Verndarblaðið 2017

Page 1

VERNDARBLAÐIÐ UM AFBROT, FANGA OG FANGELSISMÁL

45. árg. 2017


VINNA Í FANGELSUM E Verndarblaðið –Um afbrot, fanga og fangelsismál 45. árg. 2017 Útgefandi: Félagasamtökin Vernd, Borgartúni 6, 105 Reykjavík Sími: 562-3003; fax: 562-3004 Netfang: vernd@vernd.is Heimasíða Verndar: http:/www.vernd.is Ritstjóri og ábyrgðarmaður: Hreinn S. Hákonarson Stjórn Verndar: Elsa Dóra Grétarsdóttir, sviðsstjóri, formaður Guðrún Þorgerður Ágústsdóttir, félagsráðgjafi Ólafur Þröstur Sveinbjörnsson, kerfisfræðingur Ragnheiður Elfa Arnardóttir, félagsráðgjafi Ægir Örn Sigurgeirsson, félagsráðgjafi Jóna Björg Howard Jónína Sólborg Þórisdóttir

Húsnefnd áfangaheimilis Verndar Þráinn Bj. Farestveit, framkvæmdastjóri Brynja Rós Bjarnadóttir, deildarstjóri Guðjón Sveinsson, forstöðumaður Ragnheiður Elfa Arnardóttir, félagsráðgjafi María Steinþórsdóttir, matráðskona Hreinn S. Hákonarson, fangaprestur Framkvæmdastjóri: Þráinn Bj. Farestveit Endurskoðendur: Birgir Ottósson, forstöðumaður Arthur K. Farestveit, fyrrv. forstjóri Umbrot, prentun og bókband: Litróf–Umhverfisvottuð prentsmiðja Auglýsingar: Markaðsmenn Forsíðumynd: Í leit að frelsi, mynd eftir fanga á Litla-Hrauni. Allar myndir í blaðinu tók ritstjóri nema myndir af höfundum einstakra greina og mynd á bls. 7. Skjáskot frétta á bls. 9 og 11 eru tekin af timarit.is

2

inn mikilvægasti þátturinn í öllum fangelsum hvort heldur þau eru ný eða gömul er að fangar hafi eitthvað jákvætt fyrir stafni. Nú eru margir fangar fúsir til vinnu og þeim þarf að mæta með frambærilegum vinnutækifærum; sumir eru því miður óvinnufærir af ýmsum ástæðum eins og slysförum eða langvarandi neyslu og sukki, og svo er hópur þessum skyldur sem er illa fær til vinnu og oft af sömu ástæðum og hinn fyrri en getur þó sitthvað. Þá er lítill hópur sem þyrfti beinlínis á vinnuskólakennslu á að halda því hann hefur lítið fengist við almenna launavinnu. Svo eru náttúrlega einhverjir sem vilja bara ekki vinna og við því er svosem ekki mikið að gera annað en að beita ýmsum brögðum til að vekja einhverja vinnulöngun. Þá er er þess að geta að nokkur hreyfing er á vinnuhópnum eðli máls samkvæmt, fólk kemur til afplánunar og lýkur síðan afplánun. Síðast en ekki síst er mikilvægt að einhvers konar nám standi föngum til boða því nám er vinna. Reynsla af skólastarfi innan fangelsa er góð og oft hefur það gert gæfumuninn hjá föngum og orðið þeim hvati til að halda áfram námi eftir að fangvist lýkur. Margir fangar stunda fjarnám í einhverri mynd og það er mjög krefjandi. Kennsla í fangelsi er vitaskuld með öðrum blæ en í venjulegum skóla og kennarar gegna þar lykilhlutverki sem fræðarar og mannvinir því kennslan er ekki alltaf dans á rósum þótt hún sé mjög gefandi. Hlutur námsráðgjafans er ekki síðri og skiptir hér sköpum. Heillaráð hans hafa iðulega ráðið úrslitum hjá nemendum. Það er sömuleiðis ánægjuefni að verða vitni að því þegar fangar sitja sveittir yfir námsbókum sínum og eru að kenna hver öðrum. Það getur því verið ýmsum vandkvæðum bundið að finna heppilega og sveigjanlega vinnu sem hentar föngum í ljósi þess sem áður sagði. Þess vegna reynir hressilega á frjóa hugsun og líflegt hugmyndaflug þeirra sem stýra atvinnumálum fanga og finna heppileg verkefni. Ekki má láta kostnað vegna nýrra atvinnutækifæra í fangelsum slá sig út af laginu því að sjálfsögðu er vonast til að þau skili einhverju jákvæðu. Nú er í vinnslu athyglisvert og frjótt samstarf milli nemenda í Listaháskóla Íslands og Litla-Hrauns sem felst í því að finna listrænt vinnutækifæri ef svo má segja. Einhver hlutur, gripur, tæki eða áhald, eftir hugmynd listnemans verður fullunninn á Litla-Hrauni. Þetta er á vissan ögrandi verkefni sem verður fróðlegt að sjá hvað verður úr. Góð og skynsamleg atvinnutækifæri þurfa að bera í sér jákvæða hvatningu til að vinna og helst að laða viðkomandi til sín og örva vinnandi hönd. Þessi hvatning þarf fyrst og fremst að snúa að einstaklingnum sjálfum. Hann þarf í fyrsta lagi að sjá að vinnan sem hann innir af hendi hafi einhvern tilgang og sé nauðsynleg. Viðkomandi þarf líka að hafa einhvern fjárhagslegan hag af vinnunni sem munar um – taxti fangalauna þyrfti að vera umtalsvert hærri til að verða hvetjandi út af fyrir sig. Í því efni væri athugandi eftir því sem við ætti að vinnandi fangar væru á taxtakaupi verkalýðsfélaga því það myndi gefa fangelsum frjálsari hendur með hvaða vinnu „megi“ vinna í fangelsi svo samkeppnisstöðu markaðarins sé ekki ruggað. Störf krefjast mismikillar færni og menntunar. En öll störf eru uppbyggileg þegar öllu er á botninn hvolft. Vandi innan fangelsa er oft sá að vekja upp jákvætt viðhorf til vinnu en það er hægt með fjölbreyttri vinnu, vinnukennslu, hærra fangakaupi, markaðsvinnu, einstaklingsmiðaðri vinnu og umbunarkerfi fyrir þá sem vinna og eru í námi. Hreinn S. Hákonarson


Sólveig Fríða Kjærnested

UM ÁHÆTTUMATSGERÐ OG FLEIRA V

erkefni sálfræðinga Fangelsis­mála­ stofnunar eru margvísleg og um­­ fangsmikil. Tvö stöðugildi sálfræðinga eru hjá Fangelsismálastofnun og hlutverk þeirra eru m.a. sálfræðileg meðferð, ráðgjöf og stuðningur, og að framkvæma áhættu- og þarfamat. Vegna mikilla anna eru áhættu- og þarfamöt ekki fram­ kvæmd á öllum. Þegar ákveðið er hvort fram­kvæma eigi slíkt mat er m.a. horft til alvarleika ofbeldisbrotsins sem við­ komandi einstaklingur situr inni fyrir. Þegar haft var samband við mig um að skrifa grein í blaðið fannst mér tilvalið að skrifa aðeins um áhættumatsgerð og inn­grip því tengdu - með þá von um að veita betri innsýn almennt um áhættu- og þarfamöt og meðferðarinngrip.

Áhættu- og þarfamat Áttættu- og þarfamöt eru notuð innan dóms- og réttarkerfisins um allan heim. Áhættumat er ferli sem skoðar m.a. hegðun og aðstæður sem geta leitt til afbrota hjá einstaklingum. Þegar talað er um áhættu er verið að fjalla um mat á líkum á því að einstaklingur sýni af sér hegðun sem getur valdið öðrum miska/skaða. Með alvarlegum skaða er átt við atvik sem eru metin lífshættuleg og/eða valda áfalli, hvort sem um er að ræða andlegt eða líkamlegt. Almennt má skoða áhættu út frá tveimur mismunandi forsendum: Líkurnar á ítrekun – mun dómþoli brjóta aftur af sér og hverjar eru líkurnar á því að það muni gerast innan ákveðins tímaramma? Líkurnar á skaða – mun dómþoli fremja brot sem veldur alvarlegum skaða? Ef svo, hvers konar brot, gegn hverjum, undir hvaða kringumstæðum og af hverju. Mat á áhættu á að nota til að skipuleggja inngrip sem draga úr virkum áhættuþáttum.

VERNDARBLAÐIÐ 2017

Sólveig Fríða Kjærnested er sálfræðingur, sviðsstjóri með­ ferðarsviðs hjá Fangelsis­ málastofnun ríkisins

og unnið með þá til dæmis í markvissri meðferð. Þarfir eru því breytilegur áhættuþáttur, en sem dæmi getur einstaklingurinn þurft að efla tilfinningastjórn, að takast á við vímuefnaneyslu sína, andfélagsleg viðhorf o.þ.h. • Móttækileiki: hér eru inngrip skoðuð og hvernig best er að miðla þekkingu og efla samvinnu.

Matstæki

Nothæf inngrip

Í kringum 1970 varð vitundavakning um mikilvægi þess að við gerð áhættumats væru notuð mælitæki sem horfa til þátta sem rannsóknir sýna að hafa áhrif á brotatengda þætti. Sem dæmi þá meta slík mælitæki einstaklingsbundna þætti á borð við félagslegt net einstaklingsins, sem hefur sýnt að hefur áhrif á ítrekunartíðni. Sýnt hefur verið fram á að gagnreynt matstæki, matstæki sem rannsóknir hafa sýnt að beri árangur, hafa betri forspárgildi en eingöngu mat meðferðaraðila. Matstæki sem hefur verið stuðst við þegar áhættu- og þarfamat er framkvæmt er m.a. RNR módelið (Risk – Need – Responsivity). RNR metur þætti, með einstaklingsbundnum hætti, sem spá fyrir um brotahegðun. Til dæmis getur félagsskapur, neysla og viðhorf haft ákveðin áhrif á ítrekun brota. RNR er hins vegar ekki bara tæki sem metur líkur á áhættu heldur skoðar einnig þarfir og móttækileika fyrir meðferð, en meginmarkmið RNR er að draga úr áhættuþáttum. Í stuttu máli er hægt að lýsa þessum þremur þáttum á eftirfarandi hátt: • Áhætta: líkur á ítrekun er metin og inngrip veitt í samræmi við það. • Þarfir: þarfir geta tekið breytingum, hér eru brotatengdir þættir kortlagðir

Megin tilgangur áhættu- og þarfamats er að geta veitt viðeigandi inngrip, styðja einstaklinginn til að draga úr líkum á ítrekun brota og að styðja einstaklinginn aftur út í samfélagið með sem öruggustum hætti. Markmið inngripa og meðferðar er að dómþoli beri betur kennsl á þætti sem tengjast afbrotahegðun og geti sett þá í samhengi við eigin hegðun. Einnig að efla getu dómþola til að takast á við aðstæður, sálræna og félagslega þætti sem auka líkur á brotatengdri hegðun. Í matinu er ekki eingöngu leitað eftir áhættuþáttum sem geta aukið líkur á skaðlegri hegðun heldur er einnig verið að meta þætti sem draga úr líkum á henni, það er styrkleikum. Styrkleikar eða verndandi þættir eru einstaklingsbundnir og geta verið margskonar. Dæmi um einstaklingsbundna þætti: að stunda nám eða vinnu, uppbyggileg áhugamál og vinátta, sjálfsstjórn, markmiðsetning, þrautseigja, lausnamiðuð nálgun og að geta rætt um vandamál. Dæmi um fjölskylduþætti: jákvæð og stöðug samskipti við aðstandendur sem eru jákvæðar fyrirmyndir. Með því að beina sjónum að þáttum sem skipta máli í tenglsum við áhættuhegðun er verið að horfa í að þróa færni dómþola til að stýra hegðun sinni jafnvel við áhættusamar aðstæður. Meðal

3


annars fela slík inngrip í sér að: • Virkja dómþola til athafna sem tengjast ekki brotum • Forða dómþola frá aðstæðum sem geta kveikt á gömlum hegðunarmynstrum, þá einkum brotahegðun • Auka færni í að sjá fyrir sér afleiðingar brotahegðunar (neikvæðar) • Hafa áhrif á þætti sem tengjast viðhorfum, aðstæðum eða hegðun sem hefur áhrif á brotahegðun. Þessir þættir geta tekið breytingum (aukning/minnkun) til að mynda neysla, vinna og vinahópur. Þá geta sumir breytilegir áhættuþættir sveiflast hratt jafnvel innan daga eða klukkustunda og eykst hættan sem af dómþola stafar á slíkum tímapunktum. Í þessu samhengi má nefna neyslu eða húsnæðismissi/atvinnumissi. Hægt er að skipta niður þeim inngripum sem notast er við í eftirfarandi: 1. Meðferð (einstaklings eða hóps). Hér er um að ræða markvissa meðferð þar sem tekið er á persónuþáttum sem viðhalda áhættuhegðun, svo sem viðhorfum, tilfinningum, hugsana­ ferlum og hvötum. Inngrip af þessu tagi geta verið margskonar en mikilvægt er að nota gagnreyndar aðferðir sem sýnt hafa fram á árangur. 2. Umhverfi og skilyrði. Hér er horft til þess hvort og þá hvernig dómþoli er fær um að takmarka líkur á frekari brotahegðun. Skilyrði eru þá sett þegar þörf er talin á að minnka líkur á frekari brotahegðun. Getur þetta til að mynda verið takmörkun á því í hvaða fangelsi dómþoli afplánar eða hver skilyrði reynslulausnar eru með hliðsjón af áhættuþáttum. Dæmi

um skilyrði eru til að mynda að mega ekki umgangast ákveðna ein­staklinga, vinna ákveðna vinnu eða búa á til­ teknum stöðum. Skilyrði þessi þurfa að vera einstaklings­miðuð, sann­ gjörn, réttlætanleg og raunhæf sem og fylgt eftir. 3. Eftirlit. Hér er aðallega verið að vísa til ytri þátta, svo sem rafræns eftir­lits, uppýsingagjafar til lögreglu, barna­verndar, félagsþjónustu eða annarra opinberra aðila sem að málinu koma. Hér er verið að reyna að draga úr kveikjum í umhverfinu og tæki­færum (með því að takmarka aðgang þeirra að ákveðnum stöðum svo sem sundlaugum) eða aðgengi þeirra að fólki, t.d. fyrrverandi brota­ þolum. Hér eru skilyrði og eftir­lit aðalinngripin.

Meðferðarinngrip Inngrip geta verið af ýmsum toga en hérlendis er almennt unnið eftir; The Good Lives Model (GLM) og hugrænni atferlismeðferð (HAM). Árangur meðferðar er töluvert háð vilja, samvinnu og trausti meðferðaraðila og einstaklingsins en getur dregið úr frekari skaðlegri hegðun um allt að 50%. GLM er líkan sem hannað er með afbrotahegðun í huga, þ.e. að GLM telur að brotatengd hegðun einstaklingsins sé tilkomin vegna þess að hann er að sækja sér grunnþarfir eða gildi á óæskilegan máta. Dæmi um óæskilega leið sem sumir velja til að uppfylla grunngildi svo sem tilfinningastjórn er notkun vímuefna. GLM telur upp tíu þætti sem einkenna grunngildi manneskjunnar, en þau eru: • Heilsa og líkamleg vellíðan • Þekking

• Færni • Innri friður (peace of mind) • Tilfinningastjórn • Náin tengsl • Sjálfstæði og trú á eigin getu • Að tilheyra • Gleði • Sköpunarhæfni • Tilgangur í lífinu Í GLM er byggt ofan á styrkleika einstak­ lingsins sem hafa áhrif á hvernig hann getur nýtt sér þá til að ná settum markmiðum með félagslega viðurkenndum leiðum. HAM er það meðferðarform sem rannsóknir sýna að hefur náð hvað bestum árangri til að ná og viðhalda bata á ýmsum geðrænum vanda, s.s. þunglyndi, vímuefnavanda, kvíða og ýmsum tegundum fælni. Í HAM er unnið út frá hugrænniog atferlislegri nálgun. Með því er átt við að unnið er að því að einstaklingurinn auki innsýn í áhrif hugsana sinna á tilfinningar og hegðun hans, þ.e. samspil hugsana, tilfinninga og hegðunar er skoðuð. Það er gert til að efla m.a. eigin stjórn og draga úr hvatastjórnun, auka getu til að sjá hluti frá öðrum sjónarhornum og bregðast við á meðvitaðri máta. Til að draga saman megin markmið áhættu- og þarfamatsgerðar mætti hafa eftirfarandi spurningar í huga: 1. Hvað er að hafa áhrif á áhættuhegðun? 2. Hvar þarf að beita inngripum? 3. Hvaða inngrip er best að veita og hvernig er best að veita inngripið? Með því að svara þessum spurningum má betur styðja einstaklinginn aftur út í samfélagið og þannig er reynt að tryggja öryggi einstaklingsins og almennings eins vel og mögulegt er.

MET SLEGIÐ Í NÚMERAFRAMLEIÐSLU Einn rótgrónasti vinnustaðurinn á Litla-Hrauni er númeraframleiðslan. Hann nýtur góðs af mikilli aukningu á bílainnflutningi. Aldrei hafa fleiri númeraplötur verið framleiddar eins og nú. Fjöldi platna í mars s.l. á þessu ári var 9.990 og er það met en næst kemur maímánuður hins fræga árs 2007 en þá voru plöturnar 9.750. Númeraframleiðslan á Litla-Hrauni veitir tveimur föngum vinnu – stundum þremur. Þetta er vinsæll vinnustaðurinn og eftirsóttur, vinnan er þrifaleg og skemmtileg. Auk þess krefst hún vandvirkni og árvekni. Verkstjóri í númeradeild er Ingi Þór Jónsson, fangavörður.

4

Númeradeildin.


Henrietta Ósk Gunnarsdóttir

UPPLIFUN, REYNSLA OG LÍÐAN

KYNFERÐISBROTAMANNA

AF ENDURKOMU ÚT Í SAMFÉLAGIÐ M

ikil áhersla hefur verið á brotaþola og áhrif kynferðisofbeldis í fræðunum hingað til enda er kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum alvarlegt mál og getur haft mikil áhrif á brotaþola. Mun minna er um að þessi málefni hafi verið skoðuð út frá brotmönnunum sjálfum en mikilvægt er að skoða málefni frá öllum hliðum með það að leiðarljósi að það leiði af sér hagnýta þekkingu og sé til hagsbóta fyrir alla. Hugtakið kynferðisbrotamaður vekur upp sterkar, neikvæðar tilfinningar hjá fólki (Fedoroff og Moran, 1997). Sýnt hefur verið fram á að viðhorf almennings til kynferðisbrotamanna eru neikvæðari en til annarra brotamanna (Craig 2005). Viðbrögð almennings eru sterk og fela jafnvel í sér sniðgöngu þeirra og útskúfun. Þessi viðhorf geta síðan haft áhrif á endurkomu þeirra út í samfélagið; þeirra sem hafa brotið af sér og afplánað dóm, en það getur aukið líkurnar á endurteknum brotum (Willis og Ward, 2011). Erlendis eru áhyggjur yfir því að sú stefna, sem samfélagið mótar sér, gagnvart einstaklingum sem brjóta kynferðislega gegn börnum (e. Community protection policy), geti aukið líkur á endurtekinni brotahegðun þó tilgangur hennar sé sá að koma í veg fyrir hana. Sem dæmi má nefna getur formleg skráning kynferðisbrotamanna og hömlur á búsetu dregið verulega úr möguleikum þeirra á viðeigandi húsnæði og þar af leiðandi leitt til einangrunar(Zandbergen og Hart, 2006 sjá Willis, Levenson og Ward, 2010). En eftir situr spurningin; hvað er hægt að gera til að draga úr þessum brotum eða koma í veg fyrir þau?

VERNDARBLAÐIÐ 2017

Höfundur greinarinnar, Henrietta Ósk Gunnarsdóttir, hefur lokið meistaraprófi í félagsfræðum frá Háskóla Íslands Ýmsar leiðir til að draga úr og koma í veg fyrir kynferðisofbeldi gagnvart börnum eru til staðar og má þar nefna að veita einstaklingum sem brjóta kynferðislega gegn börnum meðferð, en sýnt hefur verið fram á virkni gagnreyndra meðferða (Andrews og Bonta, 2010; Hanson o.fl., 2002; Hanson, Hollin, 1999; McGuire, 2002; Willis og Ward, 2011). Rannsóknir sýna að meðferð fyrir kynferðisbrotamenn geti dregið úr endurteknum brotum um allt að 40% (Losel og Schmucker,2005). Farsæl endurkoma út í samfélagið að lokinni afplánun getur einnig dregið úr endurteknum brotum og þar er um samfélagslega ábyrgð að ræða.

Endurkoma út í samfélagið Aðlögun eða endurkoma út í samfélagið getur eingöngu átt sér stað þegar samfélagið samþykkir að brotamaður sé að fullu nýtur þjóðfélagsþegn sem leggur sitt af mörkum til samfélagsins (Spencer og Deakin, 2004). Það eru margir þættir eða ferli sem geta haft áhrif á það hvort endurkoma verði farsæl eða ekki en fyrir kynferðisbrotamenn þá getur það reynst sérstaklega erfitt. Einstaklingar sem hlotið hafa dóm fyrir kynferðisbrot

gegn barni geta þurft að lúta skilyrðum og takmörkunum sem geta til að mynda haft áhrif á húsnæðis- og atvinnumál þeirra. Vegna útskúfunar frá samfélaginu fækkar tækifærum þeirra til að sinna grunnþörfum sem síðan eykur líkur á endurteknum brotum.

Stimplun Ef við lítum til kenninga sem gætu útskýrt að hluta að erfitt sé fyrir einstaklinga að aðlagast samfélaginu á nýjan leik má þar helst nefna stimplunarkenninguna. Hún er sértæk félagsfræðileg nálgun sem ein­ blínir á hlutverk félagslegrar stimplunar í þróun afbrota og frávika. Kenningin gerir ráð fyrir því þó frá­vikahegðun upp­haflega orsakist vegna ólíkra þátta, að þegar einstaklingar hafa verið stimplaðir eða skilgreindir frávikar þá sitji þeir uppi með ný vandamál sem stafa af við­brögðum þeirra sjálfra og samfélagsins, sem neikvæðar staðalmyndir, sem eru tilkomnar vegna stimplunarinnar. Þetta virkar eins og vítahringur þar sem þetta gefur auknar líkur á því að frávika­hegðunin eða afbrotahegðunin verði við­varandi og krónísk. Þar af leiðandi: að vera stimplaður eða skilgreindur sem fráviki/afbrotamaður af öðrum getur komið af stað ferlum sem geta styrkt afbrotahegðun eða frávik viðvarandi; hegðunarmynstur og félagslega og sálfélagslega stöðu sem var fyrir stimplun (Traub og Little, 1999; Bernburg, Krohn og Rivera, 2006).

Fjölmiðlar og löggjöf Í fjölmiðlum má oft greina mýtur um kynferðisbrotamenn sem eru í mótsögn við gögn sem studd eru með rannsóknum

5


eins og að kynferðisbrotamenn séu hvatvísir, einsleitur hópur og meðferð muni ekki gagnast þeim að neinu leyti. Þegar viðhorf eru byggð á mýtum þá hefur það áhrif á löggjafarstefnu og réttarfarslegar ákvarðanir. Þess má geta að afleiðingar þess geta skaðað einstaklinginn, samfélagið sem og þjóðfélagslegan stöðugleika (Church, Wakeman, Miller, Clements og Sun, 2008). Kynferðisbrot valda miklum ótta og kvíða innan samfélaga og upp frá því spretta löggjafir með það að markmiði að vernda almenning fyrir því að verða fyrir kynferðisbroti. Sem dæmi má nefna Megan´s löggjöfina í Bandaríkjunum, sem hefur aukið vitund almennings á því hvar dæmdir kynferðisbrotamenn eru staðsettir. Þótt almennt sé talið að kynferðisbrotamenn séu síbrotamenn og mun hættulegri en einstaklingar innan annarra brotaflokka sýna rannsóknir fram á að þeir eru meðal þeirra ólíklegustu til að brjóta aftur af sér (Sample, 2006). Í öllum fylkjum Bandaríkjanna hefur almenningur aðgang að vefsíðum þar sem fram koma allar upplýsingar um skráða kynferðisbrotamenn. Þessar síður hafa sprottið upp í kjölfar lagasetninga eins og Adam Walsh Act frá 2006 og Megan´s Law. Rannsóknir hafa þó sýnt í kjölfarið af lagasetningum sem taka til skráningar og upplýsingagjafar um kynferðisbrotamenn að þær geta hindrað aðlögun kynferðisbrotamanna aftur út í samfélagið og mögulega ýtt undir endurtekna brotahegðun. Lagasetningar sem þessar hljóta mikinn hljómgrunn meðal almennings sem trúir því að með því að hafa þessa vitneskju geta þau frekar verndað sig og börnin sín (Anderson and Sample 2008; Levenson o.fl., 2007a; Lieb og Nunlist 2008; Mears o.fl., 2008). Flestar rannsóknir benda þó til þess að því sé öfugt farið og að slíkar lagasetningar dragi ekki úr síbrotahneigð eða endurteknum brotum (Duwe og Donnay 2008; Washington State Institute for Public Policy 2005).

Fjölskylda og ástvinir Viðhorf almennings sem og eftirlit og skráning með dæmdum kynferðisbrotamönnum hefur ekki einvörðungu bein áhrif á þeirra líf heldur einnig á líf fjölskyldu þeirra og ástvina. Aðstandendur geta upplifað vonleysi og fundið fyrir

6

þunglyndi þegar reynt er að aðlagast lífi með einstaklingi sem hefur afplánað dóm fyrir kynferðisbrot. Það getur einnig orsakað andúð annarra ættingja/aðstandanda sem leiðir til þess að viðkomandi upplifir einsemd og útskúfun. Geta aðstandendur upplifað skömm, stimplun sem er yfirþyrmandi og hamlandi í daglegu lífi. Þetta getur orsakast af takmörkunum og skilyrðum sem skráðir kynferðisbrotamenn búa við og getur komi í veg fyrir þann stuðning sem fjölskyldan þarf til að geta veitt brotamanninum til að aðlagast samfélaginu á nýjan leik. Félagslegt tengslanet og fjölskylda getur skipt sköpum þegar einstaklingar eru að koma aftur út í samfélagið eftir afplánun (Farkas og Miller, 2007). Mikilvægt er að ígrunda vel hvaða áhrifum börn dæmdra kynferðisbrotamanna verða fyrir. Þó það falli ekki undir hugmynd okkar um kynferðisbrotamann þá verður að horfa á þá staðreynd að oft eiga þeir sjálfir börn sem verða því miður einnig fyrir áhrifum stimplunar. Enn er óljóst á hvaða ótal vegu hvernig þessi reynsla hefur áhrif á sálfélagslegan þroska þeirra, félagsleg samskipti og sjálfsmynd.

Rannsóknin og niðurstöður Markmið rannsóknarinnar er að varpa ljósi á upplifun, reynslu og líðan kyn­ ferðisbrotamanna af endurkomu út í samfélagið. Tilgangur rannsóknarinnar var að afla upplýsinga sem gætu leitt til aukins skilnings á aðstæðum þessara einstaklinga eftir afplánun dóms sem og vísbendinga sem geta gefið til kynna hvað hægt er að gera til að aðlögun þessara einstaklinga að samfélaginu verði með öruggum hætti svo sem eins og búsetu, atvinnuþátttöku og félagsstarfi. Einnig var horft til þess hvort og hvað getur aukið líkur á endurtekinni brotahegðun og hvað samfélagið getur gert til að draga úr líkum á endurteknum brotum. Enda getur árangursrík endurkoma út í samfélagið dregið úr endurteknum brotum. Notast var við eigindlega rannsóknaraðferð en tekin voru viðtöl við sex einstaklinga sem hlotið hafa dóm fyrir kynferðisbrot gegn barni og voru búnir að afplána dóm og komnir á reynslulausn. Einnig var sjálfsmatslisti lagður fyrir þátttakendur sem mat lífsgæði þeirra. Í niðurstöðum voru dregin út nokkur

meginþemu sem komu fram við gagnaöflun sem lýstu sameiginlegri upplifun, reynslu og líðan þátttakenda. Helstu niðurstöður gáfu til kynna að fordómar gagnvart þessum hópi hafði margskonar birtingarmyndir. Þar má nefna beina fordóma þegar málið þeirra kom upp, innan fangelsisins og úti í samfélaginu eftir afplánun. Viðmælendur áttu í erfiðleikum með að fóta sig aftur úti í samfélaginu. Það fólst í erfiðleikum við að fá atvinnu en viðmælendur höfðu ítrekað reynt að sækja um vinnu en höfðu ekki erindi sem erfiði. Viðmælendur upplifðu ótta við endurkomuna sem snéri að viðbrögðum samfélagsins við endurkomu þeirra. Flestir íhuguðu að flytja af landi brott. Þeir töldu það vænlegri kost til að hafa tækifæri til að byggja sig upp og verða nýtir þjóðfélagsþegnar. Viðmælendur upplifðu einhverjir óöryggi varðandi búsetu. Verst þótti viðmælendum þau áhrif og áreiti sem fjölskyldumeðlimir og ástvinir urðu fyrir vegna brotanna sem þeir frömdu, eins og atvinnumissi og lífsviðurværi fjölskyldunnar og að geta ekki sótt viðburði barna sinna. Einnig kom fram að fjölmiðlaumfjöllun og síður sem skrá upplýsingar um dæmda kynferðisbrotamenn hefðu mikil og neikvæð áhrif á bæði brotamenn og nánustu fjölskyldumeðlimi sem erfitt getur verið að verjast. Niðurstöður bentu til þess að ekki er nægilega mikil fræðsla og þekking í samfélaginu um að hægt sé að sækja sér meðferð og mikilvægt væri að þær upplýsingar væri einhversstaðar hægt að nálgast. Einnig kom fram að meðferð innan fangelsisins væri ábótavant.

Farsæl endurkoma Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar virðist vera þörf á frekari fræðslu og aukinni þekkingu á þessum mála­flokki. Einnig þarf að verða viðhorfsbreyting innan samfélagsins til að auka líkur á árangursríkri endurkomu og aðlögun að samfélaginu að afplánun lokinni. Örugg búseta, tækifæri til atvinnu og að uppfylla aðrar grunnþarfir eru grundvallaratriði. Dæmdir kynferðisbrotamenn búa við skertari tækifæri til að uppfylla þessar grunnþarfir ýmist vegna fordóma, skilyrða sem þeir þurfa að lúta á reynslulausnartímabili eða bágs fjárhags. Hlutverk Fangelsismála­stofnunnar er að fullnusta


dóma eða refsingar en er ekki félagslegt úrræði sem rekur búsetuúrræði eða býður upp á fjárhagsaðstoð. Það er í höndum sveitarfélaganna og þjónustumiðstöðva að taka við keflinu þó Fangelsismálstofnun aðstoði við það ferli. Eins og staðan er í dag ná félagsráðgjafar eingöngu að sinna þeim föngum sem óska eftir því en til að vinnan verði markvissari þyrftu fleiri að koma þar að og þá væri hægt að nálgast fleiri sem þyrftu á aðstoðinni að halda. Þá yrði aðlögunin að samfélaginu meiri og með því hægt að draga úr endurkomu.

Önnur úrræði Þegar kemur að meðferð fyrir einstaklinga í þessum málaflokki þá er þörfin til staðar en aðgengið ekki nægilegt. Auka þarf aðgengi að gagnreyndum meðferðum fyrir einstaklinga sem eru að afplána dóm enda hefur það áhrif og dregur úr líkum á endurteknum brotum að afplánun lokinni sem og farsælli endurkomu út í samfélagið. Ekki er síður mikilvægt að ræða möguleikann á einhverskonar forvörnum sem gætu aðstoðað einstaklinga sem upplifa óæskilegar kynferðislegar hvatir til barna. Til að mynda

hefur verið þróað forvarnarprógramm í Þýskalandi sem hefur gefið góða raun. Markmið þýsku leiðarinnar „Prevention Network - Kein Täter werden“ er að koma í veg fyrir kynferðisleg ofbeldi gagnvart börnum og ungmennum. Komin er áralöng reynsla á þetta meðferðarprógramm og hefur það gefið góða raun og hjálpað mörgum einstaklingum. Það væri ákjósanlegt að skoða möguleika á slíku forvarnarprógrammi hér á landi en það væri í takt við samning Evrópuráðs sem samþykktur var hér á landi 2012 og kenndur við Lanzarote. Samningnum er ætlað að vernda börn gegn kynferðislegri misnotkun og kynferðisofbeldi. Samningurinn er ítarlegur og nær yfir þá þætti sem snúa að málefninu og er ætlað að koma í veg fyrir kynferðisbrot, draga úr brotum eða varpa ljósi á hvernig taka skuli á málum ef börn verða fyrir ofbeldinu. Sérstaklega er rætt um inngrip í formi forvarna. Þá er ekkert því til fyrirstöðu að taka upp umræðu um Lanzarotesamninginn og ganga enn lengra með að innleiða hann, framkvæma og finna leiðir er varða inngrip/meðferðir fyrir einstaklinga sem óttast að brjóta

kynferðislega af sér gegn barni í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að slík brot verði að veruleika.

Að endingu Samfélagið krefst þess að einstaklingar sem brjóta af sér séu lokaðir inni í fangelsi og því er mikilvægt að samfélagið sé þá einnig tilbúið að taka við þeim aftur og veita þeim þann stuðning sem þeir þurfa við endurkomu út í samfélagið. Það gætir misskilnings að hlutverk Fangelsismálastofnunar sé að sjá alfarið um ferli endurkomu út í samfélagið og hafi að bjóða viðeigandi úrræði. Í samfélaginu þarf að vera til staðar umgjörð sem grípur þessa einstaklinga að afplánun lokinni og mikilvægt er að virkja betur sveitar­ tfélög, aðrar stofnanir og samfélagið allt til þess svo hægt sé að koma í veg fyrir að þessir einstaklingar fari aftur inn í fangelsi. Heilbrigð og jákvæð aðlögun út í samfélagið að afplánun lokinni dregur úr endurteknum brotum; er allra hagur, einstaklingsins, aðstandanda og samfélagsins alls.

FRANS PÁFI ÞVÆR FÆTUR GLÆPAMANNA Það varð uppi fótur og fit í fangelsi í smábænum Paliano sunnan við Róm á Ítalíu 13. apríl síðastliðinn. Það var kominn aldeilis óvæntur gestur. Svo óvæntur að fangarnir trúðu því ekki fyrr en þeir sáu hann. Gesturinn var hvorki meira né minna sjálfur páfinn, hinn heilagi faðir í Róm. Og hvað var hann gera í fangelsinu? Jú. Það var skírdagur. Þá er páfi vanur að þvo fætur fólks, einhverra hópa, á sama hátt og Jesús þvoði fætur lærisveina sinna (sjá Jóhannesarguðspjall 13.415). Þennan dag þvoði hann tólf föngum um fæturna, þar af einum múslima sem hafði snúist til kristinnar trúar, og auk þess einum harðsvíruðum forsprakka mafíunnar. Af þessum tólf föngum voru þrjár konur. Fangarnir voru djúpt snortnir við heimsókn páfa og höfðu aldrei upplifað annað eins. Að lokum tók Frans páfi þátt í guðsþjónustu í fangelsinu. Frans páfi hefur allt frá árinu 2013 látið fangelsi sig varða og iðulega Frans páfi gengur inn í fangelsið ásamt fylgdarliði. heimsótt þau. Verndarblaðið las í: www.spiegel.de

VERNDARBLAÐIÐ 2017

7


Úr heimi fræðanna:

MEÐ AUGUM FANGANS Í

slensk fangelsi hafa ekki verið rannsökuð mikið miðað við fangelsi í útlöndum. Hin síðari ári hefur vaknað töluverður áhugi á fangelsum og starfsemi þeirra hér á landi. Það eru einkum háskólanemar sem hafa tekið sér fyrir hendur að rannsaka þennan afkima samfélagsins sem fáum er kunnur og hafa þeir notið vandaðrar leiðsagnar leiðbeinenda sinna. Þar hafa verið fremst í flokki að öðrum ólöstuðum þau dr. Helgi Gunnlaugsson, prófessor, við Háskóla Íslands, og Svala Ísfeld Ólafsdóttir, dósent við Háskólann í Reykjavík. VERNDARBLAÐIÐ hefur um margra ára skeið leitast við að kynna rannsóknir háskólanema og vekja athygli á niðurstöðum þeirra. Ýmist hafa þeir sjálfir ritað greinar í blaðið eða birt hluta úr rannsóknum sínum. Þá hefur í sumum tilvikum VERNDARBLAÐIÐ sjálft gert grein fyrir einstökum rannsóknum í samráði við rannsakendur.

Fangelsi eru höfuðverkur Það er öllum ljóst að fangelsi eru mjög sérstök fyrirbæri í nútímanum og á vissan hátt höfuðverkur þeirra samfélaga sem kenna sig við menningu og velferð. Vandinn er ætíð sá hinn sami og tekur litlum breytingum og hann er sá hvernig taka skuli á þeim einstaklingum sem virða ekki grundvallarsáttmála samfélagsins, og taka sér sjálf í hendur lög og reglur, brjóta á öðrum og oft með herfilegum hætti. Fangelsi eru reist og rekin til að hýsa þann mannskap sem brýtur alvarlega af sér. Þessar stofnanir draga auðvitað dám af þeim sem þar dveljast innan húss, föngum, starfsfólki og yfirstjórn allri. Fangelsin verða hluti af kerfi sem ríkið á og

8

Nína Jacqueline Becker skrifaði meistaraprófs­ ritgerð í félags­ fræði við Háskóla Íslands og er fjallað um hana hér. ber ábyrgð á. Helsta einkenni fangelsis er að þangað er búið að stefna fólki í mislangangan tíma og það bíður þess eins að komast af þessum skákreit tilverunnar. Það ber fremur kala til staðarins heldur en hlýju, fangelsið er tákn þess að frelsinu var glatað um stund. Það er líka tákn ákveðinna óþæginda og andstyggðar.

Innsýn í lokaðan heim Fangelsin eru sér heimur út af fyrir sig. Og hver gerð þeirra ber með sér sitt svipmót. Öryggisfangelsið að Litla-Hrauni er viðfangsefni þessarar rannsóknar sem hér verður stuttlega kynnt. Margt er í fyrsta lagi sagt með orðinu öryggisfangelsi einu. Þar er ekki aðeins verið að girða fyrir að menn strjúki heldur og að fangar, starfsfólk og samfélag búi við öryggi. Þeir sem ógna örygginu eru fangarnir og í ljósi afbrota sinna teljast þeir sumir vera hættulegir menn. Margir þeirra koma úr umhverfi sem er mótað af ofbeldi og jafnvel ofbeldisdýrkun. Þá er átt við hið líkamlega ofbeldi, ekki andlegt. Hversdagsleg menning innan öryggisfangelsisins ber vott um samfélag sem er á jaðrinum en hefur viss einkenni menningarsamfélaga – og osmósar á milli á köflum. Öll menning er nefnilega einhvers konar farvegur fyrir samskipti, fyrir sameiginleg gildi

(líka and-gildi, eða andfélagsleg gildi), lög og reglur, skráðar sem óskráðar, sem stangast á við hið siðaða samfélag. Í raun réttri er um ákveðnar mannfræðilegar og félagsfræðilegar staðreyndir að ræða sem horfast verður í augu við. Í nýrri meistaraprófsritgerð Nínu Jacqueline Becker í félagsfræði er veitt dálítil innsýn inn í þennan fangelsisheim eins og hann birtist á Litla-Hrauni. Höf­ undur leggur þunga áherslu á að hér sé um innsýn að ræða vegna þess að við­ mælendur hennar sem voru ellefu að tölu tjá upplifun sína í frásögn sem er skráð og lögð fram óbreytt fyrir hvern og einn lesanda. Við getum sagt að gengið sé um sviðið um stund í fylgd fanganna og horft á það sem fram fer með augum þeirra. Heiti sjálfrar ritgerðarinnar segir heilmargt og er í sjálfu sér um­hugsunarefni: Upplifun fanga á félagslegum veruleika sínum og öryggi í fangelsi „…mér fannst bara talað niður til mín og hugsa kannski bara um okkur eins og nautgripi í búri…“ Enda þótt viðtölin hafi verið ellefu að tölu þá gafst tækifæri til að tala við fleiri fanga. Frásögnum viðmælenda var farið að svipa saman og komið að því sem kallað er innan rannsókna „mettun,“ þ.e.a.s að kjarni málsins er kominn fram.

Rannsóknir geta veitt stuðning í starfi Það er öllum nauðsynlegt sem starfa innan fangelsisgeirans að fylgjast með rannsóknum á starfsemi fangelsa. Slíkt getur veitt stuðning í starfi, gefið viðkomandi starfsmanni sjálfum innsýn inn í starf sitt og vettvang með öðrum hætti en honum er tamt. Margt getur komið honum á óvart, vakið upp spurningar um hvað sé


Fréttir frá liðnum árum um ofbeldisverk á Litla-Hrauni. hægt að gera betur o.s.frv. Margar þessara rannsóknarritgerða eru aðgengilegar á skemman.is og hægt að lesa af skjá eða prenta út. Í þessu tilviki bendir rannsakandinn sjálfur á að fangelsisyfirvöld geti haft not af rannsókninni t.d. hvað snertir aðbúnað fanga í fangelsum (sjá bls. 11).

Rannsóknin Rannsóknin fjallar um ofbeldi í fangels­ um og viðmælendur rannsakanda höfðu allir átt það sameiginlegt að hafa verið í afplánun á Litla-Hrauni og fyrir vikið er það meira í sviðljósinu en önnur fangelsi. Þetta er eigindleg rannsókn sem merkir m.a. að það er rannsakandinn sjálfur sem er aðal rannsóknartækið, hann tekur við­ töl, vegur og metur þau, dregur ályktanir og setur fram eftir atvikum líkön o.s.frv. Sem fyrr segir voru viðmælendur hennar ellefu að tölu. Þeir höfðu ýmist sjálfir beitt ofbeldi, verið vitni að slíku eða orðið fyrir því. Ofbeldið birtist í ýmsum myndum.

VERNDARBLAÐIÐ 2017

Niðurstöður höfundar eru í samræmi við það sem erlendar rannsóknir hafa leitt í ljós: fangelsi eru staðir ofbeldis. Eins og venja er hjá fræðafólki þá setur það rannsókn sína í samhengi við fyrri rann­sóknir á fræðasviðinu og rekur þær í stuttu máli ásamt kenningum. Slíkt er mjög upplýsandi og sýnir eins og í þessu tilviki að fangelsislíf á Íslandi fer eftir svipuðum brautum og í útlöndum þó smæðin sé hér mikil í öllum saman­ burðinum. Segja má kannski að nær­ tækasta skýringin á því sé einfaldlega sú að „hjörtum manna svipar saman í Súdan og Grímsnesinu,“ eins og skáldið sagði hér um árið.

Þrjú líkön rannsakandans Nína Jacqueline skýrir á glöggan hátt frá þremur líkönum sem er ætlað að draga fram ólík viðbrögð einstaklinga þegar þeir hefja afplánun. Það fyrsta kallast líkan skerðingar aðbúnaðar og frelsisins (e.

deprivivation model). Það á að varpa ljósi á þau áhrif sem frelsisskerðingin hefur á einstaklinginn, og þegar samskipti hans eru rofin, og loks streituáhrif í kjölfar þessa. Annað líkanið er nefnt ofbeldis­ menning afbrota (e. importation model), en það er gagnrýnið sjónarhorn á það sem hinu fyrra líkani er ætlað að varpa ljósi á og dregur fram aðra áhrifaþætti á einstaklinginn heldur en fangelsið sjálft í þessu tilviki. Þriðja líkanið er svo samþætt (e. combined model) og er fléttað úr hinum tveimur fyrri svo skilja megi betur ástæður fyrir því að fangar beiti ofbeldi (sjá bls. 18 og 19). Síðan fjallar rannsakandi nánar um þessi þrjú líkön sem eiga að auka skiln­ ing á því hvernig fyrirbærið fangelsi gengur fyrir sig. Það eru svo sem ekki stór­tíðindi að menning, í þessu tilviki fangelsismenning, verður til vegna þess að í fangelsi eru tilteknir einstaklingar. Einhvers konar menning er alltaf á kreiki

9


þar sem mannskepnan sýnir sig. Þar er margvísleg gerjun í gangi, hvort heldur er í hellinum eða fangaklefanum. Og þar þróast ofbeldismenning og ekki að ástæðulausu: gremja, streita, reiði, fylgir innilokuninni. Vistin í fangelsi kallar á úrræði fanganna til að lifa af, lifa án þess sem þeir eru vanir. (Spyrja má í framhjáhlaupi hvað ungir fangar gera í dag sem aldir eru upp við tölvuskjá? – Það er rannsóknarefni út af fyrir sig). Inn í fangelsið koma menn með sjálfa sig, svo að segja. Venjur sínar og hefðir. Sinn stíl úr kompum, kjöllurum, götuhornum, húsum o.s.frv. Það sem hann hefur alist upp með kemur hann með - eins og skáldið Jón úr Vör sagði: „Þú færð aldrei sigrað þinn fæðingarhrepp ....ok hans hvílir á herðum þér.“ Þarna ertu kannski sviptur maka þínum, vini eða barni, sviptur öryggi. Þú bítur í skjaldarrendur, verst. Grípur til ofbeldis ef svo ber við. Ofbeldismenning afbrota, henni er ætlað að skýra út ofbeldishegðun fanga. Af sjálfu leiðir að margir þeirra sem koma inn í fangelsi eru dæmdir fyrir ofbeldi og því styttri vegur fyrir þá að grípa til þess innan fangelsis þar sem m.a. er dregið úr öllum lífsgæðum og alls konar hindranir settar í götu fangans með það markmið í huga að tryggja öryggi innan fangelsis. Gefum Nínu Jacqueline orðið í framhaldi af þessu: „Ungir einstaklingar sem lenda í fangelsi eru oft og tíðum að koma úr slæmum félagslegum aðstæðum. Lífið í undirheimum eða á götum úti kveður á um ákveðna árásargjarna hegðun. Árásarhegðun getur því verið eða er leið til þess að auka eigið öryggi og fá viðurkenningu og virðingu frá hópnum sem einstaklingurinn tilheyrir. Þegar inn er komið heldur þessi eiginleiki persónunnar áfram því hann veit að nú er hann í samfélagi með þeim allra hörðustu og hann mun þurfa að hafa fyrir hlutunum.“ (Bls. 21). Þá getur Nína Jacqueline um það að yngri fangar séu almennt árásagjarnari en hinir eldri vegna þess að tengsl t.d. við fjölskyldu séu ekki eins sterk og hjá hinum eldri. Hér gildir sem fyrr að gott bakland getur gert gæfumuninn og oft ótrúlegt hve lengi fólk hefur haldið úti tengslum við einstaklinga sem brjóta af sér aftur og aftur, svíkja sí og æ, lofa bót og betrun, en kannski er það umhyggjan sem er í fyrirrúmi. En líka eru sögur um

10

uppgjöf aðstandenda – og þá er ekkert bakland – og við engan má sakast því svo auðvelt er málið ekki. Nóg um það. Sem fyrr segir þá eru líkönin þrjú: það sem tekur á skerðingu aðbúnaðar og frelsis; það sem tekur á ofbeldismenningu afbrota, og þessi tvö eru svo samtvinnuð í hinu samþætta líkani. Fangelsisvist er áfall og fangelsisumhverfið getur haft ákveðin áhrif og vanlíðan getur svo fylgt ofbeldi af hálfu fanga eða starfsmanna innan fangelsisins.

Ógnir í fangelsi Innan veggja fangelsa birtist lífið með svipuðum hætti og víðast hvar því grundvallarþarfir fólks eru þær sömu hvar sem það er nú statt á vegi lífsins en þó eru hornin í fangelsi hvassari en annars staðar og lundin á köflum óbeisluð. Mönnum stendur semsé ógn af ýmsu í fangelsi öðru en lásum og slagbröndum, reglugerðarskógi möppudýranna, frelsisskerðingu, það er og nefnilega samfanginn sem getur gengur fram sem fulltrúi ógnarinnar og öryggisleysisins. Þessi ógn verður einkamál fanganna – almenningur fyrir utan skiptir sér ekki af þessu. Rannsakandinn bendir á fjórar gerðir árása sem fangar geta sjálfir orðið fyrir í fangelsi, eða orðið vitni að. Þær eru: þjófnaður, slagsmál, tilfinningalegt ofbeldi og kynferðislegt ofbeldi. Viðmælendur rannsakandans sögðu allir að ofbeldi viðgengist innan fangelsisins en það væri í mismiklum mæli. Og rannsakandi dregur enda eftirfarandi ályktun: „Fyrir viðmælendur rannsóknarinnar var ekkert sældarlíf að þurfa að sitja af sér dóm á Litla-Hrauni“ (bls. 92). Fangaklefinn væri ekki sá öruggi staður sem menn héldu oft og fangi þar í raun og veru berskjaldaðri en annars staðar fyrir áreiti og árásum (sjá bls. 74). En ofbeldið er auðvitað persónubundið, sumir eru ofbeldisfyllri en aðrir og „eru alveg samviskulausir og halda þessari iðju sinni áfram þegar inn í fangelsi er komið að sögn viðmælenda“ (sjá bls. 78). Víða í ritgerðinni er fjallað um ofbeldisheiminn – sumir fangar eru ef svo má segja fangar ofbeldisins. Ofbeldið er snar þáttur af lífsmynstri þeirra og hversdagslegri framkomu, samofið persónuleikanum. Notað almennt til að ógna, ná fram vilja sínum, til dæmis kreista út pening, til

að svala kynferðislegum fýsnum, hóta, kvelja og hrella. Rannsóknin var unnin samkvæmt eig­indlegri aðferðarfræði. Frásagnir við­ mælenda í slíkum rann­sóknum standa eins og þær eru og þeir njóta trausts; rann­sakandinn leggur ekki dóm á sann­ leiksgildi frásagnnanna því þær endur­ spegla upplifun viðmælenda. Ofbeldið er að sögn viðmælenda rannsakandans ekki aðeins af hálfu fanga heldur og starfsmanna fangelsisins (sjá bls. 86). En fráleitt eru allir starfsmenn hér undir því flestir fangar bera þeim góða sögu, virðist því vera um þröngan hóp að ræða sem viðmælendur eiga við. En gagnrýnin á starfsmennina birtist í orðum eins og: „illkvittni,“ „hunsaður,“ „talað niður til manns,“ „litinn hornauga“ (bls. 88). Í sambandi við þetta má geta stofnanaofbeldis, sem Nína Jacqueline drepur á (bls. 26). Eins og orðið sjálft ber með sér þá geta fulltrúar tiltekinna stofnana beitt ofbeldi af margvíslegum tegundum, líkamlegu, andlegu, kynferðislegu o.s.frv. Nefnir hún í þessu sambandi hið fræga Breiðuvíkurmál en þar var rekin stofnun á vegum hins opinbera sem reyndist síðar meira en vafasöm svo ekki sé meira sagt.

Niðurstaða Meginniðurstaða rannsóknarinnar er sú að töluvert ofbeldi eigi sér stað á Litla-Hrauni. Þetta ofbeldi er bæði kynferðislegt, andlegt og líkamlegt – eða í „öllum sínum birtingarmyndum“ (bls. 96). Mest ber þó á ofbeldi af tilfinningalegum toga. Það getur birst að mati viðmælenda Nínu Jacqueline í hótunum, ógnunum, og/eða stríðni. Niðurstöður Nínu Jacqueline koma heim og saman við erlenda rannsóknarniðurstöður þar sem segir að rúmlega tuttugu prósent karlfanga hafi orðið fyrir líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi á sex mánaða tímabili sem sú rannsókn stóð yfir (sjá bls. 97).

Hvaða lærdóma má draga af þessu? Rannsókn þessi er mjög athyglisverð og vel unnin. Enda fékk hún nokkra athygli skömmu eftir að hún kom út. VERNDARBLAÐINU fannst því nauð­ synlegt að koma henni á framfæri við lesendur sína og aðra.


Ofbeldi má aldrei líðast. Sjálf starfaði Nína Jacqueline sem fanga­vörður í tvö sumur og hefur því vissa innsýn inn í starfið. Hún skrifar um fangelsin af þekkingu og raunsærri hlýju. En ekkert er dregið undan, allt er lagt fram með vísindalegum hætti í anda félagsfræðinnar; lipurlega skrifað og á góðri íslensku. Eins og áður sagði er á nokkrum stöðum vikið að starfsmönn­ um fangelsa og þá eru fangaverðir þar með taldir. Á bls. 99 segir þetta: „Erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á að menntun og viðmót fangavarða skiptir sköpum fyrir líðan fanga í afplánun.“ Þetta leiðir hug­ ann að þeirri nauðsyn að efla menntun fangavarða svo um munar. Benda má að í Danmörku er menntun fangavarða 3½ ár. Öll menntun er af hinu góða – sem og umræða eins og um þessa rannsókn. Það væri til að mynda gaman og náttúrlega gagnlegt, að starfsmenn fangelsa og

VERNDARBLAÐIÐ 2017

fangar, tækju sig saman og læsu þessa rannsókn, og skiptust á skoðunum um hana. Margt fróðlegt kæmi út úr því – og örugglega eitthvað sem mætti nýta. Þá ætti rannsóknin ekki síður að vera umhugsunarefni fyrir þau sem fara með stjórn fangelsismála og sömuleiðis hvatning til þeirra um að skoða áherslur í málaflokknum og samtímis að móta menningar- og umönnunarstefnu fyrir hvert fangelsi svo eitthvað sé nefnt. En ekki síst skyldi það vera brýnt að velta fyrir sér ályktun rannsakanda á bls. 102 og 103: „Niðurstöður þessarar rann­ sóknar benda til þess að betrunarstefna á Íslandi sé hverfandi en í því felst að refsistefnu sé fylgt í fangelsum landsins fremur en betrunarstefnu. Þó má benda á að föngum stendur til boða að fara í nám og hefur hluti fanga nýtt sér það úrræði, með ágætis árangri. Með aukinni

upplýsingagjöf til fanga um það sem í boði er og hvernig menn geti leitað sér aðstoðar væri hægt að koma betur á móts við fanga, gera þeim kleift að stunda það nám eins og vilji þeirra stendur til og gera þannig einstaklingnum tækifæri til þess að bæta ráð sitt og koma undir sig fótunum að nýju. Þessum atriðum ásamt betri eftirfylgni eftir að einstaklingar ljúka afplánun væri hægt að koma í verk með skilvirkum leiðum og lækka þannig endurkomutíðni.“ Rannsókn Nínu Jacqueline Becker má finna hér: http://skemman.is/stream/ get/1946/26555/60401/1/N%C3%ADna_Jacqueline_Becker_lokautgafa.pdf HSH tók saman

11


Hreinn S. Hákonarson

HVAÐ ER TIL RÁÐA? FÁEIN ORÐ UM ÞÁ SEM BRJÓTA GEGN BÖRNUM

og að lokum ítrekar einn hinna virku í athugasemdum að maðurinn sé algjör óþverri og eigi að vera lokaður inni.

Kynferðisglæpir gegn börnum

Brot gegn börnum skaða þau ævilangt.

F

yrir nokkru birtist í dagblaði langt viðtal við mann sem brotið hefur kynferðislega gegn börnum. Með við­ talinu birtust myndir af honum eins og hann lítur út í dag og eins gamlar myndir. Skuggalegar myndir og öðrum þræði ógnvekjandi – og eins margt sem eftir honum var haft. Tilefni þessa viðtals var að hann hafði verið sýknaður fyrir vörslu barnakláms á grundvelli þessi hve málið hafði dregist fyrir dómstólunum. Þessi var maður hafði verið dæmdur árið 1997 fyrir misnotkun á börnum og hlaut fjögurra ára dóm fyrir. Ekki kemur fram hvar maðurinn býr en húsakynnum hans er lýst heldur nötur­ lega, mús bak við örbylgjuofninn og kötturinn skítur og mígur þar sem hann kýs. Húsið er við hafið – skáldleg setning

12

enda viðtalið vel skrifað. Í viðtalinu er hann spurður hvort hann þurfi ekki á hjálp að halda. Svar hans er á þá lund að hann hafi nú „ekki lent í vandræðum af neinu tagi með til­ finningar (sínar) og ég fer ekki að fórna öðrum lífsgæðum varðandi það.“ Hann hafi ekki trú á því að neitt sé hægt að gera. Barnagirnd sé ólæknandi. Athugasemdir lesenda í netútgáfu við­ talsins láta ekki á sér standa. Einn stingur upp því að gefa honum blásýrutöflu með kveðju frá þolendum. Annar býðst til að drepa manninn og er hvattur til þess af næsta manni að standa við stóru orðin. Sá þriðji er ánægður með að fá myndir af kyn­ferðisbrota­manninum svo fólk geti varað sig á honum. Og svo bætir einn því við að þarna sé fársjúkur maður á ferð

Segja má að menn séu á einu máli um að kynferðisglæpir gegn börnum séu hin viðurstyggilegustu afbrot. Í þeim brotum kristallist skefjalaust ofbeldi mannsins gegn einstaklingum sem geta engum vörnum við komið né heldur hafa þroska til að skilja hvað sé á seyði. Gerendur í slíkum brotum eru enda fullorðið fólk (svo að segja eingöngu karlmenn) sem barnið treystir í einu og öllu og lítur upp til. Barnið er síðan iðulega kúgað til að þegja um það sem gerðist ella fari illa fyrir því eða einhverjum sem því er nákominn. Með slíkum ógnunum er traust og öruggt skjól barnsins, heimili eða sumarbústaður, heima hjá afa og ömmu, o.s.frv., lagt í rúst og það rænt öryggi bernskunnar með ófyrirséðum afleiðingum á fullorðinsárum. Oft er gerandinn vel kunnugur barninu, fjölskylduvinur, stjúpfaðir, faðir, bróðir, frændi o.s.frv. Það er þó ekki alltaf. Börn sem komið er fyrir hjá vandalausum verða oft fórnarlömb kynferðisofbeldis því þau eru enn berskjaldaðri en önnur börn þar sem umsjón með þeim kann að vera losaraleg – mörg dæmi um þetta má nefna frá fyrri tíð og er Breiðuvík nærtækast. Þegar þeir sem brjóta kynferðislega gegn börnum eru afhjúpaðir bregðast þeir alla jafna við með algerri afneitun. Kannast ekki neitt við neitt og segja ef við á að um sé að ræða hugarburð barnsins. Skýringar þeirra eru burtskýringar og sé barnið ekki beinlínis sökudólgurinn þá eru það einhverjar óljósar aðstæður. Margar skýringar þeirra eru fráleitar og standast ekki almenna skynsemi. Svo


er oft að sjá sem hugsun brotamannsins verði órökvísinni að bráð og í henni standi ekki steinn yfir steini. Hann er sem blindur og almenn skynsemi er horfin. Afneitunin getur orðið honum sem algjör vissa og fengið hann til að bera höfuðið hátt – hann hefur sefjað sjálfan sig af slíku afli að í sumum tilvikum verða menn að gæta sín á því að samsinna honum ekki því viðkomandi getur verið afar sannfærandi og sjálfum sér samkvæmur í afneitunarferlinu. En svo má ekki gleyma þeim sem reyndar eru snöggtum færri og gangast við brotum sínum af þessu tagi.

Kynferðisglæpamenn í fangelsum Svo sem kunnugt er þá eru þeir sem brjóta gegn börnum vistaðir á sérstökum fangagangi á Litla-Hrauni. Þeir eru semsé teknir út úr hinum almenna fangahópi til þess að vernda þá gagnvart öðrum föngum og ber fangelsinu í raun og veru skylda til þess. Reynslan hefur enda verið sú að almennum föngum er meinilla við þennan hóp brotamanna og hefur eftir atvikum í hótunum við hann. Í áðurnefndu viðtali segir viðmælandinn frá því að samfangi hans hafi drepið í sígarettu á höfði hans enda var hann „þekktur fyrir að hata pedófíla.“ Ýmsar sögur eru til af því hvernig komið hefur verið fram við þessa brotamenn. Þess vegna er slegið skjaldborg um þá inni í fangelsinu. Þeir hafa sérstakan útivistartíma og tíma til að fara í verslun fangelsisins. Fyrir vikið búa þeir við þrengri ramma og eru á vissan hátt í „fangelsi innan fangelsis.“ Stundum er reynt að átta sig á lífssögu sálarástandi fanga sem brotið hafa gegn börnum. Margir hafa verið brokkgengir og líf þeirra mótast af óreglu og andleg heilsa verið á köflum bágborin. Víst er að margir þeirra eru þunglyndir og sumir eiga við fjölþættan vanda að glíma sem í sjálfu sér verður ekki leystur innan fangelsisveggja en eins og oft vill brenna í þeim efnum telja margir að um leið og komið er í fangelsi skuli allur heimsins vandi leystur. Snemma kemur í ljós að fangelsi er ekki staður til að leysa úr öllum vanda manneskjunnar sem hún kemur með inn í fangelsið. Þessi vandi hefur kannski verið í farteski hennar svo áratugum skiptir og í verstu tilvikum er hann orðinn órjúfanlegur hluti af persónunni.

VERNDARBLAÐIÐ 2017

Flestir láta hverjum degi nægja sína þjáningu og ganga til verka eftir því sem hugur segir hverju sinni.

Sá sem stýrir og ræður Nú er það almennt viðurkennt að kyn­ ferðisbrot gegn börnum séu einhvers konar ónáttúra svo notað sé gamalt íslenskt orð. Önnur orð sem notuð eru um þetta athæfi eru óeðli, barnagirnd, níðingsskapur gegn börnum og þeir sem slíkt gera eru þá barnaníðingar á hvers­dags­ legu málfari. Hlutlausara orðalag er þegar talað er um að kyn­ferðislegur áhugi viðkomandi beinist að börnum – og verkefni meðferðaraðila er þá að beina þessum áhuga í aðrar áttir. Þetta svið hefur verið vissulega rann­ sakað mikið og ýmsar kenningar á lofti um hverjar séu ástæður þess að menn verði gripnir barnagirnd eða einhvers konar samræðisfýsn við börn. Þessar kenn­ingar ná inn á svið félagsfræðinnar og sál­félagsfræðinnar, uppeldisfræðinnar og menningarfræðanna – og sennilega víðar. Brotamaðurinn nær að mynda einhvers konar tengsl, hvort heldur meðvitað eða ómeðvitað, við barn sem eru af kynferðislegum toga. Hann er sá sem stýrir og ræður – skákað er í skjóli andlegra yfir­burða (það er almenns þroska sem er meiri en barnsins) og stundum er beitt líkamlegum yfirburðum; barni einlægt mútað með gýligjöfum o.s.frv. Sá maður sem ræður ekki við kynni við einstakling af gagnstæðu kyni (eða sama) á jafnréttisgrundvelli hvað þroska og líkamlegt atgervi snertir fær útrás fyrir fýsnir sínar á barninu og lætur ekkert hindra sig í því. Barnið verður viðfang glæpsamlegs atferlis hans sem er algjörlega sjálflæg athöfn – þ.e. önnur manneskja (barn) er sem hvert annað áhald eða tæki; það er í raun svipt mennsku sinni meðan á svölun fýsnanna stendur enda þótt sumir kynferðisbrotamenn gegn börnum hafi haldi því fram sjálfum sér til afbötunar að barnið „hafi haft gaman af “ eða „nautn“ eða „hafi viljað“ o.s.frv.

Viðhorf brotamanna og vandi Það má fullyrða að skynsamleg krafa hins almenna borgara sé sú að reynt sé að koma í veg fyrir að þeir sem hafa brotið kynferðislega gegn börnum endurtaki brot sín. Þá

vaknar hin sístæða spurning hvað gera skuli þegar þessi brotahópur er kominn bak við lás og slá. Hvaða leiðir eru þá færar til að snúa niður þessar óeðlilegu kenndir sem bærast um í huga þeirra sem nú þegar hafa brotið kynferðislega gegn börnum eða þegar allir varnir bregðast og þeir gefa girnd sinni lausan taum? Nú mætti spyrja hvort skynsamlegt samtal við kynferðisbrotamenn gegn börnum geti skilað einhverjum árangri. Þá er gengið út frá því meðal annars að rætt sé um hvað teljist siðleg hegðun, hvað sé gott og rétt siðferði o.s.frv. Almenn siðaregla í samfélaginu er sú að kynlífstengsl einstaklinga hvort heldur af sama eða gagnstæðu kyni séu háð ákveðnum viðmiðunum sem verða til í samfélaginu í tímans rás, hér er átt við aldur, þroska, fjölskyldu, menntun o.s.frv. Frávik eru að sönnu alltaf einhver en algjörlega augljóst sé þegar brugðið sé mjög svo út af hinu hefðbundna viðmiði sem samfélagið viðurkennir eins og þá einhver fer að eiga kynferðislegt samneyti við barn. Þá séu allar siðareglur einstaklings og samfélags brotnar. Að auki er atferlið orðið glæpsamlegt og refsivert fyrir vikið. Hvað segir sá sem brýtur kynferðislega gegn börnum við þessu? Í flestum tilvikum er hann sammála þessu en telur (sé hann yfir höfuð sekur að eigin áliti) að sér hafi orðið á mistök eða að sér hafi ekki verið sjálfrátt. Hann hafi misskilið tilteknar aðstæður. Eða hann hafi brugðist við einhverjum aðstæðum í samræmi við annað hvort áskapað eðli sitt eða áunnið hvort sem það sé talið verið ónáttúrulegt eða ekki. Hann sé svona: Ráði ekki við kynferðislegar langanir sínar sem beinast í átt að börnum. En samfélagið líður ekki svona hegðun. Þarflaust er að hafa mörg orð um það í sjálfu sér. Samfélagið vill bregðast við; vernda börnin og tryggja þeim öruggt skjól í lífinu. En leyndarhjúpurinn yfir barnagirndinni getur verið mjög þykkur og illmögulegt að átta sig á honum. Alkunn er sagan af geðþekka frændanum sem var alltaf boðinn og búinn til að gæta barnanna og það hvarflaði ekki að neinum að hugur hans væri fullur af alls konar barnagirndarórum. Þess vegna þarf að koma þessum hópi manna til hjálpar. Það er algjört lykilatriði.

13


Helstu meðferðarúrræði Meðferð þessa hóps er að sjálfsögðu ýmist á könnu geðlækna, lækna og sálfræðinga, sálgreina og jafnvel dáleiðara. Þeirra hlutverk er semsé að kafa ofan í vanda þessara einstaklinga og leitast við ráða bót á honum. Stundum getur þetta verið ögn snúið svo ekki sé meira sagt þar sem viðkomandi einstaklingur getur lagst gegn meðferð af ýmsum ástæðum og verst er þá hann telur ekkert athugavert við atferli sitt eða jafnvel að hann eigi rétt á þessu o.s.frv. (sbr. enn og aftur áðurnefnt viðtal þar sem viðmælandinn talar um barnið sem kynveru) eða snýr út úr meðferðinni með ýmsum brögðum svo hún missir marks þegar öllu er á botninn hvolft. Manneskjurnar eru nú almennt ekki auðveldar viðfangs og allra síst þegar breyta á hegðun þeirra og lífsstíl sem er kannski orðinn þeim nokkuð inngróinn. Ráð gegn barnagirnd eru nokkur. Hugræn atferlismeðferð er algeng og snýst um að breyta hugarfari og bæta með ákveðinni tækni sem meðferðaraðili kennir. Sá sem heldur um meðferðina ver einni til þremur klukkustundum á viku með skjólstæðingi sínum. Jafnframt fær hann margvísleg verkefni til úrlausnar. Þessi aðferð er tímafrek og í sjálfu sér ekki hægt að segja nákvæmlega til um árangur nema hvað hann virðist vera nokkur og því er ástæðulaust að gefast upp. Margir spyrja hvort ekki séu til ein­hver lyf sem geti slökkt eða deyft kynlífs­löngun einstaklinga. Víst eru til lyf en þau eru mjög svo vand­meðfarin. Í danska fangelsinu Herstedvester þar sem kyn­ferðis­ brotamenn eru hýstir hefur þeim sem haldnir eru barnagirnd verið gefin lyf. Það er mjög langur og tímafrekur ferill þegar um lyfjainngjöf er að ræða. Markmiðið með lyfjameðferð (d. medicinsk kastration) er að draga úr kyn­lífs­ löngun viðkomandi og skjóta loku fyrir kynferðislegar fantasíur í því skyni að koma í veg fyrir að nýtt brot verði framið. Meðferðin gerir hann ekki kynferðislega getulausan. Áður en lyfja­meðferð er hafin ræðir kynferðis­brotamaðurinn við sálfræðinga, lækna, geðlækna, sálgreina o.fl. og það samtal getur jafnvel tekið nokkur ár. Hér er markmiðið að góðir hlutir gerist hægt. Hvort tveggja samtalsmeðferð og

14

Samfélaginu ber að tryggja börnum öryggi. lyfjagjöf eiga að virka saman í alvarlegustu til­vikunum til að draga úr líkindum á ítrekun á kynferðisglæp hjá viðkomandi. Með­ferðin fer fram með samþykki brota­ mannsins og hún er alls ekki auðveld því miklar aukaverkanir fylgja lyfjunum. Í lokin má nefna eina leið sem kynnt var hér á landi fyrir nokkrum misserum á ráðstefnu um kynferðisofbeldi gagn­ vart börnum. Sænskur sálfræðingur að nafni Katarina Görts Öbergs ræddi um þau úrræði sem standa fólki til boða sem haldið er barnagirnd. Nefndi hún þá hjálpar­símann sem leið. Svíar höfðu verið með til­raunaverkefni sem byggði með­ al annars á því að fólk með barnagirnd eða aðra kynferðislega óra gat hringt án þess að gefa upp nafn og rætt vanda sinn við sérfræðinga. Nafnleyndin er þó vitaskuld ekki alger því sæki við­komandi eftir meðferðarúrræðum hjá þessum sér­ fræðingum er það gert undir fullu nafni. Eins er það svo verði með­ferðar­fulltrúar þess áskynja að við­komandi sé virkur í barnagirnd sinni þá ber að tilkynna slíkt tafarlaust til lögreglu. Heimasíða þessarar hjálparsímalínu er: http://preventell.se/ Um tíma var rætt að koma á fót svipaðri hjálparleið (sbr. neyðarlínu RKÍ vegna

sjálfsvíga) en það gekk ekki upp. Þessi hjálparsími er þó athyglisverð leið því að með honum er hægt að vinna for­ varnarstarf í þessum efnum, þ.e.a.s að ná til þeirra sem finna til barnagirndar hjá sér en hafa ekki látið undan henni.

Aðstandendur þeirra sem haldnir eru barnagirnd Enginn þarf að efast um hvílíkt rothögg það er í fjölskyldum þegar upp kemst um einhvern náinn ættingja sem brotið hefur kynferðislega gegn barni. Skömmin er þyngri en tárum taki – og glæpur brotamannsins leggst eins og mara á allt fjölskyldulífið. Þessar fjölskyldur þurfa sértæka aðstoð og sálusorgun. Fólk stendur auðvitað misnærri brota­ manninum. Eiginkonan getur fyllst af­ neitun í fyrstu en síðar sem algengast er varpað manninum á dyr. Foreldrar engjast af sálarkvölum þegar barnabörn hafa orðið fórnarlömb sona þeirra eða annarra nákominna. Fyrirlitning á brota­manninum í þessum brotaflokki er djúp­stæð og jafn­framt er samkenndin með fórnar­lambinu ríkuleg. Afhjúpanir á glæpum sem þessum kalla fram flókin tilfinningaátök sem í sumum tilvikum er


ógerlegt að ráða fram úr. Afneitanir geta líka staðið af sér tilfinningalega orrahríð og fórnarlambinu kennt um og það gert jafnframt að einhvers konar tegund af sökudólg. Slík átakamynstur fylgja sumum fjölskyldum og eru sem opin sár í öllum fjölskyldutengslum. Einlæg þrá allra er sú að slíkt hendi ekki aftur. Þeir séu manneskjur og eigi sér sínar góðu hliðar enda þótt sumir telji þá vera skrímsli. Að viðkomandi fái lækningu. Barnagirndin er þá viðurstyggilegur sjúkdómur sem þarf að ráða niðurlögum á. Enda þótt barnagrind sé skilgreind sem einhvers konar sjúkdómur, frávik, þá er „sjúklingurinn“ engu að síður fordæmdur í gjörð sinni og sú fordæming getur varað alla hans ævi og firnadjúpt að einhverri „sjúklingasamúð.“ Slíkt er skiljanlegt þegar teflt er saman sjúkum brotamanni og heilbrigðu barni. Hagur barnsins og vel­ferð þess er ætíð í fyrirrúmi eins og vera ber. Barnið er einstaklingur sem getur illa veitt mótspyrnu sé að því vegið og það er líka framtíð samfélagsins. En brotamanninum þarf líka að koma til hjálpar svo hann brjóti ekki aftur af sér heldur eignist farsælt líf og heilbrigt. Á þessu hvoru tveggja verður samfélagið að taka á af fullum krafti og horfa ekki í aurinn því heill og hamingja barna er í húfi og skal ætíð vera í fyrirrúmi.

Að lokinni afplánun Þeir sem fremja kynferðisbrot gegn börnum losna úr fangelsi fyrr eða síðar – eins og aðrir brotamenn hér á landi. Segja má að viðvarandi ótti sé í samfélaginu um að þessi brotahópur brjóti aftur af sér. Rétt er það að einhver hluti hans brýtur aftur

af sér og armur laganna nær til þeirra. Sumir brjóta hugsanlega af sér án þess að upp um þá komist. Svo er reyndar háttað um mörg afbrot – og sagt að fæst þeirra komist upp á yfirborðið – en það er nú önnur saga. Ljóst er að þessi hópur manna þarf stuðning að lokinni afplánun og eigi ekki að vera nokkurs manns útlagar. Honum er reyndar gert að lokinni afplánun að ræða jafnaðarlega við sérfræðinga í ákveðinn tíma. Síðan ekki söguna meir. Félagsleg staða þessara manna er vissulega misjöfn. Sumir hafa í húsnæði að venda en aðrir ekki. Annað veifið er fréttum slegið upp af þeim og sagt að þeir hafi sést til dæmis í námunda við barnaskóla eða barnaleikvöll. Myndir birtast af þeim í sumum tilvikum og reynt er að sitja fyrir þeim. Ótti grípur jafnvel um sig meðal foreldra og forráðamanna í ákveðnum hverfum verði einhver var við einstaklinga sem hafa slík brot á bakinu. Hráslagaleg umræða upphefst í anda þeirra sem kallast vera virkir í athugasemdum. Þess háttar umræða skilar ekki neinu. Borgararnir krefjast vissulega öryggis fyrir börn sín og sú krafa er meira en rétt­ mæt. Þeir telja návist manna sem sannanlega hafa afplánað dóma fyrir brot gegn börnum vera samfélagslega ógn út frá hugsuninni að þar sem viðkomandi hafi einu sinni brotið gegn börnum þá muni hann gera það aftur. Hann sé alla vega líklegri til þess en aðrir. Hér er engin einföld lausn í boði. Annars vegar er um að ræða frjálsa menn sem lokið hafa afplánun en eru hugsanlega með virka barnagirnd sem kom þeim bak við lás og slá á sínum tíma og hins

vegar foreldra sem vilja og eiga lögum samkvæmt að vernda börn sín og styðja. Í þessu sambandi hefur verið rætt um sístætt eftirlit með þessu hópi afbrotamanna. Í sumum fylkjum Bandaríkjanna tíðkast það að þessir brotamenn séu undir rafrænu eftirliti alla sína ævi. Það er vissulega stórfellt inngrip ríkisvaldsins í líf einstaklings en er þó metið svo að það sé réttlætanlegt í ljósi þess að verið sé að vernda hagsmuni barna. Auðvitað kemur slíkt eftirlit ekki í veg fyrir endurtekningu á kynferðisafbroti gegn börnum en það getur haft fráfælingarmátt og auk þess sem hver hreyfing brotamanns er kortlögð og því getur hann ekki neitað því að hafa verið þar eða hér sé eftir því leitað. Leið hans er til skráð. Niðurstaðan er sú að skynsamlegast sé að veita kynferðisbrotamönnum sem brjóta gegn börnum markvissa meðferð allan þann tíma sem þeir afplána og búa svo um hnútana að lokinni afplánun að sem minnstar líkur verði á því að þeir endurtaki brot sín. Það er gert með því að styrkja félagslega stöðu þeirra, t.d. hvað húsnæði snertir og fjárhagslega afkomu; halda áfram viðtalsmeðferð svo lengi sem þurfa þykir. Þetta kostar fé og réttan mannafla. En það myndi skila árangri og gera sam­ félagið öruggara og þá fyrst og fremst með hagsmuni barnsins að leiðarljósi og koma vonandi viðkomandi brotamönnum á rétta braut. Það væri ekki lítill sigur. Höfundur er fangaprestur þjóðkirkjunnar.

ENDURNÝTING Á PLASTI VEITIR FÖNGUM VINNU Um nokkurt skeið hafa fangar á Sogni og Litla-Hrauni unnið við að flokka plastumbúðir frá MS. Mikið af slíkum umbúðum fellur til en þær eru hafðar utan um ýmsar mjólkurafurðir eins og skyr, jógúrt og skyrdrykki svo eitthvað sé nefnt. Neytendur kannast við þessar glæru plastumbúðir í verslunum, varan stendur í þeim og neytandi kippir því upp sem hann ætlar sér að kaupa. Þessi vinna hófst á Sogni og veitti þrjú störf þegar best lét. Síðan tóku strákarnir á Hrauninu við og um tveggja skeið stóð flokkun þessi þar yfir samtímis og á Sogni. Vinnan á

VERNDARBLAÐIÐ 2017

Litla-Hrauni var ætíð hugsuð tímabundið til taka af ákveðinn kúf af umbúðunum. Nú fer þessi vinna aðeins fram á Sogni. Vinnan felst í því að flokka plastumbúðirnar eftir gerð og séu einhverjar ónothæfar þá er þeim fleygt. Fangar hafa verið mjög ánægðir með þessa vinnu og hún hefur verið eftirsótt. Þetta er þrifaleg vinna og þægileg. Því má bæta við í lokin að á Litla-Hrauni starfa fangar einnig við að rífa dýrmæta málma úr hvers kyns heimilistækjum og er það gert í samvinnu við Gámaþjónustuna. Við þá hafa vinnu hafa starfað allt að átta fangar.

15


Annáll fangelsismála:

MARS 2016 TIL MAÍ 2017 Á

hverju ári er fjallað um fangelsismál í fjölmiðlum. Þegar því er safnað saman kemur á óvart hve margar fréttir eru fluttar um málaflokkinn og hvað mikið er um hann skrifað. Áhugi virðist vera þó nokkur á málefnum fanga og fangelsa. Margt af því sem skrifað er um fanga og fangelsismál er athyglisvert og annað ekki. Oftast eru greinar og fréttir ritaðar af yfirvegum en stundum ber tilfinningahiti ritarana og viðmælendurna ofurliði. Menn láta eitt og annað flakka. Gæta sín ekki á því að nú á dögum varðveitist allt sem sagt er opinberlega. Allt verður að eins konar sögu. Eftirfarandi annáll er ekki tæmandi. Hér er aðeinst stuðst við það sem kemur fram prentuðum fjölmiðlu, dagblöðum. Ekki ljósvakamiðlum eða tímaritum.

Mars 2016 2. mars: „Misbeiting valds.“ Faðir refsifanga á Kvíabryggju gagnrýnir harðlega lögreglu og dómstóla. Morgunblaðið sagði frá. 5. mars: „Ekki í neinni vinsældakeppni“ – viðtal við nýjan fangelsisstjóra á Litla-Hrauni og Sogni, Halldór Valur Pálssson – hann segir „að auka þurfi verknám fanga og að betrun sé markmiðið.“ Auk þess: „Því fleira starfsfólk á hvern fanga, því betra. Þá getum við gert meira.“ Fréttablaðið sagði frá. 16. mars: „440 dómþolar bíða boðunar í afplánun í fangelsi.“ Rætt um að fyrstu fangar komi í Hólmsheiðarfangelsið í maí eða júníbyrjun. Morgunblaðið sagði frá. 17. mars: „Jailhouse Jazz í Hegningarhúsið?“ Fjallað um hvað bíði hins aldna

16

fangelsis sem verður lokað á næstunni en starfshópur um framtíð hússins skilaði skýrslu. Ýmsar hugmyndir reifaðar: Skemmtimenntahús, veitingastaður o.fl. Gera þarf við húsið fyrir 250 milljónir króna. Morgunblaðið sagði frá.

24. -28. mars: Tveir fangar sýknaðir í Héraðsdómi Suðurlands fyrir að hafa banað samfanga sínum árið 2012. Fréttatíminn sagði frá. 22.-29. mars: „Fangelsaðar setningar og ægifegurð fáránleikans.“ Sagt frá sýningu Sakminjasafnsins í tengslum við Guðmundar- og Geirfinnsmál. Listamaðurinn reyndi að skapa mósíkmynd af málinu. DV sagði frá. 15. apríl: „Þarf á fjölgun plássa að halda fyrir fanga á Vernd.“ Þessi orð höfð eftir framkvæmdastjóra Verndar, Þráni Bj. Farestveit, en hann telur þessa tegund afplánunar hagstæða fyrir ríkið. Hann segir mikla möguleika á að gera eitt og annað í sambandi við þetta úrræði en fjármuni skorti. Morgunblaðið sagði frá. 17. apríl: „Fjölskyldan tekur líka út refsingu.“ Rætt við Guðrúnu Lund, um BA-ritgerð hennar sem fjallaði um aðstandendur fanga, einkum konur og börn. Hver aðstaða þeirra væri og viðhorf. Stofnaði hún á Facebook hópinn: Aðstandenda­ hópur fanga. Morgunblaðið sagði frá. 26. maí: „Skellt í lás í næstu viku á Skólavörðustígnum.“ Rætt um lokun Hegningarhússins í Reykjavík en til stendur að því verði lokað 1. júní n.k. Fréttablaðið sagði frá.

28. maí: „Ástfangin í fangelsi“. Sagt frá pari sem kynntist í fangelsi: „Ástin kviknaði á Kvíabryggju“ - og vilja þau slá upp brúðkaupi í fangelsinu á Akureyri. Fréttatíminn sagði frá. 10. júní: „Fangelsið á Hólmsheiði opnað í dag“. Steinunn Valdís Óskarsdóttir, formaður verkefnisstjórnar um fangelsið á Hólmsheiði sagði þetta vera byltingu í fangelsismálum landsins. Ræddi hún um að kvennafangelsi landsins yrði í Hólmsheiðarfangelsinu og það væri framfaraskref, konur og karla ganga ekki saman í fangelsinu. Fréttablaðið sagði frá. 11. júní: „Fögnum með blendnum huga“, sagði Ólöf Nordal, innanríkisráðherra í ávarpi við opnun Hólmsheiðarfangelsisins: „Við fögnum því að sjálfsögðu aldrei að þurfa að svipta menn frelsi sínu og loka á samvistir þeirra við ættingja og vini og útiloka þá frá því að vera nýtir þegnar í þjóðfélaginu. Jafnvel ekki þó að við bjóðum þeim nýtt hús og fullkomna aðstöðu til alls. En refsidómar og fangavist eru fylgifiskar réttarríkisins.“ – Fyrsta skóflustunga að fangelsinu var tekin 4. apríl 2013. Byggingin kostaði 2.7 milljarða – verkáætlun og fjárhagsáætlun stóðust. Morgunblaðið sagði frá. 13. júní: „Fangar fá sjaldan lán.“ Stutt við tal við formann Afstöðu, félags fanga, um að fangar eigi sjaldnast möguleika á að sækja um námslán. Frá bæjardyrum hans sé menntun mikilvæg og dragi úr endurkomutíðni. Menntamálaráðherra segir: „Af því að við erum að aðskilja styrki og lán þá getur fangi sem er í lánshæfu námi og nær námsframvindunni fengið styrkinn þrátt fyrir að vera á vanskilaskrá.“ Fréttablaðið sagði frá.


Fjölmiðlar sýna fangelsismálum mikinn áhuga. 17. júní: „Best að sannleikurinn komi fram – ef hann er ekki kominn fram“. Sagt frá handtöku tveggja manna í sambandi við hvarf Geirfinns Einarssonar. Ábendingar bárust ríkissaksóknara um að mennirnir kynnu að búa yfir upplýsingum um málið. Mennirnir kváðust vera saklausir. Fréttatíminn sagði frá. 24. júní: „Betur má ef duga skal.“ Höfundur sem er hagfræðingur, Gunnar Alexander Ólafsson, fagnar opnun Hólmsheiðarfangelsisins. Hann telur þó að fangarými skorti enn og hvetur til þess að ráðist verði í stækkun Litla-Hrauns. Fréttablaðið sagði frá. 13. júlí: „Angelo er á hrakhólum og þvælist milli staða.“ Sagt frá greindarskertum Hollendingi sem er í farbanni en hann er ákærður fyrir fíkniefnasmygl. Hefur ekki húsnæði og: „Ég er bíllaus og get ekki farið milli staða endalaust. Mér er líka illt í fætinum og get ekki labbað mjög mikið. Það er samt fullkomið hérna hjá vini mínum en hann á hund og ég elska dýr,“ segir hann – enda þekktur fyrir jákvæðni. Fréttablaðið sagði frá.

VERNDARBLAÐIÐ 2016

25. júlí: „Erlendir fangar vilja að verðir geti talað ensku.“ Sagt frá því að útlendir fangar á Litla-Hrauni hafi kvartað undan lítilli enskukunnáttu fangavarða. Þá séu reglur fangelsisins aðeins til á íslensku. Starfsmaður fangelsisins segir fangaverði tala ýmis tungumál og í sumum tilvikum sé kallað á túlka. Unnið sé í því að þýða upplýsingabækling um Litla-Hraun á ensku og fleiri tungumál. Fréttablaðið sagði frá. 26. júlí: „34 agabrot á Hrauninu í ár vegna dóps og lyfja.“ Sagt frá agabrotum fanga í sambandi við fíkniefnaneyslu. Lyfið Suboxene er „uppáhaldslyfið í fangelsinu og virðist vera orðið aðalfangadópið“, er haft eftir deildarstjóra og staðgengli fangelsisstjórans á Litla-Hrauni. Þá var haft eftir formanni Afstöðu, félagi fanga, að aldrei sem nú hafi verið jafnmikið af lyfjum og hörðum fíkniefnum í umferð á Litla-Hrauni. Hann sagði líka atvinnuleysi vera í fangelsum landsins og litlir menntunarmöguleikar: „Ekkert verknám, engar tómstundir og hert agaviðurlög, þá eykst neyslan,“ að hans sögn. Fréttablaðið sagði frá.

3. ágúst: „Ný vísbending sanni sakleysi“ – sagt frá nýrri bók um Geirfinnsmálið eftir Jón Daníelsson, blaðamann. Í bókinni er meðal annars fjallað um hugsanlega fjarvistarsönnun Sævars Ciesielskis kvöldið sem hann átti að hafa myrt Geirfinn. Morgunblaðið sagði frá. 4. ágúst: „Fangar mega fá fjölskylduleyfi.“ Nýmæli í nýjum lögum um fullnustu refsinga. Leyfið getur verið að hámarki tveir sólarhringar. Staðgengill forstöðumanns Litla-Hrauns segir dagsleyfi fanga hafa yfirleitt gengið vel. Afstaða, félag fanga fagnar þessu. Fréttablaðið sagði frá. 5. ágúst: „Fangar oft inni í klefa hjá öðrum föngum.“ Enda þótt það sé bannað þá er ekki hægt að framfylgja banninu vegna manneklu. Ástæða reglunnar er sú að ofbeldismál inni á klefum hafa komið upp. Fréttablaðið sagði frá. 8. ágúst: „Ómar með Hyldýpið um Geirfinnsmál.“ Bókina skrifaði Ómar fyrir fjórtán árum og segir hún frá manni sem lýsir mannshvarfi á hendur sér í

17


bókarlok. Bókin byggir á viðtölum við ákveðinn einstakling. Morgunblaðið sagði frá. – Sama dag sagði Fréttablaðið frá bók þessari: „Ómar segir hæpið að hin dæmdu í Geirfinnsmáli hafi verið sek.“ Hann segist sjálfur hvorki geta sannað né afsannað þessa frásögn sem birtist í bók hans. Það sé lesenda að skera úr um hana. 11. ágúst: „Angelo breytti framburði fyrir dómi í gær.“ Hollendingurinn greindarskerti sagðist nú hafa vitað af fíkniefnunum en neitaði daginn áður. Hann átti að fara í „fallega ferð til Íslands“ með þrjá pakka og fá sjöþúsund evrur fyrir. Fréttablaðið sagði frá. 12. ágúst: „Staðsetti Angelo sem tólf ára.“ Enn er Angelo í sviðsljósinu og nú komu geðlæknir og sálfræðingur í réttinn og sögðu Angelo barnalegan, þóknunargjarnan, einlægan og auðtrúa. Fréttablaðið sagði frá. 15. ágúst: „Hrottar sagði í þjónustu lögmanna.“ Haft eftir lögmanni að lítill hópur lögmanna hafi misindismenn í þjónustu m.a. til að hafa áhrif á framgang mála. Fréttablaðið sagði frá. 26.-29. ágúst: „Níu Íslendingar í haldi í erlendum fangelsum.“ Umfjöllun um landann í klóm réttvísinnar í útlöndum. Fíkniefnasmygl er aðalástæða fangelsunar og sitja landar okkar í fangelsum í Bandaríkjunum, Brasilíu, Ástralíu, Þýskalandi, Spáni og Noregi. Sá sem er með lengsta dóminn fékk 22ja ára fangelsi. DV sagði frá. 30. ágúst: „Fari ekki í fangelsi fyrir fíkniefnaneyslu.“ Skýrsla starfshóps á vegum heilbrigðisráðherra lögð fram og þar lagt til að sektað verði fyrir vörslu vímuefnaskammta ætlaða til einkaneyslu en ekki dæmt í fangelsi. Starfshópurinn leggur líka ýmislegt til svo hægt verði m.a. að draga úr heilsuskaðandi afleiðingum vímuefnanotkunar. Þá er lagt til að efla meðferðarúrræði hjá þeim sem verst eru stödd. Fréttablaðið sagði frá. 2. september: „Heillaður af Guðmundar- og Geirfinnsmálinu.“ Bók gefin út með myndum og frásögnum eftir ljós­

18

myndarann Jack Latham en hann sökkti sér ofan í Guðmundar- og Geirfinnsmál í tvö ár í samstarfi við dr. Gísla Guðjónsson, réttarsálfræðing. Bókin heitir: Sugar Paper Theory og segir frá afdrifum þeirra sem ákærð voru í málunum. Fréttatíminn sagði frá.

sem verið er að reyna að koma til fanga.“ Fréttablaðið sagði frá.

2. september: „Fangar fá ekki að útskrifast með öðrum nemendum.“ Haft er eftir skólameistara Fjölbrautaskóla Suðurlands að foreldrar hafi kvartað þegar fangar hafi tekið þátt í sameiginlegum útskriftarathöfnum á vegum skólans – sérathafnir séu núna um hönd hafðar á Litla-Hrauni. Tilefni þessarar fréttar var að formaður Afstöðu, félags fanga, var meinað af fangelsisyfirvöldum að taka þátt í útskrift á vegum Verzlunarskóla Íslands en þaðan lauk hann stúdentsprófi. Fréttatíminn sagði frá.

26. september: „Fangelsismálastjóri brotlegur“. Umboðsmaður Alþingis telur að fangelsismálastjóri hafi brotið lagareglur með ummælum í fjölmiðlum um fyrrverandi stjórnarmenn Kaupþings á meðan þeir voru í fangelsinu á Kvíabryggju. Umboðsmaður Alþingis ákvað þó að láta málið falla niður. Morgunblaðið sagði frá.

3. september: „Refsingar eru ekki eina lausnin.“ Opnuviðtal við Hörð Jóhannes­ son, aðstoðarlögreglustjóra, sem hefur verið í lögreglunni í fjörutíu ár. Mörgum brotamönnum hefði mátt bjarga að hans áliti ef þeir hefðu átt betri æsku. Fréttablaðið sagði frá. 2.-5. september: „Ég var dæmdur fyrir dugnað.“ Vitnað í viðtal við Árna Johnsen, fyrrverandi alþingismann, í blaðinu Mannamál. Hann segist hafa fengið „greiðslur sem voru ekki með réttri aðferð.“ Um mistök var að ræða. DV sagði frá. 8. september: „Hólmsheiði seinkar enn frekar.“ Ljóst að fangar koma ekki í fangelsið fyrr en í september eða október. Fréttablaðið sagði frá. 14. september: „Kvenfangar fyrstir til að flytja í fangelsið á Hólmsheiðinni.“ Rými er fyrir 56 fanga í fangelsinu og sérstök álma fyrir konur, sem er í raun Kvennafangelsi Íslands. Morgunblaðið sagði frá. 22. september: „Nýtt tískudóp á Litla-Hrauni.“ Spice heitir þetta nýja dóp og skaut fyrst upp kolli fyrir níu árum. „Við erum vakandi hér á Litla-Hrauni,“ segir forstöðumaðurinn, „og erum oft að finna alveg ótrúlegustu hluti frá gestum og föngum, hvort sem það er spice, sýra eða annað

23. september: „Bræðurnir saman í fangelsi“. Viðtal við mann sem afplánar á Kvíabryggju með bróður sínum, „einræðisherranum.“ Fréttatíminn sagði frá.

26. september: „Næstum þriðji hver fangi vill ekki vinna.“ Þar segir að nægt vinnuframboð sé á Litla-Hrauni og Sogni. Séu 19 fangar af 69 á Litla-Hrauni sem vilji ekki vinna. En flestir fanganna á Sogni séu í vinnu eða skóla. „Svo er draumurinn að geta byggt upp fullnægjandi aðstöðu til verknámskennslu í fangelsinu en það væri æskilegt að geta virkjað fleiri til náms, líka þá sem vilja ekki bóknámið,“ er haft eftir forstöðumanni Litla-Hrauns. Fréttablaðið sagði frá. 28. september: „Vildi ekki vera kallaður asni.“ Fangi kærði starfsmann Litla-Hrauns til umboðsmanns Alþingis fyrir að kalla sig asna. Í málinu stóð orð gegn orði. Umboðsmaður taldi að koma yrði kvörtunum fanga í garð starfsmanna í betri farveg, skilvirkari og tryggari. Fréttablaðið sagði frá. 14. október: „Ráðuneyti hrókerar orðljótum sérfræðingi í fangelsismálum.“ Tölvupóstur frá lögfræðingi nokkrum í innanríkisráðuneytinu fór á flakk í ógáti. Í honum mátti lesa óhróður um umboðsmann Alþingis og Afstöðu, félag fanga. Lögfræðingurinn var fluttur til í starfi og baðst afsökunar, sagði ummæli sín ófagleg og látin falla vegna álags. Hann sagði meðal annars: „Mest langar mig til að fá starfsmenn umboðsmanns hingað, hrista þá til og láta þá hanga ...“ Fangafélagið vill rannsókn á málinu og umboðsmaður lítur málið alvarlegum augum. Fréttablaðið sagði frá.


19. október: „Tíu konur verða fyrstar á Hólmsheiði.“ Á boðunarlista er mikill fjöldi eða um 500 manns og allt að 6 ára bið eftir afplánun. Morgunblaðið sagði frá.

þeirra voru það mikil viðbrigði að koma í Heiðina frá því sem var í kvennafangelsinu á Akureyri. Ýmsu hafi verið ábótavant í fyrstu er snerti aðbúnað. DV sagði frá.

21. október: „Fangelsismál eru í framþróun.“ Viðtal við fangelsisstjórann á Litla-Hrauni, Halldór Val Pálsson. Hann segir að breytingar á Litla-Hrauni séu framundan. Telur hann mikla þörf á endurskipulagninga húsa á svæðinu vegna öryggis og aðbúnaðar. Lykilatriðið í betun í fangavistinni sé starf og nám og í þeim efnum segir hann hafi góðir hlutir verið að gerast. Segir Halldór Valur mikilvægt að fjölga námskostum „svo sem í verknámi og tilgreinir þar sérstaklega tré- og járnsmíði.“ - Fangelsið verður aldrei að hans mati „100% fíkniefnafrítt.“ Morgunblaðið sagði frá.

2. desember: „Dómari vill að menn sem játa kynferðisbrot fái hjálp.“ Dómari sem nýlega dæmdi mann fyrir ofbeldis- og kynferðisbrot vill að menn í slíkri stöðu fái hjálp við hæfi: „Nú fer maðurinn í fangelsi og vonandi fær hann einhverja aðstoð þar, en maður veit ekki hve lengi það endist,“ er haft eftir dómaranum. Umræddur maður fékk 6 ára fangelsisdóm fyrir alvarleg brot gegn barnsmóður sinni. Fréttatíminn sagði frá.

25.-27. október: „Gift en má ekki koma til Íslands í 30 ár.“ Sagt frá tveimur föngum sem gengu í hjónaband á Akureyri. Ástarsambandið hófst á Kvíabryggju. Konan segir að það sem hún gerði hafi verið rangt. Hún fær reynslulausn, situr af sér helming dómsins, og verður svo vísað úr landi. Hjónakornin sögðust hafa búist við endurkomubanni í fimm eða tíu ár – ekki 30 ár. DV sagði frá. 10. nóvember: „Aðalnúmerin á Hraun­ inu.“ Sagt frá vinnu á Litla-Hrauni: númera­gerð, járnsmiðju, öskjugerð, tré­ smiðju, bílaþrifum o.fl. Fréttatíminn sagði frá. 14. nóvember: „Hegningarhúsið þarfnast viðgerðar“. Viðgerð á húsinu mun kostað hundruð milljóna. Í fréttinni kemur og fram að það verði fjármálaráðuneytið sem muni taka ákvörðun um hvaða starfssemi verði í húsinu. Morgunblaðið sagði frá. 14. nóvember: „Komast á netið frá öryggisdeild.“ Sagt frá nýjum reglum fangelsisyfirvalda sem kveða á um að fangar á öryggisdeild á Litla-Hrauni geti fengið að fara á netið undir eftirliti. Fram kemur að mikið eftirlit er haft með föngum á öryggisdeild. Fréttablaðið sagði frá. 18.-21. nóvember: „Við erum í áfalli“. Þar segir frá fyrstu kvenföngunum sem fluttir voru í Hólmsheiðarfangelsið. Að sögn

VERNDARBLAÐIÐ 2017

13.-15. desember: „Fyrsta flóttatilraunin á Hólmsheiði“. Ungur maður reyndi að flýja en mistókst. Hann komst á milli girðinga en ekki lengra. DV sagði frá. 15. desember: „Fangar fá húsaleigubætur“ Samkvæmt nýjum lögum um húsnæðisbætur sem ganga í gildi um áramót geta fangar sem dveljast á áfangaheimili Verndar sótt um húsnæðisbætur. Mikið framfaraskref, segir formaður Afsöðu, félags fanga. Fréttatíminn sagði frá.

2017 13. janúar: „Vilja sleppa síðdegisviðverunni á Vernd.“ Vistmenn gagnrýna að þeir þurfi að vera á áfangaheimilinu milli kl. 18.00 og 19.00. Það bæði trufli vinnu og nám. Vernd telur þetta vera grundvallarreglu í sambandi við rekstur heimilisins. Morgunblaðið sagði frá. 14. janúar: „Gjaldskrá er talin ógild.“ Umboðsmaður Alþingsis beindi þeim tilmælum í þriðju viku desember að innanríkisráðuðneytið setti án tafar nýja gjaldskrá um þóknun og dagpeninga fanga. Enda þótt fangelsisyfirvöld vinni eftir heimagerðri gjaldskrá samhljóða löglega settri gjaldskrá frá 2011 þá telur umboðsmaður að hún geti ekki komið í stað stjórnvaldsákvarðana sem ráðherra gefur út samkvæmt lögum. Morgunblaðið sagði frá.

19. janúar – 1. febrúar: „Fangelsi án lausnar“. Nokkuð umfangsmikil umfjöllun um Hólmsheiðarfangelsið. Viðtöl við nokkra fanga og einn fangavörð. Fjöldi mynda úr fangelsinu prýðir umfjöllunina. Fangar segja sögu sína og gagnrýna úrræðaleysi innan fangelsisins í samandi við meðferð á fíkn. Haft er eftir fangaverðinum: „Hann sér starf sitt sem eins konar sálgæslu þar sem hann vill vera til staðar fyrir fólk. Ef hann getur hjálpum einum þá er það þess virði.“ Stundin sagði frá. 20. janúar: „Manngæska og viska“. Athyglisverð mynd um starf og líf fangavarða var sýnd í Bíó Paradís. Myndin tekin upp í Hegningarhúsinu og handritið var unnið upp úr viðtölum við fangaverði. Morgunblaðið sagði frá. 27.-30. janúar: „Það er mjög óþægilegt að horfa á þessa þætti.“ Í sjónvarpinu var sýnd íslensk sjónvarpsmynd í þremur þáttum sem fjallaði um konur í kvennafangelsi, Fangar. Myndin var tekin upp að mestu leyti í gamla kvennafangelsinu að Kópavogsbraut 17 (Kópavogsfangelsinu). Í þessar i blaðaumfjöllun var meðal annars rætt við nokkrar konur sem afplánað höfðu í Kópavogsfangelsinu. Þeim fannst þættirnar ná fangelsisstemningunni sæmilega en væru á köflum ýktir. Þættirnir rifjuðu upp eitt og annað frá þessum stað og óþægilegt væri að horfa á þá. Sumt í þáttunum var bygg á eigin reynslu eins viðmælanda blaðsins. DV sagði frá. 16. febrúar – 1. mars: „Ofbeldisfangar án betrunar: Héra eru menn með vanda­ mál.“ Fjallað um stöðu ofbeldismanna í fangelsum út frá meistaraprófsritgerð tveggja kvenna. Aðeins er boðið upp á lág­marksþjónustu í fangelsinu hvað sér­ fræðingaúrræði snertir gagnvart þessum hópi manna og: „Úrræðin sem eru í boði þurfa að vea markvissari og tíðari og eftir­ fylgnin meiri. Fjármagni til fangelsismála er ábótavant og fangarnir líða fyrir takmarkað fjármagn í úrræðin...“. Stundin sagði frá. 17. febrúar: „Vímuefnaskýrsla óhreyfð í ráðuneytinu.“ Fram kemur að frá því að skýslan var kynnt í ágúst hafi ekki mikið gerst. Stjórnmálaflokkurinn Björt framtíð er hallur undir niðurstöður þessar-

19


ar skýrslu. Ein tillaga skýrslunnar lýtur að afnámi fangelsisrefsinga fyrir vörslu neysluskammta. Fréttablaðið sagði frá. 17. febrúar: „Tekur tíma að koma á rútínu í fangelsinu“. Fangelsisyfirvöld svara gagnrýni sem beint hefur verið að hinu nýja fangelsi í Hólmsheiðinni. Fram kemur að upp á ýmislegt er boðið í hinu nýja fangelsi sem nýtur og margvíslegrar þjónustu til dæmis lækna, sálfræðinga og félagsráðgjafa. Auk þess koma þar að vettvangi jógakennari og líkamsræktarþjálfari. Morgunblaðið sagði frá. 18. febrúar: „Hringrás lífsins á Litla-Hrauni“. Forsíðuviðtal við reyndan fangavörð á Litla-Hrauni, Björgu Elísabetu Ægisdóttur sem jafnan er kölluð Bogga. Fram kemur að hún sem fangavörður er rétt manneskja á þeim viðkvæma stað mannlífsins. Fréttablaðið sagði frá. 21. febrúar: „Koma til að brjóta af sér“. Haft eftir Helga Gunnlaugssyni, prófessor, að um helmingur þeirra útlendu fanga sem afplána hér á landi hafi komið gagngert til landsins til að fremja afbrot. Afbrotahrinur megi rekja til þessara hópa. En þó er misskilningur á því að útlendir menn séu frekar að verki en íslenskir. Íslendingar eiga vinninginn þegar upp er staðið. Morgunblaðið sagði frá. 23. febrúar: „Fangar – raunveruleiki fanga.“ Formaður félags fanga, Afstöðu, skrifar grein í tilefni af sjónvarpsmyndinni Fangar. Segir hann meðal annars: „Kerfið hefur nefnilega þrátt fyrir allt lítið breyst: innihald fangelsisvistar skortir og betrun sömuleiðis.“ Morgunblaðið sagði frá. 25. febrúar: „Fimm mál endurupptekin“. Endurupptökunefnd birti niðurstöður sínar í sambandi við Guðmundar-og Geirfinnsmál. Upptaka samþykkt í öllum málum nema einu. Formaður endurupptökunefnar segir málið nú í höndum ákæruvaldsins og endurupptökubeiðanda að halda málinu áfram. „Ég hefði orðið steinhissa ef þetta hefði ekki farið svo,“ er haft eftir einum þeirra hvers mál verður upptekið. Morgunblaðið sagði frá.

20

27. febrúar: „Lítið mál að smygla á Hraunið.“ Fjallað um fíkniefna­ smyglvandann á Litla-Hrauni. Haft eftir forstöðumanni fangelsisins: „Það er ekkert flóknara að koma fíkniefnum hingað inn heldur en milli landa. Menn fá gesti, það kom öll aðföng hingað utan að og það er ekkert mál fyrir þá sem skipuleggja sig vel að koma fíkniefnum hingað inn eins og annars staðar.“ Þegar fíkniefni finnast er lögreglu gert viðvart og þá reyni fangelsið að takamarka fíkniefnaframboðið um leið og reynt er að bjóða föngunum upp á lausnir til að komast út úr vandanum. Fréttablaðið sagði frá. 28. febrúar- 2. mars: „Ég er rosalega reið út í kerfið á Íslandi.“ Fjallað um börn fanga og fordóma gagnvart þeim vegna stöðu foreldra þeirra. Haft er eftir flestum viðmælendum að foreldrar þeirra hafi breyst mikið við afplánunina. Þeir voru ekki sömu manneskjur og áður. DV sagði frá. 1. mars: „Faraldur fær líka frelsi.“ Formaður félags fanga, Afstöðu, skrifar grein í tilefni af umfjöllun um fíknaefnamál á Litla-Hrauni. Þar segir að félagið hafi varað fangelsisyfirvöld við því sem fylgir þeirri þróun þegar barist er gegn notkun vægari fíkniefna í fangelsum. Sú barátta kalla inn sterkari fíkniefni og nú geisi þessa dagana Spice-faraldur á Litla-Hrauni. Fréttablaðið sagði frá. 1. mars: „Vistaður á Hólmsheiði.“ Maðurinn sem grunaður er um að hafa orðið Birnu Brjánsdóttur að bana verður vistaður í Hólmsheiðarfangelsinu en ekki á Litla-Hrauni. Er það gert af öryggisástæðum. Morgunblaðið sagði frá. 2. mars: „Undrast niðurstöðu nefndarinnar.“ Endurupptökunefnd synjaði Erlu Bolladóttur um endurupptöku á máli hennar er sneri að röngum sakargiftum á fjóra menn. Fyrrum innanríkisráðherra undrast niðurstöðu nefndarinnar hvað þetta snertir því játningar allra hafi verið knúðar fram með óréttmætum hætti. Morgunblaðið sagði frá. 8. mars: „Fanginn á Akureyri lést á sjúkrahúsi.“ Sagt frá láti manns sem fannst meðvitundarlaus í klefa sínum í

Akureyrarfangelsinu. Málið skoðað sem mögulegt sjálfsvíg. Morgunblaðið sagði frá. 8. mars: „Sálfræðingur ekki sést í fangelsinu í um tvö ár.“ Sagt frá því að fanginn sem lést á Akureyrarsjúkrahúsinu hafi látist eftir sjálfsvígstilraun. Félag fanga gagnrýnir sálfræðiþjónustu við Akureyrarfangelsið. Þjónustuna þarf að bæta, er haft eftir dómsmálaráðherra í umræðum á Alþingi þar sem mál þessi bar á góma. Fréttablaðið sagði frá. 9. mars: „Menntun fanga.“ Höfundar, Gylfi Þorkelsson og Lóa Hrönn Harðardóttir, koma að menntun fanga og segja í upphafi greinarinnar að flestir ef ekki allir séu sammála því að menntun sé lykilatriði í betrun fanga. Telja þeir þörf á því að móta heildarstefnu í menntunarmálum fanga með tilkomu Hólmsheiðarfangelsisins og stofna eigi í því skyni starfshóp – farið hefur verið fram á það við ráðuneyti mennta- og dómsmála en ekkert heyrst frá þeim enn. Höfundar lýsa í lokin að þeir séu tilbúnir til skrafs og ráðagerða – hafi ýmsar hugmyndir. Fréttablaðið sagði frá. 10. mars: „Fimm ára þrautagöngu sakborninga í manndrápsmáli lokið.“ Hæstiréttur sýknaði tvo fanga um að hafa veist að samfanga sínum árið 2012 með þeim afleiðingum að hann lést. Héraðsdómur Suðurlands staðfestur. Fréttablaðið sagði frá. 12. mars: „Fangar.“ Dómsmálaráðherra, Sigríður Á. Andersen, skrifar í Morgunblaðið grein um málaflokkinn og segir meðal annars: „Vægi Verndar mun ekki minnka nú þegar sjónum er í ríkara mæli beint að fullnustu dóma utan fangelsis.“ Morgunblaðið sagði frá. 14. -16. mars: „Það er farið illa með mig hérna.“ Fangi í Hólmsheiðarfangelsinu kvartar undan slæmri þjónustu en hann segist ekki hafa fengið að fara í sjúkraþjálfun eftir aðgerð. DV sagði frá. 15. mars: „550 dómþolendur bíða eftir boðun í fangelsi.“ Rætt um boðunarlistann og að hann hafi lengst og að í fyrra hafi 34 dómar fyrnst. Þá fylgir í lok þessarar fréttar að fangar frá 32 þjóðlöndum hafi


afplánað á Íslandi árið 2016. Flestir þeirra eru pólskir. Morgunblaðið sagði frá.

verður lokað í sumar og unnið að endurbótum á því. Fréttablaðið sagði frá.

17. mars: „Lögreglumaður í Reykjavík ákærður fyrir að hafa beitt mann í haldi ofbeldi“. Myndbandsupptökur úr lögreglustöðinni við Hverfisgötu sýna atvikið en héraðssaksóknari gaf út ákæru. Morgunblaðið sagði frá.

27. mars: „Sporin hræða.“ Formaður félags fanga, Afstöðu, skrifar grein í tilefni af umræðu um frelsissvipt fólk á ýmsum stofnunum. Minnir hann á í þessu sambandi að enn eigi eftir að staðfesta á Íslandi viðauka við samning Sameinuðu þjóðanna um varnir gegn pyntingum og ómannúðlegri meðferð. Þjóðir hafi komið sér upp reglukerfi til að fylgjast með því hvernig hið opinbera framfylgir frelsissviptingu fólks því það sé undantekningarlaust grafalvarleg mál. Fréttablaðið sagði frá.

18. mars: „Skilaði skömminni aftur til lögreglunnar.“ Viðtal við mann sem sætti ólögmætri handtöku og var settur í gæslu­ varðhald. Honum dæmdar bætur, 2 millj­ ónir. Missti atvinnuna vegna þessa máls og varð þunglyndur með áfallastreituröskun. Fréttablaðið sagði frá. 22. mars: „Kynferðisofbeldi á Litla-Hrauni er alltaf tilkynnt lögreglunni.“ Umfjöllun vegna meistaraprófsritgerðar Nínu Jacqueline Becker um ofbeldi fanga innan fangelsa. Fréttablaðið sagði frá. 27. mars: „Fangelsið hálftómt en biðlistinn lengist.“ Sagt frá því að í Hólmsheiðarfangelsinu séu þrjátíu fangar en þar geti þeir verið 56. Rými þurfa að vera fyrir hendi þegar einu húsanna á Litla-Hrauni

28. mars: „Skellti höfði fangans tvisvar í gólfið. – Lögreglumaður ákærður fyrir árás.“ Atvikið átti sér stað í fangageymslu lögreglunnar við Hverfisgötu í Reykjavík. Morgunblaðið sagði frá. 31. mars-3. apríl: „Jóhann Björn beittur harðræði á Litla-Hrauni.“ Nefndur fangi sagður hafa orðið fyrir fólskulegri meðferð fangavarðar og er málið í rannsókn. Fangaverðinum var vikið úr starfi tímabundið. Málið rannsakað sem sakamál. DV sagði frá.

8. apríl: „Dæmdur fyrir spillingu í starfi. – Fyrrverandi lögreglumaður dæmdur í 15 mánaða fangelsi í héraðsdómi.“ Morgunblaðið sagði frá. 11. apríl: „Er ekkert að gera í fangelsunum? – Gylfi Þorkelsson kennslustjóri FSu í fangelsum, fer yfir námsframboð í fangelsum.“ Stundin sagði frá. 25. apríl: „Fangar komi vel fram við meintan morðingja.“ Félag fanga, Afstaða, hvetur fanga til að atast ekkert í meintum morðingja Birnu Brjánsdóttur. Fréttablaðið sagði frá. 9. maí: „Kínverjar til vandræða á Kvíabryggju.“ Ágangur ferðamanna á Kvíabryggju sem virða ekki fyrirmæli skilta. DV sagði frá. 15. maí: „Regla Verndar standi föngum fyrir þrifum og sé gagnslaus.“ Afstaða, félag fanga, vill að innireglu fanga milli 18.00 og 19.00 verði breytt. Fréttablaðið sagði frá.

FANGELSISMINJASAFN ÍSLANDS Í nokkrum Verndarblöðum hefur verið vakin athygli á nauðsyn þess að stofna safn sem heldur utan um ýmsa muni er snerta sögu fangelsa á Íslandi. Fangelsissögu Íslands hefur lítið verið sinnt og menn fremur hirðulausir um hana. Þess vegna hafa ýmsir munir glatast úr henni. En í safnasögu kemur alltaf í ljós að fleiri munir finnast en menn hyggja. Þess vegna eru allir sem telja sér málið skylt hvattir til að líta í kringum sig og sjá til þess að ekkert fari forgörðum sem heyrir til þessari sögu. Saga fangelsa á Íslandi er merkileg saga sem segir m.a. frá því hvernig föngum og fangavörðum reiddi af í sambýlinu, hvernig fangelsið voru úr garði gerð, og hvaða þjóðfélag það endurspeglaði hverju sinni o.s.frv. Nú er fyrsti vísir kominn að fangelsisminjasafni sem eru tveir skápar með fáeinum munum. Í sumar verður svo Fangelsisminjasafn Íslands formlega stofnað. Munum að mjór er mikils vísir. Í þessari hillu má m.a. að sjá skartgripi sem fangar á LitlaHrauni hafa unnið, lyklaspjald fangavarðar, sálmabók merkta Kópavogs­fangelsinu. Nánari upp­lýsingar um safnið veitir Hreinn S. Hákonarson, sími 898-0110.

VERNDARBLAÐIÐ 2017

Tæki til að mæla hvort fíkniefni væru í líkamsvessum fanga (nánari upplýsingar óskast frá þeim sem þekkja til þessa tækis) en það er úr Hegningarhúsinu. Þá er Nýja testamenti sem fangi hefur skorið holu í til að lauma fíkniefnum milli staða í fangelsinu - frá Litla-Hrauni.

Fyrsti gripaskápur Fangelsisminjasafns Íslands

21


„ÞAÐ ER ALLT GOTT AÐ FRÉTTA AF HONUM“ –MEÐVIRKNI AÐSTANDENDA FÍKLA

G

óðmennska býr í hjörtum flestra manna, en sama á við um skömm, ótta og kvíða. Okkur langar að gera vel og oft langar okkur að láta lífið líta aðeins betur út en það gerir í raun. Flestar manneskjur hafa gerst meðvirkar á einhverjum tímapunkti í lífinu, hvort sem það er meðvitað eða ómeðvitað. Meðvirkni getur birst í mörgum myndum og hjá öllum fjölskyldum og einstaklingum. Meðvirkni byrjar oft sem eðlileg viðbrögð við óeðlilegum aðstæðum og í sumum tilfellum getur hún jafnvel verið hamlandi. Sé meðvirkni ómeðhöndluð getur hún haft eyðileggjandi áhrif á okkur sjálf og þá sem standa okkur næst. Mikilvægt er að láta meðvirkni ekki ná tökum á lífi sínu og nýta sér þau góðu úrræði sem í boði eru til að fá hjálp og stuðning. Í þessari grein verður farið yfir atriði er tengjast meðvirkni og aðstandendum áfengis- og vímuefnasjúkra, hvernig hún lýsir sér og hvert aðstandandi getur leitað til að fá hjálp við meðvirkni.

Hvað er meðvirkni? Í kringum hvern fíkil, hvers eðlis sem fíknin er, eru aðstandendur sem geta skaðast vegna áhrifa fíkils. Algengt er að aðstandendur viti ekki hvernig eigi að bregðast við hegðun fíkils og sýna oft stuðning sem gerir ástandið ef til vill enn verra. Meðvirkni er hugtak sem notað er til að lýsa áhrifum sem fíkill hefur á aðstandendur og þá helst fjölskyldu­meðlimi. Meðvirkur einstaklingur aðlagar sig oft að þeim aðstæðum er hann býr við, í stað þess að koma sér út úr þeim, hversu slæmar sem aðstæðurnar kunna að vera. Sá meðvirki reynir oft að leyna neyslu vímuefnasjúka einstaklingsins með því að afsaka hegðun hans en það getur komið í veg fyrir að fíkillinn geri sér grein fyr-

22

Óæskilegur stuðningur Höfundar voru nemar í HR þegar þeir sömdu greinina og eru: Ásthildur Magnúsdóttir, Elínborg Ósk Jensdóttir, Olga Helena Ólafsdóttir, Stella Hallsdóttir og Telma Dögg Stefánsdóttir. Svala Ísfeld Ólafsdóttir, dósent við HR, var leiðbeinandi þeirra. ir vandamálum sínum og axli ábyrgð á þeim. Meðvirknishegðun er þó einstaklingsbundin og hver og einn á sína sögu, en sá meðvirki setur langanir og þarfir annarra ofar sínum eigin og þá oft á eigin kostnað. Einstaklingar eiga oft erfitt með að láta af meðvirkri hegðun, því þeim finnst þeir vera að bregðast þeim sem þeir eru meðvirkir með og óttast yfirleitt afleiðingar þess að hjálpa ekki þeim sem þeir er meðvirkir með. Í grein sem birt var í Morgunblaðinu árið 1997 skrifar Þorsteinn Antonsson að ekki sé auðvelt að ímynda sér að fíkn annarra geti dugað manni sem fíkn, en slíkir eru meðvirkir: ,,þetta huldufólk fíkninnar.“ Hann segir að meðvirkir einstaklingar beri sömu einkenni og fíklar. ,,Sá meðvirki lifir í tveimur heimum, hversdagsleikans sem blasir við augum, en jafnframt öðrum sem hann hefur til hliðsjónar við athæfi sitt allt.“ Hann segir skýringuna vera þá að í nútíð eða jafnvel fortíð þess meðvirka er fíkill, fíkill sem er eins og segull á allt athæfi þess meðvirka. Eitt helsta einkenni þess meðvirka er að hann kemur ekki til dyra eins og hann er klæddur og má velta fyrir sér hvort hann komi þannig frammi fyrir sjálfum sér heldur, enda reyni sá meðvirki að hagræða lífi sínu á móti raunverulegum þörfum sínum; til að uppfylla þarfir þess sem hann er meðvirkur með.

Meðvirkni og óæskilegur stuðningur eru að mörgu leyti lík en þó er munur þar á milli. Óæskilegur stuðningur er meðvituð hegðun þar sem einstaklingurinn veit hvað hann er að gera en meðvirkni er samskiptamynstur sem þróast ómeðvitað. Óæskilegur stuðningur er því þegar einstaklingur styður við hegðun þess veika, með því t.d. að borga vímuefnaskuldir eða ljúga með viðkomandi gagnvart fjölskyldu og jafnvel vinum. Viðkomandi áttar sig ekki á því að hann er í raun að gera rangt því meiningin er sú að aðstoða þann veika vegna væntumþykju. Óæskilegur stuðningur við fíkla er, líkt og meðvirkni, skaðleg fíklinum þar sem með þessari hegðun er viðkomandi að gera þeim veika kleift að vera í neyslu án þess að bera ábyrgð á hegðun sinni. Stuðningur sem þessi er í sjálfu sér ekki óeðlileg hegðun. Við göngum öll mislangt í því að sýna væntumþykju og viðkomandi áttar sig ekki endilega á að óæskilegi stuðningurinn geti leitt til skaðlegra afleiðinga, þó hann viti hvernig stuðning hann gefur hinum veika.

Einkenni meðvirkni Eitt helsta einkenni meðvirkra einstaklinga er að þeim finnst þeir bera ábyrgð á hegðun, hugsunarhætti og tilfinningum fullorðinnnar manneskju. Afleiðingar meðvirkninnar geta verið vanræksla á sjálfum sér, vaxandi tilfinningavandi, reiði, kvíði, sektarkennd og örvænting. Á vef SÁÁ kemur fram að nauðsynlegt sé að greina hvort um sé að ræða meðvirkni sem byrji á barnsaldri eða seinna á ævinni og að meðferð sé mismunandi eftir því hvenær á ævinni sá meðvirki byrji að þróa með sér slíka hegðun. Jóna Margrét Ólafsdóttir, félagsráðgjafi og stofnandi samtakanna Lifandi ráðgjöf


Ekki eru allir dagar góðir þótt hinn meðvirki segi það. ehf., segir að ástæða þess að einstaklingur þrói með sér meðvirkni sé sú að viðkomandi upplifi að búa við það að öryggi hans sé ógnað andlega, líkamlega eða félagslega. Hún nefnir sem dæmi einstakling sem eigi vímuefnasjúkan maka eða stríði við aðra virka geðsjúkdóma svo sem þunglyndi eða kvíða. Veikindi viðkomandi geti stuðlað að því að grunnþörfinni „öryggi“ sé ógnað og stundum fylgi andlegt og líkamlegt ofbeldi með innan fjölskyldunnar. Hún tekur fram að þegar öryggi einstaklings er ógnað þá rekur það aðstandendur inn í vanlíðunina og óeðlilega hegðun, sem er samkvæmt fræðunum eðlileg hegðun í óeðlilegum aðstæðum. Í bók sinni Fíknisjúkdómar og sam­ skipti – viðbrögð og vinnureglur segir Jóna Margrét Ólafsdóttir að það merkilega við meðvirkan einstakling sé að þrátt fyrir tilfinningalega vanlíðan virðist það í raun ekki vera vilji hans að losna við vanlíðunina sem tengist því að vera meðvirkur. Hún segir að viðkomandi leiti til fagaðila því honum líði ekki vel en að hann tengi vanlíðan sína starfi eða félagslífi en ekki því álagi að starfa eða búa með virkum vímuefnasjúklingi. Fyrir meðvirkan einstakling sé það umbun að þjást

VERNDARBLAÐIÐ 2017

og finna til af annarra völdum. Hún segir að ef sá vímuefnasjúki væri ekki til staðar myndi hinn meðvirki finna til meiri vanmáttar, smánar og sjálfsvorkunnar. Er það í samræmi við það sem fram kemur á Vísindavefnum þar sem fjallað er um einkenni meðvirkni, en þar segir að einkenni hins meðvirka hafi í upphafi verið rakin til streitunnar sem fólk upplifi við að búa með alkohólista eða fíkli. Það hafi síðar komið í ljós að þegar alkohólistinn hætti að drekka, þá hefði hinn meðvirki ekki lagast og jafnvel orðið verri af einkennum sínum. Hugtakið meðvirkni hefur verið skilgreint á ótal vegu og birtingarmyndir meðvirkni eru margar. Flestar skilgreiningar fjalla þó um einstaklinga með lítið sjálfstraust og litla sjálfsvirðingu. Meðvirkni þróast þegar einstaklingur býr við óheilbrigðar aðstæður og er það oft hans leið til að lifa af við slíkar aðstæður. Sá meðvirki stjórnar ekki hugsunum sínum og á þar af leiðandi erfitt með að taka ákvarðanir. Hann lifir í stöðugri þörf fyrir viðurkenningu annarra því óttinn við höfnun er svo sterkur. Sá ótti getur svo leitt til fullkomnunaráráttu og hræðslu við að tjá skoðanir sínar. Þessir einstaklingar lenda svo í vítahring sem erfitt er

að rjúfa þar sem þeir átta sig seint og illa á ástandi sínu. Þeim líður illa með sjálfa sig, gengur illa að takast á við daglegt líf og gera sér jafnvel ekki almennilega grein fyrir því af hverju þeim líður eins og þeim líður. Kristjana Milla Snorradóttir, iðjuþjálfi, telur að leiðin frá meðvirkni felist í því að einstaklingurinn geri sér grein fyrir því að hann hafi ekki stjórn á hugsun sinni og treysti ekki eigin tilfinningum. Hann þurfi því að einbeita sér að því að ná tökum a eigin hugsunum og læra að treysta á eigin tilfinningar í stað þess að lifa í gegnum annað fólk. Hún bendir á að þeir sem glími við meðvirkni geti leitað til fagaðila í heilbrigðiskerfinu og til ýmissa sjálfshjálparhópa.

Hvaða úrræði eru í boði fyrir aðstandendur fíkils? SÁÁ SÁÁ eru með margvísleg námskeið fyrir aðstandendur alkohólista sem og annarra vímuefnasjúklinga og er það ekki skilyrði að fíkillinn hafi leitað sér hjálpar við fíkn sinni svo aðstandendur geti leitað hjálpar samtakanna. Á höfuðborgarsvæðinu er boðið upp á ókeypis kynningarfundi alla miðvikudaga

23


kl. 18:00 í Von, Efstaleiti 7. Auk þess eru kynningarfundir á Göngudeild SÁÁ á Akureyri sem þjóna öllu Norðurlandi, Hofsbót 4. Fundir á Norðurlandi eru haldnir fyrsta mánudag hvers mánaðar kl. 17:30 og eru allir velkomnir á kynningarfundina. Einnig er aðstandendum m.a. boðið upp á einstaklingsviðtöl, fjölskyldumeðferð á kvöld- eða helgarnámskeiðum, fræðslufundi fyrir foreldra, stuðningshópa og kynningu á starfsemi SÁÁ þannig að allir ættu að finna meðferð við sitt hæfi. Þess ber þó að geta að helgarnámskeiðin eru fyrst og fremst ætluð fólki sem býr utan Reykjavíkur og eru námskeiðin sett á dagskrá göngudeilda í Reykjavík eða á Akureyri eftir því sem þörf krefur. Í fjölskyldumeðferðinni er m.a. farið yfir meðvirkni og hvernig hún breytir fjölskyldunni og einstaklingnum og hvernig stuðningur við fíkilinn getur gert ástandið verra. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðunni www.saa.is/medferdir/adstandendur/ eða í síma 530-7600.

styðja og styrkja foreldra sem eiga börn og unglinga í vanda eða farið hafa í meðferð. Boðið er upp á fjölskylduráðgjöf í Foreldrahúsi, er hún ætluð foreldrum, börnum og ungmennum í vanda. Þar starfa vímuefnaráðgjafar, sálfræðingur, foreldraráðgjafi og annað fagfólk. M.a. er boðið upp á sálfræðiþjónustu, ráðgjöf og meðferð barna og unglinga með hegðunar- og /eða áfengis- og fíkniefnavanda. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðunni www.vimulaus.is eða í síma 5116160.

Al-Anon

Lifandi ráðgjöf

Al-Anon eru samtök sem hafa það að leiðarljósi að vinna gegn meðvirkni, en þau eru ætluð aðstandendum alkohólista. Al-Anon er sjálfshjálparaðferð sem er byggð upp á tólf reynslusporum AA-samtakanna. Á fundum hjá Al-Anon hittir þú aðra sem eru að takast á við sömu vandamál og getur þá öðlast skilning og fengið styrk með því að hlusta og deila þinni reynslu. Til að iðka Al-Anon aðferðina þarft þú að sækja fundi reglulega, hafa samband við aðra félaga samtakanna og lesa ráðstefnusamþykkt lesefni. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðunni www.al-anon.is eða í síma 5519282.

Lifandi Ráðgjöf býður upp á námskeið, fræðslu og ráðgjöf varðandi áfengis- og vímuefnamál fyrir einstaklinga, fjölskyldur, stofnanir og fyrirtæki. Fjölskylduráðgjöfin fer þannig fram að fjölskyldan kemur í viðtal þar sem farið er yfir stöðu er myndast hefur vegna neyslu einstaklings innan fjölskyldunnar. Skoðuð eru þau áhrif er fíkilinn hefur haft á meðlimi fjölskyldunnar t.d. í samskiptum við hvert annað og aðra þætti í umhverfi þeirra s.s. vinnu, námi og samskiptum við annað fólk. Viðtölin fara fram í fræðslu, stuðningi og sjálfseflingu. Fjölskyldan setur sér markmið sem hún stefnir að í sameiningu. Leitast er við að finna lausn við vandamálunum og koma málum í góðan farveg. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðunni www.lifandiradgjof.com eða í síma 860-0665.

Foreldrahús Foreldrahús eru félagasamtök styrkt af hinu opinbera og er markmið þeirra að

24

Lausnin fjölskyldumiðstöð Lausnin fjölskyldumiðstöð býður upp á meðvirkninámskeið, bæði örnámskeið og heilsdagsnámskeið. Á námskeiðunum er m.a. farið yfir hvað meðvirkni er, hvernig hún verður til, hvaða áhrif hún hefur á líf einstaklings og hvernig hægt sé að vinna úr meðvirkninni. Námskeiðin eru haldin í formi fræðslu, hópavinnu og heimaverkefna. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðunni www.lausnin.is eða í síma 5173338.

Önnur úrræði Að lokum ber að nefna að einnig eru ýmiss önnur úrræði í boði má þar helst nefna hjálp frá félagsráðgjöfum, sálfræðingum og prestum sem bjóða upp á sérþjónustu fyrir aðstandendur fíkla. Þjónusta þessara aðila getur falist í einstaklings- eða fjölskylduviðtölum ásamt námskeiðum um meðvirkni fyrir aðstandendur.

Heimildaskrá 1. Al-Anon. ,,Hvað er Al-anon” http://www.al-anon.is/alanon/hvad-er-alanon/ Sótt 19. mars 2016. 2. Bryndís Einarsdóttir ,,Meðvirkni er ekki það sama og hjálpsemi” (Heilsustöðin: Sálfræði- og ráðgjafaþjónusta, e.d.) http://www.heilsustodin. is/index.php?option=com_content&view=art icle&id=230:meevirkni-er-ekki-tae-sama-og-hjalpsemi&catid=66:frettir&Itemid=150 Skoðað 22. mars 2016 . 3. Doktor.is ,,Meðvirkni – Erfitt getur reynst að koma sér út úr vítahring meðvirkni” http:// doktor.is/grein/medvirkni Skoðað 20. mars 2016 4. Doweiko, H. E. (2012) Concepts of chemical dependency (8. útgáfa). Bandaríkin: Brooks/ Cole. 5. Jóna Margrét Ólafsdóttir, Fíknisjúkdómar og samskipti – viðbrögð og vinnureglur (Lifandi ráðgjöf ehf. 2012) 47. 6. Jóna Margrét Ólafsdóttir ,,Meðvirkni og óæskilegur stuðningur” (Lifandi ráðgjöf, 2015) http://www.lifandiradgjof.com/#!Meðvirkni-og-óæskilegur-stuðningur/ p9yft/55ba1a1a0cf285bbf300a8ad Skoðað 22. mars 2016. 7. Lausnin ,,Meðvirknisnámskeið Lausnarinnar” http://www.lausnin.is/?p=8424 Skoðað 19. mars 2016. 8. Lifandi ráðgjöf ,,Námskeið” http://www.lausnin. is/?p=8424 Skoðað 19. mars 2016. 9. SÁÁ ,,Aðstandendur” www.saa.is/medferdir/ adstandendur/ Skoðað 18. mars 2016. 10. Vímulaus ,,Um okkur” http://vimulaus.is/?page_id=392 Skoðað 19. mars 2016. 11. Vísindavefurinn ,,Hver eru einkenni meðvirkni?” https://visindavefur.hi.is/svar. php?id=67282 Skoðað 20. mars 2016. 12. Þorsteinn Antonsson ,,Farvegir þeirra sem eru öðruvísi”, mbl.is (11. október 1997) http:// www.mbl.is/greinasafn/grein/358563/ Skoðað 22. mars 2016. 13. ÞT, ,,Hvað er meðvirkni?”, SÁÁ http://saa.is/ medferdir/adstandendur/hvad-er-medvirkni/5/ Skoðað 21. mars 2016.


Frá Afstöðu, félagi fanga:

EIGA DÓMAR AÐ HAFA TILGANG?

Í

síðasta Verndarblaði var fjallað um sjálfboðaverkefni Rauða krossins í Noregi „tengslanet eftir afplánun“ (nettverk etter soning) sem Afstaða hafði fylgst með um nokkurt skeið. Verkefni þetta hefur verið þróað í áratug og varð á sínum tíma hluti af norskri stefnu um farsæla endurkomu fanga út í samfélagið eftir afplánun, þar sem m.a. var lögð áhersla á samvinnu ríkis og sveitarfélaga ásamt frjálsum félagasamtökum. Knut Storberget, fyrrverandi dómsmálaráðherra Noregs hafði forgöngu um breytta stefnu þar í landi til að rjúfa þann samfélagslega vítahring sem ítrekaðar endurkomur einstaklinga í fangelsi eru. Knut Storberget kom hingað til lands í janúar 2016 og hélt vel sóttan fyrirlestur um norsku stefnumótunina „dómar með tilgang“ (straff som virker) en að honum loknum voru pallborðsumræður um erindið. Hægt er að horfa á erindi Knut Storberget í heild sinni á Youtube-rás Afstöðu, en ljóst er að breytt stefna - frá refsingu til betrunar - hefur skilað sér í lægri endurkomutíðni í Noregi. Með því að aðstoða einstaklinga við að feta sig í samfélaginu, ekki aðeins að lokinni afplánun dóms heldur fyrst og fremst eftir langa andsamfélagslega hegðun, þá skilar það sér í færri afbrotum og nýtum samfélagsþegnum sem annars væru áfram baggi á samfélaginu með tilheyrandi kostnaði. Í lok síðasta árs komu síðan til landsins fulltrúar Rauða krossins í Noregi sem sjá um sjálfboðaverkefnið og kynntu það í höfuðstöðvum Rauða krossins hér á landi. Ítarlega var fjallað um kynninguna í Speglinum á Rás 1 og 2, en einnig birti Stöð 2 viðtal við Kristínu S. Hjálmtýsdóttur, framkvæmdastjóra

VERNDARBLAÐIÐ 2017

Fanginn á ekki að vera einn úti í móa heldur með öðru fólki. Rauða krossins á Íslandi og Guro Sollien Eriksrud, fulltrúa Rauða krossins í Noregi sem hefur haft veg og vanda af svokölluðu „skuldaverkefni“ (gjeldsprosjektet). Reynslan í Noregi hefur nefnilega leitt í ljós að skuldahali þeirra sem Rauði krossinn ætlaði að styðja út í samfélagið hefur ítrekað komið í veg fyrir að þeir nái fótfestu og reynst fjötur um fót. Rauði krossinn á Íslandi skoðar nú alvarlega hvort grundvöllur sé fyrir sambærilegu verkefni hér á landi, með reynsluna í Noregi að leiðarljósi. Haldnir hafa verið fundir með ríki og sveitarfélögum að undanförnu, en einnig Afstöðu, þar sem skoðuð hefur verið þörfin fyrir slíkt verkefni og með hvaða hætti að því yrði staðið ef af verður. Að ósk Rauða krossins var lagður spurningalisti fyrir fanga þar sem kannaður var áhugi á stuðningi eftir afplánun og kom í ljós að verulegur áhugi var meðal fanga á þátttöku í verkefninu. Niðurstöður könnunarinnar styðja það sem talið var,

að hér á landi sé jafnmikil þörf á stuðningi til samfélagslegrar þátttöku og veittur hefur verið í Noregi undanfarinn áratug. Í Noregi er stuðningur eftir afplánun lykill að betrun; þar sem tilgangur fangelsiskerfis og dóma er að byggja upp einstaklinga til jákvæðrar þátttöku í samfélaginu, bæði meðan á afplánun stendur en ekki síður að henni lokinni. Auðvitað eru alltaf einhverjir sem munu ekki grípa þann björgunarkút í fyrstu, en oft er það svo að eftir því sem einstaklingar sökkva dýpra því betur sjá þeir tilganginn með að velja leið betrunar. Valið milli tveggja ólíkra leiða á nefnilega að vera skýrt strax í upphafi afplánunar dóms, þar sem hægt er að velja betrunarleið í stað refsivistar. Velji einstaklingar betrunarleiðina þurfa skilaboð samfélagsins jafnframt að vera skýr; við sem samfélag munum veita þér allan þann stuðning sem þarf til að þú getir verið hluti af okkar samfélagi. Það hlýtur enda að vera tilgangur dóma.

25


146. löggjafarþing 2016–2017:

ALÞINGI OG MÁLEFNI FANGA Menntun fanga Fyrir nýloknu alþingi lágu þrjú mál sem sem snertu málefni fanga. Fyrsta málið var þings­ályktunartillaga sem fjallar um endur­skoðun á „menntunar­ málum fanga“. Flutningsmenn eru Ari Trausti Guðmundsson og Bjarkey Olsen Gunnars­dóttir. Þessu máli var dreift til þing­heims í lok marsmánaðar og er það númer 359. Málið var ekki afgreitt fyrir þingfrestun. Svona hljóðar tillagan: „Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra í samstarfi við dómsmálaráðherra að fara yfir og endurgera samninga við Fjölbrautaskóla Suðurlands um yfirumsjón með framkvæmd og skipulagi menntunar fanga í öllum fangelsum landsins þar sem slík starfsemi getur farið fram með það að markmiði að bæta úr skorti og ágöllum sem kunna að vera á gildandi samningum – Mennta- og menningarmálaráðherra skipi starfshóp til sex mánaða sem geri úttekt á núverandi fyrirkomulagi og leggi fram tillögur til endurbóta og nýskipunar á skipulagi og framkvæmd menntunarmála fanga, m.a. með tilliti til námskrár, kennsluaðstöðu, kennsluhátta og kennsluefnis. Í starfshópnum eigi sæti fulltrúar ráðuneyta, Fjölbrautaskóla Suðurlands, Fangelsismálastofnunar og Afstöðu, félags fanga og annarra áhugamanna um bætt fangelsismál og betrun. Ráðherra skipi formann starfshópsins, láti hópnum í té nauðsynlega aðstöðu og greiði kostnað við starf hans.“ Flutningsmenn nefna einkum tvennt sem rökstuðning fyrir þessu. Í fyrsta lagi er búið að taka í notkun nútímalegt fangelsi á Hólmsheiði þar sem er betri

26

aðstaða til náms fanga en áður hefur staðið til boða. Þetta þarf vissulega að nýta. Þá er í öðru lagi bent á nýju lögin um fullnustu refsinga frá 2016 sem geyma margs konar nýmæli sem geta eflt og aukið námsmöguleika fanga. Þá vekja flutningsmenn athygli á því að nám í fangelsi getur skipt sköpum í lífi fanga þegar þeir losna.

Samfélagsþjónusta ungra brotamanna Þetta mál er flutt af Loga Einarssyni, Oddnýju G. Harðardóttur og Guðjóni S. Brjánssyni. Málið er nr. 422 og var dreift til þingheims í lok marsmánaðar. Málið var ekki afgreitt fyrir þingfrestun. Um er að ræða frumvarp til breytinga á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940. Kjarni málsins kemur fram í 1. gr.: „Þegar sakborningur er unglingur á aldrinum 15–21 árs er heimilt að setja sérstakt skilyrði um samfélagsþjónustu fyrir frestun fullnustu refsingar skv. 57. gr. Í dómi skal tiltaka tímafjölda og á hve löngum tíma samfélagsþjónustan skuli innt af hendi.– Forsenda þess að slík samfélagsþjónusta komi til álita er að dómþoli teljist hæfur til samfélagsþjónustu á grundvelli athugunar á persónulegum högum hans og að dómþoli afpláni ekki fangelsisrefsingu eða sæti gæsluvarðhaldi.“ Skilyrðin eru m.a. þau að dómþolinn fá ekki á sig kæru meðan á samfélagsþjónustunni stendur og að hann sé undir eftirliti Fangelsis­ málastofnunar ríkisins. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að það hafi áður verið flutt en nú séu viðbótarrök týnd til. Markmiðið með frumvarpinu er að veita ungum brotamönnum meira aðhald og koma

hugsanlega í veg fyrir að þeir feti brotabrautina áfram. Með þessu fá dómarar vald til að dæma til samfélagsþjónustu ungt fólk á aldrinum 15-21 árs og er það nýjung. Hingað til hafa menn geta sótt um samfélagsþjónustu skv. lögum um hana og hefur veiting þjónustunnar verið á hendi stjórnvaldsins, þ.e. Fangelsismálastofnunar ríkisins. Dómarar fá þarna líka nýtt verkefni ef að lögum verður – hingað til hafa þeir dæmt menn ýmist í óskilorðsbundið fangelsi eða skilorðsbundið. Nú og svo sýknað menn.

Bótaréttur fanga – breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar Flutningsmenn þessarar tillögu eru: Silja Dögg Gunnarsdóttir, Hanna Katrín Friðriksson, Jón Steindór Valdimarsson, Björn Leví Gunnarsson, Birgitta Jóns­dóttir. Málið er nr. 121 og hefur ein um­ræða farið fram um málið og því vísað til velferðarnefndar. Málið var ekki afgreitt fyrir þingfrestun. Um er að ræða breytingu á lögum um atvinnu­leysistryggingar og hún er þessi: „Nú hefur maður á ávinnslutímabili skv. 15. gr. setið í gæsluvarðhaldi, eða afplánað refsivist og stundað vinnu, nám eða starfsþjálfun til samræmis við lög um fullnustu refsinga, og skal hann þá teljast tryggður samkvæmt lögum þessum eins og hann hefði verið í launaðri vinnu á sama tímabili, enda uppfylli hann önnur skilyrði til þess að teljast tryggður samkvæmt lögum þessum, þrátt fyrir e-lið 1. mgr. Vottorð frá Fangelsismálastofnun þessu til staðfestingar skal fylgja umsókn um atvinnuleysisbætur.“ (Þetta er 1. gr. frumvarpsins og segir að framanritað


skuli kom á eftir 2. mgr. 13. gr. laganna). Verði þetta frumvarp samþykkt er um að ræða réttarbót til handa föngum. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að í lögum um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006 þá sé þeim ætlað að tryggja fólki tímabundna fjárhagsaðstoð meðan á atvinnuleit stendur. Eitt skilyrði þess að maður teljist vera tryggður er að hann hafi stundað launastörf eða verið sjálfstætt starfandi á tilteknu tímabili áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur. En þetta nær ekki til fanga því að í 53. gr. laga um atvinnuleysistryggingar stendur: „Hver sá sem hefur verið sviptur frelsi sínu með dómi telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á þeim tíma er hann tekur út refsingu sína í fangelsi. Hið sama á við um þann sem hefur verið sviptur frelsi sínu með úrskurði dómara eða tekur út refsingu sína í samfélagsþjónustu.“ Til að halda öllu til haga er minnst á að menn sem hefja afplánun eftir að hafa verið á vinnumarkaði geta geymt þegar áunna atvinnuleysistryggingu þar til þeir hafa lokið fangavistinni – en þetta á í raun aðeins við hluta af föngum. Það gefur auga leið að fangar sem eru utan þessa kerfis eiga erfiðara uppdráttar en aðrir þegar afplánun lýkur. Mat flutningsmanna þessarar tillögu í þessu sambandi er að núverandi kerfi auki „líkur á því að þeir brjóti á ný af sér og stríðir þannig gegn því markmiði refsivörslukerfisins að vinna gegn afbrotum og hjálpa einstaklingum sem hafa brotið af sér að snúa við blaðinu.“

Framsal íslenskra fanga Eygló Harðardóttir lagði fram skriflega fyrirspurn til dómsmálaráðherra sem hljóðar svo: „Er unnið að því að koma á framsali íslenskra fanga erlendis til afplánunar á Íslandi án þess að fyrir liggi sérstakur framsals- eða fangaflutningasamningur við viðkomandi land?“ Fyrirspurnin er mál nr. 73 og var svarað af Sigríði Á. Andersen, dómsmálaráðherra, í febrúar s.l. Ráðherra sagði Ísland vera aðila að alþjóðlegum samningi um samvinnu um fullnustu refsidóma. Hátt í sjötíu ríki eru aðilar að þessum samningi en þó ekki Brasilía. Ísland hefur byggt á þessum alþjóðlega samningi og íslenskum lögum þegar um fangaflutninga er að ræða.

VERNDARBLAÐIÐ 2017

Aldrei hefur verið gerður tvíhliða samningur um fullnustu refsidóma við erlent ríki. Hin Norðurlöndin hafa ekki heldur gert slíka samninga en Norðmenn hafa samið um flutning á föngum þegar svo hefur borið við. Ráðherra gat um að í 3. gr. hins alþjóðlega samnings um samvinnu um fullnustu refsidóma væri getið

um sérstakar ástæður sem gætu mælt með því að dæmdur maður íslenskur í fjarlægu landi fengi að afplána hér, t.d. sakir ungs aldurs. Bæði ríkin yrðu að samþykjkja það og sömuleiðis fanginn. HSH tók saman

BREYTINGAR Á LITLA-HRAUNI Á Litla-Hrauni er orðið rýmra en áður var því gæsluvarðhaldsdeildin er flutt í Hólmsheiðarfangelsið. Húsnæði þeirrar deildar á Litla-Hrauni verður breytt í fangadeild og er unnið hörðum höndum að því þessa dagana undir traustri forystu Hafsteins Jónssonar, fangavarðar og verkstjóra. Tveir fangar hafa unnið með honum í því verkefni. Um er að ræða sex klefa sem byrjað er að taka í gegn, mála og skipta um vask o.fl. Í klefunum verður 32“ sjónvarpstæki og í ágætri setustofu deildarinnar 48“ tæki. Að sjálfsögðu er eldhúsaðastaða á deildinni og ný eldhúsinnrétting hefur verið sett upp. Hús þetta gengur í daglegu tali á Litla-Hrauni undir heitinut hús 1. Þetta hús var tekið í notkun 1980 sem gæsluvarðshaldshús og einangrun og ku vera eitt rammbyggðasta fangelsi landsins. Þá verður í sumar farið í umtalsverðar endurbætur á fangahúsi númer 3 en það var tekið í notkun 1972 og er kominn tími til að hressa upp á það svo ekki sé meira sagt. Í vor var ákveðið að koma upp fjölnotavinnustað á Litla-Hrauni þar sem áður var járnsmiðja og hin fræga snittvél. Þar munu fangar vinna að ýmsum verkefnum og einnig er þar aðstaða til að halda námskeið. Á vordögum verður til dæmis haldið námskeið tengt listaþerapíu. Fótboltaæfingar á Litla-Hrauni eru að fara af stað. Velgjörðarmaður félagsins, Gunnar Svavarsson, hefur skipulagt þjálfunina. Félagið hefur fengið nýtt nafn, Hraunarar. Nokkur umræða hefur verið annað slagið um nafn félagsins. Fyrst þegar félagið fór af stað á sjötta áratug síðustu aldar hét það Þytur og hefði auðvitað verið best að halda því. Síðan hafa nokkur nöfn skotið upp kollinum, t.d. FC Betri. Þetta er niðurstaðan núna: Hraunarar. Mikilvægt er að halda sig við eitt nafn og hringla ekki með það, og að nafnið sé gegnsætt, jákvætt og lýsandi. Fótbolti er uppbyggileg íþrótt þar sem reynir á samvinnu og sanngirni auk þess sem einstaklingurinn fær jafnframt að njóta sín. Á Litla-Hrauni er góður gervigrasvöllur sem komið var upp fyrir nokkrum árum.

Unnið að endurbótum á húsi 1 á Litla-Hrauni.

27


VEGLEG SKILTI Á KVÍABRYGGJU Í BOÐI RÍKISINS Erlendir ferðamenn sem fara um Snæfellsnesið sýna fangelsinu að Kvíabryggju mikinn áhuga. Um tíma stafaði nokkrum vandræðum frá þeim þar sem þeir óku í hlað og gjóuðu í allar áttir. Hvorki fangar né fangaverðir voru að sjálfsögðu hrifnir af þessu enda stóð á skilti við hliðið að Kvíabryggju að óviðkomandi aðgangur væri óheimill. Nú er er nýbúið að setja upp fjögur myndarleg skilti á stólpum sem fræða ferðamenn um það á skilmerkilegan hátt að þeir eigi að halda sig frá staðnum. Auk þess er bent á að þarna séu á ferð meðal annars gangandi vegfarendur og fénaður – og þá vaki eftirlitsmyndavélar yfir öllu. Ábúðarfullt skjaldamerki lýðveldisins prýðir þetta ágæta og nauðsynlega tiltæki. Glöggir vegfarendur og lesendur sjá að á einu skiltanna er meinleg stafsetningarvilla í boði ríkisins. Hana þarf vitaskuld að lagfæra sem fyrst áður en hún eins og sér fer að draga að sér áhugasamt fólk um verndun íslenskrar tungu.

Sjón er sögu ríkari.

GEMSAHUNDAR Dönsk fangelsisyfirvöld hyggjast taka í þjónustu sína hunda sem geta þefað uppi farsíma eða gemsa. Í nokkrum tilvikum hafa gæsluvarðhaldsfangar sem liggja undir grun fyrir hryðjuverk verið gripnir með farsíma í klefum sínum. Slíkir sérþjálfaðir hundar hafa gefist vel í bandarískum fangelsum í nokkur ár. Allr vita að nefið hundsins er undrasmíð. Enda þótt mannskepnan finni lykt eins og af farsíma með því að reka hann upp að öllu sínu nefi, eins og skáldið Jón Helgason sagði i frægu kvæði um köttinn, þá finnur hún ekki þefinn af honum í margra metra fjarlægð. En það gerir hundur sem er sérþjálfaður til verksins. Yfirvöld telja að inn í dönsk fangelsi sé smyglað á hverju ári frá 1500 til 2000 farsímum. Þess vegna hafa þau nú þegar þjálfað tvo gamla fíkniefnahunda í „nýtt þefverkefni“ og samtímis tvo hvolpa. Það er rafhlaðan í símanum sem gefur frá sér lykt sem hundurinn skynjar og lætur húsbónda sinn vita um með því að reka upp bofs. Oftast hefur hvuttinn á réttu að standa. Hundarnir hafa verið þjálfaðir til að finna símana í járnskápum, á opnum útivistarsvæðum fangelsanna, undir rúmdýnum, jafnvel í vatni og í matvælum eins og smjöri. Þær hundategundir sem gefast best eru schaeffer og labrador. Aðrar tegundir hafa verið reyndar. Til dæmis Golden Retriver en hann hefur verið afskrifaður sem gemsahundur. Hann er of afslappaður og þegar hann skokkar inn í fangaklefann dettur honum kannski fyrst í hug að leggja sig í rúm fangans og teygja rækilega úr sér áður en honum þóknast að þefa einhvern fjárans síma uppi.

28

Gamlir og nýir gemsar. Hann vill hafa það huggulegt! Það vantar bardagaeðlið í hann, segja hundarþjálfarar. Þá kunna sumar hundategundir einfaldlega ekki við sig í fangelsi og reynast því ónothæfar til verksins. Þeim geðjast ekki að stífbónuðum gólfum, ýmis konar fangelsisskark fer í taugarnar á þeim og truflar þá. Auk þess svífur of mikil matarlykt yfir fangadeildunum og hún truflar nefið þeirra fína. VERNDARBLAÐIÐ LAS Í: http://www.dr.dk/nyheder/ indland/saadan-kan-mobilhundene-arbejde-i-de-danske-faengsler


Siðferðilegt álitamál:

LÍKNARDAUÐI FANGA Fyrir rúmu ári var samþykkt í Belgíu að fanginn Frank Van Den Bleeken skyldi fá hjálp við að deyja. Hann er 51 árs að aldri og dæmdur fyrir raðnauðganir og morð. Sjálfur hefur hann óskað eftir því að fá að deyja vegna „skelfilegrar andlegrar vanlíðunar.“

En margt fer öðruvísi en ætlað er. Líknardauði er leyfður í Belgíu lögum samkvæmt og hefur hin síðari ári ekki verið mjög svo umdeildur kostur þar í landi. Þetta sérstaka mál vakti hins vegar upp umræður og aðstæður sjúkra brotamanna . Það er ekki nægilegt rými á réttargeðdeildum og því hefur þessi ógæfumaður verið í almennu fangelsi. Belgísk yfirvöld hafa verið átalin fyrir framgöngu sína í þessum málum og meðal annars af Evrópudómstólnum. Bleeken þessi hefur verið í fangelsi í þrjátíu ár þrátt fyrir að eiga heima á réttargeðdeild. Um þriðjungur allra ósakhæfra manna í Belgíu eru í sömu stöðu og Bleeken eða um þúsund manns. Þar sem vist á réttargeðdeild er ótímabundin uns dómstóll kveður upp úr með lausn þá hafa margir þessara einstaklinga í raun og veru horfst í augu við ævilanga fangelsisvist. Sá sem óskar eftir löglegri aðstoð yfirvalda við að kveðja lífið verður að uppfylla þrenn skilyrði: einstaklingurinn verður að líða óbærilegar líkamlegar andlegar þjáningar; þjáningin er fylgifiskur ólæknanlegs sjúkdóms; og þjáninguna er ekki hægt að lina. Þegar sjúklingur biður um aðstoð við að deyja kemur það í hlut læknis sem meðhöndlað hefur sjúklinginn að skera úr um hvort skilyrðin þrjú séu uppfyllt. Annar læknir er svo fenginn til að skoða niðurstöðu starfsfélaga síns. Fjórum dögum eftir að sjúklingur hefur verið aðstoðaður við að deyja skal sá læknir er sá um dauðaaðstoðina senda skýrslu til sérstakrar opinberrar nefndar sem kannar alla málavexti. Læknir Bleeken kvað upp úr um með það að hann skyldi fá aðstoð við að kveðja lífið enda uppfyllti hann öll skilyrði þess. En nokkru áður en Bleeken átti að fá umrædda aðstoð snerist lækninum hugur. Bleeken skyldi lifa.

Ekki er ljóst hvað olli því að læknirinn skipti um skoðun. Hins vegar hafði Bleeken verið komið fyrir á réttargeðdeild að frumkvæði belgíska dómsmálaráðherrans. Ráðherrann hefur og látið þau boð út ganga að Bleeken skuli fluttur á heppilegum tíma til Hollands í sérstaka meðferð fyrir kynferðisbrotamenn. Ef læknar gefa leyfi fyrir líknardauða á röngum forsendum er málið til sent til ákæruvaldsins. Slíkt hefur aldrei gerst í þessum tilvikum. En bæði læknar, lögmenn og embættismenn höfðu ýmislegt að athuga við framgöngu þess læknis sem leyft hafði Bleeken að fara í líknardauðameðferð en síðan afturkallað það. Aldrei hefði átt að gefa út leyfið. Sumir þeirra töldu hann ekki uppfylla skilyrðin sem getið er hér um að framan. Þjáningar hans séu ekki afleiðingar líkamlegs sjúkdóms heldur aðstæðna hans. Auk þess væri hægt að draga úr þjáningum hans með pólitískum vilja. Eftir að mál Bleekens varð opin­ bert hafa fimmtán fangar óskað eftir aðstoð við að deyja. Nú óttast yfirvöld að málum af þessu tagi kunni að fjölga. Formaður samtaka sem standa vörð um líknardauða í Belgíu hefur sagt að lög um líknardauða hafi ekki verið hugsuð sem lausn á félagslegum vandamálum. „Hugsið ykkur ef nú útigangsmaður færi fram á leyfi til að deyja líknardauða vegna þess að hann sé útigangsmaður!“ segir formaður samtakanna og bætir því að ekki sé hægt að fallast á slíkt. Þetta sérstaka tilvik hefur beint sjónum fjölmiðla á fangelsi og réttargeðdeildir í Belgíu og þar megi margt færa til betri vegar. Hins vegar hefur jákvætt viðhorf Belga til líknardauða ekki breyst að neinu marki. Belgía setti lög um þessi efni árið 2002 og var annað ríkja heims í röðinni á eftir Hollandi. Fjöldi sem hefur fengið leyfi til að deyja á hverju ári með þessum hætti er frá 235 einstaklingum og upp í tæplega 2000. Dauðdagi af þessu tagi er um 2% af heildarfjölda látinna í Belgíu. (VERNDARBLAÐIÐ LAS Í: kriminalvarden.se)

Líknardauði var ekki hugsaður sem lausn á félagslegum vanda

VERNDARBLAÐIÐ 2017

29


VERND ÞAKKAR STUÐNINGINN AB Sveipur Aðalblikk ehf Aðalvík Alhliða pípulagnir Apollon ehf Argos ehf Arkitekar Árbæjarapótek Árvík hf Ás fasteignasala Ásbjörn Ólafsson Barki ehf Betra Líf Bifreiðastöð Þórs Bifreiðaverkstæði Bjarnhéðins Bifreiðaverkstæðið Bitakot Bílalökkun.is Bílasmiðurinn Bjarni Einarsson Blaðamannafélag Íslands Blikksmiðja Harðar Blikksmiðjan Vík Bolungarvíkurkaupstaður Borgarbyggð Bortækni ehf Bókhaldsþjónusta Bókráð Brammer Ísland Brauðhúsið ehf BSA Varahlutir Byggðaþjónustan DMM Lausnir Duggar slf Dýralæknirinn Efnamóttakan Eignamiðlun ehf Eldhestar ehf Endurskoðun Vestfjarðar ENN EMM Ernst og Young Fangelsisminjasafn Íslands Fínpússning Fjarðarþrif Flutningastöðin Borgarnesi Frár ehf Garðsapótek

30

Garður fasteignasala Gistiheimilið Gistihús Hestaferðir Gjögur Glæði blómaáburður GO Fishing Iceland GP Arkitektar Guðnabakarí Gullsmiðurinn í Mjódd Gæðasmíði ehf Hagblikk Hagkaup Hamborgarabúlla Tómasar Hamraborg hf Handpjónasambandið Haraldur Jónsson Haugen Cryppen Hárstofa Viktors Háskólabíó Henson sport Herrafataverslun Birgis Héðinn Schindler Héraðsbókasafn Hitaveita Egilsstaða Hótel Frón ehf Húnaþing vestra Höfðakaffi Höfðaskóli Hörður V. Sigmarsson Hörðuvallaskóli Ican ehf Iceland Seafood Ísfugl Ísgát Íslandsspil Íslandssstofa Íslenska útflutningsmiðstöðin Íspan Jakob og Valgeir Jeppasmiðjan KOM Almannatengsl Kor ehf Lagnalagerinn Löngumýrarskóli Lilja Baoutigue M2 Fasteignasala Margmiðlun Jóhannesar

Marsibil Erlendsdóttir Nesey hf Nethamrar Nýi ökuskólinn O. Johnson & Kaaber Orkuvirkni ehf Ólafur Þorsteinsson Passamyndir 79 Pétursey Plastiðjan Bjarg Rafgeymslan hf Rafsvið Raftákn hf Raftækjaþjónustan Raförninn RB Rúm Reiknistofa Fiskmarkaða Reykjakot leikskóli Salt Cafe Bistro Samhentir Samtök sveitarfélaga Set ehf Síldarvinnslan Sjólvélar Sjúkraþjálfun Georgs Skagaströnd Smárinn söluturn Smith og Norland Sólheimar Sólrún ehf Suzuki bílar Tannlæknastofa Helga Tónaspil Umslag ehf Utanríkisráðuneytið Útfararstofa kirkjugarðanna Útgerð Arnars Vagnar og þjónusta VDO ehf Veiðafæragerð Krosshús Verkalýðs og sjómannafélagið Verslunarmannafélag Suðurnesja Vélsmiðja Guðmundar ehf Vélvík ehf Við og Við


VERND ÞAKKAR STUÐNINGINN

JÓI FEL

VERNDARBLAÐIÐ 2017

31


Sumargjöf Gefðu barni gleðilegt sumar! Sumargjöf Gefðu barni gleðilegt sumar!

Hjóla, sippa, synda, tvista… Hjálparstarf kirkjunnar styður börn á Íslandi sem búa við kröpp kjör svo þau geti tekið þátt í tómstundum með vinum sínum. Hjóla, sippa, synda, tvista… Með því að kaupa gjafabréfið Sumargjöf á gjofsemgefur.is Hjálparstarf kirkjunnar styður börn á Íslandi sem búa við kröpp tekur þú þátt í því að gefa barni gleðilegt sumar. kjör svo þau geti tekið þátt í tómstundum með vinum sínum. Með því að kaupa gjafabréfið Sumargjöf á gjofsemgefur.is tekur þú þátt í því að gefa barni gleðilegt sumar. Gefðu gjöf sem gefur! Gefðu gjöf sem gefur!

www.gjofsemgefur.is www.gjofsemgefur.is www.gjofsemgefur.is www.gjofsemgefur.is


Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.