1 minute read

Heiðurshöll ÍSÍ

Heiðurshöll ÍSÍ er óáþreifanleg höll afreksíþróttafólks og afreksþjálfara Íslands, í ætt við „Hall of Fame” á erlendri grundu. Framkvæmdastjórn ÍSÍ útnefnir einstaklinga í Heiðurshöll ÍSÍ eftir reglugerð þar að lútandi og er Heiðursráð ÍSÍ ráðgefandi aðili varðandi tilnefningar. Með Heiðurshöll ÍSÍ vill ÍSÍ skapa vettvang til að setja á stall okkar framúrskarandi íþróttafólk og skapa minningar í máli og myndum um þeirra helstu afrek.

Advertisement

Við þingsetningu framhaldsþings 75. Íþróttaþings ÍSÍ 9. október 2021 voru tvíburabræðurnir og frjálsíþróttamennirnir Örn Clausen og Haukur Clausen útnefndir af framkvæmdastjórn ÍSÍ í Heiðurshöll ÍSÍ. Örn og Haukur Clausen voru eineggja tvíburar, fæddir 8. nóvember 1928. Haukur lést 1. maí 2003 og Örn lést 11. desember 2008. Guðrún Erlendsdóttir, ekkja Arnar, og Elín Hrefna Thorarensen, ekkja Hauks, tóku á móti viðurkenningunum fyrir hönd þeirra bræðra undir standandi lófataki forystufólks ÍSÍ, þingfulltrúa og gesta.

Þann 29. desember 2021 var Einar Vilhjálmsson frjálsíþróttamaður útnefndur í Heiðurshöll ÍSÍ. Afhending viðurkenningarinnar fór fram í beinni útsendingu RÚV þegar úrslit úr kjöri Samtaka íþróttafréttamanna um Íþróttamann ársins 2021 voru tilkynnt. Einar er fæddur 1. júní árið 1960.

Þann 29. desember 2022 var Guðrún Arnardóttir frjálsíþróttakona útnefnd í Heiðurshöll ÍSÍ. Afhending viðurkenningarinnar fór fram í beinni útsendingu RÚV þegar úrslit úr kjöri Samtaka íþróttafréttamanna um Íþróttamann ársins 2022 voru tilkynnt. Guðrún er fædd 24. september 1971.

Alls hafa 24 einstaklingar verið útnefndir í Heiðurshöllina. Upplýsingar um Heiðurshöll ÍSÍ er að finna á vefsíðu ÍSÍ og þar má finna umfjöllun um hvern og einn meðlim.