofinn sf., Fjarðargötu 13-15. Dalshraun 12 ehf., Hraunbrún 13. Einar í Bjarnabæ ehf., Spóaási 6. Eiríkur og Einar Valur ehf., Norðurbakka 17. Ferskfiskur ehf., Bæjarhrauni 8. Fínpússning ehf., Rauðhellu 13. Fjarðarmót ehf., Bæjarhrauni 8. Frjó Umbúðasalan ehf., Fornubúðum 5. H. Jacobsen ehf., Reykjavíkurvegi 66. Hafnarfjarðarbær, Strandgötu 6. H-Berg ehf., Suðurholti 3. Húsheild ehf., Smyrlahrauni 47. Icetransport ehf., Selhellu 9. Ingvar og Kristján ehf., Trönuhrauni 7c. Kjötkompaní ehf., Dalshrauni 13. Malbikunarstöðin Hlaðbær-Colas hf., Gulhellu 1. Markus Lifenet ehf., Hvaleyrarbraut 3. Pappír hf., Kaplahrauni 13. PON - Pétur O. Nikulásson ehf., Melabraut 21.

Börn með krabbamein - 23


Promens Tempra ehf., Íshellu 8. Raf-X ehf., Melabraut 27. SE ehf., Fjóluhvammi 6. Síld og fiskur ehf., Dalshrauni 9b. Sóley Organics ehf., Bæjarhrauni 10. Spírall prentþjónusta ehf., Stakkahrauni 1. Stálorka ehf., Hvaleyrarbraut 37. Suðulist Ýlir ehf., Lónsbraut 2. Te og kaffi sf., Stapahrauni 4. www.teogkaffi.is Þór, félag stjórnenda, Pósthólf 290. Umbúðir & ráðgjöf ehf., Reykjavíkurvegi 68, 2. hæð. VBS-verkfræðistofa ehf., Bæjarhrauni 20. Vélsmiðja Konráðs Jónssonar sf., Helluhrauni 20. Verkþing pípulagnir ehf., Kaplahrauni 22. Verkvík - Sandtak ehf., Rauðhellu 3. Viking Life-Saving á Íslandi ehf., Íshellu 7. Álftanes Eldvarnarþjónustan ehf., Sjávargötu 13. Garðaþjónusta Íslands ehf., Norðurtúni 7. GP-arkitektar ehf., Litlubæjarvör 4. Reykjanesbær Arey ehf., Stapavöllum 15, 260 Reykjanesbæ. Bílar og hjól ehf., Njarðarbraut 11a, 260 Reykjanesbæ. Bílrúðuþjónustan ehf., Grófinni 15c. Blikksmiðja Ágústar Guðjónss ehf., Vesturbraut 14. BLUE Car Rental ehf., Blikavöllum 3. DMM lausnir ehf., Hafnargötu 91. ESJ vörubílar ehf., Fitjabraut 30, 260 Reykjanesbæ. Fagtré ehf., verktaki, Suðurgarði 5. Ísver ehf., Brekkustíg 22-24, 260 Reykjanesbæ. Málverk slf., Skólavegi 36. Nesraf ehf., Grófinni 18a. Skipting ehf., Grófinni 19, 230 Reykjanesbæ. Stuðlastál ehf., Mávabraut 5d. Suðurflug ehf., Bygging 787, Keflavíkurflugvelli. Traðhús ehf., Kirkjuvogi 11, 233 Reykjanesbæ. TSA ehf., Brekkustíg 38, 260 Reykjanesbæ. Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur, Krossmóa 4, 260 Reykjanesbæ. Verslunarmannafélag Suðurnesja, Vatnsnesvegi 14. Víkurfréttir ehf., Krossmóa 4, 260 Reykjanesbæ. Vísir, félag skipstjórnarmanna á Suðurnesjum, Hafnargötu 90. Grindavík BESA ehf., Baðsvöllum 7. Björgunarsveitin Þorbjörn, Seljabót 10. Cactus veitingar ehf., Suðurvör 8. Fiskmarkaður Suðurnesja hf., Hafnargötu 8. Grunnskólinn í Sandgerði, Skólastræti. Íþróttabandalag Suðurnesja, Baðsvöllum 5. Margeir Jónsson ehf., Glæsivöllum 3. TG raf ehf., Staðarsund 7. Vísir hf., Hafnargötu 16. Garður GSE ehf., Skagabraut 44a. Gröfuþjónusta Tryggva Einar ehf., 24 - Börn með krabbamein

Lyngbraut 7. Sunnugarður ehf., Sunnubraut 3. Sveitarfélagið Garður, Sunnubraut 4. Mosfellsbær Álafoss ehf., Álafossvegi 23. Dalsbú ehf., Dalsbúi. Dalsgarður ehf., Dalsgarði 1. Eignarhaldsfélagið Bakki ehf., Þverholti 2. Elektrus ehf., Bröttuhlíð 1. Fagverk verktakar ehf., Spóahöfða 18. Garðagróður ehf., Suðurreykjum 2. Glertækni ehf.,Völuteigi 21. Guðmundur S. Borgarsson ehf., Reykjahvoli 33. Hásteinn ehf., Grenibyggð 9. Ísfugl ehf., Reykjavegi 36. Múr og meira ehf., Brekkutanga 38. Nonni litli ehf., Þverholti 8. Reykjabúið ehf., Suðurreykjum 1. Reykjalundur, Reykjalundi. RG lagnir ehf., Furubyggð 6. Skógræktarfélag Mosfellsbæjar, Hlégarði. Vélsmiðjan Sveinn ehf., Flugumýri 6. Akranes Bifreiðastöð Þórðar Þ. Þórðarsonar, Smiðjuvöllum 15. Bílver ehf., Innnesvegi 1. Byggðasafnið, Görðum. Edda Vigfúsdóttir, Dalbraut 16. Eyrarbyggð ehf., Eyri, 301 Akranesi. Glit málun ehf., Einigrund 21. Gylfi Þórðarson, Kirkjubraut 28. JG tannlæknastofa sf., Kirkjubraut 28. Model ehf., Þjóðbraut 1, 300 Akranes. Runólfur Hallfreðsson ehf., Álmskógum 1. Sjúkraþjálfun Georgs, Kirkjubraut 28. Skaginn hf., Bakkatúni 26. Smurstöð Akraness sf., Smiðjuvöllum 2. Vélaleiga Halldórs Sigurðssonar ehf., Smiðjuvöllum 10. Verkalýðsfélag Akraness, Sunnubraut 13. Borgarnes Framköllunarþjónustan ehf., Brúartorgi 4. Landnámssetur Íslands, Brákarbraut 13-15. Rafþjónusta Þorsteins, Húsafelli 5. Samtök sveitarfélaga Vesturlands, Bjarnarbraut 8. Tannlæknastofa Hilmis ehf., Berugötu 12. Vélabær ehf., Bæ, Bæjarsveit. Vélaverkstæði Kristjáns ehf., Brákarbraut 20. Stykkishólmur Þórsnes ehf., Reitavegi 14. Grundarfjörður Héraðssamband Snæfells- og Hnappadalssýslu, HSH. Ólafsvík Fiskmarkaður Íslands hf., Norðurtanga. Steinunn hf., Pósthólf 8. Snæfellsbær Bárður SH 81 ehf., Staðarbakka, 356 Snæfellsbæ. Hellissandur Breiðavík ehf., Háarifi 53.

Esjar ehf., Hraunási 13. Hjallasandur ehf., Dyngjubúð 4. Hópferðabílar Svans Kristóferssonar ehf. hopferd@simnet.is KG Fiskverkun ehf., Melnesi 1. Kristinn J Friðþjófsson ehf., Háarifi 5. Búðardalur Rafsel Búðardal ehf.,Vesturbraut 20c. Ísafjörður H.V.-umboðsverslun ehf., Suðurgötu 9. GG málningarþjónusta ehf., Aðalstræti 26. Ráðhús ehf., Engjavegi 29. Sjúkraþálfun Vestfjarða ehf., Eyrargötu 2. Vélsmiðjan Þristur ehf., Sindragötu 8. Bolungarvík Endurskoðun Vestfjarða ehf., Aðalstræti 19. Klúka ehf., Holtabrún 6. Sigurgeir G. Jóhannsson ehf., Hafnargötu 17. S.Z.Ól. trésmíði ehf., Hjallastræti 26. Verkalýðs- og sjómannafélag Bolungarvíkur, Hafnargötu 37. Vélvirkinn sf., Hafnargötu 8. Súðavík Sigurdís Samúelsdóttir, Holtagötu 25. Suðureyri Klofningur ehf., Aðalgötu 59. Patreksfjörður Árni Magnússon, Túngötu 18. Eiður B Thoroddsen, Sigtún 7. Grunnslóð ehf., Arnórsstaðir-Neðri. Tannlæknastofa Jakobs Jónssonar, Stekkum 1. Tálknafjörður Gistiheimilið Bjarmalandi ehf., Bugatúni 8. Þórsberg ehf., Pósthólf 90. Þingeyri Brautin sf.,Vallargötu 8. F&S hópferðabílar ehf.,Vallargötu 15. Skjólskógar á Vestfjörðum, Fjarðargötu 2. Hólmavík Bjartur ehf.,Vitabraut 17. Potemkin ehf., Laugarhóli. Thorp ehf., Borgabraut 27. Árneshreppur Hótel Djúpavík ehf. Hvammstangi Bílagerði ehf., Ásbraut 6. Hársnyrtistofa Sveinu Ragnarsd., Höfðabraut 6. Kaupfélag Vestur-Húnvetninga, Strandgötu 1. Steypustöðin Hvammstanga ehf., Melavegi 2. Blönduós Búnaðarsamband Húnaþings og Stranda, Húnabraut 13. Húnavatnshreppur, Húnavöllum. Kvenfélag Svínavatnshrepps, Auðkúlu 2. Léttitækni ehf., Efstubraut 2. Skagaströnd Kvenfélagið Hekla. Sjávarlíftæknisetrið BioPol ehf., Einbúastíg 2.


Verkfræðistofa Skagastrandar ehf., Strandgötu 30. Sauðárkrókur Bifreiðaverkstæðið, Sleitustöðum. Bókhaldsþjónusta KOM ehf.,Víðihlíð 10. Dögun ehf., Hesteyri 1. FISK-Seafood ehf., Háeyri 1. Hólalax hf., Hólum 1. Iðnsveinafélag Skagafjarðar, Sæmundargötu 7. Kaupfélag Skagfirðinga, Ártorgi 1. K-Tak ehf., Borgartúni 1. Ó.K. gámaþjónusta-sorphirða ehf., Borgarflöt 15. Tannlækningastofa Páls Ragnars ehf., Sæmundargötu 3a. Vinnuvélar Guðmundar/Skúla sf., Borgarröst 4. Vörumiðlun ehf., Eyrarvegi 21. Varmahlíð Álftagerðisbræður ehf., Álftagerði. Skógræktarfélag Skagfirðinga, Marbæli. Hofsós Vesturfarasetrið, Suðurbraut 8. Fljót Sigrún Svansdóttir, Skeiðsfossvirkjun. Siglufjörður Björgunarsveitin Strákar, Tjarnargötu 18. Genís hf., Pósthólf 57. Akureyri Akureyrarapótek ehf., Kaupangi Mýrarvegi. Amber hárstofa ehf., Hafnarstræti 92. Auris medica ehf., Austurberg. ÁK smíði ehf., Njarðarnesi 4. B. Hreiðarsson ehf., Þrastalundi. Baugsbót ehf., Frostagata 1b. Bessi Skírnisson ehf., Kaupangi Mýrarvegi. Bifreiðaverkstæði Bjarnhéðins ehf., Fjölnisgötu 2a. Blikkrás ehf., Óseyri 16. Bútur ehf., Njarðarnesi 9. Byggingarfélagið Hyrna ehf., Sjafnargötu 3. Dýralæknaþjónusta Eyjafjarðar ehf., Perlugötu 11. Eining-Iðja, Skipagötu 14. Garðverk ehf., Pósthólf 110. Grand ehf., Jörvabyggð 10. Hafnasamlag Norðurlands, Fiskitanga. HGH verk ehf., Súluvegi. Hljóðfærahúsið ehf., Geislagötu 14. Hnýfill ehf., Brekkugötu 36. Höldur ehf., Pósthólf 10. Húsprýði sf., Múlasíðu 48. Jafnréttisstofa, Borgum. Keahótel ehf.,. Pósthólf 140. Kollgáta ehf., Kaupvangstræti 29. Lögmannshlíð, lögfræðiþjónusta ehf., Pósthólf 271. Menntaskólinn á Akureyri, Eyrarlandsvegi 28. Miðstöð ehf., Draupnisgötu 3g. Múriðn ehf., Mýrartúni 4. Myndlistaskólinn á Akureyri ehf., Kaupvangsstræti 14. Pípulagnaþj. Bjarna Fannberg Jónassonar ehf., Melateigi 31. Rafeyri ehf., Norðurtanga 5.

Raftákn ehf., Glerárgata 34. Samson ehf., Sunnuhlíð 12. Skóhúsið, Brekkugötu 1a. Steypustöð Akureyrar ehf., Sjafnarnesi 2. Tannlæknastofa Árna Páls Halldórssonar, v/Mýrarveg. Tölvís sf., Ljómatúni 12. Tónsport ehf., Strandgötu 3. Túnþökusala Kristins ehf., Fjölnisgötu 6i. Vélsmiðjan Ásverk ehf., Grímseyjargötu 3. Ösp sf., trésmiðja, Furulundi 15f. Grenivík Darri ehf., Hafnargötu 1. Jónsabúð ehf., Túngötu 1-3. Grímsey Sigurbjörn ehf., Öldutúni 4. Sæbjörg ehf., Öldutúni 3. Dalvík BHS ehf., Fossbrún 2. Níels Jónsson ehf., Hauganesi. Tréverk ehf., Grundargata 8-10. Vélvirki ehf., Hafnarbraut 7.

Gunnarsstofnun, Skriðuklaustri. Héraðsprent ehf., Miðvangi 1. Hitaveita Egilsstaða og Fella ehf., Einhleypingi 1. Skrifstofuþjónusta Austurlands ehf., Fagradalsbraut 11. Tréiðjan Einir ehf., Aspargrund 1. Ylur ehf., Miðási 43-45. Þ.S. verktakar ehf., Miðási 8-10. Ökuskóli Austurlands sf., Lagarfelli 11. Seyðisfjörður Gullberg ehf., Hafnargötu 47. Borgafjörður eystra Fiskverkun Kalla Sveins ehf.,Vörðubrún. Eskifjörður Egersund Ísland ehf., Hafnargötu 2. Fjarðaþrif ehf., Strandgötu 46. Lindin, fasteignir, Útkaupstaðarbraut 1. Slökkvitækjaþjónusta Austurlands ehf., Strandgötu 13a. Neskaupstaður Síldarvinnslan hf., Hafnarbraut 6.

Hrísey Brekkan ehf., Brekkugötu 5.

Fáskrúðsfjörður Loðnuvinnslan hf., Skólavegi 59.

Húsavík Bílaleiga Húsavíkur ehf., Garðarsbraut 66. Bílaþjónustan ehf., Garðarsbraut 52. Fatahreinsun Húsavíkur sf., Túngötu 1. Fjallasýn Rúnars Óskarssonar ehf., Hrísateigi 5. Höfðavélar ehf., Höfða 1a. Kristinn Vilhjálmsson, Garðarsbraut 18a. Norðursigling ehf., Hafnarstétt 9. Skóbúð Húsavíkur ehf., Garðarsbraut 13. Stefán Haraldsson, tannlæknir, Auðbrekku 4. Steinsteypir ehf., Stórhóli 71. Val ehf., Höfða 5c.

Stöðvarfjörður Ástrós ehf., Bakkagerði 1.

Laugar Framhaldsskólinn á Laugum, Laugum Reykjadal. Norðurpóll ehf., Laugabrekku. Sparisjóður Suður-Þingeyinga, Kjarna. Mývatn Eldá ehf., Helluhrauni 15. Jarðböðin við Mývatn, Jarðbaðshólum. Kvenfélag Mývatnssveitar, Skútuhrauni 7. Raufarhöfn Hraungerði ehf., Hraunstíg 1. Önundur ehf., Aðalbraut 41 a. Vopnafjörður Bílar og vélar ehf., Hafnarbyggð 14a. Egilsstaðir AFL - Starfsgreinafélag Austurlands, Miðvangi 2-4. Austfjarðaflutningar ehf., Kelduskógum 19. Bílamálun Egilsstöðum ehf., Fagradalsbraut 21-23. Bókráð, bókhald og ráðgjöf ehf., Miðvangi 2-4. Egilsstaðahúsið ehf., Egilsstöðum 2. Glerharður ehf., Miðgarði 13.

Breiðdalsvík Bifreiðaverkstæði Sigursteins ehf., Selnesi 28-30. Dýralæknirinn á Breiðdalsvík, Ásvegi 31. Grábrók ehf., Sólheimum 8. Höfn í Hornafirði Atlas kírópraktík ehf., Hlíðartúni 41. Bókhaldsstofan ehf., Pósthólf 83. Erpur ehf., Norðurbraut 9. Framhaldsskólinn í A-Skaftafellssýslu, Nýheimum. Funi ehf., Ártúni. Jöklaveröld ehf., Hoffelli 2. Sigurður Ólafsson ehf., Hlíðartún 21. Sveitarfélagið Hornafjörður, Hafnarbraut 27. Uggi SF - 47 ehf., Fiskhóli 9. Öræfi Ræktunarsamband Hofshrepps, Hofi. Selfoss Árvirkinn ehf., Eyrarvegur 32. Bifreiðaverkstæðið Klettur ehf., Hrísmýri 3. Bílasala Suðurlands ehf., Fossnesi 14. Bisk-verk ehf., Bjarkarbraut 3 Rh. Búnaðarfélag Bláskógabyggðar, Dalbraut 1 Rh. Byggingafélagið Laski ehf., Gagnheiði 9. Espiflöt ehf., Sólbraut 3. Flóahreppur, Þingborg. GTI Gateway to Iceland ehf., Lágengi 26. Guðmundur Tyrfingsson ehf., Fossnesi C. Hitaveitufélag Gnúpverja ehf., Heiðarbrún. JÁVERK ehf., Gagnheiði 28. Kvenfélag Gaulverjabæjarhrepps, Galtastöðum. Kvenfélag Hraungerðishrepps, Langstöðum, Flóahreppi. Landstólpi ehf., Gunnbjarnarholti. Börn með krabbamein - 25


Pylsuvagninn Selfossi, Berghólum 15. Ræktunarsamband Flóa og Skeiða, Gagnheiði 35. Strá ehf., Sandlækjarkoti. Súperbygg ehf., Eyrarvegi 31. Tannlæknaþjónustan slf., Austurvegi 10. Hveragerði Garðyrkjustöð Ingibjargar ehf., Heiðmörk 31. Bílaverkstæði Jóhanns ehf., Austurmörk 13. Kjörís ehf., Austurmörk 15. Þorlákshöfn Guðni Pétursson, Hafnarbergi 1. Járnkarlinn ehf., Unubakka 25. Þorlákskirkja, Básahrauni 4. Laugarvatn Ásvélar hf. Hrísholti 11. Menntaskólinn að Laugarvatni. Flúðir Flúðasveppir, Garðastíg 8. Fögrusteinar ehf., Birtingaholti 4. Hraunamannahreppur, Akurgerði 6. Hella Strókur ehf., Grásteini. Hvolsvöllur Árni Valdimarsson, Akri. Bu.is ehf., Stórólfsvelli. Byggðasafnið Skógum, Rangárþing eystra.

Hellishólar ehf., Hellishólum. Krappi ehf., Ormsvöllum 5. Nínukot ehf., Stóragerði 8. Vík Hrafnatindur ehf., Smiðjuvegi 13. Mýrdælingur ehf., Suðurvíkurvegi 5. Kirkjubæjarklaustur Hótel Laki, Efri-Vík. Vestmannaeyjar Áhaldaleigan ehf., Faxastíg 5. Bergur ehf., Friðarhöfn. Einsi kaldi, veisluþjónusta ehf., Bröttugötu 7. www.einsikaldi.is Eyjablikk ehf., Flötum 27. Frár ehf., Hásteinsvegi 49. Hótel Vestmannaeyjar ehf., Vestmannabraut 28. Ísfélag Vestmannaeyja hf., Strandvegi 28. J.R. verktakar ehf., Skildingavegi 8b. Karl Kristmanns, umboðs- og heildverslun ehf., Ofanleitisvegi 15. Langa ehf., Eiðisvegi 5-9. Miðstöðin Vestmannaeyjum ehf., Strandvegi 30. Net ehf., Pósthólf 90. Ós ehf., Illugagötu 44. Skipalyftan ehf., Pósthólf 140. Tvisturinn ehf., Faxastíg 36. Vélaverkstæðið Þór ehf., Norðursundi 9. Vestmannaeyjabær, Ráðhúsinu. Vöruval ehf.,Vesturvegi 18.

Lausnin er Advania advania.is 26 - Börn með krabbamein


JÓLAMYNDIN Í ÁR FRUMSÝND 26. DESEMBER

ður Ríkið fellir ni skó tolla á föt og um áramót.

Við lækkum

strax!

15% afsláttur

m

af öllum vöru út árið!

Börn með krabbamein - 27



VONar hálsmen og armbönd

Armband: stálhringur með leðuról 3.500 kr.

Hálsmen: silfurhringur í silfurkeðju 4.500 kr.

Hálsmen: stálhringur í leðuról 4.000 kr.

Hálsmen: stálhringur í stálkeðju 4.000 kr. www.umslag.is

www.skb.is


VIÐ VITUM HVAÐ F PLÚS SKIPTIR MIKLU MÁLI Sú staðreynd að engar tvær fjölskyldur eru eins kallar á mismunandi tryggingavernd. Við bjóðum fjórar F plús tryggingar svo að þú finnir örugglega tryggingavernd sem hentar fyrir fjölskylduna þína. Þetta er einmitt ástæðan fyrir því að fleiri velja F plús en nokkra aðra fjölskyldutryggingu á Íslandi. Komdu í hópinn! VÍS – þar sem tryggingar snúast um fólk. VÍS | ÁRMÚLA 3 | 108 REYKJAVÍK | SÍMI 560 5000 | VIS.IS


JÓLAKORT SKB Jólakort SKB hafa sjaldan verið fallegri - ljósmynd af Þingvallakirkju í vetrarbúningi og jólaleg vatnslitamynd. Hvað er notalegra en að fá handskrifaða kveðju frá góðum vinum og ættingjum á fallegu korti og styðja um leið gott málefni?

Gleðileg jól

Kortunum fylgja umslög, 10 SAMAN Í PAKKA Á 1.400 kr. Ath. að sendingarkostnaður bætist við. Pantanir eru teknar í síma 588 755 eða skb@skb.is Kortin eru seld á skrifstofu og heimasíðu SKB.


Hollir, ristaðir tröllahafrar L

O

KA

K

L

HEI L K

VE

DU

RN

FRATREFJAR HA

KÓL E ST

E

SÓLSKIN BEINT Í HJARTASTAD-


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.