Stol

Page 1


1 Við erum varla komnir út úr bænum þegar þú þarft að pissa. „Meikarðu að bíða aðeins?“ spyr ég og þen vélina í Suzuki-jeppanum í von um að drífa á næstu bensínstöð í tæka tíð. Þú rymur, hristir höfuðið og ég sé að ég á ekki neinna kosta völ og gef stefnuljós út í kant. Halarófan sem hefur safnast fyrir aftan okkur geysist framhjá með ýlfrandi bílflauti. Ég set stöðuljósin á. Stekk út og ríf upp hurðina þín megin. Losa sætisbeltið, sem þú átt alltaf svo erfitt með. Þú reynir að renna niður buxnaklaufinni en endar á að rykkja buxunum niður á hné. Ég rétt næ að víkja mér undan bununni. Þú ert valtur í brattanum við vegöxlina og ég bregð mér á bak við þig og held þér uppréttum. Við stöndum þarna í faðmlögum við þjóð­­ veginn dálitla stund. Þú hallar þér aftur og stynur af létti á meðan sprænan fjarar út og dropar á buxurnar, kuðlaðar milli hnjánna. Síðan hjálpa ég þér að hysja upp um þig og styð þig inn í bíl, þurrka mér um hendurnar í gallabuxurnar áður en ég sest undir stýri. Við stoppum á Litlu kaffistofunni til að þvo okkur og svo að ég geti pissað líka. Veitingasalurinn er fullur af 9


háværum túristum sem dásama landslagið og skiptast á að sýna hver öðrum símamyndir af Gullfossi og Geysi og ábúðarfullum íslenskum hestum. Ég læst ekki sjá peningabaukinn og skiltið sem á stendur 100 KR TO USE BATHROOM FOR NON-PAYING CUSTOMER og sendi þig inn á undan, þótt ég sé alveg í spreng. Þú ert óratíma inni. Ég heyri sturtað niður og veit ekki hvort þú gerir það af gömlum vana eða hefur þurft að pissa meira. Ég reyni að vera snöggur en auðvitað ertu horfinn þegar ég kem aftur út. Ég finn þig í hrókasamræðum frammi í veitingasal, þar sem þú gnæfir yfir túristapari sem situr úti í horni með vöfflur með þeyttum rjóma fyrir framan sig, tveir risavaxnir bakpokar við fætur þeirra. Rödd þín er of hátt stillt. Mér finnst eins og allir séu að fylgjast með okkur. „We are going camping!“ útskýrir þú stoltur. „To Jö…“ Þú hikar, setur stút á varirnar og leitar að rétta hljóðinu: „Jö…sjö…sjé…jös.“ „Jökulsárlón.“ Ég lauma orðinu inn og þú tekur þakklátur undir. Bakpokaferðalangarnir kippa sér lítið upp við höktið, finnst ekkert skrítið að heimafólk eigi jafn erfitt með nöfnin á íslensku náttúruperlunum og þau. „That’s great, man,“ segir strákurinn með bandarísk­um hreim. Hann er fúlskeggjaður, með tréfleyg í gegn­­­um annan eyrnasnepilinn. Hárið er í klepruðum dreddum sem eru bundnir saman í hnút við hnakkann. Það er álíka frágangur á stelpunni og hún er með hring í öðrum nasavængnum og búddistamandölur húðflúr­ aðar á bæði handarbökin. 10


„We just came from there!“ segir hún uppveðruð. „Are you going to …“ Hún hægir á sér og smjattar á sérhljóðunum: „Lan-ma-na-lau-har? It’s totally beautiful. The water is amazing.“ Strákurinn samsinnir en þú hristir hausinn, bandar hendinni yfir salinn. „Too many tourists!“ Þau hlæja vandræðalega og ég reyni að ná athygli þinni. „Eigum við ekki að koma?“ Blessunarlega kinkarðu kolli og kveður. Það sýður á mér við að sjá þau brosa laumulega og gefa hvort öðru hornauga þegar þú snýrð við þeim baki. Á leiðinni út hrifsa ég knippi af bréfþurrkum úr standi á afgreiðsluborðinu, ef ske kynni að við lendum í fleiri slysum úti á þjóðvegi. Úti í bíl sitja augngoturnar ennþá í mér. Ég þarf að draga andann djúpt og róa mig áður en við beygjum út í umferðina. Af hverju er ég að velta mér upp úr því hvað eitthvert ókunnugt lið utan úr heimi er að pæla? „Helvítis fyrstaheims hippapakk,“ muldra ég við sjálfan mig. „Þau voru, þú veist …“ Þú stingur þumalputtanum út í loftið eins og til að húkka far. Ég hristi hausinn. „Týpískt. Þau eiga örugglega moldríka foreldra en svo tíma þau ekki að borga bíl undir sig. Það er fullt af svona liði í New York, láttu mig þekkja það.“ Þú segir ekkert, horfir ringlaður á strípað landslagið, bílhræin tvö sem búið er að koma fyrir uppi á 11


stalli eins og ríkisstyrktum váboðum. Á skiltinu stend­ ­ur að fimm manns hafi látist í umferðinni á árinu en það getur ekki verið rétt, þau hljóta að hafa gefist upp á að telja. Þú ert dasaður eftir masið við túristana og valsinn okkar á vegöxlinni, misstir af hádegisblund­ inum af því að ég var að eltast við svefnpoka og tjald­ dýnur inni í geymslu og pakka í bílinn. Þú reyndir að hjálpa til en þvældist bara fyrir. Ég ætlaði að pakka í gærkvöldi, þegar þú varst kominn í háttinn, en það er allt á síðustu stundu þessa dagana. „Viltu ekki bara halla sætinu aftur og leggja þig?“ sting ég upp á. „Ég vek þig þegar við stoppum að kaupa nesti.“ Þú þarft hjálp við að finna takkann til að halla sæt­­ inu. Bíllinn rásar á veginum meðan ég teygi mig yfir þig og þreifa fyrir mér. Kviðurinn á þér er stinnur við­­komu, útstæður og þrútinn af lyfjabjúg. Loks smell­ ­ur sætið aftur og þú leggst á hauspúðann, dregur derhúfuna orðalaust niður yfir augu. Ég keyri um stund í þögn, þori ekki að kveikja á útvarpinu. Það hægist á andardrætti þínum og innan skamms ertu farinn að hrjóta. Ég slakna allur í sætinu, anda hægt frá mér í gegnum munninn og finn hvernig losnar um hnútana í öxlunum. Það er hlandlykt í bílnum. Ég set rifu á gluggann og hugsa Magneu þegjandi þörfina fyrir að hafa stungið upp á þessu ferðalagi okkar.

12


2 Við höfum verið að ræða tjaldtúrinn síðan ég kom heim en ég bjóst aldrei við að það yrði neitt úr þessu. Þetta var bara falleg pæling sem ég vildi ekki taka frá þér: Við feðgarnir á vegum úti, að hita kakó á prímus og bleyta tannbursta í lækjarvatni. Eins og þegar ég var lítill og við fórum í útilegu saman á hverju sumri, um Suðurland og jafnvel alveg austur að Jökulsárlóni. Þú varst í sveit rétt hjá Klaustri sem strákur, sagðir sömu gömlu sögurnar í hverri ferð: þú að mála traktorinn, reka beljurnar eftir þjóðveginum, lifrarpylsa og grjónagrautur í hverja máltíð. Ég tek alltaf undir með þér þegar ferðalagið ber á góma, þó að í raun treysti ég mér varla til að vera einn með þér. Segi: „Já, heyrðu! Gerum það!“ og svo framvegis. Passa síðan að minnast ekki á þetta aftur. Bíð eftir næsta blundi. Skammtímaminnið er mestmegnis horfið. Eftir hvern blund er eins og þú endurræsist; manst ekki neitt. Svo einn morguninn segir Magnea: „Ég held að þið ættuð að skella ykkur núna um helgina,“ og ég lít á þig og veit um leið að ekki verður aftur snúið. Ég er draugþunnur, kom upp í morgunmat af því að það er ekkert eldhús í kytrunni minni í kjallaran­ ­um. Bara dýna á gólfinu og klósett frammi á gangi. Það 13


má ekki búa í herbergjunum þarna niðri en ná­­grann­ arnir vita hvernig stendur á og segja ekki neitt. Þú ert löngu vaknaður, búinn að fá þér kaffi og gleypa pill­ urnar. Ert yfirleitt kominn á stjá fyrir sex, þótt þú sért ekki að fara neitt. Situr frammi í eldhúsi með út­­varpið í gangi og bíður eftir að ég eða Magnea dröttumst á fætur til að hita kaffi. Þú finnur ekki neitt í eldhúsinu lengur og kannt ekki á könnuna. Einn morguninn rétt náði ég að stoppa þig í að fylla hana af sykri. Við hlógum að því saman, fannst þetta alveg drepfyndið. Síðan þá hef ég tamið mér að strjúka fingri yfir eldavélarrofana þegar ég geng framhjá, til að ganga úr skugga um að ekki sé kveikt á hellunum. Þú veðrast allur upp við orð hennar. „Er það ekki, Baddi?“ segirðu. Þú ert ekki búinn að setja upp der­ húf­una og örið blasir við, bogadregin lína frá gagn­ aug­­anu og aftur fyrir eyra. Læknarnir opnuðu höfuðkúpuna og skáru burt eins mikið og þeir þorðu en það dugði ekki til. Eftir aðgerðina gastu ekkert talað og helmingurinn af andlitinu var bólginn og marinn, vinstra augað falið í fellingum af fjólubláu holdi. Fólk leit undan úti á götu og öryggisverðir í verslunum fylgdust grannt með þér, héldu að þú værir róni eða fíkill sem hefði verið laminn í stöppu. Bólgan er horfin núna og sum orðanna hafa skilað sér en jafnvægisskynið er enn í ólagi og það er eins og þú heyrir ekki í sjálfum þér. Talar hátt, orðin öll í rugli, höfuð þitt þrútið og ólögulegt eins og ofþroskuð appelsína. „Jú, heyrðu, það líst mér á,“ tek ég undir en bæti við: „Er engin lyfjagjöf um helgina?“ 14


Magnea hristir hausinn og bætir vatni í tebollann sinn. „Nei, það er bara lyfjagjöfin í dag og svo er ekkert fyrr en í næstu viku,“ segir hún og sýpur á. Tepokar endast að eilífu hjá henni, hún er með sama bollann við höndina allan daginn en maður sér hana aldrei skipta um poka. Hún er nýstigin inn af svölunum. Súr reykingalyktin í kringum hana blandast við blómaangan af jurtateinu. „Fullkomið, við förum þessa helgi,“ segi ég og geri mitt besta til að hljóma óður og uppvægur. Eftir morgunmat ferðu inn í herbergi að hvíla þig. Þú ert orðinn algjör inniköttur, tekur stuttar kríur hér og þar í íbúðinni oft á dag. Á meðan við Magnea göngum frá og vöskum upp reyni ég að tala um fyrir henni. „Ertu viss um að þetta sé sniðugt? Hvað ef hann fær annað áfall og dettur út, og við einhvers staðar úti á landi?“ „Það myndi nú ekki breyta miklu úr þessu,“ svarar hún og réttir mér annan disk til að koma fyrir í uppþvottavélinni. Hún er slæm í bakinu og á erfitt með að hlaða vélina. „Það eina sem skiptir máli núna er að honum líði vel,“ bætir hún við og hljómar eins og hún sé að tala við sjálfa sig, að mögla yfir veðrinu fyrir utan eldhúsgluggann. „Hann er svo glaður yfir að þú sért kominn heim. Það verður gott fyrir ykkur að fá smátíma einir.“ Ég kinka kolli, rym eitthvað til samþykkis á með­­ an ég raða í vélina, hef autt bil á milli diska og flokka hnífa­­pörin í hólfin. Leirtauið er sjóðheitt eftir bununa 15


í vaskinum, hendurnar á Magneu rauðar og þrútnar. Blöndunargræjurnar í eldhúsvaskinum eru lélegar og það er erfitt að stilla vatnið en hvorugt okkar kann að skipta um þær. Á leiðinni niður á spítala seinnipartinn gæti ég þess að minnast ekki á ferðalagið. Maður veit aldrei hvað hver dagur ber í skauti sér. Ég vil ekki vekja með þér vonir ef ske kynni að horfurnar breytist áður en við leggjum af stað. Á meðan þú sefur í La-Z-Boy-stól með æðalegg í handarbakinu sit ég úti í horni og pota í símann, ráfa um Facebook og Twitter í leit að einhverju til að dreifa huganum. Enda á grein um barna­stjörnur frá níunda áratugnum. Það er eitthvað uppörvandi við að sjá þessi kunnuglegu andlit, eins og að sjá gamla vini sem maður hefur misst samband við. Auðvitað hafa einhver þeirra drepist úr ofdrykkju og dópi eða framið sjálfsmorð en flest hafa það bara fínt. Eru að fást við handritagerð og tónlist og fleira í þeim dúr. Þú rumskar í stólnum, galopnar augun og starir á mig. Ég held niðri í mér andanum þar til augun lokast og höfuðið sígur aftur niður á púðann. Síðan opna ég Tinder og byrja að fletta í gegnum strákana þar, í von um að sjá einhvern sem ég þekki frá því í gamla daga. Ég bjó til prófíl stuttu eftir að ég kom heim en lét nægja að setja inn ógreinilega mynd þar sem rétt sést glitta í mig. Mig langaði bara að njósna og skoða en maður verður víst að vera með mynd. Ég er líka með Grindr-­ prófíl en fer aldrei þangað inn nema seint á kvöldin þegar ég kem heim af barnum og ligg á dýnunni minni 16


á meðan herbergið snýst. Fletti í gegnum túristastrákana sem gista í Airbnb-íbúðunum sem hafa sprottið upp alls staðar í Norðurmýrinni. Stundum læt ég mig dreyma um að hafa samband, finna einhvern ferðamann til að sofa hjá. Ég get samt ekki hugsað mér að sýna þeim kjallaraholuna mína, dýnuna á gólfinu með pítsukassa og keramikið hennar Magneu allt í kring. Prófílmyndirnar duga til að stugga burt hugsunum um Ava. Þótt maður sjái oft sama liðið í innspýtingum talast fólk ekki við á meðan á lyfjagjöfinni stendur, skiptist í mesta lagi á nokkrum orðum um veðurfarið. Síðan dottar það, blaðar í tímaritum, skoðar símana sína eða gægist hvert á annað og veltir fyrir sér hvert þeirra verði fyrst til að tapa tórunni. Þetta er eins og hver önnur biðstofa; loftið þrungið spítalalykt og hrúga af þvældum tímaritum á borðinu. Það eru fjórir aðrir La-Z-Boy-stólar á stofunni en aðeins setið í þremur. Í einum dottar ungur asískur strákur. Ég hef séð hann hér áður. Hann er alltaf einn á ferð. Ég kannast líka við gömlu hjónin úti í horni. Karlinn sefur á meðan hún fæst við krossgátu. Á móti þeim eru önnur hjón á svipuðum aldri en hjá þeim er það konan sem hallar sér aftur með æðalegg í handarbakinu, lítil og brothætt á hvítum, ofvöxnum leðurstólnum. Karlrumurinn hennar situr hjá á litlum kolli og lítur verr út en hún, nefið rautt og æðabert og augun eins og brotið postulín. Það er enginn sem ég þekki á Tinder. Þeir eru allir svo ungir – annaðhvort sætir strákar með plokkaðar 17


augabrúnir eða algerir nördar. Mér líður eins og göml­ ­um perra að skoða myndirnar af þeim, gefst upp á rápinu og býðst til að sækja kaffi ef einhver vilji. Gamla konan með krossgátuna er sú eina sem þigg­­ur boðið, hvíslar: „Já, takk, það væri vel þegið,“ til að vekja ekki manninn sinn. Beljakinn lítur ekki einu sinni upp og þau í stólunum sofa sem fastast, eða þykj­ ­ast gera það. Kannan frammi á gangi gefur frá sér blautt prump þegar ég þrýsti á bulluna svo ég fer inn á næstu deild í leit að meira kaffi, og það er þá sem ég stend skyndilega augliti til auglitis við Ragnheiði. Ég snarstoppa og hraða mér inn í hjúkkubúrið áður en hún ber kennsl á mig. Það er verið að fylgja henni inn á deild. Hún er með manninn sinn háskólaprófessorinn í eftir­ ­dragi. Skallinn er falinn undir afrískri skuplu, eins og hún var að kenna fólki að hnýta á YouTube-rásinni sinni. Myndbandið fór um allt á Facebook og í netmiðla, ásamt löngu viðtali með myndum af henni og fjölskyldunni. Í athugasemdunum fyrir neðan var hol­ ­skefla af hjörtum og táreygðum brosköllum. Krabbameinið fer henni vel. Það geislar af henni. Léttur hlátur hennar berst inn í vaktherbergið og ég sný mér að veggnum á meðan hún fer framhjá og bíð þar til hún er örugglega komin inn á stofuna sína. Þegar ég sný mér við stendur ung hjúkka í gættinni. „Þú mátt ekki vera hér inni,“ segir hún. „Nei, fyrirgefðu!“ Ég hraða mér framhjá henni, skima eftir Ragnheiði en sé hana hvergi. „Ég var að leita að kaffi, það er búið frammi.“ 18


Hún grandskoðar hillurnar til að sjá hvort ég hafi hreyft við einhverju, grunar mig augljóslega um að vera að leita að læknadópi. Ég býst hálfpartinn við að hún muni krefjast þess að fara í gegnum vasana mína. „Ég var að skipta um könnu,“ segir hún. „Sjúklingar og aðstandendur mega ekki stíga inn fyrir gulu lín­ urnar á gólfinu.“ Ég kinka kolli. „Já, sorrí, maður er svo ringlaður þessa dagana.“ Það er augljóst að hún hefur heyrt þessa afsökun áður en hún lætur gott heita. Handan við hornið fylli ég tvö pappamál af kaffi og laumast inn ganginn, vona að ég mæti ekki Ragnheiði og prófessornum inni á stofu hjá þér. Mér léttir þegar ég heyri hlátur hennar berast út um dyragátt nær hjúkkustöðinni og skunda framhjá án þess að líta í áttina þangað. Inni á stofu halla ég hurðinni á eftir mér og afhendi gömlu konunni bollann sinn. Hún umlar eitthvað, greinilega komin í strand með krossgátuna. Asíski strákurinn er vaknaður og spyr hvort það sé til meira kaffi. Ég rétti honum ósnertan bollann minn frekar en að hætta mér aftur fram á gang og hann þiggur boðið eftir örlitlar mótbárur. Þetta er sætur og fíngerður strákur og þegar hann réttir fram höndina til að taka við kaffinu verður mér starsýnt á tribal-húðflúrið sem gægist fram úr erminni á stuttermabolnum hans. Ég hef varla séð svoleiðis síðan um aldamótin. Ætli þetta sé komið aftur í tísku? Eða er strákurinn kannski eldri en ég hélt? Hann brosir við mér, hefur greinilega séð mig gjóa augunum á húðflúrið. Ég fer hjá mér, kinka 19


kolli og sest aftur niður við hliðina á þér. Lít á úrið og reyni að sjá fyrir mér hvað Ava sé að gera þessa stundina, fjórum tímum á eftir mér. Líklega er hann í há­­ degishléi í vinnunni. Kannski búinn að rölta út og ná sér í gyro-vefju eða salat til að borða undir trjákrónunum í Bryant Park. Ég átta mig á að þetta er fyrsti dagurinn sem ég endist fram yfir hádegi án þess að hugsa til hans. Það er ágætt. Við búum hvor í sínum heiminum núna. Ég hef stigið út úr veröld okkar og inn í aðra vídd. Á meðan hann sefur í rúminu okkar, notar bollana okkar, hittir vini okkar og fer út að borða á stöðunum okkar er ég hérna: í rústum lífs sem var kannski einu sinni mitt eigið en ég kannast lítið við núna.

20


Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.