4 minute read

Pistill formanns Fíh

Bráðavandi

Nú er starfsemi félagsins komin í eðlilegt horf eftir að stjórnvöld afléttu samkomutakmörkunum í vor. Hjúkrunarfræðingar eru farnir að koma í húsnæði félagsins á ýmis námskeið, fagdeildir hittast og mjög gott að sjá og hitta hjúkrunarfræðinga í húsakynnum félagsins á ný. Það var t.d. frábært að sjá á fjórða hundrað hjúkrunarfræðinga samankomna á Hjúkrun 2022 á Hilton í mars til að njóta samvista og fá nýjar uppfærslur í faginu. Mörg mjög fróðleg erindi voru á dagskrá og frábærir fyrirlesarar upp til hópa sem náðu að kveikja áhuga og forvitni hjúkrunarfræðinga á ýmsum hjúkrunartengdum málefnum og jafnvel vekja upp spurningar sem nauðsynlegt er að svara með frekari rannsóknum og umfjöllun.

Advertisement

Stór hópur hjúkrunarfræðinga tók svo þátt í aðalfundi Fíh á alþjóðlegum degi hjúkrunarfræðinga, 12. maí og var í fyrsta sinn notast við rafrænar kosningar sem gerði hjúkrunarfræðingum um allt land og jafnvel víðar kleift að taka þátt í hefðbundnum aðalfundarstörfum. Þessi nýbreytni er alveg komin til að vera.

Í maí fór ég ásamt starfsfólki kjara- og réttindasviðs í hringferð um landið til að heyra hljóðið í hjúkrunarfræðingum og yfirstjórnendum heilbrigðisstofnana. Á rúmum mánuði heyrði ég í á þriðja hundrað hjúkrunarfræðinga tala opinskátt um störf sín og stöðuna fram undan. Rauði þráðurinn er mönnunarvandi. Það vantar nánast alls staðar hjúkrunarfræðinga til starfa og eins og við öll vitum þá er enginn heilbrigðisþjónusta án okkar. Þrátt fyrir að það birtist okkur nánast daglega í fréttum að það vanti fólk til starfa á bráðamóttöku Landspítala, þá er það einungis toppurinn á ísjakanum. Það er landlægt vandamál að enginn hjúkrunarfræðingur sækir um lausa stöðu. Það mun enginn bráðavandi leysast fyrr en stjórnvöld stíga það skref að gera störf hjúkrunarfræðinga að jafnaðlaðandi starfi og önnur sambærilega ábyrgðarmikil störf í þjóðfélaginu. Og það gerist ekki nema kjör og starfsumhverfið batni til muna.

Stjórnvöld hafa siglt sofandi að feigðarósi árum saman þegar kemur að heilbrigðiskerfinu. Það blasti við að mönnun heilbrigðiskerfisins væri ekki sjálfbær og benti Fíh t.d. á það í vinnumarkaðsskýrslu sinni frá 2017. Mörgum sinnum hefur verið hægt að grípa inn í síðan þá en alltaf var eitthvað annað sett í forgang. Ekki hefur verið skortur á tillögunum, starfshópunum eða fréttum af versnandi ástandi. Nú bind ég vonir við að yfirlýsingar stjórnvalda séu ekki lengur orðin tóm og ráðamenn séu komnir með kjark til þess að leysa vandann til frambúðar. Áfram heldur samtalið við yfirstjórnendur heilbrigðisstofnana, þ.m.t. Landspítala, sem og heilbrigðisráðherra, en að mínu mati er nauðsynlegt að hann taki við rapporti um stöðu mála hjúkrunarfræðinga um land allt, sem annars eru hjartað í heilbrigðiskerfinu.

Við hjúkrunarfræðingar höfum beðið lengi eftir breytingum, að einn daginn verði hlutirnir lagfærðir. Í öllu álaginu í kringum COVID-19 faraldurinn kviknaði von um að hjúkrunarfræðingum yrði umbunað til frambúðar þegar þjóðin hafði öll séð á sama tíma hversu miklu máli við skiptum og hve öflugir hjúkrunarfræðingar eru. Ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýn. Heilbrigðisráðherra skilur mönnunarvandann og er að láta skoða refsiábyrgð heilbrigðisstarfsfólks. Í ráðuneytinu hans eru til nýlegar tillögur til fjölgunar útskrifaðra hjúkrunarfræðinga. Hann hefur sagt að hann treysti á kjarasamninga og ætli að leggja kraft í byggingu hjúkrunarheimila. Í forsætisráðuneytinu eru nýjar tillögur að leiðum til að endurmeta virði kvennastarfa, því þó svo að hjúkrunarfræði sé ekki kvennastarf þá lifum við enn í þeim veruleika að í dag eru 97% hjúkrunarfræðinga konur. Fjármála- og efnahagsráðherra brást nýverið við fréttum við vanda bráðamóttökunnar með því að segja að aukin fjárframlög til einstakra stofnana lagi ekki vandann, vandinn sé flóknari en það og snúi að mönnun.

Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar segir berum orðum að ráðist verði í aðgerðir gegn kynbundnum launamun og jafnréttismál verði ávallt í forgrunni við ákvarðanatöku. Þrátt fyrir að byrjað sé að heyrast kunnuglegt stef um að almennar launahækkanir séu ekki heppilegar á þessum tímapunkti, þá hljóta öll þessi atriði að auðvelda okkur komandi samningaviðræður. Við höfum ekki fengið að semja um laun okkar í meira en áratug og við ætlum ekki í þriðja gerðardóminn á næsta ári. Ef stjórnvöld leyfa því að gerast þá ganga þau að baki öllum sínum orðum. Félagið mun halda kjararáðstefnu í október þar sem trúnaðarmenn mæta til að vinna frekar að kröfugerð okkar fyrir komandi samningalotu.

Því miður mun heilbrigðiskrefið breytast lítið í sumar. Margir hjúkrunarfræðingar hafa viðrað áhyggjur af vinnustaðnum sínum, á meðan samstarfsfólk þeirra fer í sumarfrí og líka af samstarfsfólki sínu á meðan það sjálft fer í frí. Vinnan er síðasti staðurinn sem hugurinn á að leita til í fríi. Ef það eru áhyggjur eiga þær helst að beinast að veðrinu. Það er alveg nóg að kerfið sé í bráðavanda og hjúkrunarfræðingar leysa það ekki einir og sér.

Nú er tími til að sýna okkur sjálfum kærleika og umhyggjusemi. Sama umburðarlyndi og við sýnum okkar skjólstæðingum. Við erum fagstétt sem sinnum starfinu af mikilli fagþekkingu og ábyrgð. Við erum samt mannfólk og nú er þarft að líta inn á við og sjá hvar þolmörkin liggja. Það er engum greiði gerður, nema til afskaplega skamms tíma, að keyra sig út. Við eigum rétt á jafnvægi milli vinnu og einkalífs, við þurfum að sjá um það sjálf því enginn gerir það fyrir okkur, allra síst vinnan. Notum sumarið

milli vakta og sumarfríið til að hlaða batteríin. Farðu eftir eigin ráðum sem þú myndir ráðleggja skjólstæðingi í sömu stöðu.