3 minute read

Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ

Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ fór fram í síðasta skipti, laugardaginn 11. september 2021. Í þetta sinn var hlaupið tengt við Íþróttaviku Evrópu.

Frábært hlaupaveður var víðast hvar um landið, þátttaka var með ágætum og allir þátttakendur geisluðu af orku og krafti, en hlaupið var á hátt í 60 stöðum um allt land og einnig erlendis.

Advertisement

Í 32 ár hafa þúsundir kvenna um allt land notið þess að hreyfa sig saman í Sjóvá Kvennahlaupi ÍSÍ og sameinað tvo mikilvæga þætti í lífinu, hreyfingu og samveru. Fyrsta Kvennahlaupið var haldið 30. júní árið 1990 í Garðabæ í tengslum við Íþróttahátíð ÍSÍ. Lovísa Einarsdóttir kom með hugmyndina frá Finnlandi og þótti við hæfi að bjóða upp á eitthvað nýtt sem höfðaði til almennings á Íþróttahátíðinni.

Markmið Kvennahlaupsins hefur frá upphafi verið að vekja áhuga kvenna á reglulegri hreyfingu. Hver kona tekur þátt á sínum forsendum og lögð er áhersla á að allir komi í mark á sínum hraða og með bros á vör. Í gegnum árin og breytingar í samfélaginu hefur áherslan færst meira til þess að vekja athygli á og ýta undir samstöðu kvenna. Að minna konur á hvers megnugar þær eru saman, þær hreyfi sig á sínum forsendum og eigi ánægjulega samverustund með fjölskyldu og vinum.

Óhætt er að segja að þessum markmiðum hafi verið náð. Allt hefur sinn tíma og í ljósi þess að tíðarandinn hefur breyst og markmiðunum náð, var tekin sú ákvörðun að leggja hlaupið niður.

Takk fyrir samfylgdina

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og Sjóvá þakka framkvæmdaraðilum og þeim fjölmörgu sem hafa tekið þátt í hlaupinu í gegnum tíðina kærlega fyrir samfylgdina. Um leið eru landsmenn hvattir til að hreyfa sig reglulega og hlúa vel að líkamlegri og andlegri heilsu sinni, til dæmis með því að taka þátt í þeim fjölmörgu skipulögðu hlaupum sem í dag eru í boði um allt land. Munum að öll hreyfing skiptir máli.

Við göngum sátt og stolt frá verkefninu og munum áfram vinna ötullega að því að hvetja landsmenn til að hreyfa sig. Áframhaldandi vinna í þá átt verður byggð á grunni þess glæsilega árangurs sem samstilltar konur hafa unnið í nafni hlaupsins í meira en þrjá áratugi, konur sem létu ekkert stoppa sig og efldu markvisst lýðheilsu íslenskra kvenna.

Kvennahlaupsbolir í leikhúsi

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands varð þess heiðurs aðnjótandi að fá leikkonur úr sviðslistahópnum Slembilukku í heimsókn. Ástæða heimsóknarinnar var að fá Kvennahlaupsboli fyrri ára lánaða til að nota í leiksýningunni Á vísum stað sem sett var upp í Borgarleikhúsinu.

Sýningin fjallaði um það að allir hlutir í hverri einustu geymslu eiga sér sögu. Í verkinu gramsa leikarar í geymslum landsins til þess að komast að því hvað fólk geymir og af hverju.

Ekki er að efa að Kvennahlaupsbolina sé að finna í mörgum geymslum víða um land.

Heimsókn frá Gimli Kanada

Skrifstofa ÍSÍ fékk í júní 2022 skemmtilega heimsókn frá Margret Thorlakson Kernested og frænku hennar Söndru Forbes frá Gimli, Kanada. Ástæða heimsóknarinnar var að Margaret og systir hennar Marlene Forbes hafa haldið Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ frá árinu 2007 í Gimli og þær komu til að kaupa boli frá árinu 2021. Eftir skemmtilegt samtal færðu þær ÍSÍ þennan flotta fána sem Íslendingafélagið í Gimli lét útbúa. Til gamans má geta að Gimli er stundum kallað „Höfuðstaður Nýja Íslands“. Íslendingar fluttu þangað fyrst 1875, en þangað fluttist stór hópur Íslendinga sem eru kallaðir Vesturfarar. ÍSÍ þakkar þeim systrum fyrir góða gjöf.

Syndum

fylgjast með framvindu verkefnisins á vefsíðunni, svo sem fjölda þátttakenda, syntum kílómetrum og hversu mörgum hringjum í kringum Ísland það samsvarar

ÍSÍ í samstarfi við Sundsamband Íslands settu á laggirnar heilsu- og hvatningarátakið Syndum, í nóvember 2021. Átakið var sett með formlegum hætti í Laugardalslaug þar sem Andri Stefánsson, framkvæmdastjóri ÍSÍ, og Björn Sigurðsson, formaður Sundsambands Íslands fluttu stutt ávörp.

Hugmyndin að verkefninu kom frá eldra landsátaki í sundi þar sem markmiðið var að synda 200 metra sem oftast. Nú var hins vegar bætt í og landsmenn hvattir til að synda eins mikið og eins oft og þeir treystu sér til. Hægt var að

Verkefninu hefur verið vel tekið á landsvísu og má nefna að árið 2021 syntu 2.576 þátttakendur samtals

11,6 hringi (15.354,9 km) í kringum landið og 1.883 þátttakendur syntu

10,2 hringi (13.515 km) árið 2022. Almenn ánægja var með átakið á meðal starfsfólks sundlauga og virðast margir þátttakendur hafa nýtt sér það sem hvatningu til að synda oftar og lengra, en einnig til að bæta sundtækni sína.

Á heimasíðu Syndum, www.syndum.is, má finna allar nánari upplýsingar um verkefnið auk annars fróðleiks og upplýsingar um sundlaugar landsins.