Page 44

hinsvegar undanþegin skattinum enda iðnaðarvara sem lýtur öðrum markaðslögmálum en sjávarafurðir ætlaðar til manneldis. Skatturinn er reiknaður við útflutning og er framkvæmdin á hendi tollyfirvalda. Sé afla landað utan tollalögsögu eða um borð í erlent skip er skatturinn reiknaður þegar útgerð skilar mánaðarlegri skattaskýrslu (Reglugerð um innheimtu útflutningsskatts nr 1253/2000). Allar tekjur af skattinum renna til NSC og er hann sagður standa alfarið undir rekstri félagsins sem greiðir ekki arð þrátt fyrir að hagnaður verði af rekstri þess, enda ekki markmiðið að félagið sé féþúfa fyrir ríkissjóð heldur að fjármagnið renni aftur inn í greinina í gegnum markaðsstarf. Stjórn NSC samanstendur tíu stjórnarmönnun og er skipuð af ráðuneytinu til tveggja ára í senn í samráði við stofnanir innan greinarinnar. Tvisvar sinnum á ári fundar stjórnin með markaðsráðgjafahópum sem samanstanda af fulltrúum úr greininni og er það sá vettvangur sem greinin hefur til þess að hafa áhrif á störf NSC. Sá hluti útflutningsskattsins sem tekinn er til rannsókna og þróunarmála rennur til Fiskeri- og Havbruksnæringens Forskningsfond eða FHF, sem mætti þýða sem Þróunarsjóður sjávarútvegs og fiskeldis. Hlutverk FHF er að auka verðmætasköpun innan greinarinnar með rannsóknum og þróunarstarfi (FHF, 2014). FHF er ekki hluti af NSC heldur er það opinber stofnun og er tenging þess við NSC aðeins sú að fjármagnið kemur sömu leið. Því ber að hafa í huga að gjaldið sem rennur til markaðsstarfs og það sem rennur til rannsókna og þróunarstarfs er óháð hvort öðru þó svo það sé rukkað samhliða. Innan NSC starfa 5 megin markaðsdeildir og skipting þeirra eftir undirgreinum sjávarútvegsins. Deildirnar eru; lax og regnbogasilungur, hvítfiskur, rækja og skelfiskur, hefðbundnar fiskafurðir (saltaður og þurrkaður fiskur) og uppsjávarfiskur. Úthlutun fjármagns til markaðsstarfs er skipt til þessara deilda í hlutfalli við það fjármagn sem sú undirgrein sjávarútvegsins leggur til í formi útflutningsskatts (NSC, e.d.a). Einnig er rekin sérdeild sem vinnur að markaðssetningu sjávarfangs innanlands og er hún fjármögnuð með útflutningsskattinum þar sem innanlandsneysla er ekki skattlögð (NSC, e.d.d).

34

Sameiginleg markaðssetning í sjávarútvegi  

12 ECTS eininga lokaverkefni til 180 ECTS eininga B.Sc. gráðu í sjávarútvegsfræði frá Háskólanum á Akureyri. Höfundur: Sindri Már Atlason

Advertisement