Page 1

BORGARLANDIÐ Framkvæmdir og viðburðir 2014 Leiðbeiningar fyrir verktaka, einstaklinga og skipuleggjendur.


AFNOT AF BORGARLANDI Til borgarlandsins teljast allar götur, gangstéttir, stígar, opin svæði, almenningsgarðar og torg. Óskir um afnot borgarlandsins eru af ýmsum toga og geta verið allt frá útisamkomu til þess að grafa upp götur til að koma fyrir lögnum. Hér að neðan er gerð grein fyrir mismunandi afnotum af borgarlandinu.

BYGGINGAFRAMKVÆMDIR Byggingaframkvæmdir eru ein algengasta ástæða þess að sækja þarf um afnot af borgarlandinu. Þá er átt við byggingaframkvæmdir eða annars konar mannvirkjagerð sem lóðarhafar og/eða fasteignaeigendur standa fyrir auk margvíslegra viðhaldsverkefna.

GRÖFTUR OG ÖNNUR JARÐVINNA Allt sem lýtur að rofi á yfirborði, s.s. gröftur, fræsing, borun, sögun, fleygun, plæging, endurgerð jarðlaga og frágangur yfirborðs.

VIÐBURÐIR Reykjavíkurborg leggur áherslu á að glæða borgina lífi og auka við margskonar starfsemi og þjónustu. Markmiðið er að gera Reykjavík áhugaverðari, litríkari og sjálfbæra. Einstaklingum, félagasamtökum, fyrirtækjum og stofnunum er veitt leyfi fyrir margvíslegum afnotum af borgarlandi til að standa fyrir viðburðum og uppákomum.

Afnot af borgarlandi: reykjavik.is/thjonusta/afnot-af-borgarlandi-og-framkvaemdaheimildir

1


GÖTU- OG TORGSALA Útiveitingar: Þjónustusvæði fyrir útiveitingar skal afmarkað og skilgreint. Gera þarf grein fyrir veitingaborðum, stólum og öðrum tengdum búnaði. Sækja þarf um byggingarleyfi til byggingarfulltrúans í Reykjavík fyrir útiveitingum á borgarlandi. Sérstök áhersla er lögð á að hreyfihamlaðir, sjóndaprir og fólk með börn í kerru eigi greiða og óhindraða leið framhjá þjónustusvæðum. Markaðir, dag- og nætursala: Um getur verið að ræða útimarkað, sölu veitinga úr vögnum og sölubifreiðum eða einstaklinga sem óska eftir að selja vörur sínar og varning í borgarlandinu.

ÖNNUR NOTKUN Á BORGARLANDINU Hægt er að fá tímabundinn ráðstöfunarrétt á borgarlandi til þess að staðsetja gám, fataslá, sólhlíf, borð og þess háttar. Sækja þarf um byggingarleyfi til byggingarfulltrúans í Reykjavík ef ráðgert er að nýta borgarlandið fyrir slíka hluti lengur en til tveggja mánaða. Sækja þarf um tímabundinn ráðstöfunarrétt ef staðsetja á fána, hvort sem um er að ræða hátíðarfána eða kynningarfána. Ef staðsetja á skilti gildir samþykkt um skilti í lögsögu Reykjavíkur. Enn önnur notkun á borgarlandinu er kvikmyndataka. Kvikmyndaiðnaðurinn er sífellt sýnilegri og innan hans þarf oft að notast við umferðarmannvirki og aðra hluta borgarlandsins.

Götu- og torgsala: reykjavik.is/thjonusta/leyfi-fyrir-gotusolu

2


Á FRAMKVÆMDATÍMA Þegar heimiluð eru afnot af borgarlandi í margvíslegum tilgangi getur það haft í för með sér ýmsar hættur. Viðkomandi leyfishafa eru því sett skilyrði sem ætlað er að tryggja öryggi og að umferð gangandi, akandi og hjólandi vegfarenda við framkvæmdasvæðið og borgarlandið sjálft raskist sem minnst. Auk þess er lögð áhersla á að vegfarendur og íbúar séu upplýstir um framkvæmdina og verklok hennar með greinargóðum merkingum á framkvæmdasvæðinu.

Upplýsingar og merkingar ALMENN ATRIÐI

MERKINGARÁÆTLUN Merkingar á vinnusvæðum skulu skilgreindar og eru hluti hönnunar-, útboðs-, og samningsgagna. Staðsetning allra merkja þarf að koma fram á teikningum. Eins þarf allur búnaður sem ætlaður er til að vernda vegfarendur og starfsmenn og til að leiðbeina umferð um og við vinnusvæðið að vera tilgreindur á teikningum.

Á framkvæmdasvæði skal vera upplýsingaskilti þar sem tilgreindar eru helstu upplýsingar um framkvæmdina, framkvæmdaaðila, verktíma og byggingarstjóra þar sem við á. Upplýsingar um framkvæmdaaðila og þann sem ábyrgur er á vettvangi ásamt símanúmeri hans skulu vera aðgengilegar á vinnusvæðinu. Gerð er sú krafa að svarað sé í uppgefið símanúmer allan sólarhringinn af aðila sem greitt getur úr óvæntum uppákomum og brugðist með skilvirkum hætti við hættuástandi.

Við undirskrift verksamninga Reykjavíkurborgar er gerð merkingaáætlun sem er hluti öryggisáætlunar þar sem bætt er við hönnunargögnin upplýsingum um verktaka, vinnustað og verktíma ásamt nöfnum og símanúmerum ábyrgðaraðila.

Jafnhliða umsókn um afnot af borgarlandi skal leggja fram áætlun um skipulag og stjórnun umferðarflæðis og lokun gatna auk afmörkunar framkvæmda- og öryggissvæðis. Í umsókn skal tilgreindur merkingamaður með tilskilin réttindi sem ber ábyrgð á allri framkvæmd á framkvæmdasvæði.

Leiðbeiningar um vinnustaðamerkingar: reykjavik.is/vinnustadamerkingar

Merkingaráætlunin skal síðan staðfest af verkkaupa og kynnt viðkomandi eftirlitsaðila áður en vinna hefst. Merkingaráætlun og framkvæmdaheimild skulu liggja fyrir hjá veghaldara og afrit á vinnustað.

3


Umgengni VIRÐING FYRIR UMHVERFINU Ef geyma þarf stórvirkar vinnuvélar og önnur fyrirferðarmikil vinnutæki á borgarlandi skulu þau geymd á malareða malbikuðum plönum en ekki á grænum svæðum. Reykjavíkurborg leggur áherslu á að vinnusvæði sé ávallt ákvarðað og afmarkað í hæfilegri stærð miðað við umfang framkvæmdarinnar. Huga þarf að umhverfinu þegar reisa á tímabundin mannvirki vegna viðburða og ganga þannig um að ekki séu skilin eftir varanleg ummerki að viðburði loknum. Lögð er áhersla á að úrgangur sé flokkaður á svæðinu þegar um stórar framkvæmdir er að ræða sem og að flokkun sé aðgengileg fyrir viðburðagesti. Gerð er krafa um að landinu sé skilað í sama ástandi og tekið var við því svo að samfélagið sé ekki látið bera ónauðsynlegan skaða, óþægindi eða kostnað af framkvæmdinni. Ef framkvæmdaaðilar verða uppvísir að óviðunandi umgengni á borgarlandi er Reykjavíkurborg heimilt að beita fésektum.

VIRÐING FYRIR BORGARBÚUM Á vinnusvæði og öðrum svæðum þar sem heimiluð hafa verið afnot af borgarlandi skal afmörkun, skipulag og umgengni vera þannig háttað að það raski sem minnst umferð og umhverfi. Mjög mikilvægt er að bráðabirgðaleiðir og upplýsingaskilti séu í lagi. Framkvæmdaaðilar skulu gæta þess að hagsmunir borgarbúa skerðist eins lítið og mögulegt er. Töluverð rykmengun getur fylgt framkvæmdum og leitast skal við að draga úr henni t.d. með því að sprauta vatni á meðan á niðurrifi bygginga stendur. Sporna má gegn rykmengun með því að þvo dekk vörubíla áður en þeir aka út af framkvæmdasvæðum. Reykjavíkurborg leggur áherslu á að upplýsa borgarbúa um framkvæmdir og viðburði með góðum fyrirvara. Upplýsingagjöf fer fram á heimasíðu borgarinnar, í fjölmiðlum, bréflega og í beinum samskiptum við hagsmunaaðila í nágrenni framkvæmdasvæðis.

4


Göngu- og hjólaleiðir ALMENN ATRIÐI Þegar framkvæmt er í borgarlandi eða önnur afnot eru heimiluð getur komið fyrir að göngu- og hjólaleiðir skerðist, til dæmis þegar girðingar og umferðartálmar eru reistir á gangstéttir. Mikilvægt er að gera ráðstafanir fyrir gangandi, hjólandi og hreyfihamlaða vegfarendur við alla áætlanagerð og framkvæmd. Ef starfsemi leiðir til þess að loka þurfi göngu- og/eða hjólaleið er nauðsynlegt að útbúa bráðabirgðaleið.

ÖRYGGISATRIÐI Umferðarmerkingar má aðeins í undantekningartilfellum staðsetja á hjólastíg enda getur hjólreiðamönnum stafað hætta af merkjunum sjálfum. Sé nauðsynlegt að staðsetja merkin á hjólastíg skal það gert með sérstökum varúðarráðstöfunum. Mikilvægt er að ganga frá hindrunum á hjólaleiðum á þann hátt að þær gefi eftir, án þess að hreyfast úr stað, ef hjólað er á þær. Á skurðbakka skal tryggja að hindrun sé svo föst að hún forði gangandi vegfarendum frá falli í skurð. Hindranir eru valdar og staðsettar í viðeigandi fjarlægð með tilliti til hraða umferðar, þó að lágmarki í eins metra fjarlægð frá skurði eða öðru sem hindrar umferð, sjá töflu hér að neðan. fjarlægð (m) hraði (km/klst)

1 0

2 40

3 60

5


HVASSAR BRÚNIR OG KRAPPAR BEYGJUR Reykjavíkurborg leggur áherslu á að tryggja öryggi hjólandi vegfarenda. Krafa er gerð um slétt og vandað yfirborð. Mikilvægt er að beygjur séu ekki of krappar svo að hjólreiðafólk missi ekki yfirsýn eða stjórn á ferðinni. Sömu kröfur eru gerðar vegna tímabundinna framkvæmda á og í nálægð við hjólaleiðir. Við skertar aðstæður á umferðaröryggi vegna framkvæmda er lögð sérstök áhersla á að umferðarmerkingar vari hjólreiðamenn tímanlega við hættum, svo sem hvössum brúnum, kröppum beygjum og brotinni sjónlínu.

HJÁLEIÐIR Ávallt skal velja hjáleið þannig að umferðaröryggi sé tryggt og að umferðarflæði skerðist sem minnst. Hjáleiðir skulu merktar greinilega og settar upp í hæfilegri fjarlægð á þann hátt að vegfarendur átti sig í tíma á breyttum aðstæðum. Sömu lög og reglur gilda um hjáleiðir og götur. Þar sem skipulagi umferðar þarf að breyta með hjáleiðum skal um það gera sérstaka áætlun. Leggja skal áætlunina fyrir veghaldara og lögreglu til staðfestingar áður en framkvæmdir hefjast. TILLITSEMI VIÐ GANGANDI OG HJÓLANDI VEGFARENDUR Vegfarendum skal ávallt sýnd sérstök tillitsemi og tryggð greið og áhættulaus leið framhjá vinnusvæði. Í því samhengi gerir Reykjavíkurborg þær kröfur til verktaka og annarra framkvæmdaaðila að byggð sé tímabundin hjáleið, göngubrú með handriði, rampur eða annars konar gönguleið sem verndar vegfarendur fyrir aðsteðjandi hættum, þ.m.t. ökutækjum.

6


HVERNIG LEYFI ÞARF ÉG? Allar framkvæmdir og afnot af borgarlandi eru leyfisskyldar. Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar annast útgáfu leyfa sem skiptast í framkvæmdaheimildir, graftarleyfi og leyfi til götu- og torgsölu og útiveitinga. Reykjavíkurborg leitar eftir umsögnum frá hagsmunaaðilum ef við á, til dæmis frá Vegagerðinni, nágrannasveitarfélögum, veitustofnunum, lögreglu, slökkviliði, Strætó, Bílastæðasjóði og öðrum aðilum í næsta nágrenni við framkvæmdasvæði. Afgreiðslutími umsókna er 3–8 virkir dagar.

AÐSTAÐA VEGNA BYGGINGAFRAMKVÆMDA Framkvæmdaheimild Verktakar og aðrir framkvæmdaaðilar sem standa fyrir byggingaframkvæmdum þurfa aðstöðu fyrir vinnubúðir, vinnupalla, vinnulyftu, krana, vinnutæki, gáma og geymsluaðstöðu fyrir aðföng og tækjabúnað. Hér undir fellur einnig fóðrun lagna, þar sem ekki þarf að rjúfa yfirborð. Senda þarf umsókn á netfangið framkvaemdaheimild@reykjavik.is

GRÖFTUR OG ÖNNUR JARÐVINNA Graftarleyfi Verktakar og aðrir framkvæmdaaðilar sem þurfa að rjúfa yfirborð borgarlandsins s.s. vegna graftar, fræsingar, borunar, sögunar, fleygunar, plægingar og síðan frágangs. Leyfisveiting er háð umsögn og samþykki aðila sem eiga lagnir á eða í námunda við framkvæmdastað. Í hverju tilfelli þarf að fara yfir nýjustu gögn um lagnir veitustofnana og undirrita verkbeiðni um frágang yfirborðs auk þess að staðgreiða leyfisgjald. Sækja þarf um leyfi í þjónustuveri Reykjavíkurborgar, Borgartúni 12–14.

7


VIÐBURÐIR Framkvæmdaheimild Einstaklingar, félagasamtök, fyrirtæki og stofnanir sem standa fyrir viðburðum og uppákomum í borgarlandinu s.s. samkomum, útifundum, útitónleikum, fjöldagöngum og kvikmyndatöku. Senda þarf umsókn á netfangið framkvaemdaheimild@reykjavik.is

GÖTU- OG TORGSALA Samningur og/eða leyfi um afnot af borgarlandi og sölu matvæla eða snyrtivara Einstaklingar, félagasamtök, fyrirtæki og stofnanir sem standa fyrir útiveitingasölu og markaðsstarfsemi í borgarlandinu. Útiveitingar og skilti þarfnast samþykki byggingarfulltrúa. Veitinga- og snyrtivörusala þarf auk þess leyfi heilbrigðiseftirlits. Ef um matvæli og snyrtivörur er að ræða þarf að sækja um leyfi til byggingarfulltrúa og heilbrigðiseftirlits á vefsíðunni reykjavik.is/umsoknir

ÖNNUR NOTKUN Á BORGARLANDI Framkvæmdaheimild Einstaklingar, félagasamtök, fyrirtæki og stofnanir sem óska eftir tímabundnum ráðstöfunarrétti fyrir gám, fataslá, hillu, sólhlíf, borð og þess háttar. Sama á við um fána. Einnig þarf að sækja um leyfi vegna kvikmyndatöku. Senda þarf umsókn á netfangið framkvaemdaheimild@reykjavik.is

8


TENGILIÐIR OG UPPLÝSINGAR

TENGLAR

LÖG, REGLUR OG LEIÐBEININGAR

Borgarlandið reykjavik.is/thjonusta/afnot-afborgarlandi-og-framkvaemdaheimildir

Lögreglusamþykkt fyrir Reykjavík nr. 1097/2008

Byggingarfulltrúi http://reykjavik.is/byggingarfulltrui Framkvæmdir og rekstur http://reykjavik.is/framkvaemdir-rekstur Götu- og torgsala reykjavik.is/thjonusta/leyfi-fyrir-gotusolu Ýmis umsóknareyðublöð reykjavik.is/umsoknir

Reglur um vinnustaðamerkingar reykjavik.is/vinnustadamerkingar Reglugerð nr. 289/1995 með síðari breytingum um umferðarmerki og notkun þeirra. Reglugerð nr. 492/2009 um merkingu og aðrar öryggisráðstafanir vegna framkvæmda á og við veg. Umferðarlög nr. 50/1987 Vegalög nr. 80/2007 Lög er hægt að nálgast á althingi.is og reglugerðir á reglugerd.is

Ýmsar umsóknir: reykjavik.is/umsoknir

9


Reykjavíkurborg umhverfis- og skipulagssvið febrúar 2014 reykjavik.is/usk 10


Ýmsar ráðstafanir þarf að gera til að bregðast við tímabundnum aðstæðum sem framkvæmdir og viðburðir í borgarlandinu skapa. Þessum bæklingi er ætlað að leiðbeina verktökum, einstaklingum og skipuleggjendum viðburða við undirbúning og framkvæmdaferlið sem fylgir afnotum af borgarlandinu.

reykjavik.is/usk Reykjavíkurborg

Guðjón Ó vistvæn prentun

Borgarlandið: Framkvæmdir og viðburðir 2014  

Leiðbeiningar fyrir verktaka, einstaklinga og skipuleggjendur. Umhverfis- og skipulagssvið 2014

Advertisement