Page 6

Útdráttur Í þessari lokaritgerð er fjallað um sameiginlega markaðssetningu í sjávarútvegi. Farið verður yfir sögu sölu- og markaðsstarfs á Íslandi og í Noregi þar sem sambærilegur háttur var hafður á við útflutning sjávarafurða í upphafi 20. aldar. Í kjölfar versnandi markaðsaðstæðna í lok 3. áratugs tóku báðar þjóðir sölu- og markaðsmál til endurskoðunar og komu upp kerfi sölusamtaka. Þessi kerfi voru ólík í skipulagi þó svo að samsvaranir hafi verið þeirra á milli. Á 10. áratug síðustu aldar tóku kerfin hinsvegar breytingum hjá báðum þjóðum og segja má að þau hafi farið í sitt hvora áttina. Á Íslandi voru sölusamtökin að mestu leyst upp og algjöru frjálsræði komið á í sölu- og útflutningi sjávarafurða sem hefur leitt af sér að sýnileiki Íslands sem upprunalands sjávarafurða hefur minnkað til muna. Á sama tíma fóru Norðmenn þá leið að skylda útflytjendur, sem þó eru sjálfstæðir, til þess að greiða útflutningsskatt sem nýttur er til sameiginlegs markaðsstarfs á vegum fyrirtækis í ríkiseigu. Þannig er markvisst unnið að því að auka sýnileika Noregs sem upprunalands sjávarafurða undir sterku upprunamerki. Kannaður

var

áhugi

sölu-

og

markaðsfólks

og

stjórnenda

innan

sjávarútvegsfyrirtækja á Íslandi til þess að auka veg sameiginlegrar markaðssetningar undir sameiginlegu vörumerki með vísun í uppruna. Niðurstaðan var sú að nokkur áhugi væri fyrir hendi meðal svarenda. Jafnframt voru tekin viðtöl til þess að athuga hvers vegna sameiginleg markaðssetning sé ekki þegar stunduð í meira mæli ef áhugi er þegar fyrir hendi. Niðurstaðan var sú að þrátt fyrir að áhugi sé fyrir hendi gerir fjöldi og fjölbreytt eðli útflytjenda það að verkum að erfitt gæti orðið að sameina hagsmuni allra og ná sátt um aðgerðir og fjármögnun. Þá hafa veiðigjöld þau áhrif að vilji/geta til þess að verja auknum fjármunum til markaðsstarfs er ekki allstaðar fyrir hendi.

Lykilorð: Sjávarútvegur, sjávarafurðir, sameiginleg markaðssetning, vörumerki, sölusamtök.

v

Sameiginleg markaðssetning í sjávarútvegi  
Sameiginleg markaðssetning í sjávarútvegi  

12 ECTS eininga lokaverkefni til 180 ECTS eininga B.Sc. gráðu í sjávarútvegsfræði frá Háskólanum á Akureyri. Höfundur: Sindri Már Atlason

Advertisement