1 minute read

Grafarholtsblaðið Grafarholtsblaðið

Útgefandi: Skrautás ehf. Netfang: gv@skrautas.is

Ritstjóri og ábm.: Stefán Kristjánsson.

Advertisement

Ritstjórn: Símar 698–2844 og 699-1322.

Netfang Grafarholtsblaðsins: gv@skrautas.is / abl@skrautas.is

Útlit og hönnun: Skrautás ehf.

Auglýsingar: 698-2844 og 699-1322 - Stefán Kristjánssongv@skrautas.is

Prentun: Landsprent ehf.

Ljósmyndari: Katrín J. Björgvinsdóttir.

Dreifing: Póstdreifing.

Grafarholtsblaðinu er dreift ókeypis í öll íbúðarhús í Grafarholti, Úlfarsárdal og Reynisvatnsás.

Karlremban lifir

Knattspyrna er vinsæl íþróttagrein á Íslandi sem og annars staðar í heiminum. Ástæða er til að hafa miklar áhyggjur af þróun mála innan knattspyrnuhreyfingarinnar ef marka má atburði undanfarin misseri. Jafnrétti kynjanna er eitthvað hugtak sem fólkið sem ræður ferðinni hjá Knattspyrnusambandi Íslands skilur ekki eða vill ekki skilja.

Konur sitja alls ekki við sama borð og karlar og háðuleg auglýsing nýverið um Bestu deild karla og kvenna er staðfesting á því. Þar fór langmestur tíminn í að auglýsa deild karlanna og lítið sem ekkert gert úr Bestu deild kvenna. Ekki tók betra við þegar gera átti aðra auglýsingu um kvennaknattspyrnuna. Þá voru konurnar boðaðar í tökur sama daginn og vertíðin hófst hjá konunum og að sjálfsögðu mættu þær ekki í auglýsingagerðina.

Það gildir einu hvort um er að ræða KSÍ eða fyrirbæri sem kallast íslenskur toppfótbolti, en það eru hagsmunasamtök liðanna sem leika í tveimur efstu deildum karla og kvenna. Í stjórn ÍTF sitja sjö aðilar, sex karlar og ein kona!! Ekki skrítið að hagsmunamál kvenna nái ekki fram að ganga á þeim vettvangi.

Íslenskar knattspyrnukonur, fyrirliðar liðanna allra í Bestu deild kvenna, sendu frá sér yfirlýsingu vegna umræddrar auglýsingar og fjarveru þeirra við tökurnar. Í stað þess að ÍTF bæðist afsökunar á framferði sínu gagnvart íslenskum knattspyrnukonum kom fyrrverandi framkvæmdastjóri KSÍ og samkvæmt fréttum í einhverjum störfum hjá ÍTF, fram í fjölmiðlum og veittist með þvílíku karlrembuofforsi að konunum að maður hefur sjaldan lesið aðra eins þvælu.

Knattspyrnan á Íslandi er í miklum vanda sem virðist ekki vera hægt að leysa á meðan karlar, uppfullir af karlrembu og vanvirðingu gagnvart konum, eru við stjórnvölinn í miklum meirihluta. Og sú staðreynd að kona tók nýlega við formennsku í KSÍ og framkvæmdastjórinn þar er kona, virðist ekki skipta nokkru einasta máli.

Það væri hægt hér að nefna mun fleiri dæmi um dapurt ástand innan knattspyrnuhreyfingarinnar. HK-málið sem er þyngra en tárum tekur, viðurkenningar fyrir 100 landsleiki og margt fleira.

Það er illa farið með íslenskar knattspyrnukonur og þær þurfa víðtækan stuðning í sinni réttlátu baráttu.

Stefán Kristjánsson

gv@skrautas.is