1 minute read

Þjóðarleikvangar

Á Íþróttaþingi ÍSÍ 2019 var samþykkt ályktun um þjóðarleikvanga, en þingið lýsti yfir þungum áhyggjum af aðstöðuleysi landsliða og afreksíþróttafólks Íslands í flestum íþróttagreinum. Flest sérsambönd innan ÍSÍ vantar varanlega aðstöðu (þjóðarleikvanga) til æfinga og keppni fyrir öll sín landslið og afreksíþróttafólk. Fullyrt var að aðstöðuleysið væri farið að hamla framþróun í afreksstarfi íþróttahreyfingarinnar. Lagt var til að ÍSÍ, sem regnhlífarsamtök hreyfingarinnar, hæfi tafarlausar viðræður við ríkisvaldið, sveitarfélög og íþróttahéruð um varanlega lausn á aðstöðuleysi afreksíþróttafólks og landsliða sem og að skipaður yrði vinnuhópur um þjóðarleikvanga.

Framkvæmdastjórn ÍSÍ setti á laggirnar vinnuhóp sem skilaði af sér ítarlegri skýrslu um þarfir sérsambanda ÍSÍ og það umhverfi sem þau búa við. Í framhaldinu hafa ýmsir vinnuhópar og nefndir verið að störfum sem tengjast vinnu við þjóðarleikvanga fyrir innanhússíþróttir, knattspyrnu og frjálsíþróttir.

Advertisement

Ríki og Reykjavíkurborg undirrituðu sameiginlega yfirlýsingu um uppbyggingu þjóðarhallar í innanhússíþróttum í Laugardal 6. maí 2022.

Framkvæmdanefnd um þjóðarhöll í innanhússíþróttum hóf störf í ágúst 2022 en hana skipa: Gunnar Einarsson formaður, Jón Viðar Guðjónsson fulltrúi ríkisins, Þórey Edda Elísdóttir fulltrúi ríkisins, Ólöf Örvarsdóttir fulltrúi Reykjavíkurborgar og Ómar Einarsson fulltrúi Reykjavíkurborgar. Ráðinn var starfsmaður, Helgi Geirharðsson til að vinna með framkvæmdanefndinni

Hlutverk nefndarinnar er að leiða vinnu vegna hönnunar, útboðs og hvernig staðið verður að fjármögnun þjóðarhallar sem og að undirbúa ákvörðun um útfærslu og rekstrarform. Nefndinni var falið að útbúa tímasetta framkvæmdaáætlun um uppbyggingu hallarinnar.

Framkvæmdanefndin skilar reglulega upplýsingum um framgang verkefnisins til starfshóps um uppbyggingu þjóðarleikvanga í íþróttum. Hún starfar í samráði við ráðgjafaráð skipað hagsmunaaðilum og öðrum notendum hallarinnar til að hún uppfylli þarfir sem flestra.

Nefndin skilaði af sér skýrslunni „Þjóðarhöll í Laugardal – Frumathugun framkvæmdanefndar um Þjóðarhöll“ í desember 2022 þar sem fjallað er um stöðu verkefnisins og forsendur sem liggja að baki tillögum nefndarinnar um framhald þess. Í skýrslunni kemur fram að staðsetning hallarinnar verður sunnan Laugardalshallar upp að Suðurlandsbraut. Við staðarvalið var m.a. litið til samlegðaráhrifa með rekstri núverandi mannvirkja sem gegna svipuðu hlutverki og væntanleg Þjóðarhöll og tenginga við almenningssamgöngur. Þar er yfirlit yfir væntanlega notendur, hlutverk, rými, umhverfi, kostnaðaráætlun og sviðsmyndir til fjármögnunar og kostnaðarskiptingar, meðal annars.