Page 16

16

GV

Fréttir

Fjölmenni mætti á aðventukvöld í Grafarvogskirkju 1. desember sl.

GV-myndir PS

Ræða Guðlaugs Þórs Þórðarsonar heilbrigðisráðherra á aðventukvöldi:

Það er við stóran að deila Ágætu vinir! Það er með gleði í hjarta að ég ávarpa ykkur á þessum stað á þessum tíma. Kunningi minn sagði mér eitt sinn sögu af vini sínum, sem ég ætla að segja ykkur. Vinurinn hafði setið hjá ömmu sinni á dánarbeði gömlu konunnar. Þau sátu þarna þögul, og eins og oft er þá vissi dóttursonurinn ekki alveg hvernig hann átti að haga sér á erfiðri stund. Hann reyndi að tala við ömmu sína, reyndi að vera hress, enda var hann yngri en svo að hann þekkti lífið eða dauðann Og hann sagði við ömmu sína: - Jæja amma mín. Ætlarðu ekki bara að láta þér batna til að komast heim fyrir jólin? Amma hans leit til hans, lagð hönd sína á hans, og sagði varfærnislega: Elsku vinur minn. - Það er við stóran að deila. Þessi ungi vinur kunningja míns sagði síðar að þetta hefði verið besta kveðjan, bestu boðin sem amma hans hefði skilið eftir sig. Það tók hann að vísu tíma að átta sig á hvað hún var að segja þessi ágæta amma hans, en hann áttaði sig á því að hún var að miðla til hans sambandi sínu við Guð sinn. Þann sem var henni stoð og stytta á hundrað ára vegferð. Sá Guð, sem fólk sitt fræddi á fyrstu bernskutíð, oss birtir enn sín boðorð, að betur menntum lýð. Hin gömlu ljósin lýstu frá læstri Paradís; nú sjáum vér í sannleik hvar sólin blessuð rís. Kunningi vinar míns sá hvar sólin reis þessa stuttu stund þegar hann sat við dánarbeð ömmu sinnar, alveg eins og séra Matthías Jockumsson er að minna okkur á í kvæði sínu Nýja trúin. Ég nefni þetta hér og nú vegna þess að þegar ég fór yfir blöð síðustu daga í morgun þá staldraði ég hugsi við umræðurnar sem sprottið hafa um kristindóminn undanfarna daga. Og ég fór að hugsa hvað það væri, sem einkenndi mannlíf okkar hér upp á Íslandi. Og mér fannst að það væri kannski tvennt eða þrennt sem lýsti best því samfélagi sem við höfum sameinast um að byggja upp; lýðræði og jafnrétti, umburðarlyndi, og síðast en ekki síst kristin trú, og kristilegt siðgæði. Við lifum á tímum örra breytinga og mikils hraða. Og þið vitið kannski manna best sem hér eruð, að einmitt á þannig tímum ríður á að missa ekki sjónar á grunngildunum, sem samfélag

okkar byggist á; lýðræði og jafnrétti, umburðarlyndinu, og síðast en ekki síst kristin trú, og kristlegu siðgæði, eins og ég nefndi áðan. Það ríður á að missa ekki sjónar á því sem hverjum manni er helgast en það er trúin á Jesú Krist. Miskunnsemin sem hann reyndi að kenna okkur, umburðarlyndið, kærleikurinn og umhyggjan fyrir náunganum. Allt eru þetta gildi sem samfélag okkar Íslendinga byggir á. Grunnurinn sem við stöndum á og höfum tekið í arf frá áum okkar. Er ekki saga okkar vörðuð dæmum um þetta? Eru það ekki einmitt þessi trúarlegu gildi kristindómsins sem vakna til lífsins í óskum okkar um fullkomið heilbrigðiskerfi fyrir alla. Það er mín skoðun - og ég kýs að nálgast verkefni mín á þessum forsendum. Skáldið frá Sigurhæðum hélt áfram í kvæði sínum og sagði: Ef gleymum fyrri fræðum, er fræði lærum ný, þá gef oss, Guð á hæðum, vér göngum ljósi í. Þótt fornar kreddur kafni, er kendir aldrei þú, sá eldur ávalt dafni, sem elur sanna trú. Hin sanna trú, hin kristilega sannfæring og siðferð, verður kannski skýrust í hvunndeginum þegar sjúkdómar og veikindi knýja dyra. Þegar við sem samfélag réttum út höndina til hjálpar þeim, sem eru hjálpar þurfi, af því okkur er eiginlegt að vilja veita öllum Íslendingum, eins góða og fullkomna heilbrigðisþjónustu og völ er á. Sú viðleitni að byggja upp trausta heilbrigðisþjónustu losar okkur þó aldrei undan þeirri skyldu sem við höfum gagnvart náunganum. Þeirri skyldu að vera til staðar þegar eitthvað bjátar á, - styðja og styrkja hvert annað. Það er skylda okkar að reyna ávallt að hugsa út fyrir okkur sjálf og í samkennd skilgreina okkur víðar en sem einstaklinga. Það er í slíkri hugsun sem umburðalynd og sterk samfélög eru byggð. Það er sú hugsun sem er grundvöllur kristinnar trúar, - trúarinnar sem við ólumst upp við, - lærðum af ömmum og öfum, foreldrum og kennurum. Við megum ekki gleyma þessum ,,fyrri fræðum’’, eins og séra Matthías kallar boðskapinn, við megum ekki láta glepjast, eða gleyma okkur. Við vitum að þegar á reynir, þegar við höldum að við séum ein og yfirgefin í þessum heimi þá er alltaf einn sem við getum

Guðlaugur Þór Þórðarson flytur ræðu sína. talað við, en það er ,,Sá Guð sem fólkið fræddi.’’ Ég hóf mál mitt á því að vitna til kunningja vinar míns og síðustu samskipta hans við ömmu sína, sem urðu honum síðar mjög til góðs í daglegu lífi. En mér dettur einmitt oft í hug fjársjóðurinn, sem hægt er að töfra fram í samskiptum aldraðra og þeirra sem yngri eru. Sagan, reynslan, og þekkingin á því sem samfélag okkar byggir á, öllu þessu miðla afar og ömmur til barnabarna sinna ef þau eiga þess kost. Þess vegna á ekki að flokka fólk svona niður eins og okkur hættir svo til. Við erum ein heild, við erum öll á sama báti. Hér eru eldri borgarar, hér eru ungmenni, og hér eru hópurinn sem telur sig vera á besta aldri. Við eigum að temja okkur að virða hvert annað og hætta að ganga út frá að einhver tiltekin aldur sé svona, eða hinsegin. Við lifum á hverjum tíma við mismunandi aðstæður, við erum ekki eins, að öðru leyti en því að við erum öll manneskjur með langanir og þrár sem við viljum að séu virtar. En er það ekki einmitt þetta sem kristindómurinn kennir okkur líka?

GV-mynd PS

Kærleikurinn og virðingin fyrir öðrum? Var ekki Jesú Kristur að kenna okkur umburðarlyndi gagnvart minnihlutahópum, þeim sem ef til vill hugsa öðru vísi en fjöldinn? Jú, vissulega. Hann kenndi okkur umburðarlyndið. Ég hef gert hér að umtalsefni þátt trúarinnar í heilbrigðiskerfinu. Mér finnst það hafa gleymst í þeirri umræðu sem átt hefur sér stað á undanförnum dögum, hve kristið siðferði er samofið þjóðfélagi okkar. Þar er að finna þau grundvallargildi sem þjóðfélag okkar er reist á. Það er ekki sjálfgefið að njóta lýðræðis, að þjóðfélög byggi á umburðarlyndi gagnvart ólíkum trúarhópum skoðunum og viðhorfum. Fólk þurfti að berjast fyrir þessum réttindum. Reyndar er það svo að mikill minnihluti jarðarbúa býr við þessi réttindi. Ástæðan fyrir því að hér er öllum heimilt að iðka sína trú er vegna kristins umburðarlyndis, sem Jesús kenndi okkur. Við megum þess vegna ekki varpa þessum gildum hugsunarlaust fyrir róða. Það gæti haft ófyrirséðar afleiðingar að aftengja kristna trú við helstu stofnanir þjóðfélagsins. Á sama hátt gæti það verið alvarlegt að hætta að kenna trú eða banna börnum

að hitta presta. Það hljómar kannski ekki svo alvarlega að banna athafnir eins og litlu jólin á leikskólum eða heimsóknir leik - og grunnskólabarna í kirkju. Með því getum við hins vegar verið að vega að þeim undirstöðum sem þjóðfélag okkar byggir á, - með því getum við verið að veikja okkar samfélag til lengri tíma. Trú á guð er öllum einstaklingum mikilvæg. Og þótt það kunni að hljóma ankannalega að vísa í rannsóknir í þessu tilliti, þá hafa fjölmargar rannsóknir, bæði íslenskar og erlendar leitt í ljós að, fólk sem telur að það geti sótt styrk til guðs, er sterkara í viðfangsefnum daglegs lífs, - og líklegra til að líða betur. Það er ekki mitt að ákveða hvaða guð fólk tilbiður eða hvort það tilbiður guð yfirhöfuð og brýnt að í skólum sé börnum kennt að bera virðingu fyrir öðrum trúarbrögðum og siðum en þeim sem þau eru alin upp við. Ég hef hins vegar sterka sannfæringu fyrir því að eitt af því sem gerir samfélag okkar gott er öflugt starf presta og kirkna. Starfið hér í Grafarvogskirkju er gott dæmi um það. Sem uppalandi hér í Grafarvogi finn ég það á börnunum mínum hverju það starf skilar. Trúna, hina kristnu siðfræði er ekki hægt að skilja frá umburðarlyndinu. Þetta eru óaðskiljanleg hugtök, óaðskiljanleg tilfinning sem verður ekki sundur slitin nema menn kasti trú sinni. Þetta bið ég menn að íhuga. Af hverju halda menn að við leggjum svo mikla áherslu á að allir eigi að hafa aðgang að heilbrigðisþjónustunni, óháð efnahag. Það eru ekki hagfræðileg lögmál sem þessi stefna hvílir á. Það eru siðferðileg lögmál. - Þessi hugsun er einn kjarninn í þeirri kristnu trúarhefð sem fortíðin skilar jafnan til nútíðar sinnar. Í þessu felst virðingin fyrir því að sameiginlega eigum við eitthvað sem er margfalt stærra en hvert og eitt okkar. Þessi hugsun um að hjálpa þeim sem er veikur er samofin menningu okkar og trúarlífi og er þar af leiðandi ein af veigamestu stoðunum sem samfélag okkar byggir á. Hvað þýðir það enda að vera veikur? Hvernig notum við þetta hugtak? Þetta hugtak sem tekur bæði til veikinda í líkamlegri merkingu, þetta hugtak sem líka varpar ljósi á það hvernig einstaklingurinn stendur í lífinu. Þessi tvíræða merking hugtaksins veikur hefur mér ávallt þótt undirstrika enn frekar þá trúarlegu hugsun sem felst í því að vilja hjálpa þeim sem sjúkir eru - að vilja rétta þeim sem standa veikt hjálpandi hönd. Það er stundum sagt að trúin flytji fjöll og haft til marks um hversu sterk trúin getur verið. Mér hefur undanfarið oft verið hugsað til þáttar trúarinnar í heilbrigðisþjónustunni og hvernig við skiljum eða skilgreinum þessa þjónustu, eins og ég hef gert að umtalsefni hér. Eftir því sem ég velti þessum málum meira fyrir mér geri ég mér betur grein fyrir mætti trúarinnar í samfélagi okkar, mætti trúarinnar í okkur sjálfum. Í hraða nútímans þar sem hið veraldlega verður ef til vill takmark í sjálfu sér og ekki bara tækið, sem léttir okkur ferðalagið sem alltaf hlýtur að taka enda hjá okkur öllum, er auðvelt að gleyma barnatrú sinni, kjölfestunni sem allir þurfa á að halda. Sumir sjaldan, aðrir oft. Þetta skulum við hafa hugfast í erli dagsins í dag. Höfum hugföst orð skáldsins frá Sigurhæðum: Ef stormar efans stríða og sturla bæn og trú, þá lát ei lengi bíða að ljós vort glæðir þú. Þinn frið oss kenn að finna, og flýja enga þraut, En helst þau verk að vinna, sem vora göfga braut. Temjum okkur umburðarlyndi leggjum okkur fram við að lesa hið kristna siðferði út úr samtímanum. Því aðeins þannig getum við stað vörð um þessa stoð, sem samfélag okkar byggir á, trúararfleifð okkar. Þannig ,,flýjum við enga þraut’’ svo vitnað sé til skáldsins, aðeins með því móti göfgar vinnan lífshlaup okkar og afstöðu. Ef, og þegar við efumst, þurfum við að leita í trú okkar og sækja svör. Þá fá orðin Það er við stóran að deila, dýpri merkingu.

Profile for Skrautás Ehf.

Grafarvogsbladid 12.tbl 2007  

Grafarvogsbladid 12.tbl 2007

Grafarvogsbladid 12.tbl 2007  

Grafarvogsbladid 12.tbl 2007

Profile for skrautas
Advertisement