1 minute read

Íþróttaeldhugi ársins 2022 útnefndur

Sjálfboðaliðar gegna veigamiklu hlutverki í íþrótta- og æskulýðsstarfi í landinu og gera það að verkum að starfið í hreyfingunni er jafn öflugt og raun ber vitni. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, í samvinnu við Lottó, stóð fyrir þeirri nýbreytni að útnefna í fyrsta skipti Íþróttaeldhuga ársins úr röðum sjálfboðaliða í íþróttahreyfingunni. Gert er ráð fyrir því að útnefningin verði árleg. Með útnefningunni vill ÍSÍ vekja athygli á starfi sjálfboðaliðans og koma á framfæri þakklæti fyrir framlag sjálfboðaliða um land allt.

Advertisement

Fyrsti Íþróttaeldhugi ársins var útnefndur á hófi Íþróttamanns ársins 29. desember 2022. Þrír einstaklingar voru valdir úr fjölda tilnefninga sem bárust ÍSÍ, úr íþróttahreyfingunni og frá almenningi. Þau þrjú sem heiðruð voru fyrir þeirra ómetanlegu störf voru:

• Friðrik Þór Óskarsson, sem hefur starfað fyrir ÍR og Frjálsíþróttasamband Íslands.

• Haraldur Ingólfsson sem hefur starfað fyrir Íþróttafélagið Þór og Þór/KA.

• Þóra Guðrún Gunnarsdóttir sem hefur starfað fyrir Björninn, Skautafélag Reykjavíkur og Skautasamband Íslands.

Öll hafa þau unnið mikið og óeigingjarnt starf í þágu íþrótta.

Það var Haraldur Ingólfsson sem hreppti titilinn Íþróttaeldhugi ársins 2022 og hlaut veglegan verðlaunagrip sem Sigurður Ingi Bjarnason gullsmiður hannaði sérstaklega fyrir Íþróttaeldhuga ársins.

Öll þrjú ofangreind fengu sérstakt viðurkenningarskjal, kerfismiða frá Lottó og gjafabréf frá Íslandshótelum og þakkir fyrir þeirra ómetanlega framlag til íþróttastarfsins.