Stúdentablaðið - nóvember 2015

Page 1

Stúdentablaðið

Tölublað 2/ 4

2015-2016



Stúdentablaðið

Skólaárið

Stúdentablaðið nóvember 2015 91. árgangur, 2. tbl Útgefandi: Stúdentaráð Háskóla Íslands Ritstjóri: Nína Hjördís Þorkelsdóttir Ritstjórn Birna Stefánsdóttir Bryndís Silja Pálmadóttir Elín Edda Pálsdóttir Kristinn Pálsson Nína Hjördís Þorkelsdóttir Skúli Halldórsson Blaðamenn Arnór Steinn Ívarsson Birna Stefánsdóttir Birna Varðardóttir Bryndís Silja Pálmadóttir Elín Edda Pálsdóttir Díana Sjöfn Jóhannsdóttir Hörn Valdimarsdóttir Kristinn Pálsson Sunna Mjöll Sverrisdóttir Ljósmyndarar Håkon Broder Lund Julie Runge Axel Sigurðarson Teikning á síðu 4 Halldór Sanchez Prófarkalestur Iðunn Brynjarsdóttir Elín Edda Pálsdóttir Hönnun og umbrot Iona Sjöfn Huntingdon-Williams Prentun Prentmet Upplag 2000 eintök www.studentabladid.is www.facebook.com/studentabladid www.twitter.com/studentabladid Instagram: Studentabladid studentabladid@hi.is

20152016


Ísland fyrir Íslendinga?

Yfirskrift 2. tölublaðs Stúdentablaðsins veturinn 2015–2016 er „Ísland fyrir Íslendinga?“. Því miður hefur þetta sorglega viðhorf, að landið okkar ætti fyrst og fremst að byggjast innfæddum Íslendingum, náð að festa sig í sessi í vissum kreðsum hér á landi. Ágreiningur vegna innflytjenda- og utanríkismála er þó síður en svo séríslenskt vandamál en öfgahægriöfl sækja óðum í sig veðrið á Vesturlöndum. Múslimar eru sá hópur fólks sem á sérstaklega undir högg að sækja. Hin pólitíska ólga sem ríkt hefur í Miðausturlöndum síðastliðna áratugi og hryðjuverk sem fylgt hafa í kjölfarið hafa síst hjálpað til við að sporna gegn hræðslu og hatursáróðri í garð múslima og íslamskra trúarbragða. Fleyg orð Willams Hazlitt, að fordómar séu afsprengi fáfræði, hafa gjarnan verið notuð til útskýringar á fordómum og hræðslu fólks í garð útlendinga. Þau hafa verið sögð ótal sinnum en fela þó í sér mikinn sannleik. Hins vegar er erfitt að skilja hvernig lítið velferðarríki, eins og Ísland, getur sundrast vegna skoðana sem grundvallast af fáfræði. Búa ekki allir Íslendingar við þann munað að geta aflað sér nægilegrar þekkingar til þess að öðlast skilning á öðrum menningarheimum og trúarbrögðum sem eru okkur framandi? Ég tel að lykilástæðan fyrir fáfræði margra Íslendinga sé leti eða letileg hugsun. Letin hefur raunar margar birtingarmyndir: fólk er latt við að afla sér þekkingar, það nennir ekki að vinna úr upplýsingum á skynsamlegan og skipulagðan hátt og það nennir ekki að hugsa sjálfstætt og gagnrýnið. Þrátt fyrir letina vill fólk skilyrðislaust taka afstöðu og þar sem hryðjuverk íslamskra vígasveita á vestrænni grundu bera hæst í fjölmiðlum á Vesturlöndum er

Nína Hjördís Þorkelsdóttir

auðveldast í stöðunni – fyrir hinn lata – að taka afstöðu á móti múslimum eins og þeir leggja sig. Skoðun, sem byggist á skorti á gögnum ásamt þeirri einföldunarhyggju að sárafáir aðilar sem tilheyra gríðarstórum og sundurleitum hópi séu lýsandi fyrir eiginleika hans, er óvísindaleg, röng og beinlínis skaðleg. Niðurstaðan er vægast sagt sorgleg því að þegar fólk gerist sekt um leti í hugsun og við þekkingaröflun rætist nefnilega markmið hryðjuverkamannanna: að sá fræjum ótta í huga Vesturlandabúa.

***** Þótt þema blaðsins tengist útlendingahatri og fordómum ákvað ritstjórnin að leggja einnig áherslu á léttara efni enda margir nemendur uppteknir af íþyngjandi próflestri. Nýsköpun fær mikið vægi en í blaðinu eru tvö viðtöl við frumkvöðla – viðmælendurnir eru annars vegar stofnendur ‘startup’ fyrirtækisins Crowbar sem ætla sér að umbylta vestrænum matarvenjum með orkustykkjum úr skordýraprótíni og hins vegar harðduglegir verkfræðinemar sem keppast við að hanna, byggja og aka kappakstursbíl. Hugvitssemi Íslendinga er sannarlega aðdáunarverð en ekki má líta framhjá þeirri staðreynd að hugvit og þekking flóttamanna er auður sem hagur er í að virkja. Bryndís Silja Pálmadóttir fjallar einmitt um mat á menntun flóttafólks í ítarlegri grein sinni í blaðinu. Menntun er Arnóri Steini Ívarssyni jafnframt hugleikin en hann veltir fyrir sér viðhorfi Íslendinga til dönskukennslu og hvort Íslendingar geti yfir höfuð bjargað sér á dönsku í skemmtilegri og fræðandi grein. Í stuttu máli sagt er af nógu að taka.

Gleðilegan lestur!

Ritstjóri Stúdentablaðsins 2015-2016


Efnis yfirlit

Hvað á barnið að heita?

5-7

Hægri- og þjóðernissinnaðir flokkar í Evrópu

8-9

Innleiða skordýraát í vestræna menningu

10-13

Jeg spiser dansk

14-17

Safnað af ástríðu

19

Flóttafólk ekki óskrifað blað …

20-23

Þarftu að endurstilla hugarfarið?

24

Háskólanemar byggja kappakstursbíl

26-27

Ritlistarkeppni Stúdentablaðsins

28-31

Háskólasvæðið: Einar Ben

34

Stúdentakjallarinn kynnir!

37

Sendibréf frá skiptinema

38

Tónlistarstefnan: Samtímatónlist

40-41

Stúdentablaðið mælir með!

42-43

10 eftirlætishlutir

45

Næring í núvitund – hvað er það?

46

Efling styrkir Stúdentablaðið og óskar nemendum góðs gengis í jólaprófunum.


テ行la n

d f yrir テ行len

? a g din


7

Hvað á barnið að heita?

Nafngiftir Íslendinga taka gjarnan breytingum eftir tíðaranda. Áður fyrr þótti vinsælt að skíra börn eftir forfeðrum, ömmum og öfum en nú virðist oft sem nýbakaðir foreldrar séu að keppast við að skapa barni sínu ákveðna sérstöðu í samfélaginu með heldur óvenjulegri nöfnum en menn eru, eða voru, vanir. Þannig hafa bæst við flóruna nokkrar Jasmínar og Aþenur auk Tristana og Úlfa. Flestir bera nafn sitt alla ævi og því er þessi ákvörðun foreldra afar mikilvæg. Nafn getur nefnilega haft áhrif á sjálfsmynd einstaklinga og jafnvel félagsstöðu og starfshorfur þeirra. Ragnheiður Harpa Haraldsdóttir, BAnemi í mannfræði, vinnur nú hörðum höndum að lokaritgerð sinni sem fjallar um eiginnöfn Íslendinga og áhrif þeirra á sjálfsmynd einstaklinga. Ragnheiður hefur titlað sjálfa sig sem „nafnaperra“ vegna óbilandi áhuga á málefninu. Samanborið við aðrar þjóðir hafa Íslendingar ákveðna sérstöðu varðandi nafngiftir en Ragnheiður rannsakar meðal annars þá hefð að skíra eftir draumvitjunum og hún segir að í gamla daga hafi því verið haldið fram að barnið myndi hljóta skaða af ef það yrði ekki skírt eftir boðum draumvitjananna. Þannig blandast þjóðtrú inn í nafnaval en auk þess telur Ragnheiður nöfn hafa miklu skýrari þýðingu á Íslandi heldur en í öðrum löndum. „Flestir Íslendingar vita til dæmis hvað nafn þeirra þýðir,“ segir Ragnheiður. Tristan er skírður í góðæri, Þorgerður í kreppu Að velja nafn á barnið sitt getur verið vandasamt verk enda mun nafnið líklegast fylgja því alla ævi. Rík hefð er hjá Íslendingum að skíra eftir ættingjum en margt annað getur haft áhrif á hugmyndaflug foreldra. Eins og Guðrún Kvaran benti á í bók sinni Nöfn Íslendinga þá geta mannanöfn verið mikilvæg heimild um sögu þjóðarinnar og tíðarandann hverju sinni. Ragnheiður segist sjálf hafa tekið

eftir tengingum við söguleg tímabil á Íslandi. „Í kreppum verður oft samstaða hjá þjóðum og þá byrja allir að leita í hið gamla og ef maður horfir aftur í tímann eru þetta nöfn sem voru líka í gangi í sjálfstæðisbaráttunni, eins og til dæmis Þór og Freyr. Það gerðist aftur núna eftir hrunið 2008. Tristan er mjög líklega fæddur í góðærinu á meðan að Þorgerður er fædd í kreppunni.“ Ef maður rýnir í nafnaskrá Hagstofu Íslands getur maður séð að fólk leitaði meira til alþjóðlegra nafna í góðærinu fyrir hrun en á þeim tíma voru rómönsk-ættuð nöfn vinsæl. Að sama skapi er hægt að sjá tengingu við nöfn úr Biblíunni á tímum kristnitöku á Íslandi. Krúttleg nöfn eru óheppileg Eftir áralanga stúdíu og áhuga á mannanöfnum hefur Ragnheiður tekið eftir að fordómar geta leynt sér á ýmsum stöðum, einnig í hugmyndum um nöfn einstaklinga. „Það breytir ofboðslega miklu fyrir einstakling hvað hann heitir og það getur breytt lífi fólks að heita ömurlegu nafni. Maður myndi kannski frekar ráða einstakling í vinnu sem héti Margrét Þóra heldur en Bláklukka Esmeralda og þú myndir aldrei kjósa Bamba Mána sem forseta, til dæmis.“ Er það þá vegna óvenjuleika nafnanna og tenginga við uppruna þeirra. Oft er því erfitt að neita því að mannanafnanefnd sé ekki algjörlega óþarft fyrirbæri. Mannanafnanefnd vinnur með tilliti til laga um mannanöfn en þau fela í sér ýmis ákvæði, til dæmis ber foreldrum skylda til að nefna eða skíra barn sitt fyrir sex mánaða aldur auk þess sem lögin taka mið af því hvernig nafnið beygist. Sérstakt ákvæði varðar síðan nöfn fólks af erlendum uppruna. Margir hafa mótmælt nefndinni harkalega og vilja að hún verði lögð niður. Nefndir af þessu tagi eru þó ekki séríslenskt fyrirbæri og þeir sem eru henni hliðhollir vilja meina að mannanafnanefnd verndi bæði íslenska tungu

Texti: Díana Sjöfn Jóhannsdóttir *Framhald á næstu síðu

1/3


8

Nýjustu samþykktir mannanafnanefndar:

Útlensk kenninöfn Íslendinga:

KVK Valkyrja Malína Júlíhuld Sæla Þyrnirós

Heida Reed (Heiða Rún Sigurðardóttir) Damon Younger (Ásgeir Þórðarson) Thor Kristjansson (Þorvaldur Davíð) Stony Blyden (Þorsteinn Sindri Baldvinsson)

KK Gígur Hleiður Kórekur

og einstaklinga. Ragnheiður segist ekki hafa neitt á móti mannanafnanefnd sérstaklega. „Mannanafnanefnd er oft að stoppa ýmis nöfn sem láta mann hugsa: hvaða foreldri með réttu ráði myndi vilja skíra barnið sitt þetta? Nöfn geta nefnilega haft áhrif á það hvernig einstaklingum er tekið í samfélaginu og þar með á sjálfsmynd þeirra. Tískan við krúttlegu nöfnin getur elst illa en við eyðum fleiri árum ævi okkar sem fullorðnir einstaklingar heldur en sem börn svo Bambi er kannski ekki eins krúttlegt nafn þegar þú ert orðinn eldri.“ Að kafna undan nafni Foreldrar eiga það stundum til að skíra barn eftir fyrirmynd sinni í lífinu, frægum einstaklingi eða uppáhalds bókmenntapersónu. Einnig hefur það komið fyrir að einstaklingar beri algjörlega óvart sama nafn og einhver þekktur Íslendingur. Samkvæmt þjóðskrá bera tuttugu og átta karlar nafnið Ólafur Ragnar en aðeins einn þeirra er fæddur í forsetatíð nafna síns Grímssonar. Sömuleiðis eru níu sem bera nafnið Eiður Smári. Hvort sem nafngiftin er viljandi eða óviljandi í höfuð opinberrar persónu þá hlýtur slíkt nafn að hafa áhrif á einstaklinginn sem nafnið ber. Samkvæmt Ragnheiði Hörpu er algengt að nöfn geti hreinlega borið fólk ofurliði. „Nöfn geta breytt

2/3

svo miklu fyrir einstaklinga, ímyndaðu þér ef þú myndir heita Vigdís Finnbogadóttir. Það er meira að segja til orðatiltæki yfir þetta: „að kafna undan nafni“.” Þess má geta að frú Vigdís Finnbogadóttir á sér aðeins eina alnöfnu en sú stúlka var skírð snemma í forsetatíð hennar. Fólk tengir nöfn eðlilega við einstaklinga og það er jafnvel algengt að einstaklingar fái andúð á nöfnum vegna þess að einhver sem þeim mislíkaði bar nafnið. „Þetta er oft bara happa-glappa, maður getur alltaf lent í einhverri tengingu. Ég veit til dæmis um einstakling sem er alnafni Karls Vignis Þorsteinssonar, dæmds barnaperra. Hann gæti bara lent í því að húsið hans væri eggjað.“ Íslenskt nafn var krafa Þrátt fyrir að Ragnheiður Harpa fjalli einungis um íslensk eiginnöfn í ritgerð sinni stóðst ég ekki mátið að spyrja hana út í útlensk nöfn á Íslandi og hvernig væri fyrir innflytjendur að bera erlent nafn í samfélaginu. „Af þeim heimildum sem ég hef skoðað hefur mjög hátt hlutfall þeirra sem hafa flutt hingað til lands skipt yfir eða allavega tekið upp nýtt nafn en á tímabili voru miklu strangari nafnalög í gildi. Fram til ársins 1998 neyddust innflytjendur til að taka upp íslenskt nafn.“ Vísar Ragnheiður þar í eldri nafnalög sem kröfðust þess að fólk af erlendum uppruna tæki sér íslenskt


9

nafn til að öðlast ríkisborgararétt. Margir þeirra einstaklinga bera þau nöfn enn í dag. Sem dæmi má nefna Skotann Daða Kolbeinsson (upprunalega Duncan Campbell) sem er fyrsti óbóleikari Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Kólumbíumanninn Eilífan Frið Edgarsson (upprunalega Jorge Ricardo Cabrera Hidalgo). Sá síðarnefndi var mjög mótfallinn því að þurfa að taka upp íslenskt nafn á sínum tíma og íhugaði að taka sér nafnið Ljótur Bolli í mótmælaskyni. Þrátt fyrir breytingu á þessum nauðungarlögum virðist þó alls ekki eins og þjóðin sé algjörlega laus við fordóma gagnvart erlendum nöfnum. Margir þeir sem bera erlent nafn hér á landi lenda iðulega í því að vera ávarpaðir á ensku eða spurðir út í tungumálakunnáttu sína. Sumir grípa hreinlega til þess ráðs að sækja um leiguhúsnæði undir íslensku nafni maka síns. „Að bera nafn sem er ekki íslenskt innan þessara marka sem eru hér er smá steinn í skóinn – það er erfiðara,“ segir Ragnheiður. Hið sama gildir jafnframt um Íslendinga á erlendri grundu. Margir Íslendingar sem vinna í skemmtanabransanum erlendis hafa til að mynda tekið upp erlenda útgáfu af nafni sínu til að auðvelda framburð. Ragnheiður Harpa segist sjálf hafa reynslu af slíku en hún notast við nafnið Heidi þegar hún ferðast en foreldar hennar gáfu henni það nafn þegar fjölskyldan bjó

úti. „Þegar ég útskýri nafn mitt fyrir útlendingum þá finnst þeim það að ég heiti Harpa bara jafn fáranlegt og ef ég héti Ragnheiður Gítar!” segir Ragnheiður og hlær. Að auki virðast foreldrar oft taka meðvitaða ákvörðun um nafngiftir út frá fyrirframgefnu viðmóti í samfélaginu. Ragnheiður Harpa hefur grennslast fyrir um hvað er að gerast í nafnarannsóknum erlendis enda fáar rannsóknir til um þetta hér á landi. „Norska rannsóknin sem ég skoðaði fyrir ritgerðina er mjög merkileg en hún byggir á viðtölum við erlenda foreldra í Noregi þar sem þeir segjast hafa gefið börnum sínum nöfn sem gefa þeim betri möguleika í samfélaginu. Fólk er samt vanara flórunni úti heldur en hér á Íslandi og vonandi með tíð og tíma, þegar við erum búin að búa lengur í fjölmenningarsamfélagi og í samfélagi sem neyðir ekki fólk til að taka upp annað nafn, mun þetta breytast.“

*You can find this article in English on our website, www.studentabladid.is

3/3


10

Hægri- og þjóðernissinnaðir flokkar í Evrópu Mikið hefur verið skrifað og skrafað um uppgang hægri- og þjóðernissinnaðra flokka í Evrópu á síðustu árum. Hér munum við skoða fylgi flokka sem leggja áherslu á það stefnu sinni, í mismiklum mæli, að setja strangari hömlur á innflutning flóttamanna og fólks frá öðrum löndum. Flokkarnir sem eru teknir fyrir hér eru alls ekki einsleitur hópur með sömu markmið, þeir hafa myndast í ólíku pólitísku landslagi og getur stundum verið langt á milli stefna flokkanna, til dæmis hvað

Þýskaland 4,7 % Belgía 3,67% Spánn 0,03% Portúgal 0,5% Ítalía 1,95% Ukraína 4,71% Tékkland 0,86% Slóvakía 4,55% Rúmenía 1,47% Búlgaría 4,52%

Grikkland 7% Litháen 7,3%

varðar trúarleg áhrif, efnahagsmál og félagslega afturhaldsemi. Oft vilja þessir hægriflokkar þó fjarlægjast eða jafnvel segja sig alfarið úr samstarfinu. Það sem sameinar þá er að vilja takmarka frjálst flæði fólks á milli landa, hvort sem það er í atvinnuleit eða á flótta frá hörmulegum aðstæðum og stríðum í heimalöndum sínum. Fylgi þeirra meðal kjósenda í síðustu þingkosningum birtist hér með myndrænum hætti.

Rússland 11,67% Tyrkland 11,9% Eistland 13,7% Holland 10,1 % Bretland 12,6% Frakkland 13,6% Finnland 17,65% Lettland 16,6% Svíþjóð 12,9%

Danmörk 21,1% Noregur 22,9% Sviss 29,4% Austurríki 20,5% Ungverjaland 20,54%

Makedónía 43% Serbía 48,35% Pólland 37,6%

-5%

1/2


11

5-10%

10-20%

20-30%

30-50%.

2/2


12

Innleiða skordýraát í vestræna menningu

Frumkvöðlasetrið Klak Innovit stendur árlega fyrir nýsköpunar- og frumkvöðlakeppninni Gulleggið. Háskóli Íslands er einn af styrktaraðilum keppninnar sem er vettvangur fyrir athafnafólk sem vill öðlast þjálfun og reynslu í mótun viðskiptahugmynda og rekstri fyrirtækja. Þátttakendur koma úr ýmsum áttum og hugmyndirnar sem taka þátt eru jafn misjafnar og þær eru margar. Hugmyndir geta verið á frumstigi eða lengra komnar en þátttaka í keppninni er orðin eins konar gæðastimpill á viðskiptahugmyndir og er þess vegna stökkpallur frumkvöðla til að koma hugmyndum sínum á framfæri. Þátttaka í Gullegginu er ókeypis fyrir nemendur Háskóla Íslands en til þess að taka þátt þarf að senda stutta lýsingu á hugmyndinni fyrir 20. janúar 2016 á www.gulleggid.is. Þann 26. febrúar verða síðan tíu bestu hugmyndirnar valdar til frekari þátttöku. Samhliða keppninni er þátttakendum boðið upp á námskeið, ráðgjöf og aðstoð sérfræðinga. Þetta er tækifæri fyrir háskólanema að fá aðstoð við að þróa hugmyndir sínar og fá þjálfun í samskiptum við alls konar ráðgjafa.

Texti: Sunna Mjöll Sverrisdóttir 1/4

Búi og Stefán segja frá sinni Gulleggshugmynd.

Fjölmargar frábærar hugmyndir hafa tekið þátt í Gullegginu en ein þeirra kom frá félögunum Stefáni Atla Thoroddsen og Búa Bjarmari Aðalsteinssyni, stofnendum fyrirtækisins Crowbar. Strákarnir tóku þátt í Gullegginu síðastliðið vor og höfnuðu í 3. sæti en mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá. Hugmyndin að baki Crowbar er að innleiða skordýraát í vestræna menningu.

„Mig langaði að vinna eitthvað sem tengdist sjálfbærni í framleiðslu og skordýr, sveppir og bakteríur var það þrennt sem ég skoðaði mest“ Þeir framleiða prótínstangirnar Junglebar úr skordýraprótíni, blanda því saman við súkkulaði, döðlur, trönuber og fræ og fá almenning til að borða þær.


13

Þessi hugmynd á rætur sínar að rekja til listnáms Búa en hann lærði vöruhönnun við LHÍ. „Mig langaði að vinna eitthvað sem tengdist sjálfbærni í framleiðslu og skordýr, sveppir og bakteríur var það þrennt sem ég skoðaði mest. Mig langaði líka að breyta viðhorfi fólks til matvælaframleiðslu.“ Úr varð sú hugmynd að nýta skordýr til prótínframleiðslu, en sú framleiðsla er einmitt mun umhverfisvænni og sjálfbærari en mörg önnur matvælavinnsla, eins og til dæmis nautgripaframleiðsla. Búi hafði síðan samband við Stefán, vin sinn sem stundaði nám í viðskiptafræði á þessum tíma, og hugmyndin um að vinna prótínstangir úr skordýraprótíni kom fram á fyrstu stigum verkefnisins. Síðan þá hafa viðbrögðin við vörunni verið ótrúlega góð að sögn Stefáns. „Við höfum haldið margar prófanir á mismunandi stöðum þar sem mikið af fólki hefur komið og fengið að smakka vöruna og líkað vel.“ Vöruna þróuðu þeir vinir í samstarfi við kokkinn Hinrik Ellertsson. Það virðist hjálpa til við markaðssetningu vörunnar hversu spennandi og ný hugmyndin um skordýraát sé. ,,Það er eins og fólk hafi verið að bíða eftir þessu, umræðan um að borða skordýr hefur einhvern veginn alltaf verið rædd sem framtíðarlausn og nú er vonandi komið að því.“ En sjálfbærnis- og umhverfissjónarmið eru þó ekki það eina sem getur selt Junglebar og segir Búi því bragð og áferð vörunnar skipta miklu máli. ,,Þegar upp er staðið velur fólk það sem því finnst gott. Auðvitað skipta til dæmis umbúðirnar líka máli og þegar þú spyrð kúnnahóp hvort að hann myndi vilja kaupa sjálfbærar vörur þá myndi meirhlutinn eflaust segja já. En svo þegar fólk er að drífa sig á leiðinni í sund, með öll börnin, þá tekur það þá vöru í hillunni sem er kunnugleg og fljótleg.“ Margir velta því eflaust fyrir sér hvernig skordýraprótín sé eiginlega á bragðið. Þar segir Búi: ,,Skordýr eru jafn mismunandi og þau eru mörg. Kosturinn við skordýr er að það er oft hægt að stjórna bragðinu af þeim. Ef þú lætur þau borða súra sítrusávexti getur það til dæmis haft mjög mikil áhrif á bragðið. En krybburnar sem

við notum í prótínstangirnar eru mjög bragðlitlar. Þetta er svolítið eins og með hugtakið ,,tastes like chicken“. Það er ekki mikið bragð af hráefninu sjálfu, heldur skiptir eldunaraðferðin þar mestu máli.“ Stefán tekur undir og segir lítið bragð af skordýraprótíninu þar sem það er unnið og framleitt í duftformi. ,,Þetta er svolítið eins og hveiti, það er eiginlega ekkert bragð af hveiti.“ Nemar Háskóla Íslands þurfa ekki að bíða þess lengi að prófa sjálfir þessa nýstárlegu vöru en von er á henni í verslanir á Íslandi á næstu mánuðum.

„Þetta er fyrst og fremst mjög hvetjandi og frábært tækifæri til að kynnast nýju fólki sem er að gera það sama og þú.“ Strákarnir hafa öðlast mikla reynslu í þeirri umgjörð sem búið er að skapa nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum á Íslandi, meðal annars með þátttöku í Gullegginu, Startup Reykjavík og Climate launchpad. Stefán segir Gulleggið hafa hjálpað þeim mikið. ,,Þetta er fyrst og fremst mjög hvetjandi og frábært tækifæri til að kynnast nýju fólki sem er að gera það sama og þú.“ Í keppninni fá þátttakendur tækifæri til þess að ræða við fjárfesta og ráðgjafa og kynna hugmyndir sínar fyrir þeim. ,,Svo hjálpaði þetta mikið með kynningu á fyrirtækinu, þetta fólk sem er að sinna ráðgjöf í keppninni er margt úr þessum sjóðum sem þú þarft að leita til seinna meir. Þá er gott að fólk hafi heyrt af hugmyndinni þinni áður.“ Búi segir þó að ferlið sé líka mjög erfitt og mikilvægt að þetta passi inn í ferilinn hjá þínu frumkvöðlafyrirtæki, þar sem þetta sé mjög tímafrekt líka. ,,Það er gott að hafa hugsað vel um hvað þú vilt gera með hugmyndina þína svo þú vitir hvernig þú getur nýtt þér Gulleggið. En í keppninni fengum við til dæmis frábært tækifæri að kynnast hugbúnaðargeiranum sem við þekktum lítið sem ekkert svo það er margt jákvætt við hana.“ Gulleggið hefur einnig hjálpað Crowbar

*Framhald á næstu síðu

2/4


14

með fjármögnun. Þó að peningaverðlaun í keppninni sjálfri séu ekki himinhá þá segir Stefán að Gulleggið hafi aðstoðað þá mikið við framhaldið. ,,Það hjálpaði til með fjármögnunina að taka þátt í Gullegginu og Startup Reykjavík. En þátttakan hjálpaði líklega mest til undirbúnings fyrir Kickstarter, að hafa góða hugmynd um hvernig átti að ,,pitcha“ hugmyndinni.“ Kickstarter er alþjóðleg hópfjármögnunarsíða sem frumkvöðlar og ný fyrirtæki um allan heim hafa nýtt sér. Strákarnir ákváðu að athuga hvort að alþjóðasamfélagið tæki vel í vöruna og fóru því þessa leið í stað þess að fara í gegnum Karolina Fund, sem er íslensk hópfjármögnunarsíða. Fjármögnunin gekk vonum framar og safnaðist meira en upphaflega var gert ráð fyrir. Stefán segir einnig að Gulleggið hafi hjálpað þeim að byggja upp tengslanet sem þeir segja eitt það mikilvægasta í ferlinu öllu. En frumkvöðlastarfi fylgir mikil vinna sem er oft ólaunuð til að byrja með og getur það tekið á. Er það ómaksins virði? Stefán segir að þeirra

3/4

markmið sé í rauninni að færa fólk nær þeirri hugsun að nota skordýr í matvæli. ,,Við viljum breyta heiminum aðeins. Fá fólk til að breyta hugsun sinni og borða skordýr. Ef peningur fylgir þessu að lokum er það bara plús.“ „Svo erum við þakklátir fyrir allt ótrúlega skemmtilega fólkið sem við höfum fengið að kynnast í gegnum ferlið. Bæði erlendis og hérna á Íslandi. Allt fólkið sem hefur gefið sér tíma frá vinnu til að aðstoða okkur og veita ráðgjöf,“ bætir Búi við. Búi segir jafnframt að það sé aldrei dauður tími og þetta sé ótrúlega gaman. ,,Við Stefán erum búnir að vera vinir síðan í menntaskóla og þekkjumst vel. Það er mikilvægt að mórallinn sé góður í teyminu og að það sé gaman í vinnunni. Ég lendi til dæmis aldrei í þannig vinnudegi að ég horfi á klukkuna og vona að tíminn líði hraðar. Svo mun þessi þekking á ferlinu líka nýtast vel í framtíðinni. Flest fyrirtæki á Íslandi koma eitthvað að, annað hvort þjónustu eða framleiðslu, og við höfum núna reynslu af hvoru tveggja.“


15

Hvaða ráð gefið þið þátttakendum í Gullegginu? Stefán: ,,Að æfa „pitchin“ sín vel. Það sem þessi umgjörð hefur gefið okkur er þjálfun. Við höfum þurft að segja frá hugmyndinni okkar á 1 mínútu, en líka fengið 2 sinnum 40 mínútur til að segja frá hugmyndinni.“

Búi: ,,Að „pitcha“ fyrir mismunandi fólk er mjög mikilvægt. Ef pabbi þinn er bókari, talaðu við hann. Ef mamma þín er vanafastur neytandi, prófaðu að æfa „pitchið“ fyrir hana.“

Ljósmyndir: Håkon Broder Lund /Axel Sigurðarsson 4/4


16

Jeg spiser dansk Tala Íslendingar dönsku?

adestuen Spøjst Flødeskum! Sku v Aftale Grænseoverskridende rlighed Rigmor Elefantsnot De agermus Snolder Nullermænd llidsrepræsentant Bænkebider Danska er skyldufag í grunnskólum landsins og hefur hún í aldaraðir verið liður í menntun Íslendinga. Frá því að Ísland hlaut sjálfstæði frá Dönum hefur hlutur hennar þó farið minnkandi. Árið 1999 urðu þær umbreytingar í íslensku skólakerfi að enska kom í stað dönsku sem fyrsta erlenda tungumál grunnskólabarna. Danska hefur verið kennd sem annað erlenda tungumál síðan þá. Nú er svo komið fyrir dönskukennslu í íslenskum grunnskólum að nemendur læra fæstir dönsku fyrr en í 7. bekk þótt einhverjir skólar byrji að kenna hana örlítið fyrr. Margir vilja meina að viðhorf íslenskra barna til danskrar tungu sé síst af jákvæðum toga. Í BAverkefni sínu, „Kan du lide dansk? En undersøgelse af unge islændinges holdning til danskfaget i folkeskolen“, viðrar Guðrún Tinna Ólafsdóttir áhyggjur sínar af neikvæðu viðhorfi íslenskra barna til dönsku og niðurstöður rannsóknar hennar á viðhorfi grunnskólabarna í 10. bekk eru sláandi:

Texti: Arnór Steinn Ívarsson 1/4

84% úrtaksins töldu að viðhorf jafnaldra sinna til dönsku væri almennt neikvætt. Þetta áhugaleysi íslenskra nemenda, auk ríkjandi stöðu enskunnar sem annars tungumáls Íslendinga er ótvíræð ógn við dönskukunnáttu Íslendinga. Í raun er varla hægt að staðhæfa að Íslendingar geti yfirleitt bjargað sér á dönsku, eða hvað? Danska á sunnudögum Ástæðan fyrir því að danska er kennd í íslenskum grunnskólum er auðvitað sú að ekki er ýkja langt síðan Ísland tilheyrði Danmörku. Auður Hauksdóttir, prófessor í dönsku við Háskóla Íslands og forstöðumaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum segir að stærstu bæir landsins, eins og Reykjavík, Akureyri, Ísafjörður og Seyðisfjörður, hafi á sínum tíma verið undir miklum dönskum áhrifum. Þangað sóttu aðrir landsmenn sér sínar fyrirmyndir að bæjarlífi og lífsstíl. Þeir sem meira máttu sín (kaupmenn og danskmenntaðir embættismenn)


17

umfiduser Laurbærblad Viskeled e Halvfjerds Frådern Flødesku ejligt Tøse Bjældetøfler Fartk Hygge Pøj pøj og fjong! Ju r Brandvæsenet Mode Ark Sjo vildu líkja sem mest eftir dönsku yfirstéttinni, sem sást í ýmsum hefðum, eins og til dæmis að halda kaffiboð í garðinum í kringum dúkað borð og klæðast dönskum búningum. Áhrifa gætti einnig í talmáli – í sumum kaupstöðum töluðu bæjarbúar iðulega saman dönsku á sunnudögum. Við lok nítjándu aldar hafði sjálfstæðisbarátta Íslendinga þegar hlotið byr undir báða vængi og hið íslenska mál var í sókn. Nú voru þeir sem töluðu dönsku sagðir sleikja upp Dani og þeir sakaðir um undirlægjuhátt. Gagnrýnin beindist helst að dönskuslettum. Gullaldaríslenskunni var stillt upp á móti hrognamáli Dana, þeir þýddu engin nýyrði eins og við, þeir voru óskýrmæltir og tungutak þeirra einkenndist af skeytingarleysi. Úrslit þess stríðs eru ekkert leyndarmál, annars væri þetta blað líklegast á dönsku. Dönskulestur var þó ávallt talinn mikilvægur enda var danskan á þessum tíma lykill okkar að

upplýsingaveitum um heiminn. Dönsk tímarit og vikublöð voru mjög vinsæl og um langt skeið var flest íslenskt námsefni á dönsku. Með auknum enskum áhrifum í heiminum hefur þörfin á annarri tungumálakunnáttu en ensku dvínað og óhætt er að fullyrða að sá forsendubrestur hafi orðið til þess að dönskukunnáttu Íslendinga hrakaði. Tæknin, Klovn og Hróarskelda Þrátt fyrir að niðurstöður rannsóknar Guðrúnar Tinnu hafi leitt í ljós að flest grunnskólabörn í 10. bekk telji viðhorf jafnaldra sinna til tungumálsins neikvætt var ekki sömu sögu að segja um tilgang kennslunnar en 63% aðspurðra töldu að dönskunámið gæti gagnast þeim í framtíðinni. Katrín Jónsdóttir, dönskukennari í Réttarholtsskóla, tekur í sama streng og segir að grunnskólabörn sjái meiri tilgang með því að læra dönsku í dag en áður. Þau hafi jafnan jákvætt viðhorf til málsins þegar þau byrja í 7. bekk. Þegar komið er í 8. bekk getur áhuginn dvínað,

*Framhald á næstu síðu

2/4


18 mögulega vegna þyngra efnis. „Neikvætt viðhorf í garð dönskunnar er eins og neikvætt viðhorf í garð allra faga, ef maður nær ekki tökum á náminu er maður væntanlega neikvæður. Ef þeim er kennt að nota málið sér í hag, ekki bara að þjösnast endalaust á málfræði, þá er meira svigrúm til þess að gera námið skemmtilegt. Kennarinn er þarna lykillinn, því áhugasamur kennari gerir námið áhugaverðara,“ segir hún.

dönsku en að Íslendingar væru þó almennt neikvæðir í garð dönskunnar. Algeng skoðun viðmælenda var að fullorðnir væru þeir einu sem hefðu jákvætt viðhorf til dönsku en að unglingarnir væru upp til hópa neikvæðir og áhugalausir. „Ekki unglingarnir allavegana haha,“ og „Man ekki eftir neinum í dönskutímum í skóla sem kunnu að meta málið,“ voru meðal annars innlegg meðlima hópsins í þessa umræðu.

Ungmenni í menntaskóla hafa einnig meiri áhuga á dönsku samkvæmt Viðari Hrafni Steingrímssyni, dönskukennara í Flensborgarskólanum. Hann telur að þetta sé sjónvarpsþáttunum Klovn, Hróarskelduhátíðinni og annarri menningarframleiðslu Dana að þakka. Þetta efni fer betur í ungmenni en annað, eins og Viðar sagði sjálfur: „í gamla daga var bara Matador.“ Þótt þeir þættir séu vissulega frábærir eru þeir kannski ekki í uppáhaldi hjá menntaskólakrökkum. Því gæti verið að áhugi nemenda á grunn- og menntaskólastigi á dönsku sé ekki eins lítill eins og margir halda og sé jafnvel að aukast. En er námið að lagast? Viðar segir að við séum að færast í rétta átt en að því miður sé mikið skorið niður í dönskunni í nýrri námsskrá.

Er samnorrænt mál lausn? Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því að Íslendingar litu upp til Dana og þótti dönsk tunga „fínni“ en íslenskan. Nú gera Íslendingar gjarnan grín að því hvernig Danir tala og þeir hlæja sig sömuleiðis máttlausa að okkur og okkar „skandinavísku“. Danska er ef til vill ekki léttasta skandínavíska tungumálið til þess að læra og því er kannski tímabært að athuga hvort norsku- eða sænskukennsla væri árangursríkari en dönskukennsla í skólum. Þá væri hægt að búa til ágætan grunn í öllum málum sem nemendur geta síðan byggt á ef þeir flytja út til Norðurlandanna. Samnorrænt tungumál er möguleg lausn og gætu allir Norðurlandabúar hagnast á því.

Íslendingar sem flytjast til Danmerkur illa undirbúnir Óformleg könnun sem blaðamaður lagði fyrir meðlimi Facebook-hópsins Íslendingar í Danmörku leiddi í ljós að langflestir meðlimir hópsins töldu dönskukunnáttu Íslendinga vera slaka og kenndu þar margir hreimnum okkar um. Þeir sem svöruðu sögðust flestir ekki hafa verið nógu vel undirbúnir í dönsku þegar þeir fluttu út en sögðust þó hafa náð tökum á málinu heldur hratt. Hvort sem það er dönskukennslu í grunnskóla að þakka eða skyldleika málanna tveggja er erfitt að segja.

Með auknu norrænu samstarfi gæti orðið vitundarvakning á mikilvægi þess að þessi lönd geti talað saman án þess að þurfa að grípa til enskunnar. Þetta þýðir ekki að Íslendingar hafi engan áhuga á Danmörku. Við erum hvergi nærri hætt að flytjast þangað búferlum eða fara þangað í frí og á þetta litla land sér stað í hjörtum margra Íslendinga. Því er ef til vill ekkert fararsnið á skóladönskunni, að minnsta kosti ekki í bili.

Hvað viðhorf Íslendinga til dönsku varðar voru þeir meðlimir Facebook-hópsins sem svöruðu flestir sammála því að þeir Íslendingar sem höfðu einhverja tengingu við Danmörku (höfðu búið þar eða áttu fjölskyldu þar), voru jákvæðir gagnvart

3/4


19

Ná Íslendingar nokkurn tímann tökum á dönskum framburði? Meðlimir Facebook-hópsins Íslendingar í Danmörku minntust margir á að framburður dönskunnar væri helsta hindrun Íslendinga sem reyna að tala dönsku. Dönsk tunga er annáluð fyrir torveldan framburð en til vitnisburðar um það má nefna að dönsk börn eru að jafnaði lengur að læra að tala en börn annarra þjóða. Eitt af einkennum dönsku er ákveðið misræmi milli framburðar og stafsetningar, líkt og í ensku. Auk þess er framburður „errs“ afar ólíkur íslenskum framburði á bókstafnum og fjöldi sérhljóða er mikill í málinu. Margir telja að sænska og norska séu ekki eins flókin í framburði fyrir Íslendinga og að því væri ef til vill heppilegra að læra frekar norsku eða sænsku sem skandínavískt tungumál, í staðinn fyrir dönsku.

4/4


20

í Bóksölu stúdenta

Ekki eyða dýrmætum tíma í að þvælast á milli staða í leit að jólagjöfum. Taktu þér pásu frá próflestri, fáðu þér kaffi og köku á afbragðsverði í Bókakaffi stúdenta og kláraðu jólagjafakaupin í Kaupfélaginu.

Háskólatorgi - www.boksala.is


21

Safnað af ástríðu Kolfinna Elíasdóttir og Inga Björk Guðmundsdóttir eiga sér sérstök áhugamál Sér hlébarðamynstur úr órafjarlægð Kolfinna Elíasdóttir safnar öllu því sem skartar hlébarðamynstri. Hún er 23 ára og er á sínu fyrsta ári í mannfræði. Söfnunin hófst fyrir alvöru á fyrsta árinu hennar í menntaskóla. Nú á hún á tæplega hundrað hluti og erfitt er að sjá nokkuð annað þegar gengið er inn í svefnherbergið hennar. Úr fataskápnum flæða allskyns flíkur í mismunandi dýramynstri. Hlébarðamynstruð regnhlíf, hlaupaskór, sólgleraugu og handklæði er á meðal þess sem finna má í þessu stórbrotna safni. Á rúminu hvíla hlébarðarúmföt úr silki og koddar. Kolfinna segist vera með innbyggða „hlébarðaratsjá“ og sér því hlébarðamynstur úr órafjarlægð. Einnig eru vinir hennar og fjölskylda byrjuð að tengja mynstrið við hana og gefa henni því ósjaldan hlébarðagjafir. Aðspurð að því hvort hún haldi að þessi ástríða muni nokkurn tíma rjátlast af henni, þá svarar hún: „Nei þetta er lífsstíll, eilífðar ást“.

Getur ekki beðið eftir að kaupa brúðarkjólinn Inga Björk Guðmundsdóttir er 21 árs gömul dama frá Álftanesi. Hún er að læra hótelstjórnun og veitingahúsarekstur í HR. Inga hefur safnað galakjólum frá því hún var lítil og á um það bil fimmtán síðkjóla en tæplega hundrað kjóla í heildina. Afi hennar og amma áttu vefnaðarvöruverslun þegar Inga var yngri og átti hún því oft sérsaumaða kjóla. Hana dreymdi alltaf um að vera prinsessa og sá því enga ástæðu til þess að hætta að ganga í fallegum síðkjólum þegar hún varð eldri. í dag notar hún kjólana þó aðeins við fínni tilefni, eins og á jólunum eða á árshátíðum. Inga leyfir sér að kaupa 1–2 kjóla á ári þar sem hún er með fínan afslátt í Prinsessunni í Mjódd, enda fastakúnni. Eftirlætiskjólinn hennar er þessi blái sem hún klæðist á myndinni. Inga sér ekki fyrir endann á söfnuninni og getur ekki beðið eftir að kaupa brúðarkjólinn þegar rétti maðurinn er fundinn.

Texti: Birna Stefánsdóttir

Ljósmyndir: Håkon Broder Lund 1/1


22

Flóttafólk ekki óskrifað blað heldur uppspretta þekkingar og reynslu Hvernig hyggst Háskóli Íslands meta menntun flóttafólks og hvernig mun reynsla þeirra hagnast Íslendingum?

Nýverið birtist í fjölmiðlum frétt þess efnis að íslensk stjórnvöld ætli að bjóða 55 sýrlenskum flóttamönnum hæli hér á landi. Flóttafólk þetta hefur verið tilnefnt af svokallaðri flóttamannanefnd skipaðri af fulltrúum sem tilnefndir hafa verið af innanríkis, utanríkis og velferðarráðuneyti ásamt Rauða krossinum á Íslandi. Ísland nýtur þannig þeirra forréttinda að fá að velja og hafna fólki á flótta, ólíkt ríkjum eins og Líbanon, Jórdaníu og Tyrklandi sem nú eru að kikna undan fjölda flóttafólks og er það ein af þeim ástæðum að aðstæður fyrir flóttafólk í þessum ríkjum eru vægast sagt ómannúðlegar. Fyrrnefndur hópur dvelur nú í einum af fjölmörgum flóttamannabúðum í Líbanon og á þar eflaust enga sæludaga. Talið er að um 1,5 milljón flóttamanna dveljist nú í hinu agnarsmáa landi Líbanon. Hvort sem um moldarsvað í formi tjaldbúða, sem hent hefur verið upp í flýti fyrir sýrlenska flóttamenn, eða steinsteyptar flóttamannabúðir Palestínumanna sem eru nú einnig byggðar Sýrlendingum er um að ræða, þá eru aðstæður búðanna engum manni sæmandi. Í Í frétt um flóttamannahópinn sem væntanlegur er til landsins, sem birtist á mbl.is er vitnað í Stefán Þór Björnsson, formann flóttamannanefndar, þar sem hann segir: „Þetta er mjög fjölbreyttur hópur, þarna er til dæmis pípulagningamaður, rafvirki, verkfræðingur, verkamenn, barþjónn, húsmæður, málari, maður með háskólapróf í enskum bókmenntum, túlkur og þýðandi. Við bindum miklar vonir við það að það muni ganga vel að koma fólki inn í íslenskt samfélag,“ Það er þá líklega hagur allra að innflytjendur og flóttamenn blandist vel inn í það samfélag sem þeir koma inn í sem og að samfélagið virði þá siði,

Texti: Bryndís Silja Pálmadóttir 1/4

venjur og reynslu sem flóttamenn og innflytjendur hafa í fartaskinu. Sú staðreynd virðist nefnilega vera gjörn á að gleymast í umræðu um flóttafólk að flóttamenn eru fjölbreyttur hópur einstaklinga frá ýmsum löndum með ólíkan bakgrunn, menntun og reynslu, rétt eins og Íslendingar. Þeir sýrlensku flóttamenn sem nú bíða milli vonar og ótta í óvissu um hvort evrópsk ríki ákveði að taka við þeim, er oft menntað fólk. Fyrrnefnd frétt sem fjallar um þennan hóp flóttafólks sem boðið hefur verið hæli á Íslandi virðist einnig vera lituð af þeirri hugmynd að það séu forréttindi að búa á Íslandi – að fá inngöngu í litla klúbbinn okkar Íslendinga á hjara veraldar. Þessi hópur hefur fengið ákveðna vottun, ólíkt fólki sem hírist í yfirfullum flóttamannabúðum eða sekkur í djúpan sæ á flótta. Atgervissóun er þegar vandamál á Íslandi Afar mikilvægt er að Íslendingar átti sig á þeim mannauði sem flóttamenn eru, hvað íslenskt samfélag mun græða á því að fá hingað fólk frá ólíkum menningarsvæðum sem og þeim áskorunum sem við þurfum að glíma við í sameiningu. Ein af þessum áskorunum er hvernig íslensk stjórnvöld, ríkisstofnanir og atvinnulífið hyggjast meta menntun og starfsreynslu þeirra flóttamanna sem hingað munu koma. Ef íslensk stjórnvöld munu efna loforð sín þá eiga Íslendingar von á að flóttamönnum fjölgi umtalsvert enda eru einungis fáir sem þegar hafa gert sig heimakomna hér á landi, með leyfi stjórnvalda. Líklegt er að töluvert af þessu fólki verði Sýrlendingar líkt og fyrrnefndur hópur, þar sem um helmingur flóttafólks sem


23

nú kemur til Evrópu er frá Sýrlandi. Ávinningur íslensku þjóðarinnar, sem og flóttafólksins, liggur í því að innlima þetta fólk sem fyrst í íslenskt samfélag og hagkerfi. Það er að sjálfsögðu öllum í hag að ólík starfskunnátta og sá mannauður sem fólginn er í flóttafólki sé nýttur. Þar spilar Háskóli Íslands stórt hlutverk sem ríkisrekinn háskóli og ein af lykilstofnunum íslensks samfélags. Háskóli Íslands rekur matsskrifstofu sem sér um að meta menntun þeirra einstaklinga sem hafa sótt sér menntun erlendis. Geta þetta verið skiptinemar, Íslendingar sem hafa menntað sig í öðrum löndum, innflytjendur eða flóttafólk. Samkvæmt grein sem birtist í International Business Times síðastliðinn september er sýrlenskt flóttafólk töluvert líklegra til þess að vera menntað en flóttafólk frá öðrum löndum. Þetta er fólk sem oft kemur úr efri stigum samfélagsins, er háskólamenntað og hefur gjarnan langa starfsreynslu. Ein af ástæðunum fyrir því að unnið sé vel að komu flóttafólksins er þar af leiðandi tilraun til þess að tapa ekki þeim mikla mannauði sem íslensku samfélagi mun áskotnast. Atgervissóun (e. brain waste), þ.e. þegar hluti af þegnum þjóðfélagsins er með menntun sem ekki er verið að nýta af einhverjum ástæðum, er nú þegar vandamál á íslenskum vinnumarkaði. Á Íslandi býr töluverður fjöldi innflytjenda sem ekki starfar í þeim geira sem menntun þeirra og starfsreynsla að heiman hefur undirbúið þá fyrir. Ástæðurnar fyrir atgervissóun geta verið margar en ein af þeim er sú að menntun fólks frá heimalandinu er ekki metin innan þeirrar greinar sem fólk sækist eftir að starfa í. Aðrar ástæður geta verið vandræði tengd vottun innan háskóla, að menntunin þyki ekki jafngild íslenskri auk félagslegra hindrana og fordóma. Samkvæmt dr. Brynju Elísabeth Halldórsdóttur, lektor við Háskóla Íslands sem meðal annars sér um sérstakt nám í alþjóðlegum menntunarfræðum, er töluvert meira um atgervissóun en fólk áttar sig á. Nám í alþjóðlegum menntunarfræðum er einn af fáum valmöguleikum sem Háskóli Íslands býður upp á fyrir innflytjendur sem hafa lokið þeim kröfum sem þarf til þess að komast inn í Háskólann og er kennt á ensku. „Upphaflega var þetta nám hugsað fyrir innflytjendur sem vildu fara í háskólanám en treystu sér ekki í nám á

íslensku en hafa þá kost á námi á háskólastigi.“ Brynja segir fólk einnig sækja í námið sem fyrir hefur háskólamenntun frá heimalandi sínu sem ekki er metin og er þetta ákveðin leið til þess að opna dyr inn í atvinnulífið. Þetta væri einn af þeim valmöguleikum sem Háskóli Íslands byði upp á fyrir flóttafólk sem getur vottað háskólamenntun sína heima fyrir en vill sækja frekari menntun á Íslandi. Innan Háskólans hefur einnig sérstakur starfshópur verið settur á laggirnar sem ræðir ýmislegt í tengslum við móttöku flóttafólks og hvernig Háskóli Íslands skuli bregðast við. „Margt af þessu fólki er hámenntað og með fjölbreytta og góða starfsreynslu að baki,“ segir Áslaug Björnsdóttir, fulltrúi nemenda í starfshópnum. Hún bendir einnig á þá staðreynd að við Íslendingar getum ekki ætlast til þess að fá að fara í nám hvarvetna í heiminum á meðan við séum sjálf ekki tilbúin að gefa fólki annars staðar frá tækifæri í okkar landi. Vilji innan Háskóla Íslands til þess að aðstoða flóttafólk er augljóslega fyrir hendi. Efnahagslegur ávinningur af flóttafólki Í greiningarskýrslu frá Arion banka sem gefin var út 17. september 2015 um efnahagsleg áhrif móttöku flóttamanna kemur fram að innstreymi flóttafólks frá Sýrlandi hafi til lengri tíma litið jákvæð áhrif á íslenskt efnahagslíf, þrátt fyrir að ákvörðun um komu þeirra væri vissulega aldrei tekin af efnahagslegum sjónarmiðum. En hvar liggur hindrunin inn í atvinnulífið? Hvaða möguleika hefur flóttafólk á að fá háskólamenntun sína metna eða jafnvel að ljúka námi sem nú þegar er hafið, á Íslandi? Innan Háskóla Íslands starfa tveir aðilar sem meta einingar frá háskólum erlendis. Ína Dögg Eyþórsdóttir er ein þeirra en er hún nýlega komin heim frá Brussel þar sem hún fundaði með matsskrifstofum hjá háskólum annarra Evrópuríkja um hið víðtæka vandamál sem felst í mati á menntun flóttafólks. Segir Ína að í flestum tilfellum hingað til hafi fólki tekist að leggja fram tilskilin gögn þannig mögulegt sé að meta menntun þess og reynslan erlendis frá sýni að flóttamönnum frá Sýrlandi gangi yfirleitt vel með slíkt. Ína segir að háskólar í Evrópu notist við ólíkar aðferðir í þessum málaflokki en norskar matsskrifstofur fara til að mynda

*Framhald á næstu síðu

2/4


24

Ríkisstjórn Íslands hefur boðið 55 sýrlenskum flóttamönnum hæli hér á landi.

Talið er að 9 milljónir manna hafi flúið frá Sýrlandi frá upphafi borgarastyrjaldarinnar sem braust út 2011.

52% flóttafólks á leið til

Evrópu er frá Sýrlandi.

með lagalegt umboð og því hafa skrifstofur þar leyfi til þess að gefa út prófskírteini ef gögn flóttafólks samræmast stöðlum þar eða ef flóttafólk stenst matsferli sem byggist meðal annars á stöðuprófum. Á meðan hafa Svíþjóð og Ísland verið að gefa út svokölluð „bréf“ þar sem skrifstofurnar gefa ákveðna vottun á gögn einstaklinga. „Stundum eru gögnin einungis byggð á einni ljósmynd,“ segir Ína en erfitt getur reynst að meta reynslu og menntun flóttamannanna, sérstaklega þeirra sem ekki hefur tekist að taka tilskilin gögn með sér í ferðina sem oft er lífshættuleg. Samkvæmt Ínu eru aðilar innan Háskólans allir af vilja gerðir til þess að finna lausn á þessu vandamáli og nýta þeir sér ákveðna samstarfsaðila í neti sem nú þegar búið er að byggja upp. Námsferill rofinn vegna flóttans Þórunn Ólafsdóttir er fyrrum sjálfboðaliði á grísku eyjunni Lesbos og stofnandi hjálparsamtakanna Akkeri sem vinna að því að aðstoða flóttafólk. Segir hún að stór hópur ungs fólks frá Sýrlandi sé á flótta og hafi ekki náð að ljúka háskólanámi sínu áður en það flúði heimahagana. Algengt sé að ungir menn þurfi að flýja skömmu fyrir próflok, því að námi loknu er hætt við að þeir verði undir eins skikkaðir í herinn. Þetta var einnig ástæða þess að margir ungir menn í þessari stöðu

3/4

flúðu strax í upphafi stríðsins árið 2011. Margir þessara ungu manna áttu því mjög lítið eftir af náminu þegar þeir flúðu en hafa oft litla möguleika á að taka upp þráðinn á nýjum dvalarstað vegna margvíslegra ástæðna. Á Íslandi getur Lánasjóður íslenskra námsmanna einnig verið ákveðin hindrun fyrir flóttamenn, jafnvel þó þeir fái nám sitt metið innan skólans. LÍN veitir eingöngu námslán til íslenskra ríkisborgara og ríkisborgara ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins. Flóttamenn geta í fyrsta lagi öðlast íslenskan ríkisborgararétt eftir fimm ára búsetu hér á landi, lögum samkvæmt. Þó má nefna að ríkisborgarar utan EES eiga möguleika á að sækja um námslán hjá LÍN ef þeir eru í hjúskap með íslenskum ríkisborgurum eða hafa átt lögheimili á Íslandi í að lágmarki tvö ár síðastliðin fimm ár áður en nám hefst. Flóttamenn þyrftu því að bíða í töluverðan tíma þangað til þeim tækist að hefja nám sitt, það er að segja ef þeir hafa ekki fjársterka bakhjarla eða vinnu með skóla. Þessi ákvæði eru bundin í lög og breytingar á þeim eru í höndum menntamálaráðherra. Samkvæmt Ínu getur reynst erfitt að meta menntun háskólamenntaðs fólks þar sem menntun er ólík eftir löndum og tungumálakunnátta fólks spilar einnig ákveðið hlutverk. Háskólinn vill reyna að koma til móts við þarfir fólks án


25

75% innflytjenda með MA-

Nemar í íslenskum háskólum sem koma frá löndum utan EES þurfa alla jafna að bíða í a.m.k. 5 ár til þess að eiga rétt á námslánum frá LÍN.

gráðu í Bandaríkjunum á árunum 1980-2009 gegndu störfum sem kröfðust lægra menntunarstigs.

þess að slaka á gæðastuðlum sínum. Sé þetta í raun spurning um útfærslu, peninga og tíma en á matsskrifstofunni starfa eingöngu tveir starfsmenn. Háskóli Íslands hefur þó ákveðið svigrúm til þess að meta einingar háskólanema eftir ECTS stuðlum, ef tiltekin gögn eru fyrir hendi og þar af leiðandi gætu þessir ungu háskólanemar frá Sýrlandi haldið áfram með nám sitt, það er að segja ef að deildir innan Háskólans gefa leyfi til þess. Það myndi eflaust veita flóttafólki sem þurft hefur að þola skelfilegar hremmingar á leið sinni hingað ákveðið öryggi að fá að halda námi sínu áfram. Samkvæmt fyrrnefndri greiningu Arion banka á efnahagslegu sjónarhorni á komu flóttamanna mun íslenskt efnahagslíf skorta vinnuafl á næstu árum. Íslendingar eru að eldast og þar af leiðandi væri jákvætt að fá til Íslands yngra vinnuafl þrátt fyrir að sýrlenskt flóttafólk væri eflaust með ólíkan bakrunn heiman frá. Það er staðreynd að íslenskt samfélag mun þurfa að takast á við verðugt verkefni við það að koma flóttafólkinu inn á íslenskan vinnumarkað og mikilvægt er að sú atgervissóun, sem nú hrjáir íslenskt samfélag, muni ekki verða ríkjandi. Íslendingar þurfa að líta á flóttamenn sem uppsprettu þekkingar en ekki sem óskrifuð blöð sem þarf að kenna og móta. Háskólinn hefur greinilega hafið undirbúning þrátt fyrir að það sé vissulega atvinnulífið í heild sinni sem mun þurfa

að taka á móti þessu flóttafólki. Nýtt kerfi í nýju landi er vissulega ákveðin hindrun fyrir nýlega aðflutta einstaklinga sem hyggjast taka þátt í atvinnulífinu og því verða Íslendingar að taka saman höndum við að létta undir með þeim. Auk þess er nauðsynlegt að tillit sé tekið til þess fólks sem nú þegar hefur lagt mikið á sig til þess eins að komast hingað. Leiðin inn í mennta- og atvinnulífið opnar ákveðnar dyr inn í samfélagið sem og að vera leið til þess að auka færni í tungumálinu. Að meta menntun og atvinnu þeirra einstaklinga sem nú þegar hafa fengið hæli hér og þeirra sem eru á leið hingað gæti falið í sér ávinning á báða bóga. Íslenskt samfélag og stjórnvöld mega ekki eingöngu líta á það sem forréttindi fyrir flóttafólk að koma hingað heldur er einnig mikilvægt að huga að fyrrnefndum þáttum um þann mannauð sem þetta fólk er, menntun þess og hæfni. Það eru nefninlega líka ákveðin forréttindi fólgin í því fyrir okkur að fá þetta fólk hingað.

4/4


26

Þarftu að endurstilla hugarfarið? Pistill frá náms- og starfsráðgjöf

Hugarfar fólks og áhrif þess á frammistöðu, hvatningu og vellíðan hefur verið rannsakað af Dr. Carol Dweck, prófessor við Stanford háskólann. Í fáum orðum gengur kenning hennar út frá því að til er tvenns konar hugarfar: festuhugarfar (e. fixed mindset) og gróskuhugarfar (e. growth mindset). Manneskja sem er með festuhugarfar telur að persónuleg færni og hæfniþættir eins og gáfur og íþróttahæfileikar séu meðfæddir og óbreytanlegir. Hins vegar trúir manneskja með gróskuhugarfar að hægt sé að breyta og þróa þessa þætti. Rannsóknir Carol og annarra staðfesta hversu mikilvægt það er að vita hvað hugarfar getur haft mikil áhrif á hegðun og það hvernig við lifum lífinu. Hægt er að breyta festuhugarfari í gróskuhugarfar. Eitt af því merkilega sem gerist við slíkar breytingar er að heilinn myndar nýjar taugatengingar með nýrri vitneskju og áhrif þess skila sér í aukningu á eðlismassa heilans. Rannsóknir á sviði taugavísinda sýna fram á að með því að læra eitthvað nýtt eða æfa eitthvað nýtt getur manneskja þróað heilann sinn.

1/1

Í lok misseris, þegar álag eykst og streitan fer að gera meira vart við sig er mikilvægt að muna að stilla inn á gróskuhugarfarið. Hugsið um heilann sem vöðva sem þarf að þjálfa – því meiri æfingu sem hann fær því sterkari verður hann. Það mun skila sér í jákvæðum áhrifum á markmiðin sem þið setjið ykkur, hvernig þið takist á við erfiðleika og farið í gegnum þá. Ég hvet ykkur til að kynna ykkur nánar gróskuhugarfar og rannsóknir Carol Dweck. Gott er að nota leitarvélina í youtube og slá inn ‘Carol Dweck growth mindset’. Með jákvæðri kveðju og hugarfari Fyrir hönd NSHÍ Hildur Katrín Rafnsdóttir, Náms- og starfsráðgjafi


Keyrðu um á afslætti 27

með Stúdentalykli Orkunnar ( ( ( ( ( ( ( (

10 kr. afsláttur fyrstu 5 skiptin 6 kr. afsláttur á Orkunni og Shell 8 kr. á Þinni stöð Allt að 10 kr. afsláttur með Afsláttarþrepum Mánaðarlegur ofurdagur, bara fyrir stúdenta Afsláttur í verslunum 10-11 við bensínstöðvar Afsláttur hjá yfir 20 samstarfsaðilum Auk þess styrkir þú þitt nemendafélag og SHÍ

Sæktu um Stúdentalykilinn á www.orkan.is/studentarad


28

Háskólanemar byggja kappakstursbíl Team Spark er kappaksturslið Háskóla Íslands Team Spark hefur keppt fyrir hönd Háskóla Íslands í Formula Student, alþjóðlegri hönnunar- og kappaksturskeppni, síðan árið 2011. Í keppninni þurfa nemendur að hanna og smíða eins manns kappakstursbíl og keppa við háskólanema frá öllum heimshornum. Keppnin var fyrst haldin árið 1981 í Bandaríkjunum en hefur síðan árið 1999 verið haldin árlega á Silverstone-brautinni í Englandi. Við fengum að heyra í liðsstjóra liðsins, Sigríði Borghildi Jónsdóttur, til að kynnast liðinu og starfsemi þess betur.

H: Hvað koma margir að verkefninu og hvernig eru liðsmenn valdir? S: Við erum rétt rúmlega fimmtíu verkfræðinemar úr öllum verkfræðideildum Háskóla Íslands. Þeir sem vilja og geta tekið þátt eru velkomnir í liðið en búist er við miklu af liðsmönnum þar sem verkefnið krefst mikils metnaðar og er mjög tímafrekt.

TS14 [bíll liðsins árið 2014] stóðst ekki regnprófið, þar sem hellt var vatni yfir bílinn og hann þurfti síðan að kveikja á sér aftur. TS15 komst ekki í gegnum rafmagnsskoðun en það má rekja til þess að lítill tími gafst til prófunar á TS15 í vor. Við höfum samt alltaf staðið okkur mjög vel í kynningarhlutanum og til dæmis tvöfölduðum við stigin okkar fyrir hönnun bílsins í sumar.

H: Er nýr bíll byggður frá grunni á hverju ári eða notið þið parta frá fyrri árum? S: Við notum parta frá fyrri árum vegna kostnaðar en það eru samt kröfur af hálfu keppninnar að gera lágmarksbreytingar ár frá ári á grind bílsins. Við gerðum miklar breytingar í fyrra og ætlum í ár að nýta mikið frá þeirri hönnun. Við einblínum á endurbætur í ár.

H: Hvernig hjálpar verkefnið ykkur í náminu og á hvaða hátt mun það gagnast ykkur í framtíðinni? S: Við lærum mjög mikið fræðilegt í skólanum og okkur finnst vanta verklega kennslu á því fræðilega sem við erum að læra. Það er mikilvægt að skilja það sem maður er að læra og við lærum mun betur með því að prófa, fikta og gera eitthvað í höndunum. Þetta er eitthvað sem rafmagnshópurinn okkar talar sérstaklega um. Verkefnið er mikill stökkpallur út í atvinnulífið: við erum í miklum samskiptum við fyrirtæki á atvinnumarkaðnum og eru þau tengsl afskaplega mikilvæg seinna meir. Það að takast á við svona stórt verkefni gefur manni víðtækan skilning á því hvernig hlutirnir virka og hverju þarf að huga að. Það er takmarkað hvað hægt er að læra í bóklegu námi.

H: Í hverju nákvæmlega er keppt á Formula Student? S: Gefið er stig fyrir hversu vel keppendur standa sig í fimm kappaksturskeppnum og þremur kynningum. Hingað til höfum við ekki náð að taka þátt í kappaksturskeppnunum. Til þess að fá að keppa í kappakstrinum á mótinu þarf að fara í gegnum mjög stranga öryggisskoðun. Við höfum ítarlega reglubók sem við þurfum að framfylgja.

Texti: Hörn Valdimarsdóttir 1/2


29 H: Er þetta ekki tímafrekt og dýrt? S: Jú þetta er mjög tímafrekt. Við höfum verið að taka saman síðustu vikur hvað liðsmenn eru að eyða miklum tíma í verkefnið og þetta eru meira en 500 klukkustundir á viku samanlagt. Svona verkefni er líka frekar dýrt. Sem betur fer eru fyrirtækin í landinu til í að styrkja okkur og veita þau ýmist vinnu-, efnis- eða peningastyrki. Án þeirra væri verkefnið einfaldlega ekki til. H: Fá liðsmenn þetta metið? S: Þetta er sex eininga áfangi sem spannar bæði haust- og vorönn. Í ár fá rafmagns- og tölvuverkfræðinemar í fyrsta sinn einingar fyrir sinn þátt í verkefninu. H: Hver eru markmið liðsins? S: Markmið Team Spark fyrir TS16 eru þríþætt. Í fyrsta lagi ætlum við að keyra bílinn 100 kílómetra á Íslandi til að fínstilla aksturseiginleika bílsins og þjálfa ökumenn áður en haldið er út á Silverstonebrautina. Í öðru lagi stefnum við á að tvöfalda stigafjölda okkar í Formula Student-keppninni með því að taka í fyrsta sinn þátt í aksturshluta keppninnar. Í þriðja lagi viljum við viðhalda okkar samfélagslegu ábyrgð, sem felst í tæknieflingu framhalds- og grunnskólanema, efla til jafnréttis og halda stefnu okkar sem umhverfisvænt lið.

H: Hverjir fá að keyra bílinn? S: Liðsmenn fá að keyra bílinn. Við förum alltaf í go-kart keppni þar sem þeir sem hafa besta tímann og hentuga hæð og þyngd fá að vera ökumenn. Valdir eru fimm ökumenn á hverju ári og við gætum alltaf jafnréttis þar eins og annars staðar. H: Er hægt að fylgjast með ferlinu? S: Já á Facebook síðu okkar (Team Spark Formula Student Iceland), Snapchat (team.spark) og Twitter (teamsparkeng). Þá erum við einnig með heimasíðu (teamspark.is). H: Hvenær er keppt? Verður hægt að fylgjast með keppninni? S: Formula Student-verkfræðinemakeppnin er haldin um allan heim, við tökum þátt í þeirri sem er haldin á Silverstone-leikvangnum í júlí 2016. Hægt er að fylgjast með á samfélagsmiðlum en aðstandendur keppninnar og Team Spark verða dugleg að deila efni frá viðburðinum.

*You can find this article in English on our website, www.studentabladid.is

2/2


30

2.Ritlistarkeppni Stúdentablaðsins Dómari ritlistarkeppni 2. tölublaðs Stúdentablaðsins í vetur er Bjarki Karlsson, skáld. Hann segir eftirfarandi um keppnina og vinningsskáldskapinn:

Úrslit 1. sæti: Andrés Erlingsson 2. sæti: Simon Moesch 3. sæti: Lárus Jón Guðmundsson

Í keppninni var óskað eftir texta sem væri nákvæmlega 30 orð, eða sem nemur fjölda bókstafa í íslenska stafrófinu að ð og x frátöldum og skyldi hver bókstafur (fyrir utan ð og x) koma einu sinni fyrir sem upphafsstafur orðs í texta. Einnig var auglýst á ensku og var þá kallað eftir 25 stafa texta og vísað í enska stafrófið að stafnum x undanskildum. Tekið var fram að allar tegundir skáldsskapar væru leyfilegar, svo fremi sem farið er eftir reglunum. Alls bárust 32 textar í keppnina. Þrír þeirra stóðust ekki ofangreindar formkröfur og voru þá 29 eftir til að taka til formlegrar skoðunar, tíu á ensku og nítján á íslensku. Sennilega var leikurinn ekki alveg jafn þegar til þess er tekið að á ensku þurfti að fást við færri orð og upphafsstafi auk þess sem enska sækir orðaforða sinn í mörg tungumál og er því ríkari að orðaforða (þ.e. orðstofnum) en íslenska. Þetta gerir verkefnið sennilega nokkuð vandaminna á ensku. Á hinn bóginn hefur eins manns dómnefndin íslensku að móðurmáli en ekki ensku og ekki er ólíklegt að það geri meira en að vega muninn upp. Dómnefndin tók þá ólýðræðislegu ákvörðun að reyna að láta alla sitja við sama borð. Textarnir bárust undir skammstöfunum sem er ekki ljóst hvort eru fangamark höfunda eða eitthvað allt annað og því var ekkert vitað um aldur, kyn eða bakgrunn höfundar. Það er því tilviljun að þrír karlar raði sér í verðlaunasætin og kemur nokkuð á óvart.

Dómnefndin vonar að eitthvað annað en algjört skilningsleysi á reynsluheimi kvenna valdi. Textarnir voru af ýmsu tagi. Nokkrir voru settir upp sem óbundið mál, sumir með ljóðmáli, líkingum og myndum o.fl., en aðrir alls ekki. Aðrir voru settir fram sem ljóð, ýmist rímuð eða órímuð, jafnvel myndljóð (e. calligram). Sumir létu sér ekki nægja að koma með alla upphafsstafina og létu þá orðin birtast í stafrófsröð í textanum. Fyrst og fremst var þó horft til þess að textinn væri annað og meira en upptalning orða. Hann yrði, eins og aðrir bókmenntatextar, að hreyfa við lesandanum á einhvern hátt, hvort sem það er hrifning, reiði, hlátur, undrun eða aðrar tilfinningar sem vakna. Stílbrögð umfram formkröfur keppninnar gera höfundinum erfiðara um vik að setja saman áhrifaríkan texta án merkingarsnauðra uppfyllinga og annarra textalýta. Engum var leyft að brjóta eigin reglur, svo sem að byrja á stafrófsröð en víkja svo frá henni. Hins vegar efla viðbótarformkröfur textann og áhrif hans þegar vel tekst til. Meirihluti textanna var reglulega góður og helst hefði þurft að veita sex til sjö verðlaun til að viðurkenna allt sem var reglulega vel gert. Þrír urðu þó að verða fyrir valinu en þeir eru sem hér segir:

1/5


31 Textinn Flóttafólk, með höfundarmerkið AE, þótti standa upp úr. Orðin, sem birtast í stafrófsröð, standa hvert í sinni línu og hefjast öll á upphafsstaf. Punktar og kommur sýna okkur þó hvernig þeim er skipað í níu stuttar setningar en framsetningin leggur áherslu á mikilvægi hvers einasta orðs. Ekkert þeirra er „hortittur“, eða merkingarsnauð uppfylling til að fylla inn í formið. Flestar setninganna eru án sagnorðs í persónuhætti og þættu þannig ófullkomnar í lausamáli en hér draga þær upp skýra mynd og segja allt sem segja þarf.

Flóttafólk

1.sæti

Angistin, Áþján Barnanna. Draumar Eyðilagðir. Él Framundan. Grátandi, Hungraðir Innflytjendur. Ísköld Jörðin Kular Líkamana. Mannvonskan Nístir. Okkur Óviðkomandi? Peningalaus, Rúin Samúð. Traust Urið. Úrvinda, Varnarlaus, Yfirgefin. Ýkjulaust, Þögnin Ærandi, Örmagna … Andrés Erlingsson

*Framhald á næstu síðu

2/5


32

2.sæti

Í öðru sæti er texti merktur SM undir yfirskriftinni Untitled. Orðin raða sér í tvær setningar. Í þeirri fyrri fáum við að skynja örlagaríka stund með augum Katherine en í síðari hlutanum sjáum við utanfrá hvernig straumhvörf verða í lífi hennar. Hér er mikil merking bundin í 25 orð.

Untitled She observed clouds, questioning late grandpa Zachery’s eyes appearing behind father’s inflamed jeep. “Not yet!”, mumbled the voice peacefully, when, doctors unexpectedly reanimated Katherine’s heart. Simon Moesch


33 Í þriðja sæti er framlag sem stafirnir LJG eru ritaðir undir. Textarnir eru þrír og bera yfirskiftirnar Tígur I, Tígur II og Tígur III. Þó er þetta eitt framlag en ekki þrjú því að sömu þrjátíu orðin eru notuð í þeim öllum. Reyndar stinga tvö þeirra, júbla og píur, svolítið í stúf við málsniðið í heild án þess að það þjóni öðrum tilgangi en forminu. Í fyrsta kafla er algerlega reglubundin hrynjandi; fallandi tvíliðir án forliða. Fyrstu tvær línurnar hafa tvo bragliði (fjögur atkvæði) hvor en í þeirri þriðju er aðeins einn. Þessu mynstri er haldið þangað til í lokin þar sem skammlína kemur strax á eftir aðeins einni lengri og dregur þannig að sér áherslu. Þar liggur líka merkingarþunginn. Þegar þessi formkrafa bætist ofan á stafaþrautina getur verið erfitt að skila sannfærandi texta en þó fáum við að fylgjast með innri vangaveltum manns sem er (eða vill vera) djarftækur til kvenna. Hann reisir eigin sjálfsmynd á farsæld og frama við hvílubrögð sem virðast hér vera framundan og hann tilbúinn til reiðar. Þó er ekki allt sem sýnist.

Hrynjandin er ekki eins regluleg í næsta kafla enda er spennan liðin hjá. Ljóðmælandi er enn með hugann við atgervi sitt, sjálfsmynd og afrekaskrá á erótíska sviðinu en konan (eða konurnar) fanga hug hans alls ekki. Er maðurinn svona yfirgengilega sjálfhverfur eða er allt tóm ímyndun? Þriðji kafli segir um það bil það sama og annar kafli og gerir hann í raun óþarfan því að hér er kveðið af mikilli íþrótt. Höfundi hefur tekist hið ómögulega; að bæta ofan á stafaþrautina þeirri ströngu formkröfu að binda frásögnina í tvær rétt kveðnar draghendur með fullkominni hrynjandi, rími og stuðlasetningu. Ætla mætti að stuðlun stafaþrautar væri með öllu óframkvæmanleg og það hélt dómnefndarmaðurinn þangað til hann sá þessa úrlausn sem felst í því að stuðla á sérhljóðum. Í hverju braglínupari eiga að vera þrír ljóðstafir og þar sem sérhljóðarnir í stafrófinu eru tólf (é ekki talið með því að það hefst á samhljóði og stuðlar við j) gengur dæmið upp með fjórum braglínupörum.

Tígur II

Tígur III

Vekur oddinn, Amors góði draumur. Æ ég heilsa, úrvals bláum fljóðum. Sígur undir, kátust júblar ástin. Píur magnast, rjóðar ólga, ilma. Ýtir norðurs, þjóðar yndi. Tígur. Ein í laumi, öndin.

Æ ég heilsa draumi góðum Amors ástar bláum. Í laumi ein, júblar öndin undir fljóðum kátum. Magnast ólgan píur rjóðar ilma. Sígur oddur. Úrvals tígur ýta, yndi vekur norður þjóðar.

Amors bláum ástar draumi, æ ég heilsa góðum. Öndin júblar, ein í laumi undir kátum fljóðum. Ólgan magnast, oddur sígur, ilma píur rjóðar. Yndi vekur úrvals tígur ýta norður þjóðar.

3.sæti

Tígur I

Lárus Jón Guðmundsson

*Framhald á næstu síðu

4/5


34

Ritlistarkeppni 3. tölublaðs: Búðu til texta við myndina. Verðlaun og dómari verða auglýst þegar nær dregur.

5/5


35


36

Háskólasvæðið: Einar Ben Vissir þú að … … Benedikt Sveinsson, faðir Einars Benediktssonar skálds, lagði fyrstur fram frumvarp á Alþingi um stofnun Háskóla Íslands árið 1881. Skóli sá átti að hýsa laga-, guðfræði-, og læknadeild og átti að mennta íslenska embættismenn.

… Meðal gjafa var bókasafn Einars sem samanstendur af 1.225 verkum, flestum á latínu eða grísku um landa- eða sagnfræði. Safn þetta er vel varið í luktum geymslum Háskólabókasafnsins enda margt af því mjög fágætt.

… Föðursystir Einars, Þorbjörg Sveinsdóttir, og frænka hans, Ólafía Jóhannsdóttir, söfnuðu fé fyrir stofnun skólans árið 1894. Fé þetta nýttist svo til að styrkja fyrstu kvenstúdenta Háskóla Íslands.

… Hægt var að tylla sér í sófasett Einars í Skólabæ, móttökusal Háskólans í Suðurgarði. Settið fór síðar á flakk og endaði í Aðalbyggingu Háskólans þar sem nemendur gátu holað sér niður. Eftir breytingar endaði það í geymslu og þarfnast nú lagfæringar.

… Einar var, eins og Benedikt, mikill baráttumaður fyrir sjálfstæði Íslendinga. Hann stofnaði til að mynda fyrsta dagblaðið á Íslandi, Dagskrá, árið 1894, sem studdi Heimastjórnarflokkinn. Einar var afkastamikið skáld og höfundur allt til ársins 1932, og orðinn viðurkennt höfuðskáld þjóðarinnar 68 ára að aldri, er hann settist alfarið að í Herdísarvík á Reykjanesskaga ásamt sambýliskonu sinni Hlín Johnson. … Einar ánafnaði Háskóla Íslands öllum sínum eigum árið 1935, fimm árum áður en hann lést. Um var að ræða híbýli, innbú og alla landareign Einars á Selvogi: Herdísarvík sem er um 4.200 hektarar að stærð.

… Fallegasti gripur innbúsins er þó enn á Háskólasvæðinu, í VRIII. Gripurinn er forláta skrifborð skáldsins en við það voru eflaust mörg af verkum hans unnin. Borðið er voldugt og í alla staði hið glæsilegasta. Því miður er það falið í fundarsal hússins en markmiðið er að gefa því betri stað þar sem allir geta barið það augum. … Nemendafélagið Grimmhildur, félag H-nemenda á Hugvísindasviði, afhjúpaði minningarskilti í Selvogi árið 2013 um síðustu íbúa Herdísarvíkur, Hlín og skáldið.

Texti: Kristinn Pálsson 1/1

*You can find this article in English on our website, www.studentabladid.is


H V Í TA H Ú S I Ð / S Í A – 1 5 - 1 7 7 1

37

GRJÓNAGRAUTUR góður félagi í skólanum


38

IÐ BYGGJUM Á ÞINNI ÞÁTTTÖKU Fyrsti útdráttur Happdrættis Háskóla Íslands fór fram í Iðnó þann 10. mars 1934. Frá upphafi hefur happdrættið verið órjúfanlegur þáttur í uppbyggingu háskóla í fremstu röð. Með þátttöku sinni hafa viðskiptavinir fjármagnað 22 byggingar Háskóla Íslands, ýmis tækjakaup, viðhald og rannsóknarstarf. Blómstrandi samfélag vísinda og fræða nýtur góðs af á hverjum degi.

PIPAR\TBWA • SÍA • 151853

Við þökkum viðskiptavinum okkar ómetanlegan stuðning í gegnum árin.


39

Góður brunch á góðu verði! Stúdentakjallarinn kynnir: Stúdentakjallarinn býður nú upp á þrjár tegundir af helgarbrunch, á laugardögum og sunnudögum á milli 11 og 14. Um er að ræða: Timburmanna-brunch á 1.590 kr Brunch prófessorsins á 1.390 kr Auk þess fæst barnabrunch á 790 kr.

Stúdentakjallarinn er í eigu Félagsstofnunar Stúdenta og því ekki rekinn í hagnaðarskyni. Verðin þar eru því hagstæðari en gengur og gerist almennt, eins og sést vel í þessum verðsamanburði:

Helgarbrunch á Laundromat Clean brunch, 2.690 kr. (drykkur fylgir) Dirty brunch, 2.690 kr. (drykkur fylgir) Barnabrunch, 1.390 kr. (drykkur fylgir) Helgarbrunch á Vegamótum Lúxus brunch, 2.790 kr. (drykkur fylgir) Klassískur Vegamótabrunch, 2.590 kr. (drykkur fylgir) Barnabrunch, 1.290 kr. Sunnudags brunch á Nauthóli Brunch diskur, 3.950 kr. (drykkur fylgir) Barna brunch, 1.550 kr. (drykkur fylgir)

1/1


40

Sendibréf frá skiptinema 7. október 2015

Valgerður Anna Einarsdóttir, viðskiptafræðinemi við HÍ, er í skiptinámi við Griffith University á Gold Coast í Ástralíu. Hún biður að heilsa þeim sem heima sitja.

G‘DAY Ísland, Ég held að tími sé kominn til að ég láti aðeins í mér heyra. Núna er ég búin að vera skiptinemi hinum megin á hnettinum í næstum þrjá mánuði og ég held að ég gæti ekki verið hamingjusamari. Ég er ástfangin af Ástralíu. Allt er öfugt hérna niðri, klósettvatnið fer í hina áttina, þau keyra vinstra megin á veginum og sumarfríið er frá desember til mars. Skólinn er auðvitað krefjandi en lífið hérna úti vegur upp á móti. Það er ekki slæmt að hafa hvíta strandlengju og pálmatré í göngufæri. Það fyndna er að ég, í alvörunni, kvarta undan tilbreytingarleysi í veðrinu. Á Íslandi má upplifa svo til allar veðráttur á einum degi en hér á Gold Coast er bongóblíða alla daga, allan daginn. Lúxusvandamál, ég veit, og ég er ekki að búast við neinum samúðarkveðjum. Ég þurfti að láta mig hverfa til Melbourne fyrir mánuði bara til að finna fyrir smá veðurfarsbreytingum (11°C miðað við 25°C). Vetrarfríið, sem er reyndar vorhlé hérna niðri, var að klárast og ykkar kona lét það aldeilis ekki fara til spillis. Þar sem ég er eini íslenski skiptineminn á þessum slóðum hef ég þurft að kynnast fullt af fólki og þeir sem kannast við mig vita að það finnst mér ekki leiðinlegt. Ég fór með fjórum öðrum stelpum með flugi til Cairns og keyrðum síðan aftur suður. Við stoppuðum á nokkrum stöðum eins og Great Barrier Reef, Magnetic Island, Airlie Beach og enduðum ferðina á siglingu um Whitsundays. Núna er ég komin aftur í ,,hversdagsleikann” og tilbúin að takast á við lokaprófin í næsta mánuði áður en ég nýti þriggja mánaða sumarfríið mitt til að ferðast meira um Ástralíu og nágrannalönd. Hver lifir svona draumalífi? Nei, ég bara spyr. Þó svo að ég sé að lengja námið mitt um eina önn þá sé ég ekki eftir neinu. Ég gæti ekki mælt meira með því að flýja land, það er kannski óþarfi að taka því jafn bókstaflega og ég og flýja hinum megin á hnöttinn, en að klippa á naflastrenginn er ekkert nema snilld. Við sjáumst svo hérna niðri. Íbúðin mín er opin, ég býð í kaffi, TimTam og kex með Vegemite áður en við förum á brimbretti með hákörlunum af því að ég er 100% Aussie núna. GOOD ONYA MATE! Ástarkveðja frá Ástralíu, Vala

1/1


41

Fylgstu með okkur á samfélagsmiðlum. studentabladid.com /Stúdentablaðið /studentabladid /studentabladid

„Hjá Marel vinn ég með öflugum hópi fólks og fæ að fylgja verkefnum eftir útúr húsi. Það er virkilega hvetjandi að sjá að það sem ég er að gera auðveldar viðskiptavininum að sinna sínum rekstri betur. “ Kristín Gróa Þorvaldsdóttir, tölvunarfræðingur, forritari og matarbloggari

Kynntu þér framtíðina með okkur Marel er í hópi stærstu útflutningsfyrirtækja á Íslandi og í fararbroddi á heimsvísu í þróun og framleiðslu á háþróuðum búnaði og kerfum til vinnslu á fiski, kjöti og kjúklingi. Við erum alþjóðlegt fyrirtæki og hjá okkur starfa um 4000 einstaklingar um allan heim.

framtid.is


42

Tónlistarstefnan: Samtímatónlist Samtímatónlist fyrir byrjendur

Tónskáldið Þráinn Hjálmarsson tók saman lagalista fyrir lesendur sem eru forvitnir um samtímatónlist en vita ekki hvar þeir eiga að byrja... „Samtímatónlist“ er regnhlífarhugtak sem notað er yfir tónlist allt frá byrjun/miðbiki tuttugustu aldar og til okkar daga. Innan samtímatónlistar er að finna töluvert ólíka strauma og stefnur en kjarninn er að vissu leyti fólginn í sambandinu á milli flytjenda og tónhöfunda og nýtingu nótna í einhverju formi til miðlunar þar á milli. Það er vert að taka það fram að eftirfarandi listi einblínir þó einkum á einn kima samtímatónlistar, þar sem hljóðið sjálft er í hávegum haft og hlustun áheyrandans sem gerist að vissu leyti þátttakandi í að skapa verkið með sinni eigin hlustun. Þó má nefna að mest áberandi tískustraumurinn í samtímatónlist dagsins í dag er nokkurn veginn á öndverðum meiði við þennan lista þar sem algengt er að höfundar nái að gera sína eigin persónu og frásögn að miðju verkanna. Verkin eru í tímaröð frá John Cage til ársins í ár, en Cage átti stóran þátt í að opna á nálgun þar sem öll hljóð verða að efnivið tónlistar og upplifun okkar á hljóðinu er miðja tónlistarinnar: nokkurn veginn laus við nærveru höfundarins. Verkin henta einstaklega vel fyrir komandi prófalestur. 1. John Cage (1912-1992) – 4’33 (1952) Verk Cage í þremur þáttum, 4’33’’, átti sinn þátt í því að

3.

auka vægi hlustunar í sköpunarferli tónlistar, verkið og verk hans náðu að opna enn frekar skilgreiningu okkar á því hvað geti verið skilgreint sem tónlist. Í verkinu, 4’33’’, kemur flytjandi fram á sviðið og gefur ekki frá sér eitt einasta hljóð í fjórar mínútur og 33 sekúndur. Með því er striga tónlistar veitt athygli, þögnin er alltumlykjandi sem og umhverfið (sem er alls ekkert þögult). Má segja að verkið sé hliðstæða hvítu málverka Robert Rauschenberg sem máluð voru ári áður. Finna má ótal upptökur á netinu þar sem ólíkir flytjendur flytja verkið, allt frá sinfóníuhljómsveitum til svartmálmshljómsveita en vinninginn á líklegast leikarinn Nicholas Cage (sjá á Youtube: „Cage does Cage“).

4.

2. Giacinto Scelsi (1905-1988) – Quattro Pezzi su una nota sola (for Orchestra) (ísl. Fjögur eintóna verk fyrir hljómsveit) (1959) Tónlist ítalska tónskáldsins Giacinto Scelsi er íhugul og í senn þráhyggin. Á tímabili samdi hann mörg heillandi verk sem spinnast út frá blæbrigðum einnar nótu, þar á meðal þetta verk.

3. Pauline Oliveros (1932) – Bye bye butterfly (1967)

4. Salvatore Sciarrino (1947) – Sei quartetti brevi (1971)

Í upphafi ferils bandaríska tónskáldsins Pauline Oliveros

Eitt

vann hún einkum með rafhljóð og var áberandi innan

Salvatore Sciarrino er einstök hljóðfæratækni sem fólgin

raftónlistarsenunnar á vesturströnd Bandaríkjanna

er í verkunum: hljóðfærin öðlast ákveðinn framandleika

framan af. Allt frá lokum níunda áratugarins hefur hún

og fyrir vikið myndast sérstakur hljóðheimur. Að vissu

þróað og unnið með „djúphlustun“ (e. deep listening)

leyti umbreytast hljóðfærin hans í eins konar persónur

sem samþættir kennslu, spuna, rafhljóð og íhugun

sem halda í sín sérkenni þó að nýtt verk kalli á annan

og vekur þannig athygli á hljóðumhverfinu og þeim

söguþráð og aðra spennu.

ástöndum sem skapast við nánari hlustun.

1/2

af

sérkennum

tónlistar

ítalska

tónskáldsins


43 Verk franska tónskáldsins Gérards Grisey, Partiels,

8. Marianthi Papalexandri-Alexandri (1974) – Untitled (2009)

er talið eitt af höfuðverkum „spectralisma“ sem er

Tónlist gríska tónskáldsins Marianthi Papalexandri-

tónlistarstefna sem á upptök sín í París á áttunda

Alexandri er staðsett á mörkum innsetningar og

áratugnum. Í stuttu máli sagt er helsta einkenni

tónlistar en oft eru verk hennar umbreytt hljóðfæri/

„spectralisma“ hlutlaus nálgun á miðil tónlistarinnar,

hljóðgjafar sem skapa nokkurs konar aðstæður sem

hljóðið sjálft. Markmiðið er að slíta sig frá sögu og

flytjendur vinna innan í flutningi tónverka hennar.

menningu tónlistar og sækjast eftir því að leyfa

Einkennist tónlistin af smágerðum og óreglulegum

hljóðinu að verða að eina umfjöllunarefni tónlistarinnar.

hljóðum sem skapa flatt yfirborð en iða öll þegar nánar

Hljóðgreiningartækni

er hlustað. Hlustandanum er gert kleift að að flakka á

5. Gérard Grisey (1946-1998) – Partiels (1975)

og

boðfræði

(e.

information

theory) sem á þeim tíma voru ný af nálinni settu sitt

milli þessara laga og skapa sína eigin upplifun.

mark á hugmyndafræði stefnunnar. Nafnið er dregið af hljóðrófi (spectri) og vísar til þess að ólík hljóðfæri sem leika sömu nótuna hafa, sem dæmi, sitt eigið hljóðróf

6.

sem gerir okkur kleift að heyra til dæmis mun á milli ólíkra radda og ólíkra hljóðfæra. Allt tónaefni Partiels er unnið upp úr hljóðgreiningu á djúpu ‘E’ leiknu á básúnu sem jafnframt opnar verkið.

6. Morton Feldman (1926-1987) – Why patterns? (1978) Viðhorf bandaríska tónskáldsins Mortons Feldman til hljóðs og tónlistar snerist um það að leyfa hljóðunum að „vera þau sjálf“ sem var að vissu leyti í andófi við ríkjandi hugmyndafræði samtímatónlistar þess tíma, þar sem nótur og uppröðun þeirra á blaðinu var virt umfram hlustun og upplifun á hljóðum. Hljóðlát og hæg tónlistin skapar visst ástand þar sem óregluleg mynstur koma fyrir aftur og aftur, skapar þar með ákveðið ástand sem er þó nægilega brotið upp til að viðhalda athyglinni til lengri tíma. Sennilega má rekja notkun Feldmans á mynstrum til áhuga hans á vöfðum teppum en um skeið stundaði hann viðskipti með slík teppi sér til viðurværis.

9. Anna Þorvaldsdóttir (1977) – Aeriality (2011) Heillandi

stemning

og

persónulegur

hljóðheimur

einkennir tónlist Önnu þar sem sterk, þykk og á köflum myrk stemning verkanna togar hlustendur inn í sig. Tónlist hennar hefur lokkað til sín nokkuð víðan hlustendahóp en Anna er eitt þekktasta tónskáld Íslendinga um þessar mundir. Afköst Önnu hafa verið sérlega mikil í ár en tvær plötur komu út á þessu ári með verkum hennar í flutningi þekktra flytjenda auk þess sem ópera hennar, UR, hefur verið sett upp víða

7.

um Evrópu.

10. Eva Maria Houben (1955) – Hazy Horizon (2015) Tónlist Evu Mariu er á köflum afar íhugul og gefur bæði hlustandanum og flytjandanum færi á að stinga sér á kaf inn í óm stakra, langra tóna. Ástandið sem skapast fer

7. Kaija Saariaho (1952) – Sept Papillons (2000) Hljóðheimur

finnska

tónskáldsins

Kaiju

Saariaho

er einstaklega nosturlegur og fínlegur en jafnframt einstaklega persónulegur og einkennandi. Verkið Sept Papillons (ísl. Sjö fiðrildi) er verk í sjö þáttum fyrir einleiksselló og dregur fram einstaklega seiðandi, heillandi og nýstárlegan karakter sellósins. Eitt af komandi verkefnum Kaiju er ný ópera sem Royal Opera House í London pantaði af henni en óperan verður

fjarri því að mynda hljóma eða laglínur en þess í stað er þungamiðjan á hljóðunum sjálfum og framköllun þeirra í hljóðfærunum. Tónlist Evu hefur viss tengsl við tónlist og nálgun John Cage þar sem eitt af markmiðunum er að opna nánar á öll hljóð í umhverfinu og njóta. Finna má fleiri höfunda sem vinna á svipuðum slóðum og deila álíkri fagurfræði hjá Wandelweiser-útgáfunni sem áður fyrr var tónskáldahópur en er nú útgáfa sem Eva Maria kemur að.

frumflutt árið 2020. Samlandi Kaiju, rithöfundurinn Sofi Oksanen mun vinna að texta óperunnar.

2/2


44

Stúdentablaðið mælir með:

Maturinn Jólin eru gósentíð fyrir sælkera, sérstaklega þá sem eru hrifnir af kjöti, sósum og konfekti. Fyrir lesendur sem eru veikir fyrir brauði mælum við með afgangasamloku sem er, eins og nafnið gefur til kynna, samloka með áleggi sem samanstendur af afgöngum af jólamatnum. Best er að nota gott brauð eins og til dæmis súrdeigsbrauð með stökkri skorpu. Auk þess má útfæra afgangasamlokuna sem smurbrauð.

Sjónvarpið Sjónvarpsþættirnir Fargo hafa verið rómaðir af gagnrýnendum. Þættirnir halda manni gjörsamlega föngnum, þeir eru vandaðir og mikið er lagt í söguþráðinn, samtölin, tónlistina og myndatökuna. Leikararnir eru jafnframt fyrsta flokks, í fyrstu þáttaröð fara þeir Martin Freeman og Billy Bob Thornton með aðalhlutverk og í annarri þáttaröð eru Kirsten Dunst og Ted Danson á meðal leikara. Við mælum hiklaust með lotuglápi á Fargo í jólafríinu.

1/2


45

Tónlistin Nú er árstíð jólalaga að ganga í garð en slík tónlist er auðvitað ekki allra. Þeir sem vilja hlusta á eitthvað hátíðlegt en nenna ekki að hlusta á Ladda eða Helga Björns ættu að íhuga að setja meistarann sjálfan, J. S. Bach, á fóninn. Brandenborgarkonsertar Bachs eru sérstaklega hátíðlegir, og eins og önnur tónlist Bachs, gullfallegir.

Afþreyingin Kvikmyndaklúbburinn Svartir sunnudagar sýnir költ/klassík-myndir á hverjum sunnudegi í Bíó Paradís. Stofnfélagar klúbbsins eru Hugleikur Dagsson, Sigurjón Kjartansson og Sjón. Markmið þeirra með sýningunum er að auðga íslenska kvikmyndaflóru og gera fólki kleift að njóta sígildra költmynda í bíó.

Bókin Í nýjustu bók sinni, Sjóveikur í München, rifjar Hallgrímur Helgason upp dvöl sína í München en hann hafði vetursetu þar þegar hann var 22 ára gamall. Dvölin reyndist Hallgrími erfið og hann fann sig illa í borginni. Sjóveikur í München hefur fengið frábærar viðtökur enda er frásögn Hallgríms lifandi, skemmtileg og glettin, þrátt fyrir dapurlegan undirtón.

*You can find this article in English on our website, www.studentabladid.is

2/2


46

Ekki leiðinleg fræðsla um fjármál Við viljum að þú getir tekið upplýstar ákvarðanir um þín fjármál. Fáðu skemmtilega fræðslu um fjármál á arionbanki.is/namsmenn. Búðu þig undir spennandi framtíð


10 eftirlætishlutir

47

Jóhannes Bjarki Bjarkason, BA-nemi í stjórnmálafræði og ritstjóri Framhaldsskólablaðsins 1. Neftóbak

6. Minnisbók og penni

Þótt ég vilji ekki viðurkenna það þá er ég háður tóbakinu og veitir það mér sálarró á erfiðum tímum. Sérstaklega í Háskólanum.

Í þessa bók skrifa ég allt sem mér dettur í hug. Það sem er á döfinni, ljóðabrot, brandara og viðskiptahugmyndir.

2. Hringur

7. Kaffibolli

Þennan hring fékk ég í 18 ára afmælisgjöf frá foreldrum mínum. Hringurinn minnir mig á fullveldi sjálfs míns.

Kaffibollinn er merktur mér og fær þann heiður að vera uppáhaldskaffibollinn minn.

3. Kaktus

8. Bjórkrús

Þar sem herbergið mitt er fullkomin skilgreining á óreiðu þá táknar kaktusinn í gluggakistunni fullkominn stöðugleika. Einskonar vin í eyðimörkinni.

Þetta er það sem Bæverjarnir í Þýskalandi kalla „ein Ma “. Ég hef mikla tengingu við Bæjaraland og getur þessi krús haldið allt að einum lítra af vökva.

4. Mynd af Ásgeiri Kolbeins

9. Kaffikort

Þessi mynd hangir á veggnum mínum og ég lít á hana sem andlegan innblástur. Ef illa gengur fer ég með möntruna mína fimm sinnum ásamt því að halda beinu augnsambandi við Kolbföðurinn. Að sama skapi, ef vel gengur, þakka ég hinum mikla fyrir velgengni mína.

Mikilvægasta verkfæri Háskólans. Það skiptir engu máli hversu mikið tilbúinn ég er fyrir próf, ef ég fæ ekki minn bolla af „vonda“ kaffinu þá verð ég „vondur“ maður það sem eftir lifir dags.

5. Loftmynd: Megas

10. Bassanögl

Ég held mikið upp á Megas og þessi plata er ein af mínum uppáhalds. Megas segir þarna sögur af Reykjavík og litskrúðugu fólki sem þar má finna.

Ég lít á mig sem tækifærisbassaleikara og ég er mjög hrifinn af hljómnum sem þessi plastbútur gefur frá sér.

1/1


48

Næring í núvitund – hvað er það? Birna Varðar skrifar um heilsu og hreyfingu

„Góð máltíð er gulls ígildi, ekki síst fyrir önnum kafna námsmenn. Veittu þér þann munað að gera hlé á því sem þú ert að gera öðru hverju og njóta þess að borða.“

Við lifum í þjóðfélagi þar sem annríki er svo mikið að stundum fæst varla tími til að staldra við rétt á meðan við borðum. Þetta á trúlega ekki síst við núna á þessum síðustu mánuðum ársins þegar háskólanemar keppast við að koma frá sér skilaverkefnum og eru í þann mund að hefja próflestur. Þú manst vonandi eftir því að líta upp annað slagið til að ná þér í eitthvað matarkyns eða kaffisopa. Þú tekur jafnvel einn eða tvo bita og veitir bragðinu eftirtekt. Svo sestu aftur við tölvuna og heldur áfram þar sem frá var horfið á meðan þú maular. Skyndilega er allt búið úr skálinni og kaffið runnið niður. Þú rankar við þér og tekur eftir daufu bragði á tungunni og smávægilegu klístri á fingrunum. Eitthvað hefur veitt magafylli en máltíðin skilur ekkert mikið meira eftir sig en það. Þú veist ef til vill ekki hvort þú borðaðir mikið eða lítið. Máltíðin átti sér stað án þess að þú tækir eftir því. Að nærast í núvitund felur í sér að vera til staðar, andlega og líkamlega, á meðan við borðum. Að vera meðvituð og nota öll skynfæri

til þess að upplifa bragð, liti, áferð, lykt og hljóð sem máltíðinni fylgir. Út frá því getum við metið hvernig okkur líkar maturinn auk þess sem við eigum auðveldara með að finna fyrir svengd og seddu. Við skynjum þannig betur hvernig maturinn hefur áhrif á líðan okkar um leið og hann veitir líkamanum nauðsynlega orku. Það er ekki endilega raunhæft markmið að ætla að njóta hverrar einustu máltíðar í núvitund til að byrja með. Hægt væri að byrja á tveimur máltíðum á dag, til dæmis í hádeginu og um kvöldmatarleytið. Gefðu þér þá tíma til að setjast til borðs og njóta matarins. Láttu tölvu, sjónvarp eða lesefni ekki dreifa athyglinni á meðan. Að máltíð lokinni getur þú svo haldið vinnu þinni áfram. Góð máltíð er gulls ígildi, ekki síst fyrir önnum kafna námsmenn. Veittu þér þann munað að gera hlé á því sem þú ert að gera öðru hverju og njóta þess að borða.

Ljósmynd: Julie Runge 1/1


49


50

Náman léttir þér lífið Náman er vildarþjónusta fyrir ungt fólk. Náman veitir stuðning með hagstæðari kjörum, persónulegri ráðgjöf, "ölbreyttum fríðindum og góðri yfirsýn yfir "ármálin. Kynntu þér Námuna á landsbankinn.is, í næsta útibúi eða í síma 410 4000. Aukakrónur

2 fyrir 1 í bíó

Landsbankinn

landsbankinn.is

410 4000

JÓNSSON & LE’MACKS

jl.is

SÍA

L.is og snjallgreiðslur


Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.