Námsvísir haustannar 2013

Page 3

FRÆÐSLUNETIÐ -

SÍMENNTUN Á SUÐURLANDI

Tuttugasta og níunda námsönn Fræðslunetsins er nú að hefjast. Eins og jafnan áður er reynt að hafa námsframboðið sem fjölbreytilegast, blöndu af einingabærum námsbrautum og almennum námskeiðum af ýmsu tagi. Það er von okkar að sem flestir finni nám við sitt hæfi. Ég hvet fólk til að kynna sér námsvísinn vel og draga ekki að skrá sig til náms.

Raunfærnimat Fyrir nokkrum árum byrjaði Fræðslunetið að meta raunfærni fullorðins fólks. Með því er metin hæfni eða færni fólks burtséð frá því hvar hennar er aflað. Margir hafa nú lokið raunfærnimati hjá Fræðslunetinu og hjá flestum hefur það orðið hvatning til að ljúka formlegu námi. Í haust bjóðum við uppá raunfærnimat í málmsuðu og slátrun. Allt síðan árið 2006 hefur Fræðslunetið boðið upp á náms- og starfsráðgjöf. Komið hefur í ljós að þörfin fyrir þessa þjónustu er mikil enda hefur fjöldi fólks nýtt sér hana hvort heldur er til að takast á hendur nám, ný störf eða til að styrkja sig í einkalífinu. Viðtöl við náms- og starfsráðgjafana eru ókeypis.

Nýir starfsmenn og starfsstöð Tveir nýir starfsmenn hófu störf hjá Fræðslunetinu í haust. Málfríður Erna Samúelsdóttir hefur verið ráðin sem verkefnastjóri við símenntun fatlaðs fólks á Suðurlandi. Árni Rúnar Þorvaldsson er ráðinn af Fræðslunetinu og Háskólafélagi Suðurlands í sameiningu, með stuðningi sóknaráætlunar Suðurlands, til að sinna uppbyggingu

símenntunar í Vestur- Skaftafellssýslu og nærsveitum. Árni hefur starfsstöð í Vík. Þá hefur Sigríður Erna Kristinsdóttir nýlega hafið störf hjá Fræðslunetinu, og Kristina Tyscenko sem einnig er starfsmaður Háskólafélagsins. Þau eru öll boðin velkomin í hópinn. Fjórir mikilvægir áfangar náðust á árinu. Þar skal fyrst telja flutninga Fræðslunetsins í Fjölheima á Selfossi. Þar er Fræðslunetið í sambýli við ýmsar stofnanir sem eiga góða samleið. Við þessa flutninga er starfsemin á Selfossi komin undir eitt þak í stað þess að vera á þremur stöðum í bænum. Breytingar á húsinu hafa tekist vel og reynsla okkar af því er góð.

Viðurkenning og vottun starfseminnar Á vordögum fékk Fræðslunetið svokallaða EQM vottun sem er vottun á gæðum starfseminnar (European Quality Mark). Gæðavottunin er staðfesting á því að námskeið Fræðslunetsins rísi undir evrópskum kröfum um gæði. Í samræmi við nýleg lög um framhaldsfræðslu skulu símenntunarstöðvar hafa viðurkenningu Mennta- og menningarmálaráðuneytisins til þess að annast framhaldsfræðslu. Í sumar fékk Fræðslunetið þessa viðurkenningu frá ráðuneytinu. Hún er staðfesting á því að Fræðslunetið uppfylli skilyrði fullorðinsfræðslulaganna og reglna sem eiga sér stoð í lögunum. Endurskoðun á skipulagsskrá Fræðslunetsins hefur staðið yfir undanfarin misseri með það að markmiði að laga hana betur að þeirri þróun sem hefur orðið á starfseminni í tímans rás. Ný skipulagsskrá var samþykkt af þar til bærum yfirvöldum í sumar og um leið er staðfest nýtt heiti Fræðslunetsins, sem nú er Fræðslunetið – símenntun á Suðurlandi. Að lokum vil ég ítreka hvatningu mína til Sunnlendinga um að nýta sér þjónustu Fræðslunetsins. Ásm. Sverrir Pálsson, framkvæmdastjóri

Aðalstarfsstöð Fræðslunetsins - símenntunar á Suðurlandi er í Fjölheimum við Bankaveg á Selfossi. Þar eru alls 11 kennslustofur, smiðja og kennslueldhús og 16 skrifstofur. Í húsinu er gott aðgengi fyrir alla og þar er sérstaklega gert ráð fyrir aðgengi fatlaðs fólks.

Innritun í síma 560 2030 eða á www.fraedslunet.is

3


Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.