2 minute read

Ráðstefnur og málþing

Farsælt samfélag fyrir alla Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið í samvinnu við mennta-og barnamálaráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið stóðu fyrir ráðstefnu á Hilton Reykjavík Nordica í apríl 2022 undir yfirskriftinni Farsælt samfélag fyrir alla – tækifæri barna og ungmenna í íþróttastarfi. Á ráðstefnunni var leitast við að koma auga á þær áskoranir sem við stöndum enn frammi fyrir þegar kemur að jöfnum tækifærum allra barna til íþróttaiðkunar. Mörg áhugaverð erindi og örkynningar voru á ráðstefnunni þar sem sagðar voru reynslusögur þjálfara, stjórnenda og foreldra af íþróttastarfi með börnum með fötlun. Einnig fór fram pallborð með fulltrúum úr íþróttahreyfingunni, en þar voru m.a. Þórður Árni Hjaltested, formaður Íþróttasambands fatlaðra, Andri Stefánsson framkvæmdastjóri ÍSÍ og Jóhann Steinar Ingimundarsson, formaður UMFÍ.

Vertu með!

Advertisement

Vertu með! Aukin þátttaka barna og ungmenna af erlendum uppruna í íþróttum var yfirskrift málþings sem ÍSÍ og UMFÍ stóðu fyrir á Hilton Reykjavík Nordica í maí 2022. Kynntar voru niðurstöður frá Rannsóknum & greiningu um þátttöku ungmenna í skipulögðu íþróttastarfi. Börn frá heimilum þar sem engin íslenska er töluð eru helmingi ólíklegri til að stunda íþróttir með íþróttafélagi fjórum sinnum í viku eða oftar en börn frá heimilum þar sem eingöngu er töluð íslenska. Nokkur verkefni hafa verið í gangi með það að markmiði að ná til barna og unglinga af erlendum uppruna og voru tvö þeirra kynnt sérstaklega en þau koma frá Þjónustumiðstöð Breiðholts og frá Reykjanesbæ. Þá voru örfrásagnir frá fjórum ólíkum verkefnum sem höfðu hlotið styrk frá ÍSÍ og UMFÍ en þau komu frá Dansskólanum á Bíldshöfða, HSV, Sunddeild KR og Skautafélagi Akureyrar. Að lokum var Fjölmenningarkista Æskulýðsvettvangsins kynnt.

Örráðstefna um þjálfaramenntun Í lok ágúst 2022 var haldin örráðstefna um þjálfaramenntun íþróttahreyfingarinnar í samvinnu ÍSÍ og Háskólans í Reykjavík (HR). Markmið ráðstefnunnar var að auka samvinnu sérsambanda þegar kemur að þjálfaramenntun og auka vitund þeirra á uppbyggingu þjálfaramenntunar ÍSÍ. Fyrirlesarar voru Viðar Sigurjónsson frá ÍSÍ, Ingi Þór Einarsson frá HR, Helga Svana Ólafsdóttir frá FSÍ og Sveinn Þorgeirsson fyrir hönd HSÍ. Í lokin fóru fram umræður um nánari samvinnu og næstu skref.

Íþróttir 2023

Ráðstefnan Íþróttir 2023 var haldin í byrjun febrúar 2023 í tengslum við Reykjavíkurleikana. Að ráðstefnunni stóðu Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands, Íþróttabandalag Reykjavíkur og Háskólinn í Reykjavík. Ráðstefnan var þrískipt þar sem fjallað var um þjálfun afreksíþróttafólks, íþróttir barna og ungmenna og stjórnun íþróttafélaga. Á meðal fyrirlesara voru Elísabet Gunnarsdóttir, þjálfari Kristianstad í Svíþjóð, Vésteinn Hafsteinsson fyrrum afreksmaður í frjálsíþróttum, þjálfari hjá sænsku Ólympíunefndinni og nýráðinn afreksstjóri ÍSÍ, Else Marthe Sørlie Lybekk fyrrum landsliðskona í handbolta frá Noregi og aðstoðarframkvæmdastjóri Norska Íþrótta- og Ólympíusambandsins, Brian Marshall landsliðsþjálfari Dana í sundi fatlaðra og frammistöðustjóri og margir fleiri. Ráðstefnan var vel sótt auk þess sem margir fylgdust með í streymi.

Málþing um keppnisíþróttir einstaklinga með þroskahamlanir og einhverfu

Íþróttasamband fatlaðra ásamt Háskólanum í Reykjavík stóðu fyrir málþingi í febrúar 2023, um keppnisíþróttir einstaklinga með þroskahamlanir og einhverfu. Fjallað var um mismunandi keppnir sem í boði eru bæði innalands og á alþjóðavettvangi. Málþingið var öllum opið og mjög vel sótt.

Alveg sjálfsagt – sjálfboðaliðar í íþrótta- og æskulýðsstarfi Á alþjóða degi sjálfboðaliðans þann 5. desember 2022 stóð mennta- og barnamálaráðuneytið fyrir ráðstefnunni Alveg sjálfsagt – sjálfboðaliðar í íþrótta- og æskulýðsstarfi á Hilton Reykjavík Nordica. Á ráðstefnunni var fjallað um störf sjálfboðaliða og þær áskoranir sem íþrótta- og æskulýðsfélög hjá þeim samtökum sem reiða sig á störf þeirra, standa frammi fyrir. Fjöldi áhugaverðra fyrirlestra voru á dagskrá og þátttaka á ráðstefnunni mjög góð.