Sæmundur

Page 27

Þótt að við Íslendingar séum dugleg að ferðast til Bandaríkjanna þá þekkjum við ekki endilega innviði lands og þjóðar nægilega vel. Fræðslan og landkynningin á ráðstefnunni var mjög góð handbók og mér fannst ég skilja þennan menningarheim enn betur eftir á. Miami-Fulbrighthópurinn myndaði Facebook-hóp eftir dvölina og við erum öll stoð og styrkur við hvert annað þegar við þurfum á því að halda. Þetta er svona eins og lítil fjölskylda sem hugsar vel hvert um annað og við getum alltaf leitað til hvers annars þegar við þurfum á því að halda. Svo skemmtilega vildi til að það var annar tónlistarmaður í Miami hópnum mínum, píanóleikari að nafni Julien Beurms, frá Belgíu en hann stundar nám í Boston. Okkur var boðið að spila á tónleikum í Harvard í mars síðastliðnum á vegum Fulbright og höfum við ákveðið framhald á því samstarfi.

Þá má geta þess að í janúar síðastliðnum bauð Fulbright mér á ráðstefnu í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York. Aðalumræðuefnið var „menntun er mannréttindi.” Þetta vakti mig til umhugsunar að það er ekki sjálfgefið að ganga menntaveginn. Að sjálfsögðu finnst mér menntun vera grundvallarmannréttindi en því miður er það ekki sjálfgefið í mörgum heimshlutum. Það er erfitt að hugsa til þess ef ég hefði ekki haft kost á að stunda fiðlunám frá unga aldri og öðlast þá menntun sem ég hef í dag. Þetta eru bara nokkur lítil dæmi um hversu gefandi Fulbrightsamfélagið er. Það víkkar sjóndeildarhringinn til muna og ég er svo sannarlega upplýstari fyrir vikið. Ég vil hvetja námsmenn til að sækja um Fulbrightstyrk því hann býður upp á svo margt fleira en fjárhagsaðstoð. Ég er mjög þakklát fyrir að hafa fengið að gerast Fulbrightstyrkþegi því það hefur svo sannarlega greitt götu mína í náminu.


Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.